Meiri ófriður af ósköp algengu vetrarveðri.

Gosið í Holuhrauni er nokkurn veginn eins langt frá byggð og hugsast getur. Að vísu veldur gasmengun frá því tímabundnum óþægindum hér og þar en það hefur ekki stöðvað neina starfsemi. 

Öðru máli gegnir um snjóinnn. Hann hefur valdið stórkostlegum samgönguvandræðum um allt norðanvert landið.

Leiðangur, sem fór frá Reykjavík fyrir fimm dögum til Holuhrauns og var við hraunið snemma mánudags, er enn veðurtepptur í Möðrudal og kemst hvorki lönd né strönd þrátt fyrir að vera á eins öflugum samgöngutækjum og völ er á og hafa að baki ítrasta undirbúning, ráðstafanir og tilskilin leyfi. 

Einu vandkvæðin varðandi þetta hógværa gos, sem þó er stærsta hraungosið hér á landi í 241 ár, er hvað það er óaðgengilegt. 

Það tók alls sjö sérstakar tilraunir í meira en þrjá mánuði fyrir mig að ná þeim myndum af því sem ég sóttist eftir. 

Erlendir fjölmiðlamenn og ljósmyndarar eiga erfitt með að skilja það þegar ég er að reyna að lýsa fyrir þeim þeim aðstæðum, sem við er að etja. Þeir halda að það sé hægt að koma með þotu til landsins, fljúga rakleiðis frá Reykjavík að gosinu og til baka aftur á samfelldri ferð sinni til Evrópu. 

Tveir þýskir ljósmyndarar komu til landsins fyrir viku og fara til baka í dag eftir fýluför. 

Nú fyrst sjá þeir hvað eftirtalin upptalning mín þýddi:

Dagsbirtan á svæðinu er aðeins í fjórar klukkustundir á dag.

Flugferð fram og til baka frá Reykjavík til Holuhrauns með nægri viðveru yfir staðnum tekur fjórar klukkustundir.

Það verða að vera nothæf veðurskilyrði til flugs alla leið nákvæmlega sama tíma og birta er. 

Yfir landið ganga jafnvel þrenns konar veður á sama degi viku eftir viku.

Þessa vikuna ræður ríkjum óveður sem dynur yfir okkur beint frá Norðurpólnum með ígildi fellibyls að styrkleika.

Eini vonardagurinn nú í desember var síðastliðinni mánudagur og Flugfélag Íslands var líklegt til að geta boðið upp á útsýnisferð í Fokker F50 sem gefur að vísu útsýni út um plexiglerglugga á talsverðu hraða en ekki í návígi út um opinn glugga á miklu minni hraða.

Aflýsa þurfti einu ferðinni sem til stóð að fara þennan mánudag.

Svipaður dagur er ekki í sjónmáli.

Niðurstaða: Það hefur verið meiri ófriður af veðrinu og truflunum síðustu daga en af gosinu síðustu þrjá mánuði.

Slíkt gos hlýtur að teljast "friðsælt".

Og fallegt, sjá mynd á facebook síðunni í dag.  

 

 


mbl.is „Í rauninni ósköp friðsælt gos“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Og svo vildu þeir sem voru á móti Kárahnjúkavirkjun gera svæðið að ferðamannaparadís með hóteli og veitingastöðum. Þjóðin myndi græða miklu meira á því en virkjuninni, var fullyrt..

Upptalning þín hér að ofan á veður og birtuskilyrðum segir allt sem segja þarf um hversu raunhæfarar þær væntingar voru. Fyrst hefði Vegagerðin (ríkið) þurft að fjárfesta fyrir einhverja miljarða í vegagerð á svæðið. Í dag er þarna fínn vegur sem virkjunin borgar en ekki ríkissjóður.  Til viðbótar; miljarða fjárfestingar í aðstöðu fyrir ferðamenn. Fyrir hvað? 

Meira að segja á sumrin geta veður verið viðsjárverð á hálendinu. Raunhæf nýting á Kárahnjúkasvæðinu til þjónustu við ferðamenn væri 60-90 dagar á ári.

Þess má geta að aldrei hafa fleiri ferðamenn komið á Kárahnjúkasvæðið en eftir að virkjunin varð klár. Fólk hefur áhuga á að sjá eitt mesta verkfræðiafrek veraldar á sviði virkjanaframkvæmda.

"you didnt see that coming, did you?" surprised 

Gunnar Th. Gunnarsson, 11.12.2014 kl. 11:45

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

10.12.2014 (í gær):

"Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, ákvað í dag að hefja rannsókn á því hvort samningar Landsvirkjunar og Landsnets vegna kísilvers PCC á Bakka við Húsavík feli í sér ólögmæta ríkisaðstoð."

"Landsvirkjun er þegar byrjuð á framkvæmdum á Þeistareykjum vegna virkjunar sem sjá á kísilverinu á Bakka fyrir raforku.

Nú segist ESA hafa efasemdir um að tekjur af orkusölu dugi fyrir virkjunarkostnaði og að Landsnet fái upp í kostnað við að flytja raforkuna þangað."

Þorsteinn Briem, 11.12.2014 kl. 12:47

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég hef verið ferli á Kárahnjúkasvæðinu á hverju sumri í 18 ár og einnig á stjákli þar á veturna, verið oft á hverju sumri, og sé ekki að neitt fleiri ferðamenn séu þar nú en áður nema síður sé. 

Suma daga hittir maður ekki kjaft á ferli síðustu sumrin. 

Bestu dagarnir í sunnan hnjúkaþey fyrri part sumars eru nú ónýtir vegna nýs leirfoks úr lónstæðinu enda sé ég nánast enga þar á ferðinni þá nema Völund Jóhannesson.

Slæma veðrið, sem nú er, segir þú að sé merki þess að vetrarferðamennska sé vonlaus. Annað segja tölurnar. Margfalt fleiri útlendingar koma til Íslands en áður og eru á höttunum eftir upplifun, sem aðeins sé hægt að finna einu sinni á ævinnni.

Þeim finnst það hreint æðislegt að lenda í íslenska skafrenningnum og stórhríðinni. Þjóðverjarnir, sem ég segi frá í pistlinu, sáu að vísu ekki gosið frekar en við Íslendingar sjálfir þessa daga.

En þeir náðu tvo daga að upplifa eins mikla vetrarfegurð og hugsanleg er á norðurslóðum og fengu síðan óveður, sem toppaði lífsreynsluna.

Urðu að því leyti til ekki fyrir vonbrigðum með Íslandsferðina heldur fór hún fram úr öllum vonum þeirra, ef gosið er undanskilið.  

Ómar Ragnarsson, 11.12.2014 kl. 23:15

4 identicon

Ég var uppi á Langjökli í sumar í blind-öskrandi byl. Var með 35 ferðamenn eða svo.
Mér fannst þetta nú ekkert spes, - 10 metra skyggni. En þeim fannst þetta æðislegt.
Nú.....og svo var maður á Sauðárvöllum í September í rjómablíðu.....
En hjá Kárahnjújum aldrei. En það er þó kominn vegur.
Ég hef reyndar nokkrum sinnum hitt ferðamenn sem sniðganga Austurland einmitt vegna Kárahnjúkavirkjunar.

Jón Logi (IP-tala skráð) 12.12.2014 kl. 07:29

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég segi hvergi að vetrarferðamennska sé vonlaus, hún er vonandi einmitt vaxtabroddurinn. En hugmyndir "ykkar" um ferðamennsku á Kárahnjúkascæðinu voru óraunhæfar.

Sú staðhæfing að ekki séu fleiri ferðamenn núna þarna uppfrá er óskiljanleg hjá þér. Fyrir virkjun var aðgengi að svæðinu erfitt og aðeins fjalla og rjúpnaveiðimenn þarna á hustin og vetrum á jeppum. Nú er þarna góður vegur bundinn slitlagi. 

Tölur um ferðamenn frá Gestastofu, Végarði og hugsanlega Snæfellsstöfu einnig sýna þetta svart á hvítu. Margföld aukning.

Gunnar Th. Gunnarsson, 12.12.2014 kl. 17:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband