25.2.2014 | 19:01
Samt er snjóþekja á landinu minni en venjulega.
Undanfarin misseri hefur verið breytt veðurfar víða á landinu frá því sem áður var.
Undanfarnar vikur og mánuðir hafa verið einstakar hvað það snertir að vikum saman eru aðeins austlægar og norðaustlægar áttir og sú vindátt hefur raunar verið nær einráð í meira en tvo mánuði.
Svo einhæft veðurfar er frekar sjaldgæft að vetrarlagi hér á landi.
Á Austfjörðum og vestur á Vestur-Öræfi vestan Snæfells hefur verið meiri snjór en ég man eftir í þá tvo áratugi sem ég hef flogið um það svæði nánast alla mánuði ársins. Í fyrra og þó einkum í hitteðfyrra var miklu meiri snjór í Snæfelli og umhverfi þess en ég minnist að hafa séð í meira en 20 ár.
Og í fyrra var óvenju mikill snjór allt fram í maí vestur um Brúaröræfi og Dyngjufjöll en að mestu auð jörð
Á hálendinu vestan Vatnajökuls hefur snjórinn hins vegar verið minni, en það gefur til minni úrkomu en venjulega og útskýrir kannski að einhverju leyti það að minna er í miðlunarlónum Landsvirkjunar síðustu vetur en áður, þótt loftslag hafi hlýnað.
Ef allt væri með felldu ætti hlýnandi veður og meiri bráð jökla en áður að auka vatnsmagn í jökulám landsins, en af einhverjum ástæðum er vatnsskortur í miðlunarlónunum að plaga Landsvirkjun.
Trausti Jónsson veðurfræðingur upplýsir á vefsíðusinni að snjóþekjan á landinu sé í heild minni en venjulega á þessum tíma og virðist það skjóta nokkuð skökku við, miðað við fréttir af fannfergi og lokuðum fjallvegum á Austfjörðum og á einstaka svæðum, svo sem í nágrenni Svartárkots.
En snjó getur verið mjög misskipt eins og sjá má glögglega í nágrenni Reykjavíkur, þar sem enn er hvít jörð að hluta beint austur af borginni um Hellisheiði og Mosfellsheiði en að miklu leyti auð jörð á láglendi í uppsveitum Suðurlands og frá Hvalfirði upp í Borgarfjörð.
![]() |
Lokaðir í firðinum í 50 daga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.2.2014 | 13:06
Talað skýrt um málið?
Bjarni Benediktsson margítrekar þessa dagana að hann vilji berjast fyrir því að þjóðin komi sem oftast beint að ákvörðunum í mikilsverðum málum í þjóðaratkvæðagreiðslum.
Þau ummæli hans virðast eiga að útskýra það að hann gaf loforð fyrir kosningar um að haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhald viðræðna um aðildarumsókn að ESB á fyrri hluta kjörtímabilsins.
En þeir sem eru óánægðir með svik hans á því loforði segjast hafa greitt flokknum atkvæði í síðustu kosningum út á það loforð.
Nú segir maðurinn, sem er svona mikill baráttumaður fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum, að síðustu þingkosningar hafi í raun verið þjóðaratkvæðagreiðsla.
Og þá vaknar spurningin: Ef svo er, af hverju gaf hann loforð um sérstaka þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður fyrir kosningar ef vitað var að þess þyrfti ekki eftir kosningar, en þá bentu allar skoðanakannaniar til þess að Sjallar og Framsókn færu í stjórn ?
Af hverju sagði hann ekki fyrir kosningar að slík þjóðaratkvæðagreiðsla yrði óþörf?
Af hverju segir hann að vilji þjóðarinnar sé skýr varðandi aðildina en ekki skýr þegar yfir 60% vilja ekki slíta aðildarviðræðum?
Af hverju ítrekar hann stöðugt að hann sé baráttumaður fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum en er samt í forystu flokks sem gerði allt sem mögulegt var á þingi til þess að koma í veg fyrir að ákvæðið í frumvarpi stjórnlagaráðs um þjóðaratkvæði fengi framgang?
Ég hélt að stjórnmál snerust um traust, traust á því að stjórnmálamenn komi hreint til dyranna. Og að stjórnmálamenn í lýðræðisþjóðfélagi legðu sig eftir því að vinna eftir því sem vilji fólksins stæði til.
Afsakið, ég næ þessu ekki alveg.
![]() |
Vilji þjóðarinnar skýr |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (31)
25.2.2014 | 01:54
Hvað um VW rúgbrauð, Fiat Multipla og Lloyd LT600 ?
Á mbl.is er frétt um það að Brubaker Box hafi verið fyrsti fjölnotabíllinn (minivan).
Á sjötta áratugnum komu fram tvær bílgerðir, sem varla er hægt að flokka sem annað en "minivan" og ollu byltingu.
Það voru Volkswagen T1 (Transporter), sem seldur var bæði sem sendibíll og undir heitinu Microbus seða Smárúta, nefndur Rúgbrauð á Íslandi, - og Fiat Multipla.
Báðir voru frambyggðir og tók Rúgbrauðið 9 manns í sæti þótt það væri aðeins 10 sentimetrum lengra en Bjallan, sem var með sömu driflínu og fjöðrun og Bjallan.
Ég minnist þess enn hve ég hreifst af þessum bílum þegar Hekla auglýsti þá í fyrsta sinn 1955. Rúgbrauðið var með deilingu í drifhjólunum sem gerði það að verkum að það var 5 sentimetrum hærra undir hann en er á hæstu jepplingum nútímans, og vegna þess að vélin var fyrir aftan drifhjólin að aftan var hann mjög duglegur upp brekkur og í snjó og ófærum.
Einfaldleikinn, vélin og driflínan úr Bjöllunni og létt smíði gerði hann einstakan og það er 60 ára gamall draumur minn að eiga svona bíl, sem varð að tákni hippatímansi og neyddi GM og Ford til að framleiða Corvair Greenbrier og Ford Econoline á sjöunda áratugnum.
Fiat Multipla var byggður á sama undirvagni og örbílinn Fiat 600 og var aðeins 3,54 metrar á lengd, 1,45 á breidd og 1,58 á hæð, en tók samt sex manns í sæti í þremur sætaröðum.
Upp úr 1960 kom Renault fram með Estafette sem var svipaður í laginu og VW Rúgbrauð en með vélina frammi í og framhjóladrifi.
Á Íslandi var hann kallaður Franskbrauð.
Estafette var í raun fyrirrennari nútíma "minivan" því að útfærslan á honum reyndist vera sú tilhögun sem síðar varð almenn í gerð svona bíla og hafði þann kost að gólfið fyrir aftan framhjól gat verið flatt alveg afturúr, en í Rúbrauðinu var stallur aftast ofan á vélinni.
Meira að segja urðu Volkswagen verksmiðjurnar að játast undir þessa tilhögun og færa vél og drif úr afturenda Rúgbrauðsins fram í þá minivan bíla sem VW hefur framleitt.
Almennt er rætt um það að fyrstu nútíma "minivan" bílarnir hafi verið Dodge Caravan/Chrysler Voyager sem komu fram 1983 og Renault Espace, sem kom fram ári seinna, en þeir voru með vélina þversum frammi í og framhjóladrif, en Rúgbrauðið og Franskbrauðið og aðrir "minivan" bílar höfðu fram að því verið með vélar og driflínur langsum að aftan eða framan.
Þess má geta að á sjötta áratugnum, frá árinu 1953, var framleiddur í Vestur-Þýskalandi fjölnotabíllinn Lloyd LT 600 sem var afar svipaður nútíma fjölnotabílum í laginu, til dæmis Dodge Caravan.
Hann var framdrifinn, að með vélina frammi í, tveggja strokka og loftkælda, en setið var fyrir aftan framhjólin á þessum bíl í þremur sætaröðum, í stað þess að í Rúgbrauði, Franskbrauði og Fiat Multipla voru fremstu sætin á milli framhjólanna og fætur þeirra, sem þar sátu, alveg frammi í nefi bílsins og dyrnar líka.
Þegar litið er á mynd af Lloyd LT 600, sést vel, að hann var 30 árum á undan samtíð sinni. Hann var boðinn i tveimur lengdum og hét sú lengri Kleinbus eða Smárúta.
Rýmisnýtingin var frábær, sæti fyrir sex í bíl, sem var styttri og mjórri en Kia Picanto, Hyondai i10 og Volkswagen Up!/Skoda Citigo, og lengri gerðin bauð upp á 50 sentimetrum lengri bíl.
Lloyd LT600 er með öll aðalatriði nútíma fjölnotabíla, flatt gólf afturúr, vélin þversum frammi í og framhjóladrif.
Lítið á hinn vinsæla VW Multivan okkar tíma og berið hann saman við Lloyd LT600 og það sést hve langt á undan tímanum Kleinbus var.
Þess má geta að þegar Mini kom fram á sjónarsviðið 1959 voru framdrifnir bílar með þverstæðum tveggja strokka tvígengisvélum búnir að vera í framleiðslu í 17 ár.
En snilldin í Mini fólst í því að vélin í honum var vatnskæld fjórgengisvél, framm í.
![]() |
Upprunalegi fjölnotabíllinn innblásinn af brimbrettalífsstíl |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 05:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.2.2014 | 21:48
Tvö nýyrði: "Afglæpavæðing" og "afglapavæðing".
Umræða um nýyrði, svonefnda afglæpavæðingu fíkniefna, er nú í gangi á sama tíma og deilt er um afglöp í stjórnmálum. Það kallar á annað nýyrði, samanber þessa vísu:
Ofarlega mér er í sinni /
afglæpavæðing, sem þarf að kanna, /
en enn meiri nauðsyne er að linni /
afglapavæðingu stjórnmálanna.
![]() |
Þrennt var aðallega gagnrýnt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 25.2.2014 kl. 13:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
24.2.2014 | 20:23
Af hverju var þetta mögulegt fyrir kosningar en ekki núna?
Þegar Bjarni Benediktsson og fleiri forsvarsmenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins gáfu þau loforð fyrir kosningar að þjóðin fengi örugglega að kjósa um það hvort aðildarviðræðum við ESB yrði haldið áfram tóku þeir sér orðið "ómöguleiki" aldrei í munn þegar þessi loforð voru gefin.
Samt sýndu allar skoðanakannanir fyrir þær kosningar að samstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var langlíklegasta útkoma kosninganna og partur af því var, að stór hluti kjósenda trúði þessum loforðum.
Bjarni virðist ekki skilja í hverra umboði hann er í ríkisstjórn, - talaði um það í fréttum Stöðvar 2 að hann yrði að hlýða landsfundarsamþykkt Sjálfstæðisflokksins með því að lofa þjóðinnni ekki að kjósa um málið.
Ekki heyrðist múkk frá landsfundarfulltrúum um að loforð Bjarna um þjóðaratkvæðagreiðslu væru svik við landsfundinn þegar hann gaf þau. Sjallar voru ánægðir með að ná inn sem mestu fylgi þótt þeir hikuðu við að taka undir yfirboð Framsóknar um milljarðahundruðin sem detta myndu eins og lottóvinningur í hlut landsmanna ef þeir kysu þann flokk.
Stundum telja stjórmálamenn sig verða að víkja frá samþykktum landsfundarfulltrúa sinna í stjórnarmyndunarviðræðum eftir kosningar.
En þetta mál er ekki af þeim toga, því að eftirgjöfin frá landsfundarsamþykktinni varðandi vísar þjóðaratkvæðagreiðslu var gefin fyrir kosningar öllum verðandi kjósendum flokksins.
Þessi loforð áttu mestan þátt í því að rétta fylgi flokksins aðeins við í lok kosningabaráttunnar og fleyta komandi stjórnarflokkum upp í 50,8% atkvæða og þar með inn í gamalkunnugt stjórnarmynstur aðdraganda Hrunsins.
Ef talsmenn núverandi stjórnarflokka hefðu sagt það strax fyrir kosningar að það yrði "ómögulegt" að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um málið færu þeir í stjórn, hefði það verið heiðarlegt og kjósendur hefðu vitað að hverju þeir gengju.
Þetta var ekki gert, heldur var ekki hikað við að lofa því sem nú er talið "ómögulegt" og Bjarni Benediktsson játar í Kastljósi með mildara orðalagi, "gat ekki staðið við."
Mestu mótmæli á Austurvelli í þrjú ár, síðan í framhaldinu af Búsáhaldabyltingunni, er ekki tilviljun þótt þetta virðist gerast ansi snemma á kjörtímabilinu. Þetta mál núna virðist vera kornið, sem fyllir mælinn, þegar örfá "afrek" stjórnarinnar eru skoðuð:
Loforð um hundruð milljarða króna í ríkissjóð, sem teknar yrðu frá "hrægömmum og vogunarsjóðum. Ekki króna komin og bólar ekki á neinu.
Loforð um tafarlaust afnám verðtryggingar. Nei, málið er í nefnd.
Loforð um afléttingu gjaldeyrishaftanna, sem byrjað yrði á strax á árinu 2013. Ekkert bólar á því enn.
Loforð um lausn á málefnum þrotabúa bankanna. Ekkert sjáanlegt þar.
Margt fleira mætti nefna en þegar svik loforðanna um þjóðaratkvæðagreiðsluna bætast við er líkt og að stífla hafi brostið.
Eftir fjögur erfið ár við að rétta þjóðarskútuna við á strandstað og koma henni laskaðri á flot var þjóðin þyrst í að fá sem fyrst að baða sig í vellystingum í stíl ársins 2007 eða að minnsta kosti að öðlast betri tíð með blóm í haga.
Þess vegna trúði hún hverjum þeim fagurgala sem gat kveikt slíka drauma og er að uppgötva núna að hún var of auðtrúa.
![]() |
Fámennt orðið á Austurvelli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 25.2.2014 kl. 00:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
24.2.2014 | 15:48
Voru ekki lengi að þessu.
Það var ástæða til þess að óttast það fyrir níu mánuðum að afturhvarf til stjórnarstefnu fyrri valdatíma núverandi stjórnarflokka kynni að leiða til uppnáms í þjóðfélaginu og annars Hruns innan nokkurra ára.
Hins vegar hefði fáa órað fyrir því að jafn stuttan tíma tæki að skapa að nýju það ástand að fólk fjölmennti á Austurvöll til að mótmæla því sem fer fram hjá stjórnvöldum, aðeins níu mánuðum siðar.
Það er umhugsunarefni.
![]() |
Mótmælin úr myndavél Mílu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
24.2.2014 | 08:24
Meiri truflun í stjórnmálunum en hermálið.
Allt frá því er við Íslendingar gerðumst aðilar að EES hefur deilan um ESB valdið meiri truflun í íslenskum stjórnmálum en stærsta deilumálið fram að því, sem var hermálið.
Ástæðan er sú að skoðanakannanir sýna að allir flokkar eru meira eða minna klofnir í málinu og þessi klofningur hefur orðið flóknari og mótsagnkenndari þegar skoðaðar eru fylgistölur, annars vegar yfirgnæfandi meirihluti fyrir atkvæðagreiðslu um það hvort halda eigi viðræum við ESG áfram og hins vegar yfirgnæfandi meirihluti, sem er fráhverfur aðild að ESB, miðað við núverandi ástand.
Þetta kann að þykja mótsagnakennt en þarf ekki að vera það, því að það sýnir glöggt að fólk skynjar hverning deilurnar um þetta mál hafa eitrað íslensk stjórnmál æ meir.
Hinn mikla meirihluta fyrir því að klára viðræðurnar er ekki hægt að skýra öðruvísi en svo að þessi meirihluti, sem er þverpólitískur, vilji láta klára samningaviðræðunnar svo að hægt sé að taka afstöðu til hugsanlegs samnings, fá þannig almennilegan botn í málið og höggva með því á hnútinn, þannig að þetta riðli ekki flokkum og trufli stjórnmálalífið svo mjög sem raun hefur verið á.
Það yrði gert eins og í Noregi með þjóðaratkvæðagreiðslu um fyrirliggjandi aðildarsamning.
Málið virðist hins vegar flóknara hér en í nokkru öðru Evrópulandi þar sem sótt hefur verið um aðild, því að hvergi hefur þurft að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu sérstaklega um það að hefja aðildarviðræður.
Það er vegna þess að í Noregi og annars staðar var það nokkuð samhentur stjórnarmeirihluti á þingi sem stóð að umsókn, en vegna klofnsingsins og ruglingsins hér, hefur það ekki tekist.
Nú telja sumir að með því að hætta við aðildarumsóknina sé í raun verið að koma í veg fyrir það í mörg ár, kannski 10-15 ár, að hægt yrði að taka upp þráðinn á ný ef aðstæður kölluðu á það.
Og þar með mætti segja að búið sé að höggva á hnútinn.
En er það nú víst? Miðað við þann mikla meirihluta, sem hefur í öllum skoðanakönnum lýst yfir vilja til þess að greitt yrði þjóðaratkvæði um áframhald viðræðna eða að minnsta kosti um það að viðræðum yrði slegið á frest fram að næstu kosningum, er óvíst að öldurnar lægi.
Og ef þær lægir ekki sitjum við uppi með sömu sundrungina innan flokkakerfsins og hefur verið svo bagaleg og eitrað íslensk stjórnmál síðustu 20 ár.
![]() |
Erfiðara fyrir Sjálfstæðisflokkinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
23.2.2014 | 15:57
Hvaða "hreyfilafl breytinganna"?
Íslenskst þjóðlíf er enn í þeim fjötrum gjaldeyrishafta og reyrðir voru með Neyðarlögunum við Hrunið.
Það er gott ef forsætisráðherra talar um "hreyfiafl breytinga" sem getur bæði komið okkur út úr því ástandi og breytt því sem leiddi okkur í Hrunið.
En hvaða "breytingar"? Ekkert bólar á neinu varðandi gjaldeyrishöftin og ráðherrann hefur reyndar sagt að það megi ekki segja frá því hver sé ætlunin af því að þá muni vogunarsjóðir og hrægammar nýta sér það og það megi ekki sýna þeim á spilin.
Meðan þetta er það eina sem boðið er fram er talið um "hreyfiafl breytinganna" orðin tóm.
Á fyrsta vinnudegi sínum gaf viðkomandi ráðherra það út og ríkisstjórnin öll staðfesti það í kjölfarið að hún stefndi einróma að því að reisa álver í Helguvík og koma þar með stóriðjustefnunni aftur á fullt, en hún var stórt atriði í þeirri helstefnu skammtímagræðginnar sem leiddi okkur í Hrunið.
Sem sagt, breytingarnar eiga að vera, bæði á þessu sviði og svo mörgum öðrum, afturábak til þess sem var fyrir Hrun. Og ríkisstjórnin mun "hvergi hvika" í því.
Kanntu annan?
Við erum með yngsta forsætisráðherrann síðan 1934, kláran og skemmtilegan mann, sem full ástæða er til að styðja til að skapa "hreyfiafl breytinganna". En breytinga í hvaða átt?
Það er beðið eftir Godot. Ekkert bólar á þeirri lausn úr viðjum gjaldeyrishaftanna sem búið var að lofa að birta fyrir mörgum mánuðum. "Hreyfiaflið" sem felst í því að halda fast í krónuna telst varla "hreyfiafl breytinganna." Ekkert bólar á þeim 300-400 milljörðum sem kjósendur trúði að þeir gætu fengið í hendurnar fljótlega eftir kosningar.
Það skrýtið það "hreyfiafl breytinganna" sem felst í því að svelta skapandi greinar og menningu.
Því miður virðist þetta "hreyfiafl breytinganna" vera enn eitt nýyrðið sem táknar þveröfugt, afturhvarf til þess sem best þótti í aðdraganda Hrunsins eða það að loka fyrir raunverulegar breytingar til framfara á nýrri öld.
En verum bjartsýn. Sjáum til hvort Eyjólfur hressist.
![]() |
Ríkisstjórnin mun hvergi hvika |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
23.2.2014 | 12:39
Margbreytileiki mannlífsins.
Þráin eftir því að falla inn í staðalímynd samtímans hefur alltaf verið rík. Börn, sem bekkurinn eða umhverfið telja "öðruvisí" og síðar fullorðið fólk, sem svipað er háttað um, - þetta fólk er oft lagt í einelti og lendir ögöngum svipuðum þeim, sem Jón Gnarr lýsir á facebooksíðu sinni.
Ég ólst upp á þeim tímum sem þjóðfélagið hafði ekki vaknað til vitundar um það að það sé eðlilegt að menn og mannlíf séu margbreytilegt.
Þegar ég lít til baka allt aftur til æsku minnar, kemur upp í hugann fjöldi fólks sem þannig var háttað um eins og Reynir Pétur, Gísli á Uppsölum, bræðurnir á Guðmundarstöðum og ótal fleiri sem mér fannst mér bera skylda til síðar að varpa ljósi á fyrir alþjóð, af því að á yngri árum moraði allt af ekki síður merkilegu fólki allt í kringum mig, fólki sem átti skilið virðingu og skilning og auðgaði lífið og lifsskilninginn.
Þess vegna verð ég í Gaflaraleikhúsinu í kvöld til að skila frá mér þeirri vitneskju og minningum um þatta fólk, sem ég man svo vel eftir frá æskkuárum, fólk, sem ég hefði fjallað um í sjónvarpi ef ég hefði verið 30 ára árið 1950 og sjónvarp verið komið til sögunnar þá.
Við þurfum öll á því að halda að huga að margbreytileika mannlífsins og forðast draga fólk í dilka og dæma það hart, því að hvað sagði ekki meistarinn mikli frá Nasaret: "Dæmið ekki, því að þér munið sjálfir dæmdir verða."
![]() |
Jón opnar sig um sjálfsvígstilraunir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.2.2014 | 00:21
Ánægjuleg Edduhátíð.
Afhending Edduverðlaunanna í kvöld var ánægjuleg samkoma með hæfilegri blöndu af léttleika og alvöru sem Ólafía Hrönn batt saman með skemmtilegum kynningum.
Undirtónn hátíðarinnar var samt þrenging á fjárráðum kvikmyndagerðar og Ríkisútvarpsins sem meðal annars fólst í því að enda þótt Kastljós hlyti Edduna hefur niðurskurður fjár til RUV skert mannafla þess þáttar mjög eins og svo margs annars.
Tákn um þessa aðför að menningunni var þegar Jóhannes Kristjánsson handlék styttuna með samstarfsfólki sínu, einn þeirra sem sagt hefur verið upp vegna niðurskurðarins og mælti fram hvatningarorð fyrir íslenska rannsóknarblaðamennsku.
Ánægjulegt var að Bogi Ágústsson skyldi valinn sjónvarpsmaður ársins, svo mjög sem hann hefur blómstrað æ meir með árunum.
Edduverðlaun fyrir myndina Hvell var einnig afar ánægjuleg.
Skilningur virðist afar takmarkaður hjá ráðamönnum á möguleikum þess hæfileikafólks, sem hefur gert kvikmyndagerð að mun stærri tekjulind fyrir þjóðina en margir gera sér grein fyrir til að gera hana enn ábatasamari og meira gefandi.
Það er ekki aðeins að erlendir stórleikarar og tónlistarfólk laðist til Íslands, heldur á sú mikla landkynning, sem kvikmyndirnar hafa fært okkur erlendis, mikinn þátt í þeirri stórfjölgun erlendra ferðamanna og þar með gjaldeyristekna, sem ekkert lát virðist ætla að verða á.
Það var vitað, að Benedikt Erlingsson væri snillingur á sviði leiklistar og leikstjórnar, en samt mætti hann upphaflega miklu skilningsleysi þegar hann leitaði eftir nauðsynlegum stuðningi við gerð myndarinnar Hross í oss.
Svo langt gekk þetta skilningsleysi að hann neyddist til að biðja um aðstoð í viðtali í Kastljósi í hitteðfyrra. Í því sýndi hann að hann trú sína á verkefnið og lét ekki bugast af mótlætinu og nú er hann að uppskera það verðskuldað.
Þess vegna voru orð Friðriks Þórs Friðrikssonar um það kraftaverk, sem þessi mynd er, það eftirminnilegasta frá þessu kvöldi.
P.S. Það er ekki á Yngvar Sigurðsson logið hve góður leikari hann er. Nú fékk hann Edduna bæði fyrir leik í aðalhlutverki og aukahlutverki. Ótrúlegur, Yngvar, svo ótrúlegur, að ég myndi trúa því upp á hann að fá Eddur fyrir bæði leik í aðaihlutverki og aukahlutverki í sömu myndinni!
![]() |
Hross í oss kvikmynd ársins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)