Ásgeir Ásgeirsson kom stjórn á koppinn, þegjandi og hljóðalaust.

Í desember 1958 var úr vöndu að ráða í íslenskum stjórnmálum. Ríkisstjórn vinstri flokkanna sprakk af því að engin samstaða var um efnahagsráðstafanir. Það leit út fyrir erfiða stjórnarkreppu á versta tíma þegar staðið var í landhelgisdeilu við Breta og óðaverðbólga var að skella á.

Ólafur Thors og Hermann Jónasson voru öndverðir pólar, trúnaðarbresturinn á milli þeirra frá 1942, gerði alla möguleika til samstarfs flokka þeirra illmögulega, og Hermann var grunaður um að hafa með undirmálum spillt fyrir samstjórn flokkanna 1956, sem ekki bætti sambandið á milli þeirra. 

Þótt Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur hefðu stóran meirihluta kjósenda á bak við sig, 61%, kom óréttlátt kosningakerfi í veg fyrir að þeir hefðu nógu trygga stöðu á Alþingi vegna deildarskiptingar þingsins. 

Það var komin upp ákveðin pattstaða. 

Nú kom sér vel að Ásgeir Ásgeirsson forseti hafði verið þingmaður Alþýðuflokksins og þar á undan Framsóknarflokksins og þekkti því völundarhús íslenskra stjórnmála eins og lófana á sér.

Hann sá að það voru sameiginlegir hagsmunir allra flokka nema Framsóknarflokksins að draga ekki lengur þá óhjákvæmilegu og bráðnauðsynlegu aðgerð að breyta kjördæmaskipaninni. Hins vegar yrðu Alþýðubandalagsmenn ófáanlegir til að grípa til aðgerða í kjaramálum til að stöðva verðbólguna, en Sjallar og Kratar gætu átt samleið í því.

Ásgeir notaði sambönd sín til að leiða Sjalla og Krafa saman til að Kratar mynduðu minnihlutastjórn sem fengi frið til að gera bráðabirgðaráðstafanir í efnahagsmálunum með lagaþvingaðri niðurfærslu launa og verðlags.

En til þess að Allaballar stöðvuðu þetta ekki, fengu þeir í staðinn samstöðu þriggja flokka til að breyta kjördæmaskipaninni og kosningalögunum. Það myndi þýða tvennar kosningar næsta ár og þá fengju allir flokkar það fylgi á þingi sem þeir ættu skilið og hægt að byrja upp á nýtt með ný spil á hendi eftir eitt ár.

Þáttur Ásgeirs í myndun minnihlutastjórnarinnar og þar með Viðreisnarsamstarfsins, sem stóð í tólf ár, lá í þagnargildi áratugum saman. Hann möndlaði þetta leynilega, þegjandi og hljóðalaust. Það má deila um það, hvort það réði algerlega úrslitum, en talið er víst að þáttur hans hafi verið afgerandi. 

Viðreisnarstjórnin var einhver besta og farsælasta ríkisstjórnin í sögu landsins og slyngur forseti átti einhvern drýgsta þáttinn í að koma því samstarfi á laggirnar. 

Þá voru forsetarnir ekki á þönum á milli landa og því síður vinsælir viðmælendur í erlendum fjölmiðlum þannig að það kom ekki til þess að Ásgeir upplýsti fyrir heimi öllum um snilld sína í refskák stjórnmálanna og glöggskyggni sína á rökin fyrir þvi, hver væri hæfastur til að mynda ríkisstjórn. 

1959 var það ekki formaður stærsta flokksins, heldur hins minnsta. 

Síðan 1959 hef ég talið að það gæti verið afar mikilvægt fyrir forseta Íslands hverju sinni að hafa kynnst innviðum íslenskra stjórnmála þegar erfið staða kemur upp við stjórn landsins. 

 


mbl.is „Hvað vakir fyrir Ólafi Ragnari?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Forsetinn er hægri hönd fólksins í landinu og hann á að vera vakandi fyrir því að stilla pólitíkina af eins og tíðarandin gerir kröfu um.

Höfum við ekki heyrt að Hæstiréttur láti almenningsálitið ráða för hvernig dæmt er sé ekki lagastafur til sem kemur í veg fyrir það?

Við eigum að virða forsetann sérstaklega sem nú er því hann er búinn að bjarga miklu fyrir land og þjóð og forsetinn er vonandi búinn að koma á aga í íslenskum stjórnmálum sem á eftir að koma okkur til góða í framtíðinni með betri og heiðarlegri stjórnmálamenn í forsvari en oft áður

Baldvin Nielsen

B.N. (IP-tala skráð) 22.5.2013 kl. 23:48

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Allt var það nú ferlegt flopp,
Framsókn át þar ísinn,
Sigmundur svo komst á kopp,
kátur varð þá grísinn.

Þorsteinn Briem, 23.5.2013 kl. 00:21

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

28.8.2009:

"Alþingi. 137. löggjafarþing, 59. fundur. Atkvæðagreiðsla, 136. mál. Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta (Icesave-samningar). Þskj. 346, svo breytt.

Atkvæði féllu þannig: Já sögðu 34 en 14 nei, 14 greiddu ekki atkvæði og einn var fjarverandi."

"Sátu hjá: Ásbjörn Óttarsson, Bjarni Benediktsson, Einar K. Guðfinnsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Jón Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson, Ólöf Nordal, Pétur H. Blöndal, Ragnheiður E. Árnadóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Tryggvi Þór Herbertsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þór Saari."

Þorsteinn Briem, 23.5.2013 kl. 00:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband