Davíð við stýrið, aðrir í farþegasætum?

Það er athyglisvert að fylgjast með atburðum heima á Fróni úr fjarlægð vestan úr Bandaríkjunum. Hér vestra er það forsetinn, æðsti fulltrúi framkvæmdavaldsins, sem tilkynnir um það sem er að gerast og talsmaður þingsins tilkynnir um úrslit mála á þingi. Um er að ræða svipað og heima: Björgunaraðgerðir sem felast í ríkisstuðningi við ákveðin stórfyrirtæki.

Úr fjarlægð sé ég ekki betur en að Davíð Oddsson sé allt í öllu heima, rétt eins og það var meðan hann var forsætisráðherra. Hann stefnir hann Geir og öðrum ráðamönnum og stjórnmálamönnum til sín í Seðlabankann að kvöldi og fram á nótt og stillir þeim upp við vegg: Þetta verður að gera eins og ég vil, hér og nú, um hánótt áður en dagurinn rennur.

Það er líka Davíð sem heldur blaðamannafund að morgni og afgreiðir þetta fyrir fjölmiðlum og öllum öðrum.  Tilgangurinn á að vera að hækka vísitölur, gengi og önnur viðmið fyrir þjóðina. Síðan kemur í ljós að þetta fer allt á aðra lund. En það breytir því ekki að Davíð í krafti stöðu sinnar sem Seðlabankastjóri er við stýrið. 

Aðrir virðast sitja í farþegasætum og fylgjast með. Davíð virðist vera réttur maður á réttum stað ef þetta snýst um að hann hafi forystuna og ráði ferðinni. Það var sagt þegar hann varð Seðlbankastjóri að nú gæti hann notað þægilegt djobb til að dunda við að skrifa bækur. Þetta væri jú bara silkihúfustarf fyrir stjórnmálamenn, sem vildu hafa það náðugt.

Annað hefur komið á daginn, enda hefði annað verið ólíkt Davíð.  


mbl.is Krónan veiktist um 5,3%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erfiðir dagar McCain og Palin.

Þessir dagar eru erfiðir fyrir McCain og Palin, varaforsetaefni hans. Eftir að Palin varð illa á í messunni við að svara spurningu varðandi Pakistan og gerði fleiri hliðstæð mistök hefur McCain orðið að koma henni til hjálpar og fara í viðtöl með henni, sem gagnrýnendur hafa kallað hliðstæðu þess að faðir reyni að hjálpa dóttur sinni.

Einn gamalreyndur gagnrýnandi sagði, að ævinlega yrði forsetaframbjóðenum á mistök þar sem þeim tækist illa til við að svara spurningum. En hann hefði aldrei fyrr orðið vitni að því fyrr að frambjóðandi skildi ekki spurningar.

McCain og Republikanar hafa orðið illilega fyrir barðinu á beittum þáttastjórnendum og í kvöld dró Rachel Maddox leiðtoga Republikana sundur og saman í háði. Hún benti á að hvorki Bush né McCain hefði einu sinni tekist að fá þingmenn sinna eigin ríkja, Texas og Arizona, til að standa með sér og spurði hvers konar leiðtogar það væru sem fengju tvo þriðju eigin þingflokks upp á móti sér í jafn mikluvægu máli og aðgerðir í verstu fjármálakreppu Bandaríkjanna í áraraðir væri. 


mbl.is Hvetja þingið til dáða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirsjáanleg framabraut.

Þegar í upphafi ferils Jóns Magnússonar í Frjálslynda flokknum var það morgunljóst í mínum huga að leið hans innan flokksins myndi aðeins liggja í eina átt, upp á við. Aukinn frami hans nú og framvegis mun ekki koma mér á óvart. Í hádegisviðtali nýlega á Stöð tvö ásakaði hann formanninn fyrir einkavinavæðingu í stjórn flokksins og nefndi Kristin H. Gunnarsson þingflokksformann og Magnús Reyni Guðmundsson, framkvæmdastjóra flokksins.

Ég sagði þá í bloggpistli að Jón myndi ekki tala svona nema hann teldi stöðu sína orðna það sterka að óhætt væri að láta til skarar skríða og að næsta skref í þessu máli yrði sú "málamiðlun" að Kristinn yrði látinn fara en Magnús fengi að vera, að minnsta kosti í bili.

Þetta hefur nú komið á daginn og Guðjón Arnar, sem áður kvaðst ekki myndu taka ákvarðanir í þessu máli, hefur nú tekið af skarið.  


mbl.is Jón Magnússon þingflokksformaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samansafn pólitískra dverga eða...?

"Samansafn pólitískra dverga" var eitt af því sem heyrðist í kvöld á sjónvarpsstöðvunum bandarísku um þá ákvörðun meirihluta þingmanna að snúast gegn björgunarfrumvarpinu sem hafði kostað svo mikla vinnu ráðamanna úr báðum flokkum. Ein aðal ástæðan fyrir því að svona fór kann að vera að nógu margir þingmenn hafi brotnað undan því að taka stóra ákvörðun svo skömmu fyrir kosningar.

En það var líka afstaða eða ákvörðun út af fyrir sig hjá þessum þingmönnum að greiða atkvæði gegn frumvarpinu, en í huga þessara þingmanna virðist það ekki hafa verið eins afdrifarík afstaða og sú að taka ábyrgð á björgunaraðgerðunum.  


mbl.is Hrun á Wall Street
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hraðaval fyrir vegina.

Á rúmlega þúsund kílómetrta langri ökuleið milli Denver og Yellowstone er ekið á mjög mismunandi vegum. Colorado og Wyomingríki eru Klettafjallaríki með krókótta og bratta fjallvegi í bland við beina vegi um flatar heiðar. Á þessari leið hefur skynsamlegt val á hámarkshraða vakið athygli okkar hjóna.

Á vegum sem svipar til meginhluta hringvegarins heima er hámarkshraðinn hér vestra sá sami og heima.

Um leið og vegurinn verður mjórri og krókóttari minnkar þessi hraði. En á breiðum köflum, sem svipar til nýjustu vegarkaflanna heima, svo sem í Norðurárdal í Borgarfirði og nafna hans í Skagafirði er hámarkshraðinn 65 mílur eða 105 kílómetrar/klst.

Þessi breiddarmunur á vegum er alveg lygilega mikið öryggisatriði vegna þess að á mjórri vegunum er miklu minna svigrúm fyrir mistök í akstrinum.  

Hér vestra hika menn ekki við að laga hámarkshraðann að aðstæðum. Ef ameríska aðferðin væri notuð heima myndi hraðinn milli Hveragerðis og Selfoss vera 80 km/klst, á nýjustu breiðu köflunum 100 km/klst og á tvöfaldri Reykjanesbrautinni 110 km/klst.

Í akstri um þvera og endilanga Svíþjóð virðist þetta vera svipað og í Bandaríkjunum. Á bestu vegum leyfa Svíar meiri hraða en Norðmenn en slysatíðnin er þó ekki hærri í Svíþjóð en í Noregi á sambærilegum vegum. Niðurstaða mín er: Sveigjanlegra hraðaval með tilliti til aðstæðna en nú tíðkast víða heima.

Sjálf hámarkshraðatalan skiptir ekki öllu máli heldur hvernig hún passar við aðstæðurnar.  


Er 150 % hærra verð eðlilegt?

Við Helga fórum í kjörbúð í smábænum West-Yellowstone í Montana í gærkvöldi. Þar keypti hún vinsælt bandarískt meðal á 2400 krónur og taldi sig hafa gert afar góð kaup vegna þess að þegar hún keypti nákvæmlega sama meðalið heima fyrir skemmstu, kostaði það rúmlega 6000 krónur.

Ljóst virðist að þessi mikli verðmunur liggi hjá heildsalanum því að heima var meðalið, sem ekki er lyfseðilskylt, keypt hjá Hagkaupum. Svipuð verðlagning á sér áreiðanlega stað hvað snertir margar fleiri vörur sem ekki eru inni í innkaupakörfunum heima. Ef vel ætti að vera þyrfti að skoða verðlagið á mörgum vörum í mörgum löndum en auðvitað er það ekki hægt.

Þess vegna er hægur leikur hjá innflytjanda að smyrja vel á. Doktor Gunni, hvað er til ráða?   


Kurlin og grafirnar.

Fjármálakreppan, sem nú skekur Bandaríkin og þar með allan heiminn, er þess eðlis íslenska orðalagið um að öll kurl séu komin til grafar á vel við. Það sér maður vel á fjölmiðlum á ferð hér vestra. Alveg frá því að fjölmiðlar fóru að kafa ofan í húsnæðislánasukkið í upphafi var ljóst að ferill peninganna, sem nú hefur komið í ljós var stóran part bara tölur í tölukerfum, var svo flókinn að nær engin leið væri að rekja það allt.

Þetta hefur komið enn betur í ljós síðustu daga. Af því má ráða að það sé mikill barnaskapur af ráðamönnum annarra þjóða að halda að auðvelt sé að sjá yfir hvað er að gerast og hvað muni geta gerst, - að sjá hvar áföllin dynja yfir og hvar þau muni síður dynja yfir.

Fundur flestra helstu ráðamanna þjóðar og fjármagns á sunnudagskvöldi og fram á aðfararnótt mánudags var ekkert annað en neyðarfundur, sem var haldinn vegna þess að aðgerðir mega ekki dragast stundinni lengur og hafa líklega þegar dregist of lengi.

Þetta minnir mig á neyðarfund, sem ég hef heimildir um að haldinn var á tíunda tímanum morgun einn þegar á byggingu Kárahnjúkavirkjunar stóð. Símatorg fjármálaráðuneytis og Landsvirkjunar logaði því að bjarga þurfti sjö milljörðum króna fyrir klukkan tíu, og ekki hægt að gera það nema með láni á óheyrilega háum vöxtum. Og það var keyrt í gegn. 

Nú er verið að tala um heildarupphæð allt að 8800 milljarða króna í potti skulda þjóðarinar. Ótal pípur fjármálastofnana og fyrirtækja liggja inn í þann pott og kannski var neyðarfundurinn, sem var nýlokið þegar þetta er bloggað vestur í Bandaríkjunum, um það að bjarga þurfti óheyrilega hárri fjárhæð fyrir klukkan níu í fyrramálið. Hver veit? Það er svo langt í frá að öll kurl séu komin til grafar.   


mbl.is Ráðamenn funduðu fram á nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framararnir! Frækið lið!

Það er stutt síðan ég skrifaði bloggpistil með þessari yfirskrift, en það var þegar Fram vann FH og hleypti öllu í uppnám í deildinni. Þá héldu sumir að Fram hefði með þessu gagnast Keflvðíkingum einum, því enginn bjóst við að Fram gæti unnið tvö efstu liðin í deildinni og allra síst á lokasprettinum þegar toppliðin tjölduðu öllu sem til var.

En auðvitað gerði Fram ekki upp á milli toppliðanna heldur vann þau bæði og réði þar með úrslitum á toppnum auk þess að tryggja sér Evrópusæti.

Hvílík umskipti frá undanförnum áratug!

Keflvíkingar geta ekki sakað Framara um að hafa unnið með FH-ingum með frammistöðu sinni í dag fremur en FH-ingar voru súrir yfir því að Framarar tóku upp á því að vinna þá um daginn.

Sem Framari síðan ég var enn ófæddur óska ég mínum mönnum til hamingju með frábæran endasprett og karakter og vísa til baráttusöngsins sem ég birti um daginn.  


mbl.is FH Íslandsmeistari 2008
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Talking lady, viðbótar"kóari."

Sagnir eru um íslenska blaðakonu, sem er mælsk mjög á íslensku en ekki síður á aðrar tungur. Er sagt að þegar spurt var um hana í löndum, þar sem hún hafði verið á ferð, hafi útlendingarnir, sem spurðir voru, svarað: "Do you mean the talking lady?"

Hún hefur komið mér í hug í síðustu tveimur ferðum mínum um Bandaríkin. Hingað til höfum við hjónin rætt um aksturinn og bestu akstursleiðir með aðstoð korta og ferðabóka og við höfum því verið nokkurs konar tveggja  manna áhöfn líkt og í ralli. 

En nú hefur bæst við nýr ferðafélagi með tilkomu GPS leiðsögutækjanna, sem hægt er að leigja með í ferð á bílaleigubílum. Að minnsta kosti köllum við Helga hana alltaf Talking Lady og dáumst að mælsku hennar og rökvísi.

Á leið og við settumst upp í bílinn í gærkvöldi til að aka til Yellowstone talaði Helga þannig um Talking Lady að ókunnugur á ferð með okkur hefði rekið í rogastans. Svona er þessi kona orðin sprellifandi i hugum okkar frá því í síðustu ferð. 

Í stuttu máli sagt: Talking Lady er konan sem hefur ljáði GPS leiðsögutækjunum rödd sína. Og sú kona hlýtur að vera til einhvers staðar.  

Ef ekki er farið að ráðum hennar út í hörgul verður hún stundum nær óðamála og stoppar varla við að heimta að beygt sé til hægri eða vinstri eða snúið við. Hún refsar okkur fyrir að fara ekki að ráðum hennar með því að lengja áætlaðan ferðatíma, sem birtist jafnharðan á skjánum, og lengir sömuleiðis vegalengdina, sem eftir er að aka, miskunnarlaust.

Þessi viðbótar aðstoðarökumaður eða "kóari" eins og stundum er sagt til styttingar, er sem sé ýtinn og neytir allra bragða við að ráða ferðinni. 

Þeir sem eru einir í bíl gætu gætu vel farið að gera hana enn meira lifandi en hún er þegar orðin í huga okkar hjóna með því að pæla í því hvort sá tími muni koma að hún láti ekki nægja að fylgja einfaranum að húsinu eða hótelinu sem hann ætlar í, heldur áfram allt inn á herbergi.

Svona geta nú litlir hlutir orðið lifandi og skemmtilegir á ferðalögum. Ég hef meira að segja búið mér til í huganum mynd af því hvernig Talking Lady GPS-tækjanna lítur út. Næsta skref í gerð GPS-tækjanna er að maður sjái hana á skjánum um leið og hún malar og leiðir mann alla leið inn í rúm. 


Takmarkanir álitsgjafanna.

Álitsgjafar eru nauðsynlegir en enginn úrskurðaraðili. Mér er í huga þegar Fréttablaðið í ársbyrjun 2003 bað helstu sérfræðinga um íslenska dægurtónlist að velja tíu bestu söngvarana. Flest á þeim lista var óumdeilt, - Ellý á toppnum.

Síðan greindi blaðið frá þeim, sem komust á blað og meginlínur voru ljósar. Þarna voru frændurnir Bubbi og Haukur Morthens og svo framvegis.

Eitt vakti athygli mína. Af um það bil 30 nöfnum, sem nefnd voru, sá ég hvergi nefndan mann að nafni Ragnar Bjarnason. Þó hafði hann barist við Hauk Morthens um árabil um toppinn hjá íslenskum dægurlagasöngvurum og oftar haft betur.

Var einhver annar sem gat sungið betur jafn ólík lög og "Vertu ekki að horfa...", "Vorkvöld í Reykjavík", "Kokkur á kútter frá Sandi"  o. s. frv.?

Á löngum lista sem fylgdi valinu voru meira að segja bæði ég og Jón Kr. frá Bíldudal. En ekki Ragnar Bjarnason. Hann hafði hugsanlega aldrei sungið neitt, jafnvel aldrei verið til. 

Ég man að þetta ergði mig svo mjög að ég hefði skrifað um það beitta blaðagrein ef ég hefði ekki verið upptekinn í öðru á þessum tíma.

En svo róaðist ég. Ég vissi að það sem einu sinni hafði verið frábært hlaut að geta orðið það aftur. Og það gekk eftir. En allar götur síðan hef ég alltaf verið á varðbergi gagnvart óskeikulleika svonefndra "álitsgjafa", jafnvel þótt það eigi að heita "færustu sérfræðingar" á sínu sviði.  


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband