Olíulindirnar aukast að verðgildi og fara ekkert.

Það er eðlilegt að margir hér á landi séu að fara á taugum út af hinum gríðarlega efnahagsvanda sem hrunið leiddi yfir okkur.

Samningurinn við Magma Energy og þrásókn í að ráðstafa allri orku heilu landshlutanna í hendur einstökum álfyrirtækjum eru dæmi um þetta.

Vel kann að vera að skattaumhverfið, sem talað er um varðandi athafnir á Drekasvæðinu þurfi endurskoðunar. Það fylgir hins vegar ekki sögunni að hvaða leyti þetta umhverfi er svo "íþyngjandi" og þess vegna lítið um það að segja meðan upplýsingar um það vantar. 

Um þetta þarf að upplýsa og taka um það vandaða umræðu frekar en að fara á límingunum í örvæntingu. 

Hitt er ljóst að þessar hugsanlegu olíulindir fara ekkert. Framundan er óhjákvæmilegt skeið samdráttar í vinnanlegri olíu í heiminum og þá verða olíulindir, sem áður voru ekki taldar arðbærar, samkeppnishæfar.

Hugsanlega verður vinnsla á Drekasvæðinu eða fyrir suðvestan landið samkeppnishæf við svipað skattaumhverfi og nú er eftir einhver ár, þótt hún sé það ekki núna.

Frekari upplýsingar um stöðu mála í nútíð og framtíð og "íþyngjandi skattaumhverfi" óskast til handa okkur, þjóðinni,-  eigendum þessara hugsanlegu olíulinda. Allt upp á borðið !  

 


mbl.is Skattarnir afar íþyngjandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vernda þarf flök með grafarhelgi.

Lög um grafreiti gilda um flök eins og flakið af skipinu Goðafossi og flugvélinni Glitfaxa sem liggja í Faxaflóa. Sú grafarhelgi gildir í 75 ár og þýðir það að óheimilt er að hrófla við flakinu af Goðafossi til ársins 2019 og flakinu af Glitfaxa til 2026. 

Að vísu eru engin lík um borð í Pourqois Pas? en líta má á flakið sem grafreit án líka og í því felast óumdeilanlega stórmerkilegar minjar um einhvern dramatískasta viðburð síðustu aldar. 

Að minnsta kosti er þetta flak þess eðlis að ég tel að halda þurfi yfir það og svipuð flök sérstakri verndarhendi og gæta þess að ekki gerist sú ósvinna sem nú virðist hafa gerst út af Mýrum. 

Slysið mikla við Mýrar eins og ég nefndi þátt um það efni í Stiklum hefur ævinlega snortið mig mjög, ekki aðeins vegna þess sem þar gerðist heldur einnig vegna þess að móður minni var það sérstaklega minnisstætt vegna þess að það gerðist á 15 ára afmælisdegi hennar og að réttum fjórum áður síðar eignaðist hún frumburð sinn á þessum sama degi. 


mbl.is Stolið úr flaki Pourquoi-Pas?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju, enn og aftur!

Var í þann veginn að blogga um Ragga Bjarna 75 ára, - næsti pistill hér á undan.
mbl.is Raggi Bjarna með veislu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Raggi Bjarna 75 ára í dag.

Það var einstaklega ánægjulegt að vera viðstaddur boðsveislu Ragnars Bjarnasonar í anddyri Laugardalshallarinnar síðdegis í dag. Þarna mátt sjá fólk, sem hefur verið nálægt Ragnari á langri starfsævi hans og gladdist með honum yfir þessum tímamótum.

Afmælið er sérstakega ánægjulegt vegna þess að afmælisbarnið hefur ekki aðeins haldið söngkrafti sínum og lífsgleði, heldur færst í aukana síðustu ár á einstakan hátt og stendur nú á hátindi ferils síns.

Ragnar hefur sýnt einstakt þolgæði á þessum endaspretti söngferils síns.

