Hve lengi getur þetta stefnt svona í öfuga átt?

"Leiguverð á húsnæði hækkaði um 10% árið 2013." Sakleysisleg frétt og sakleysileg prósentutala en geigvænleg fyrir þúsundir fólks á meðan kaupgjald hækkar minna, jafnvel ár eftir ár.

Versnandi ástand á leigumarkaðnum hófst eins og fleira með "forsendubresti" Hrunsins fyrir fimm árum og bitnar mest á þeim sem lægst hafa launin og verst eru settir.

Ekkert hefur verið gert í þessi fimm ár í þessum málum sem virðist geta snúið þessu við, - það heldur bara áfram að versna.

Hve lengi getur þetta stefnt svona áfram í öfuga átt?  

 

 


mbl.is Íbúðaverð hækkaði um 6,5%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Man einhver eftir olíuhreinsistöðinni miklu?

Fyrir fimm árum ítrekaði þáverandi sveitarstjóri Vesturbyggðar það að það væri 99,9% öruggt að risaolíuhreinsistöð myndi rísa í Hvestudal við Arnarfjörð sem skapaði 500 manns atvinnu og færði hundraða milljarða fjárfestingu inn í landið.

Þetta kemur upp í hugann við að heyra dýrðarfréttirnar af 77 milljarða fjárfestingu í kísilverksmiðju á Grundartanga og lesa jafnframt upplýsingar Tryggva Helgasonar um fyrirtækið Silicor Materials.

Í sjónvarpsviðtali við bóndann á Hvestu upplýsti hann þremur árum eftir að fullyrt var að allt væri klappað og klárt með olíuhreinsistöðvina,  að hann væri búinn að hætta við allar þær góðu hugmyndir sem hann hafði fengið um uppbyggingu á Hvestu í kjölfar 2ja megavatta virkjunar , af því að hann myndi frekar bíða eftir olíuhreinsistöðinni.

Það gerir hann sennilega enn. 99,9% líkur eru væntanlega til þess.  

Þegar maður ferðaðist á þessum tíma um þetta svæði ríkti þar svipuð þrúgandi þöggun um málið og um álverið og virkjunina á Austfjörðum á sínum tíma. Hver sá, sem sagði eitthvað vafasamt um það gat átt á hættu að vera stimplaður sem "óvinur Vestfjarðar", "á móti atvinnuuppbyggingu", "á móti byggð á Vestfjörðum" eða "að vilja fara aftur inn í moldarkofana."

Að vísu voru haldnir tveir kynningarfundir um málið, annar á Bildudal vegna Hvestudals, en hinn á Ísafirði vegna hugsanlegrar staðsetningar verksmiðjunnar í Dýrafirði.

Fundirnir voru ólíkir að því leyti að á Ísafirði þorðu menn að setja fram mismunandi skoðanir á hressilegan hátt eins og er gömul og gróin ísfirsk hefð.

Athugun leiddi í ljós að fyrirtækið, sem skráð var fyrir þessu hundraða milljarða ævintýri reyndist vera skúffufyrirtæki í eigu rússneskra aðila í ESB-landinu Skotlandi, sem átti engar eignir og var með rekstrarreikning upp á sem svaraði einum síma með netsambandi.

Hægt var að rekja þræði austur til Rússlands til manna, sem voru sérfróðir í fjármagnsflutningum (öðru nafni peningaþvætti), skattaskjólum og snilld í kennitöluflakki og stofnun og niðurlagningu fyrirtækja.

Á tímabili var rekinn þvílíkur dýrðaráróður fyrir þessu 99,9% pottþétta máli til að "bjarga Vestfjörðum", að ég taldi mig tilneyddan til að fara til Noregs, skoða þær tvær einu olíuhreinsistöðvar sem Norðmenn, sjálf olíuframleiðsluþjóðin á og gera um það stutta heimildarmynd.

