Erfitt að halda forystu svona lengi.

Þýskaland var í rúst eftir seinni heimsstyrjöldina og fram til 1953 neyddust Mercedes-Benz verksmiðjurnar til að framleiða sömu bíla og fyrir 1940. En alger umskipti urðu þegar Benz "Ponton kom fram 1953. Mercedes_180_2_v_sst[1]

Enn þann dag í dag er varla hægt að hugsa sér fullkomnari hönnun á alla lund í þessum stærðarflokki, rými miðað við stærð og þægindi fjöðrunar.

Gallinn var hins vegar sá að næstu árin voru vélarnar fyrir þessa bíla þeim ekki samboðnar, einkum minnsta vélin, sem var gömul hliðarventlavél, eyðslufrek og mengandi.

Til að einfalda framleiðsluferlið voru dýrari bílarnir með sex strokka vélunum alveg eins og fjögurra strokka bílarnir, nema hvað vélarhúsið var lengt og framhjólin færð fram sem því svaraði.  

Benz var einna fyrstu framleiðenda til að ráða við framleiðslu á vélum með yfirliggjandi kambásum og síðar beinni innspýtingu og þægindi og gæði bílanna skipuðu þeim í fremstu röð, en þó ekki framar en það, að upp úr 1960 var farið að framleiða ofurBenz, Mercedes Benz 600, með V-8 vél, sem var það óskaplega dýr og þungur, að það var aðeins á færi moldríkra að eiga slíka bíla.

Cadillac hélt því enn ákveðnum sessi sem "standard of the world" hvað snerti lúxusbíl, sem samt var framleiddur í hundruðum þúsunda eintaka ár hvert.

1972 urðu tímamót þegar Benz S-Class kom fram, bíll sem var stærri á alla lund aðrir Benzar en þó ekki neitt lúxusskrímsli eins og Benz 60 hafði verið. Þarna var kominn bíll á viðráðanlegu verði fyrir margfalt fleiri en fram að því gátu keypt bíl sem var hugsanlega besti bíll heims þegar allt var tekið með í reikninginn.

Mercedes-Benz_500SE[2]

1979 kom næsta kynslóð sem var jafnvel enn meira stökk fram á við, svo stórt, að nú var i alvöru talað um og viðurkennt að Cadillac væri ekki lengur traustur í sínum sessi, nýr kóngur hefði tekið við eða væri að taka við. Það var ekki eitt heldur allt, svo sem öryggi í fremstur röð.

Í þau rúmlega 30-40 ár sem Benz S hefur verið lúxusbíllinn, sem aðrir hafa orðið að miða sig við, hafa verið gerðar margar og magnaðar atrennur annarra bílaframleiðenda til að velta honum úr sessi.

Líklega var sú alvarlegasta gerð 1990 með tilkomu Lexus 400, en Benz svaraði með nýrri kynslóð S-bíla árið eftir og mikill bardagi stóð næstu árin, enda 7-línan hjá BMW líka með í slagnum og ógnaði hvað snerti sportlega aksturseiginleika.

Svarið hjá Benz var að koma fram með aðeins minni og léttari bíl í næstu kynslóð.

Það er athyglisvert að lengi vel var aðalkeppinauturinn, BMW, með hönnun þar sem farangursrýmið var framar en á Benz. Það sagði sitt um hönnunina hjá Benz þegar BMW gafst upp á þessu á smærri gerðunum í kringum 1990 og færði rýmið aftar til þess að þyngdarhlutföllin yrðu betri og nær 50/50 en verið hafði.  

Nú er 6.kynslóð Benz S komin fram og ekki er að sjá annað en að forystan í lúxusflokknum sé enn óbreytt. Að minnsta kosti varla um að ræða keppinaut sem er betri, þótt hann standi kannski jafnfætis.

Það er erfitt að halda jafn erfiðri forystu og að vera "Standard of the world" í bílasmíði.

Það þýðir ekki endilega bíla eins og Rolls-Royce, Bentley eða Maybach, heldur bíla sem höfða ekki aðeins til þeirra allra vandfýsnustu, heldur einnig til tuga eða hundraða þúsunda kaupenda.

Packard mátti telja handhafa titilsins í aldarfjórðung, frá ca 1930-1955, en síðan tók Cadillac við frá 1955 og hélt sessinum í 20-25 ár.

En Benz S hefur haldið sínu frá 1979 eða í meira en 30 ár, lengur en nokkur sambærileg bílategund hefur gert.

Ég á nokkra fornbíla, aðallega smábíla eða örbíla. Ef ég mætti velja mér lúxus fornbíl til að eiga sem jafnframt gæfi hámarks nútímalega hönnun og ferðaþægindi, en þó viðunandi bensíneyðslu myndi Benz SEL með V-8 frá árunum 1982-88 verða fyrir valinu. 

Þrátt fyrir mikið rými og þægindi aðeins rúmlega 1600 kílóa bíll með eyðslu niður í 9 lítra á hundraðið á þjóðvegi.

En Mercedes Benz 190 '65 kæmi líka vel til greina.


mbl.is Tæknivæddasti fólksbíllinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórhallur Birgir Jósepsson

Mér finnst afar hæpið að Lexus 400 hafi veitt Benz nokkra samkeppni um 1990. Ég var á bílamessunni í Frankfurt 1989 og þar sögðu kynningarfulltrúar frá Benz (í hvíslingum) að þeir væru hræddir um að nýja Sjöan frá BMW væri S-Benzanum fremri. Ég held Lexusinn hafi ekki farið að narta í Benz fyrr en nú á allra síðustu árum.

Cadillac á sér mun merkari sögu en þú vilt vera láta. Hann var fullkomnasti lúxusbíllinn óhætt að segja frá byrjun (í árdaga 20. aldar) fram undir sirka 1960, þá hrakaði honum mjög þar til nýju bílarnir með Northstar vélinni komu á 10. áratugnum. Duesenberg, Packard, Rolls, Hispanio de Suiza og etv fleiri veittu honum öðru hverju samkeppni, en Caddyinn var ávallt fremstur í tækni og þægindum, en vissulega ekki alltaf í verði og íburði.

Nokkrir leiðarsteinar Cadillac:  Fyrsti bíllin settur saman úr stöðluðum hlutum, sem hægt var að flytja tilviljanakennt á milli bíla, þ.e. fyrsti staðlaði bíllinn. Það var raunveruleg bylting í bílasmíði. Fyrsti bíllinn með rafmagnsstarti. V-8 og V-16 toppventlavélar. Fyrsti bíllinn með svo fullkomna sjálfskiptingu að hún gat þolað hámarksátök vélanna og dugað hundruð þúsunda mílna og ekki var hægt að finna gírskiptingarnar (Rolls Royce skipti úr eigin skiptingum yfir í TH 400 frá Cadillac (GM) þegar þær komu fram, einmitt af þessum ástæðum).

Loksins: Mér þykir þú góður að ná SEL-420/SEL-500 V-8 1982-1988 niður fyrir 15 á hundraði, að ekki sé talað um niður í 9 :)

Þórhallur Birgir Jósepsson, 22.5.2013 kl. 23:24

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég ek þegar ég get á aðeins rúmlega 80 kílómetra hraða á þjóðvegunum og stunda algeran sparakstur. Á þann hátt kem ég bílunum, sem ég eki á góðum sumardegi langleiðina niður að uppgefinni eýðslu í slíkum akstri.

Þjóðhöfðingjar og helstu ráðamenn völdu Packard öðrum bílum fremur á árunum 1930 og framyfir 1950, jafnvel þótt 1000 punda þung áttagata 356 kúbika línuvélin væri orðin fornleg miðað við miklu léttari og nýtískulegri 331 kúbika V-8 vélina sem kom  í Caddy .

Meira að segja sumir of lengi. Þannig var Packard 1957, sem keyptur var fyrir íslenska forsetann ekki ekta Packard heldur "Packardbaker," það er íburðarmikill Studebaker.

Síðasti ósvikni Packardinn var 1956 módelið.

Það er ekki hægt að taka Duesenberg, Rolls,  Hispano de Suiza eða Bugatti Royale með, þeir voru svo langtum dýrari og fáir framleiddir.

Lexus 400 var hljóðlátasti bíllinn þegar hann kom til sögu. Þeir lögðu vélina og driflínuna alla í þráðbeina línu til að losna við minnsta hristing og hljóðmældu innréttinguna þannig hávísindalega að mismunandi gerðir af suði eða hljóði upphæfu hver aðra.

Og V-8 vélin var gersemi. En Benz og BMW svöruðu hið snarasta með enn betri bílum.  

Ómar Ragnarsson, 23.5.2013 kl. 00:15

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það má ekki einblína um of á vélina í bílunum, því að fjöðrun og hönnun skrokksins ræður mestu um þægindin. Þannig fór Cadillac ekki yfir í sjálfstæða fjöðrun að aftan fyrr en 40 árum eftir að Benzinn hafði gert það !

Ómar Ragnarsson, 23.5.2013 kl. 00:24

4 identicon

Ég er líka veikur fyrir  S Benz frá 80 til 88. Kannski vegna þess að vinur minn átti svona bíla þegar þeir voru nýlegir. Þetta voru fádæma ljúfir vagnar.

 Þegar þetta voru orðnir fornbílar datt mér í hug að kaupa einn svona, til að lifa út bíladelluna. Ég googlaði mig þá inn á Amerískt forum þeirra sem eiga svona bíla.

Þar spurði einhver hvað bæri að íhuga við kaup á gömlum S Benz. Svarið var á þessa leið:

"Theese cars will not nickel and dime you to death. They will one , two and threethousand you to financial ruin !

Ég er Benzlaus ennþá.

Guðmundur Guðmundsson (IP-tala skráð) 23.5.2013 kl. 16:35

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Líklega skynsamlegt hjá þér. En ef ég ætti svona bíl yrði honum ekki ekið nema kannski þúsund kílómetrar á ári.

Ómar Ragnarsson, 23.5.2013 kl. 22:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband