24.9.2014 | 20:02
Nauðsynleg sérstaða hvarf.
Til að vörur seljist vel verða þær ekki aðeins að vera betri en vörur keppinautanna heldur er ekki síður nauðsynlegt að sérstaðan byggist á fleiri atriðum en verðinu og að þannig sé hægt að hörfa til traustra og stórra markhópa.
Sænsku bílaverksmiðjurnar Volvo og Saab hösluðu sér völl á ólíkum forsendum og bættu hvor aðra upp að því leyti að skörun markhópanna var litiil.
Volvo höfðaði meira til yfirvegaðra kaupenda með því að bjóða vel smiðaða, vandaða og trausta en næsta venjulega bíla með vél frammi í og drif á afturhjólum, þar sem gæði og öryggi voru sett ofar nýjungum í hönnun og útliti.
Eina atriðið sem minnisstætt er að væri öðruvísi en venja var á þessum tíma, var gormafjöðrunin að aftan. Og Volvo bauð um 1960 uppá kraftmiklar vélar sem valkost til að þjóna þeim sem vildu meira afl og hraða.
Útlitið speglaði íhaldssemi og tregðu tll að stunda ævintýramennsku.
Saab fór gerólíka leið þótt vöruvöndun og traust smíð væri líka í hávegum höfð. Saab 92 / 96 var framhjóladrifinn og með meira straumlínulagi og minni loftmótstöðu en aðrir smábílar á þeim tíma.
Útlitið var framúrstefnulegt en skapaði þó furðu mikið innanrými.
Svo vel var hönnunin heppnuð að hún entist að mestu óbreytt í 33 ár. Helstu breytingar voru fólgnar í því að skipta úr tvígengisvél yfir í fjörgengisvél.
Akstureiginleikarnir voru mjög góðir og skópu sigurgöngu Saab í bílaíþróttum.
Arftakinn, Saab 99 / 9000, var einstaklega vel heppnaður bíll, með hagkvæma og fallega hönnun sem skóp mikið rými og þægindi miðað við stærð og þyngd.
Bíllinn var með sérstæðan svip og auðþekkjanlegur. Þessi arftaki og afbrigði af honum entust í meira en tvo áratugi, allt fram á níuunda áratug síðustu aldar.
Á þeim tíma hefði verið lífsnauðsynlegt fyrir Saab að bjóða upp á nýja kynslóð bíla sem hefði sömu sérstöðu og Saab bílar höfðu haft fram að því.
En nú voru komin til sögunnar erfiðari skilyrði til nýsköpunar en áður höfðu verið. Framleiðendur neyttust til að einfalda framleiðsluna með því að smíða sameiginlega undirvagna, vélar og driflínur.
Saab hafði að vísu strax á sjöunda áratugnum leitað samvinnu við erlendar bílaverksmiðjur varðandi bílvélar, samvinnu við Ford í Þýskalandi með vélar í Saab 96 og í fyrstu var Saab 35 með vél frá Triumph.
En samvinnan 20 árum síðar við Fiat um sameiginlega undirvagna og meginlínur í yfirbyggingu í nýjum Saab, Fiat Chroma og Lancia Thema eyðilagði sérstöðu Saab.
Af þessum þremur bílum var Lancia Thema best heppnaður og allt í einu virtist Saab ekki lengur verið Saab.
Einhvern veginn heppnaðist samvinna Volvo við stórar erlendar bílaverksmiðjur betur en hjá Saab þegar kom að því verða óhjákvæmlega að beygja sig fyrir grimmum kröfum um samhæfingu og samvinnu í bílaframleiðslunni.
Nú var Volvo orðinn framhjóladrifinn eins og Saab og flestir aðrir bílar, þar með var sérstaða Saab að því leyti úr sögunni.
Og raunar blasir við að jafn fámennt land og Svíþjóð ber ekki tvær bílaverksmiðjur á okkar tímum, og raunar kraftaverk að ein bílaverksmiðja af nægilegri stærð þrífist þar.
Önnur hvor verksmiðjan að minnsta kosti, Volvo eða Saab, hlaut að lúta í gras, og hins sérstæða Saab fortíðarinnar er sárt saknað.
Þetta er gömul saga og ný. Sem dæmi má nefna þegar AMC naut mikillar velgengni í kringum 1960 í Bandaríkjunum í krafti yfirburða stöðu á markaði fyrir minnstu amerísku bílana, þá gerði AMC þau mistök að ætla að sækja fram á öllum markaðnum, allt frá minnstu til stærstu bílanna.
Það dreifði kröftunum, risarnir þrír svöruðu á öllum vígstöðvum og sérstaða AMC var eyðilögð.
Saab höfðaði
![]() |
Saab segir upp þriðjungi starfsfólks |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.9.2014 | 08:09
Hvílík bylting og ævintýri á einum mannsaldri !
Sumarið 1957 fórum við bræðurinir, Edvard og ég, til Öræfa til að heimsækja bróður okkar, Jón, sem var í sveit á Hofsnesi.
Flogið var á DC-3 til Fagurhólsmýrar. Þar með var maður kominn í afskekktustu sveit landins þar sem engin af fjölmörgum ám í sveitinni hafði verið brúuð, aðeins lágu slóðar um sveitina og allt var svipað og hafði verið í þúsund ár.
Og þó. Nítíminn var að banka á dyrnar. Ungu bræðurnir á Hofsnesi höfðu fengið rússneskan blæjujeppa í hendur og fóru með okkur i ógleymanlega ferð vestur til Skaftafellls og austur í Kvísker.
Sýna þurfti mikla lagni við að komast yfir allar árnar sem voru á leið okkar.
Nú liggur hringvegurinn um sveitina og lúxushótel rísa. Fram yfir 1974 var Freysnes aðeins örnefni forns eyðibýlis.
Ég lenti FRÚnni þar 1972 á afar erfiðum óskráðum lendingarstað. Þar er nú flugvöllur með tveimur flugbrautum, flugrekstri, og í næsta nágrenni eru hótelbyggingarnar í Freysnesi og ferðamannamiðstóði Skaftafellsþjóðgarðar, sem nú er orðinn hluti af Vatnajökulsþjóðgarði.
Hvílík bylting og ævintýri á einum mannsaldri !
![]() |
Milljarðar í hágæðahótel |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
23.9.2014 | 21:32
Í fararbroddi, en skemmum það með þöggun.
Ástæða er til að fagna því að íslenskir vísindamenn eru í fararbroddi í heiminum varðandi nýtingu jarðvarmaorku og eru að uppskera í samræmi við það. Heimsþing Alþjóða jarðhitasambandsins hér á landi 2020 er gleðilegt merki um það.
En betur má ef duga skal. Yfir "íslenska jarðvarmasamfélaginu" og íslenskum ráðamönnum og þjóðinni hvílir skuggi þöggunar yfir þeirri staðreynd, að eins og er, felur nýting meginhluta íslenska jarðvarmans hvorki í sér endurnýjanlega né hreina orku, og því síður viðunandi nýtingarhlutfall.
Þetta eru þrjú meginatriði, og falleinkun blasir við í þeim öllum.
Dæmi um þöggunina og blekkinguna er myndin, sem fylgir frétt um þetta á mbl.is og er af gufumekkinum við Hellisheiðarvirkjun. Verra dæmi var ekki hægt að velja.
Skoðun atriðin þrjú varðandi nýtinguna, sem myndin sýnir:
1. Endurnýjanleg orka?
Svar: Nei. Orkan er þegar byrjuð að dvína enda var í forsendum virkjunarinnar ekki gert ráð fyrir meira en 50 ára endingartíma hennar. Það er langt frá því að standast lágmarkskröfur um sjálfbæra þróun.
2. Hrein orka?
Svar: Nei. Hellisheiðarvirkjun er mest mengandi fyrirtæki landsins og allar fullyrðingar og loforð um að það vandamál væri fljótleyst og auðleyst hafa reynst blekkingar í meira en áratug.
3. Góð orkunýting?
Svar: Fjarri því. Aðeins 10-15% orkunnar nýtist en 85-90% fara óbeisluð út í loftið.
Vegna þöggunarinnar og blekkinganna vanrækjum við að takast á við það að gera heildarúttekt á íslenskri jarðvarmaorku og skipuleggja nýtingu hennar þannig að hún standist kröfur um sjálfbæra þróun í svipuðum anda og Guðmundur Pálmason velti upp í byrjun og þeir Ólafur Flóvenz og Guðni Axelsson hafa síðar gert.
![]() |
Þetta verður mjög metnaðarfullt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
23.9.2014 | 19:10
Komnir langt frá hugsjónunum fyrir öld.
Samvinnuhreyfingin var stofnuð fyrir meira en öld til að berjast gegn markaðsmisnotkun og einokun kaupamanna og forréttindum peningavaldsins.
Hún stofnuð gegn misrétti og kúgun og til að efla lýðræði, jafnrétti og lýðréttindi í krafti lýðræðislegra samtaka fólksins sjálfs.
Stjórnmálaarmur þessarar alþýðuhreyfingar var Framsóknarflokkurinn.
Því miður fóru fljótlega að myndast skörð í hugsjónirnar. Þegar í ljós kom að Framsóknarflokkurinn gat nýtt sér stórfellt misvægi atkvæða til að ná völdum langt umfram fylgi sitt, gerðist hann hatrammur verjandi þessa ólýðræðislega misvægis um áratuga skeið.
Samvinnuhreyfingin fór smám saman að breytast úr fjöldahreyfingu með opnu lýðræði í lokaðan og þröngsýnan auðhringsklúbb nýrrar valdastéttar innan hennar.
Frá fullveldinu fyrir 96 árum hafa Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn setið í 40 ár saman í ríkisstjórn og á þeim árum varð til helmingaskiptafyrirkomulag, sem færði Samvinnuhreyfinguna og Framsóknarflokkinn æ meira frá hinum upprunalegu hugsjónum.´
Hámarki náði þetta ástand í öllu stjórnkerfinu og efnahagskerfinu milli 1947 og 1956 og síðan upp úr aldamótunum 2000.
Undanþágur mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum og markaðsmisnotkun og siðlaus lögbrot á kostnað neytenda og almennings eru dæmi um það að spillingin lifir enn góðu lífi hjá þeim, sem eru komnir óravegu frá hugsjónum umbótafólksins fyrir einni öld.
![]() |
Segir tjónið nema 200 milljónum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.9.2014 | 09:07
Hraunrennslið áfram, - góðar fréttir?
Hugsanlega eru það góðar fréttir að hraunrennslinu í Holuhrauni linni ekki. Þótt þetta rennsli tappi aðeins örfáum prósentum af öllum kvikuflutningunum, sem eru á Bárðarbungusvæðinu, holar "hraundropinn" steininn svo tekið sé líkingamál.
Meðan enn er gliðnun með skjálftum yfir 5 stig og sig í öskju yfireldstöðvar Íslands, sem liggur beint ofan á öðrum af tveimur stærstu möttulstrókum heims, eru það góðar fréttir að tiltölulega saklaust hraungos sé í fullum gangi og lini á þrýstingnum.
Því að það hljóta að vera takmörk fyrir því hve lengi gos undir jöklinum ná aðeins að bræða sigkatla í jökulinn í stað þess að sprengja sig upp í gegnum hann með öskugosi.
![]() |
Skjálfti upp á 5,2 stig |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.9.2014 | 22:09
Vantar "góða" kandídata á listann.
Listinn sem AutoExpress birtir yfir tilnefnda bíla til titilsins "versti bíll sögunnar" er ágætur um margt en þó vantar nokkra kandidata.
Ef bara er hugað að vestrænum bílum finnst mér vanta Pontiac Aztek, sem var herfilega ljótur.
Stundum er spurningin sú hvort ljótleikinn einn nægi til útnefningar, og þar sómir Ssangyong Rodius sín vel í hópnum, sem AutoExpress birtir.
Hér á Íslandi er ekki spurning í mínum huga að tvo austur-þýska bíla vantar á listann: Garant sendibílinn og P-70, sem var fyrirrennari Trabant, en þessir bílar voru fluttir hinn á tímum vinstri stjórnarinnar 1956-58.
Verstur er þó sennilega hinn úkrainski Zaphorszhets 965 var með eindæmum illa hannaður og illa smíðaður og reyndist skelfilega hér sem annars staðar, miklu verr en elsti Moskovitsinn sem hingað kom á árunum 1953-1956.
![]() |
Verstu bílar sögunnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.9.2014 | 12:36
Í sókn til síbyljunnar ?
Sú var tíð að Rás 1 var eina leyfilega útvarpsrás landsins. Yfirbragð hennar var blandað og á síðari hluta aldarinnar sem leið fékk hún samkeppni frá Kananum, Radio Luxemburg og fleiri erlendum stöðvum sem spiluðu létta tónlist mestan part.
Gamla Gufan hélt að mestu sínu yfirbragði sem alíslensk stöð en sinnti þó léttu efni og dægurtónlist í vaxandi mæli að hluta til svo að sem flestir fengju eitthvað fyrir sinn snúð og erlendu stöðvarnar fengju einhverja samkeppni.
Sú samkeppni var aukin með Rás 2 og frá 1986 hafa ótal útvarpsrásir verið dagskrár, sem að mestu hefur byggst upp á spilun léttrar tónlistar sem smám saman hefur orðið valin af tölvu mestan part.
Smám saman er yfirgnæfandi efni útvarpsrásanna nokkurs konar síbylja býsna einsleitrar tónlistar þar sem lögin eru ekki kynnt, og ef svo er, varla meira en að nefna söngvarana.
Þess á milli misgott rabb og spjall af fingrum fram mestan part.
Áður fyrr vantaði meira af léttu útvarpsefni hér á landi en nú hefur þetta í heildina tekið snúist við upp í það að það er offramboð á síbyljunni ef eitthvað er og leiknum auglýsingum í löngum bunum upp á ameríska mátann auk spjallþátta sem eru að stórum hluta innihaldslítill kjaftagangur .
Margt á Rás 2 hefur verið vel unnin dagskrá og Rás 1 hefur þrátt fyrir fjárskort tekist að viðhalda fyrirfram vel unninni dagskrárgerð, þótt endurtekið efni hafi verið full áberandi.
En nú er engu líkara en að sú sérstaða Rásar 1 að skera sig úr síbyljunni eigi undir högg að sækja.
Sjálfsagt er að bæta dagskrána eftir föngum, gera hana innihaldsríkari og áheyrilegri, en breytingarnar mega ekki ganga svo langt að þær séu að því er virðist eingöngu breytinganna vegna.
Dæmi um það er síðasta lag fyrir fréttir, sem hefur jafnan verið flutt af íslenskum söngvurum. Af nógu hefur verið að taka, því að vilji menn bæta lagavalið og gera það fjölbreyttara en verið hefur, er þeim sem velja lögin, i lófa lagið að leita víðar fanga en gert hefur verið í nær óþrjótandi sönglagasafni íslenskrar tónlistar.
Íslenska sönglagið, tónskáld, söngfólk og tónlistarfólk, hefur hingað til átt um það bil 3ja mínútna verndaðan griðastað í útvarpsdagskránni í síðasta laginu fyrir fréttir. Ég hef enn ekki heyrt einn einasta mann kvarta yfir því eða amast við því.
Rétt í þann mund sem ég hripa þessi orð hlusta ég á það sem hefur rutt því burtu á Rás 1; síbylju hástemmds auglýsingalesturs þar sem hrópað er í æsingi um það hvað allt sé svo frábært á frábæru verði í frábæru úrvali.
Síðan koma fréttirnar lesnar heilli tóntegund neðar eins og eitthvað miklu ómerkilegra.
Kannski er einhver búinn að reikna út að lesnu auglýsingarnar á dýrasta auglýsingatímanum auki tekjur Ríkisútvarpsins.
Allt sé falt fyrir peninga.
Mér líður hins vegar svipað og þegar Reykjavíkurborg seldi Og Vodafone Þjóðhátíðardaginn 17. júní á græðgisbóluárunun, þegar öll hátíðarhöldin voru í boði Og Vodafone og það eina sem var eftir, var að syngja: "Ó Guð vors lands Og Vodafone, vér lofum þitt heilaga, heilaga nafn."
Það fengust áreiðanlega mun meiri peningar fyrir að selja 17. júni en síðasta lagið fyrir fréttir en menn höfðu þó rænu á því að endurtaka ekki leikinn hvað Þjóðhátíðardaginn snerti.
Vonandi gera menn svipað varðandi sönglagið fyrir fréttir því að það er slys og móðgun við íslenskt tónlistarmenningu að fella þessa fallegu og skemmtilegu hefð niður sem er eitt af því sem getur forðað Rás 1 að verða síbyljunni algerlega að bráð.
Að því sögðu má hins vegar taka það fram að það er gott og nauðsynlegt að þróa Rás 1 í sífellu í takt við tímana eins og nú er reynt að gera, og vel má hugsa sér að færa Rás 1 í svipaðan búning og hún var í þegar hún var ein á boðstólum fyrstu hálfa öldina og reyndi að gera sem flestu útvarpshlustendum til hæfis án þess að slaka á kröfum um vandaða og áheyrilega dagskrá.
![]() |
Eiga erfitt með breytingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.9.2014 | 07:36
Flugvellir eru öryggisatriði.
Samgöngumannvirki eru ekki aðeins álíka nauðsynleg fyrir þjóðfélagið og æðakerfið er fyrir líkamann, heldur eru þau annað og meira; - öryggisatriði.
Þannig eru Reykjavíkurflugvöllur, Egilsstaðaflugvöllur og Akureyrarflugvöllur ómissandi öryggisatriði fyrir millilandaflug okkar, og minnsta flugbraut Reykjavíkurflugvallar er öryggisatriði fyrir innanlandsflugið og sjúkraflugið.
Enginn veit fyrirfram hvenær það eigi eftir að koma sér illa að búið er að loka Patreksfjarðarflugvelli vegna fjárskorts Isavia, en landleiðin frá þeim flugvelli til þéttbýlsins á Patreksfirði liggur á láglendi meðfram strönd fjarðarins, en hins vegar er yfir tvo fjallvegi og talsvert lengri leið að fara til Bíldudalsflugvallar.
Fokker F50 flugvél missti afl á báðum hreyflum yfir Brúaröræfum í nóvember 2007 og farþegum var gert að setja sig í brotlendingarstellingu í sætum sínum í fyrstu, áður en það tókst að koma afli á annan hreyfilinn og lenda við afl hans eins á Egilsstaðaflugvelli.
Skipunin um brotlendingarstellingu var að vísu byggð á misskilningi flugfreyju, en hún var engu að síður einsdæmi í íslenskri flugsögu síðari ára og farþegarnir þurftu áfallahjálp á eftir.
Þá var enginn nógu stór flugvöllur nothæfur fyrir Fokker F50 skráður og viðurkenndur á Brúaröræfum eða hálendinu eins og síðar varð og nú er.
Náttúruhamfarir á hálendinu vestan flugvallarins um þessar mundir minna á að enginn veiit hvenær hann og samgönguleiðir á landi á því svæði muni geta komið sér vel.
Enginn vissi fyrirfram um það á sínum tíma hve vel tilvist flugbrautar á Grímsstöðum á Fjöllum ætti eftir að koma sér vel þegar alvarlegt hópslys varð við Hólsselskíl skammt norðan við Grímsstaði.
Isavia telur sig ekki geta viðhaldið völlum eins og Sauðárflugvelli, Siglufjarðarflugvelli, Patreksfjarðarflugvelli og fleiri flugvöllum vegna fjárskorts og Orri Vigfússon og félagar hans munu væntanlega þurfa að borga Flugmálastjórn reglulega á hverju ári fyrir að fá að halda Siglufjarðarflugvelli opnum til öryggis og þæginda fyrir Siglfirðinga og aðra.
Viðhaldsleysi á Egilsstaðaflugvelli er þegar farið að hafa neikvæð áhrif á ástand hans.
Ég býð Orra og félaga hans velkomna í hóp þeirra sem er ekki sama um ástandið í flugvallamálum á Íslandi.
Ekki veitir af. Þeim sem hafa fjárveitingavaldið virðast ekki gera sér grein fyrir því öryggisatriði sem flugvellirnir eru.
![]() |
Orri vill taka yfir flugvöllinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.9.2014 | 15:41
Lífið er röð af augnablikum.
Ragnar Bjarnason er einn af þessum mönnum, sem kalla má menn augnabliksins. Á yfirborðinu kann það að sýnast fáfengilegt en er það ekki þegar betur er að gætt.
Því að líf okkar allra er röð af óendanlega mörgum augnablikum, og sá maður, sem getur gætt sem flest þessara þúsunda augnablika lífsnautn og gleði, er bæði mikill hamingjumaður og einnig ómetanlegur fyrir alla í kringum hann.
Slíkur maður er Ragnar Bjarnason, maður djúprar hlýju, glettni og vinarþels.
![]() |
Raggi Bjarna: Ekki áhyggjur af neinu nema minninu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.9.2014 | 09:32
"Það endar með því að þeir drepa einhvern..."
"Það endar með þvi að þeir drepa einhvern" er sagt að hrotið hafi af vörum kerlingiar einnar, þegar hún heyrði fréttirnar um að Fyrri heimsstyrjöldin hefði brotist út.
Líklega má svipað segja um Bárðarbungu. Hún er ofan á öðrum af tveimur stærstu möttulstrókum veraldar og er nokkurs konar yfireldstöð, móðir eða mafíuforingi íslenskra eldfjalla.
Nú ríkir þar langvarandi gliðnunar - og skjálftaferli sem opnar leið upp á yfirborðið fyrir hraunkviku frá möttulstróknum mikla.
Kvikan, sem komið hefur upp, hefur reynst afar þunnfljótandi og gjörn á að "leka" eða þrýstast upp á yfirborðið án mikilla átaka hingað til. Það hafa myndast sigkatlar hér og þar í jöklinum í smáum eldgosum sem ekki hafa enn komist upp á yfirborðið.
En að því hlýtur að koma, rétt eins og það hlaut að enda með manndrápum þegar átök heimsstyrjaldar hófust.
![]() |
Líkur á gosi undir jökli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)