11.8.2011 | 16:03
Flókin en þó einföld staða.
Við kynntumst því í Búsáhaldabyltingunni hér heima að þegar mótmælaaðgerðir stóðu yfir var ævinlega hópur fólks, sem sá sér þar færi til að espa upp átök og skemmdarverk, sem í raun höfðu ekkert með mótmælin að gera.
Þegar þetta gekk úr hófi fram gerðist það, sem mun verða ævarandi til sóma fyrir byltinguna. Mótmælendur mynduðu sjálfir sveitir sem tóku að sér að verja lögreglumenn fyrir hamslausum árásum óeirðaseggja sem nærðust á því að svala ofbeldisþörf sinni og skemmdarfýsn.
Þarna sýndu Íslendingar meiri þroska en hægt er að sjá að hafi verið sýndur erlendis við svipuð skilyrði.
Kannski hjálpaði fámennið til, því að hér þekkjast svo margir.
Í óeirðum eins og geysað hafa í Bretlandi nýtir ofbeldiskenndur glæpalýður sér ástandið og fer hamförum. Þegar þetta blandast við réttláta reiði mótmælenda sem fær útrás á skaplegri hátt, verður úr flókin blanda átaka sem erfitt er að greina og leggja mat á.
Þó er þetta ekki eins flókið og ætla mætti.
Í Bretlandi eins og í Frakklandi hefur langvarandi fátækt minnihlutahópa með miklu atvinnuleysi kynslóð fram af kynslóð fætt af sér sístækkandi hóp vandaræðafólks, sem hefur verið svipt mannlegri reisn og sjálfsvirðingu.
Á sama tíma horfir þetta fólk upp á hina ríku fjármálamenn og fjárfesta, sem ekkert virðist bíta á, heldur geta haldið áfram lúxuslífi sínu, ofurlaunum og forréttindum, á sama tíma og þeir nýta sér galla kerfisins til þess að velta yfirgengilega miklu tapi af þeirra völdum yfir á alla alþýðu, sem látin er blæða.
Í frumvarpi Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá er strax í upphafi gefinn tónninn til rétts hvers þegns til að njóta mannlegrar reisnar og sjálfsvirðingar.
Kann að sýnast eðlileg ósk en er þó svo víðs fjarri þegar litið er yfir mannkynið í heild, þar sem misskipting auðs og valda leiðir af sér ósætti, ófrið og hörmungar.
![]() |
Ofbeldið breiðist út |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
10.8.2011 | 23:49
Dýrð sumarblíðunnar.
Síðustu dagar hafa verið einstakir og sumrin síðustu ár eru mun hlýrri og blíðviðrasamari en ég minnist.
Hér fyrir ofan er mynd tekin af svölum blokkarinnar, sem ég bý í, og engu er líkara en að settur hafi verið logandi gullskjöldur upp á topp Landsvirkjunarhússins.
Þetta sést betur ef tvísmellt er á myndina og hún stækkuð.
Á flugi yfir Hrafntinnusker, Jökulgil, Frostastaðavatn og Tungnaá að lendingarstað við Veiðivötn bar margt fyrir augu í dag og ég skutla kannski inn nokkrum myndum úr ferðinni. Jökulgilið er risavaxinn undraheimur óteljandi gilja af öllum stærðum, gerðum og litum.
Hraunin, sem hafa runnið út í Frostastaðavatn, eru líka sérstök. Og fjölbreytni Veiðivatna er rómuð.
![]() |
Silfurský á himni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.8.2011 | 07:58
Fjárlögin: 0 atkvæði með, 63 ár móti?
Á sínum tíma var því að haldið fram að Stefán Valgeirsson væri í raun valdamesti stjórnmálamaður landsins, því að undir hans atkvæði var komið, hvort ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar héldi velli á þingi fyrst eftir að hún var mynduð haustið 1988.
Svona ástand kemur stundum upp þegar ríkisstjórn hefur aðeins eins atkvæðis meirihluta á þingi.
Frægt var þegar Guðrún Helgadóttir hélt ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens í gíslingu í nokkrar vikur vegna málefna landflótta Frakka að nafni Gervasoni.
Allir þingmenn eiga sér einhver aðal áhugaefni og engum þarf að koma á óvart þótt Þráinn Bertelsson sé heitur út af málefnum Kvikmyndaskóla Íslands.
Um hann og kvikmyndagerð almennt gildir nú um stundir að það er dýrt að vera fátækur. Reiknað hefur verið út að of mikill sparnaður og samdráttur varðandi stuðning ríkisins við kvikmyndagerð valdi því að í raun tapi þjóðfélagið meiru en það græðir, því að kvikmyndagerðin skapi bæði gjaldreyristekjur og atvinnu.
Sem kvikmyndagerðarmaður skil ég vel rökin fyrir afstöðu Þráins.
Hins vegar má líka leiða líkum að því að hver einasti stjórnarþingmaður eigi sér hliðstæð baráttumál sem hann gæti hugsað sér að setja á oddinn og ná fram árangri með því að taka ríkisstjórnina í gíslingu.
Væri ég á þingi gæti ég bent á það mikla óhagræði og tap, sem fylgir því að flugmálayfirvöld hafa neyðst til að leggja niður mikilvæga flugvelli, nú síðast Patreksfjarðarflugvöll, og hefur mér skilist að niðurlagning hans hafi kostað 2-3 milljónir króna, því að rífa þurfti upp allar merkingar og ljósabúnað vallarins.
Ég gæti líka bent á að ég teldi að ríkið ætti að sjá um viðhald og umsjón með Sauðárflugvelli, sem ég tel nauðsynlegan sem neyðarflugvöll inni á hálendinu sem allar flugvélar í innanlandsflugi geta notað, - líka Fokker 50.
Fyrir nokkrum árum töpuðu báðir hreyflar Fokker 50 afli á flugi yfir þessu svæði og voru farþegar í byrjun búnir undir nauðlendingu inni á hálendinu. Þá var þar enginn viðurkenndur flugvöllur.
Sem betur fór tókst að halda afli á öðrum hreyflinum og var síðan lent með hinn dauðan á Egilsstaðaflugvelli.
Ég þarf að greiða gjöld til Flugmálastjórnar fyrir að hafa umsjón með þessum velli og standast straum af því. Mér dytti hins vegar ekki í hug í núverandi ástandi, væri ég þingmaður, að gera það að skilyrði fyrir stuðningi við ríkissstjórnina að ríkið tæki þennan kaleik af mér.
Tæknilega gæti skapast það ástand að hver einasti stjórnarþingmaður setti eitthvert ákveðið skilyrði fyrir því að veita fjárlögunum brautargengi, og gæti bent á lífsnauðsynlega starfsemi í heilbrigðisstofnunum og velferðarkerfi, og ef öll stjórnarandstaðan sameinaðist um að greiða atkvæði gegn þeim, gæti atkvæðagreiðslan farið þannig að enginn greiddi atkvæði með þeim en 63 á móti !
Átakastjórnmálin, sem hér eiga sér stað um fjárlögin eru algerlega á skjön við það sem tíðkast í nágrannalöndum okkar, þar sem ríkisstjórnir hafa um það samvinnu við stjórnarandstöðu að ganga frá þeim.
![]() |
Setur skilyrði fyrir stuðningi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.8.2011 | 22:40
Björn að baki Kára.
Í sögubókum má sjá ýmsar frásagnir af mönnum sem gerðu afrek annarra að sínum með því að eigna sér stóran hlut af þeim. Orðin "Björn að baki Kára" koma í hugann.
Meðan Tiger Woods var stórstjarna og einhver glæstasti íþróttamaður heims var nafnið Steve Williams aðeins þekkt í þröngum hópi þeirra, sem næst stóðu golfsnillingunum sjálfum.
Hlálegt er að sjá hvernig þessum kylfusveini hefur tekist að beina svo mjög athyglinni að sér að ætla mætti að hann hefði verið sigurvegari mótsins.
Þetta minnir mig á frásögn gortara eins af viðureign sinni við skæðan andstæðing, sem ég lærði þegar ég var ungur: "Hann óð að mér með krepptan hnefann í annarri hendinni en ég var fyrri til og sló hann á kjaftinn - bak við eyrað, - hitti ekki, - sló hann aftur á sama stað. Þá lagði hann á flótta, - ég á undan, hann á eftir."
![]() |
Mikil viðbrögð við ummælum Williams |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.8.2011 | 09:57
Sama fyrirbæri og í Bandaríkjunum.
"Tæknilega séð" kann sú stefna hvítra manna að hrekja frumbyggja af löndum sínum og koma þeim fyrir í borgum að sýnast skynsamleg, því að það þurfi að hafa vit fyrir hinu "frumstæða fólki".
Hins vegar er mótsögn fólgin í því hjá þjóðfélögum, sem hafa ákvæði í stjórnarskrá um að eignarétturinn sé friðhelgur að það sé réttlætanlegt að taka landa af frumbyggjum, eyðileggja lífsafkomu þeirra, sem hefur verið óbreytt um aldir, og hrekja þá á brott.
Nú leiðir rannsókn það í ljós, sem hefur lengi blasað við í Bandaríkjunum, að yfirgangur og forræðishyggja hvíta mannsins hefur ekki fært frumbyggjunum hamingju, heldur eru til dæmis indíánar í Ameríku verst setti þjóðfélagshópurinn þar, mesta atvinnuleysið og fátæktin, sem rænir fólk sjálfsvirðingu og veldur því að glæpatíðni verður hærri en annars staðar.
Á ferðum okkar hjóna fyrir áratug um suðvesturríki Bandaríkjanna blasti þetta við á átakanlegan hátt.
![]() |
Hrekja frumbyggja að heiman |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
9.8.2011 | 09:45
Lífsháskinn gerður að féþúfu.
Löngunin til lífs, sjálf lífsbaráttan, er nauðsynlegasta eðlishvöt mannsins og forsendan fyrir tilveru og viðhaldi mannkynsins og hverrar dýrategundar.
Í nútíma þjóðfélagi verndunar sem getur orðið að firringu vex löngun margra til að upplifa það að þurfa að berjast fyrir því að lifa af, eða "survival".
Ég hef áður lýst því fyrirbæri að vaxandi fjöldi ferðamanna, sem kemur til landsins, vilji leigja sér Lada Niva jeppa (sem hét raunar Lada sport á Íslandi, einu landa).
Ýmist er þetta vel stætt fólk, sem kom á námsárum sínum til landsins og hafði ekki efni á að leigja sér dýra jeppa til ferða um hálendið, eða fólk, sem vill gera það að hluta af því að "lifa af" á hálendinu með því að vera á sem ódýrustum farkosti.
Eykur bara á "ævintýrið" ef hann bilar hæfilega mikið, svo að þetta verði raunverulegt "survival"-ævintýri.
Sú ferðamennska nýtur nú vaxandi vinsælda, þar sem fólk fær að sjá þær aðstæður sem fyrri kynslóðir bjuggu við og urðu að glíma við til að berjast fyrir lífinu. Ekki verra að fá að glíma við það sjálfur.
Á þessu virðist meðal annars byggjast útgerð stóra gula trukksins, sem nú er á botni Blautlóna, en greinilegt er að þar hefur verið farið offari algerlega að óþörfu eins og þau gögn, sem nú liggja fyrir, bera vitni um.
Lífsháskinn og lífsbaráttan í okkar erfiða landi getur að sönnu verið tekjulind fyrir ferðamennsku og brýning fyrir okkur sjálf ef rétt er að farið.
En ekki má líðast að koma óorði á slíka ferðamennsku með því að gera sér lífsháskann að féþúfu á ósvífinn hátt, sem skapar algerlega óþarfa lífshættu.
![]() |
Lenti í árekstri á hálendinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.8.2011 | 00:38
Safaríkar upplýsingar.
Lyndon Baines Johnson var einhver litríkasti forseti Bandaríkjanna og var hermt að persónuleiki hans spannaði allt litrófið á mill svarts og hvíts. Hann var einlægur hugsjónamaður varðandi réttarbætur handa svertingjum og afar lipur í samningaviðræðum og samskiptum.
Á hinn bóginn var hann grófur og ruddalegur sóðakjaftur þegar svo bar undir og þótti slóttugur með afbrigðum.
Þótt mestöll dýrðin af réttarbótum í mannréttindabaráttu blökkumanna léki í kringum John F. Kennedy var það samt Johnson sem með sinni miklu slægð og lagni kom mestu af því í verk.
Hefur líkast til enginn Bandaríkjaforseti á síðustu öld afrekað jafn miklu á því sviði.
Fáir hafa staðið Johnson á sporði hvað varðar snilldi í hrossakaupum og baktjaldamakki á Bandaríkjaþingi og þótti hann ekki alltaf vandur að meðölum.
Þar var staða hans svo sterk, að Kennedy valdi hann sem varaforsetaefni sitt þótt hann hefði litlar mætur á persónu hans.
Þegar komið var í Hvíta húsið settu Kennedybræður Johnson út í kuldann, svo að eftir var tekið.
Ekki er að efa að Johnson hafi sviðið það að hafa verið hent eins og notaðri tusku eftir kosningarnar.
Þegar allt þetta er haft í huga er eðlilegt að margir hafi grunað hann um græsku vegna morðsins í Dallas í sjálfu heimaríki Johnsons.
Sé það rétt, sem Jackie Kennedy heldur fram, að Johnson og hópur auðjöfra frá Texas hafi bruggað Kennedy banaráð, voru það líklega mistök hjá Kennedybræðrum að setja hann svona rækilega út í kuldann sem varaforseta, ekki hvað síst ef Johnson hefur talið sig sjá það fyrir að Robert Kennedy ætlaði að taka við af bróður sínum 1968 og sitja þá til 1976.
Johnson hefur vafalaust talið John Kennedy hafa skuldað sér þakkir fyrir þann greiða að stuðla að kjöri hans 1960 og verið afar sár og bitur.
Johnson var veill fyrir hjarta og gat ekki vænst þess að vera í fullu fjöri 1976, enda dó hann 1973.
Kennedyarnir máttu alls ekki vanmeta Johnson heldur búast við hverju sem væri af hans hendi.
Hvað snertir framhjáhöld forsetahjónanna er þar ekki um sérstaklega nýjar fréttir að ræða. Er ljóst að Jackie heldur aldrei getað komist með tærnar í þeim efnum sem þeir bræður höfðu hælana, - eða eigum að segja ekki komist tærnar þar sem þeir bræður höfðu brækurnar.
![]() |
Taldi að Johnson hefði myrt JFK |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.8.2011 | 09:37
Minnir á veginn undir Skútabjörgum.
Vegurinn sem Elís Kjaran lagði á einstakan hátt eftir ströndinni milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar um Svalvoga, Lokinhamra, Hrafnabjörg og undir Skútabjörg, minnir á einum stað á slóðina meðfram Blautulónum.
Þetta er kaflinn undir Skútabjörgum. Á fjöru er ekið um grýtta, mjóa fjöru undir björgunum, en á flóði liggur leiðin í sjónum, sem nær alveg upp í björgin.
Eins og við Blautulón virðist þetta vera einfalt mál fyrir kunnuga, þ. e. að halda sig eins nærri björgunum og unnt er. En atvikið við Blautulón sýnir að út af getur brugðið.
Við Arnarfjörðinn er það sennilega ekkert grín að lenda utar en æskilegt er, því að fjörðurinn er meira en 200 metra djúpur.
Ég hef einu sinni orðið að aka fyrir Skútabjörg á flóði og Þorfinnni syni mínum, sem var með mér, var hreint ekki sama. Hugsanlega ógleymanlegasta bílferð hans.
Set hér inn loftmynd frá í gær, þar sem sést grilla í rútuna ofan í Blautulónum eins og ljósan flekk.
Ofan við hana er mynd af eystra Blautalóninu og liggur vegurinn alveg upp við bakka hlíðarinnar.
Neðri myndin sýnir merkingu á bakkanum og hvíta veifu utar sem er merki um það hvar rútan er.
Hún er hins vegar eins og daufur ljós flekkur vinstra megin við veifuna og sést af myndinni hve djúpt er niður á hana.
Til að sjá þetta betur má smella tvisvar á myndina og stækka hana.
P. S. Varð skyndilega að fara út úr borginni í dag og kom ekki til baka úr leiðangrinum fyrr en seint í kvöld. Þess vegna eru þessar myndir svona seinar á ferðinni. Biðst afsökunar á því.
![]() |
Fólki kynntar hættur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 9.8.2011 kl. 00:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.8.2011 | 00:35
Hreystilega mælt.
Ekki verður ekki af Hugo Chaves skafið, að hann hefur borið sig vel í baráttunni við erfiðan sjúkdóm.
Einn Íslendingur mælti þó eftirminnilegri orð þegar ég hitti hann eftir að hann hafði misst hárið vegna geislameðferðar í baráttu við krabbamein.
Svo hittist á að ég var á tali við æskuvin minn Gunnar V. Andrésson ljósmyndara á samkomu einni, en við erum báðir sköllóttir svo af ber.
Við heilsumst oft með því að fara langleiðina í að skalla hvor annan og segja: Nú skulum við þverskallast, gamli vinur.
Í því bili ber þar að Jóhannes í Bónusi, sem búinn var að missa allt hárið vegna geislameðferðar í baráttu við krabbamein.
Jóhannes heilsaði okkur að bragði og sagði: "Má ég ekki líka þverskallast með ykkur í þetta sinn. En það verður varla oftar því að munurinn á mér og ykkur er sá að ég á eftir að fá hárið aftur en ekki þið!"
Allir viðstaddir skelltu upp úr en eftirminnilegast var þetta fyrir það hve hreystilega og karlmannlega þetta var mælt hjá Jóhannesi, svo að aðdáunarvert var.
![]() |
Chavez búinn að missa hárið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.8.2011 | 00:24
Einfalt reikningsdæmi.
Aðalatriðin í efnahagsmálum heimsins eru augljós og auðreiknuð. Orkueyðsla mannkyns hefur vaxið "exponental" á síðustu öld og reiknisdæmið þarf raunar engar tölur hvað snertir jarðefnaeldsneyti: Eyðist það sem af er tekið.
Nú er búið að lyfta skuldaþaki ríkissjóðs Bandarríkjanna og blasir við að það muni þurfa að gera það aftur og aftur, þótt lyftingin sé heldur lægri en fyrst stefndi í, því að engin endanleg lausn er í sjónmáli sem getur haldið aftur af skuldaaukningunni.
Þegar skuld stefnir sífellt upp á við þarf engan reiknimeistara til að segja til um hvernig það endar.
![]() |
Stærðfræðikunnáttan skelfileg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)