Þegar hann nálgaðist sjötugt og hafði selt bílaleiguna, sem hann hafði rekið um árabil, vildi hann eðlilega gefa út disk með nýjum og gömlum lögum sem hann syngi, - sum hver með öðrum þekktum söngvurum.

Ragnar fór bónleiður til búðar milli útgefanda. Enginn vildi þá gera neitt með þetta. Flestir hefðu vafalaust lagt árar í bát en Ragnar gerði það ekki heldur gaf diskinn út sjálfur.

Er skemmst frá því að segja að þessi frábæri diskur sló í gegn og Ragnar gat fylgt honum eftir með fimm ára samfelldri sigurgöngu sem er fágæt hjá listamanni, sem er kominn á þennan aldur.

Við Ragnar höfum að baki nær hálfrar aldar langa vináttu og höfum átt samstarf lengst af þeim tíma.

Við tókum mikla áhættu þegar við fórum af stað með Sumargleðina 1972 og fórum í beina samkeppni við héraðsmót stjórnmálaflokkanna, sem fram að því höfðu verið burðarás í skemmtanalífi landsbyggðarinnar og við Ragnar þar um borð árum saman.

Þetta var tvísýnt í byrjun en gekk það vel fyrsta sumarið, að árið eftir gátum við bætt hinni frábæru eftirhermu Karli Einarssyni í hópinn.

Þegar hann var ekki lengur í hópnum komu Halli og Laddi í hópinn 1975 og hófu þar með sinn frægðarferil.

Þeir voru þetta eina sumar en 1976 komu Bessi Bjarnason og Þuríður Sigurðardóttir í hópinn.

Þorgeir Ástvaldsson og Magnús Ólafsson komu síðan til liðs nokkrum árum síðar og þegar Þorgeir fór til starfa sem forstöðumaður Rásar tvö kom Hermann Gunnarsson til liðs.

Diddú var liðsmaður Sumargleðinnar síðasta árið 1986. Árin á undan hafði Sumargleðin endað vertíðina með skemmtunum á Hótel Sögu og síðar í Broadway, en hámark velgengninnar var vafalaust 1981 þegar húsfyllir var á hverri einustu skemmtun allt sumarið og fram á vetur.

Ragnar var valinn borgarlistamaður Reykjavíkur í hitteðfyrra og á löngum ferli hefur hann komið víða við. Hann og Ellý Vilhjálms voru einhver besti dúett sem sungið hefur á Íslandi og því miður ekki til nógu mörg lög með þeim.

Á þessum tímamótum er ástæða til að óska Ragnari sérstaklega til hamingju með afrek það, sem felst í því að vera á slíkri siglingu á hans aldri.


Ómurinn frá "National Brotherhood Week."

Tom Lehrer heitir eftirlætis ádeilu-grínsöngvarinn minn og ég kann ennþá slatta af söngvum hans frá sjötta áratugnum þegar hann dró ráðamenn, Kalda stríðið og heimsástandið sundur og saman í háði, sem oft innihélt ansi svartan húmor.

Lehrer hefði áreiðanlega fundist Friðardagurinn kynlegt fyrirbæri því að af slíkum degi leiðir, að herirnir verða að vinna upp "árangursleysi" þessa dags með því að vera þeim mun duglegri aðra daga.

Raunar hafa engar fréttir borist ennþá frá árangri dagsins, enda teljast aðeins hressileg manndráp til frétta. 

Lehrer var ekkert heilagt og lýsing hans á því ástandi sem honum fannst raunverulegt, til dæmis á Írlandi, Indlandi og í Miðausturlöndum kom meðal annars fram í þessu erindi í söngnum "National Brotherhood Week." 

 

...All the Catholics hate the Protestants  / 

and the Protestants hate the Catholics   / 

and the Moslims hate the Hindus   / 

and everybody hates the Jews... 

 

Lehrer endaði þennan söng með þessum línum:

 

"...It´s only for a week so have no fear.   /

Be grateful that it does´nt last a year ! "  


Forsætisráðherrar áður ritstjórar.

Ef Davíð Oddsson verður ritstjóri Moggans verður það ekki í fyrsta skipti sem stjórnmálamenn, sem á ferli sinum hafa verið forsætisráðherrar, verða ritstjórar þess blað eða blaðs af þeirri útbreiðslu.

Á árunum 1956-59 var Bjarni Benediktsson ritstjóri blaðsins og beitti því mjög skarpt fyrir flokk sinn.

Þótti hann á stundum ekki vandur að meðulum til að koma höggi á vinstri stjórnina sem þá sat. 

Þorsteinn Pálsson var ritstjóri Fréttablaðsins eins og enn er í fersku minni, hafði reyndar áður verið ritstjóri Vísis.

Það mun hræra rækilega upp í suðupotti íslenskra stjórnmála ef Davíð tekur við stjórn Moggans. Aðstæður eru svipaðar og 1956-59 þegar Sjálfstæðisflokkurinn var í stjórnarandstöðu og Davíð mun vaflaust ekkert draga af sér við að gera vinstri stjórninni, sem nú situr, skráveifur.


mbl.is Ekki búið að ráða nýjan ritstjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En hvaða 2% ?

Nú róar sveitarstjóri Norðurþings mannskapinn með því að segja að á aðeins 2% Gjástykkis sverði orkuvinnsla heimil. En hvaða 2% eru þetta?

DSC00203

 

Engin gögn eru að finna um það hjá Norðurþingi.

Hins vegar má sjá í gögnum Skipulagsstofnunar vegna mats á umhverfisáhrifum sést vel að þessi 2% eru einmitt lang mikilvægasti hluti svæðisins sem heimsundurs hvað snertir náttúruverðmæti og að mannvirkin, borholur, gufuleiðslur, háspennulínur og stöðvarhús munu blasa við á miklu stærra svæði.

Það er hægt að nefna dæmi um það hvernig hægt er að nota prósenttölur til að bjaga rétta mynd. 

Ef öll norðurhlíð Esjunnar yrði tekin undir malargryfjur yrðu það innan við 2% svæðinu frá Esjunni suður um Reykjanes. Sem sagt: Í fínu lagi, - hin 98 prósentin yrðu ósnert. 

Rauðhólarnir eru langt innan við 1% af svæðinu suðaustan við höfuðborgarbyggðina. Sem sagt: Í góðu lagi að þeim var slátrað á sínum tíma. Við myndum gera það aftur ef þeir væru enn ósnortnir.

Borplanið og verktakavegurinn sem hafa valdið gríðarlegum umhverfisspjöllum við suðvesturhorn Trölladyngju eru innan við 2% af því svæði. 

En samkvæmt skilningi sveitarstjóra Norðurþings var það mjög rausnarlegt að skilja 98% eftir.

Ef ákveðið væri að hafa gat á málverknu af Monu Lisu þar sem nefbroddurinn er eða að plokka úr henni annað augað væri hægt að komast af með taka burt aðeins 2% af myndinni. 

Í Yellowstone í Bandaríkjunum gætu menn beislað óhemju jarðvaraorku með því að leyfa aðeins orkuvinnslu á 2% þjóðgarðsins. En það verður samt aldrei gert.

"You can´t have the cake and eat it too," segja þeir fyrir vestan.


mbl.is Orkuvinnsla aðeins heimil á 2% Gjástykkis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"...það er nefnilega vitlaust gefið..."

Ofangreind ljóðlína Steins Steinarrs eiga vel við um efnahagslíf Íslendinga nær samfellt í 85 ár, eða síðan íslenska krónan var leyst frá tengslum við dönsku krónuna.

Hægt er að nefna örfá ár á þessu tímabili sem undantekningu frá þessu, svo sem fyrstu ár Viðreisnarstjórnarinnar og það tímabil sem fylgdi í kjölfar Þjóðarsáttarinnar á tíunda áratugnum og fram á tvö fyrstu tvö ár þessarar aldar.

Með verðbólgu og rangri gengisskráningu hafa stjarnfræðilegar upphæðir verið færðar ranglega á milli þjóðfélagshópa og hámarki náði þetta í "gróðærinu" og óhjákvæmilegu hruni, sem fylgdi í kjölfarið.

Þensluhvetjandi stefna frá árinu 2002 spólaði styrk krónunnar upp úr öllu valdi og olli því að lán og gjaldeyrir voru á útsölu.

Afeiðingin varð fjórföldun skulda heimila og fyrirtækja á þeim tíma sem góðæri af eðlilegum völdum hefði átt að hafa þau þveröfugu áhrif að auknar tekjur yrðu notaðar til að borga niður skuldir og losna við klafa vaxtanna.

Í sjógangi er kemur öldudalurinn óhjákvæmilega á eftir öldunni. Ekkert getur komið í veg fyrir það nema að leita orsakarinnar, sem er vindurinn sem knýr öldurnar, sá fellibylur rangrar hagstjórnar sem við berjumst nú við.

Það er búið að vera vitlaust gefið síðan 2002 og af því súpum við seyðið.  


mbl.is Erlendar skuldir 30% of háar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Man eftir hinu beina sambandi.

Obama Bandaríkjaforseti er æðsti embættismaður og valdamaður þjóðarinnar og kosinn milliliðalaust af þjóðinni í embætti. Það er greinilegt að hann er meðvitaður um þetta.

Obama gæti eytt tíma sínum eingöngu í bráðnauðsynleg störf í Hvíta húsinu, enginn efar það, enda þjóðin, sem hann þjónar, þúsund sinnum stærri en við, Íslendingar.

En æðsta skylda hans er þó að hans mati sú, að halda sem beinustu og milliliðalausustu sambandi við þjóð sína.

Það gerir hann svikalaust og hefur enginn fyrirrennara hans komið fram í fimm sjónarpsviðtölum yfir sömu helgina.

Hann man greinilega eftir því þessa daga hjá hverjum hann er í vinnu.


mbl.is Obama á útopnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ngo Dinh Diem - Hamid Karzai.

Það er óhjákvæmilegt að bera ástandið í Afganistan saman við ástandið í Vietnam á sjöunda áratugnum.

Til að gæta hagsmuna sinna studdu Bandaríkjamenn Ngo Dinh Diem sem æðsta valdamann til að byrja með en fljótlega kom í ljós vaxandi spilling stjórnar hans.

Undirliggjandi ástæða var áreiðanlega sú að tvær samtvinnaðar ástæður valda því að valdsherrar, sem verða að treysta á stuðning utan lands frá, missa völd.

Annars vegar slævir hinn erlendi stuðningur þá og gerir þá æ háðari hinu erlenda valdi og samtímis missa þeir traust samlanda sinna vegna spillingarinnar og nýrrar kúgunar sem þessu er samfara.

Ngo Dinh Diem var úr röðum kaþólikka og varð því aldrei neitt sameiningartákn. 

1963 urðu Bandaríkjamenn að losa sig við Ngo Dinh Diem með því að styðja uppreisn hershöfðingja sem létu lífláta hann.

Núverandi forseti Afganistan, Hamid Karzai, er um margt í svipaðri stöðu og Ngo Dinh Diem var í Vietnam fyrir hálfri öld. Spillingin í kringum hann verður æ sýnilegri og eru vísbendingar um stórfellt kosningasvindl aðeins eitt dæmið um það. 

Engu stórveldi hefur tekist að ráða við mál í Afganistan.

Ferill Bandaríkjamanna þar er full af hræsni. Þeir studdu talibana gegn Rússum og þá byrjaði ópíumrækt þeirra sem er eitt stærsta vandamál landsmanna. 

Þegar Rússar voru farnir risu talibanar að sjálfsögðu gegn Bandaríkjamönnum. 

Rétt eins og í Vietnam eru landslag og aðstæður ákaflega óhagstæðar erlendum herjum og því bendir margt til þess að hernaður Bandaríkjamanna þar verði álíka vonlaus og hann var í Vietnam.  


mbl.is Enginn hernaður á Friðardaginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband