Mænuskaði, - hið örlagaríka augnablik.

Enginn sem ekki hefur reynt það getur sett sig inn í kjör mænuskaðaðra. Bara tilhugsun mín ein um sekúndurnar þegar máttur og tilfinning hverfa og sortnar fyrir augum, - minningin um skelfinguna, sem fylgir slíkum augnablikum, - gefur mér vísbendingu um það sem um sé að ræða. Hjá mörgum var það eitt augnablik sem öllu réði og tvisvar á ævinni hef ég upplifað slík augnablik þar sem mátturinn kom þó aftur, sem betur fór.

Í fyrra skiptið var það í sveitinni þar sem ég datt hátt fall aftan af dráttarvél og kom beint niður á sitjandann. Við það kom hnykkur á hrygginn og ég missti allan mátt svo gersamlega, að ég gat ekki andað og féll í köfnunaryfirlið, allt varð svart fyrir augunum.

Síðan komu mátturinn, sjónin og öndunin aftur, en hið skelfilega augnablik gleymist aldrei, - andráin þegar maður vissi ekki hvort að svona væri dauðinn.

Í seinna skiptið gekk ég afturábak við að draga flugvélina TF-FRÚ og steig óvart á lítinn svellbunka sem ég hafði ekki tekið eftir. Ég rann og vegna hins mikla átaks skall ég af heljarafli með hnakkann á malbikið, rotaðist augnablik en fann þergar ég rankaði við mér að líkaminn fyrir neðan háls var eins og horfinn í burtu líkt og hann væri ekki til. Hann var bara eitthvert óviðkomandi kalt kjötstyttki. Ég hafði sem sé lamast við höggið og slynkinn sem kom á bakið.

Svona lá ég í nokkrar sekúndur, gat mig hvergi hrært og varð hugsað til sonar míns, sem fæddist með klofinn hrygg og ólæknandi mænuskaða sem hefur haldið honum í hjólastól alla ævi.

Það er með ólíkindum hvað maður getur hugsað margt á örfáum sekúndum þegar svona gerist. Skelfingin er ólýsanleg.

Síðan kom mátturinn aftur en það hefur það alltaf talað til mín þegar rætt er um málefni mænuskaðaðra. Okkur er hollt að hugsa til þeirra og bera kjör þeirra saman við okkar þegar við erum að barma okkur yfir hlutum sem eru smámunir einir í samanburði við þeirra vandamál.

Ég þekki það í gegnum son minn og vini hans að húmorinn er þeirra vopn í baráttu þeirra við að takast á við örlög sín, - oft grimmilegur svartur gálgahúmor. Öllu gamni getur fylgt alvara og allri alvöru líka eitthvert gaman.

Tryggvi Ingólfsson orðar þetta svo vel í Morgunblaðsviðtalinu í dag með því að segja: "Maður tekur eitt skref í einu og er æðrulaus. Öðruvísi gengur þetta ekki."

Sonur minn á það til dæmis til að segja við mig þegar honum líkar ekki hvað ég er að gera: "Ef þú hættir þessu ekki, pabbi, geng ég frá þér!"

Ég vil því ekki að þessi pistill sé tómur bölmóður og leyfi mér, - um leið og ég hvet alla til að sinna málum mænuskaðaðra sem best, - að enda á stöku sem hrökk upp úr mér eftir atvikið sem ég greindi frá hér að ofan, þegar ég rotaðist og lamaðist í nokkrar sekúndur við það að draga flugvélina TF-FRÚ. Til útskýringar er rétt að geta þess að meðal helstu flugvina minna á Akureyri eru Víðir Gíslason og Húnn Snædal, oftast kallaður Húnni.

Álíka lífsreynslu á ekki neinn, -
alls ekki Víðir né Húnni,
því raunar í heiminum reynist ég einn
um að rotast í drætti með frúnni.


mbl.is Vildi að ég fyndi til
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afmælisdagurinn, - dagur móðurinnar.

Í seinni tíð hefur afmælisdagurinn öðlast nýja merkingu hjá mér. Ekkert okkar man eftir fæðingunni en hún var þess eftirminnilegri fyrir foreldrana, einkum móðurina. Nú orðið óska ég móður hvers afmælisbarns fyrst til hamingju með daginn.

Afmælisdagur barna minna er í mínum huga fyrst og fremst hátíðisdagur konu minnar og þar á eftir að sjálfsögðu dagur þeirra.

Móðir mín er látin en er mér hugstæð á afmælisdegi mínum, ekki aðein af fyrrgreindum ástæðum, heldur einnig vegna þess að afmælisdagur okkar var sameiginlegur, - hún var fædd 16. september eins og ég.

Og það þýðir aftur á móti að móðir hennar, amma mín sáluga, Ólöf Runólfsdóttir, er mér hugstæð á þessum degi. Lifi dagur móðurinnar!


Góðar fréttir af Eimskipum.

Fréttirnar af væntanlegum strandsiglingum Eimskipa milli Reykjavíkur og Ísafjarðar eru góðar, einkum vegna þess að tölurnar sem ég hef heyrt um það hvernig hinir þungu flutningabílar fara með vegakerfið eru ótrúlega háar. Gott væri ef þetta dæmi yrði reiknað alveg til enda svo að hægt sé að átta sig á því hvort stuðningur við siglingarnar borgaði sig þjóðhagslega.

Auðvitað hafa flutningabílarnir þann kost fram fyrir siglingarnar að geta tæknilega ekið frá dyrum til dyra og vera fljótir í förum, en í mörgum tilfellum liggur ekki svo mikið á að það þurfi endilega að fara landleiðina. 

Og sumir stórir og þungir hlutir henta betur fyrir strandsiglingarnar en bílana.  


Loksins, loksins!

Eftir sex og hálfs árs starf hjá Stöð tvö á sínum tíma komst ég að þeirri niðurstöðu að fleiri kostir en gallar fylgdu því að hafa eina fréttastofu og ég talaði fyrir þessu sjónarmiði þegar ég hóf störf á ný hjá RUV.

Ég gat nefnt nokkur dæmi um hagræðið og eitt það besta birtist í frammistöðu sameinaðrar fréttastofu Stöðvar tvö og Bylgjunnar daginn sem Simon Wiesental-stofnunin afhenti Davíð Oddssyni bréf í opinberri heimsókn hans í Ísrael skömmu fyrir hádegi með ásökunum á hendur íslenskum ríkisborgara. 

Fréttamenn RUV voru á staðnum í Ísrael og það virtist vonlaust dæmi fyrir fáliðaða fréttastofu Stöðvar tvö að etja kappi í umfjöllun þá um kvöldið. En hagræðið af því að geta virkjað alla starfsmennina og láta sjónvarpsfréttirnar ganga fyrir útvarpsfréttum olli því að þegar upp var staðið eftir kvöldfréttatímana hafði Stöð tvö vinninginn að mínum dómi.

Ég var oft við fréttaöflun úti á landi á þessum tíma og vandist því að senda pistla í útvarpsfréttatímana, oft í beinni útsendingu, þótt aðalverkefnið væri sjónvarpsvinnsla. Þetta fyrirbæri kannast starfsmenn RUV úti á landi vel við.  

Ég óska því RUV og fréttastofunum til hamingju með sameininguna. Varast ber að halda að hún þýði það að almennt geti sjónvarpsfréttamaður jafnframt gegnt útvarpsfréttamennsku í leiðinni. Sjónvarpsvinnslan er krefjandi og annars eðlis að mestu en útvarpsvinnan. En oft má sameina þetta að einhverju leyti þegar aðstæður krefjast, oftast þó þannig að sjónvarpsvinnan hafi forgang.

 


mbl.is Fréttastofur RÚV sameinaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Betra í gamla daga?

Alveg var yndislegt að heyra og sjá Sigurð Guðmundsson og Memphis-mafíuna í Kastljósi í kvöld. Já, svona var þetta gert í gamla daga. Maður fór inn í útvarpssal fullan af fólki og söng heila breiðskífu í einum rykk með hljóðfæraleikurunum, ekkert endurtekið og engu hnikað eftir á.

Ég minnist upptökunnar á "Sveitaballi", sem fór fram í Þórscafé um miðjan dag. Til þess að Gunnar Ormslev gæti spilað inn í sama hljóðnema og ég söng í,  þurfti hann að standa uppi á borði þétt að baki mér og spila í saxófóninn yfir mig! Allt spilað og sungið inn í einni upptöku.

Ef engir áhorfendur voru var auðvitað hægt að taka lag upp aftur, en þá varð að gera það í heilu lagi með öllum aftur, þótt aðeins einn hefði gert mistök í fyrri upptöku.

Ég minnist upptökunnar á laginu "Ég hef aldrei nóg" í útvarpssal þar sem við veltum vöngum yfir því hvort flutningurinn væri nógu líflegur. Ég hafði á tilfinningunni að við rauðhærðu vitleysingarnir, ég og Rúnar Georgsson, gætum sleppt beislinu fram af okkur og gert betur.

Við fífluðumst svolítið áður en upptakan hófst, hann lét vaða hinn einstæða koktón sem hann einn allra í heiminum gat kreist upp úr barkanum, og svo ákváðum við að slá í kárinn og láta vaða.

Saxófónslólóin hans í leikna kaflanum er eitt af því sem ég held mest upp á af ferli mínum. Hún kom algerlega frá hjartanu, hann lét vaða á súðum og þessi sóló varð ekki aðeins allt öðru vísi en hún hafði verið í fyrri upptöku, - hún varð öðruvísi en allar aðrar í veröldinni.

Í dag er tekið upp á guð má vita hve margar rásir og söngur er lagaður með tölvutækni tón fyrir tón.

Kannski var Pálmi Gunnarsson einn hinna fyrstu sem uppgötvaði það hve hamlandi of mikil tækni getur verið. Þegar hann eitt sinn var búinn að vera að basla lengi við að syngja lag eitt í stúdíói í óteljandi pörtum, fauk í hann og hann hrópaði: "Ég get staðið lengur í þessari vitleysu, - þetta er steindautt!  Setjið þið í gang og ég syng þetta allt saman upp á nýtt í einni töku og er síðan farinn!"

Og það gerði hann og eftir situr eitt af bestu lögum hans. Þetta leitaðist hann við að gera eftir þetta og þannig söng hann "Íslensku konuna." Maður heyrir að þetta er "live", og það skiptir ekki máli þótt einn eða annar tónn verði ekki alveg 100% tandurhreinn, - aðalatriðið er þetta er hluti af því að tilfinningin skilar sér beint frá hjartanu. 

Ég fékk Kristin Sigmundsson til að syngja lagið "Flökkusál" inn á disk. Þetta er lagið "Wandering star", sem hinn rámi strigabassi Lee Marvin hafði gert frægt. Tími fyrir upptökuna var kl. 15:00 og ég vildi sýna þessum mikla og ljúfa meistara tillitssemi með því að koma 2o mínútum síðar til þess að gefa honum tækifæri til að taka nokkur rennsli áður en til alvörunnar kæmi.

Þegar ég kom var mér sagt að Kristinn væri löngu farinn. Hann hefði komið klukkan 15:00 og farið fimm mínútum síðar eftir að hafa sungið lagið í einum rykk í einni töku á þann hátt að eftirminnilegt er, með mun meiri, grófari og dýpri bassarödd en ég hafði ímyndað mér að hann byggi yfir.

Ég hringdi eyðilagður í Kristin og bað hann afsökunar á því sem hafði gerst. "Þú þarft ekkert að afsaka þig," sagði hann, - "ég veit alveg hvernig nú tíðkast að vinna við svonalagað, en ég vinn ekki þannig. 

"Hvernig fórstu að því að framkalla þessa rödd?" spurði ég. "Ég kom úr löngu veiðiferðalagi í nótt og svaf viljandi fram yfir hádegi," svaraði hann. "Þegar ég kom í stúdíóið var röddin enn rám í mér nývöknuðum eftir hinn langa svefn."

Ég sagði honum að ég tryði því varla að hann skyldi gera þetta svona vel í "one-take" án upphitunar. "Elskan mín," svaraði Kristinn, - "við hvað heldurðu að ég vinni? Jú, ég vinn við það í óperuhúsum að syngja óperur í "one-take." Ég stoppa ekki hljómsveitina í miðri aríu og bið um að fá að byrja aftur. Mín vinna er í "one-take" og þetta er aðeins spurning um að vinna heimavinnuna sína áður." 

Við þessi orð Kristins hef ég því við að bæta að í raun er lífið allt "one-take" í beinni útsendingu. Allt annað er eftirlíkingar sem býður upp á það að verða með sama blæ og steinrunnin tæknin sem er að baki þegar tilfinning mannsins víkur fyrir elektrónikinni.

Ég tek ofan fyrir Sigurði og mafíunni. Þetta eru mínir menn, - óhræddir við að feta aftur gamlar slóðir með aðferðum sem búið var að afskrifa sem úreltar en skila þó sannri og einlægri túlkun, - oft á tíðum betur en hægt er að gera með öllum tæknibrellum flókinnar og "fullkominnar" upptökutækni. 


Lifir í glæðum gamallar hefðar.

Hefðin fyrir slagsmálum í réttum og á réttarböllum er býsna gömul. Í sveitinni minni voru varla haldnar réttir án þess að til slagsmála kæmi og voru það yfirleitt alltaf sömu mennirnir sem slógust. Ef slagsmálahefðin hefur lagst af á einhverjum tíma síðan hefði ég talið það talsverða frétt. Sú frétt var aldrei sögð en nú er það frétt að slegist sé. Kannski var hætt að slást og byrjað á því aftur og endurvakin með því hin gamla hefð. 

Kannski er hér komið dæmi um það að jákvæðar fréttir séu síður sagðar en neikvæðar. 

 


mbl.is Slagsmál á réttarballi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kreppa eða ekki kreppa?

Ég minnist gamallar sögu um bjartsýni Bandaríkjamanna þess efnis, að fólk sem stóð við glugga á 50. hæð í bandarískum skýjakljúfi hafi heyrt að Bandaríkjamaður sem féll af 100. hæð hrópaði um leið og hann féll fram hjá 50. hæðinni: "Þetta er allt í lagi ennþá!" Sagan kemur í hugann þegar Geir Haarde segir að hér sé ekki kreppa.

Bæði Geir og fallandi Bandaríkjamaðurinn gætu haft rétt fyrir sér að vissu marki. Ekki fylgdi sögunni gömlu hvort hinn fallandi maður var á leið niður í björgunarnet og gæti gengið ómeiddur í burtu eftir fallið. Sumar upphrópanir um kreppuna byggjast á samanburði við tvö óeðlileg ár í þjóðarbúskap Íslendinga, árin 2006 og 2007, þegar þjóðin lifði langt um efni fram á mestu skuldasöfnun veraldar.

Þannig var það sett upp sem gríðarleg niðursveifla nýlega hvað umferð um Hvalfjörð hefði verið miklu minni í ár en í fyrra, en þegar nánar var rýnt í tölurnar sást að samt var umferðin í ár meiri en 2006 og miklu meiri en nokkurt ár á undan því.

Jafnvel þótt kjararýrnunin yrði 10-20% svo að einhver tala sé nefnd, yrðu kjörin samt svipuð og fyrir nokkrum árum áður en efnahagsfylleríið hófst. Ekki ríktu hér nein móðuharðindi þá og upphrópanir með orðavali í ætt við móðuharðindi álíka óviðeigandi og þegar stjórnarandstæðingar töluðu um efnahagsástandið í upphafi ferils Viðreisnarstjórnarinnar sem "Móðuharðindi af mannavöldum."

Hinu má hins vegar ekki gleyma að svona samdráttur kemur því miður afar ójafnt niður hjá fólki líkt og gerðist í samdrættinum 1983. Þá fóru ungt fólk, sem var nýbúið að kaupa húsnæði, afar illa út úr efnahagsráðstöfununum og þannig virðist það aftur ætla að verða nú sem og í byggingaiðnaðinum.

Við vitum ekki enn hvort hægt verði að mýkja lendingu fjármálakerfis heimsins með björgunarneti og koma í veg fyrir jafn slæma kreppu og í kringum 1930.

Það er því djarflega mælt þegar forsætisráðherra gerir lítið úr því falli, sem hafið er og afgreiðir það á svipaðan átt og hinn fallandi Kani gerði í skrýtlunni forðum tíð.  


mbl.is Hrun á öllum mörkuðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úrelt hreppapólitík.

Stærð Kópavogs sýnir vel hve vel í sveit þetta bæjarfélag er sett á höfuðborgarsvæðinu með Smárann sem einn hluta af krossgötum þess sem markast af línunni Ártúnshöfði-Árbær-Mjódd-Smári. Þyngdarpunktur íbúabyggðar á höfuðborgarsvæðinu liggur austast í Fossvogsdal og því eru ýmsar ályktanir sem borgarfulltrúar í Reykjavík draga af samsetningu borgarinnar dregnar af röngum forsendum.

Fáránleiki bæjarfélagamarka sést best rétt austan við Smárann milli Seljahverfis í Reykjavík og Salahverfis í Kópavogi, þar sem hvort bæjarfélagið um sig virðist hafa skipulagt sig eins og nágrannarnar kæmu þeim ekki við.

Engin tenging er að milli þessara tveggja hverfa og sem dæmi má nefna að ef aka á frá Stapaseli til Blásala, sem eru í 100 metra fjarlægð þarf að fara 3-4 kílómetra hring.

Í raun eiga bæjarfélögin og hverfin Mosfellsbær-Grafarvogur-Árbær-Breiðholt-Kópavogur-Garðabær og Hafnarfjörður svo margt sameiginlegt að þau tengsl og hagsmunir eru jafnvel meiri en það sem tengir Reykjavík vestan Elliðaáa við hverfin fyrir austan árnar. 

Innan höfuðborgarsvæðisins er í gangi óhjákvæmileg þróun sem ég hef áður bloggað um og lýsir sér í aðdráttarafli krossgatnanna á svæðinu við Elliðaárnar fyrir verslun og þjónustu. Í kringum þetta vaxandi miðjusvæði eru Fossvogs-Smáíbúðahverfið, Langholtshverfi, Grafarvogur, Árbær, Breiðholt, austurhluti Kópavogs og nyrstu hluti Garðabæjar. 

Upptalningin ein sýnir hve núverandi mörk bæjarfélaga og samsetning þeirra eru orðin úrelt og til trafala fyrir eðlilega þróun og heppilega skipulagningu höfuðborgarsvæðisins.  


mbl.is Kópavogsbúar þenja sig í 30 þúsund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blindingsleikur að hætti hússins.

Hver kannast ekki við eftirfarandi, sem kom upp á í myrkri á leið minni til Reykjavíkur í gærkvöldi: Á einum ágætum vegarkafla kom bíll aftan að mér og ók lengi með háu ljósin rétt aftan við mig þannig að ég varð að halla mér fram til að fá ekki ofbirtu í augun af skærum glampanum í speglunum. Ökuhraðinn var 90km/klst.

Ég íhugaði að skekkja alla speglana til að losna við ofbirtuna en það er í raun á skjön við eðlilegar akstursreglur að taka lögboðin tæki á borð við spegla úr sambandi svo að ég hætti við það.  Að lokum brá ég á það ráð að víkja út í kant og hægja nógu mikið á mér til að bíllinn fyrir aftan færi fram úr mér.

Þá brá svo við að hann fór að aka mun hægar en áður og aldrei sá ég hann lækka ljósin þegar hann mætti bílum en hélt áfram að valda hverjum vegfaranda sem á vegi hans varð vandræðum með þessum blindingsleik sínum. 

Svo virðist sem fjöldi ökumanna viti ekki eða vilji ekki vita að með því að aka með há ökuljós rétt á eftir bílum fyrir framan þá, blinda þeir ökumanninn sem á undan ekur, og einnig þá sem koma á móti. Óþarfi er að aka með há ljós þegar bíllinn á undan er með há ljós því að hann lýsir upp veginn framundan fyrir báða bílana og hái geislinn á aftari bílnum fer inn á upplýsta sviðið frá fremri bílnum.

Eins og í malaraustrinum, sem fjallað er um í pistlinum hér á undan, er þetta háttalag skondið þegar þess er gætt að þessir sömu blindingsleiksökumenn lenda um síðir í sömu aðstæðum og þeir sem verða fyrir barðinu á þeim og blóta þá örugglega "hinum vitleysingunum" í sand og ösku.  

 


Malaraustur að hætti hússins.

Á leið minni frá Egilsstöðum áleiðis vestur í Arnarfjörð hafa verið nokkrir kaflar á vegunum, þar sem nýbúið er að leggja á olíumöl, og laus möl er enn á yfirborðinu. Þar eru skilti sem tilgreina 50 km hámarkshraða en það virðist illmögulegt fyrir íslenska bílstjóra að fara eftir þeim.

Á móti mér kom fjöldi bíla og miklu meiri hraða og jusu yfir mig möl svo að ég bjóst við því á hverri stundu að framrúðan brotnaði. Fljótlega neyddist ég til að grípa til þeirrar sjálfsvarnar að aka á miðjum vegi beint á móti bílunum, sem komu á móti, blikka ljósum í ákafa og víkja ekki fyrr en í fulla hnefana.  

Þetta hafði ekki minnstu áhrif. Malaraustursökumennirnir blikkuðu bara ljósum á móti og flautuðu og jusu mölinni sem aldrei fyrr.

Það fyndnasta við þetta fyrirbrigði er að þessir sömu ökumenn munu fyrr eða síðar lenda í mínum sporum og bölva þá "hinum vitleysingunum" í sand og ösku.

Í flestum tilfellum tefjast menn aðeins um brot úr mínútu eða í mesta lagi um 1-2 mínútur við að mæta bílum á 50km hraða í stað yfir 100 km hraða eins og svo margir aka á. Til samanburðar tekur venjulegt stopp á bensínstöð með kaupum á einni pylsu minnst 20 mínútur.

Fyrir nokkrum árum kom bíll aftan að mér á ógnarhraða á svona olíumalarkafla og ætlaði að bruna fram úr mér. Ég neyddist þá til að setja á blikkljós og halda mig þannig á miðjum vegi að hann kæmist ekki fram úr.

Við þetta trylltist hann gersamlega og þegar hann að lokum þrengdi sér fram úr og jós yfir mig mölinni henti félagi bílstjórans flösku út um gluggann en hitti minn bíl sem betur fór ekki.

Þetta var í Norðurárdal og þegar komið var að Hvalfjarðargöngum var þessi bíll næsti bíll á undan mér. Hann kom síðan til Reykjavíkur 10 sekúndum á undan mér!

Fyrir nokkrum árum var malarkafli á Grímsnesvegi þar sem ríkti hreint hernaðarástand vegna malaraustur hraðakstursmanna. Einn þeirra ók á ógnarhraða framúr langri röð bíla og skemmdi hvern einasta. Ég þurfti að fara þennan kafla nokkrum sinnum og sá aldrei lögreglubíl, einmitt þar sem slíkrar gæslu var mest þörf.

Hef reyndar aldrei séð lögreglubíl nálægt svona malarkafla.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband