27.3.2014 | 10:37
Engin óyggjandi merki eru um að flugstjórinn beri ábyrgðina.
Hvarf malasísku þarþegaþotunnar er enn algerlega óupplýst mál. Svo óupplýst að benda má enn á furðu marga möguleika á hvarfi hennar.
Af þeim sökum er algerlega ótímabært, rangt og ósiðlegt að slá því fullu að flugstjórinn beri ábyrgð á hvarfi hennar. Og mestar líkur eru á því að það verði aldrei hægt að upplýsa neitt um það.
Ég er einn af þeim sem hefur verið að velta upp möguleikum á því að flugstjórinn eða flugstjórarnir báðir hafi átt þátt í hvarfinu að einhverju leyti og einnig því að eitthvað hafi farið úrskeiðis í því efni miðað við það sem lagt var upp með. Í svona rannsókn verður að velta við hverjum steini eins og sagt er.
Það er hins vegar fráleitt að slá því föstu að flugstjórinn einn beri ábyrgð á hvarfi hennar. Um hann gildir sú algilda regla að allir, einn eða fleiri, skuli teljast sýknir saka nema sekt þeirra sé sönnuð.
![]() |
Flugvélahvarfið ekkert slys |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.3.2014 | 20:55
Hvar endar þetta fáránlega "jeppa"tal?
Notkun orðhlutans "jepp" er orðin beinlínis hlægileg hér á landi um bíla, sem eiga nær ekkert sameiginlegt lengur með jeppum, og í engu öðru tungumáli sést hliðstæða svona orðavals.
Fyrstu jepplingarnir hér á landi sem nota hefði mátt þetta orð um, voru fjórhjóladrifnir Subaru, Toyota Tercel, Fiat Panda 4x4 og Toyota RAV4, en nýyrðið jepplingur varð ekki til í íslensku fyrr en sá síðasnefndi kom til sögunnar og fleiri fóru að bætast við, svo sem Honda CRV, Landrover Freelander og Renault Scenic 4x4.
Um svona bíla var síðan farið að nota tvö nýyrði erlendis, SUV (Sport Utility Vehicle) og Crossover, þ. e. bíla með heilsteyptri sjálfberandi hárri byggingu, drif á öllum hjólum og örlítið meiri veghæð.
Ekkert íslenskt nýyrði hefur verið kynnt um þessa bíla, en orðið umskiptingur lýsir því kannski að hluta.
Smám saman komust bílaframleiðendur að því að fjórhjóladrif og veghæð skipti kaupendur miklu minna máli en útlitið sjálft og fóru því að lækka veghæðina og bjóða "jepplingana" án fjórhjóladrifs.
Ástæðan var sú að útlitið var orðið að stöðutákni þótt auðvitað væri aðeins meira rými inni í hábyggðum bílum en lágbyggðum.
Nú er svo komið að langflestir "jepplingarnir" eða "borgarjepparnir" eru ekki fjórhjóladrifnir og flestir með svo litla veghæð, að hlaðnir komast þeir hvorki lönd né strönd á slæmum vegum.
Og nú eru að koma á markað "borgarjeppar" sem eru ekki einu sinni seldir með fjórhjóladrifi eins og til dæmis Renault Captur.
Þar með er notkun orðshlutans "jepp" komin út í tóma vitleysu og komið mál til að hætta að nota það í bílum sem hafa engu betri eiginleika á erfiðum og torfærum vegum en venjulegir fólksbílar, en veita falska öryggistilfinningu.
Veghæð þeirra óhlaðinna er minni en var til dæmis á Volkswagenbjöllunni og flestum öðrum fólksbílum hér í gamla daga.
Flestir þessara bíla er með framenda sem skagar langt fram alveg niðri við jörð og er því hætt við að rekast niður á ójöfnum vegum, til dæmis þar sem hvörf eru í þeim eða þeir liggja yfir ár og læki.
Ef bílarnir væru með fjórhjóladrifi gæti framendinn að vísu nýst sem ágætis snjóýtutönn, en er auðvitað ekki hannaður með slíkt í huga heldur sem tískufyrirbrigði og í besta falli hentugt lag til að lækka loftmótstöðu.
Í ofanálag er nú í gangi tilhneiging til að lækka yfirbyggingu þessara bíla og hefur hún að meðaltali lækkað um 5-10 sentimetra á síðustu misserum og orðin svipuð og var á venjulegum fólksbílum fram undir 1960. Á sama tíma hafa venjulegir fólskbílar hækkað, svo að hæðarmunurinn á þeim og þessum "borgarjeppum" er orðinn minni en 10 sentimetrar !
Eina sérstæða þessara umræddu bíla er að þeir hafa sðeins hærra þak en venjulegir fólksbílar og orðin "háþekja", "háþekjubíll" eða "fjölnotabíll" ættu kannski best við, en með sama áframhaldi er hætt við að einnig sá munur sé að þurrrkast út!
![]() |
Með notagildið á hreinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.3.2014 | 10:40
"Sportin tvö" hjá 007.
Svo virðist sem ýmsar tröllasögur af leyniþjónustumönnum svo sem James Bond, villi um fyrir sumum.
Að minnsta kosti virðist það hafa hent leyniþjónustumanninn, sem átti að gæta sjálfs Bandaríkjaforseta en fannst meðvitundarlaus í áfengisdauða.
Er það furða að menn stígi
óvarlega í sportin tvö?
Í kvennafari´og fylleríi
var fremstur allra núll-núll-sjö.
![]() |
Leyniþjónustumaður drapst áfengisdauða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.3.2014 | 01:18
Litlar framfarir í tæpa öld.
Í kjölfar Fyrri heimsstyrjaldarinnar voru haldnar almennar atkvæðagreiðslur í Slésvík-Holtsetalandi og í Saar´-héraðinu 1935 í samræmi við hugmyndir Wilsons Bandaríkjaforseta um sjálfsákvörðunarrétt þjóða og þjóðabrota.
Íslendingar greiddu líka atkvæði um samning við Dani um frelsi og fullveldi Íslands, en það var eingöngu vegna þess að Danir kröfðust atkvæðagreiðslu og sjálfsákvörðunarréttar íbúa í Slésvík-Holtsetalandi og urðu að vera samkvæmir sjálfum sér varðandi Ísland.
Raunar kom hugmynd Wilsons úr sérkennilegri átt, því að borgarastríðið í Bandaríkjunum hálfri öld fyrr snerist um það að meina Suðurríkjunum að skilja sig frá Norðurríkjum Bandaríkjanna.
Tviskinnungurinn var mikill. Það þótti allt í lagi að íbúarnir í nyrstu héruðum Þýskalands fengju að ráða sjálfir ríkisfangi sínu, af því að það fól í sér minnkun þýska ríkisins.
Hins vegar þótti ótækt að halda atkvæðagreiðslu í Súdetahéruðunum við suðurjaðar ríkisins af því að sigurvegarar stríðsins gátu ekki sætt við þá niðurstöðu að nein hinna sigruðu þjóða færði út landamæri sín, jafnvel þótt viðkomandi íbúar vildu það.
Og allar götur síðan hefur ríkt mikill tvískinnungur um þetta og oftast verið harðneitað að láta íbúa svæða ráða sjálfa um stöðu sína og framtíð og gjarnan því borið við að slíkt sé ólöglegt samkvæmt stjórnarskrá viðkomandi lands.
Í lok Heimsstyrjaldarinnar síðari var mikil harðneskja ríkjandi varðandi svona mál og 14 milljónir manna voru fluttir nauðugir frá heimkynnum sínum í Evrópu til að þjóna vilja sigurvegaranna.
Þá var tíðarandinn andsnúinn sjálfsákvörðunarrétti á þessu sviði og Danir beittu brögðum til að koma í veg fyrir að Færeyingar fengju sjálfstæði.
Hvorki er að sjá að skynsamlegt sé né réttlátt að þvinga Rússa til að láta Krímskagann af hendi til Úkraínumanna gegn vilja Krímverja. Enda ómögulegt, bæði hernaðarlega og pólitískt.
![]() |
Þjóðaratkvæðið ólögmætt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.3.2014 | 00:27
Kona sem þarf að hlusta á.
Kristín Vala Ragnarsdóttir prófessor vakti fyrst athygli mína á Degi íslenskrar náttúru 2011 þegar hún hélt stórmerkan fyrirlestur í Öskju um sjálfbærni eða öllu heldur ósjálfbærni helstu auðlinda heims.
Sá fyrirlestur opnaði "stóru myndina" sem hún hefur lagt áherslu á að reyna að sjá, greina og dreifa upplýsingum um og var sem opinberun fyrir mig.
Raunar ætti efni þessa fyrirlestrar Kristínar Völu að vera skyldulesning núlifandi jarðarbúa í stað þess að voldug valdaöfl gera allt sem þau geta til þess að fela staðreyndirnar um það hvert mannkynið stefnir á þessari öld.
Ég man að ég reyndi að vekja athygli á þessum fyrirlestri á sínum tíma en talaði fyrir daufum eyrum.
Hef reyndar oft vitnað síðan í einstök atriði hans, en það er eins og að stökkva vatni á gæs.
Nú hefur Kristín Vala fengið verðskuldaða viðurkenningu erlendis með kjöri í norsku vísindaakademíuna.
Vonandi verður farið að hlusta eitthvað á hana hér heima þegar svo er komið.
![]() |
Horfir á stóru myndina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.3.2014 | 19:02
Hvað næst? Virkjanir í Öskju, Kverkfjöllum og á Þingvöllum?
Þegar sú grein laga og reglna um Orkustofnun sem varðar skyldu hennar til að rannsaka alla hugsanlega virkjunarkosti er túlkuð þröngt er augljóslega komið út á braut fáránleikans í virkjanaæði landsmanna, sem ég get ekki ímyndað mér að eigi neina hliðstæðu í öðrum löndum.
Einkum er þetta fáránlegt þegar þess er gætt að rannsóknir og vinna varðandi alla þessa virkjankosti á helstu náttúruverðmætasvæðum landsins kostar mikið fé og vinnu.
Hitt er líka vitað að virkjanafíklarnir hafa stundað það að eyða sem mestu fé í rannsóknir til þess að geta sagt síðar, að úr því að eytt hafi verið svona miklum fjármunum í þetta, megi ekki "eyðileggja" þessar fjárfestingar.
Þetta afbrigði af "túrbínutrixinu" hefur verið notað í áratugi og hefur gefist virkjana- og stóriðjutrúarmönnum vel.
Að setja upp net ígilda Hellisheiðarvirkjunar í Kerlingarfjöllum og við Torfajökul, skrúfa fyrir þrjá stórfossa í Þjórsá, fara með virkjun inn í Þjórsárver og keyra stórar jarðvarmavirkjanir ofan í kokið á Hvergerðingum er alveg á pari við það að virkja í Öskju, Kverkfjöllum og á Þingvöllum.
Vel má hugsa sér "snyrtilega" stíflu við suðurenda Þingvallavatns til að hækka fallhæð og auka afl Steingrímsstöðvar á ódýran hátt, en myndi jafnframt sökkva Þingvöllum.
Ef lög um Orkustofnun eru túlkuð þröngt ætti hún auðvitað að bruna af stað í rannsóknir á þessu og heimta að það fari inn í 3ja áfanga rammaáætlunar og jafnvel mætti hugsa sér að bora "rannsóknarboranir" fyrir norðan Þingvelli til að ganga úr skugga um hagkvæmni jarðvarmavirkjunar þar.
Að ekki sé nú talað um boranir í Öskju og Kverkfjöllum, enda eru Fremri-Námur nyrst í Ódáðahrauni nú á dauðalista stofnunarinnar.
Nú eru litlar líkur á gosi í Eyjafjallajökli og næsta nágrenni hans. Er þá ekki tilvalið að nota tækifærið og "lögbundið hlutverk" til að vaða þangað upp eftir og byrja að bora?
![]() |
Sinnir lögbundnu hlutverki sínu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.3.2014 | 11:06
Öfgar í veðurfarinu setja margt úr skorðum.
Hlýnandi lofthjúpur hefur valdið meiri öfgum í veðurfari en áður var að mati Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar og þar af leiðandi meiri mótsögnum.
Ein mótsögnin er sú að þrátt fyrir þá meginlínu að íslensku jöklarnir séu að minnka, en afleiðing af því ætti að vera að þeir skili af sér meira leysingavatni en áður, hefur vatnsskortur hamlað rekstri Landsvirkjunar og viðskiptavina hennar.
Fyrsta áratug þessarar aldar var vatnsbúskapurinn góður og það kom til dæmis fyrir að vatn fór að renna á yfirfalli Kárahnjúkastíflu strax seinni partinn í ágúst.
En síðustu tvö ár hefur þetta breyst. Samt voru snjóalög mikil á vatnasvæði Hálslóns í fyrravor eins og meðfylgjandi myndir eiga að sýna og mikill snjór, sem leystist upp í júní.
Í ár eru það hins vegar vatnasvæði Tungnaár, Þjórsár og Blöndu sem hafa brugðist vegna dæmalausa staðviðra fyrstu mánuði ársins sem sífelldum austlægum áttum, þar sem eystri hluti og suðurhluti Vatnajökuls hafa tekið til sín mestalla úrkomu, sem borist hefur til landsins.
Svo er að sjá að Hálslón hafi, þrátt fyrir slappa stöðu, bjargað því sem bjargað varð hinum megin á landinu.
Sú spurning vaknar hvort eitthvað hafi vantað útreikninga Landsvirkjunar og / eða upplýsingar um þá.
![]() |
Tap Landsvirkjunar gæti orðið meira |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)
25.3.2014 | 09:11
Leiðin, sem átti að fara strax.
Trausti Sveinsson bóndi á Bjarnagili í Fljótum barðist fyrir því á sínum tíma að í stað svonefndra Héðinsfjarðarganga yrðu gerð tvenn jarðgöng sem leystu samgönguvanda Siglfirðinga og Ólafsfirðinga í allar áttir í einum pakka, það er, göng milli Siglufjarðar og Fljóta og önnur göng frá Fljótum yfir í Ólafsfjörð, og hann kallaði þessa lausn Fljótaleið.
Trausti taldi þessa lausn ekki dýrari en Héðinsfjarðargöngin, en alþingismenn Norðurkjördæmis eystra einblíndu á þrönga hagsmuni innan síns kjördæmis og af einhverjum ástæðum voru forsendur fyrir Fljótagöngunum gerðar þær að gangamunnarnir yrðu að vera talsvert neðar en á öllum öðrum göngum á landinu, en þannig var hægt að fá þá niðurstöðu að göngin yrðu mun lengri en ella.
Þingmennirnir beittu öllum klækjabrögðum í bókinni til þess að þvinga sitt fram.
Eini gallinn við Fljótaleiðina var sá að leiðin milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar yrði 17 kílómetrum lengri en um Héðinsfjarðargöng ef ég man rétt, en að öðru leyti höfðu Fljótagöngin yfirburði á öllum sviðum, einkum hvað varðaði það að stytta heilsársleiðina frá Siglufirði til Skagafjarðar um allt að 15 kílómetra og leiðina frá Ólafsfirði til Skagafjarðar líka um minnst 15 kílómetra og gera hana að heilsársleið.
Sem sagt, bestu fáanlegar samöngur í allar áttir og virt sú sérstaða og verðmæti Héðinsfjarðar að vera eini eyðifjörðurinn í þessum landshluta með þeim töfrum, sem því fylgir.
Nógu umdeilt var það á sínum tíma að fara í Héðinsfjarðargöng og láta göng á Vestfjörðum og Austfjörðum sitja á hakanum í staðinn.
Nú þegar eru komin þrenn jarðgöng á leiðunum að austan og vestan til Siglufjarðar þegar Strákagöng eru talin með, og því miður er hætt við því að enn umdeildara verði nú að fara að bæta við fjórðu göngunum þangað heldur muni menn segja við Siglfirðinga: Þið vilduð fara þá leið sem farin var og þið verðið sjálfir að taka afleiðingunum af því, sem voru fyrirsjáanlegar.
![]() |
Vill jarðgöng milli Fljóta og Siglufjarðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.3.2014 | 21:31
Það vantar Kína og jafnvel fleiri lönd.
Leiðtogar "sjö helstu efnahagsvelda heims" eru það ekki og hafa ekki verið það meðan Kína hefur vantað í hópinn, því að Kína er nú með næst stærsta hagkerfi heims.
Í Asíu og Suður-Ameríku eru auk Kína vaxandi iðnveldi á borð við Indland, Suður-Kóreu og Brasilíu sem sækja upp á við og fara að komast upp fyrir Ítalíu með sama áframhaldi.
Þessi sjö ríki virka svolítið eins og lokaður klíkuklúbbur og svo sem allt í lagi að þau ráði því sjálf hverjir eru í klúbbnum, en þá væri kannski kominn tími til að klúbburinn bæri eitthvert annað nafn.
![]() |
Rússum sparkað út úr G8 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.3.2014 | 17:47
Öll tvímæli tekin af í frumvarpi stjórnlagaráðs.
Ef ný stjórnarskrá stjórnlagaráðs væri í gildi væru umræður um verkaskiptingu ríkisstjórnar og forseta Íslands varðandi utanríkismál óþarfar, því að í 109. grein hennar eru öll tvímæli tekin af um það:
109. grein.
Meðverð utanríkismála.
Utanríkismál og almennt fyrirsvar ríkisins á því sviði er á hendi ráðherra í umboði og undir eftirliti Alþkingis.
Ráðherrum er skylt að veita utanríkismálanefnd Alþingis upplýsingar um utanríkis- og varnarmál.
Ráðherra skal hafa samráð við nefndina áður en ákvörðun er tekin um mikilvæg utanríkismál.
Ákvörðun um stuðning við aðgerðir sem fela í sér beitingu vopnavalds, aðrar en þær sem Ísland er skuldbundið af samkvæmt þjóðarétti, skal háð samþykki Alþingis.
Skýrara getur þetta varla verið um það að valdið er Alþingis og ráðherra fer með það í umboði meirihluta Alþingis og skýr ákvæði um þetta eru nauðsynleg til þess að eyða óvissu og skapa festu.
Í ákvæðum um starf forseta Íslands í nýju stjórnarskránni er ekki frekar en í núverandi stjórnarskrá neitt sérstakt tiltekið um málfrelsi hans, sem þýðir að vísu að hann geti tjáð sig um utanríkismál eftir að hafa metið stöðu viðkomandi mála, en út á við er því slegið föstu að hann hafi ekki vald í þeim, heldur ráðherra í umboði Alþingis.
Nauðsynlegt er að skýr ákvæði gildi um utanríkismál því að gagnvart öðrum þjóðum er ótækt að vafi leiki um hana og hver fari með vald í þeim efnum.
Í núverandi stjórnarskrá úir og grúir af atriðum, sem óvissa getur ríkt um hvernig beri að túlka, og er breytt afstaða núverandi forseta frá afstöðu fyrri forseta um valdsvið forsetans dæmi um slíkt.
Bagaleg óvissa ríkir varðandi ýmsa þætti utanríkismála og samninga við aðrar þjóðir og alþjóðastofnanir, svo sem um afsal valds til þeirra, sem engin nútíma þjóð getur komist hjá að standa frammi fyrir í ótal samningum.
Ef ákvæði frumvarps stjórnlagaráðs hefði til dæmis verið í gildi 2003 hefði EES-samningurinn farið í þjóðaratkvæði og á útmánuðum 2003 hefði verið öðruvísi að málum staðið varðandi aðild Íslands að innrásinni í Írak.
![]() |
Forsetanum kunnugt um verkaskiptingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)