Í ljós kom að engin ný olíuhreinsistöð hafði verið reist á Vesturlöndum í 20 ár vegna þess að enginn vildi hafa slíkt óþverraskrímsli í nágrenni sínu.


mbl.is 77 milljarða verksmiðja á Grundartanga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"We´ll bury you", ein illræmdasta hótun sögunnar.

Bandaríkjamenn og vestrænar þjóðir tóku það afar illa upp þegar ofangreind orð komu úr munni túlks Nikita Krústjofs, þáverandi leiðtoga Sovétríkjanna, sem þýddi ummæli hans á rússnesku í rökræðum um það hvort kerfið, kaptíalisminn eða kommúnisminn, myndu hafa betur í kapphlaupi efnahagskerfanna.

Í ljósi kjarnorkuvopnaeignar Rússa fannst Vesturlandabúum svona hótun glæpsamleg og sýna fádæma illt innræti.

Svo mikið rót komst á fjölmiðla, sem slógu þessu svo rækilega upp að annað komst ekki að.

Að minnsta kosti minnist ég þess ekki að rétt skýring á ummælunum hafi komist að í fjölmiðlum fyrr en löngu seinna.

Skýringin var sú að Krústjof notaði rússneskt orðatiltæki sem er hliðstætt því þegar við segjum "við munum baka ykkur", "við munum salta ykkur", við munum steikja ykkur".

Bókstafleg merking setninganna, bæði hinnar rússnesku og hinna íslensku, er miklu harðari en raunveruleg merking þeirra, þegar þau eru skoðuð í samhengi við orðræðuna og tilefnið.

Túlkur Krústjofs féll í þá gryfju að þýða beint eftir orðanna hljóðan í stað þess að finna þýðingu sem skilaði raunverulegri merkingu þeirra.

 


mbl.is „Þú ert dauður“ ekki hótun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stenst ekki loftgæðakröfur Kaliforníu vikum saman.

Fólk, sem kemur vestan af fjörðum til Reykjavíkur og hefur komið til mín í Grafarvogshverfið hefur haft orð á því við mig, hvað það varð undrandi yfir hinu fúla lofti sem lék um það hér og niðri við sjó, til dæmis í Vogunum.

Það hélt fyrst að þetta óloft hlyti að koma úr sjónum og undraðist það, af því að það vissi að mikið hefði verið gumað af hreinsistöðvunum, sem búið væri að reisa hér til þess að hreinsa sjóinn.

Síðan áttaði það sig á því að þetta var svona sterk brennisteinsfýla, sem berst með austanátt frá hinum "hreinu" virkjunum við Nesjavelli og á Hellisheiði.

Fyrir talsvert mörgum árum var upplýst að 40 daga á ári stæðist loft í Reykjavík ekki kröfur Kaliforníu um loftgæði. Ástandið hefur versnað síðan með stækkandi virkjunum, en ekkert hefur verið upplýst síðan um þetta, enda er það á skjön við ímyndina um "hina hreinu og endurnýjanlegu orku" sem Íslendingar séu í fararbroddi í heiminum við að framleiða, og ráðamenn þjóðarinar þreytast ekki á að mæra upp í eyru útlendinga hvenær sem þeir koma því við.

Við Reykvíkingar erum orðin samdauna þessu daunilla lofti en það getur stundum verið erfitt að plata útlendinga og fólk utan af landi.   


mbl.is Lítil loftgæði við Grensás
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Heimshöfn í Finnafirði" til heimabrúks.

Bogi Ágústsson var með eitt af sínum stórgóðu viðtölum í Sjónvarpinu í kvöld við kanadískan sérfræðing um málefni norðurslóða, Michael Byers og skemmtileg frétt á mbl.is um póststöð fyrir flöskuskeyti frá Færeyjum á Langanesi kom upp í hugann, vegna þess að "heimshöfnin" í Finnafirði hefur verið svo umrædd á Íslandi síðustu misserin.  

Byers afhjúpaði meðal annars hvernig forystumenn þjóðanna á norðurslóðum nota ákveðin mál heimabrúks á þann hátt að það stangast á við veruleikann, minntist til dæmis á Pútín sem dæmi.

Það gengi í augun á þjóðunum þegar forystumenn þeirra berðu sér á brjóst og fullvissuðu þegna sína um það hve vel þeir myndu halda á spilum varðandi það að færa til þeirra sem mest völd og auð frá norðurslóðum.

Hér heima er búið að keyra það upp í háar hæðir, að í Finnafirði við Bakkaflóa muni rísa gríðarleg "heimshöfn" umskipunar og þjónustu við siglingar um norðurslóðir, heimshöfn á borð við þær sem þekktar eru í Evrópu svo sem Bremerhaven og Rotterdam og þá væntanlega heimshöfn sem gæti keppt við þær.

Einnig hefur verið haldið á lofti stórbrotinni olíuhöfn í eina eyðifirðinum, sem eftir er á norðausturlandi, Loðmundarfirði, og fylgt með að lögð yrði þaðan bein hraðleið um jarðgöng og eftir endilöngu hálendinu til Reykjavíkur.

Ég hef áður bent á það hér á blogginu að tvennt kollvarpar þessum loftkastalahugmyndum:

Annars vegar það sem allir sjá á kortinu og Byers nefndi, að stystu leiðirnar frá austurströnd Bandaríkjanna til Kína og frá Evrópu til Kína liggja alls ekki um Ísland, heldur meðfram austurströnd Ameríku og meðfram strönd Evrópu.

Íslensk siglingafyrirtæki eru þegar búin að hasla sér völl með vaxandi umskipunarþjónustu á Nýfundnalandi og Byers benti á það að í heimi alþjóðaviðskipta, þar sem landamæri væru að miklu leyti þurrkuð út, væri eðlilegra, hagkvæmara og samkeppnishæfara að Íslendingar fjárfestu í slíku á austurströnd Ameríku frekar en hér á landi.

Hins vegar svo hitt atriði sem ég hef bent á, að alla innviði vantar á dreifbýlasta hluta Íslands til þess að samkeppnishæf "heimshöfn" rísi þar.

Þvert á móti nefndi Byers Reykjavík með tvo alþjóðaflugvelli, frábæra höfn og innviði stærsta þéttbýlis Íslands sem þó er smábær miðað við hafnarborgir Evrópu.

Í Reykjavík er um að ræða þjónustu af öllu tagi við siglingar allt frá vélsmiðjum og skipaviðgerðarstöðvum til vísindastofnana og versluna- og samskiptarfyrirtækja auk nægs velmenntaðs og vel tækjum og tækni búins mannafla.

Helst er það að þjónusta við leit að olíu og gasi gæti þurft á hafnaraðstöðu, þjónustu og viðskiptum að halda hér á landi, en þá hefur Akureyri yfirburði yfir aðra staði á norðanverðu landinu.

En tal íslenskra ráðamanna um hina miklu heimshöfn í Finnafirði er augljóslega ætlað til heimabrúks.

Slíkt getur verið efni í glæsilegar ræður, en hins vegar komið í bakið á mönnum þegar hákastaladraumarnir rætast ekki.

Nær er að huga að því sem raunhæft er til að styðja við bakið á landsbyggðinni, því ekki veitir af því.  

  


mbl.is Póststöð flöskuskeyta á Langanesi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar telja afföll bílsins og fleira ekki með.

Í hvert skipti sem það kemur upp að verið er að áætla kostnað við að ferðast innanbæjar eða utan hef ég tekið eftir því hvað fólk verður hissa og jafnvel sárt þegar það er nefnt hvað það kostar mikið að eiga, reka og nota bíl.

Hjá því opinbera er reiknað var reiknað með 117 krónum á ekinn kílómetra, þegar ég vissi síðast til, ef opnber starfsmaður leggur til bíl inn til aksturs fyrir ríkisstofnun.

Það þýðir að ef hann skutlast á bíl sínum í erindum ríksins fram og til baka milli Akureyrar og Reykjavíkur telst kostnaðurinn af bílnum yfir 90.000 krónur.

Og það er rétt tala. Maður sem kaupir sér hóflega stóran bíl til að aka 15.000 kílómetra á ári, sem er nálægt meðalakstri bílaeigenda, hefur bakað sér árleg útgjöld upp á um 1,7 milljónir króna.

Og þá er ekki verið að miða við einhvern stóran bensínhák, heldur bíl sem eyðir að meðaltali um tíu lítrum á hundraðið og er innan við meðalstærð.

Sumir, sem heyra þessar tölur verða hissa og jafnvel sárir.

Þeir geta ekki horfst í augu við raunverulega eldsneytiseyðslu bílsins heldur nefna tölurnar sem framleiðandinn gefur upp.

En þær tölur miðast við akstur í mun hlýrra veðri en hér er og ekki á grófum vetrarhjólbörðum eða í snjó og ófærð. Þær tölur eru nánast alltaf hærri en "gefið er upp," stundum 30-40% lægri en í íslenskum raunveruleika.

Fólk talar um kostnað vegna eldsneytis og nefnir kannski töluna 10.000 krónur fram og til baka til Akureyrar sem þá tölu sem miða eigi við, til dæmis í samanburði við það að fljúga.

Þetta er arfavitlaust strax í upphafi, því að eyðslan er mun meiri.

En í ofanálag gleymist slit á bílnum, hjólbörðum og öðru, sem jafnmikil samtals og eldsneytiseyðslan.

Þá erum við að tala um ca 50 krónur á kílómetrann, meira en 40 þúsund krónur fram og til baka milli Akureyrar og Reykjavíkur.  

Afskrift, tryggingar, opinber gjöld, vexti og slíkt umgöngumst við Íslendingar yfirleitt sem allt annað mál, vandamál sem leyst verða eftir danska kjörorðinu "den tid, den sorg."

Það, að kaupa bíl er afgreitt sem alveg afmarkað mál, óháð öllu öðru, því hvað sagði ekki karlinn í þjóðsögunni, sem sat á hestinum og hafði þungan og stóran poka á bakinu á sér: "Hesturinn ber ekki það sem ég ber."

En hinn napri sannleikur er hins vegar sá, að það kostar að meðaltali 117 krónur á ekinn kílómetra að eiga og reka bíl og það er mjög fróðlegt að líta í erlend bílatímarit og sjá hvað það kostar að eiga og reka mísmunandi bíla.

Munurinn kemur manni á óvart og magnað hvað verð bílsins, stærð og þyngd spóla kostnaðinn upp.  


mbl.is Bíllausir með 80% meiri greiðslugetu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er til formúla um þyngdina.

Línan sem Guðríður Torfadóttir dregur varðandi það að hún taki aðeins við fólki í megrunaræfingar sem er 20 kílóum yfir kjörþyngd er vafalaust skynsamleg.

Það er nefnilega til formúla, sem ég man ekki í augnablikinu hvað heitir, en hana má nota til þess að finna þau þyngdarmörk, þar sem komið er upp fyrir þá þyngd sem teljast má eðlileg.

Ég fann þessa formúlu í fyrra á netinu og með því að nota hana kom í ljós að "aukakílóin" hjá karlmönnum á hæð við mig máttu verða 13 án þess að farið væri yfir þessi mörk, sem liggja við skilgreinda offitu.

Nú er það mjög persónubundið hver hin raunverulega kjörþyngd er og þar með óæskileg aukaþyngd, svo að með rúmum skekkjumörkum eru 20 kíló sjálfsagt ekki fjarri lagi þegar hin endanlega bannlína er dregin.

Nokkur atriði má þó nefna varðandi það að best sé að vera nálægt kjörþyngd í stað þess að vera 20 kílóum þyngri.

1. Hvers vegna að vera að rogast með svipaða aukaþyngd og heilan 20 lítra bensínbrúsa alla daga? Hvers vegna að vera yfirleitt að rogast með aukaþunga hvert sem maður fer?  

2. Þungi ístrunnar er á versta stað fyrir hrygginn og bakveika.

3. Líka á versta stað ef um þindarslit og bakflæði er að ræða.

4. Aukaþyngdin reynir á liðamót, einkum hné og mjaðmarliði.

5. Síðan er það persónubundið hvort önnur atriði, eins og hætta á of háum blóðþrýstingi, áunnri sykursýki, of miklu kolesteróli eða hjarta- og æðasjúkdómum vex hjá hinum offeita.


mbl.is Bara fyrir þá sem eru 20 kílóum of þungir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki ónýtt fyrir verðandi útvarpsstjóra að hætta með "ticker tape".

Það er ekki ónýtt fyrir verðandi útvarpsstjóra að hætta á toppnum í Borgarleikhúsinu þegar metsölustykkið Mary Poppins hefur runnið sitt skeið. Mary Poppins

Eins og sjá má á mynd á frétt um síðustu sýninguna hefur pappírsmiðum rignt yfir leikhúsgesti í lok 138. og síðustu sýningarinnar. Apollo_11_ticker_tape_parade_1[1]

í Ameríku er slíkt kallað "ticker tape" og er notað um skrúðgöngur, sem eru farnar í stórborgum á borð við New Yourk til að fagna er merkisatburðum og og stórsigrum á borð við lok Heimssstyrjaldarinnar, flug Lindbergs yfir Atlantshafið og komu tunglfaranna Appolo 11 frá tunglingu til jarðar, en meðfylgjandi mynd er af þeirri miklu skrúðgöngu í New York.

Í mars hættir Magnús Geir Þórðarson sem leikhússtjóri og tekur við stöðu útvarpsstjóra á erfiðari tíma fyrir ríkisútvarpið en dæmi eru um í áratugi.

Það bíður hans því sérlega erfitt, krefjandi og ögrandi verkefni.

Raunar getur starf leikhússtjóra verið það líka eins og dæmin hafa margsannað í leikhúsunum okkar sem hafa stundum glímt við mikla fjárhagsörðugleika.

Sveiflur í leikhúsrekstri eru hins vegar stundum mun meiri og ófyrirsjáanlegri, bæði upp og niður en í rekstri ríkisútvarpsins og því rétt að vera hóflega bjartsýnn með það að það verði einhvern tíma "ticker tape" hátíð á Markúsartorginu í Efstaleiti.

En ef hægt er að sjá einhvern sem á von til þess er það eflaust hinn sigursæli leikhússtjóri sem snýr eins og Sesar forðum úr miklu leiðangri bæði fyrir norðan og sunnan til þess að grípa til varna gegn afleiðingumm samfellds niðurskurðar á RUV síðustu árin.   

 


mbl.is Áhorfendur risu úr sætum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sex atriði sem þurfa að ganga upp.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra nefnir sex atriði sem öllu þurfa að ganga upp til þess að hægt verði að aflétta gjaldeyrishöftunuml og halda gengi krónunnar samt stöðugu.

Til þess þarf næstum því kraftaverk og án þess að það sé verið að draga úr því að menn stefni að þessu og að þetta sé mögulegt er hitt jafn ljóst, að það er ekki vænlegt að tala um það að þetta sé ekkert mál, geti gengið í gegn eins og ekkert sé, næstum því með einu pennastriki.

Það þarf meira en kosningaloforð til þess.  


mbl.is Höftin fara ekki í einu vetfangi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver ákvað að þetta þyrfti gegn umhverfisverndarfólki ?

NATO er lang öflugasta hernaðarbandalag heims, raunar það eina sem hægt er að nefna því nafni, og Bandaríkín eru eina risaherveldið.

Ég hef frá upphafi stutt aðild okkar að bandalaginu en það reyndi þó á þolrifin þegar tveir menn ákváðu dag einn að við skyldum verða viljugir aðilar innrásinni í Írak.

Enn meira reyndi þetta á þolrifin þegar ákveðið var, að vegna hryðjuverkaógnunar, sem steðjaði að heiminum og öryggis Íslands, skyldi æfingin Norðurvíkingur með notkun fullkomnustu vígvéla heims beinast gegn mestu hryðjuverkavá og hervá, sem taldist steðja að Íslandi: Umhverfisverndarfólki.

Æfingin var haldin á hálendi Íslands og umhverfisverndarfólk var álitið vera eina hryðjuverkaógnin eða stríðsógnin sem steðjaði á Íslandi.

Ég þurfti að fljúga talsvert yfir hálendið á þessum tíma og varð því að gæta vel að því að fljúga ekki inn á loftrhýmisbannsvæði, sem búið var að setja til þess að hægt væri að beita öflugustu herþotum heims ótruflað gegn þessari mestu hættu sem talin var ógna landi okkar og þjóð.

Í ensku er orðið "overkill" notað um svona lagað og miðað við umfang æfingarinnar og herbúnaðinn sem notaður var. er þetta eitthvert ótrúlegasta og stærsta "overkill" sem maður getur ímyndað sér.

Sama orð kom í hugann í Gálgahrauni 21. október sl. haust þegar 60 lögregluþjónar í skotheldum vestum með handjárn, gasbrúsa og kylfur þóttu lágmark til að bera hreyfingarlaust fólk, sumt konur og jafnvel ellilífeyrisþega, út úr fyrirhugaðri braut stærsta skriðbeltatækis á Íslandi sem kom í kjölfarið í fylgd fótgönguliðs lögregluþjóna.

Fólkið, sem fjarlægt var, þótti svo hættulegt, að það þótti ekki hættandi á að leggja það niður fyrir utan svonefnt vinnusvæði, sem lögreglan merkti fyrir verktakana, þegar búið var að bera það burtu, heldur var það umsvifalaust fangelsað í framhaldinu, sumt langt fram eftir degi.

Á meðan þessu fór fram var veginum út á Álftanes lokað með lögregluvaldi, rétt eins og að íbúar þess byggðarlags væru liklegir til að gerast aðilar að mestu hryðjuverkaógn, sem steðjaði að landinu.

Ég er fjölmiðlamaður og fjölmiðlamenn eiga að spyrja nokkurra grundvallarspurninga:  Hver/hverjir? - Hvar? - Hvernig? - Hvenær?  - Hvers  vegna? - Og hvað svo?  

Ég fæ ekki séð að spurt hafi verið fyrstu spurningarinnar nema að hluta til í Norðurvíkingmálinu og í Gálgahraunsmálinu.

En það vantar einn aðilann: Hver eða hverjir tóku þá ákvörðun í æfingunni Norðurvíkingi að mesta herveldi heims skyldi fengið til að æfa sig í því að ráðast á íslenskst umhverfisverndarfólk?

Við vitum að Gordon Brown ákvað það "overkill" í október 2008 að beita hryðjuverkalögum gegn okkur Íslendingum, sem við fordæmum einróma og réttilega. En enginn spyr eftirfarandi spurninga:

Hver ákvað það að beita NATO-hernum gegn ímynduðum umhverfishryðjuverkamönnum í Norðurvíkingsæfingunni? 

Og hver eða hverjir ákváðu það ótrúlega "overkill" sem birtist í Gálgahrauni 21. október 2013 ?  

   


mbl.is Má sín lítils gegn orrustuþotunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband