Ekki skoðanakönnun og langt til kosninga.

Tæplega hálft annað ár er til forsetakosninga. Það er mjög langur tími í stjórnmálum. 

1967, 1979 og 1995 hefði engan órað fyrir þeim úrslitum sem urðu í kjöri síðustu þriggja forseta 1968, 1980 og 1996.  Raunar hefði engan órað fyrir því fimm mánuðum fyrir þær kosningar hver sá yrði í framboði sem yrði forseti. 

Þar að auki er ekki hægt að sjá að greiningin, sem nú er flaggað með skiptingu kjósenda í annars vegar þá sem eru með sjónarmið sjötugra og hins vegar þá sem eru yngri, hafi falið í sér sérstaka skoðanakönnun um fylgi hugsanlegra forsetaframbjóðenda, enda liggur ekkert fyrir um það hverjir það verða.

Þar að auki er það mikil einföldun og hæpið að draga kjósendur í dilka eingöngu eftir aldri. 


mbl.is Ólafur myndi tapa fyrir Jóni Gnarr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamli brandarinn er ónýtur.

Nokkrum sinnum kom það fyrir í erlendum kvikmyndum eða sögum, að þegar finna þurfti eitthvað fyndið og viðeigandi um refsingu eða stöðulækkun viðkomandi var sagt að hann yrði sendur til Íslands. 

Ísland var ekki eina landssvæðið sem nothæft var til þessa. Þannig var það mjög umtalað hve svakalega Molotov einn af helstu ráðamönnum Sovétríkjanna hefði verið refsað með því að gera hann að rafstöðvarstjóra í Síberíu. 

Síðasttalda atriðið, Síbería, er enn í gildi, en Ísland er það ekki lengur. Nú er það spennandi að vera sendur til Íslands og þarf ekki einu sinni valdboð til, því að frægustu persónur heims sækjast eftir því að eyða til þess bæði tíma og miklum fjármunum að koma hingað og upplifa einstæða íslenska náttúru, land og þjóð. 


mbl.is „Sjáumst á Íslandi!“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Getur nokkuð gott komið frá Nazaret?"

Þessi bloggpistill verður sá stysti á þessari síðu fram að þessu: "Getur nokkuð gott komið frá Nazaret?" var sagt fyrir tæpum tvö þúsund árum. 


mbl.is „Mig langaði að gefast upp“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er reynslan í 70 ár ?

Spennandi tímar eru á næsta leiti varðandi kjaramál íslenskra launþega. Verður hægt að veita þeim lægst launuðu nauðsynlegar kjarabætur án launaskriðs upp allan skalann? Verður hægt að koma í veg fyrir að launahækkanir lækna étist upp í verðbólgu í kjölfar mikilla launahækkana? 

Er mögulegt að ná fram stóru rammasamkomulagi til langs tíma sem aftrar því að allt fari hér í gamalkunnugt far í þessum málum? 

Skoðum nokkur atriði reynslunnar. 

1942 urðu miklar launahækkanir og geysileg verðbólga, sem þá var kölluð "dýrtíð", vegna þenslunnar af völdum stríðsins. Ólafur Thors mælti þau fleygu orð að hægt yrði að slá verðbólguna niður með einu pennastriki og var lengi gert gys að því, vegna þess að þetta reyndist ekki mögulegt fyrr en með hinum einstæðu Þjóðarsáttarsamningu 1990.

1950 var gengi krónunnar fellt og komið á margföldu gengi, meðal annars í formi svonefnds Bátagjaldeyris.

1959 var reynd niðurfærsla kaupgjalds og verðlags með lagaboði. Það hélt ekki og gengið var fellt árið eftir.

1961 voru verkföll og samið um 13% kauphækkun.

Strax í kjölfarið var gengið fellt um 13% og "víxlverkanir kaupgjalds og verðlags, sem verið höfðu í tuttugu ár, héldu áfram. 

1967 var gengið fellt tvisvar. 

1969-70 voru sett lög um verðstöðvun. Það dugði aðeins skamma stund og verðbólgan fór aftur af stað.

1978 voru mikil átök um lagasetningu ríkisstjórnarinnar og háðar harðar kosningar um "samningana í gildi".

Allt kom fyrir ekki, verðbólguskrúfan snerist áfram.

1984 fóru opinberir starfsmenn í hart verkfall og fengu drjúgar kauphækkanir.

Innan árs höfðu þær étist upp í verðbólgu.

1990 voru gerðir hinir einstæðu Þjóðarsáttarsamningar, sem skópu stöðugleika í fyrsta sinn í meira en hálfa öld.

En verðbólgudraugurinn hélst samt á lífi og allir vita hvernig fór í Hruninu.

Núna liggur á bak við vanda okkar sú staðreynd, sem þjóðirnar glíma við, að aldurssamsetning þeirra er að taka stórbreytingum auk þess sem vinnumarkaðurinn er orðinn alþjóðlega opinn að stórum hluta og þetta kallar á alveg ný viðfangsefni í heilbrigðis- og velferðarmálum, því að í 15 ár hafa stjórnmálamenn hyllst til þess að skera niður í þessum geira, af því að upphæðirnar þar eru stærstar.

 

Að sama skapi er engin leið að finna skástu leiðina út úr vandanum nema að líta til lengri tíma og skapa víðtæka sátt um langtímaáætlun um það hvernig við ætlum að viðhalda jafngóðum lífsskilyrðum hér á landi og í nágrannalöndum okkar.   


mbl.is Myndi valda kollsteypu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er hægt að sofa úti í 30 stiga frosti.

Það fer allt eftir búnaði og aðferðum í hve köldu veðri hægt er að sofa í tjaldi. Þetta fer þó ansi mikið eftir því hvað vindurinn er mikill og hve mikill skafrenningur er eða ofankoma.

Frakki einn, sem kom til landsins fyrir tæpum 20 árum  og ætlaði yfir Vatnajökul var næstum orðinn úti í ferðinni og glímdi við kal eftir ferðina.

Í viðtali var hann spurður hvað hefði komið honum mest á óvart, var svarið: "Vindurinn og snjórinn." 

Dálítið skondið svar en það sem hann átti við var að snjór, sem var eins fíngerður og hveiti, smaug í ofsaroki inn í tjald hans og fyllti það. 

Frakki þessi týndist síðar á göngu á ísnum norður af Kanada og hefur ekkert til hans spurst síðan. 

Ég kveið talsvert fyrir því að sofa úti í 30 stiga frosti á ferð yfir Grænlandsjökul. En leiðangursmenn, sem kunnu vel til verka eftir margar erfiðar ferðir um íslenska jökla, létu mig kaupa mér sérstakan svefnpoka og svefninn var góður. 

Svefnpoka þennan á ég enn, 16 árum síðar, og hann hefur fyrir löngu sannað fyrir mér að svefnpoki og svefnpoki geta verið sitt hvað. 

Ragnar sonur minn var einn af félögum í svonefndu Hreystimannafélagi, sem ferðaðist gangandi eða hjólandi um allan heim, allt frá íslenskum jöklum um hávetur til Tíbet.

Á ferð yfir þver Bandaríkin með svefnpoka sinn og tjald lenti hann í mesta frosti, sem komið hafði í áratugi og kom nokkrum dögum seinna heim til Íslands en hann hafði áætlað vegna tafanna, sem frostið, allt að 40 stig, hafði valdið.

Ég spurði hann hvort hann hefði ekki leitað aðstoðar fulltrúa Íslands þegar hann var í metfrosti í New York.

"Nei, sagði hann, ég þurfti þess ekki?"

"Hvar gistirðu þá?"

"Ég svaf bara úti í Central Park."

"Ertu vitlaus, maður, þar sem allt er fullt af glæpamönnum?"

"Nei, ekki í 35 stiga frosti" var svarið.  


mbl.is Sváfu úti í tíu stiga frosti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt stærsta jafnréttismálið um áratuga skeið að klúðrast?

Lög um fæðingarorlof voru einhver mesta framfaraskrefið í íslenskri jafnréttisbaráttu um áratuga skeið. Það er því nöturlegt ef rétt er að á aldar afmæli kosningaréttar kvenna skuli þessi réttarbót vera að drabbast niður og eyðileggjast.

Það væri ágætis verkefni á þessu afmælisári þegar mikið er um dýrðir við að halda kvenréttindum og mannréttindum á lofti að reyna að reisa fæðingarorlofið við og efla það, svo mikið framfaraskref sem fæðingarorlofið var á sínum tíma. 

 

 

 


mbl.is Eyðilagt fæðingarorlofskerfi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mc Carthy "kannaði bakgrunn."

Johseph Mc Carthy hlaut heimsfrægð á fyrstu árum sjötta áratugsins fyrir það að vera formaður nefndar Bandaríkjaþings sem gekk hart fram í því að "kanna bakgrunn" þeirra sem teknir voru fyrir sem sérstaklega grunsamlegir varðandi tengsl við kommúnista. 

Ákveðið kerfi var í gangi, þar sem hópar eins og listamenn og áhrifamenn á ýmsum sviðu þar sem "bakgrunnur var kannaður".   

Nýjustu hugmyndir í svipaða vel hér á landi sýnast einfaldari að því leyti til að aðeins er um einn afmarkaðan hóp að ræða, þar sem eina atriðið í vali á hinum grunuðu er að vera skráður sem múslimatrúar, en þeir eru um 1500 eða 0,5% þjóðarinnar. 

Þar að auki er hugmyndin sú að þetta verði hrein lögreglurannsókn hér á landi, sem miðast að því að "kanna bakgrunn."

Eftir árásina á Pearl Harbour 1941 var fólk af japönskum ættum tekið fyrir og hart að því sótt með mannréttindabrotum af ýmsu tagi.

Síðar var beðist afsökunar á þessum nornaveiðum og Mc Carthy varð síðar að láta af sinni miklu "könnun á bakgrunni" 

Bandaríkjamenn hafa síðar talið þessi tvö mál blett á sögu sinni.  


mbl.is SUS fordæmir ummælin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enginn vildi hlusta á þetta fyrir átta árum.

Um þessar mundir eru liðin tæp átta ár síðan útlendingur kom hingað til lands til að ámálga hugmyndina um gagnaver, sem notaði íslenska orku. 

Þá stóðu til stórstækkkun á álverinu í Straumsvík, líka á Grundartanga auk þriggja nýrra risaálvera, í Helguvík, á Bakka við Húsavík og í Þorlákshöfn.

Ég veit ekki hve oft ég skrifaði og talaði mánuðina fyrir kosningarnar 2007 um miklu skaplegri notkun á orkunni heldur en til stóriðju og ef færi gafst mátti telja upp helstu kostina svo sem mun hærra orkuverið, fleiri og betri störf fyrir hverja orkueiningu og útblásturslausa starfsemi.

Áltrúarmenn máttu ekki heyra þetta nefnt, - enginn vildi hlusta á "eitthvað annað", jafnvel þótt um orkusölu væri að ræða.

Nú loksins eftir öll þessi ár sést, hve kolröng orkustefnan var 2007 þegar rætt er um að gagnaverðin verði fjórða stoðin í efnahagslífinu.

Stundum er talað um að fara úr öskunni í eldinn en í þessu tilfelli virðist aðal hættan verða sú að í stað rólegrar og yfirvegaðrar orkustefnu renni blint gagnaveraæði á þjóðina svo að hún fari úr eldinum í öskuna og að með gagnaveraæði verði einstæðum íslensk náttúruverðmætum enn einu sinni fórnað á altari virkjanafíkninnar.

En við blasir hve mun betur við stæðum ef við hefðum ekki kastað okkur út í mesta mögulega orkubruðl heims með orkusölu á gjafverði.   


mbl.is Gagnaverin verði fjórða stoðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóriðjan er heilög kýr.

Á sjöunda áratug síðustu aldar var ég í hópi þeirra sem töldu, að stærsta framfaraskref þess tíma yrði að selja raforku landsins til stóriðju. Ástæðurnar voru meðal annars taldar þessar:

1. Við höfum ekki bolmagn til að virkja sjálf fyrir eigin not á nógu hagkvæman hátt. 

2. Meira en 95% bókfærðs útflutnings eru fiskafurðir. Skjóta þarf fleiri stoðum undir þjóðarbúskapinn. Stóriðjan felur í sér stærstu hagrænu möguleikana. 

3. Vegakerfi okkar og innviðir í samgöngum eru þau lélegustu norðan Alpafjalla, nánast á Afríkustigi.

4. Framkvæmdir vegna virkjana og stóriðju eru atvinnuskapandi.

5. Í tengslum við stóriðjuna rís upp viðamikill tengdur iðnaður, svo sem við framleiðslu á vörum úr áli.

Í krafti þessa var lagt út á braut sem fetuð hefur verið síðan og er enn stefna stjórnvalda. Hugtakið "orkufrekur iðnaður" varð að trúaratriði. Stóriðjan varð heilög kýr. "Eitthvað annað" var skammaryrði. Þá varð til trúarsetning Finns Ingólfssonar: "Ef ekki er virkjað stanslaust kemur kreppa og atvinnuleysi. Þegar búið er að virkja allt og ekki hægt að virkja meira verðum við dauð og þá kemur það okkur ekki við, heldur verðu það verkefni þeirrar kynslóðar sem þá verður í landinu."  

Skoðum nú atriðin fimm afturábak: 

 

5. Þetta brást. Það reis enginn stórfelldur framleiðsluiðnaður úr álvörum. 

4. Menn sáu ekki 1965 að atriði númer 4 gat ekki staðist til langframa, þ. e. að skapa atvinnu með stóriðju- og virkjanaframkvæmdum. Þótt x þúsund störf fengjust við hverja virkjun töpuðust sömu x þúsund störf þegar framkvæmdum var lokið. Og x þúsund atvinnulausir til frambúðar þegar síðasta mögulega virkjunin yrði risin. 

3. Vegakerfi okkar og innviðir í samgöngum eru ekki lengur á Afríkustigi. 

2. Sjávarútvegurinn skapar nú aðeins um þriðjung bókfærðs útflutnings. "Eitthvað annað", þ.e. ferðaþjónustan, nýsköpun og menningartengd starfsemi eru stærsti hluti gjaldeyristeknanna. Stóriðjan felur ekki lengur í sér stærstu hagrænu möguleikana því að vegna erlends eignarhalds á þungaiðnaðarverksmiðjunum og lágs orkuverð til þeirra, skila sjávarútvegurinn, ferðaþjónustan, nýsköpun og menningartengd starfsemi meira en tvöfallt meiri virðisauka inn í þjóðfélagið en stóriðjan.  

1. Það er löngu liðin tíð að við getum ekki virkjað til okkar eigin nota og tekið nógu mikið frá fyrir okkur sjálf. En vegna þess ofurveldis stóriðjunnar að hún er enn ríkistrúarbrögð og notar 80% af orku landsins er þrengt að þessum kosti okkar.

Þrátt fyrir ofangreint halda enn velli stóriðjutrúarbrögðin og trúin á "orkufrekan iðnað", sem er eins og nafnið bendir til mesta mögulega bruðl með orkuna. Það er eins og ekkert hafi gerst síðan 1965.  


mbl.is Raforkan er að verða uppseld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Stóra fjarvistarmálið" í rími.

Forystu Íslands féllust hendur. 

Til Frakklands var þess vegna enginn sendur. 

Héðan fór enginn yfir hafið

því enginn er betri en Sigmundur Davíð.

 

Í haust marga daga hann hljóp af þingi.

Samt héldu menn áfram með góðu fulltingi,

Í ljós kom að er yfir efa hafið

að enginn er betri en Sigmundur Davíð.

 

Við endalok valda hans enginn er skaðinn?

Og enginn þarf þá að koma í staðinn?

Þá verður ei utan af því skafið

að enginn er betri en Sigmundur Davíð.  

 

Og nú var Jóhann Jónannsson að vinna Golden Globe verðlaun! Jibbí!  Enn einu sinni sjáum við dæmi um "eitthvað annað" sem getur gefið okkur mikið en gert var gys að árum saman, sem óhugsandi og ómögulegt. 

Já, eins og Bjarni Fel myndi segja: Jóhann Jóhannsson er betri en enginn! 

 


mbl.is Obama gagnrýndur fyrir að mæta ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband