24.5.2013 | 17:51
Fágæt iðrun og yfirbót stórþjóðar.
Þjóðverjar voru hataðir um allan heim í lok heimsstyrjaldarinnar síðari. Þeir höfðu fóstra nasismann, mestu villimennsku síðustu alda.
Sú villimennska skildi þeirra eigið land eftir í rústum og tuga annarra landa í sárum, auk dauða tuga milljóna manna.
Sigurvegararnir gátu farið með Þjóðverja eins og þeim sýndist, enda urðu 14 milljónir þýskumælandi manna að flytjast frá heimkynnnum sínum, sem að stærstum hluta höfðu verið byggð Þjóðverjum og undir þeirra stjórn síðan 1774.
Að vísu höfðu Þjóðverjar komist yfir mest allt af sínum hluta af skiptu Póllandi með hervaldi seint á 18. öld og því var skiljanlegt að Pólland yrði endurreist.
Þjóðverjar ákváðu, í stað þess að mögla til dæmis yfir því að Austur-Prússland félli undir Sovétríkin, sem var að mörgu leyti fáránleg ráðstofun, að rífa sig siðferðilega sem þjóð upp frá grunni, taka sig á svo um munaði, og það hafa þeir lagt svo mjög fram um um að gera síðan, að fágætt er hjá stórþjóð.
Auðvitað gat verið pottur brotinn í einstökum málum, eins og til dæmis varðandi Adolf Eichmann, sem hafði sambönd inn í þýska kerfið og Þjóðverjar hefðu sjálfir getað handtekið á undan Ísraelsmönnum.
En hin opinbera og einbeitta viðleitni til umbóta, til dæmis varðandi fólk af öðrum kynstofnum og tregðu til að taka þátt í beitingu hervalds er mjög áberandi í þýsku þjóðlífi. Reynt er eins og kostur er að gera upp við fortíðina og tryggja að hryllingur nýnasisma og þjóðernishroka nái ekki fótfestu á ný.
Hafa allt á hreinu eins og kostur er.
Fyrir nokkrum árum var í gangi skrýtla, að mig minnir nokkurn veginn svona: Veröldin er greinilega að ganga af göflunun: Besti kylfingur heims er svartur, besti rapparinn hvítur, Frakkar saka Bandaríkjamenn um hroka og stærilæti og Þjóðverjar neita að berjast.
Þjóðverjar eru betur meðvitaðir um umhverfismál en flest önnur stórveldi og mér finnst áberandi hve áhugasamir Þjóðverjar og þýskar sjónvarpsstöðvar hafa verið um þessi mál í samskiptum við mig.
Ég held að að frátöldum Færeyingum séu Þjóðverjir bestu vinir Íslands og Íslendinga. Í þeim efnum er ég sammála Styrmi Gunnarssyni.
Það má ekki rugla saman kynþáttaórum nasista og hrifningu Þjóðverja af germanskri menningu og þar með af ómetanlegum þætti Íslendinga til að standa vörð um sameiginlegan menningararf norrænna þjóða.

Richard Wagner, sem átti 200 ára afmæli í fyrradag, var hugsanlega sá listamaður í fremstu röð í Evrópu sem íslenskastur var.
Ég hef í áratugi gengið með þá hugmynd í maganum að taka tæplega hálftíma úrval úr Niflungahringnum og gera mynd af flugferð um landið um leið og hún er spiluð.
Snjáð blöðin í Íslendingasögunum í Wagnersafninu í Bayeruth bera vitni um það, hvaðan hann sótti sér efnivið.
1993 gerði Kristín Helga Gunnarsdóttir sjónvarpsþátt í tilefni af 20 ára afmæli Eyjagossins og notaði tónverkið Finlandiu til að lyfta myndefninu.
Ég fékk upphringingar fólks daginn eftir sem kvartaði yfir því að erlend tónlist eftir tónskáld þjóðar, sem væri alls óskyld Íslendingum, væri notuð í Eyjagossmyndinni.
Ég andmælti þessu á þeim forsendum að Sibelíus hefði verið af sauðarhúsi tónskálda, sem voru undir mjög miklum áhrifum af Wagner, svo miklum, að ef enginn vissi eftir hvern Finlandia væri, myndu menn getað giskað á Wagner.
