Raggi Bjarna 75 ára í dag.

Það var einstaklega ánægjulegt að vera viðstaddur boðsveislu Ragnars Bjarnasonar í anddyri Laugardalshallarinnar síðdegis í dag. Þarna mátt sjá fólk, sem hefur verið nálægt Ragnari á langri starfsævi hans og gladdist með honum yfir þessum tímamótum.

Afmælið er sérstakega ánægjulegt vegna þess að afmælisbarnið hefur ekki aðeins haldið söngkrafti sínum og lífsgleði, heldur færst í aukana síðustu ár á einstakan hátt og stendur nú á hátindi ferils síns.

Ragnar hefur sýnt einstakt þolgæði á þessum endaspretti söngferils síns.

Þegar hann nálgaðist sjötugt og hafði selt bílaleiguna, sem hann hafði rekið um árabil, vildi hann eðlilega gefa út disk með nýjum og gömlum lögum sem hann syngi, - sum hver með öðrum þekktum söngvurum.

Ragnar fór bónleiður til búðar milli útgefanda. Enginn vildi þá gera neitt með þetta. Flestir hefðu vafalaust lagt árar í bát en Ragnar gerði það ekki heldur gaf diskinn út sjálfur.

Er skemmst frá því að segja að þessi frábæri diskur sló í gegn og Ragnar gat fylgt honum eftir með fimm ára samfelldri sigurgöngu sem er fágæt hjá listamanni, sem er kominn á þennan aldur.

Við Ragnar höfum að baki nær hálfrar aldar langa vináttu og höfum átt samstarf lengst af þeim tíma.

Við tókum mikla áhættu þegar við fórum af stað með Sumargleðina 1972 og fórum í beina samkeppni við héraðsmót stjórnmálaflokkanna, sem fram að því höfðu verið burðarás í skemmtanalífi landsbyggðarinnar og við Ragnar þar um borð árum saman.

Þetta var tvísýnt í byrjun en gekk það vel fyrsta sumarið, að árið eftir gátum við bætt hinni frábæru eftirhermu Karli Einarssyni í hópinn.

Þegar hann var ekki lengur í hópnum komu Halli og Laddi í hópinn 1975 og hófu þar með sinn frægðarferil.

Þeir voru þetta eina sumar en 1976 komu Bessi Bjarnason og Þuríður Sigurðardóttir í hópinn.

Þorgeir Ástvaldsson og Magnús Ólafsson komu síðan til liðs nokkrum árum síðar og þegar Þorgeir fór til starfa sem forstöðumaður Rásar tvö kom Hermann Gunnarsson til liðs.

Diddú var liðsmaður Sumargleðinnar síðasta árið 1986. Árin á undan hafði Sumargleðin endað vertíðina með skemmtunum á Hótel Sögu og síðar í Broadway, en hámark velgengninnar var vafalaust 1981 þegar húsfyllir var á hverri einustu skemmtun allt sumarið og fram á vetur.

Ragnar var valinn borgarlistamaður Reykjavíkur í hitteðfyrra og á löngum ferli hefur hann komið víða við. Hann og Ellý Vilhjálms voru einhver besti dúett sem sungið hefur á Íslandi og því miður ekki til nógu mörg lög með þeim.

Á þessum tímamótum er ástæða til að óska Ragnari sérstaklega til hamingju með afrek það, sem felst í því að vera á slíkri siglingu á hans aldri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Ég tek innilega undir hamingjuóskir til ástkæra Ragga Bjarna!

Hann er hluti af tónlistarsögu okkar og einstakur "karakter"

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 22.9.2009 kl. 22:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband