Alþingi hefur í raun staðið vörð um ofbeit. Hvað nú ?

Í nýlegu viðtali við Svein Runólfsson, landgræðslustjóra, benti hann á aðstöðumuninn á milli Hafrannsóknarstofnunar og Landgræðslunnar.

Lagaumhverfi þessara stofnana væri gerólíkt. Hafrannsóknarstofnum getur ákveðið leyfilegan afla á einstökum, sett ákvæði um veiðarfæri og fylgt hvorutveggaja eftir. Hún getur með aðeins nokkurra klukkustunda fyrirvara sett á skyndilokanir á einstökum veiðisvæðum.

Stundum heyrast slíkar tilkynningar daglega í útvarpi og yfirleitt finnst öllum þær sjálfsagðar.

Það eru ekki margir dagar síðan ég heyrði lesið í útvarpi upp úr klukkan ellefu að skyndilokun veiða við Melrakkaey tæki gildi innan klukkustundar.

Gerólíkt ástand ríkir í málefnum Landgræðslunnar. Í áratugi hefur stofnunin verið máttlaus gagnvart því hlutverki sínu að hamla gegn gróður- og jarðvegseyðingu vegna þess að nógu skýrar lagaheimildir skortir.

Mér hefur í áratugi verið kunnugt um einstakar bújarðir þar sem skelfilegl ofbeit hefur liðist og líðst enn vegna þess að áratuga áminningar og aðfinnslur Landgræðslunnar eru að engu hafðar.

Í tugum frétta og þátta um þetta fjallaði ég um þetta þegar ég var fréttamaður og hafði lítið sem ekkert upp úr því annað en gagnrýni og ádeilur, bara fyrir það eitt að sýna hvað væri að gerast.

Afréttir, sem sérfræðingar Landgræðslunnar, brynjaðir 100 ára reynslu, lýsa yfir að séu ekki beitarhæfir eru beittir áfram eins og ekkert sé.

Dæmin eru um allt land. Enn er rekið fé í Mellöndin á Mývatnsöræfum meira en aldarfjórðungi eftir að fyrsta umfjöllunin en ekki sú síðasta birtist í sjónvarpi.

Enn er stór hestabújörð á Suðurlandi hræðilega útlítandi vegna ofbeitar, Landgræðslunni og nágrönnum til mikils ama en enginn fær rönd við reist.

Hinn raunverulegi orsakavaldur heitir Alþingi Íslendinga, sem hefur alla tíð látið undir höfuð leggjast að setja lög sem koma skikki á þessi mál. 

1978 datt nýjum landbúnaðarráðherra, Steingrími Hermannssyni, í hug að hægt væri skipuleggja málin í heild þannig að í þeim landshlutum þar sem gróður þyldi vel beitarálag, fengju bændur að halda kvótum sínum og jafnvel auka þá eftir aðstæðum, einkum þar sem sauðfjárrækt væri stærsta atvinnugreinin, en í öðrum landshlutum, þar sem afréttir væru óbeitarhæfir, væru bændur styrktir til að hætta rekstri á hin níddu lönd, enda væri þar í mörgum tilfellum um að ræða landshluta þar sem aðrar atvinnugreinar gæfu mikil tækifæri.

Steingrímur segir í ævisögu sinni að landbúnaðarforystan og landsbyggðarþingmenn hafi brugðist ókvæða við og að hann hefði aldrei þorað að minnast á þetta aftur.

20 árum síðar minntist nýkjörinn formaður landbúnaðarnefndar, Hjálmar Jónsson, á það sama og það fór á sömu lund.

Það þýðir ekki að hafa uppi fögur orð eins og Unnur Brá Konráðsdóttir hefur nú um aukna landgræðslu og skógrækt meðan Landgræðslan er máttlaus gagnvart ofbeit og uppblæstri.

Nýjasta dæmið er innrekstur sauðfjár inn á Almenning og Þórsmörk, eftir 20 ára friðun, en það mun þýða það sama og fyrir 20 árum, að féð raðar sér fyrst inn í moldarflögin þegar það er rekið þar inn, til að klippa burtu nýgræðinginn, sem er það sama og konfekt fyrir það.

Þar með eru þau svæði dauðadæmd og klukkan færð aftur um 20 ár.  

Það mun taka marga áratugi, kannski meira en hálfa öld, að ná til baka landgæðum á þessu svæði eftir þá meðferð sem það fékk af völdum sauðfjárbeitar.

"Ég hef ekki áhyggjur" segir Unnur Brá, en í ljósi reynslunnar hefur hún fulla ástæðu til að hafa áhyggjur, ekki aðeins á þessu sviði umhverfismála, heldur enn frekar á öðrum sviðum.     


mbl.is Hefur ekki áhyggjur af umhverfismálunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"1978 datt nýjum landbúnaðarráðherra, Steingrími Hermannssyni, í hug að hægt væri skipuleggja málin í heild þannig að í þeim landshlutum þar sem gróður þyldi vel beitarálag, fengju bændur að halda kvótum sínum og jafnvel auka þá eftir aðstæðum, einkum þar sem sauðfjárrækt væri stærsta atvinnugreinin, en í öðrum landshlutum, þar sem afréttir væru óbeitarhæfir, væru bændur styrktir til að hætta rekstri á hin níddu lönd, enda væri þar í mörgum tilfellum um að ræða landshluta þar sem aðrar atvinnugreinar gæfu mikil tækifæri."

Ég hef aldrei getað skilið af hverju þetta var ekki gert á sínum tíma, sennilega er þetta of gáfulegt til að hægt hafi verið að framkvæma það.

Dagný (IP-tala skráð) 12.6.2013 kl. 17:20

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Öðruvísi áður Brá,
áhyggjur hún hafði þá,
undir engum lafðin lá,
lostafull nú ekkert smá.

Þorsteinn Briem, 12.6.2013 kl. 18:14

3 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Á Íslandi ríkir ennþá eymur af gamla bændaveldinu. Þetta er auðvitað skaðlegt fyrir íslendinga alla að hafa þetta svona, íslendingar virðast hinsvegar ekki vilja breyta neinu með tilheyrandi valdníðslu og yfirgangi.

Jón Frímann Jónsson, 12.6.2013 kl. 19:39

4 identicon

Sem skógræktandi hef ég reynslu að því að fá rollur nágrannans inn í skógræktina og tapað miklu af nýgróðursettum trjáplöntum.

Í hnotskurn þá er málið þannig að lífverur nágrannans valsa inn á mitt land og drepa lífverurnar sem ég rækta á mínu landi. Nágranninn er algerlega stikkfrí og ber enga ábyrgð á því hvar hans rollur halda sig.

Mín reynsla af einstökum bændum er sú að þeir eru harðduglegir sómamenn.

Sem stétt eru sauðfjárbændur hinsvegar hópur ábyrgðarlausra vesalinga sem valda öðrum landeigendum og ræktendum ómældu tjóni. Að auki geta þeir tæpast talist matvinnungar þar sem styrkir til sauðfjárræktar nema hærri upphæð en launum og launatengdum gjöldum í greininni.

Lausaganga eins og hún tíðkast á Íslandi er einsdæmi í heiminum fer langt í það að vera þjóðarskömm og er bændum til skammar.

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 12.6.2013 kl. 21:30

5 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Aldrei hefur mér látið detta hug að bera saman lagaumhverfi Hafró og Landgræsðlunnar. En hvers vegna getur Landgræðslan ekki gripið fram fyrir þá umhverfisslóða eins og Hafró gerir?

Í mínum huga er það lambakjöt sem fengið er af nauðbeittum afréttum þar sem gróðurinn er í tötrum vera það dýrasta sem við getum látið ofan í okkur. Hvers vegna í ósköpum má ekki framleiða það við betri og hagkvæmari aðstæður?

Smölun Almenninga á fé er mjög dýr enda eru engar náttúrulegar hindranir fyrir sauðfé að komast yfir Þröngá og jafnvel Goðaland. Þessir gömlu afréttir eru mjög erfiðir til smölunar, sennilega þeir erfiðustu í landinu. Hvað kostar að smala afrétti sem þessa? Og hver eru afföllin?

Eg ritaði grein um þetta efni nýverið og sendi Bændablaðinu til birtingar. Væntanlega kemur greinin í næsta blaði.

Vonandi hverfa bændur sem fyrst frá þessari óhagkvæmu framleiðsluaðferð. Áður fyrr lögðust fráfærur og selfarir niður vegna þess að þær borguðu sig ekki. Nú mætti leggja niður í sparnaði ríkuleg fjárútlát Ríkissjóðs til óhagkvæmrar landbúnaðarframleiðslu.Fyrir hluta af þessu mikla fé mætti verja til aukinnar skógræktar. Næstu kynslóðir ættu þá greiðan aðgang að gríðarlega verðmætum náttúruauðlindum í stað þeirra sem núverandi kynslóðir eru að eyða.

Kv.

Guðjón Jensson

Mosfellsbæ

Guðjón Sigþór Jensson, 12.6.2013 kl. 21:54

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þess má geta að Íslandshreyfingin - lifandi land var eina framboðið fyrir kosningarnar 2007 sem lagði fram stefnu í svipuðum dúr og þeir Steingrímur Hermannssson og Hjálmar Jónsson orðuðu og fengu bágt fyrir.

Ómar Ragnarsson, 13.6.2013 kl. 14:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband