1.5.2013 | 17:32
Kannski sú fjölmennasta í áraraðir?
Í kröfugöngu dagsins í dag bættust að þessu sinni um það bil fimm þúsund þátttakendur í aftasta hluta hennar, sem kölluðu sig Grænu gönguna. Þar voru uppi hafðar alþjóðlegar kröfur um sjálfbæra þróun eða góðyrkju í stað rányrkju og arðráns, kröfur til heilnæms vatns, lofts, hafs og aðgangs að óspilltri náttúru, sem ekki fela aðeins í sér lífsgæði og lífskjör, heldur skapar stóraukin eftirsókn ferðamanna eftir þeim gæðum þúsundir nýrra starfa.
Viðbót náttúruverndarfólksins gerði samanlagða göngu kannski þá stærstu, sem sést hefur 1. maí í mörg ár.
En fyrst og fremst voru Græn ganga og útifundur helguð einstæðri náttúru Íslands, heimsgersemi sem okkiur ber sem vörslumenn að virða og vernda.
Athöfn göngumanna á Austurvelli varð mikklu lengri en búist hafði verið við, því að það tók drjúgan tíma að bíða þar eftir göngunni, sem var svo löng, að þegar staðið var á horninu gatnamóta Austurstrætis og Pósthússstrætis sá ekki fyrir endann á henni handan við gatnamót Laugarvegar og Skólavörðustígs.
Enginn átti von á þessari miklu þátttöku og því voru aðeins gerðir eitt þúsund grænir fánar til að stinga niður í klukkustund fyrir framan Alþingishúsið.
Nú eru stjórnmálaleiðtogar að möndla með málaflokka í stjórnarmyndunarviðræðum og því mátti það ekki seinna vera en að þverpólitísk fjöldahreyfing hvatti þá til að vinna gott starf varðandi umhverfismálin.
![]() |
Fjölmenn kröfuganga í Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
30.4.2013 | 19:04
Hálfdrættingur á við Ólaf Ragnar.
Forseti Íslands hefur nú eignast þjáningarbróður varðandi það að falla af hestbaki og glíma við afleiðingar byltunnar. Þetta er forseti Túrkmenistan. Hann er þó ennþá aðeins hálfdrættingur á við okkar forseta.
Og forseti Túrkmenistan á enga möguleika á að gera þetta á jafn táknrænan hátt og okkar forseti hvað varðar möguleika á orðalagi.
Í íslensku er nefnilega talað um að valdamen "axli ábyrgð" og það má leika sér með það orðalag. Og í slíkum orðaleik hefur enginn "axlað" ábyrgð í svipuðum mæli og Ólafur Ragnar, nefnilega tvisvar, og meira að segja í bæði skiptin á sömu öxlinni.
![]() |
Forsetinn féll af hestbaki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30.4.2013 | 08:44
Þátttaka græna fólksins í hátíðarhöldum 1. maí er óhjákvæmileg.
Þessa dagana eru þegar byrjaðar viðræður um stjórnarsamvinnu og innihald stjórnarsáttmála í einstökum málaflokkum. Einn þeirra málaflokka eru umhverfismál, sem nær ekkert fengust rædd í kosningabaráttunni og komandi ríkisstjórn hefur því ekki sams konar umboð frá kjósendum í þeim málum eins og þeim málum, sem voru nær eingöngu rædd alla kosningabaráttuna.
Þess vegna telja 15 umhverfis-og náttúruverndarsamtök það nauðsynlegt að hvetja nýkjörið Alþingi á jákvæðan hátt til góðra verka í umhverfismálum, íhuga þau vel og vanda til verka.
Við munum líka minna á að í nýjum skoðanakönnunum var góður meirihluti með því að verja Mývatn og yfir 60% þeirra, sem tóku þátt, voru andvígir nýjum álverum. Þessi mál þarf að kryfja til mergjar.
Það er tilviljun að eini dagurinn, sem í boði er til að gera þetta nógu tímanlega, er morgundagurinn, alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins, sem við virðum og styðjum á alla lund.
En það á ekki að vera vandamál ef rétt er að staðið. Í stað þess að ganga sérstaka göngu og keppa við kröfugöngu verkalýðsins sýnum við henni virðingu með vinsamlegri og jákvæðri stuðningsþátttöku.
Við viljum að engu leyti eigna okkur daginn eða draga athyglina frá honum og baráttumálum verkalýðsins, heldur viljum við þvert á móti með því að verða öftust í árlegri kröfugöngu leggja okkar af mörkum til þess að gera heildarþátttökuna og heildarstærð hennar sem stærsta og veg hennar sem mestan, - verða aftast til þess trana okkur ekki fram og nefnum okkar hluta göngunnar grænu gönguna.
Verðum meðal annars með spjöld sem styðja meginkröfur dagsins.
Við verðum með græna fána, en munum víkja af leið í stutta stund og setja þá niður í klukkustund fyrir framan Alþingishúsið í stuttri athöfn, sem á engan hátt á að trufla baráttufund á Ingólfstorgi.
Við erum flest eða höfum verið launþegar og munum því flest sameinast fundarmönnum á Ingólfstorgi án grænna fána til þess að gera fundinn sem stærstan og glæsilegastan á okkar hljóða hátt.
Það er áratuga hefð fyrir því að fólk úr öllum stjórnmálaflokkum og ýmsir sérhópar, svo sem herstöðvaandstæðingar, femínistar o. s. frv. taki þátt í kröfugöngunni og leggi sitt af mörkum til að gera hana sem stærsta en hafi jafnframt uppi spjöld með sínum áhersluatriðum. Þegar femínistar fóru í gönguna 1970 vakti það litla hrifningu sumra, en þætti sjálfsagt nú.
Við leggjum áherslu á græna hagkerfið, sem var samþykkt einróma á síðasta þingi og er brýnt hagsmunamál fyrir launþega og alla landsmenn.
Við bendum á að hreint og heilnæmt vatn, loft og haf og aðgangur að einstæðri og óspilltri náttúru eru hluti af lífsgæðum og lífskjörum allra landsmanna og að þessi gæði draga stórvaxandi fjölda ferðamanna til landsins sem skapa þúsundir nýrra starfa ár hvert.
Við bendum líka á að í frumvarpi að nýrri stjórnarskrá, sem 64% þáttakenda í þjóðaratkvæðagreiðslu studdi, og yfir 80" studdu auðlindakaflann, er eitt af mikilvægustu grundvallarákvæðunum þetta: "Náttúra Íslands er undirstaða lífs í landinu. Því ber öllum að virða hana og vernda".
Annað ákvæði snýr að því að landsnytjar hlíti lögmálum sjálfbærrar þróunar en ekki rányrkju sem bitni á komandi kynslóðum.
21. öldin færir öllu mannkyni viðfangsefni af áður óþekktri stærð sem varðar framtíð mannsins á jörðinni, á tímum þar sem að óbreyttu er stefnt að því í skammtímagræðgi að kippa fótunum að ganga svo á auðlindir jarðar á þann hátt sem bitna mun fyrst og mest á alþýðu allra landa um aldir.
![]() |
Búist við umboði forsetans í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
29.4.2013 | 13:28
Munurinn á Styrmi og Bjarna.
Skelfing er að heyra ungan stjórnmálaleiðtoga tala eins og gamlan afturhaldssegg um persónukjör, svo mikið afturhald, að það nær aftur fyrir 1851.
Hann gefur frat í þann vilja, sem kom fram hjá Þjóðfundi, stjórnalagaráði og í þjóðaratkvæði síðastliðið haust að innleiða persónukjör í auknum mæli.
Þvert á móti telur hann það stóran galla persónukjörs, hve mörg atkvæði "falli dauð niður", og fyrst svo er, má álykta að honum þyki persónukjör hið versta óráð
Rökrétt væri því í framhaldinu að hann beiti sér fyrir því að leggja prófkjör niður hjá Sjálfstæðisflokknum.
Röksemdafærsla Bjarna er sú að það sé í góðu lagi að meira en 20 þúsund atkvæði detti dauð niður að óþörfu í Alþingiskosningum, og nefnir hann sérstaklega kjör til stjórnlagaráðs sem samanburðardæmi.
Þar er hins vegar ólíku saman að jafna.
Í Alþingiskosningum hefur fjöldi framboða á landsvísu farið upp í kringum 10, en þingsætin eru sex sinnum fleiri, þannig að framboðið er meira en eftirspurnin og engin ástæða til þess að vera að skekkja það neitt.
Í stjórnlagaþingkosningunum voru frambjóðendur hins vegar 523 en 25 fengu mest fylgi og framboðið því margfalt meiri en eftirsurpnin. Hvernig getur útkoman í slíkum kosningum orðið önnur en sú að 25 verði kjörnir en 498 komist ekki að?
5% þröskuldurinn, sem Bjarni líkir við þetta, er því ekki sambærilegur. Hvaða önnur aðferð hefði getað tryggt önnur úrslit en að 498 kæmust ekki að? Jú, sú aðferð, sem Bjarni virðist elska, að sérstök nefnd útvalinna hefði valdið fólk í ráðið.
5% þröskuldurinn í Alþingiskosningum jafngildir því að sett hefði sérregla í stjórnlagaþingkosningunum um eitthverjar sérstakar hömlur, sem hefðu skekkt hina lýðræðislegu aðferð sem notuð var.
Gagnrýni Bjarna á persónukjör kemur aftan úr forneskju miðað við þá umræðu og kröfu um aukið beint lýðræði, sem til dæmis Styrmir Gunnarsson, flokksbróðir Bjarna, hefur barist fyrir.
Munurinn á Styrmi og Bjarna er sá, að Styrmir er gamall maður með ferskar, nútímalegar hugmyndir.
Bjarni talar hins vegar eins og ungur maður með gömul og steinrunnin sjónarmið, svo mikið afturhald, að það nær aftur fyrir 1851.
1851 voru nefnilega persónur í kjöri til Þjóðfundar í hverju kjördæmi en ekki sérútvalið fólk, fólk valið af uppstillingarnefndum, sem valdamenn höfðu puttann í.
Draumur þeirra, sem ekki vilja persónukjör, er sá að ákveðin nefnd sjái til þess hverju sinni að það verði ekki fleiri í framboði en verða útvaldir. Það hefur nokkrum sinnum verið gert hjá Sjálfstæðismönnum fyrir kosningar í Reykjavík.
Eða, eins og gert var að minnsta kosti tvívegis í prókjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík, að þrátt fyrir prófkjör var sérstök uppstillinganefnd í náðinni hjá borgarstjóranum, sem hafði úrslitavald um að möndla með úrslit prófkjörsins að vild og gerði það auðvitað, færði suma fram og henti öðrum aftar, jafnvel um fjögur sæti.
![]() |
Ekki ástæða til að endurskoða 5%-reglu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
29.4.2013 | 06:12
Enn einu sinni.
Skoðanakannanir eru orðnar það góðar að ég minnist varla að umtalsverð skekkja hafi verið í þeim, hvað snertir megin línur. Þetta er að sumu leyti galli og dregur úr spennu. Þetta bitnar sérstaklega á þeim framboðum sem verða fyrir því að lenda undir 5% þröskuldinum, einkum á lokasprettinum.
Meðan Sjálfstæðisflokkurinn var lang stærsti flokkurinn, fékk hann yfirleitt nokkkuð minna í kosningunum en hann hafði fengið í skoðanakönnunum. Gripu sumir þeirra sem framkvæmdu skoðanakannanir til þess ráðs að gera fyrirfram ráð fyrir skekkju af ákveðinni stærð og fengu þá oftast rétta útkomu.
Þessi skekkja á nú við um Pírata, sem eru netfólk, vant því að vinna og starfa við tölvur en ekki alltaf duglegt við að fara á kjörstað. Það er miklu auðveldara að taka upp símann og svara spyrjendum skoðanakannana en að fara á kjörstað.
Af þessum sökum er það arfa slæmt og ósanngjarnt að gera kröfur um ákveðinn þröskuld þátttakenda í kosningum, því að það er ekki jafnræði með hópunum. Þeir sem vilja segja já, þurfa að fara að kjörstað, en stór hluti þeirra sem eru á móti, þurfa ekki að gera annað en að sitja heima.
Skárra er að setja kröfu um aukinn meirihluta þeirra sem kjósa, svo sem 60% gegn 40%.
![]() |
Kannanir afar nálægt niðurstöðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
28.4.2013 | 20:05
Forneskjufyrirkomulag á net- og tölvuöld.
Það er forneskjufyrirkomulagl að þurfa að aka með atkvæði milli ystu landshorna í 4-5 klukkustundir til enda kjördæmisins til að telja atkvæði.
Upplýst hefur verið að til sé plan B í Norðvesturkjördæmi varðandi það að telja atkvæði á Ísafirði og Patreksfirði ef ófærð er á Vestfjörðum, enda er hægur vandi að senda tölur á netinu til að leggja saman við tölur á aðaltalningastaðnum í Borgarnesi.
Þetta ættti ekki að vera plan B heldur plan A í öllum landsbyggðarkjördæmunum og atkvæði í Suðurkjördæmi frá svæðinu austan Sólheimasands talin í þjóðgarðsmiðstöðinni í Skaftafelli en atkvæði í Norðausturkjördæmi fyrir hið gamla Austurlandskjördæmi talin á Egilsstöðum á sama hátt og send um netið til Akureyrar.
![]() |
Síðustu tölur breyttu miklu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.4.2013 | 02:51
Tíu þingmenn "detta niður dauðir", - besta mál?
Það er að vísu ekki búið að telja, en ef það fer þannig, að Pírater komi ekki manni á þing, þótt atkvæðamagnið hefði annars skilað þeim þremur til fjórum þingmönnum er komið að því sem ég hef varað við í mörg ár og talið mjög ólýðræðislegt, að þriðji stærsti hópur þjóðarinnar, þeir sem geta jafnvel haft samanlagt allt að 20% fylgi, fái enga fulltrúa á þingi.
Þetta er mjög há tala, samsvarar kjósendafjölda eins og hálfs landsbyggðarkjördæmis, og enginn myndi telja það sanngjarnt að Norðausturkjördæmi fengi engan þingmanna og Norðvesturkjördæmi aðeins tvo.
En nú horfir maður á það í umræðum í sjónvarpinu, að formenn stærstu stjórnmálaflokkarnir láti sér það vel líka að atkvæðafjöldi, sem annars myndi skila inn 10 þingmönnum, "detti niður dauð."
Auðvitað gera þeir það, því að það auðveldar þeim það að mynda hér fleiri en eina gerð af stjórn sem nýtur stuðnings minnihluta kjósenda.
Ástæða þess að fylgi Pírata er lægra en í skoðanakönnunum getur stafað af því að þar er um að ræða fólk, sem margt er áhugasamt um þjóðmál og berst fyrir netlýðræði og beinu lýðræði, en er kannski ekki eins líklegt til að hafa fyrir því að fara á kjörstað.
Í skoðanakönnun kemur þátttakan af sjálfu sér og er næsta fyrirhafnarlítil, miðað við það að fara á kjörstað, bara að svara í símann á þeim stað, sem viðkomandi er staddur.
![]() |
16% kusu flokk sem ekki fær mann kjörinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
28.4.2013 | 02:13
"Ef einhverjum væri mjög illa við mig..."
"Ef einvherjum væri mjög illa við mig myndi hann laumast inn til mín þegar enginn væri heima og skilja eftir hassköggul í gluggakistunni."
Þetta sagði við mig maður, sem var nýkominn úr meðferð eftir að hafa neytt allra þeirra fíkniefna, sem hægt er að ná í hér á landi, þeirra á meðal heróíns, kókaíns,amfetamíns og áfengis.
Á þeim tímapunkti átti hann eftir að takast á við einu fíknina, sem var eftir, en það var nikótínið, sem yfirleitt er ekki talið með fíkniefnum, en er þó með langhæstu prósettöluna varðandi það hve stór hluti fíklanna geta með engu móti hætt neyslunni.
En vegna þess hve það er erfitt að hætta að reykja, er sú fíkn yfirleitt skilin eftir þegar fólk fer í meðferð, til þess að bæta ekki of miklu verkefni ofan á þá við að ná tökum á böli sínu og útrýma því.
En mér fannst þessi orð mjög athyglisverð og sýna, að það eru ekki endilega hörðustu fíkniefnin, sem erfiðast er að fást við, heldur þau lúmskustu.
![]() |
Það er ekkert bara við kannabis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
27.4.2013 | 13:34
Stærsta mál kosninganna nær ekkert rætt.
Skuldavandi heimilanna er stórt mál og mikið rætt. Ný stjórnarskrá er miklu mikilvægara mál en virðist í fljótu bragði, því að það er með hana eins og leikreglur í íþróttum, að reglurnar verða að vera góðar til að leikmenn og leikurinn sjálfur geti notið sín sem best.
En langstærsta mál þessara kosninga og nær ekkert rætt, er sú fyrirætlan að gera það sama og 2003, að fara út í meira 600 megavatta orkuöflun fyrir aðeins eitt fyrirtæki, sem gefur aðeins 0,2% vinnuaflsins vinnu og leiðir það af sér, að reisa þurfi á annan tug virkjana og gera svæði allt frá Reykjanestá austur í Skaftafellssýslur og upp á hálendið að samfelldu svæði virkjana með tilheyrandi borholum, gufuleiðslum, stöðvarhúsum, skiljuhúsum, háspennulínum, vegum, stíflum og miðlunarlónum.
Og yfirleitt verða þessar virkjanir settar niður á þeim stöðum sem mest gildi hafa sem náttúruverðmæti, - staðir, sem laða að ferðamenn, af því að þar er hægt að komast í návígi við einstæða íslenska náttúru.
Gufuaflsvirkjanirnar verða þess eðlis að orkan verður tæmt á virkjunarsvæðunum á nokkrum áratugum.
Við ætlum barnabörnum okkar það hlutskipti að finna orku í staðinn og halda áfram í hernaðinum gegn landinu.
Afleiðingar þess að uppfylla væntingar eiganda fyrirhugaðs álvers í Helguvík munu bitna á afkomendum okkar um aldir, löngu eftir að skuldastaða heimilanna 2013 verður gleymd og grafin.
Vísa í pistil minn á undan þessum um nauðsyn þess að sem flestir grænir þingmenn verði á þingi.
![]() |
Þetta verður dagur breytinga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
26.4.2013 | 18:32
Hverjir verða varðmenn náttúrunnar á þingi?
Í kosningabaráttunni hafa sumar línur skýrst varðandi umhverfisstefnu framboðanna. Sú var tíðin að í fremstu röð grænna þingmanna voru þeir Birgir Kjaran Sjálfstæðisflokki og Eysteinn Jónsson, forystumaður Framsóknarflokksins og formaður Náttúruverndarráðs.
Mér skilst, að í tíð Eysteins Jónssonar hafi fleiri svæði verið sett á náttúruminjaskrá en nokkru sinni og einnig friðuð svæði.
Mikið væri nú gaman ef menn líkir þeim Birgi og Eysteini stjórnuðu þessum tveimur flokkum og væru í framboði. Stór hluti kjósenda þessara flokka eru hlynntir náttúruvernd og þyrftu að eiga málsvara í stjórn flokksins og þingflokki hans.
En þannig er það því miður ekki. Maður les í blaði í dag að álveraforstjórar geti varla beðið eftir því að ný ríkisstjórn setjist að völdum sem tekur upp stóriðju- og virkjanaþráðinn frá 2007 með Helguvíkurálveri og tilheyrandi stútun náttúrverðmæta frá Reykjanestá austur í Skaftafellssýslu og upp á hálendið.
Ástæða kæti áltrúarmanna er sú, að þeir þykjast sjá fyrir, að annað hvort Sjálfstæðisflokkur eða Framsóknarflokkur, helst báðir, verði aðilar að nýrri ríkisstjórn, og báðir flokkarnir eru stóriðjuflokkar.
Kætin minnkar ekki við það að sjá hilla undir það að grænir þingmenn muni falla út af þingi og grænir frambjóðendur í flokkum, sem lenda undir 5% þröskuldinum, komist ekki á þing þótt þessir flokkar hafi samtals um 10% fylgi.
Það er áhyggjuefni hve margir grænir þingmenn eiga nú á hættu að falla út af þingi.
Þar ekki einasta um að ræða Vinstri græna, heldur er jafnvel enn meira áhyggjuefni að meðal þeirra grænu þingmanna, sem stóriðju- og áltrúarmenn myndu vilja að féllu út af þingi, eru til dæmis Samfylkingarþingmennirnir, sem ég sá meðal gesta á frumsýningu myndarinnar "In memoriam?" í gærkvöldi, Skúli Helgason, sem tókst að ná samstöðu um Græna hagkerfið, Mörður Árnason, afar skeleggur baráttumaður fyrir náttúruverndar- og umhverfismálum á þingi, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Valgerður Bjarnadóttir.
Áltrúarmenn hlakka yfir þeirri tilhugsun að að hægt verði að fella þá Skúla og Mörð út af þingi og yrði þar skarð fyrir skildi.
Þetta græna og góða fólk á mikinn þátt í því að á síðustu landsfundum Samfylkingarinnar hefur þróast stefnuskrá í umhverfismálum, sem er orðin þannig, að öllu grænni gerast þær ekki. Þess vegna er svo mikilvægt að þessir grænu þingmenn veri áfram á þingi og geti haft áhrif í þingflokki flokks síns ef eða þegar til stjórnarmyndunarviðræðna kemur.
Það yrði gríðarlegt áfall ef stóriðjufíklarnnir fengju þvi framgengt að fella svona marga græna þingmenn í einni svipan út af þingi og þar að auki stoppa af nýja græna frambjóðendur sem eiga fullt erindi á þing.
Nú er bara að treysta á það að kjósendur reikni dæmið sem best um það hverja þeir vilja fá á þing og hugsi sig vel um í kjörklefanum.
![]() |
Ákvæði um styrk brennisteinsvetnis ekki frestað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)