Á móti sögðu þeir, sem hringdu, að Wagner væri heldur ekki af norrænu bergi brotinn.
Gegn því tefldi ég þeim rökum, að Wagner hefði sótt efnivið öðru fremur sinn úr norrænum fornbókmenntum og að tónlistin eftir hann gæti þess vegna alveg eins verið eftir íslenskan höfund.
Ég endaði símtalið með því að syngja þýska þjóðsönginn og "Yfir voru ættarlandi" og blanda lögunum saman á víxl þannig að ekki heyrðist hvenær var farið úr öðru laginu yfir í hitt til þess að sýna, að íslensk tónskáld hefðu orðið fyrir jafn miklum áhrifum af þýskum tónskáldum og Magnús Eiríksson, KK og Jón Múli hefður orðið fyrir miklum áhrifum af bandarískum djassi og blús.
Það er í tísku hjá sumum að agnúast sem mest út í Þjóðverja af því að þeir eru valdamesta þjóðin í Evrópu og hefur gengið vel með sín mál.
Það er vegna þess að þeir hafa gert gríðarmiklar kröfur til sín sjálfra og hafa því kannski meira efni á því en margir aðrir að gera kröfur til annarra, en slíkt er lítt fallið til vinsælda.
![]() |
Þýskaland vinsælasta ríki heims |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
24.5.2013 | 10:40
Sérstaklega áberandi á beygjuljósum.
Það getur svo sem komið fyrir flesta að vera ekki nógu vakandi við umferðarljós og gera einhver mistök. En hins vegar er það greinilegt að íslenskir ökumenn eru áberandi slæmir í þessu efni á sumum gatnamótum þegar þeir aka yfir á beygjuljósi.
Ég hef um áraraðir þurft að fara um gatnamót Háaleitisbrautar og Kringlumýrarbrautar og gatnamót Grensásvegar og Fellsmúla þar sem þetta er sérstaklega áberandi.
Þar hrúgast upp séríslensk vandamál hvað varðar greiða og örugga umferð.
Í fyrsta lagi áberandi seinagangur við að koma sér af stað þegar grænt ljós kemur. Þá má oft sjá allt að 20-30 metra bil á milli bíla sem fara yfir á beygjuljósi og að fyrstu bílarnir drattast ekki af stað, af því að þeir hugsa bara um sjálfa sig en ekki þá næstu á eftir.
Þetta er fyndið, því að á næstu gatnamótum gætu þeir lent í því að vera aftar í röðinni vegna þess að aðrir frekjuhundar fyrir framan þá standi í vegi fyrir því að þeir komist yfir. Og þá bölva þeir náttúrulega hinum ! Þetta er fyndið í aðra röndina, svona nánast samtök um það að gera sem flestum lífið leitt sitt á hvað !
Og stundum komast bara einn eða tveir bílar yfir, vegna þess að bílar sem koma frá hlið og beygja, halda áfram að fara yfir eftir rautt ljós er komið þar og stela þar með tíma frá bílunum á hinu ljósinu.
Sem sagt: Menn drullast ekki af stað fyrr en eftir dúk og disk eða halda áfram að fara yfir eftir að komið er rautt ljós. Og allir bölva öllum en halda þessari vitleysu samt áfram áratug eftir áratug.
Og síðan er áberandi að þegar mjög mikið álag er á gatnamótum halda menn samt áfram að hrúga sér inn á þau, þótt það blasi við að þeir festist þar og loki fyrir alla umferð um þau úr báðum áttum.
Í Bandaríkjunum er þetta algerlega bannað og liggur sekt við. Ég tel líklegt að aldrei hafi verið sektað fyrir svona framkomu hér á landi og að þetta muni halda áfram að gilda hér eins og margir aðrir ósiðir tillitslausra ökumanna, samanber myndina í pistlinum hér á undan.

P. S.
Set hér inn tvær ljósmyndir frá því síðdegis í dag.
Ökumaður, sem er á einum af minnstu og meðfærilegustu bílum sem völ er á, telur sig eiga heimtingu á að taka tvö bílastæði og leggja bílnum þannig að helmingur er í öðru stæðinu og hinn helmingurinn í hinu.
Sést vel á neðri myndinni hvernig mörk bílastæðanna eru undir miðjum bílnum.

Varaði sig ekki á því, ef með þessu var verið að meina öðrum aðgangi, að ég er á eina bílnum í flotanum, sem kemst af með hálft stæði.
![]() |
Ökumenn virði rauða ljósið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.5.2013 | 17:48
Ekki gefið stefnuljós í áratugi.
Niðurstaða skyndikönnunar lögreglu á stefnuljósanotkun kemur ekki á óvart. Svona hefur þetta verið í 60 ár.
Ég á heima við Háaleitisbraut og hef átt heima með hléum við "botnlangann", sem ég bý við, í alls 30 ár. Það gerist minnst daglega og jafnvel oftar á dag að aka þarf úr þessum botnlanga út á Háaleitisbrautina og þá oftast til vinstri, sem þýðir það að það þarf að vera lag til þess á báðum akreinum, bæði til austurs og vesturs.
Síðast, þegar kom niður botnlangann og varð að bíða við Háaleitisbrautina eftir því að færi gæfist á að beygja til vinstri, hefði það gefist fljótt og vel ef bílstjóri, sem kom úr austri, hefði nennt að gefa stefnuljós í tíma.
En hann gerði það ekki fyrr en hann var í þann veginn að taka beygjuna, svona eins og hann væri að gera þetta af frásagnargleði eftir á um þessa frábæru beygju sína.
Fyrir bragðið missti ég tækifærið sem annars hefði gefist til að komast út úr botnlanganum.
Ég fór að grafa niður í huga minn hvenær það hefði síðast gerst að bílstjóri hefði gefið stefnuljós í tíma á þessum stað.
En hvernig sem ég reyndi að grafa þetta upp, gat ég ekki munað eftir einu einasta skipti, sem nokkur bílstjóri hefði gert þetta.
Og það, sem fyndnast er, að þeir sem taka þessa beygju inn í botnlangann, komast ekki aðra leið til baka og verða þá sjálfir fyrir barðinu á öðrum bílstjórum, sem meina þeim að komast út á Háaleitisbrautina.
Þarna bölva því allir öllum en enginn gerir neitt til að breyta þessu.
Set síðan hér með mynd af nokkur hundruð metra langri biðröð bíla sem bíða í Síðumúla eftir því að komast í austur eða vestur eftir Fellsmúla.

Í þessu ætlaði ég að beygja til hægri og áreiðanlega fyrir framan mig í röðinni.
En eins og sést planta bílstjórarnir, sem ætla til vinstri, bílum sínum þannig niður að þeir eru að hluta til á báðum akreinum og loka þannig leiðinni fyrir þeim, sem ætla að beygja til hægri.
Hægri beygjan er að sjálfsögðu miklu auðveldari og margfalt líklegra að komast þá leið en að beygja til vinstri þar sem báðar akreinar Fellsmúlans verða að vera auðar þegar ekið er inn á hann.
Þarna er búið að merkja tvær akreinar til þess að flýta fyrir umferðinni, sem auðvitað verður greiðari ef báðar akreinarnar eru notaðar og þar af leiðandi miklu styttri biðröð sem skiptir sér á tvær akreinar en ef allir hrúga sér yfir á aðra.
En myndin talar sínu máli.
En í þessu tilfelli nægir bílstjórunum á vinstri akreininni ekki sín akrein, heldur telja sig þurfa hálfa hægri akreinina líka !
Í sumum öðrum tilfellum gætu þeir, sem eru á hægri akreininni smeygt sér framhjá, en þá erum við komin að annarri takmörkun hæfileika íslenskra ökumanna, að hafa enga tilfinningu fyrir stærð bíls síns.
Það væri efni í annan pistil.
![]() |
Einungis þriðjungur gaf stefnuljós |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
23.5.2013 | 12:57
Reynsluleysi þarf ekki að vera slæmt.
Ríkisstjórn þriggja ráðherra, sem settist að völdum 1934 stóð sig vel við afar erfiðar aðstæður kreppunnar miklu. Hermann Jónasson, 37 ára, og Eysteinn Jónsson, 27 ára, komu kraftmiklir og hæfileikaríkir inn í íslensk stjórnmál og voru meðal burðarása í stjórn landsins næstu þrjá til fjóra áratugi.
Stundum getur verið ágætt að láta nýja vendi sópa. Þannig ákvað stjórnlagaráð að ganga að sínu verkefni með nánast autt blað og nýta sér aðferð, sem nefnd hefur verið ítrunarferli og hefur til dæmis verið notuð með góðum árangri í starfsemi nýsköpunar- og sprotafyrirtæki.
Sem dæmi má nefna einstök verkefni hjá CCP þegar setjast þarf niður með autt blað til þess að setja niður hugmynd að tölvuleik, sem fari sigurför um heiminn, og vinna markvisst að útfærslu hugmyndarinnar.
Stjórnlagaráði hefði að mínum dómi aldrei tekist að ljúka verkefni sínu á þann hátt sem það tókst, ef ekki hefði verið unnið eftir ferskum hugmyndum og viðfangsefnið nálgast þannig að alllir legðu sitt af mörkum í pottinn og veldu síðan sameiginlega það besta sem kom fram.
Vonandi farnast nýrri ríkisstjórn vel allt frá fyrsta ríkisstjórnarfundi, þar sem enginn ráðherranna hefur áður setið slíkan fund og allir koma því ferskir að því verkefni að gera ríkisstjórnarfundi sem árangursríkasta og markvissasta.
![]() |
Fólkið í ríkisstjórn Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.5.2013 | 23:21
Ásgeir Ásgeirsson kom stjórn á koppinn, þegjandi og hljóðalaust.
Í desember 1958 var úr vöndu að ráða í íslenskum stjórnmálum. Ríkisstjórn vinstri flokkanna sprakk af því að engin samstaða var um efnahagsráðstafanir. Það leit út fyrir erfiða stjórnarkreppu á versta tíma þegar staðið var í landhelgisdeilu við Breta og óðaverðbólga var að skella á.
Ólafur Thors og Hermann Jónasson voru öndverðir pólar, trúnaðarbresturinn á milli þeirra frá 1942, gerði alla möguleika til samstarfs flokka þeirra illmögulega, og Hermann var grunaður um að hafa með undirmálum spillt fyrir samstjórn flokkanna 1956, sem ekki bætti sambandið á milli þeirra.
Þótt Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur hefðu stóran meirihluta kjósenda á bak við sig, 61%, kom óréttlátt kosningakerfi í veg fyrir að þeir hefðu nógu trygga stöðu á Alþingi vegna deildarskiptingar þingsins.
Það var komin upp ákveðin pattstaða.
Nú kom sér vel að Ásgeir Ásgeirsson forseti hafði verið þingmaður Alþýðuflokksins og þar á undan Framsóknarflokksins og þekkti því völundarhús íslenskra stjórnmála eins og lófana á sér.
Hann sá að það voru sameiginlegir hagsmunir allra flokka nema Framsóknarflokksins að draga ekki lengur þá óhjákvæmilegu og bráðnauðsynlegu aðgerð að breyta kjördæmaskipaninni. Hins vegar yrðu Alþýðubandalagsmenn ófáanlegir til að grípa til aðgerða í kjaramálum til að stöðva verðbólguna, en Sjallar og Kratar gætu átt samleið í því.
Ásgeir notaði sambönd sín til að leiða Sjalla og Krafa saman til að Kratar mynduðu minnihlutastjórn sem fengi frið til að gera bráðabirgðaráðstafanir í efnahagsmálunum með lagaþvingaðri niðurfærslu launa og verðlags.
En til þess að Allaballar stöðvuðu þetta ekki, fengu þeir í staðinn samstöðu þriggja flokka til að breyta kjördæmaskipaninni og kosningalögunum. Það myndi þýða tvennar kosningar næsta ár og þá fengju allir flokkar það fylgi á þingi sem þeir ættu skilið og hægt að byrja upp á nýtt með ný spil á hendi eftir eitt ár.
Þáttur Ásgeirs í myndun minnihlutastjórnarinnar og þar með Viðreisnarsamstarfsins, sem stóð í tólf ár, lá í þagnargildi áratugum saman. Hann möndlaði þetta leynilega, þegjandi og hljóðalaust. Það má deila um það, hvort það réði algerlega úrslitum, en talið er víst að þáttur hans hafi verið afgerandi.
Viðreisnarstjórnin var einhver besta og farsælasta ríkisstjórnin í sögu landsins og slyngur forseti átti einhvern drýgsta þáttinn í að koma því samstarfi á laggirnar.
Þá voru forsetarnir ekki á þönum á milli landa og því síður vinsælir viðmælendur í erlendum fjölmiðlum þannig að það kom ekki til þess að Ásgeir upplýsti fyrir heimi öllum um snilld sína í refskák stjórnmálanna og glöggskyggni sína á rökin fyrir þvi, hver væri hæfastur til að mynda ríkisstjórn.
1959 var það ekki formaður stærsta flokksins, heldur hins minnsta.
Síðan 1959 hef ég talið að það gæti verið afar mikilvægt fyrir forseta Íslands hverju sinni að hafa kynnst innviðum íslenskra stjórnmála þegar erfið staða kemur upp við stjórn landsins.
![]() |
Hvað vakir fyrir Ólafi Ragnari? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.5.2013 | 20:45
Erfitt að halda forystu svona lengi.
Þýskaland var í rúst eftir seinni heimsstyrjöldina og fram til 1953 neyddust Mercedes-Benz verksmiðjurnar til að framleiða sömu bíla og fyrir 1940. En alger umskipti urðu þegar Benz "Ponton kom fram 1953.
Enn þann dag í dag er varla hægt að hugsa sér fullkomnari hönnun á alla lund í þessum stærðarflokki, rými miðað við stærð og þægindi fjöðrunar.
Gallinn var hins vegar sá að næstu árin voru vélarnar fyrir þessa bíla þeim ekki samboðnar, einkum minnsta vélin, sem var gömul hliðarventlavél, eyðslufrek og mengandi.
Til að einfalda framleiðsluferlið voru dýrari bílarnir með sex strokka vélunum alveg eins og fjögurra strokka bílarnir, nema hvað vélarhúsið var lengt og framhjólin færð fram sem því svaraði.
Benz var einna fyrstu framleiðenda til að ráða við framleiðslu á vélum með yfirliggjandi kambásum og síðar beinni innspýtingu og þægindi og gæði bílanna skipuðu þeim í fremstu röð, en þó ekki framar en það, að upp úr 1960 var farið að framleiða ofurBenz, Mercedes Benz 600, með V-8 vél, sem var það óskaplega dýr og þungur, að það var aðeins á færi moldríkra að eiga slíka bíla.
Cadillac hélt því enn ákveðnum sessi sem "standard of the world" hvað snerti lúxusbíl, sem samt var framleiddur í hundruðum þúsunda eintaka ár hvert.
1972 urðu tímamót þegar Benz S-Class kom fram, bíll sem var stærri á alla lund aðrir Benzar en þó ekki neitt lúxusskrímsli eins og Benz 60 hafði verið. Þarna var kominn bíll á viðráðanlegu verði fyrir margfalt fleiri en fram að því gátu keypt bíl sem var hugsanlega besti bíll heims þegar allt var tekið með í reikninginn.
![Mercedes-Benz_500SE[2] Mercedes-Benz_500SE[2]](/tn/400/users/3b/omarragnarsson/img/mercedes-benz_500se_2.jpg)
1979 kom næsta kynslóð sem var jafnvel enn meira stökk fram á við, svo stórt, að nú var i alvöru talað um og viðurkennt að Cadillac væri ekki lengur traustur í sínum sessi, nýr kóngur hefði tekið við eða væri að taka við. Það var ekki eitt heldur allt, svo sem öryggi í fremstur röð.
Í þau rúmlega 30-40 ár sem Benz S hefur verið lúxusbíllinn, sem aðrir hafa orðið að miða sig við, hafa verið gerðar margar og magnaðar atrennur annarra bílaframleiðenda til að velta honum úr sessi.
Líklega var sú alvarlegasta gerð 1990 með tilkomu Lexus 400, en Benz svaraði með nýrri kynslóð S-bíla árið eftir og mikill bardagi stóð næstu árin, enda 7-línan hjá BMW líka með í slagnum og ógnaði hvað snerti sportlega aksturseiginleika.
Svarið hjá Benz var að koma fram með aðeins minni og léttari bíl í næstu kynslóð.
Það er athyglisvert að lengi vel var aðalkeppinauturinn, BMW, með hönnun þar sem farangursrýmið var framar en á Benz. Það sagði sitt um hönnunina hjá Benz þegar BMW gafst upp á þessu á smærri gerðunum í kringum 1990 og færði rýmið aftar til þess að þyngdarhlutföllin yrðu betri og nær 50/50 en verið hafði.
Nú er 6.kynslóð Benz S komin fram og ekki er að sjá annað en að forystan í lúxusflokknum sé enn óbreytt. Að minnsta kosti varla um að ræða keppinaut sem er betri, þótt hann standi kannski jafnfætis.
Það er erfitt að halda jafn erfiðri forystu og að vera "Standard of the world" í bílasmíði.
Það þýðir ekki endilega bíla eins og Rolls-Royce, Bentley eða Maybach, heldur bíla sem höfða ekki aðeins til þeirra allra vandfýsnustu, heldur einnig til tuga eða hundraða þúsunda kaupenda.
Packard mátti telja handhafa titilsins í aldarfjórðung, frá ca 1930-1955, en síðan tók Cadillac við frá 1955 og hélt sessinum í 20-25 ár.
En Benz S hefur haldið sínu frá 1979 eða í meira en 30 ár, lengur en nokkur sambærileg bílategund hefur gert.
Ég á nokkra fornbíla, aðallega smábíla eða örbíla. Ef ég mætti velja mér lúxus fornbíl til að eiga sem jafnframt gæfi hámarks nútímalega hönnun og ferðaþægindi, en þó viðunandi bensíneyðslu myndi Benz SEL með V-8 frá árunum 1982-88 verða fyrir valinu.
Þrátt fyrir mikið rými og þægindi aðeins rúmlega 1600 kílóa bíll með eyðslu niður í 9 lítra á hundraðið á þjóðvegi.
En Mercedes Benz 190 '65 kæmi líka vel til greina.
![]() |
Tæknivæddasti fólksbíllinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
22.5.2013 | 12:14
"Hrein og endurnýjanleg orka" áfram orðin tóm?
"Fyrirmynd annarra þjóða í umhverfismálum." "Hrein og endurnýjanleg orka". Stór orð í stjórnarsáttmála.
Vonandi fylgja orðunum efndir, en til þess þarf meira en orðin tóm.
Það er búið að nota þau aftur og aftur í áratugi á sama tíma en skuldbindingar okkar í Ríósáttmálanum um sjálfbæra þróun og að náttúran njóti vafans hafa verið að engu hafðar.
Á síðasta hálfum öðrum áratug hefur verið virkjað álíka mikið afl í gufuaflsvirkjunum og nemur allri orku virkjananna á Þjórsár- Tungnaársvæðinu.
Því er blákalt haldið fram að orkan sé "hrein og endurnýjanleg" þótt settar séu niður þær forsendur að hún endist í aðeins 50 ár. Það heitir rányrkja á Íslensku.
Með Eldvarpavirkjun á að stytta líftíma svæðisins Svartsengi-Eldvörp niður fyrir 40 ár!
Barnabörnum okkar er ætlað að standa uppi síðar á þessari öld og ráða fram úr afleiðingum græðgi okkar, ónýtum virkjanasvæðum og eyðileggingu náttúruverðmæta.
Það á að vera hægt að nýta jarðvarmann svo hann endist betur, en þá þarf gerbreytingu á orkunýtingarstefnunni sem nú beinist að því að halda áfram að umturna náttúruverðmætum á fullri stóriðjuhraðlestarferð.
"Hreina orkan" er þess eðlis að loftgæði á höfuðborgarsvæðinu standast ekki lágmarkið, sem sett er í Kaliforníu svo mánuðum skiptir á hverju ári og fara hvað eftir annað niður fyrir íslensk heilsuverndarmörk.
Ekki er að sjá að faghóparnir, sem gerðu rammaáætlun, hafi áttað sig á því að loforðin um að koma í veg fyrir mengun frá gufuaflsvirkjunum í mati á umhverfisáhrifum þeirra urðu einskis virði.
Nú á samkvæmt stjórnarsáttmálanum hins vegar að hengja sig á álit faghópanna sem eins konar guðsorð til þess að geta haldið áfram hernaðinum á hendur náttúruundra Mývatnssveitar og Reykjanesskagans.
Þótt reynt væri í fyrri valdatíð Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks að nota umhverfisráðuneytið sem eins konar þjónustustofnun fyrir iðnaðar- og landbúnaðarráðuneytin var umhverfisráðuneytið þó sjálfstætt að nafninu til og hafði sinn sérstaka ráðherra.
Í ljósi þeirrar reynslu hringir það bjöllum að nú eigi það að vera undirráðuneyti hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti.
Komandi ríkisstjórn á að dæma af verkum hennar. Vonandi verða þau góð og því ástæða til að óska henni velfarnaðar. En þá þurfa efndir að fylgja loforðum.
![]() |
Verðbólguskot verði leiðrétt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
22.5.2013 | 10:07
Gálgahraunsgerræðið: 2007 af verstu gerð.
90 þúsund bílar aka um Miklubrautina við Elliðaár, þar sem eru stærstu gatnamót landsins og leiðir liggja til allra átta á svæði, þar sem næstum 200 þúsund manns búa.
Í hvaða heimi lifir meirihluti bæjarstjórnar Álftanes að gera ráð fyrir fjórföldun umferðar út á Álftanes upp í 22 þúsund bíla á dag til byggðar, þar sem 2700 manns búa?
Þessi tala, 22 þúsúnd bílar á dag, er langt utan við veruleikann eins og samanburður við aðra staði á höfuðborgarsvæðinu sýnir vel.
Á tíma, þegar velta þarf fyrir sér hverri krónu í útgjöldum þjóðfélagsins líta þessir menn á það sem sjálfsagðan hlut að þeim verði gefnir milljarðar af fjármunum landsmanna til að þjóna mikilmennskubrjálæði þeirra.
Orðið 2007 er oft notað um loftkastala og sápukúlur í framkvæmdum og fjármálum, sem náðu nýjum hæðum það ár. Gálgahraunsgerræðið er 2007 af verstu gerð.
Sigurður Sigurðarson notar rétta orðalagið í bloggi sínu: Þeir ætla að hrauna yfir allt og alla, nokkuð sem yfirvöldum tókst ekki hér um árið þegar leggja átti hraðbraut eftir endilöngum Fossvogsdalnum með talsvert skárri rökum en nú á að beita í Gálgahrauni.
Í dag dytti engum í hug að leggja hraðbraut eftir Fossvogsdal. Þar eru nú griðasvæði fyrir fólk og fugla í skógarlundum þar sem hægt er að "upplifa kjarrið í kyrrðinni".

Í Gálgahrauni er enn hægt að "upplifa Kjarval í kyrrðinni" við frægar hraunmyndanir og söguslóðir með fótatak genginna kynslóða á dýrmætu svæði, sem er á náttúruminjaskrá, en það ætla jarðýtufíklarnir að hrauna yfir í orðsins verstu merkingu.
Í lögum er gert skylt að skoða lausn, sem liggur nærri núverandi stöðu mála varðandi vegabætur, en því harðneita hinir yfirgangssömu ráðamenn sem hafa vanist völdum og það miklum og langvarandi völdum. Vald spillir og mikið og langvarandi vald gerspillir.
Vel er hægt að bæta Álftanesleið um sömu slóðir og hún liggur nú með breikkun vegar, tveimur hringtorgum og stýrðum umferðarljósum eins og íbúar vítt og breitt um höfuðborgarsvæðið sætta sig vel við.

En jarðýtufíknir valdsherrar geta ekki látið sér neitt venjulegt nægja. Framkvæmdaleyfið er útrunnið og margt annað er bjagað en engu er líkara en að þeir telji það úrslitaatriði að geta verið hálfri mínútu fljótari á fund forsetans ef svo ber undir.
![]() |
Breyta ekki fyrri áætlun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.5.2013 | 19:55
Meiri samfelldur snjór en í mörg ár á NA-hálendinu.
Meiri samfelldur snjór er nú á norðausturhálendinu en ég hef séð í mörg ár seinni partinn í maí.
Hins vegar hefur snjór á suðvestanverðu hálendinu hefur sjaldan verið minni á þessum árstíma.
Myndirnar hér á síðunni voru teknar í flugi á TF-REX í gær, en þá var bjart á norðausturlandi.
Það voru viðbrigði að fara héðan að sunnan og enda ferðina eins og í annarri heimsálfu hinum megin á landinu.
Það þurfti að krækja suður fyrir Mýrdalsjökul og fara síðan þvert norður yfir miðjan Vatnajökul, en veðraskil með þykkum skúra- og éljaskýjum lá frá vestanverðum Skeiðarársandi norður yfir miðjan Vatnajökul.

Þegar komið var á norðanverðan jökulinn blöstu Kverkfjöll og Herðubrreið við.
Varla var á dökkan díl að sjá, sem er ólíkt því sem verið hefur undanfarin vor.
Það er auðvelt að fylgjast með veðri þarna heima hjá sér á vefnum vedur.is, en mjög fáa daga hefur hitinn farið yfir frostmark seinni part vetrar og miklu oftar úrkoma á þessu úrkomuminnsta svæði landsins en venja er en hins vegar lítið um stórviðri.
Sauðárflugvöllur var þakinn jafnföllnum snjó eins til eins og hálfs metra þykkum eins og sjá má.

Veðurmælingastöð Veðurstofunnar er skammt suðvestan við völlinn.
Í baksýn í 35 kílómetra fjarlægð eru Kverkfjöll.
Það, hve sléttur snjórinn er, staðfestir það að ekki hefur verið stórviðrasamt í vetur, sem og það að báðir vindpokarnir eru heilir, en þeir endast yfirleitt ekki nema 2-3 ár ef stórviðrasamt er.
Í gær var þarna logn eða andvari eins og sést á vindpokunum.

Í fyrra opnaðist völlurinn um mánaðamótin maí-júní en spáð er svölu veðri næstu dagana svo að búast má við að völlurinn og slóðar um norðausturhálendið opnist mun síðar en í fyrra.
Síðustu þrjá daga hefur hitinn komist upp í nokkur stig yfir bládaginn, en það hefur hrokkið skammt.
Stafirnir SA á þaki húsbílsins, sem er þarna sem flugstöð og athvarf, eru síðari hlutinn af alþjóðlegum einkennisstöfum flugvallarins, sem eru BISA.

BI er tákn fyrir Ísland en SA eru tveir fyrstu stafirnir í "Sauðárflugvöllur", þ. e. Sauðarflugvöllur International Airport !
![]() |
Snjórinn lætur undan eftir langan vetur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.5.2013 | 10:32
"Tapararnir" eru oftast alltof margir.
Það er út af fyrir sig gott að setja sér einhver markmið til að keppa að að ná. Hitt er verra ef markmiðin eru þess eðlis að yfirgnæfandi líkur séu fyrir því að þurfa að upplifa tap og hafa lagt svo mikið á sig og vænst svo mikils að afleiðingin verði alvarleg fráhvarfseinkenni, stórfellt andlegt áfall og þunglyndi.
20. mínútna stuttmyndin "Þú verður að líta vel út" sem frumsýnd var á Reykjavík Short Docs á dögunum dregur upp eftirminnilega mynd af þessu.
Söguhetjan fer í keppni sem krefst ofurmannlegrar áreynslu og gríðarlegs álags á löngu tímabili.
Keppnin er þannig sett upp að aðeins lítill hluti þeirra, sem taka þátt, komast áfram, og í lokin kannski aðeins einn, en yfirgnæfandi meirihluti ber ekkert úr býtum annað en djúpsár vonbrigði eftir ofurmannlegar fórnir, sem virðast ekkert hafa gefið, heldur þvert á móti kostað allt of mikið.
Umgerð svona íþrótta, andinn að baki þeim, og keppnin sjálf þarf að breytast svo að sem flestir, helst allir, sem taka þátt, fái verðskuldaða umbun fyrir að hafa lagt sig svo mikið fram að aðdáun ætti að vekja í stað vissrar "útskúfunar" .
Þegar horft var yfir allan þáttakendahópinn í myndinnni blasti við hrífandi mynd af stórkostlegum árangri og yfirgengilegum fórnum hjá stórum hópi fólks.
Það eitt hefði átt að tryggja það að hver og einn hefði getað unað vel við sinn hlut þegar upp var staðið.
Í staðinn snýst allt um þá fáu eða kannski bara þennan einn sem sigraði og hinir sitja eftir með sárt ennið og "lúsers"-stimpilinn.
Og uppleggið, sem orða mætti í orðum Snæfríðar Íslandssólar, "frekar þann versta en þann næstbesta" er augljóslega allt of algengt og innprentað hjá of mörgum.
![]() |
Þú verður að tjilla meira |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)