Alþingi hefur í raun staðið vörð um ofbeit. Hvað nú ?

Í nýlegu viðtali við Svein Runólfsson, landgræðslustjóra, benti hann á aðstöðumuninn á milli Hafrannsóknarstofnunar og Landgræðslunnar.

Lagaumhverfi þessara stofnana væri gerólíkt. Hafrannsóknarstofnum getur ákveðið leyfilegan afla á einstökum, sett ákvæði um veiðarfæri og fylgt hvorutveggaja eftir. Hún getur með aðeins nokkurra klukkustunda fyrirvara sett á skyndilokanir á einstökum veiðisvæðum.

Stundum heyrast slíkar tilkynningar daglega í útvarpi og yfirleitt finnst öllum þær sjálfsagðar.

Það eru ekki margir dagar síðan ég heyrði lesið í útvarpi upp úr klukkan ellefu að skyndilokun veiða við Melrakkaey tæki gildi innan klukkustundar.

Gerólíkt ástand ríkir í málefnum Landgræðslunnar. Í áratugi hefur stofnunin verið máttlaus gagnvart því hlutverki sínu að hamla gegn gróður- og jarðvegseyðingu vegna þess að nógu skýrar lagaheimildir skortir.

Mér hefur í áratugi verið kunnugt um einstakar bújarðir þar sem skelfilegl ofbeit hefur liðist og líðst enn vegna þess að áratuga áminningar og aðfinnslur Landgræðslunnar eru að engu hafðar.

Í tugum frétta og þátta um þetta fjallaði ég um þetta þegar ég var fréttamaður og hafði lítið sem ekkert upp úr því annað en gagnrýni og ádeilur, bara fyrir það eitt að sýna hvað væri að gerast.

Afréttir, sem sérfræðingar Landgræðslunnar, brynjaðir 100 ára reynslu, lýsa yfir að séu ekki beitarhæfir eru beittir áfram eins og ekkert sé.

Dæmin eru um allt land. Enn er rekið fé í Mellöndin á Mývatnsöræfum meira en aldarfjórðungi eftir að fyrsta umfjöllunin en ekki sú síðasta birtist í sjónvarpi.

Enn er stór hestabújörð á Suðurlandi hræðilega útlítandi vegna ofbeitar, Landgræðslunni og nágrönnum til mikils ama en enginn fær rönd við reist.

Hinn raunverulegi orsakavaldur heitir Alþingi Íslendinga, sem hefur alla tíð látið undir höfuð leggjast að setja lög sem koma skikki á þessi mál. 

1978 datt nýjum landbúnaðarráðherra, Steingrími Hermannssyni, í hug að hægt væri skipuleggja málin í heild þannig að í þeim landshlutum þar sem gróður þyldi vel beitarálag, fengju bændur að halda kvótum sínum og jafnvel auka þá eftir aðstæðum, einkum þar sem sauðfjárrækt væri stærsta atvinnugreinin, en í öðrum landshlutum, þar sem afréttir væru óbeitarhæfir, væru bændur styrktir til að hætta rekstri á hin níddu lönd, enda væri þar í mörgum tilfellum um að ræða landshluta þar sem aðrar atvinnugreinar gæfu mikil tækifæri.

Steingrímur segir í ævisögu sinni að landbúnaðarforystan og landsbyggðarþingmenn hafi brugðist ókvæða við og að hann hefði aldrei þorað að minnast á þetta aftur.

20 árum síðar minntist nýkjörinn formaður landbúnaðarnefndar, Hjálmar Jónsson, á það sama og það fór á sömu lund.

Það þýðir ekki að hafa uppi fögur orð eins og Unnur Brá Konráðsdóttir hefur nú um aukna landgræðslu og skógrækt meðan Landgræðslan er máttlaus gagnvart ofbeit og uppblæstri.

Nýjasta dæmið er innrekstur sauðfjár inn á Almenning og Þórsmörk, eftir 20 ára friðun, en það mun þýða það sama og fyrir 20 árum, að féð raðar sér fyrst inn í moldarflögin þegar það er rekið þar inn, til að klippa burtu nýgræðinginn, sem er það sama og konfekt fyrir það.

Þar með eru þau svæði dauðadæmd og klukkan færð aftur um 20 ár.  

Það mun taka marga áratugi, kannski meira en hálfa öld, að ná til baka landgæðum á þessu svæði eftir þá meðferð sem það fékk af völdum sauðfjárbeitar.

"Ég hef ekki áhyggjur" segir Unnur Brá, en í ljósi reynslunnar hefur hún fulla ástæðu til að hafa áhyggjur, ekki aðeins á þessu sviði umhverfismála, heldur enn frekar á öðrum sviðum.     


mbl.is Hefur ekki áhyggjur af umhverfismálunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Risastóra álftahreiðrið í Folavatni.

Með Kelduárstíflu og Kelduárlóni var sökkt fallegu litlu stöðuvatni með nokkrum grónum hólmum og grónu umhverfi austur af Snæfelli. 

P1010260

Útsýnið frá vatninu er frábært í góðu veðri. Á efstu myndinni sést yfir tvo af hólmunum í átt að austasta hluta Vatnajökuls, Eyjabakkajökli.

Í vestri blasir Snæfell við á myndunum hér fyrir neðan.

Fjölbreytileg nes prýddu þetta yndislega vatn og hólmarnir voru ólíkir.  

Drekking vatnsins í aurugt miðlunarlón var hluti af svonefndri Hraunaveitu, sem var hluti af Kárahnjúkavirkjun, en féll í skuggann af stóru stíflunum við Kárahnjúka.

Þó er Kelduárstífla 1600 metra löng og ein af stærstu stíflum landsins.  

Lengi vel stóð ég í þeirri meiningu að í þessari miklu hæð yfir sjó hlyti vatn eins og Folavatn að vera í gróðurvana umhverfi.

Annað kom í ljós þegar ég fór að skoða það. Allt umhverfis vatnið var gróður og þrír grösugir hólmar í því.

P1010431

Ég fékk lánaðan litla eins manns gúmmítuðru, ætlu til nota í sundlaugum, og reri út í hólmana.

Undrun mín varð mikil þegar ég kom í austasta hólmann.

Þar var langstærsta álftahreiður, sem ég hef séð, um 5 metrar í þvermál og mannhæð á hæð.

P1010377

Ég ræddi við fuglafræðing um þetta og taldi hann líklegt að þetta sama hreiðurstæði hefði verið þarna lengi, jafnvel öldum saman, kynslóð fram af kynslóð.

Vísindamenn, sem rannsökuðu Folavatn, töldu lífríki þess um sumt einstakt.

Það var léttvægt fundið og þrátt fyrir mikla baráttu mína fyrir því að Folavatni yrði þyrmt með því að láta Kelduárlón fara örfáum metrum hærra, var þessu ógleymanlega vatni fórnað.

Eftir standa nokkrar ljósmyndir og kvikmyndir, sem ég tók af því í ferðum mínum þangað.

Í síðustu ferðinni kom gat á gúmmítuðruna og mátti ég þakka fyrir að hún sökk ekki áður en ég næði landi.

Hún var orðin fyndin í laginu, tuðran, þegar komið var að bakkanum, - minnti á gervinefið á inspector Clouseau (Peter Sellers) sem var að bráðna, aflagast og leka níður í ógleymanlegri tanndráttarsenu hans og Herberts Lom.  

Aldrei þessu vant hafði ég gleymt að fara í björgunarvesti á leiðinni út í álftahólmann og hefði þess vegna getað drukknað í þessari síðustu ferð.

Ef það hefðu átt að verða örlög mín að farast við töku myndarinnar um Örkina, hefði ég varla geta valið mér flottari stað, - með þetta fallega fjallavatn og álftahólmann í baksýn og Snæfelli á höfði í bláma þess.  

Þess má geta, að í myndunum "Á meðan land byggist" og "In memoriam?"frá árinu 2003 er ekkert sýnt af því gríðarlega umróti sem virkjun Jökulsár í Fljótsdal hafði í för með sér, því að framkvæmdirnar austan Snæfells, svonefnd Hraunaveita, hófust ekki fyrr en eftir að búið var að umturna svæðinu sunnan Kárahnjúka.

Aðeins eru sýndir tveir stórfossar og nokkrir aðrir fossar í Jökulsá í Fljótsdal, sem voru á aftökulistanum ásamt tugum annarra vegna Hraunaveitu.

Ég fór til Akureyrar í dag vegna sýningar á "In memoriam?" í Hofi á fimmtudagskvöld.

Síðan myndin, sem upphaflega var gerð fyrir erlendan markað, var frumsýnd í Reykjavík fyrir rúmum mánuði hefur enn eitt tíu ára afmælið bæst við frá árinu 2003, árinu sem menn vilja endurlífga aftur með plús 600 megavatta virkjunum frá Reykjanestá austur í Skaftafellssýslu og upp á hálendið handa 360 þúsund tonna álveri í Helguvík.

Það eru um tíu ár síðan Hellisheiðarvirkjun var komin á fullan skrið samhliða Kárahnjúkavirkjun og Heillisheiðarvirkjun heldur sjálf upp á afmælið með því að vera daglega í fréttum.


mbl.is Litið í hreiðrið hjá Svandísi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað, ef Helgi Pjeturss hefði komið fram með kenningu um svarthol ?

Doktor Helgi Pjeturs setti fram byltingarkennda kenningu varðandi svonefnd fjarhrif snemma á síðustu öld varðandi það tilvist drauma jarðneskra manna í líkömum á öðrum plánetum  . 

Þótti mörgum hún svo geggjuð að sá sem setti svona fram gæti varla verið með öllum mjalla.

Ef óendanleikinn, er hins vegar settur sem staðreynd og forsenda er hún varla svo viltlaus, því að ef tilvist óendanleikans viðurkennd hljóta að vera óendanlega miklir möguleikar á tilvist tvíburajarða í öðrum sólkerfum og þar með óendalega miklir möguleikar á að við eigum tvífara þar og að draumar okkar gætu verið þar á ferli og því efnislegri en hreinir andar, sem spíritisminn snerist um.

Döktor Helgi var afkastamikill í jarðfræði fyrir öld og ég hef stundum velta því fyrir mér hvað sagt hefði verið um hann, ef hann hefði þá komið fram með kenningar um tilvist svarthola í geimnum.

Líklega hefði mörgum þótt slík kenning af hans hálfu merki um að hann væri genginn af göflunum.

En ekkert slíkt flýgur mönnum í hug nú, öld síðar.  

  


mbl.is Tók þátt í nýrri rannsókn á svartholum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minnir á viðureign Eiríks Jónssonar og Gunnars Jónassonar.

Samskipti þáttarstjórnanda og viðmælanda í Sunday Politics hjá BBC í morgun eru ekki einsdæmi.

Að minnsta kosti minna þau mig á svipaða viðureign sem Eiríkur Jónsson átti í vinsælum spjallþætti sínum á Stöð 2 hér um árið, en það var oftast tveggja manna tal.

Eiríkur hafði stundum þann hátt á að greina stuttlega frá því upphafi hverju viðmælandinn héldi fram og ef viðmælandinn var ekki alveg sáttur við skilning Eiríks og var að mögla, nýtti Eiríkur sér það að hann hafði síðasta orðið með því að líta einn fram í myndavélina í lokin og segja: "....segir Jón Jónsson, sem jafnframt segir....." o.s.frv.

Við slíku áttu viðmælendur yfirleitt engin svör, af því að myndavélinni var beint að Eiríki einum og þetta voru lokaorðin í þættinum.

Þetta klikkaði þó einu sinni og það var afar skemmtilegt að horfa á það.

Eiríkur kynnti viðmælanda sinn, Gunnar Jónasson, sem er hefur tekið nokkur háskólapróf og gott ef ekki atvinnuflugmannsréttindi líka.

Gunnar er sérkennilegur um margt, til dæmis í skoðunum, og því hugði Eiríkur vafalaust gott til glóðarinnar að nýta sér það.

En hefði kannski átt að hafa varann á gagnvart manni, sem þrátt fyrir að hjóla um borgina á reiðhjóli og binda bagga sína ekki sömu hnútum og samferðamenn, hafði óvenjulega mörg háskólapróf.

Eiríkur byrjaði á að kynna Gunnar og skoðanir hans, og heimfærði ákveðin ummæli um Evrópusambandið upp á Gunnar; - "....hingað er kominn Gunnar Jónasson, sem segir um Evrópusambandið að....." o.s.frv.

En þá brá svo við að Gunnar vildi alls ekki samþykkja þessa lýsingu Eiríks á skoðunum sínum og andmælti henni. En Eiríkur vildi ekki sleppa honum svona billega af króknum og fór samtal þeirra aftur og aftur út í það að Eiríkur hélt fram meintri skoðun Gunnars, en Gunnar andmælti því.

Í lokin var svo komið að hinu óhjákvæmilega, að Eiríkur ætti síðasta kveðjuorðið; þegar hann leit beint fram í myndavélina eftir að Gunnar hafði lokið máli sínu, og sagði: "...segir Gunnar Jónasson, sem heldur því fram um ESB að...."

En lengra komst hann ekki, því að Gunnar var nú staðinn upp, hallaði sér ákveðið fram og inn í sjónsvið myndavélarinnar og sagði:  "...nei, þessu hef ég aldrei haldið fram."

Og lauk þar þættinum.  


mbl.is Viðmælandi missti sig í beinni útsendingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hrein og endurnýjanleg orka þar. En hér?"

Þessi bloggfærsla er tengd frétt á mbl.is um nýtingu vindorku, sem er "hrein og endurnýjanleg orka".  

Fyrsta bloggfærsla á þessari bloggsíðu fyrir sex árum fjallaði um hina "hreina og endurnýjanlegu orku", sem við Íslendingar gumum af að framleiða í gufuaflsvirkjunum en er í raun rányrkja af áður óþekktri stærð.

Síðan þá hefur á þessum  síðum látlaust verið bent á það í myndum og máli, hvernig við Íslendingar svíkjum ekki aðeins skuldbindingar okkar í Ríósáttmálanum um sjálfbæra þróun, heldur ástundum bæði skipulega þöggun um rányrkju okkar og rangar en síendurteknar fullyrðingar okkar um "hreina og endurnýjanlega orku", allt á kostnað komandi kynslóða og með stórfelldum náttúruspjöllum, þar sem er ráðist er að mesta verðmæti landsins, einstæðri náttúru þess.

Ofan á þetta bætist orkusölustefna sem er galin að mati orkumálastjóra og forstjóra Landsvirkjunar, að ráðstafa fyrirfram allri orku stórra landshluta eða jafnvel hálfs landsins til eins stórs orkukaupenda og koma sér þar með í þá vonlausu samningsaðstöðu að fæla aðra orkukaupendur frá og verða að selja orkuna á því smánarverði sem stóri erlendi orkukaupandinn krefst.

Nú berast tíðindi af því að Hellisheiðarvirkjun sé víðsfjarri því að geta enst í 50 ár eins og stefnt var að og í ofanálag auglýstur sá staðfasti vilji stjórnvalda að bæta bara í og dúndra risaálveri niður sem þarf 625 megavött.

Málið er einfalt. Það er stefnt að enn verra Hruni en varð í fjármálum 2008 vegna þess að þá stóðu að málum ungir oflátungar sem töldu sig vera búnir að finna upp nýja tegund viðskiptalögmála.

Nú er hins vegar heiður bestu vísindamanna okkar í húfi, - manna, sem eru sannanlega í forystu á sínu sviði í í heiminum og geta borið hróður þjóðarinnar víða um lönd með því að aðstoða aðrar þjóðir við að beisla jarðvarma.

Með taumausri græðgi hefur verið valtað yfir varúðarreglur og vitneskju þessara vísindamanna á þann stórfellda hátt, að þegar hið óhjákvæmilega Hrun kemur verður það svo miklu meira áfall fyrir heiður og viðskiptavild íslenskrar þjóðar en fjármálahrunið var.  


mbl.is Gagnaver Google knúið með vindorku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neðanjarðar dekkjahagkerfi í gangi ?

Dekkjaþjófnaður virðist vera orðinn nokkurs konar atvinnugrein hóps manna hér á landi og í gangi ákveðið hagkerfi verslunar með notuð dekk.

Fyrir hálfu öðru ári var stolið frá mér bíl, sem stóð á bílasölu og hirt undan honum 38 tommu nýleg óg nær óslitin jeppadekk með fallegum felgum, en þetta tvennt var helsta verðmæti bílsins, sem var orðinn 20 ára gamall. 

Í rannsókn minni á þessu máli var skyggnst inn í heim þjófnaða af þessu tagi, sem er ekki ólíkur fíkniefnaheiminum að því leyti að það er á margra vitorði hverjir eru að verki og hverjir stjórna þessu, jafnvel meðan þeir sitja og afplána dóma á Hrauninu.

En það að sitja í fangelsi er auðvitað einhver besta fjarvistarsönnun, sem hugsast getur!  

Þjófarnir boruðu gat á bensíngeymi bílsins til að geta náð af honum sem mestu bensíni, söguðu af honum stigbrettin og hirtu rúðuþurrkur og númer, sem væntanlega voru síðan notuð til að stela bensínu á bensínstöðvum með því að setja þau á aðra bíla.

Nú nýlega var stolið af öðrum 20 ára verðlausum smájeppa í minni eigu, sem stóð á geymslulóð,  35 tommu óslitnum dekkjum með góðum felgum og bíllinn skilinn eftir standandi á bremsuskálunum.

Þjófarnir eru vel að sér um bíla og stór og dýr jeppadekk með tilheyrandi felgum ásamt aukabúnaði eru pottþétt verðmæti.   

Í fyrra tilfellinu tilkynnti ég þjófnaðinn til lögreglu og notaði bloggsíðu mína til þess að reyna að upplýsa málið. Sjálfur fann ég atriði sem þrengdu hringinn svo mjög, að ég gæti vitað hver stóð fyrir þjófnaðinum, hvað þeir hétu sem voru handbendi hans og útsendarar, sem frömdu verknaðinn og meira að segja hvar þýfi þessa þjófnaðahrings væri geymt í skemmu.

En allt kom fyrir ekki. Það vantaði nægilega örugg sönnunargögn. Þegar seinni þjófnaðurinn dundi yfir tók því ekki að tilkynna lögreglu um hann.

Þegar fyrri jeppinn stóð eftir strípaður fór ég af rælni að skoða hvort hægt væri að finna dekk í staðinn sem ég réði við að kaupa.

Þá var engu líkara en skyggnst væri inn í hinn enda þessa neðanjarðarhagkerfis, sölu á notuðum dekkjum.

Upp í hendur mér bárust samdægurs 38 tommu dekk, að vísu svolítið slitin, en þó vel nothæf, fyrir lítið brot af verði dekkjana, sem hafði verið stolið.

Ég ætlaði að fara að skyggnast inn í þennan kima með því að reyna að rekja feril dekkjanna og skoðaði netsíður, þar sem dekk eru auglýst, en það bar engan árangur.

Svo virðist sem eitt atriðið í því að viðhalda þessu neðanjarðarhagkerfi í dekkja- og felgusölu sé að eigendaskiptin séu ekki ein, heldur fleiri.

Og lágt verð bendir til þess að þegar dekkjaþjófarnir eru hvað afkastamestir, verði framboðið á notuðum dekkjum það mikið að verðið fellur.  

Ekki er óhugsandi, að ef ég hefði átt meiri peninga og reynt að kaupa lítið notuð 38 tommu dekk hefði ég fengið stolnu dekkin mín til baka með gríðarlegum afslætti!  

 


mbl.is Grímuklæddur dekkjaþjófur á ferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérkennileg áhrif hlýnunar, meiri snjór og minnkandi jöklar.

Þegar hlýindaskeið kom um síðustu aldamót vakti það athygli í Noregi að snjór á norska hálendinu, sem liggur að stórum hluta í 800-1000 metra hæð, varð miklu meiri á veturna en hafði verið meðan veðurfar var kaldara. 

Héldu sumir að jöklar myndu jafnvel stækka við þetta þegar það gerðist nokkur ár í röð.

En í staðinn minnkuðu jöklarnir.

Ástæðan var sú að það var aðallega aukin úrkoma sem skóp snjóinn á hálendinu á veturna en aukin úrkoma og aukinn hiti á öðrum árstímum gerðu betur en að vinna það upp, svo að jöklarnir minnkuðu.

Í Alpafjöllum hefur verið mikil úrkoma í vetur, og vegna þess hve fjöllin liggja hátt, fellur hún sem gríðarlegur snjór.

Þegar Helga, konan mín, var á ferð nýlega í Týrol, var þar enn óvenjumikill snjór að sögn heimamanna, en jafnframt mikil úrkoma og hlýindi sem nú hafa valdið hinum miklu vatnavöxtum, sem greint er frá í fréttum.

Svipað hefur gerst  í fjallendi og á hálendinu á Norðurlandi og Norðausturhálendinu hér á landi, - óvenju mikil úrkoma í formi snævar seinni part vetrar og í vor sem umbreytist í gríðarleg flóð þegar sumarhitinn skellur á.  


mbl.is Verstu flóð í rúm 10 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áttum fjármálaráðherra, sem var töframaður.

Kátrín Jakobsdóttir er að vísu fyrsta konan sem gengur í Hið íslenska töframannafélag en hún er ekki fyrsti íslenski stjórnmálamaðurinn sem kann fyrir sér í töfrabrögðum. 

Tómas Árnason, sem var Alþingismaður 1974-84, fjármálaráðherra 1974-78 og viðskiptaráðherra 1980-83, var nokkuð sleipur töframaður, þótt hann væri ekki að flíka því.

Á þeim  tíma var ekki til neitt félag töframanna á Íslandi en ég gæti vel trúað því að Tómas hefði verið gjaldgengur i þvi félagi, því að ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að sjá hann framkvæma töfrrabrögð sín á skemmtunum á Sólheimum í Grímsnesi við góðar undirtektir og hrifningu samkomugesta, sem voru heimamenn og gestir úr Reykjavík. 

Tómas var virkur félagi í Lionsklúbbnum Ægi og fór árlega ferðir með félögum í klúbbnum, sem einbeitti starfi sínu að uppbyggingu og stuðningi við Sólheima.

Tómas var ekki aðeins lipur og vinsæll stjórnmálamaður heldur bjó hann yfir ýmsum hæfileikum. Hann var til dæmis liðtækur frjálsíþróttamaður á yngri árum og keppti í ýmsum ólíkum greinum, enda skyldur Vilhjálmi Einarssyni.

Ekki fer sögum af því hvort töframannshæfileikar Tómasar nýttust honum í embættum fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra, enda þótt full ástæða hefði verið til að nýta sér slíka kunnáttu í þeim embættum, enda flíkaði hann þeim ekki nema í innsta vinahópi.

Hann framkvæmdi þau til dæmis aldrei á hinum geysifjöllmennu og vinsælu kútmagakvöldum Ægis þar sem margir af helstu áhrifamönnum á ýmsum sviðum þjóðfélagsins voru gestir.

Tómas verður níræður í júlí næstkomandi og þarf vonandi engin töfrabrögð til að ná þeim virðulega og háa aldri.  

Viðskiptaráðherrar þurfa helst að kunna nokkuð fyrir sér á sviði viðskiptanna og líklega hafa hvergi verið framkvæmd stórkostlegri töfrabrögð á Íslandi en þar voru höfð í frammi í aðdraganda Hrunsins.

Nær allir trúðu því að í gangi væri einhver stórkostlegasta og pottþéttasta viðskiptasnilld í heimssögunni, "tær snilld", "ný hugsun", "Kaupthinking", dæmi um andlega yfirburði þjóðarinnar sem hefði fóstrað nokkra helstu landkönnuðum sögunnar.  

Þessu lýstu kannski  best orð Björgólfs Thors Björgólfssonar í heimildamynd Helga Felixsonar um Hrunið.

Eftir að lýst hafði verið í myndinni hvernig virði og arður í rekstri fyrirtækja margfölduðust á ógnarhraða með því að stunda kaup og sölur á þeim með tilheyrandi kennitöluflakki og áætlaðri aukningu viðskiptavildar upp á tugi milljarða í hvert sinn, var Björgólfur spurður, hvað hefði orðið um alla þessa peninga sem telja mætti í hundruðum milljarða.

"Þeir hurfu bara" var svarið og við slíku svari ofurtöframanns var ekkert hægt að segja.   

 


mbl.is Óvenjulegt tómstundagaman formanns VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Aftur inn í torfkofana".

Ekki er fyrr sagt frá stuðningi Darrens Aronofskys við íslenskt náttúruverndarfólk en upphefst gamli söngurinn á blogginu um að Aronofsky sé í hópi "öfgamanna sem vilji að við förum aftur inn í torfkofana." 

Aronofsky er þó aðeins að túlka það, sem meira en 80% erlendra ferðamanna segja vera aðalástæðuna fyrir því að þeir komi til landsins, en það sé hið einstæða samspil elds og íss á ósnortnum víðáttum, sem enn sé að finna hér. En þetta er sem sagt allt "öfgafólk." 

Á þessu ári mun ferðaþjónustan fara fram úr sjálfum sjávarútveginum sem gjöfulasti atvinnuvegur landsins en á sama tíma eru þeir kallaðir "öfgamenn, sem eru á móti atvinnuuppbyggingu", sem benda á að aðeins með verndarnýtingu grunnsins að velgengni ferðaþjónustunnar, verndun og varðveislu náttúruundranna, verði hægt að tryggja áframhaldandi viðgang hennar.

Þeir sem kalla náttúruverndarfólk "öfgamenn" telja vafalaust sig sjálfa vera hófsemdarmenn sem krefjast þess að öll virkjanleg orka landsins verði virkjuð fyrir stóriðju og að arðurinn af því hverfi allur úr landi til erlendra stórfyrirtækja.  En þessu halda þeir fram sem algildri stefnu án þess að depla auga. 

Og þegar sex risaálver verða risin, sem krefjast allrar virkjanlegar orku landsins og eyðileggingar náttúru þess, fá aðeins 2% af vinnuafli landsins atvinnu í þessum álverum.

Og séu "tengd störf" tekin með, innan við 5% af vinnuafli landsins. Samt er talað um að þetta sé "eina leiðin til atvinnuuppbyggingar". 

Þá verða eftir 95% af vinnuaflinu, fólki sem samkvæmt skilningi þessara hófsemdnarmanna munu fara aftur inn í torfkofana, þótt búið verði að virkja 15 sinnum meira en við þurfum sjálf til okkar eigin nota fyrir heimilin og fyrirtækja okkar.

Hófsemdarmennirnir miklu gleyma að geta þess að þegar hafa verið reistar um 30 stórar virkjanir sem framleiða fimm sinnum meiri raforku en við þurfum sjálf.

Ævinlega er látið eins og að það sé verið að byrja á núllpunkti, rétt eins og við séum enn inni í torfkofunum.

Það er makalaust að þurfa endalaust að hlusta á þetta torfkofatal, sem hefur verið síbylja síðustu fimmtán árin.

Einhverjir kunna að segja að þetta sé ekki svaravert, - það eigi ekki að vera elta ólar við þetta. En síbyljan heldur samt áfram og þeir sem hana kyrja vita að ef síbyljan er látin óáreitt verður hún að sannleika eins og slunginn maður mælti forðum.  

 


mbl.is „Þú þuklar ekki á Mónu Lísu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bæði í verkamannavinnunni og sjónvarpinu.

Á ævidögum mínum hef ég unnið með þúsundum fólks, allt frá sveitastörfum og verkamannavinnu við höfnina, byggingar og skurðgröft til vinnu í leikhúsum, fjölmiðlum og í stjornlagaráði. 

Hluta sumarsins 1963 vann ég í garðyrkju og þann stutta tíma vann ég mest með 16 ára unglingi, sem mér fannst afar skemmtilegur, svo skemmtilegur, að ég hefði munað eftir honum alla ævi þótt leiðir okkar hefðu aldrei legið aftur saman.

Þetta var bráðefnilegur knattspyrnumaður í Val, sem var að komast upp úr yngri flokkunum og spila með meistaraflokki félagsins svona kornungur, Hermann Gunnarsson að nafni.

Við kynntumst mjög vel því að Hemmi var alveg einstaklega uppátektasamur og lífsglaður og auk þess greindur og klár, þannig að vinnustundir okkar urðu að samfelldu spjalli og gríni um heima og geima auk þess sem við fundum upp sérstaka gerð af tveggja manna spurningaþáttum. 

Þar að auki voru okkur falin verkefni tveimur saman og gátum því spjallað saman óáreittir í nokkra daga sem við unnum við það að moka skurð nokkurn.  

Mér sýndist þá strax að þarna færi maður, sem hefði alla burði til þess að komast í fremstu röð í hverju sem hann tæki sér fyrir hendur. Einnig maður, sem ekki bugaðist í miklum erfiðleikum heldur setti markið hátt.

Það kom mér því ekki á óvart hve vel honum gekk í íþróttum, að verða nokkurs konar Pele Íslands og landsliðsmaður og metmarkaskorari bæði í knattspyrnu og handknattleik.  

Síðar á lífsleið Hemma kom þetta aftur og aftur í ljós.  

 Þegar við vorum að fíflast og skemmta okkur í þessum tveggja manna spurningaþáttum, óraði mig mig ekki fyrir því þá að við ættum báðir eftir að stjórna spurninga þáttum í sjónvarpi, hvað þá að leiðir okkar myndu liggja saman æ ofan í æ allt til æviloka hans.

Á tímabili skemmti Hermann með Vilhelm G. Kristinssyni með eftirhermum, og eitt sinn réði ég þá félaga til Vestmannaeyja á Sjómannadaginn.

Báðir höfðum við yndi af því að herma eftir Sigurði Sigurðssyni, íþróttafréttamanni.   

Við urðum síðar báðir íþróttafréttamenn hjá RUV og einnig fréttamenn og dagskrárgerðarmenn og síðar komu árin hjá Sumargleðinni sem aldrei gleymast.

1984 átti Hemmi í miklum erfiðleikum með áfengisvandann og útlitið var afar svart, allir búnir að afskrifa hann.

Þá stóð svo á að þegar ég fór til Akureyrar til að halda þar skemmtanir í tilefni af 25 ára skemmtikraftsferli vantaði kynni í stað Páls Þorsteinssonar, sem hafði verið kynnir í Reykjavík en átti ekki heimangengt á svona margar skemmtanir, sem urðu alls sautján.

Jón bróðir minn var framkvæmdastjóri skemmtananna og við ákváðum að bjóða Hermanni að verða kynnir, - vissum, að þrátt fyrir allt blundaði í honum geta til að taka þessari áskorun og vinna bug á vandanum.

Og það gerði hann svo sannarlega og í framhaldinu kom kynnisstarf í Gettu betur og hinir einstæðu þættir Á tali með Hemma Gunn.

Hemmi hafði áður sýnt mér alveg einstaka tryggð og grunnmúraða vináttu og þannig voru samskipti okkar alla tíð.   

 1994 stofnuðum við skemmtiflokkinn Fjörkálfana, sem fór um landið, og það var gaman að sjá hin siðustu ár hvernig Hemmi tók hjartaáfallinu mikla og vann úr því með starfi sínu í útvarpi og einstökum og uppörvandi efnistökum stuttra athugasemda á facebook.

Þættir Þórhalls Gunnarssonar með Hemma mörkuðu upphaf endurnýjaðs og enn bjartari glæsiferlis þessa mikla hæfileikamanns og góða drengs og framundan var ný þáttaröð í sjónvarpi þegar kallið kom að halda á nýjar lendur.

Daginn áður en Hemmi dó, sat ég við hliðina á ókunnum manni við að bíða eftir að komast til gjaldkera í banka.

Af einhverjum ástæðum beindist tal okkar að kveðskap um lífið og tilveruna, og hann fór meðal annars með þessa vísu um síðustu æviárin, sem komu upp í hugann daginn eftir, þegar hinn slyngi skákmaður féll fyrir manninum með ljáinn:

 

Ævin er týnd í töf og kák.

Tækifærin að baki.

Síðustu leikir í lífsins skák

leiknir í tímahraki.

 

Hemmi hafði að vísu svo sannarlega ekki týnt ævi sinni í töf og kák heldur alltaf staðið sig hetjulega í lífsins ólgusjó og nýtt mörg tækifæri svo vel, að verður í minnum haft.  

En síðustu tvær línurnar voru nákvæmlega það, sem Hemmi var að að fást við, að skrifa ævisögu og undirbúa endurkomu sína í fullu veldi á öldur ljósvakans og ætti að minna alla á, að líkt og í skákinni, veit engin sem byrjar hana, hvað hún verður löng og hvernig hún þróast.

Maður, sem gat gert tilbreytisnauðan skurðgröf að hreinni skemmtun aðeins sextán ára gamall og síðan glatt þjóðina og lyft henni upp úr gráma hversdagsins, er afar dýrmæt Guðs gjöf.

Þess vegna er Hemma svo sárt saknað.   


mbl.is „Hey, vantar ekki smá Hemma í kallinn”
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband