7.9.2010 | 18:17
Þörfin er mikil.
36 árum eftir að hringvegurinn var opnaður með vígslu brúar yfir Skeiðará er enn ekki búið að leggja bundið slitlag á allan veginn. Kannski verður það ekki einu sinni búið á 40 ára afmælinu, að minnsta kosti varla á veginum yfir Öxi
Það er bagalegt ef það dregst mikið lengur að gera almennilegan veg yfir Öxi sem margir telja að eigi að hluti af hringveginum, enda 61 kílómetra styttri leið en Breiðdalsheiði.
Kaflinn, sem efir er að malbika af hringveginum, er á Austurlandi og skiptir ekki máli hvort menn telja hringveginn liggja um Öxi, Breiðdalsheiði eða um firðina, það eru enn leiðinlegir malarkaflar í Berufirði, alls um átta kílómetrar að lengd.
Myndin af þessum holureit er tekin í Berufirði og ég myndi láta fylgja mynd tekna í þokunni á Öxi síðastliðið laugardagskvöld ef þokan hefði ekki verið svo þykk að það var tilgangslaust.
Hefur það einhver áhrif á skyggnið að vegurinn er malarvegur? Ójá, því að drullan af veginum úðast yfir stikurnar og eyðileggur endurskinið af þeim.
Hlýnandi veðurfar gerir það að verkum að mun sjaldnar ætti að snjóa á Öxi en fram að þessu og þar að auki myndi almennilegur vel lagður og upphleyptur vegur gera leiðina greiðfærari í vetrarveðrum.
Verkefnin í vegagerð eru æpandi víða á landinu, einkum á Vestfjörðum. Nú eru liðin 14 ár síðan forsetinn gat ekki orða bundist út af því í opinberri heimsókn þar og sá landshluti er enn hálfri öld á eftir öðrum landshlutum í flugsamgöngum.
![]() |
Framkvæmt fyrir 38 milljarða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 8.9.2010 kl. 00:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
7.9.2010 | 09:15
Yfirgnæfandi líkur á meti.
Meðalhiti septembermánaðar í Reykjavík er 7,4 stig. Nú virðist stefna í að að minnsta kosti fyrri hluti mánaðarins verði með 4-6 stigum hærri hita en það ef gluggað er í spátölur fram til 13. september.
Til þess að meðalhiti alls mánaðarins fari niður fyrir 7,4 stig þyrfti meðalhitinn í síðari hluta mánaðarina að verða aðeins 1-3 stig. Með hverjum deginum, sem líður, minnka líkurnar á því að svo verði og raunar eru þær líkur nánast engar.
Eitt af einkennum hlýnandi veðurfars undanfarin ár hefur verið að það hefur yfirleitt vorað fyrr og vetur komið seinna og þess vegna geta varla verið miklar líkur á því að langvinnt svalviðri dynji yfir seinni part september.
Ofan á þetta bætist að vegna þess að hinir sumarmánuðirnir hafa verið hlýrri en meðaltalið, þarf seinni hluti september að verða enn kaldari, ekki með nema 0-2ja stiga meðalhita, til þess að september verði kaldari en í meðallagi og hnekkja því að sumarsins 2010 verður minnst með svipaðri hlýju og fólk, sem upplifði sumarið 1939, minntist þess sumars lengi á eftir.
![]() |
Mun sumarið slá öll met? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.9.2010 | 00:24
Hvað með hlýnun loftslags?
Það vantar eina forsendu fyrir kenningunni um það að Bakkafjara muni að lokum ná til Vestmannaeyja og teygja sig þangað líkt og gerðist við Hjörleifshöfða.
Forsendan er sú að áfram verði jöklar á Íslandi en haldi hlýnun loftslags jarðar áfram á þann hátt sem nú er spáð munu hamfaraflóð vegna gosa undir jökli að mestu leyti hverfa sem og aurframburður jökulfljóta.
Sumar spár gera ráð fyrir því að jöklarnir hverfi að mestu á næstu 200 árum og Bakkafjara mun aldrei geta færst nógu langt út á því tímabili.
Hins vegar er líklegt að meðan á stórfelldri bráðnun jöklanna standi muni reglubundinn aurframburður jökulánna verða meiri en áður.
Sem dæmi má nefna að það hefur undanfarin ár aðeins gerst nokkra daga á sumri að rennsli Jökulsár á Fjöllum færi yfir 600 rúmmetra á sekúndu.
Í sumar hefur áin lengst af verið með meira rennsli en það og því fylgir meiri aurburður.
![]() |
Mun Bakkafjara umlykja Eyjar? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
6.9.2010 | 09:02
Drulla hér og drulla þar.
Aurframburður íslenskra jökulfljóta er það sem greinir þennan þátt íslenskrar náttúru einna helst frá vatns- og hafbúskap annarra landa.
Þótt tugþúsundir ferkíómetra á suðurströndinni og inni á landi beri þessa sérkennis merki er eins og Íslendingar hafi enn ekki gert sér fulla grein fyrir þessu.
Þannig höldum við áfram að ræða um orku íslenskra fallvatna eins og hún sé alveg sambærileg við orku fallvatna í Noregi eða öðrum fjallalöndum, þar sem þessi orka er fullkomlega endurnýjanleg og framkvæmdirnar afturkræfar.
Nú sést munur á innsta hluta Sultartangalóns ár frá ári, enda mun það fyllast upp á nokkrum áratugum og vatnsmiðlunin þar því að mestu verða ónýt.
Aurburður Kringilsár og Jöklu í Hálslón var áætlaður um tíu milljón tonn á ári, hinn 25 kílómetra langi og 180 metra djúpi Hjalladalur myndi fyllast upp á 3-400 árum og Töfrafoss kaffærast í auri á einni öld.
Efri myndin er af hluta af því gráa og brúna 35 ferkílómetra nýja aurflæmis sem blasir við snemmsumars innan við Kárahnjúka þar sem áður var hin grængróna 15 kílómetra Fljótshlíð íslenska hálendisins, Hálsinn, sem lónið er kennt við.
Eftir að hafa fylgst með aurburðinum á hverju voru er það morgunljóst að aurburðurinn er miklu meiri í hlýnandi loftslagi vegna bráðnunar jöklanna en menn gerðu ráð fyrir, enda hálffylltist gljúfrið neðan við Töfrafoss upp að hálfu á aðeins tveimur árum.
Neðri myndin er tekin inn gljúfrinu á öðru vori eftir myndun lónsins og eru nú flatar jökulleirur þar sem áður var gljúfur með flúðum og fossum.
Þrátt fyrir þessa sérstöðu íslenskra jökulfljóta göpum við það upp í útlendinga að orkan sé endurnýjanleg og sjálfbær.
Reisa varð aukastíflu fyrir neðan Kárahnjúkastíflu til að koma í veg fyrir fossinn á yfirfalli stíflunnar græfi ekki gljúfrið í sundur fyrir neðan hana.
Áin er talin hafa grafið hið magnaða 150 metra djúpa og 14 kílómetra langa gljúfur með sverfandi aur sínum á aðeins 700 árum.
Gosið í Eyjafjallajökli átt að vera fyrirsjáanlegt eftir allar þær vísbendingar um það sem komið hafa frá í meira en tíu ár um að það væri yfirvofandi eftir 170 ára goshlé.
Og við bíðum eftir Kötlugosi með margfalt meiri aurburði út í sjó.
Askan úr Eyjafjallajökli var miklu fíngerðari en dæmi eru um áður og þar af leiðandi getur Herjólfur sullað í drullunni áður en hann festist alveg.
Fyrir austan Vík er stór og viðfeðm sandalda sem nefnist Höfðabrekkujökull. Hún varð til í Kötlugosinu 1918. Allt sandflæmið norðan Vatnajökuls ber merki hamfarahlaupa úr jöklinum.
Líkast til eru ekki nema 2-3000 ár síðan sjór náði langleiðina upp að Síðufjöllum við Kirkjubæjarklaustur.
Landeyjahöfn er aðeins örskammt vestan við útfall Markarfljóts og eftir mikið blíðviðrissumar er nú að hefjast sá árstími þar sem hafalda og straumar bera fíngerðan aurinn ofan af Markarfljótsaurum og undan skriðjöklum Eyjafjallajökuls og Mýrdalsjökuls.
Ef menn kjósa að líta á það viðfangsefni sem við blasir í höfninni sem nokkurs konar keppni manna við náttúruöflin má búast við spennandi viðureign.
![]() |
Herjólfur hægði á sér í drullunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
6.9.2010 | 00:02
Mikið af fugli á vegunum.
Við Helga vorum að koma úr þriggja daga hringferð um landið og það vakti athygli okkar að óvenju mikið var af dauðum fugli á vegunum, einkum fýl og skúmi frá leiðinni frá Hornafirði að Skógum.
Einnig sátu þeir margir inni á veginum. Hvort þetta tengist þeirri sögn að fýllinn geti ekki flogið ef hann sér ekki sjó, skal ósagt látið, en þeir höfðu greinilega margir orðið fyrir bílum.
Í þessari ferð okkar var stansað á ýmsum stöðum og kippt inn myndum, sem ég þarf að nota í ýmsar þær kvikmyndir sem ég er með í smíðum.
Við fórum á minnsta Toyota jöklajeppi landsins, sem ég keypti fyrir slikk 2006 til þess að geta dregið bátinn Örkina.
Leiðin lá upp á Sauðárflugvöll norðan Brúarjökuls til þess að setja framhjól undir "flugstöðina", 32ja ára gamlan Ford Econoline, sem vindpokastöngin er fest við.
Ég hafði nefnilega í blankheitunum í fyrrahaust tekið framhjólin undan honum til að selja dekkin, sem voru nær óslitin.
Fyrr í sumar fór ég á gömlum frambyggðum Rússa með tvö slitin dekk á felgum innbyrðis ásamt lóðabelgjum og merkingum, sem ætlunin er að merkja brautirnar fjórar með.
En þá kom í ljós að felgurnar voru sex gata en ekki fimm, og pössuðu því ekki undir "flugstöðina".
Við Andri Freyr Viðarsson vorum síðan á Rússanum á flandri fyrir austan en ég féll á tíma að aka honum til baka suður og skildi hann því eftir.
Við Helga heimsóttum að sjálfsögðu næsta nágrannann, Völund Jóhannesson, sem hefur aðsetur stóran hluta hvers sumars í Grágæsadal, 15 kílómetra vestan við Sauðárflugvöll.
Síðan fórum við út á Egilsstaði og náðum í Rússann og höfðum samflot til baka til Reykjavíkur.
![]() |
Slökkva ljósin fyrir fuglana |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
5.9.2010 | 20:05
Best var líka á milli tannanna á þeim.
Það sem gerir skrifin um Wayne Rooney svo erfið að dæma um er að hann er ekki fyrsti knattspyrnusnillingurinn sem bresk blöð elta á röndum til þess að finna eitthvað misjafnt um.
Og þegar gerður er samanburður við hliðstæður í fortíðinni koma upp tilfelli sem sá efasemdarkornum um það að Rooney kunni að vera á svipuðu róli og snillingurinn George Best á sínum tíma.
En það er hins vegar ekki víst, enn sem komið er.
Best var líka hundeltur og að lokum fór svo að það reyndist vera á rökum reist að hann réði ekki við áfengisfíkn sína, því hann drakk sig út úr boltanum og síðan út úr lífinu sjálfu.
Hér á mbl.is sést glögglega af hverju blöðin elta gaurinn, því að á hér er þetta mest lesna fréttin.
Þetta selur ! Því miður verð ég að segja, en við því er ekkert að gera.
![]() |
Óvissa með Rooney vegna blaðaskrifa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 6.9.2010 kl. 09:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.9.2010 | 22:10
Á spítalabolina með þetta?
Ég er einn þeirra sem vegna kvilla í meltingarvegi hef þurft að fara oftar en einu sinni í ristilspeglun.
Á undan henni fer maður í laxeringu og fær leiðbeiningar um það hvernig maður eigi að bera sig að.
Það myndi létta lundina ef maður fengi bol til afnota þegar þetta er gert með áletrun sem létti lundina.
Mér dettur í hug að áletranirnar gætu verið tvær, spakmæli Þórunnar og meðfylgjandi leiðbeiningarvísa sem ég gerði að tillögu við þarmalæknana að yrði bætt við textann í leiðbeiningarbæklingnum.
Sá texti tiltók hvernig taka ætti laxerolíuna inn og að maður ætti síðan ganga um þangað til hún færi að virka.
Mér þótti þetta ekki nógu nákvæmar leiðbeiningar og vildi hafa í "endann" eftirfarandi vísu, sem gæti verið á spítalabol:
Laxeringin gengur glatt
ef gætir þú að orðum mínum:
Þú átt að ganga, - ekki of hratt, -
og alls ekki í hægðum þínum.
Ég vil af fagmennsku fræðin mín tjá þér.
Framkvæmdu og mundu nú heilræðin frá mér.
Í snarpri klósettferð hefst þetta hjá þér
og hoppaðu svo upp í rassgatið á þér !
![]() |
Ummæli Þórunnar á boli og bolla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 5.9.2010 kl. 22:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
4.9.2010 | 21:57
Snilldin tæra.
Enn á ný kemur upp í hugann viðtalið við einn af "fjármálasnillingunum" miklu í tímaritinu Krónikunni snemma árs 2007 þar sem hann lýsir því hvernig hann fari að því að búa til milljarða tuga gróða í áður tapreknu og skuldugu fyrirtæki með því að stunda kaup og sölu og kennitöluflakk á fyrirtækjum þar sem í hvert skipti skapast tuga milljarða króna viðskiptavild sem er augljóslega tekin úr lausu lofti.
Þar að auki lýsir hann því hvernig hann geti, þrátt fyrir tuga milljarða gróða af þessum viðskiptum komist hjá því með nógu hröðum bellibrögðu að komast hjá því að borga nokkurn tíma skatt af þessum tekjum.
Þessu er lýst eins og ekkert sé sjálfsagðara í viðtali sem blaðakona tekur við snillinginn á leið upp og niður landganga á einkaþotu sinni á meðan hann er í ferðum til þriggja landa!
Þegar þetta er lesið gefur auga leið að það eru yfirgnæfandi líkur til að svona vinnubrögð og gróðakúnstir séu stundaðar með öllum tiltækum ráðum og það sem Vilhjálmur Bjarnason er að lýsa því mjög trúlegt.
![]() |
Stálu frá og eyðilögðu FL |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.9.2010 | 09:31
Það eru takmörk.
Í mín eyru hef ég heyrt það sagt að gárungar séu farnir að kalla rás 1 og Sjónvarpið "alzheimersrásirnar". Þá eiga þeir við það að þegar hlustað sé eða horft á þessar rásir sé engu líkara en að þeir sem ráði efni þeirra muni ekki lengur hvort efnið sé nýtt eða margnotað.
Öllu gamni fylgir alvara og augljóst er að það eru takmörk fyrir þeim möguleikum sem Sjónvarpið hefur til þess að bjarga sér. Stóra útgjaldaliði eins og rekstur hins stóra útvarpshúss er ekki hægt að minnka og margt fleira af því tagi má nefna.
Nú þegar hefur RUV misst Spaugstofuna og ef horft er á ýmislegt fleira, sem farið er vegna samdráttar, svo sem mikill fjöldi mjög reyndra og hæfra starfsmanna, þá er ljóst að það getur fært fyrirtækið inn í ákveðinn vítahring, þar sem það verður að éta undan sér og missa tekjur.
Ekki er þó allt alvont við "alzheimers-rásirnar". Í útvarpshúsinu er varðveitt sannkölluð gullkista dagskrárefnis þrátt fyrir að talsvert hafi glatast og það er mjög gaman að heyra eða sjá margt af þessu efni.
Ég nefni sem dæmi þætti Svavars Gests, sem að mínum dómi var snjallasti stjórnandi slíkra þátta sem við Íslendingar höfum átt með fullri virðingu fyrir öðrum, sem síðar hafa komið fram.
Það var óheppilegt að Svavar skyldi ekki koma siðar fram því að tæknin á hans tíma gerði ómögulegt að senda út skemmtiþætti af þessari tegund beint.
Svavar reyndi fyrir sér með gerð eins sjónvarpsþáttar, en þá átti Sjónvarpið aðeins eitt myndbandsupptökutæki og vegna þess að sífellt varð að stoppa upptökuna og byrja aftur, glataðist gildi augnabliksins, "spur of the moment".
Margt fleira af endurfluttu efni mætti nefna.
Þegar gerð var íslensk bók fyrir um 12-13 árum um tíu merkustu atriði á ýmsum sviðum, spurði annar höfundur bókarinnar mig um það hvernig mér litist á lista hans yfir tíu merkustu leikara Íslandssögunnar.
Ég sá strax að þetta voru allt nútímaleikarar og spurði hvers vegna hinn stórsnjalli Brynjólfur Jóhannesson kæmist ekki á blað, því að hann hefði verið jafn frábær sem dramatískur leikari og gamanleikari.
"Brynjólfur Jóhannesson, hver var hann? " spurði bókarhöfundurinn.
Þá áttaði ég mig á því hvílík kynslóðarof hafði orðið í íslenskri menningu á sviði leiklistar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.9.2010 | 18:41
Minnir á gamlar rökræður í Gaggó.
Ég minnist rökræðukeppni sem haldin var í Gagnfræðaskólanum við Vonarstræti á útmánuðum 1956.
Deilt var um áfengi og sölu ríkisins á áfengi og tóbaki. Mælskir meðmælendur "hófdrykkju" og "hóflegra" reykinga notuðu þau rök að þeim mum meira sem fólk keypti í ríinu og reykti og drykki, því hagkvæmara væri það fyrir þjóðarbúið.
Því meira fyllerí og reykingar, því betra.
Mér fannst þetta vera röksemdafærsla í ungæðislegum og barnalegum Gaggó-stíl en ekki undir formerkjum yfirvegaðrar rökhyggju sem horfði á málið í víðara samhengi heildarútgjalda þjóðfélagsins vegna neyslunnar og afleiðinga hennar.
Ég man að í rökræðunum tók ég sem dæmi að í fjölskyldu sem skorti fé, yrði einum meðlimi fjölskyldunnar falið að kaupa og flytja heróin inn á heimilið og selja öðrum í fjölskyldunni það á uppsprengdu verði og það söluandvirði yrði skilgreint sem gróði fjölskyldunnar og notað til að kaupa brýnar nauðsynjar, mat og lyf.
Nú sýmist mér sjálfur fjármálaráðherra víðendasta ríkis veraldar vera heldur betur kominn niður á Gaggóplanið, hvort sem það er vegna ölvunar eða þess að hann ætlar að slá Jón Gnarr út sem mesti brandarakarl, sem komist hefur í virðulegt embætti í heiminum.
![]() |
Rússar hvattir til að reykja og drekka meira |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)