9.9.2008 | 12:39
Tökum eyðslutölum með fyrirvara.
Í áratugi hef ég skemmt mér yfir þeim tölum um bensineyðslu bíla, sem auglýstar hafa verið hjá seljendum, og kaupendur bílanna hafa síðan í framhaldinu hyllst til að staðfesta með eigin sögusögnum, - annars væru þeir að viðurkenna að þeir hefðu verið plataðir. Enn sjást auglýsingar um að jafnvel jepplingar í stærri kantinum eyði allt niður í 4,4 lítra á hundraðið.
Sú lága tala var fengin í sparaksturskeppni sem gefur ekki raunhæfa mynd af eyðslu í daglegum akstri og jafnvel hægt að þrefalda hana í borgarakstri að vetri til þar sem vélin gengur að miklu leyti köld.
Í auglýsingum er oft gefin upp svonefnd meðaleyðslutala, sem fæst af blönduðum akstri á þjóðvegum og í þéttbýli. Langflestum myndi gagnast betur tölur um eyðslu í borgarakstri en það er ekki nóg.
Þessi EU-eyuðslutala er fengin við mælingar í mun hlýrra veðurlagi en er á Íslandi á bílum í toppstandi. Mín reynsla af áratuga akstri, þar sem ég hef fylgst samfellt með eyðslunni, bendir til að bæta megi 15-30 prósentum við þessa uppgefnu tölu við íslenskar aðstæður.
Þetta á einkum við bensínknúna bíla því að mín reynsla bendir til þess að þær vélar séu mun háðari hitastigi en dísilvélar.
Margir bílaeigendur hafa sagt mér ótrúlegar sögur af sparneytni bíla sinna, sem oftast hafa verið byggðar á eyðslunni á einstökum köflum á ferðalögum. Þetta getur verið ónákvæm mæling og til dæmis innbyggð skekkja vegna mismunandi mikillar fyllingar á tankinn. Það eitt getur skekkt niðurstöðuna að bíll halli við áfyllingu eða að honum er ekki ruggað til að fá tankinn örugglega fullan.
Þess vegna hefur mér reynst betur að reikna út eyðsluna á lengri tímabilum og hef raunar komið mér upp þeim vana að gera það að staðaldri.
Ég byggi ofangreint af langri reynslu af því hvernig eyðslan getur verið mismunandi, ekki aðeins við ólíkar aðstæður á ólíkum bílum, heldur einnig í nokkrum sparaksturskeppnum, meðal annars í alþjóðlegri sparaksturskeppni í Finnlandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.9.2008 | 19:12
Lón verður að taka við af lóni.
Ég var að koma úr fjögurra daga leiðangri um slóðir Hraunaveitu, sem er aðeins hluti af Kárahnjúkavirkjun en myndi ein og sér teljast með mestu umhverfisröskun landsins. Ég hef því ekki haft tíma til að spyrja um það hve lengi miðlun fyrirhugaðs Stórasjávar endist. Svona hratt brunar stóriðju- og virkjanahraðlestin áfram.
Nú þegar er Sultartangalón á góðri leið með að fyllast af auri þarf að huga að nýrri miðlun í staðinn. Ég hef áður rökstutt það hve lítinn ávinning Bjallavirkjun gefur, ígildi virðisauka 20 starfa í sjávarútvegi hið mesta, og hve gríðarleg umhverfisspjöll verða af henni þegar fegursti hluta Tungnaár, sem er í hæsta gæðaflokki á Íslandi í Kýlingunum svonefndum, verður þurrkuð upp á svæði þar sem Landmannalaugar og Veiðivötn eru á sitt hvora hönd, aðeins fáa kílómetra í burtu.
Ekki er að sakast við Eystein Hafberg, sessunaut minn og gróinn vin úr Menntaskóla og aðra bekkjarbræður mína og aldavini, sem hanna stíflur og virkjanir. Þeir hafa byggt upp dýrmæta þekkingu, sem Eysteinn miðlaði áður í fátækum þróundarlöndum, þar sem þessarar þekkingar hefur verið mikil þörf hjá fólki sem hefur ekki haft neitt rafmagn.
Þessir verkfræðingar ráða því ekki í hvaða virkjanir og fyrir hverja á að ráðast á Íslandi, frekar en iðnaðarmenn, ýtustjórar, verkamenn og aðrir sem vinna við virkjanirnar.
Það eru æðstu ráðamenn þjóðarinnar sem bera ábyrgðina og leggja línurnar með raunverulegu samþykki þeirra, sem kjósa þá aftur og aftur. Ef íslenskir verkfræðingar og íslenskt vinnuafl vinna ekki verkin við gerð virkjananna, eru bara útlendingar fengnir til að gera það.
Frábærir íslenskir verkfræðingar björguðu því sem bjargað varð við gerð Kárahnjúkavirkjunar þar sem stjórnvöld tóku óheyrilega áhættu vegna þess hve tæknilega erfið hún var. Styðja ætti útrás þessarar þekkingar og verkkunnáttu í þágu blásnauðra þjóða sem ekki hefur verið falin varðveisla einstæðra náttúruverðmæta eins og okkar ríku þjóð hefur verið falið.
![]() |
Litlu minna en Hálslón |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
6.9.2008 | 15:22
Bjallavirkjun, allar bjöllur hringja!
Varla er dags friður fyrir nýjum virkjanaáformum. Ég þurfti í fyrradag að leggja upp í ferð á virkjanasvæðið austan Snæfells og taka frí frá öðru í tvo daga, en á flugleiðinni austur þurfti ég að fara í þann dapurlega og dýra útúrdúr að taka yfirlitsmyndir af virkjanasvæði Bjallavirkjunar, sem ég hafði talið mér trú um að hefði verið barn síns tíma og engum dytti nú í hug að framkvæma.
Ég er byrjaður á heimildarmynd um svæðið, sem ég var svo barnalegur að halda að lægi minna á að klára en aðrar heimildarmyndir mínar um virkjanir út og suður.
Þurrka á upp þann hluta Tungnaár, sem ber af hvað snertir fegurð, hugsanlega fallegasta árkvíslasvæði landsins, og reka virkjanafleyg á mili Landmannalauga og Veiðivatna.
Í stað þess að örfáum kílómetrum fyrir austan Landmannalaugar blasi við þessi hluti Tungnaár, svonefndir Kýlingar, sem er ómissandi hlekkur í gimsteinakeðju Landmannaleiðar, á að fjarlægja ána svo að fólk í framtíðinni horfi aðeins á auðar eyrar.
Þetta verða enn verri spjöll í augum hinna fjölmörgu sem skoða þetta svæði úr loft. Að taka þetta í burtu er svona álíka og að skera munninn af andliti Monu Lisu og segja að nóg sé eftir að fegurð í andliti hennar.
Þetta svæði hefur ævinlega verið eitt af nöfnunum sem ég hef nefnt þegar ég rökstyð það af hverju það stendur svo mikið framar Yellowstone, að hinn heimsfrægi ameríski þjóðgarður kemst ekki inn á nýjustu skrár um merkustu náttúruundir heims þótt hinn eldvirki hluti Íslands gerir það.
Listinn frá Heklu til Grímsvatna um Landmannalaugasvæðið er nokkurn veginn svona: Hekla, Hrafntinnusker, Mógilshöfðar, Jökugil, Frostastaðavatn, Námur, Landmannalaugar, Ljótipollur, KÝLINGAR, Vatnaöldur, Veiðivötn, Langisjór, Eldgjá, Lakagígar, Vatnajökull, Skaftárkatlar, Grímsvötn.
Ekkert af þessum fyrirbærum á sér samsvörun í Yellowstone. Bjallavirkjun á að skila 46 megavöttum, sem gefa 30 störf í álveri, sem aftur á móti skila virðisauka í þjóðarbúið á við 10 störf í sjávarútvegi.
Jafnvel þótt þessi miðlun auki orkuna í neðri hluta virkjannakeðjunnar um annað eins, er verið að ræða um að bæta við virðisauka í þjóðarframleiðsluna sem samsvarar 20 störfum í sjávarútvegi. Já, hróp forsætisráðherra, framleiða, framleiða, framleiða! bergmálar sem aldrei fyrr, framleiða, framleiða, framleiða, hvað sem það kostar, jafnvel þótt fórnarkostnaðurinn verði miklu meiri en ávinningurinn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
4.9.2008 | 16:55
Skjóta fyrst og spyrja svo.
Össur Skarphéðinsson virðist nú hafa tekið upp þekkta stefnu úr villta vestrinu með ummælum sínum um að fara á fullt með tilraunaboranir og sjá svo til hvernig matið á umhverfisáhrifunum verður. Össur hefur nú jafnvel slegið við þeim sem hafa rekið þessa stefnu á undan honum í stóriðju- og virkjanamálum, samanber ferlið varðandi samninga í tengslum við Helguvík og mat á umhverfisáhrifum álversins í Reyðarfirði á sínum tíma.
Össur er að verða með "the quickest draw in the west", fljótastur að draga framkvæmdaopnin úr slíðrum og afkastamestur við að freta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
4.9.2008 | 13:05
Að fæðast inn í verkfall og vinnudeilu.
Er það ekki dæmigert fyrir þjóðfélagsástandið að þeir Íslendingar sem koma nú í heiminn, skuli lenda umsvifalaust inni í miðri hringiðu verkfalls og kjaradeilu, sem er til skammar fyrir okkur.
Fyrr í sumar var haft í flimtingum að aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum hefði borið árangur. Nú er engu líkara en að fjármálaráðherra sé að streitast gegn réttmætum kröfum ljósmæðra með skammarlegu aðgerðarleysi í kjaraleiðréttingu, að því er virðist í þeirri von að þetta aðgerðarleysi skili ríkissjóði einhverjum ávinningi í lægri launagreiðslum en sanngjarnt er.
Upp úr þessu krafsi virðist fjármálaráðuneytið aðeins ætla að hafa það að magna upp aukinn stuðning almennings og þingmanna við málstað ljósmæðra. Ummæli jafnt stjórnarþingmanna sem stjórnarandstöðuþingmanna tala sínu máli.
Hvernig væri nú að aðgerðir bæru árangur og þetta leiðindamál leyst hið snarasta?
![]() |
Eitt barn fæddist á LSH í nótt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.9.2008 | 12:46
"Skal í gegn-stefnan" á undanhaldi.
Það er langt síðan færa hefði átt hringveginn út úr miðbæ Selfoss til að greiða fyrir eðlilegri umferð. Erlendis er áberandi hvernig aðalleiðir liggja fram hjá helstu byggðakjörnum. Hér á landi hefur það sem ég kalla "skal í gegn-stefna" verið áberandi. Enn þurfa menn að taka á sig 15 kílómetra krók í Húnavatnssýslu til þess að aka í gegnum Blönduós og fleiri dæmi mætti nefna.
Samt hafa aðstæður breyst við Blönduós, því nú liggur umferðin til Sauðárkróks og þaðan til Siglufjarðar um Blönduós og nýja veginn um Þverárfjall og við nýja Blöndubrú hjá Fagranesi í Langadal, sem nú er innan bæjarmarka Blönduósbæjar, gætu Blönduósingar byggt alla þá þjónustuaðstöðu við vegfarendur sem nú er við gömlu brúna.
Fyrirmyndina að vegabótum við Selfoss og Blönduós má sjá í meira en 30 ára gamalli lausn við Hellu, þar sem vegurinn lá áður í gegnum þorpið en var síðan færður á nýja brú þar sem hringvegurinn liggur núna við útjaðar þorpsins. Andstaða við þessa samgöngubót var nokkur en eftir að hún varð að veruleika má undrast að "skal í gegn-stefnan" skyldi yfirleitt hafa verið haldið á lofti.
![]() |
Hringvegurinn færður norðar frá Selfossi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.9.2008 | 14:32
Ég er engu nær.
Ég hef áður greint í bloggpistli frá óútskýrðum truflunum á símum mínum og nokkurra annarra aðila á þriggja vikna tíma þegar mótmælaaðgerðir voru í gangi á Austurlandi og í Reykjavík. Þetta var í ágúst og september 2005 þegar ég var ýmist rétt við sendistöðina á Sauðafelli vestan við Kárahnjúka eða í Útvarpshúsinu, steinsnar hjá öflugustu sendistöð Símans í Reykjavík.
Eftir viðtöl við nokkra símasérfræðinga og skoðun á símanum mínum fékk ég þá skýringu hjá síðasta sérfræðingnum, sem ég talaði við, að eina leiðin til að svona lagað gæti gerst í síma mínum væri að aðili með nægt fé, mannskap og aðstöðu stæði að því að hlera hann eða hafa hann í símatorgi með hinum símunum, sem tengdust þessu fyrirbrigði.
Eftir stendur því spurningin: Hver var sá sem hafði nægt fé, mannskap og aðstöðu til að gera þetta?
Lögreglan segir nei, - ekki við. Hver var það þá? Ég er engu nær.
![]() |
40 lögreglumál vegna stóriðjumótmæla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
2.9.2008 | 23:53
Skinhelgi kana.
Enn einu sinni verða fjölskyldu- og einkamál ofarlega á baugi varðandi bandaríska stjórnmálamenn. Merkileg er gagnrýni kvennahreyfinga þar á það að Palin geti ekki stundað krefjandi starf vegna þess að hún eigi fimm börn, barn með Downs-heilkenni og ófríska unglingsdóttur. Maður hélt að kvennahreyfingar berðust fyrir jafnrétti kynjanna og spyrja má, hvort þessi gagnrýni hefði verið svona áköf ef viðkomandi hefði verið fimm barna faðir með barn með Downs-heilkenni og ófríska dóttur.
Öðru máli gegnir um það hvort treysta megi henni til að berjast gegn sérgæsku og spillingu í stjórnmálum og hvort gerðir hennar og stefna á hinum pólitíska vettvangi gefi henni góðan og traustvekjandi vitnisburð, - hún er jú í kjöri sem stjórnmálamaður.
![]() |
Uppljóstranir um Söruh Palin valda óróa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.9.2008 | 20:03
Orwell í fullu gildi.
Vel er við hæfi að gefa alþingismönnum verk George Orwells, ekki aðeins vegna hins sígilda boðskapar um það hvernig sumir verða jafnari en aðrir þegar völdin spilla, heldur einnig það hvernig ráðamenn finna nöfn á fyrirbæri sem eru alger öfugmæli eða þá að nógu lengi er tönnlast á hugtökum, sem í sjálfu sér eru neikvæð en fá jákvæða merkingu.
Þetta er stundað ótæpilega hér á landi. Orka, sem endist ekki nema í nokkrar áratugi er kölluð "endurnýjanleg orka", "sjálfbær þróun" o. s. frv. og hugtakið "orkufrekur iðnaður", sem samkvæmt orðanna hljóða þýðir orkubruðl, hefur með áhrifum síbyljunnar öðlast jákvæða merkingu og eftirsóknarvert í orkuþyrstum heimi að stofna til stóriðju sem er sem allra orkufrekust.
Afhenda mætti ráðamönnum þessar bókmenntir með viðaukum yfir nýjustu hugtökin þar sem merkingu orða er snúið á haus.
![]() |
Þingmenn fá Animal Farm |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.9.2008 | 18:52
Ekki horft til framtíðar.
Með einhæfri sýn á það hvað skapar verðmæta atvinnu og velmegun til frambúðar einblína ráðamenn nú á virkjana- og stóriðjuframkvæmdir sem eru ígildi afréttara gegn timburmönnum eftir þenslufyllerí, - það eina sem þeir virðast halda að skapi velmegun.
Í fimm álverum af fullri stærð sem krefjast allrar orku landsins, verða aðeins 2% af vinnuafli landsmanna. Það er því argasta öfugmæli að tönnlast sífellt á orðinu atvinna þegar á að keyra stóriðjuhraðlestina áfram. Það jafngildir því þegar alkinn dásamar vellíðanina sem fylgir sterkum afréttara eftir fyllerí.
![]() |
Forgangsverkefni að tryggja fulla atvinnu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)