KOMNIR Í GJÁSTYKKI, - LÍTIL BYRJUN Á STÓRU VERKI.

Myndin hér fyrir neðan segir sína sögu, - vinnuvélar að störfum í Gjástykki innan um gígaraðir og sprungur. Í fréttum má nú sjá að búið sé nánast að afla 70 prósenta af þeirri orku sem þurfi fyrir fyrsta áfanga álvers  við Húsavík. Gefin er sú meginhugmynd að búið sé að útvega orkuna og nú sé bara að byrja að reisa álverið. Þetta er byggt á því að nýjar holur nyrðra gefi vonir um 90 megavött og í viðbót geti menn notað 60 megavöttin sem nú eru framleidd í Kröflu. Þetta er lúmsk aðferð en hefur reynst vel til að "selja" álvershugmyndir því þegar rýnt er nánar í þetta sést að þessi orka er bara lítið brot af því sem þarf.

60 megavöttin sem nú fást við Kröflu eru nefnilega notuð annars staðar í kerfinu og þeir sem hafa notað hana munu ekki sleppa hendinni af þeim svo auðveldlega.

Fyrri áfanginnn, sem rætt er um, er aðeins 120 þúsund tonn og þarf 200 megavött. Þá vantar 200 megavött í viðbót fyrir síðari áfangann. Og síðan hafa talsmenn allra álfyrirtækjanna sagt að lágmarksstærð varðandi hagkvæmni sé 500 þúsund tonn.

Álver á Bakka mun í lokin þurfa 800 megavött eða níu sinni meira en nemur hinni "nýju orku" sem nú á að vera í hendi. 

Rætt er um að eðlilegt sé að 150 megavatta orka Blönduvirkjunar verði notuð fyrir norðan en hennar er sárlega þörf fyrir sunnan eins og verið hefur, enda er Orkuveita Reykjavíkur búin að lofa upp í ermina á sér orku fyrir Helguvík.

Orkan fyrir norðan er nú tekin á þremur svæðum, við Þeystareyki, Bjarnarflag og Kröflu en þegar flogið er yfir svæðið sést að virkjanaherinn sækir inn að Leirhnjúki og Gjástykki. Rannsóknarleyfi fyrir Gjástykki var veitt tveimur dögum fyrir kosningar og á myndinni hér á síðunni, sem var tekin fyrir nokkrum dögum í Gjástykki fyrir norðan Kröflu, sést að vinnuvélar eru þegar komnar þangað.

Þetta byrjar smátt, - þeir segja að hér sé aðeins verið að taka efni í veginn, en  sporin frá Sogunum við Trölladyngju hræða. Þar var algerlega að óþörfu valdið miklum umhverfisspjöllum við mynni þessa frábærlega litfagra gils og á bakka Sogalækjarins. 

Spjöllin sem virkjanir á Leirhnjúks- Gjástykkissvæðinu eiga eftir að valda eru margfalt meiri en fólk gerir sér grein fyrir vegna þess að ekkert hefur verið gert til að upplýsa um hið einstæða umhverfi fjórtán eldgosa Kröfluelda 1975-84 sem gefur færi á sérstakri úrvinnslu kvikmyndanna af þeim.

Með hjálp kvikmynda og ljósmynda má gefa ferðamönnum færi á að öðlast einstaka upplifun sem hvergi er að fá annars staðar í heiminum.  

Aðferð virkjanafíklanna er ávallt sú sama, - þeir ráðstafa margsinnis sömu orkunni suður og norður og gefa þá mynd að þetta sé ósköp saklaust hjá þeim hvað snerti umhverfisröskun og orkuþörf. 

Í upphafi skyldi endinn skoða, - með einfaldri samlagningu má sjá að sex risaálver á Íslandi munu þurfa alla efnahagslega virkjanlega orku landsins.  

 

 

 


VÆNTINGAR SEM BYGGÐUST Á LOKKANDI FORDÆMI.

Ég við bæta smávegis við blogg mitt um mat á vatnsréttindum vegna Kárahnjúkavirkjunar.Væntingar landeigenda á svæði Kárahnjúkavirkjunar byggðust fyrir átta árum á því fordæmi sem sett hafði verið með Blönduvirkjun. Þar var landeigendum bæði greitt fyrir vatnsréttindin og Landsvirkjun henti til þeirra molum í formi veglegra smalakofa (sagt var að í þeim væri sérherbergi fyrir hvern hund), vegabóta og uppgræðslu.

Ég talaði við nógu marga landeigendur á Kárahnjúkasvæðinu á þessum tíma til að heyra í mörgum þeirra eggjahljóðið og sjá dollaraglampann í augunum. Nýjustu upplýsingar um margfalt meiri greiðslur fyrir vatnsréttindin í Noregi en hér á landi sýna hvernig virkjanaaðlilar gera allt sem hægt er til að meta til sem minnst fjár eða einskis þau stórkostlegu verðmæti sem fórnað er með Kárahnjúkavirkjun.

Ég hyggst svara sérstaklega í Morgunblaðinu grein þar sem mér er gerð upp sú skoðun að selja eigi vatnsréttindin á spottprís. Þetta er þveröfugt. Þungamiðjan í gagnrýni minni hefur beinst að því hneyksli hvernig stórfelld náttúruverðmæti hafa verið einskis metin í hömlulausri sókn eftir að virkja á kostnað komandi kynslóða og þjóðarinnar, sem borgar brúsann á endanum.


SOFANDI UNDIR STÝRI,- LÍTUM Í EIGIN BARM.

Drengurinn sem sofnaði undir stýri á miðri götu í Grafarvogi er ekki fyrsti ökumaðurinn sem segja má um að sé sofandi undir stýri í umferðinni. Okkur er hollt að líta í eigin barm og fylgjast með hvert öðru þegar við sjáum ótal merki þess að við höfum ekki hugann við neitt annað í umferðinni en okkur sjálf og erum jafnvel upptekin af einhverju allt öðru en akstrinum sjálfum.

Ef við lögum þetta í umferðinni lögum við mikið.


mbl.is Svaf undir stýri á miðri götu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ÓÞARFLEGA HÁTT.

Ég sá á flugi yfir Hálslóni fyrir þremur dögum að lónið nær nú alveg inn í jökul. Athygli vekur hve stórt svæði bætist við lónstæðið með síðustu metrunum sem það hækkar og það leiðir hugann að því að óþarfi var að hafa það svona stórt á þeim tíma sem hlýnun lofthjúpsins eykur bráðnun jökla og vatnsmagn í jökulám. Landið sem fer undir við hækkun úr 615 eða 618 metrum í 625 er tiltölulega flatt og það mun auka mjög það svæði sem verður þakið leir snemmsumars og veldur leirfoki sem menn munu fyrst kynnast eftir tæpt ár.
mbl.is Hálslón orðið fimmtíu ferkílómetrar að stærð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

BORGAÐ FYRIR LOSUNARKVÓTA, - KREFJANDI MÁL.

Sú afstaða margra Íslendinga að yppta öxlum yfir Kyotobókuninni og láta sér á sama standa hvernig við förum a ráði okkar í losun gróðurhúsalofttegunda er ekki ábyrg og gengur ekki til lengdar. Mér hugnast ekki sú afstaða margra að við eigum að segja sig undan alþjóðlegu samstarfi, verða "frjáls" í þessum efnum og fara okkar fram, reisa olíuhreinsistöðvar og risaálver og virkja alla orku landsins sundur og saman án tillits til þeirra óheyrilegu spjalla sem slíkt veldur.

Þeir sem halda fram svona sjónarmiðum í nafni hreinna peningasjónarmiða og segja að stefna umhverfisverndarmanna sé "lífskjararýrnunarstefna" líta alveg framhjá því hvers virði svonefnd viðskiptavild getur verið, - að ímynd fyrirtækis eða þjóðar geti verið meira virði í hreinum fjármunum talið en allar aðrar eigur.

Í upphafi skyldi endinn skoða, - sá tilgangur að sex risaálver á Íslandi verði lausn í atvinnumálum Íslendinga næst ekki þegar þess er gætt að á endanum munu aðeins um 2% af vinnuafli landsmanna verða í þessum álverum öllum til samans.

Í raun er það slæmt að álverin sem nú ryðjast hér fram skuli sleppa við að borga fyrir þá losun sem þeim fellur í skaut. Nóg er samt að gert í því að láta þeim í té raforku á verði sem stendur undir auglýsingunni frægu sem send var helstu álrisum heims 1995 með orðin "lowest energiprizes" sem þungamiðju.


mbl.is Losunarheimildir verða ókeypis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ÓGREIÐAR GÖTUR, - HVERS VEGNA?

Í blogginu hér á undan minnist ég á vestfirsku vegina. Ótrúlegt en satt, þá var Þorskafjarðaheiðin gleðilegasti kaflinn á hringferðinni um Vestfirði um síðustu helgi. Vegur hefur verið lagaður mikið síðan ég fór hann síðast og var í miklu betra ástandi en búast mátti við um svo "frumstæðan" veg. Öðru máli gegndi um ýmsa vegakafla á hringnum, svo sem kaflann frá Þingeyri til Vatnsfjarðar, þar sem manni finnst að sömu klappirnar standi upp úr veginum og fyrir 30-40 árum.

Eyrarfjallið og hluti malarvegarins í Mjóafirði var líka herfilega á sig kominn, - hvernig er það eiginlega, eru ekki til vegheflar á Vestfjörðum?

Hættulegastar eru sumar holurnar sem gapa á móti vegfarendum þegar ekið er inn á brýr, - Helga hrópaði oft upp yfir sig þegar ég fór yfir brýrnar aðeins nokkra sentimetra frá handriðinu til þess að sleppa við hvassa steinsteypueggina þar sem brúin mætir mölinni.

Þó ekki væri nema að senda einn lítinn pallbíl með möl sem mokað væri ofan í þessar einu holfur, myndi það gera mikið gagn. Hjólbarðar á nýjustu bílunum eru orðnir svo lágir að þeir mega ekki við neinu, aðeins nokkrir sentemetrar frá veginum upp í felgu.

Nú er farið að tala um olíuhreinsistöðvar fyrir vestan og maður heyrir strax sönginn: Þegar þær koma verða til nógir peningar til að laga vegakerfið.

Ég er núna á ferð um Norðausturland þar sem þessi söngur er sunginn sí og æ: Haldið þið að það sé munur að hafa fengið Kárahnjúkavirkjun, - annars gæti enginn notið náttúru austurhálendisins.

Það er búið að syngja þennan söng í áratugi og þegar við Friðþjófur Helgason hittum eitt sinn hóteleiganda hér um árið eftir að hafa eytt heilum degi í að ganga niður með Jökulsá í Fljótsdal og mynda fossarröðina einstöku, þar sem tveir samliggjandi fossar eru á hæð við Gullfoss, - og lýstum þessu einstaka landslagi fyrir hótelhaldaranum, - andvarpaði hann og sagði: "Haldið þið að verði ekki munur þegar Landsvirkjun verður búin að leggja vegi um þetta allt og opna það fyrir ferðamönnum.

"Til að skoða hvað?" spurðum við. "Nú, þetta stórkostlega landslag sem þið voruð að lýsa," svaraði hótelhaldarinn, "fossana og allt það."

"Fossana?", spurðum við. "Þeir verða horfnir, því að áin verður leidd í göng fyrir ofan þá."

"Æ, ég ég gleymdi því", svaraði hótelhaldarinn.

Þetta var eitt af mörgum dæmum þess hvernig hægt er að þylja sömu síbyljuna nógu oft til að hún verði óhagganleg.

Þar sem ég hef farið um þjóðgarða erlendis (25 slíka) hef ég hvergi séð að það hafi skort neitt á að kerfi vega og slóða væri eins gott og hugsast gat svo og öll önnur þjónustumannvirki, og hvergi þurfti að reisa risaverksmiðjur eða stórar eða smáar virkjanir til þess að það væri hægt.


GREIDDU MÉR GÖTU - EÐA HVAÐ?

"Greiddu mér götu...o.s.frv." Þessar hendingar við lag Megasar hafa hljómað í huga mér í ökuferð okkar hjónanna til Bolungarvíkur og til baka um helgina. Sinnuleysi verktaka gagnvart vegfarendum er ekki aðeins í Reykjavík, heldur hvar sem er. Á leið vestur eru vegamót í Þorskafirði þar sem velja má um að aka vestur fyrir til Ísafjarðar eða fara yfir Þorskafjarðarheiði um Djúp 16 km styttri leið. Flestir þeirra sem voru á sömu leið við hjónin fóru síðarnefndu leiðina. En í morgun var hún var ekki styttri heldur lengri og þeir sem fóru hana og bölvuðu því í sand og ösku að aka fram á lokaða leið yfir Eyrarfjall og þurfa að fara mun lengri leið út fyrir Vatnsfjörð og inn Mjóafjörð.

Þegar þau komu vestur var þeim sagt að þessi lokun Eyrarfjalls vegna vegaframkvæmda hefði verið auglýst í útvarpinu. Ég kaupi ekki þessa sífellda afsökun að vegatálmar ýmsir séu auglýstir í útvarpi. Í útvarpi er um að velja margar rásir í stærsta þéttbýlinu og svona auglýsingar fara því framhjá þorra fólks.

Á ferð um landið er útvarpssambandslaust á stórum köflum og stundun enn minni möguleikar á að vegfarendur heyri auglýsingar í úvarpi.

Ég hef ákveðna skoðun á þessu máli. Bæði í þéttbýli og dreifbýli er aðeins einn boðlegur möguleiki til upplýsingar um svona lagað: Upplýsingarskilti við þau vega- eða gatnamót þar sem fólk getur valið um mismunandi aksturleiðir í tíma. Það er ekki nóg að auglýsa í útvarpi og jafnvel ekki heldur að auglýsa á netinu eða í textavarpi.

Á ferðalagi eru takmakaðir möguleikar á að fylgjast með í textavarpi eða á netinu og eina leiðin til að allir hlutaðeigandi fái upplýsingar í hendur er að láta þá vita á leiðinni sjálfri á þann hátt að allir megi sjá.

Við vegamót í Þorskafirði stendur á skiltinu sem vísar veg til Ísafjarðar að þangað séu 218 kílómetrar. Þetta var rétt síðdegis á föstudag en lygi í morgun, - vegalengdin var þá í raun nokkrum tugum kílómetra lengri og menn hefðu valið vestari leiðina ef þeir hefðu vitað þetta.

Það á ekki að vera stórmál að handmála einfalt leiðbeiningarskilti þegar svona stendur á og setja upp við viðeigandi vegamót.

Mér er í minni þegar verktaki lokaði þegjandi og hljóðalaust bíla 700 íbúa við Háleitisbraut inni klukkan átta á mánudagsmorgni vegna malbikunar akreinar á Háaleitisbraut. Handmáluð upplýsingaskilti daginn áður við botnlangagöturnar þrjár hefðu breytt miklu.

Fleiri slík dæmi þekkja margir úr Reykjavík þegar ökumenn eru teymdir á asnaeyrunum fram á skurðbakka eða lokaðar götur og mynda síðan umferðarvandræði í þröngum götum sem fara verður í gegnum í stað þess að með einföldu leiðbeiningarskilti við gatnamót fjær verkstaðnum hefði verið hægt að greiða mönnum götu á margfalt skaplegri og kostnaðarminni hátt.

Á leiðinni til baka í dag gerðist svipað. Mágur minn og kona hans fóru til Reykjavíkur fyrr í dag og sögðu mér að það gengi ágætlega þrátt fyrir vegaframkvæmdir við gatnamót Þingvallavegar og Vesturlandsvegar.

Þegar við Helga komum síðan í kvöld var þetta breytt og samfelld bílaröð náði langleiðina upp að Hvalfjarðargöngum. Ástæðan: Jú, verktakinn hafði tekið upp á því að loka annarri akrein Vesturlandsvegar einmitt þann tíma þessa sunnudags þegar flestir eru að koma til borgarinnar eftir helgina.

Gat greinilega ekki beðið með þetta þangað til mesta umferðarþunganum linnti seinna í kvöld.

Aðeins var hægt að aka aðra leiðina í einu og hleypt var inn á þá leið til skiptis, ýmist til suðurs eða norðurs.

Frábær tímasetning eða hitt þó heldur að hálfloka leiðinni á þessum tíma helgarinnar.

Ég sá einn jeppaökumann beygja til hægri og sýndist hann ætla að aka leið framhjá hnútnum. Hugsanlega hafa aðrir reynt þetta líka og kannski var þessi leið fær.

Ef hún var fær hefði verið gott að sjá það tilgreint á einföldu upplýsingarskilti. Það hefði létt á umferðinni og minnkað töfina.

Ef hún leiddi menn í ógöngur hefði líka verið gott að fá um það upplýsingar.

Þegar fólk kemur saman úti á landi á fjölskyldumótum setja einstaklingar oft upp einföld upplýsingaskilti á leiðinni svo að allir geti ratað á staðinn.

Það virðist hins vegar ofraun fyrir fyrirtæki með veltu upp á tugi milljarða.

Ástand veganna á Vestfjörðum er síðan efni í sérstakt blogg.


TVEIR ÞJÓÐVERJAR TÝNAST, 1907 OG 2007

Sumarið 1907 hurfu Þjóðverjarnir Knebel og Rudloff sporlaust í Öskju og það er sérkennileg tilviljun að einmitt öld síðar skuli tveir Þjóðverjar týnast á svipaðan hátt í íslensku fjallendi og að árið 2007, rétt eins og 1907, skuli líða vikur þangað til uppgötvast að eitthvað hafi farið úrskeiðis. 1907 var engin leið að tryggja að hjálp bærist ef eitthvað bæri útaf í Öskju, - þangað var tveggja dagleiða ferð á hestum. Nú tekur 20 mínútur að fljúga frá Mývatnsflugvelli yfir Öskju.

Á hitt er að líta að ekkert símasamband er innan úr Öskju við umheiminn, ekki einu sinni um gervihnött.
Öðru máli gegnir um Öræfajökul og því er sárt til þess að vita að ferðamenn sem þar eru að príla geti verið týndir svo lengi án þess að um vandræði þeirra sé vitað.

Í þjóðgörðum erlendis er vandlega fylgst með fólki sem þar er í gönguferðum og það við miklu hættuminni aðstæður en hér á landi. Í Yellowstone þarf til dæmis leyfii til að ganga eftir 1600 km löngu göngustígakerfi garðsins og göngufólk verður að halda nákvæmar tímaáætlanir.

Boð og bönn eru hvimleið en það er mikill munur á því að segja "nei" eða segja "já, ef..." og síðan að tilgreina eðlileg skilyrði. Í tilfelli Þjóðverjanna á Svínafellsjökli hefði ekki þurft annað en að þeir tilkynntu hvert þeir ætluðu og hve lengi þeir yrðu og að þeim yrði gerð sérstök grein fyrir því hve hættulegt svæðið væri og bent á heppilegri gönguleið.

Vanur jöklagöngumaður sagði mér í gærkvöldi að hafi þeir fallið niður í sprungu á Svínafellsjökli lendi þeir í mörgum tilfellum í þvílíkum vatnssvelg þar niðri að aldrei muni finnast af þeim tangur né tetur.

Hafi þeir lent í slíku slysi hefði svo sem ekki breytt neinu hvort hvarf þeirra uppgötvaðist strax eða síðar. Það breytir því hins vegar ekki að menn geta líka lent í óhöppum þar sem skiptir sköpum að það uppgötvist sem fyrst.

Svo vikið sé aftur að hvarfi Rudloffs og Knebels setti Jón Jónsson heitinn jarðfræðingur fram þá kenningu skömmu fyrir andlát sitt að sjá mætti enn ummerki um hrun úr bakka Öskjuvatns sem líklegast hefði sökkt þeim félögum á siglingu upp við hann.

Til stóð að við Jón færum þangað næsta sumar og skoðuðum staðinn en Jón lést áður en það gæti orðið að veruleika.

Þar með hvarf sú vitneskja og gátan um afdrif þeirra er jafn dulúðleg og fyrr og sennilega áfram reimt af þeirra völdum samanber þessar hendingar:

Beygðir í duftið dauðlegir menn
dómsorði skaparans hlíta.
Framliðnar sálir við Öskjuvatn enn
sig ekki frá gröf sinni slíta.
Tungfarar upplifa ósköpin tvenn: -
eldstöð og skaflana hvíta.
Alvaldsins sköpun og eyðingu í senn
í Öskju þeir gerst mega líta.

Höll íss og eims, -
upphaf vors heims, -
djúp dularmögn, -
dauði og þögn.


mbl.is Á þriðja tug björgunarsveitarmanna leitar á Svínafellsjökli við erfiðar aðstæður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

HAFÐIR AÐ GINNINGARFÍFLUM.

Nú er það komið fram sem ég spáði fyrir tæpu ári í bæklingnum "Íslands þúsund ár" að landeigendur á svæði Kárahnjúkavirkjunar uppgötvuðu það endanlega að þeir hefðu verið hafðir að ginningarfíflum. Fölva hefur slegið á dollaraglampann í augum þeirra.

Rétt er að birta á ný eftirfarandi lýsingu lögfræðings Landsvirkjunar sjálfra á hinu raunverulega eðli þessarar dæmalausu framkvæmdar:

"...Áhættusöm framkvæmd...", "....erfið og áhættusöm jaðarframkvæmd í landfræðilegu-, tæknilelgu-, umhverfislegu- og markaðslegu tillti, - er í raun eyland í raforkukerfinu og það rýrir meðal annarra þátta gildi vatnsréttinda við Kárahnjúka...ekki hægt að útloka að stofnkostnaður fari fram úr áætlunum vegna tæknilegra örðugleika á byggingartíma og rekstrarkostnaður Hálslóns geti orðið umtalsverður ef beita þurfi ítrustu mótvægisaðgerðum vegna skilyrða um umhverfisþætti."

Einn landeigendanna hittir því naglann á höfuðið þegar hann segir landeigendur verða fórnarlömb þess kostnaðar sem fyrrgreind lýsing sjálfrar Landsvirkjunar tíundar og að þeir verði lántir greiða hugsanlegan samfélagslegan skaða vegna virkjunarinnar.

En fleiri munu þurfa að borga þegar öll kurl verða komin til grafar.

Fullyrðingar talsmanns Landsvirkjunar í dag um að virkjunin muni standast arðsemiskröfur eru kokhreysti, - spádómurinn og röksemdirnar fyrir hinu gagnstæða í "Íslands þúsund ár" eiga eftir að koma fram.

Og jafnvel þótt þessar arðsemiskröfur stæðust eru þær byggðar á forsendum sem ekkert einkafyrirtæki hefði vogað sér sætta sig við.

Virkjunin er risaframkvæmd í sovéskum stíl, byggð á hugsuninni sem talsmaður Landsvirkjunar orðaði svo vel þegar hann var inntur eftir því hvers vegna ekki hefði verið rannsakað fyrirfram misgengissvæðið sem sást úr lofti þar sem til varð meira en hálfs árs seinkun borana og framkvæmda með ómældum kostnaði:

Hann svaraði því til að ekki hefði þótt ástæða til að eyða tíma og fé í þessar rannsóknir sem svo augljóslega hefðu verið bráðnauðsynlegar, - "...við þurftu að fara þarna í gegn hvort eð var!"

Svo heppilega vildi fyrir virkjanafíklana að þessi hluti gangaleiðarinnar var inni í miðri leiðinni og því myndu vandræðin ekki dynja yfir fyrr en á síðasta kafla borana.

Auðvitað ekkert mál að vaða út í þetta á þessum nótum þegar vitað var að þjóðin myndi borga allan brúsann síðar meir, hvernig sem allt færi.

Landeigendur eru nú að upplifa það að þeir verði með þeim fyrstu til að blæða, - við hin komum seinna.


mbl.is „Landeigendur látnir greiða hugsanlegan samfélagslegan skaða vegna Kárahnjúkavirkjunar"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

OLÍUBÁL, EKKERT MÁL FYRIR JÓN PÁL!

Í Kastljósþætti kvöldið eftir siðustu kosningar söng þáverandi iðnaðarráðherra með mér: "Mig dreymdi ég væri uppi árið 2012 / Þeir tunglið höfðu malbikað og steypt í hólf og gólf". Ekki er að sjá annað en svipuð bjartsýni ríki nú hjá olíuhreinsistöðva-draumóramönnum þótt umhverfisráðherra kveðið upp úr með það sem ég og fleiri höfum verið á benda á að stóri draumurinn um olíuhreinsistöðvar sem bjargvætti fyrir landsbyggðina gengur ekki upp hvað snertir skuldbindingar okkar samkvæmt Kyoto-samningnum.

En í að mörgu leyti fróðlegu viðtali við hinn geðþekka og ágæta talsmann þessara áforma, Ólaf Egilsson má ráða af orðum hans að þeir sem fyrir þessu standi hafi engar áhyggjur af þessu.

Þeir ætli sér að hefja framkvæmdir á næsta ári þótt umhverfisráðherra sjá á því öll tormerki að hægt sé að láta þetta flókna ferli ganga svo ofurhratt. Væntanlega hafa þeir olíugróðavonarmenn það sem fyrirmynd þegar talsmaður Alcoa sagði að undirbúningsferli og samningar vegna Kárahnjúkavirkjunar hefðu gengið sjö sinnum hraðar hér á landi en í öðrum löndum.

Af viðtalinu við Ólaf Egilsson var ekki annað að ráða en að einfaldlega stæði til að reisa stöðina með látum en bíða með að gangsetja hana þangað eftir að Kyoto-samningurinn rennur út 2012!

Er þetta ekki dæmigert fyrir óðagot Íslendinga þegar þeir fyllast framkvæmdagleði með dollaraglampa í augum?

Á sínum tíma þurfti talsverðan tíma til að koma þeim sem ætluðu að leggja Norðurveg um Stórasand, Kaldadal og Þingvelli í skilning um að svona trukkaflutningavegur með tilheyrandi umhverfisáhrifum og hættu á umhverfisslysum stangaðist á við UNESCO-stimpil Þingvalla og lög um vatnsverndarsvæði Þingvallaþjóðgarðs.

Einnig yrði Stórisandur mjög misviðrasamur vegarkafli hátt yfir sjó.

Nú virðast ákafamennirnir um olíuhreinsistöðina hafa fundið út að það sé ekkert mál fyrir Jóna Pála olíudraumamanna að stjórna því að Íslendingar losi sig undan skuldbindingum um takmörkun á losun á gróðurhúsalofttegundum árið 2012.

Með sömu bjartsýninni er auðvitað heldur ekkert mál að reisa öll fyrirhuguðu risaálverin, - aðeins þurfi a sjá til þess að þau fari ekki fram úr Kyoto-kvótanum fyrr en eftir að hann rennur út.

Auðvitað þurfa menn árið 2012 ekki heldur að taka neitt mark á stefnu núverandi ríkisstjórnar varðandi stórfelldan samdrátt á losun gróðurhúsalofttegunda fram til 2050, því núverandi ríkisstjórn hefur ekki umboð kjósenda nema til 2011.

Í hinu annars um margt ágæta og upplýsandi viðtali við Ólaf Egilsson kom hvergi fram hvort ætlunin verði að kaupa losunarkvóta flyrir olíuhreinsunina enda er ekki að heyra annað en að menn telji alla vegi færa og allar skuldbindingar fallnar niður frá og með 2012.

Það var innistæða fyrir hinum fleygu orðum Jóns Páls í Sjónvarpssal á sínum tíma. Hvar er innistæðan fyrir bjartsýniskasti olíuhreinsunarmanna?


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband