14.9.2010 | 19:24
Vegaxlir, áróður og fræðsla !
Eg er viss um að það má bæta íslenska vegakerfið mikið án þess að leggja út í stórfellda tvöföldun á sem lengstum vegarköflum.
Þar á ég sérstaklega við að gera vegaxlir miklu betur úr garði en nú er og breikka vegi á þann ódýra hátt.
Hins vegar er það svo að eins og nú háttar til koma þær vegaxlir, sem komnar eru, að litlum notum, því að sárafáir þeirra hægfara íslensku ökumanna, sem eru þar á ferli, nota þær, heldur haga sér eins og þeir séu einir á ferð.
Á stórum köflum, til dæmis á hinni fjölförnu leið austur fyrir fjall, eru vegaxlir í hörmulegu ástandi og yrði stórbót að því að gera þær vel úr garði.
En jafnframt þyrfti að gera tvennt: Efla stórllega fræðslu og áróður um notkun þeirra og einnig eftirlit með því að ökumenn noti þær.
Og þá byrjar venjulegi söngurinn: Þetta kostar fé. En þá skyldu menn hafa í huga að þetta er ekki mikið fé samanborið við þær tafir og óhagræði sem stafar af ófremdarástandi á þessu sviði og miðað við þá feiknarlegu fjármuni sem tvöföldun vega eða gerð 2+1 vega.
![]() |
Vilja breiðari vegi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
14.9.2010 | 00:19
"Ég þyrfti að vera kind..."
Það var mikið að Íslendingar legðu eyrun við þeim möguleika að slátra sauðfé að hætti múslima. Hefði mátt gerast fyrir 30 árum þegar tilboð barst til Íslendinga frá Arabíu um að selja tugþúsundir fjár þangað sem aflífaðar væru að hætti múslima.
Þetta var á þeim tímum sem kjötfjall hlóðst upp á Íslandi og hefði þetta verið frábær lausn á því vandamáli.
En allir fóru í baklás og eina ráðið sem Lúðvík Jósepsson gaf var eftirfarandi: "Málið er auðleyst. Þjóðin verður að éta sig út úr vandanum" !
Þetta arabíska tilboð var sem sé slegið niður samstundist með aldeilis ótrúlegum fordómum um "villimannlegar slátrunaraðferðir" í arabalöndum hjá "frumstæðum þjóðum."
Gott ef það var ekki líka niðurlæging fólgin í því fyrir hina göfugu íslensku sauðkind að þurfa að fá þessi örlög.
Var þó um að ræða svipaða slátrunaraðferð þarna suðurfrá og hér hafði verið notuð öldum saman áður en nútíma aðferðir tóku við.
Ég man að ég þurfti að gera um þetta frétt og leitaði víða fanga. Erfitt var þó að fá nokkurn dýralækni til að segja neitt um þetta.
Þangað til ég náði sambandi við Jón Sveinsson (mig minnir að hann hafi heitið það) dýralækni á Egilsstöðum. Hann svaraði þannig að ég reyndi ekki frekar að fá botn í málið.
Þegar ég spurði hann um hvor aflífunaraðferðin væri "mannúðlegri" og sársaukaminni fyrir kindina, sú arabíska eða sú íslenska, svaraði hann:
"Ég vildi gjarnan geta svarað þér. En til þess að geta það þyrfti ég að vera kind sem hefur verið drepin með báðum aðferðunum."
![]() |
Fé slátrað að hætti múslima |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.9.2010 | 20:52
Ömurlegt tómlæti.
Þær þjóðir, sem lögðu sitt af mörkum í seinni heimsstyrjöldinni til að þess að berjast við stórfelldustu villimennsku allra tíma, nasismann, hafa átt um það nokkrar minjar á Íslandi sem hafa í áranna rás ýmist verið eyðilagðar ein af annarri eða vanræktar vegna tómlætis okkar Íslendinga um þær.
Hér í Reykjavík hafa að vísu verið látnar í friði stríðsminjar í Öskjuhlíð, hlaðin vígi og braggar, en á sama tíma hefur gamli flugturninn sem er stórmerk bygging, sú fyrsta sinnar gerðar hér á landi og einhver merkasta bygging Reykjavíkur, verið látinn drabbast niður.
Ýmsir aðilar hafa ýmist haft horn í síðu hans eða sýnt undarlegt tómlæti gegn mannvirki, sem var hluti af búnaði og mannvirkjum bandamanna í orrustunni um Atlantshafið sem er í öllum sagnfræðibókum nefnd í sömu andrá og Stalingrad, El Alamain, Midway, Normandy o. s. frv.
Í nágrannalöndum okkar má sjá merki um það hve mikils virði þær þjóðir telja svona minjar.
Ég hef áður bloggað um gamla flugturninn og tel að það þurfi að gera heildstæða rannsókn á sögu þeirrar "viðbyggingar" sem nú hefur verið rifin sem og öðrum mannvirkjum frá stríðsárunum sem enn standa á flugvellinum.
Í fyrirsögn fréttar mbl.is um þetta er þriggja hæða hús sem reist var við hliðina á flugturninum og er nú verið að rífa nefnt "skúr".
Gerast "skúrar" nú býsna stórir en nafngiftin sýnir hvaða augum með gamlar byggingar eru oft litnar.
Á grundvelli rannsóknar á þessum byggingum öllum þurfi síðan að standa myndarlega að því að varðveita stórmerkar sögulegar minjar sem varða sögu þjóðannar við Norður-Atlantshaf.
P. S. Þess ber að geta sem vel er gert. Reyðfirðingar gefa höfuðborgarbúum langt nef með því að varðveita af myndarskap stríðsminjar, sem þar eru, á flottu safni.
Það er þeim og Austfirðingum til mikils sóma. Á Hnjóti í Patreksfirði er varðveitt Vatnagarðaflugskýlið sem var á sínum tíma stærsta bygging á Íslandi. Þar er einnig að finna minjar frá veru Breta á Reykjavíkurflugvelli.
Sitthvað má líka finna frá þessum tímum á Flugminjasafninu á Akureyri.
![]() |
Skúr við gamla flugturinn rifinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
13.9.2010 | 00:43
Eins og í Suðurríkjum BNA fyrir hálfri öld.
Við Íslendingar fylgdumst í fréttum með því fyrir hálfri öld hvernig upp komu í Suðurríkjum Bandaríkjanna mál af því tagi sem við fréttum nú um í okkar eigin landi.
Ekki hefði mann órað fyrir því að slíkt gerðist hér á næstu öld en svo er að sjá sem þessi napri raunveruleiki blasi við.
Samt er það svo að þegar fyrir hálfri öld grunaði mig að þrátt fyrir það hve við gumum af frjálslyndi og umburðarlyndi myndu kynþáttafordómar geta átt greiða leið að mörgum heima ef tilefni gæfist.
Þetta byggði ég á því að þegar ég kom fyrst til Bandaríkjanna upp úr 1960 kom það mér á óvart hve stór hluti þeirra Íslendinga, sem áttu heima þar vestra, voru á bandi þeirra sem beittu sér mest gegn blökkumönnum.
Fleiri en einn sagði við mig þegar ég lýsti yfir undrun: "Þið, heima á Íslandi, vitið ekkert hvað þið eruð að tala um því að þið þekkið þetta ekki. Þið meira að segja gerið það að skilyrði að blökkumenn séu ekki í varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli en þykist síðan vera eitthvað heilagir."
Síðan kom löng upptalning sem átti að sanna hve miklu lakari hinn svarti kynþáttur væri en hinn hvíti og að full ástæða væri fyrir því að halda þeim á mottunni.
Allt þetta kváðu þeir byggja á reynslu sem okkur norður í Íshafiinu skorti.
Ég kom heim með nýjar hugmyndir um okkur, sem sé þær, að hugsanlega yrðum við ekki hótinu betri en harðsvíruðustu kynþáttahatarar Suðurrikjanna ef við lentun í svipuðum aðstæðum.
Gamall uggur hefur nú gripið mig en ég vona að ég hafi rangt fyrir mér og að ofsóknirnar gegn hinum hörundsdökka Kúbverja séu undantekning.
![]() |
Feðgar flýðu land vegna hótana |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
12.9.2010 | 19:49
Samfelld hrunleið frá 2002.
Aðdraganda Hrunsins má rekja samfellt frá 2002 til 2008. Þá var mörkuð sú glæfrastefna skammtímahugsunar, oflætis og græðgi sem stigmagnaðist, allt frá Kárahnjúkum og íbúðalánakerfinu í upphafi til bankahrunsins mikla.
Nær samfellt allan þennan tíma fékk þjóðin ekki að vita um fjölmörg mikilvæg atriði málsins, aðalatriði hrikalegrar orkustefnu og bankastefnu, sem hvort tveggja byggðust á glórulausum órum.
Það er út af fyrir sig rétt hjá Sturlu Böðvarssyni að þessi glýja var slík vorið 2007 að í kosningabaráttunni tókst stjórnmálaflokkunum að beina henni á síðustu vikunum að kapphlaupi og yfirboðum varðandi það hvernig ættia að verja hinu tílbúna og að mestu leyti innistæðulausa fjármagni sem "gróðærið" skapaði.
Vegna þess að brot í ráðherrastarfi fyrnast á þremur árum er erfitt að nota gölluð lög um Landsdóm til þess að hreinsa þau mál.
Ég minnist þess hvað mér fundust ákvæðin um Landsdóm skrýtin þegar ég var við nám í lagadeild H.Í. á sjötta áratugnum, einkum hvað varðaði það að stjórmálamennirnir sjálfir ættu þar að vera ákærendur og að meginreglur í réttarfari giltu þar ekki, heldur þessi sérkennilegu og forneskjulegu ákvæði.
Við sitjum hins vegar uppi með lög um Landsdóm í stjórnarskránni og þar með að Alþingi þurfi að ákveða hvort ákært verði.
Huga þarf vel að því hvernig lögin um Landsdóm koma út gagnvart alþjóðlegum lagareglum um réttarfar og mannréttindi því að miklu varðar að þetta mál sé rekið þannig að það verði ekki viðbót við ýmislegt annað sem hefur orðið okkur til minnkunar á alþjóðavettvangi.
![]() |
Töldu stöðuna sterka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
12.9.2010 | 16:03
Stalín er ekki lengur þar.
Fróðlegt er að kynna sér afstöðu bandamanna í garð Þjóðverja eftir seinni heimsstyrjöldina. Sovétmenn áttu svo ógnarlegra harma að hefna að efst í huga Stalíns var að gera Þýskaland að landbúnaðarlandi sem ætti ekki möguleika á að hervæðast að nýju.
Að þessu leyti var afstaða hans svipuð afstöðu Frakka í garð Þjóðverja í lok fyrri heimsstyrjaldarinnar, en hún snerist um það að koma í veg fyrir að Þýskaland gæti á ný orðið hernaðarlega sterkt.
Frakkar komu sínu fram og var það að miklu leyti á skjön við afstöðu Vilsons Bandaríkjaforseta. 14 punktar hans miðuðu að því leysa vandamál varðandi kröfur þjóðernisminnihluta um að fá sjálfstæði í eigin ríkjum. Íslendingar urðu meðal nýfrjálsra þjóða sem nutu góðs af þessu.
Versalasamningarnir fóru að miklu leyti á svig við þetta með sundurlimun Þýskalands og allt of háum stríðsskaðabótum sem gáfu nasistum að lokum byr undir báða vængi til að efna til framhaldsstríðs.
Vesturveldin vildu læra af þessari reynslu auk þess sem það hentaði þeir vel hernaðarlega að Vestur-Þýskaland yrði öflugur bandamaður þeirra í Kalda stríðinu.
Sovétmenn héldu Austur-Þjóðverjum niðrir á tvennan hátt. Annars vegar með því að hafa fjölmennt herlið í landinu og anda ofan í hálsmálið á austur-þýskum leppstjórnum.
En hins vegar með því að viðhalda þar hinu lamandi alræðiskerfi sem leiddi til þess að með Berlínamúrnum alræmda var landið gert líkt lokuðum þrælabúðum.
Efti að múrinn féll höfðu margir áhyggjur af því að austurhluti Þýskaland myndi halda áframa að standa að baki vesturhlutanum vegna þess að í vesturhlutanum eru miklu meiri auðlindir og iðnaður.
En nú er að koma í ljós að austurhlutinn er að spjara sig þrátt fyrir þetta.
Í austurhlutanum var fyrir ágætt mennta- og velferðarkerfi og aðalverkefnið var að lappa upp á lélegt samgöngukerfi og mannvirki sem höfðu drabbast niður.
![]() |
Landsframleiðsla í A-Þýskalandi hefur tvöfaldast á 20 árum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.9.2010 | 23:29
Lausungin hefndi sín að lokum.
Um áratuga skeið hefur myndast sú hefð hér á landi að einstakir ráðherrar séu svo miklir kóngar í ríki sínu að þeir geti valið sér hvað þeir bera fram á ríkisstjórnarfundum og hvað ekkii.
Þetta er tilkomið að hluta tll vegna ákveðinnar samtryggingar sem byggist á bandaríska málshættinum "ég klóra þér á bakin og þú klórar mér."
Samtrygging af þessu tagi eru líka nefnd hrossakaup og gilda oft um mikilvæg sem varða alla þjóðina alla en þingmenn þess kjördæmis sem er vettvangur málsins látnir ráða því til lykta í trausti þess að þeir muni gera hið sama gagnvart þingmönnum annarra kjördæma í gæluverkefnum þeirra.
Einnig hefur orðið alsiða að oddvitum stjórnarflokka hafa komist upp með að ráða mikilsverðum málum til lykta án þess að ríkisstjórnin sem heild hafi verið upplýst um málið eða höfð með í ráðum.
2003 komust tveir menn upp með það að taka afdrifaríka tímamótaákvörðun um þáttöku þjóðarinnar í ólöglegri innrás í fjarlægt land.
Í aðdraganda Hrunsins var ástandið þannig að þrír ráðherrar ásamt Seðlabankastjóra ráðskuðust með mikilvægasta málið, sem þjóðin hafði staðið fyrir um langt skeið og sniðgengu meira að segja eftir mætti þann ráðherra sem málið heyrði helst undir.
Þetta er mjög íslenskt fyrirbæri því að hjá öðrum þjóðum tíðkast yfirleitt samábyrgð (collective) hjá ríkisstjórnum og ef einhver ráðherra gerir mistök lætur forsætisráðherrann hann fjúka.
Íslenska kerfið hafa stjórnmálamennirnir hér innleitt til þess að firra sig sjálfa ábyrgð eftir því sem því verður við komið.
Þetta hefndi sín í Hruninu og í þessu efni þarf að taka upp ný vinnubrögð og nýjan hugsunarhátt.
![]() |
Reynir á ákvæði stjórnarskrár |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.9.2010 | 14:43
Málið er ekki einfalt.
Framsóknarflokkurinn var í ríkisstjórn frá 1995 til 2006 og bjó til, ásamt Sjálfstæðisflokknum, þá atburðarás sem var komin svo langt árið 2006 að þá þegar hefði þurft að taka í taumana.
Ef rétt er að Framsóknarmenn vilji láta draga tvo fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokks og tvo fyrrverandi ráðherra Samfylkingar fyrir Landsdóm er það skiljanlegt því að með því dreifa Framsóknarmenn athygllnni frá ábyrgð eigin flokks á því hvernig fór.
Einnig er eðlilegt að Sjálfstæðismenn vilji ekki að neinn verði draginn fyrir Landsdóm því að það er alveg sama hvernig litið er á málið, sá flokkur var við völd samfleytt frá 1991 og fram yfir Hrun og ber því mesta ábyrgð.
Ef niðurstaða nefndarinnar verður þrjú álit sýnir það vel að málið stendur Alþingi alltof nærri til þess að það geti fjallað um það málefnalega.
Ég tel þá hugsun sem er á bakvið ákvæðin um Landsdóm í stjórnarskránni samt ekki vera úrelt heldur fyrirkomulagið.
Best hefði verið að Landsdómskerfið hefði verið tvíþætt: Annars vegar nefnd, óháð Alþingi og framkvæmdavaldinu, sem ákvæði hverja ættia að draga fyrir Landsdóm, nokkurs konar ákæruvald dómsins, og hins vegar dómurinn sjálfur.
Ef þetta hefði verið svona í því tilfelli sem við stöndum frammi fyrir núna hefði Alþingi ákveðið að fara þess á leit við Landsdóm að taka málið fyrir og láta ákæruvaldhluta dómsins um það að ákveða, hverja skyldi ákæra, ef nokkurn.
Ýmsir embættismenn áttu drjúgan þátt í að skapa þá fölsku mynd sem haldið var af þjóðinni í gegnum sofandi fjölmiðla.
Seðlabankinn gaf það til dæmis ítrekað út að bankarnir stæðust álagspróf þótt morgunljóst væri að þeir gerðu það alls ekki.
Opinberlega fékk þjóðin ekki að vita að bankakerfið og skuldirnar væru orðnar fjórfalt stærri en þjóðarframleiðslan fyrr en rúmum mánuði fyrir Hrun.
Þeir sem að þessum blekkingarleik stóðu hafa þá afsökun að þeir héldu að með því að segja hið sanna myndu þeir "rugga bátnum", upplýsa illviljaða menn um stöðuna og þannig stuðla að þeir gerðu óskunda og yllu hruni.
En auðvitað vissu þessir meintu illviljðu menn um þetta, þeir sem hafa af því atvinnu og gróða að skoða svona mál og hafa aðstöðu til þess að sækja sér upplysingar sem gagnast þeim.
Það var firra að hægt væri að fela þetta nema þá fyrir þeim sem það varðaði mest, þjóðinni.
Allir helstu aðilar "gróðærisbólunnar" voru á fullu við að bjarga hver sínu skinni og bankarnir tóku meira að segja stöðu á móti krónunni í því skyni.
Við sitjum uppi með stjórnarskrárvarin og ófullkomin ákvæði um Landsdóm sem verður að hlíta og vitanlega verður að draga einhverja línu þegar ákveða á hvort og þá hverjir fari fyrir Landsdóm.
Vanræksla þeirra, sem koma til greina að verði látnir sæta ábyrgð, verður að teljast því alvarlegri sem málið var lengra komið og helstu einkenni ástandsins að koma betur og betur í ljós.
Ef draga á einhverja línu varðandi það, hverja á að ákæra, verður að taka mið af þessu og þetta vita Framsóknarmennirnir í þingmannanefndinni.
En svo er að sjá sem Alþingi sé ófært um að draga þessa línu.
![]() |
Ekki samstaða í nefndinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.9.2010 | 14:12
"Grjótgarðavirknin".
Um allt land má sjá hvernig landbrot af völdum fljóta hefur verið stöðvað og þróuninni snúið við með því að setja stutta garða eða "tennur" frá árbökkunum út í ána til að trufla rennslið svo að sand- og aurburður falli til botns og hlaði upp sandi við árbakkana.
Kalla má þetta "grjótgarðavirkni".
Gott dæmi voru garðarnir á austurbakka Skeiðarár upp úr 1972 og ég hef fylgst með því hvernig þetta er gert víða um land í áratugi með góðum árangri.
Nákvæmlega það sama er nú að gerast við Landeyjahöfn. Eini munurinn er sá að nú er sandburðurinn ekki til góðs heldur ills.
Það þýðir ekkert að kenna "langvarandi austanátt" um þetta. Austanáttin er samkvæmt veðurskýrslum langalgengasta vindáttin á suðvesturhorni landsins og ekkert er eðliega en að hann leggist í þá vindátt dögum saman.
Þá situr eftir að framburður Markarfljóts og smáánna, sem falla suður úr Eyjafjallajökli hafi verið miklu meiri en búast mátti við.
Markarfljót er jökufljót og vitað var að íslensk jökulfljót myndu bera fram miklu meiri aur í hlýnandi loftslagi en áður hafði þekkst.
Einnig var vitað að frá 1999 voru stórauknar líkur á gosi í Eyjafjallajökli og við erum alltaf að bíða eftir Kötlugosi.
Jafnvel þótt smám saman minnki áhrifin af framburði í Markarfljót vegna eldgossins liggur hitt fyrir að ekkert bendir til annars en að loftslag verði áfram hlýnandi.
Við verðum því að verða viðbúin því að ekki sjái fyrir endann á því að "ástandið verði mun verra en við bjuggumst við".
![]() |
Verra en við bjuggumst við |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
11.9.2010 | 12:23
Vonandi ekki hér.
Fyrirmæli erkibiskupsins í Melbourne um leyfilega tónlist í jarðarförum eru aldeilis kostuleg og sýna fullkomið vantraust á því að aðstandendur og viðkomandi prestur geti ákveðið sjálf hvað tónlist passi best við útfarir.
Vonandi verða svona fyrirmæli aldrei gefin hér á landi.
Sem betur fer hafa Íslendingar haft lag á að gera jarðarfarir að menningarviðburðum sem hafa oftast verið öllum til sóma sem að þeim hafa staðið, jafnt hinum látna sem hinum lifandi.
Hér á land myndi fólk einfaldlega segja eins og sagt var forðum ef svipað kæmi fram: "Heyra má ég erkibiskups boðskap en ráðinn er ég í að hafa hann að engu."
Tengdatóttir, Kristbjörg Clausen, mín bjó í Danmörku í nokkur ár og kynntist jarðarfararsiðum þar í landi vegna þess að hún er lærð söngkona og syngur oft við jarðarfarir.
Það kom henni á óvart hve litlausar, fámennar og tilbreytingasnauðar danskar jarðarfarir eru, að minnsta kosti á Jótlandi þar sem hún bjó.
Íslenskar jarðarfarir eru samkomur fólks, sem tengist ástvinaböndum og þær eru þeim mun mikilvægari fyrir þá sök að í þjóðfélagi þar sem áreiti og streita bitna oft á slíkum tengslum, eru þessar fallegu samkomur góðar kyrrðarstundir sem sameina fólk og sameingarafl erfidrykkjanna er líka mikilvægt.
![]() |
Popptónlist bönnuð í jarðarförum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)