Breyttar aðstæður ráða miklu.

Það er rétt hjá Árna Þór Guðjónssyni í hljómsveitinni Made in sveitin að margt fer í hringi í þjóðfélaginu hvað snertir tónlist og vinsældir. 

Nýjar kynslóðir koma með nýja tísku og nýjan smekk. 

Bogomil Font, Sixties og margt fleira var dæmi um þetta á sínum tíma, að ekki sé nú talað um Ragga Bjarna. 

Hugsanlega er hægt að fá upp einhverja stemningu á sveitaballi sem haldið er með gamla laginu, en samt sem áður eru aðstæður það breyttar frá því sem var þegar sveitaböllin, héraðsmótin og Sumargleðin réðu ríkjum í félagsheimilum landsins á sumrin, að það mætti teljast kraftaverk ef eitthvað slíkt gæti komið aftur. 

Myndbandaleigurnar, miklu betri samgöngur, utanlandsferðir og tilkoma bjórsins voru miklar breytingar sem gerðu það að verkum að undirstöðunum var kippt undan sveitasamkomum af þeirri stærð og tíðni sem tíðkuðust frá 1950 til 1990.  


mbl.is Sveitaböllin að snúa aftur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Jólastemning", mótuð á norðlægum slóðum.

Hvernig gengur Suður-Evrópuþjóðum og Suðurríkjamönnum í Bandaríkjunum að fanga þá miklu Norðurríkjastemningu sem birtist ótal jólalögum og sálmum?

Bara býsna vel, ótrúlegt en satt.

Mest selda plata síns tíma var með laginu "White Christmas" sem Bing Crosby söng. Ég kemst varla í hina endanlegu jólastemningu nema að heyra Dolly Parton syngja og blanda saman lögunum "Winter Wonderland" og "Sleig Bells".

"Snjókorn falla," "Jólasnjór" og ótal aðrir söngvar reyna að fanga jólastemninguna í Norðurríkjunum.

Þetta er Pollyanna í sínu æðsta veldi, að snúa hundleiðinlegum kulda, myrkri og hríð upp í dýrð og dásemd. Heilagur Kláus er orðinn að sleðastjóra og gjafadreifara þar sem klingjandi sleðabjöllurnar hringja inn jólastemninguna í marauðum Suðurríkjunum og Miðjarðarhafslöndum Evrópu. 

Á Íslandi klæða hinir þjóðlegu og fornu jólasveinar okkar sig í búning Santa Claus og gefa gott í skóinn, þessir fyrrum óknyttadrengir og synir Grýlu og Leppalúða.  

Og það er vel að lífga upp á skammdegið og víkja burt vetrardrunganum í stórhríðum með jákvæðri stemningu, tónlist, jólaljósum og öllu galleríinu.

Á jólatónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í dag verður frumflutt hér á landi lagið og textinn "Jólastemning", íslensk staðfærsla á ljóðinu "Christmas Time" sem hefur verið vinsælt jólalag í Bandaríkjunum í hálfa öld án þess að það hafi skolast hingað til lands, svo ég viti til.  

Stúlknakór Reykjavíkur og Hulda Garðarsdóttir syngja lagið, en höfundar þess eru Lee Mendelson og Vince Guaraldi. 

Í bandaríska textanum eru snjókornin, arineldurinn og allt það dásamað í lýsingu á hinni sönnu jólastemningu. Svona hljóðar það á íslensku. Lýst sameiginlegum atriðum stemningarinnar, hinu séríslenska, en bandaríska arineldinum sleppt : 

 

JÓLASTEMNING. (Christms Time is here)  

 

Jólastemning er

yfir öllu hér; 

gleðitíð sem börnin blíð

nú biðja´að veitist sér. 

 

Snjókorn blærinn ber. 

Boðskap flytja mér 

dýrðarsöngvar dægrin löng

sem dilla mér og þér. 

 

Söngur, ljóð og ljóð, 

ljúft við tónaflóð

mitt í dróma myrkurs ljómar 

minninganna flóð. 

 

Jólastemning ber

birtu; ósk mín er 

að alla tíð, já ár og síð

allt árið ríki´hún hér, -

að einlæg gleði´og ástargeð

æ gefist mér og þér.  

 

 

 

 


mbl.is Hvaða jólasveinn ert þú?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bergbrotið (fracking) seinkar tvísýnni sókn í olíu.

Bergbrotið í Ameríku (fracking) hefur heldur betur sett strik í reikninginn í efnahagsmálum heimsins. Bandaríkin hafa í bili náð því að framleiða meira eldsneyti en þeir flytja inn og þetta hefur valdið verðfalli á olíu.

Verðfallið hefur mjög fjölbreytileg áhrif. Það er jafn skelfilegt fyrir Rússland og það sem gerðist á níunda áratugnum þegar Sádarnir og Kanarnir veittu Sovétríkjunum náðarhöggið.

En það veldur því líka að mikið bakslag hefur komið í gullgrafaraæðið, sem reynt hefur verið að blása upp hér á landi og á Grænlandi.

Kostnaðurinn við að ná upp olíu á nýjustu svæðunum er svo mikill að hann er orðinn meiri en nemur tekjunum, - það er tap á dæminu.

Allur hávaðinn útaf Drekasvæði nu hafði að vísu holan hljóm, svo erfitt og tvísýnt sem það er að ætla sér að ná upp olíu af 1100 metra svæði lengst norður í rassgati.

En samt hafa dollaramerkin skinið úr þeim sem hafa séð í hillingum stórfelldan gróða hér á landi í mesta lagi nokkrar áratugi með svipuðum endalokum og urðu á fleiru hér eins og rústir hvalveiðistöðva um allt land bera vitni um. 

 

Bergbrotið vestra gefur jafn óendurnýjanlega og óhreina orku og hefðbundin olíu- og gasvinnsla, lengir aðeins í því ástandi og gerir það verra sem nú hefur sem mest áhrif á lofthjúpinn með gríðarlegum afleiðingum.

Það er aðeins verið að lengja í snörunni hvað varðar óhjákvæmlegri hnignun helstu auðlinda mannkynsins á þessari öld.  


mbl.is Hætta við olíuleit á Drekasvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dauðadómar eru manndráp og forneskja.

Dauðadómar eru manndráp. Skiptir þá engu hvort drepið sé samkvæmt lögum eða ekki.

Tugir dómsmorða eru framin í heiminum á hverju ári. Þeim mun ekki linna fyrr en dauðadómar eru aflagðir og þess vegna á ekki dæma menn til dauða.

Dauðarefsing sem framkvæmd er, er óafturkræf, en lífstíðar fangelsi ekki.  

Ef hinn sakfelldi er hættulegur umhverfi sínu á að dæma hann í ævilangt fangelis eða vistun þar sem komið er í veg fyrir að hann geti orðið skaðlegur.

Fælingarmáttur dauðadóma hefur ekki virkað hjá þeim þjóðum sem mest aðhyllast þá, svo sem Kínverja og Bandaríkjamenn.

Dauðadómar eru aftan úr grárri forneskju þegar í gildi var lögmálið "auga fyrir auga og tönn fyrir tönn" og eru enn fráleitari en það að höggva hendur af þjófum.  


mbl.is Játaði á sig 42 morð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Göngum hægt um gleðinnar dyr. Skoðum staðreyndir.

Í Barcelona á Spáni hefur myndast öflug hreyfing borgarbúa, sem andæfa því að mannlíf í stórum hluta borgarinnar hefur verið deytt að stórum hluta vegna skefjalauss gullgrafaraæði í ferðamennsku. 

Svipað er að gerast gömlu miðborginni okkar í Reykjavík. Nú þegar hefur borgarbragurinn gerbreyst þannig að vissa daga yfir sumartímann er maður hættur að hitta Íslendinga í gamla miðbænum, - þetta er erlend borg.

En margir útlendinganna eru komnir hingað til að kynnast íslensku þjóðlífi.  

Fleira fylgir hinni skefjalausu hótelvæðingu. Sum hótelanna þurfa lóðir, þar sem nú eru bílastæði. Þeim fækkar þegar hótelið er risið, en þriðjungur hótelgestanna er á bílaleigubílum! 

Hvar eiga þeir að fá stæði? Ef útlendingarnir væru á reiðhjólum kæmu nýju hjólastígarnir sér vel. En ferðamannirnir eru ekki á reiðhjólum. 

Við sum hótelin hafa breytingar á götum og gangstéttum komið í veg fyrir að rútur komist að þeim og frá með töskurnar sínar. Þeir sem eru í rútunum eru ekki á reiðhjólum. 

Enn skortir mikið upp á að bílastæðahús borgarinnar séu fullnýtt. Fólk kvartar yfir því að stæðin í þeim séu dýr. 

Í Santa Barbara í Kaliforníu fóru menn þá leið til að endurlífga miðborgina að reisa 15 bílastæðahús og ókeypis er í þau öll í 90 mínútur fyrir hvern bíl. 

Miðborgin lifnaði við og er á ný iðandi af lífi. Þetta var kynnt fyrir mér þegar ég var þar á ferð fyrir nokkrum árum. 


mbl.is Margir vilja í hótelrekstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvert var stórslysinu forðað og hvar er það nú?

Það er hægt að forðast stórslys. Það er líka hægt að koma í veg fyrir stórslys. Það er hægt að forða fólki í burtu.  En ef stórslysi var forðað eins og sagt er í tengdri frétt á mbl.is, hvert var því þá forðað?

Yfir Fjarðarheiði? Út á sjó? 

Að forða slysi er bæði málvilla og rökvilla. Samt lifir þessi vitleysa góðu lífi.    


mbl.is Skjót viðbrögð komu í veg fyrir stórslys
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allar klær úti eins og fyrr.

Enn er í minnum dagskipunin sem gefin var út í bönkunum í bankabólunni um árið, að neyta allra bragða til þess að fá viðskiptavini til að bíta á krókinn í lántökum. 

Umrætt var þegar bankafulltrúi greindi frá því hvernig honum var refsað fyrir það að gefa viðskiptavini þær upplýsingar sem raunverulega hentuðu honum í stað gylliboðanna. 

Sömuleiðis þegar starfsfólk fékk umbun fyrir það að véla sem flesta. 

Eða eru menn kannski búnir að gleyma þessu?

Spurningin vaknar þegar svo virðist sem allt sé að fara í sama farið og fyrir Hrun í bönkunum eins og virðist líka víða annars staðar í þjóðlífinu.

Allar klær eru á ný úti til þess að græða sem mest undir kjörorðinu: Löglegt en siðlaust.

Í hugann koma orð bankamanns austur við Kárahnjúka árið 2005: "Því verr sem þessi virkjun gengur, því meira græðir bankinn." Þessi orð voru sögð í sambandi við það að á þeim tímapunkti stóð afar tæpt að gangaborunin tækist. Framkvæmdin hékk á bláþræði.   

Gleymskan á aðdraganda Hrunsins og það atferli og hugsunarhátt sem skóp það, er raunar líkast til áunnin gleymska, því að erfitt er að útskýra þetta öðruvísi.

Rétt eins og "áunnin fáfræði" ræður ríkjum í sambandi við óþægilegar staðreyndir í orku-, umhverfis- og náttúruverndarmálum er trúin á illa fenginn gróða eða skammtímagróða á kostnað framtíðarinnar og komandi kynslóða búin að ná fótfestu á ný.  

 


mbl.is Heimilin verða af hundruðum milljóna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meiri ófriður af ósköp algengu vetrarveðri.

Gosið í Holuhrauni er nokkurn veginn eins langt frá byggð og hugsast getur. Að vísu veldur gasmengun frá því tímabundnum óþægindum hér og þar en það hefur ekki stöðvað neina starfsemi. 

Öðru máli gegnir um snjóinnn. Hann hefur valdið stórkostlegum samgönguvandræðum um allt norðanvert landið.

Leiðangur, sem fór frá Reykjavík fyrir fimm dögum til Holuhrauns og var við hraunið snemma mánudags, er enn veðurtepptur í Möðrudal og kemst hvorki lönd né strönd þrátt fyrir að vera á eins öflugum samgöngutækjum og völ er á og hafa að baki ítrasta undirbúning, ráðstafanir og tilskilin leyfi. 

Einu vandkvæðin varðandi þetta hógværa gos, sem þó er stærsta hraungosið hér á landi í 241 ár, er hvað það er óaðgengilegt. 

Það tók alls sjö sérstakar tilraunir í meira en þrjá mánuði fyrir mig að ná þeim myndum af því sem ég sóttist eftir. 

Erlendir fjölmiðlamenn og ljósmyndarar eiga erfitt með að skilja það þegar ég er að reyna að lýsa fyrir þeim þeim aðstæðum, sem við er að etja. Þeir halda að það sé hægt að koma með þotu til landsins, fljúga rakleiðis frá Reykjavík að gosinu og til baka aftur á samfelldri ferð sinni til Evrópu. 

Tveir þýskir ljósmyndarar komu til landsins fyrir viku og fara til baka í dag eftir fýluför. 

Nú fyrst sjá þeir hvað eftirtalin upptalning mín þýddi:

Dagsbirtan á svæðinu er aðeins í fjórar klukkustundir á dag.

Flugferð fram og til baka frá Reykjavík til Holuhrauns með nægri viðveru yfir staðnum tekur fjórar klukkustundir.

Það verða að vera nothæf veðurskilyrði til flugs alla leið nákvæmlega sama tíma og birta er. 

Yfir landið ganga jafnvel þrenns konar veður á sama degi viku eftir viku.

Þessa vikuna ræður ríkjum óveður sem dynur yfir okkur beint frá Norðurpólnum með ígildi fellibyls að styrkleika.

Eini vonardagurinn nú í desember var síðastliðinni mánudagur og Flugfélag Íslands var líklegt til að geta boðið upp á útsýnisferð í Fokker F50 sem gefur að vísu útsýni út um plexiglerglugga á talsverðu hraða en ekki í návígi út um opinn glugga á miklu minni hraða.

Aflýsa þurfti einu ferðinni sem til stóð að fara þennan mánudag.

Svipaður dagur er ekki í sjónmáli.

Niðurstaða: Það hefur verið meiri ófriður af veðrinu og truflunum síðustu daga en af gosinu síðustu þrjá mánuði.

Slíkt gos hlýtur að teljast "friðsælt".

Og fallegt, sjá mynd á facebook síðunni í dag.  

 

 


mbl.is „Í rauninni ósköp friðsælt gos“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mera en 80 þúsund manns muna líka eftir þessu.

Það er oft skemmtilegt hvernig yngri kynslóðin metur reynslu og þekkingu hinna eldri. 

Því finnst til dæmis oft merkilegt hvernig ýmsu var háttað fyrir þann tíma sem þau muna sjálf eftir og að það fólk, sem man lengra aftur, sé orðið að einhvers konar fornmönnum. 

1968 voru um 150 þúsund manns lifandi á Íslandi. Af þeim voru í mesta lagi 40 þúsund undir fermingu og afgangurinn, um 100 þúsund manns, því kominn á þann aldur að þeir upplifðu helstu atburði ársins.

Vegna þess að meðalaldur Íslendinga er um 80 ár er vart við því að búast að meira en 20 þúsund af þessum 100 þúsund hafi látist eða misst minnið eftir 1968.

Það er því ekki stór frétt að einhver sem var uppi á Íslandi fyrir 46 árum muni eftir helstu atburðum þess árs eins og tveimur breytingum í grundvallarvenjum á Íslandi, að skipta úr vinstri umferð í hægri umferð og hætta "hringlinu með klukkuna."    


mbl.is Man þegar sumartíminn var festur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverju velti bíllinn?

"Augljóst var að sumir bílarnir áttu erfitt með að festa grip á veginum og einn velti..."

Stundum má deila um hvort sumar svonefndar málvillur séu svo slæmar. Stundum ráða íhaldssemi og smekkur för.  

Hitt ætti að vera ljóst að þegar málvilla er líka rökvilla sé varla hægt að mæla henni bót. 

Það á við þau orð í ofangreindri tilvitnaðri setningu úr tengdri frétt á mbl.is: 

"Einn (bíll) velti..."

Spurningin er: Hverju velti bíllinn? Ökumanninum? Sjálfum sér? 

Eða hvernig líst mönnum á setninguna: "Eitt skip sökkti..."? 

Einfaldast hefði verið að segja í tilvitnaðri frétt: "..og einn (bíll) valt.."

Í þessum orðum um bílinn, sem velti sjálfum sér, speglast sú tihneiging fjölmiðlafólks að láta fjöll, skörð, hús og ýmislegt fleira vera gerendur í frásögnum.  

Dæmi: "Hlíðarfjall opnaði."  "Oddsskarð opnaði." "Húsið opnaði.."

 


mbl.is Velti bílnum á Reykjanesbraut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband