30.12.2014 | 16:42
Fyrirsjáanleg viðbrögð. Vonandi halda menn haus.
Það þyrfti ekki að spyrja að því að óvænt útspil fjármálaráðherra í læknadeilunni í útvarpsfréttum í hádeginu á þeim tíma, sem í frétt hér á mbl.is er sögð "úrslitastund", myndi strax vekja viðbrögð lækna og neyða þá til þess að fara að eyða tímanum í andsvör.
Því að þegar lesið er hvað þeir segja og horft á þau gögn sem þeir birta, vekja ummæli ráðherrans einn meiri furðu en lýst var í næsta bloggpistli á undan þessum.
Þessi snemmbúna áramótasprengja gerir ekkert nema taka tíma manna frá því að einbeita sér að lausn deilunnar við samningaborðið, sannarlega dýrmætan tíma.
Nú er bara að vona að menn beggja vegna borðsins haldi haus og láti ekki koma sér úr jafnvægi.
![]() |
Lúaleg tilraun fjármálaráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
30.12.2014 | 14:11
Sprengju varpað inn á viðkvæmri stundu.
Fjármálaráðherra tekur mikla og vanhugsaða áhættu með því að varpa þeirri sprengju inn í viðkvæmt ástandið í læknadeilunni sem hann gerði í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í dag.
Hann gat ósköp vel látið þetta sprengjukast sitt vera og sagt pass á þeim grundvelli að það væri samninganefndanna að finna lausn á þessum mikilvæga tímapunkti.
Þess í stað kom þessi harkalega yfirlýsing frá honum, sem stórhætta er á að æsi menn upp og hleypi öllu í bál og brand.
Nú vonar maður bara heitt og innilega að það gerist ekki og að menn andi í gegnum nefið.
En það á ekki þurfa að vera slíkt ástand í deilunni að það þurfi heitt bænahald til þess að biðja um rósemi hugans.
![]() |
Komi með svör klukkan þrjú |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.12.2014 | 11:56
Flugöryggi aldrei meira og líka flughræðslan?
"Öruggur staður til að vera á" var sagt í umdeildri auglýsingu. Það slagorð gæti áttt við um farþegaþotur heimsins sem eru víst mun öruggari staður til að vera á en önnur samgöngutæki.
En sú staðreynd að manninum er ekki áskapað sjálfum að fljúga heldur einungis að ganga, hlaupa og synda, truflar allt mat.
Og þegar sagt er í fréttum frá fólki sem hefur orðið flughræddara en fyrr á sama ári og flugöryggi hefur aldrei verið meira, bara vegna þess að þessi fáu flugslys, sem um ræðir, voru svo óhugnanleg, sýnist það vera mótsögn en er þó skiljanlegt.
Eitt þessara flugsllysa varð vegna styrjaldarátaka og þegar litið er á hryðjuverkin í heiminum, ætti fólk að vera hræddara en fyrr við að vera á ferli í erlendri borg en áður.
En það er einhvern veginn öðruvísi en að stíga upp í flugvél.
Á fyrstu árum skemmtanaferils míns var ég mjög flughræddur enda þótt ég væri jafnframt heillaður af fluginu og hefði mikinn áhuga á því.
Ef mögulegt var ók ég til dæmis frekar hina seinförnu og erfiðu leið, sem þá lá til Ísafjarðar, heldur en að fljúga þessa vegalengd á l5 sinnum styttri tíma.
Ástæðan hefur hugsanlega verið hin tíðu flugslys á litlum flugvélum á þeim árum, bæði hér heima og ekki síður erlendis. Einkum virtust skemmtikraftar og frægt fólk vera i áhættuhópi og nafnalistinn var sláandi: Ricki Valens, Buddy Holly, "Big Bopper" Richardson, Rocky Marciano, Jim Reeves, Patsy Cline og fleiri og fleiri.
Að lokum fór svo að ég varð að gefast upp gagnvart fluginu, því að öðruvísu gat ég ekki sinnt starfi mínu að gagni. Og ekki sé ég eftir því, heldur hef ég stundum sagt: Flugið er það næst besta sem hefur rekið á fjörur mínar í lífinu.
Gagnvart því og þeirri staðreynd að það er 100% lífshættulegt að lifa varð að tileinka sér orð Shakespeares: "Enginn má sköpum renna og best er það."
Og síðar að leggja út af því með þessum söngtexta:
Ljúfur Drottinn lífið gefur, -
líka misjöfn kjör, -
og í sinni hendi hefur
happ á tæpri skör.
Feigðin grimm um fjörið krefur.
Fátt er oft um svör.
Enginn veit hver annan grefur.
Örlög ráða för.
![]() |
Hröpuðu, hurfu og voru skotnar niður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
30.12.2014 | 01:20
Í fótspor Eisenhowers.
Obama Bandaríkjaforseti má hafa sig allan við ef hann ætlar að skáka golfáhuga Eisenhowers forseta Bandaríkjanna 1953-1961, ef marka má umfjöllun fjölmiðlanna í forsetatíð hans,sem tíunduðu þau skipti sem karlinn var á golfvellinum í stað þess að púla við að leysa vanda þjóðarinnar og sinna Kalda stríðinu.
Í ofanálag var Eisenhower hjartveikur og undir smásjá lækna, og gott ef hann fékk ekki eitt áfallið þegar hann var sveifla kylfunni.
Golfíþróttin er prýðis íþrótt og um hana gildir það sama og flestar aðrar íþróttir, að það liggur oft mikil ástundun að baki því að ná góðum árangri í henni, auk þess sem iðkendurnir þurfa að búa yfir líkamlegum og andlegum hæfileikum til að ná góðum árangri.
Samt hef ég dottið í þá gryfju að daðra við fordóma gagnvart henni.
Á tímabili voru tvö systkini mín mjög hrifin af golfi og hvöttu mig óspart til að prófa að vera með.
Ég svaraði því til að ég skyldi koma og spila þetta með þeim þegar þannig yrði komið fyrir mér að ég gæti ekkert annað.
Þetta var hrokafullt fordómasvar, sem ég bið að sjálfsögðu alla golfunnendur afsökunar á.
![]() |
Obama golfóður á Havaíeyjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.12.2014 | 21:02
Þrjár asískar þotur á árinu. Tilviljun?
Þessarar spurningar væri ekki spurt ef þrjár amerískar eða þrjár evrópskar þotur hefðu farist á sama árinu.
Ljóst er að þotan sem skotin var niður yfir austanverðri Úkraínu hefði getað verið frá fleiri heimshornum og því er ástæðulaust að taka hana með í þennan reikning.
Þá eru eftir þessar tvær malasísku þotur sem báðar hverfa á flugi í sama heimshlutanum á sama árinu.
Miðað við tíðni í flugi fyrir nokkrum áratugum var þó kannski ekkert skrýtnara að tvær þotur frá sama ríki færust á sama árinu nú en þá, þegar þoturnar, sem fórust á sama ári voru oft frá sama landi.
Einhvern veginn er hægt að hafa það á tilfinningunni að frekar takist að upplýsa orsakir hvarfs þotu AirAsia félagsins en hið dularfulla hvart MH 370, sem var að svo mörgu leyti svo einstakt tilfelli alveg frá upphafi.
![]() |
Spurt & svarað um hvarf þotunnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.12.2014 | 12:39
Gríðarleg búbót fyrir bláfátæka stórþjóð.
Álíka margir búa í Eþíópíu og í Þýskalandi, en þjóðartekjur á mann í Eþíópíu eru meira en hundrað sinnum minni en í Þýskalandi og hagkerfi landsins minna en hagkerfi Íslands þótt þjóðin sé næstum 300 sinnum fjölmennari.
Það vakti sérstaka athygli mína á tveimur ferðum yfir og um Eþíópíu hér um árið, hve mjög landið er mótað af eldvirkni, og fljótlegt að sjá af gögnum, hve mikil jarðvarmaorka hlýtur að vera þar óbeisluð.
Aðstæður eru að öðru leyti gjörólíkar þar og hér. Hin eldvirku svæði þar eru ekki flokkuð í hóp helstu náttúruundra jarðar eins og hinn eldvirki hluti Íslands er, og hvert megavatt, sem virkjað er í Eþíópíu hefur hundrað sinnum meiri áhrif á hag landsbúa en sama orka hér á landi.
Orka Eþíópíu er sennilega það mikil að þar væri hægt að framkvæma þá hugsun helstu hugsuða í hópi íslenskra sérfræðinga að hún sé nýtt á sjálfbæran hátt, en hingað til hefur verið fjarri því að við gerum slíkt hér, heldur höfum við stundað hreina rányrkju og að stórum hluta til með óviðunandi loftmengun.
Í krafti þess að við höfum nýtt orkuna með hrein skammtímasjónarmið í huga höfum við í raun tekið frá Eþiópíumönnum möguleikana á sölu ódýrrar orkunnar þar í landi.
Nú gætum við bætt fyrir það með því að vera í fararbroddi í heiminum við sjálfbæra nýtingu á jarðvarmaorku án stórfelldra spjalla á einstæðri náttúru, með því að aðstoða Eþíópíumenn og aðrar fátækar þjóðir við að brjótast út úr ólýsanlegri fátækt.
![]() |
Undirbúa mikla orkuöflun í Eþíópíu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.12.2014 | 09:48
Góðir í snattið.
Margir þeirra, sem taka bíl á leigu, nota þá í snatt í þéttbýli, kannski ekki nema í einn dag, til dæmis í Reykjavík eða á Akureyri.
Hjá flestum landsmönnum eru allt 90% aksturs innanbæjarakstur.
Það er augljóst hagræði af því að nýta rafbíla í slíkan akstur.
Því á hinn kornungi Aðalsteinn Lárus Skúlason heiður skilinn fyrir að ryðja braut í bílaleigumálum.
Hagræðið felst meðal annars í þvi að taka af leigutökum ómakið við að hlaða bílana ef aksturinn er fyrir innan drægi bílanna.
Því miður eru rafbílar enn ekki orðnir jafn ódýrir og ódýrustu venjulegu bílarnir, sem knúnir eru bensíni eða olíu.
Mætti hið opinbera huga að því hvort á einhvern hátt væri hægt að veita sérstaka ívilnun þegar rafbílar eru leigðir út.
Að undanförnu hefur verið að störfum svonefnt Rafbílaráð, RVFÍ, sem leggja á fram fjölbreyttar og sem ítarlegastar tillögur og ábendingar fyrir stjórnvöld varðandi rafbílavæðingu landsins og er starfið á lokastigi.
Í lokatilllögum ráðsins eru nefnd nokkur mikilvæg atriði varðandi það hvernig hægt sé með ýmsum aðgerðum að stuðla að fjölgun rafbíla á bílaleigum landsins á komandi árum.
![]() |
Fyrsta rafbílaleiga landsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 30.12.2014 kl. 00:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
28.12.2014 | 22:57
Til eru veðurskilyrði sem engin flugvél þolir.
Hin mikla tækni sem komin er til skjalanna í veðurathugunum, veðurfræði og veðurspám, á stóran þátt í því hve miklu öruggara flug er orðið en áður var. Um það bera alþjóðlegar slysatölur órækt vitni.
Með þessari tækni er hægt, bæði fyrir flugumferðarstjóra og flugmenn að sjá hvar óveðrin eru og forðast að fljúga inn í verstu óveðrin, sem geta verið fólgin í þrumuveðrum, (thunderstorms) gífurlegri ókyrrð eða ísingu. Hvert þessara þriggja veðurfyrirbrigða getur eitt og sér orðið svo illvígt að engin flugvél þoli að lenda í þeim og þau eða blanda af þeim geta búið til óviðráðanlegar aðstæður.
Þrátt fyrir þetta verða slys sem mannleg mistök af ýmsu tagi geta leitt til, stundum röð af mistökum.
Erlendis má nefna slys sem hafa orðið vegna þess að ekki var gripið til réttra ráðstafana í tæka tíð, stundum vegna rangra upplýsinga, breyttra aðstæðna, misskilnings eða blöndu af þessum þáttum.
Hvarf þotu AirAsia getur hafa verið eitt af þessum tilvikum þar sem í meginatriðum eru þrjár leiðir fyrir flugstjórann að komast hjá því að lenda í óviðráðanlegum flugskilyrðum:
1. Að víkja af leið og fljúga í sveig framhjá óveðurssvæðinu.
2. Að hækka flugið svo að þotan komist yfir óveðrið.
3. Að snúa við í tæka tíð og halda til baka.
Sjaldgæft er að gripið sé til ráðs númer 3 sem kannski var þó eina færa leiðin í tilfelli AirAsia úr því að ekki fékkst leyfi til hækkunar flugs.
Til eru veðurskilyrði múmer 4, þar sem nógu mikil lækkun flughæðar getur leyst málið, til dæmis mikil ísing sem ekki nær alveg niður undir jörð.
Á sínum tíma fréttist til dæmis af því að flugvélin TF-VOR, vél Björns heitins Pálssonar, hefði tvívegis lent í svo mikilli ísingu, að hún missti hæð og afl á hreyflunum.
Í fyrra skiptið kom vélin niður úr ísingunni yfir Hvalfirði og þá bráðnaði ísinn af henni og hægt var að fljúga henni áfram.
Í síðara skiptið, að vetri til 1973, var vélin stödd skammt norðaustur af Langjökli, og þar er land 800 metrum hærra svo að ísingarskilyrðin náðu alveg niður í jörð og því fór sem fór.
Dæmi um íslenskt flugslys, þar sem nægt hefði að sveigja af leið, er þegar flugvél á leið frá Ísafirði til Reykjavíkur lenti í svo mikilli ókyrrð og niðurstreymi af völdum suðaustan hvassviðris hlémegin við Ljósufjöll, að hún hrapaði þar og fórst.
Ef sveigt hefði verið af leið og farið talsvert vestar, yfir Bjarnarhöfn og þar sem nú er svonefnd Vatnaleið, hefði vélin komist á leiðarenda.
Ég las fyrir mörgum áratugum afar fróðlega grein í bandaríska tímaritinu Flying eftir þann flugmann bandarískan, sem mesta þekkingu og reynslu var talinn hafa af því að fljúga í ísingarskilyrðum, glíma við þau og finna leiðir til að komast klakklaust á leiðarenda.
Honum hafði nokkrum sinnum tekist að fara í flugferðir þegar enginn annar fann leið til að komast hjá því að lenda í banvænum ísingarskilyrðum, meðal annars þegar lokað hafði verið til flugs dögum saman.
Hann lýsti því meðal annars í greininni ísingarskilyrðum í ákveðnum gerðum skýjalaga, þar sem hægt væri að komast "á milli laga" eins og það er kallað á flugmannamáli og flugfært væri í ákveðinni flughæð þótt ófært væri bæði ofar og neðar.
Eftirminnileg setning úr greininni var sú, að til væru ísingarskilyrði sem engin flugvél réði við, - svo svakaleg. að það skipti ekki máli hvort flogið væri á tveggja manna Piper Cub eða 500 manna Boeing 747 þotu.
Nokkrum misserum seinna freistaði þessi flugmaður að nýta sína miklu þekkingu og reynslu til fljúga með þingmann í áríðandi ferð í ísingarskilyrðum í Klettafjöllum, sem talin voru gera ófært til flugs.
Í þessu flugi brást honum bogalistin og vélin fórst, - ísingarskilyrðin reyndust jafn óviðráðanleg fyrir byrjanda og mesta sérfræðing Bandaríkjanna í flugi í ísingarskilyrðum.
![]() |
699 manns um borð í vélunum þremur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
28.12.2014 | 12:26
"Tökum hana! Tökum hana!" ?
Til eru dæmi um það þegar yfirvöld í ýmsum ríkjum virðast hafa sett sér það að markmiði í krafti valds síns að stöðva ákveðna einstaklinga.
Virðist þá stundum litlu skipta hvaða stjórnarfar ríkir í viðkomandi landi, og þessi einstöku atvik. sem mér koma í hug, eru ekkert dæmi um það út af fyrir sig.
Mál ritstjóra rússnesks tímarits, sem yfirvöldum þar í landi líkar illa við, kallar fram minningu hjá mér úr Gálgahrauni 21. október 2013.
Við komum þangað gangandi saman, ég og Eiður Svanberg Guðnason að því svæði við Garðastekk þar sem við höfðum oft áður notið útiveru í faðmi náttúrunnar.
Á svæðinu voru tæplega hundrað manns, blanda af útivistarfólki, lögreglumönnum og fjölmiðlafólki.
Þarna urðum við Eiður viðskila og ég gekk áfram inn í þessa sérkennilegu blöndu fólks, en að Eiði þustu nokkrir lögreglumenn eftir að einn þeirra hafði heyrst skipa fyrir: "Tökum hann, tökum hann!"
Eiður spurði hvers vegna til stæði að handtaka hann og var svarað að hann væri á bannsvæði.
Eiður kvaðst ekki sjá þess nein merki og taldi sig vera í fullum rétti samkvæmt landslögum að standa þar sem hann stæði.
Var honum þá sagt það að verið væri að merkja svæðið með bandi. Eiður kvaðst ekki sjá neitt band þar sem hann stæði en nú komu starfsmenn og lögreglumenn að honum með band sem þeir voru að merkja bannsvæðið með.
Eiður lenti fyrir utan bandið og kom þá fát á lögreglumenn. Hugðist einn þeirra þá stjaka Eiði inn fyrir bandið svo að hægt væri að handtaka hann þar!
Það tókst ekki og síðar sagðist Eiður hafa ákveðið að gera þessum mönnum það ekki til geðs að þeir gætu handtekið hann, þótt þeir greinilega ætluðu sér það.
Fát lögreglumanna í Gálgahrauni hélt síðar áfram, því að hjón sem voru samferða á ferðum sínum þennan dag fengu misjafna meðferð. Þau voru bæði handtekin og ætlunin virtist að bera þau inn í lögreglubíl og fara með þau í drjúglanga fangavist, en svo var að sjá sem þyngd þeirra skipti máli, því að hún, létt og nett, var færð alla leið í fangavistina en þeir gáfust upp á að bera hann, að því er virtist af því að hann var miklu þyngri.
Í framhaldinu var aðeins hún ákærð og sakfelld fyrir dómi fyrir að "óhlýðnast ítrekað" fyrirmælum lögreglu" en hann var ekki ákærður fyrir nákvæmlega sama meint brot!
Ákæran fór sem sagt ekki eftir meintu broti heldur eftir þyngd!
Ég hef sjaldan orðið meira undrandi heldur en þegar aðeins níu af 25 sem handtekin voru þennan dag voru ákærð og dæmd fyrir "að óhlýðnast ítrekað fyrirmælum lögreglu", því að ég og fleiri, sem ekki vorum ákærð, höfðum óhlýðnast nákvæmlega sams konar fyrirmælum lögreglu á sama stað fjórum vikum fyrr og þar með "óhlýðnast ítrekað".
Allt þetta kemur nú upp í hugann við fréttirnar frá Moskvu, og svo að tekin séu dæmi frá þremur löndum með stjórnarfar á mismunandi stigi kemur upp í hugann nokkurra ára gamalt mál frá Bandaríkjunum.
Einn allra frægasti flugmaður og listflugmaður heims, Bob Hoover, var orðinn 75 ára, en framkvæmdi samt listflugsatriði, sem engir hafa getað leikið eftir honum.
Síðan gerðist það að í lögboðinni læknisskoðun var honum neitað um læknisvottorð hjá fluglækni FAA "af heilsufarsástæðum".
Hoover vissi ekki til þess að neitt amaði að honum og fór því í læknisskoðun hjá flugmálayfirvöldum í Ástralíu, sem hann flaug í gegn, gallhraustur. Með það vottorð og áströlsk flugréttindi upp á vasann hélt hann síðan áfram að fljúga á flugsýningum víða um heim og framkvæma áfram sín einstöku listflugsatriði.
Hann fór nú í skaðabótamál við bandarísku flugmálastjórnina og í ljós kom að á rabbfundi innanhúss þar á bæ höfðu menn rætt um það að kominn væri tími til þess að láta það ekki viðgangast að Hoover hefði gilt flugmannsskírteini, þetta gamalmenni, sem hann væri orðinn, enda hefðu atriðin alla tíð verið illa séð og hið besta mál að koma þeim út úr heiminum.
Finna þyrfti ástæðu til þess að svipta hann réttindunum og varð að ráði að læknir stofnunarinnar ynni það verk, sem hann gerði síðan í krafti síns valds án þess að hafa nein óyggjandi sönnunargögn í hendi.
Yfirvöldin misreiknuðu sig hins vegar í þessu máli, því að þeir vanmátu ofurvald sitt og einnig bæði andlegan og fjárhagslegan styrk Hoovers, og áttu ekki von á því að "gamalmennið" myndi taka slaginn við þau.
Þau skíttöpuðu málinu og neyddust til að láta Hoover hafa skírteini sitt á ný og taka afleiðingunum af valdníðslu, en við slíku liggja hörð viðurlög i Bandaríkjunum.
Ég átti þess kost að taka sjónvarpsviðtal við hann 77 ára gamlan eftir vel heppnað glæsiatriði hans á flugsýningu í Flórída og spurði hann hvort hann kviði því ekki að skyndilega myndi hann ekki geta framkvæmt sitt einstæða snilldaratriði og að þá myndu flugmálayfirvöld hlakka yfir óförum hans.
Hann brosti og svaraði: "Hafðu ekki áhyggjur. Ég verð fyrstur allra til að vita það." Eða á ensku: "Do´nt worry, - I will be the first to know."
Hann stóð við þau orð sín og dró sig í hlé nokkrum árum síðar án atbeina flugmálayfirvalda og án þess að hafa fipast við sín mögnuðu flugatriði.
En í dag heyri ég fyrir mér orðin sem hugsanlega hafa verið sögð þegar ákveðið var að fluglæknirinn negldi Hoover: "Tökum hann! Tökum hann!" ("Let´s nail him! Let´s nail him!")
![]() |
Ég hef engin lög brotið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
27.12.2014 | 21:31
Táknrænar ljósmyndir.
Sú var tíðin að sæmilegt samband var á milli Rússlands og Bandaríkjanna, til dæmis á fyrra valdatímabili Pútíns.
Ein af ljósmyndunum, sem birtar voru af Pútín og George W. Bush, þáverandi Bandaríkjaforseta, þegar hann var í opinberri heimsókn í Rússlandi, var fyrsti bíllin sem Pútín eignaðist.
Hann er af gerðinni ZAZ Zaphorozhets og var áratugum saman ódýrasti bíllinn sem framleiddur var í Sovétríkjunum sálugu, hannaður í kringum 1960, með loftkælda vél að aftan og afturdrif,ætlaður fyrir almenning í Sovétríkjunum á svipaðan hátt og Volkswagen í Þýskalandi.
Honum svipaði grunsamlega mikið til NSU Prinz 4, sem aftur var smækkuð stæling á Chevrolet Corvair.
Pútín hefur mikið dálæti á þessum fyrsta bíl sínum, því að til eru fleiri myndir af honum þar sem hann stendur við hlið hans.
Það sem er athyglisvert við myndina er, að bíllinn var framleiddur í Zaphorozhets í austurhluta Úkraínu þar sem nú er helsti átakapunktur Rússlands og Úkraínu eða öllu heldur Vesturveldanna og Rússlands.
En efnahagslegt samband Rússlands og Úkraínu hefur lengi verið mun nánara og flóknara en samband Kanada og Bandaríkjanna, vegna þess að á Sovéttímanum voru framleidd mikilsverð hergögn í Úkraínu, allt frá kjarnorkuvopnum og stórum herflugvélum til fjölbreyttra hergagna af ýmsum gerðum, að ekki sé minnst á framleiðslu Úkraínumanna á vörum til borgaralegra nota, eins og myndirnaf af Pútín, Bush og ZAZ-bílnum bera með sér.
Ef korti af Úkraínu og Rússlandi er snúið á hvolf, blasir við nokkurs konar spegilmynd af Bandaríkjunum og Kanada. Og samband Rússlands og Úkraínu var líkast til mun nánara og flóknara en samband Kanada og Bandaríkjanna hefur verið.
Það gæti útskýrt að hluta hinn sjúklega ótta og tortryggni, sem nú speglast í ýmsum orðum og gerðum Pútíns varðandi Úkraínudeiluna.
![]() |
Fangaskipti í Úkraínu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)