5.1.2014 | 19:16
Sofandaháttur og andúð gagnvart grasrót flugsins.
Komið hefur fram að ákveðið hafi verið að allt leiguflug, kennsluflug og flug smærri flugvéla verði burtrekið frá Reykjavík á árinu 2025. Mikil skammsýni og þröngsýni felst í þessu sem og skipulagðri aðför gegn Reykjavíkurflugvelli, sem staðið hefur í 35 ár.
Reykjavík var vagga flugs á Íslandi frá 1919 og Reykjavíkurflugvöllur vagga grasrótarinnar, flugnáms og flugreksturs frá því að völlurinn var byggður.
Völlurinn fóstraði Flugfélag Íslands, Loftleiðir, Flugsýn, Flugþjónustu Björns Pálssonar, Vængi, Arnarflug, Flugfélagið Erni, Þyt, Flugstöðina, Odin Air, Flugskóla Helga Jónssonar, Flugskóla Íslands, Íslandsflug, Landhelgisgæsluna, Þyrluþjónustuna, svo eitthvað sé nefnt, auk allra fyrirtækjanna og stofnananna sem þjóna fluginu og þúsundir manna eiga atvinnu sína undir.
Nú er auglýst eftir flugmönnum og flugfólki í stórum stíl og ljóst er að það verður skortur á nýjum íslenskum flugmönnum.
Eðlileg viðbrögð við þessu væri að hlúa betur að grasrótinni á Reykjavíkurflugvelli, því að þar eru langbestu aðstæðurnar fyrir hana, bæði hvað snertir veðurfar, flugvöll og öll skilyrði nærsamfélagsins.
Ég læt líka segja mér það tvisvar að öllu leiguflugi skuli úthýst frá vellinum. Á fólk þá að fara til Keflavíkur í öfuga átt við flugleiðina þegar það vill fara í leiguflug?
Sem dæmi um sívaxandi takmarkanir má nefna það að á virkum dögum er bannað að lenda nema eina lendingu á hverju loftfari eftir klukkan fimm á virkum dögum og eftir klukkan fjögur á sunnudögum, rétt eins og fólk sé að fara að sofa svona snemma.
Skilningur virðist á gildi samgangna á landi og sjó og gildi hinna mismunandi atvinnugreina en hins vegar einkennileg andúð á því sem tengist samgöngum í lofti.
Að vísu kemur hvað eftir annað fram í skoðanakönnunum að 70% borgarbúar vilji hafa flugvöllinn áfram þar sem hann er, en svo er að sjá sem ráðamenn í borginni séu staðráðnir í að hafa þann vilja að engu.
![]() |
300 þreyttu flugverjapróf |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
5.1.2014 | 15:28
Sérstök heimsmynd heldur Pírötum uppi.
Ég held að þeir vanmeti Pírata, stöðu þeirra og heimsmynd, sem halda því fram að þeir "muni ekki þola álagið til lengdar" vegna þess að þeir séu nokkurs konar aðkomumenn í pólitík ("átsæter") og séu "bæði með hægri og vinstri á móti sér."
Komið hefur fram að mest af fylgi Pírata sé í aldurshópnum 18-28 ára, en í þeim aldurshópi eru um 20% kjósenda.
Út úr því má fá að allt að fjórðungur þess fólks á þessum aldri, sem fara á kjörstað til að kjósa, kjósi Pírata.
Sé svo, er það glettilega hátt hlutfall á í þessum aldursflokki, á stærð við stærstu flokkana og fer áreiðanlega stækkandi að óbreyttu eftir því sem nýir árgangar koma inn.
Ég fékk að skyggnast svolítið inn í heimsmynd Pírata á ráðstefnu í Brussel í mars í fyrra og komst að þeirri niðurstöðu, að svo framarlega sem þeir nenntu að fara á kjörstað myndu þeir komast yfir 5% múrinn í fylgi. Það gekk eftir.
Þetta, að nenna að fara á kjörstað, er það eina sem ég sé að geti verið Pírötum fjötur um fót hvað snertir fylgi í kosningum, því að hugsjón þeirra er að færa stjórnmálin sem beinasta leið til kjósendanna með netlýðræði og beinni stjórnmálaþáttöku almennings en verið hefur með því að virkja möguleika netsins.
Ef kosningar verða færðar inn á netið eins og til dæmis Styrmir Gunnarsson hefur mælt með og ég styð, - kannski í byrjun með því að gefa kost á báðum kosningaformunum vegna gamla fólksins og fleiri kjósenda sem eiga erfitt með eða eru tregir til að taka upp netkosningar, - þarf ekki að spyrja að útkomunni eins og málum er háttað í dag.
Ef síðustu kosningar hefðu verið netkosningar hefðu Píratar líklega fengið meira en 10% fylgi.
Eins og nú háttar til, stækkar aldurshópurinn sífellt sem Píratar höfða til, og við næstu kosningar verður þetta aldurshópurinn 18-32ja ára sem þýðir 40% stækkun.
Mér sýnist Píratar lifa jöfnum höndum í netheimum en raunheimi og jafnvel frekar í netheimum ef eitthvað er. Í því felast griðarlegir jákvæðir möguleikar en einnig neikvæðir, einkum ef ýmis konar sýndarveruleiki netheima verður svo sterkur að hann valtar yfir veruleika raunheima.
Jón Þór Ólafsson þingmaður Pírata skrifar ágætan pistil um samkennd og samúð í blað nú um hátíðarnar og í jákvæðu og uppbyggjandi hugarfari eins og þar birtist getur styrkur Pírata legið.
Þá skipta hægri og vinstri minna máli.
Og styrkur þeirra liggur fyrst og fremst í því að nýta til framfara, lýðræðis og sanngirni möguleikana sem nútímafjarskipti hafa opnað.
En það eru líka dökkar hliðar á netheimum, sem koma nú í ljós. Sem dæmi má nefna sívaxandi niðurhal á netinu sem beinlínis rænir höfundarrétthöfum tekjum fyrir vinnu sína og framlag, sem sannanlega er bæði lögmætt og sannagjarnt að þeir fái borgað fyrir.
Reynslan af ástandinu sýnir, að það er barnalegt að halda að með því að höfða til samvisku hvers og eins sé hægt að fá fólk almennt til að virða höfundarréttinn. Það hefur einfaldlega ekki virkað.
Ef þannig væri farið um alla hluti þyrfti enga löggæslu eða eftirlit á hinum ýmsu sviðum þjóðfélagsins.
Ég hef trú á því jákvæða sem Píratar standa fyrir en vil líka brýna þá til þess að gæta að dökkum hliðum netheima, sem gætu orðið þeim fjötur um fót ef þeir ætla að láta sem ekkert sé.
Ég hef líka trú á því að ýmis vandamál, sem koma upp varðandi átök heimsmynda netheima og raunheima, muni verða hægt að leysa og verði leyst, og að það sé ekki ógnvænlegt, heldur spennandi verkefni að leysa þau viðfangsefni.
Ný tækni með möguleikunum á að lifa sig inn í sýndarveruleika getur verið afar gagnlegur og gefandi, en það þarf að gæta að þeim hættum, sem geta skapast ef þessi sýndarveruleiki stangast gróflega á við raunveruleikann sjálfan.
Samkenndin, sem Jón Þór talar um í blaðagrein sinni, verður aldrei fóstruð eins vel á Skype eins og með beinum mannlegum samskiptum með gamla laginu. Að því leyti til verður alger flótti inn í netheima ekki nein heildarlausn á viðfangsefnum nútímans.
![]() |
Píratar þoli ekki álagið til lengdar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
5.1.2014 | 00:07
Man einhver eftir þessum bílum ?
Í tengslum við "Naumhyggjubílasafn Íslands" sem er áhugamál mitt leitar hugur minn oft til bíla, sem ekki voru örbílar en hins vegar langódýrustu bílarnir eða þeir minnstu eða ódýrastir af sínu tagi.
Ég hef nú umráð yfir rúmlega tug örbíla sem kandídata fyrir safnið en auk þess yfir nokkrum fleiri bílum, sem ekki eru örbílar en eru annað hvort nú eða voru á einhverjum tíma minnstir af sínu tagi eða "ódýrastir".
Dæmi um þá er "ódýrasti húsbíll landsins", UAZ 52, frambyggður Rússi 1972, - "minnsti jöklajeppi landsins", Suzuki Fox 1986, - "minnsti Toyota jöklajeppi landsins, 2ja manna Hilux árgerð 1989 - minnsti bíll landins 1956-1959, Fiat 600/Zastava 750, - og minnsti 5 manna bíllinn á markaðnum 1984-1988, Daihatsu Charade ´86.
Í Útvarpshúsinu hefur verið til mynd af fyrrum Útvarpshúsi við Skúlagötu og ég hef gamnað mér við að aldursgreina myndina með því að nota mér það, að stór austur-þýskur sendibíll af gerðinni Garant 32 stóð fyrir utan húsið.
Þetta voru á árunum 1957-59 ásamt IFA P-70, lélegustu bílar, sem fluttir voru til landsins og entust nánast ekki neitt.
Af þeim sökum var ljóst að myndin af útvarpshúsinu gat ekki verið eldri en frá 1957 og ekki yngri en frá 1960 !
Ég man vel eftir því þegar IFA P-70 var fyrst sýndur, annað hvort í þáverandi húsi Sveins Egilssonar eða húsi áföstu því.
Hann var með þversum tvígengisvél frammi í og framhjóladrif.
Hægt var að fá hann bæði sem venjulegan stallbak og líka sem skutbíl, eins og sést á meðfylgjandi myndum.
Sölumaðurinn fullyrti að vegna þess að bílinn væri úr pappaplasti væri hann undraléttur og benti á tölu í bæklingi, 560 kíló!
Þetta þótti hér merkilegt og næsta ótrúlegt, því að bíllinn var 3,73 m á lengd og um 1,50 á breidd og því langtum léttari en nokkur annar bíll af þeirri stærð ef þetta var rétt.
Þegar ég fór að skoða tölurnar nánar kom í ljós að þetta var aðeins þyngdin á öðrum ás bílsins fullhlöðnum ! Fullhlaðinn vó bíllinn tæplega 1200 kíló.
Síðar komst ég að því að bílinn var milli 800 og 900 kíló að þyngd tómur og að með aðeins rúmlega 600 rúmsentimetrá 22ja hestafla tvígengisvél var hann algerlega kraftlaus og komst varla yfir 80 kílómetra hraða !
Sem dæmi um hrákasmíð á bílnum má nefna, að botninn á farangursgeymslunni var úr lélegum krossviði sem var ekki einu sinni almennilega fastur heldur gat losnað við minnsta áreiti !
En þetta var langódýrasti nýi bíllinn á markaðnum árið 1957.
Á þessum árum voru einnig fluttir inn nokkrir Wartburg-bílar frá Austur-Þýskalandi, sem voru mun skárri, úr stáli og með 900 cc vél sem skilaði þeim miklu betur áfram.
Trabant tók við af P-70 1959 og var 250 kílóum léttari og mun betur hannaður bíll. Trabant verður auðvitað að vera á naumhyggjubílasafni ef af verður enda skásti austur-þýski bíllinn.
En nú er það spurning mín, og kannski er hún of seint fram komin: Eru einhverjir sem kynntust P-70 og Garant 32 eða vita eitthvað um þessa bíla og gætu þeir upplýsingum um það til mín? Eiga kannski myndir af þessum bílum?
Garant var dísilknúinn og með alveg sérstaklega grófu og háværu vélarhljóði, aðeins framleiddur á árunum 1957-61 og var notaður á sendibílastöðvum og víðar.
Myndin, sem fylgir hér af honum, er sú eina sem ég gat fundið á netinu, og er af pallbílsgerð hans.
Þessir bílar eru ekki einasta vitnisburður um naumhyggju í bílaeign, sem gat höfðað til nokkra Íslendinga á þessum árum, heldur fela þeir líka í sér pólitískar minjar um gjaldeyris- og haftastefnu vinstri stjórnarinnar 1956-1958 sem og afleiðingar af þorskastríði Íslendinga og Breta, sem leiddi af sér innflutningsbann á íslenkum fiski til Bretlands og vöruskiptasamninga við kommúnistalönd Austur-Evrópu.
Bloggar | Breytt 10.1.2014 kl. 10:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.1.2014 | 23:23
Fyrirrennarar Savannatríósins og Ríó tríósins.
Notkun orðsins "fyrirrennarar" í fyrirsögn þessa pistils kann að þykja vafasöm. Hvernig getur erlendur söng dúett verið fyrirmynd fyrir íslensk söngtríó?
Svarið er einfalt. Tvö ártöl sköpuðu vatnaskil í íslenskri dægurtónlistarsögu, 1951 og 1986.
Í bæði skiptin var einokun á útvarpssendingum rofin, í fyrra skiptið með tilkomu Kanaútvarpsins og í síðara skiptið þegar útvarp- og sjónvarpsssendingar voru gefnar alveg frjálsar.
Fyrstu 15 ár Kanaútvarpsins og Kanasjónvarpsins ólu þessar stöðvar upp nýja kynslóð í tónlistarefnum, ungt fólk, "rokk- og Bítlakynslóðina, sem drakk í sig tónlist og annað efni Kanans með móðurmjólkinni.
Þegar rokkið fór á fullt 1956 spruttu upp hljómsveitir kornungra tónlistarmanna eins og Plúdó-sextett, síðar Lúdósextett, sem lögðu ásamt Hljómum 1964 grunn að nýrri flóru í dægurtónlist hér á landi.
Þótt KK-sextett og svipaðar hljómsveitir væru kannski bestu hljómsveitirnar til að byrja með, hvað snerti getu og færni, voru þær aldrei hreinræktaðar rokkhljómsveitir, einfaldlega vegna aldurs meðlima þeirra.
1957 skutust Everly-bræður upp á toppinn í Ameríku og það kvað við alveg nýjan tón.
Þegar bandarísk hjón voru í heimsókn hjá foreldrum mínum um 1960 voru þau forvitin um íslenska léttmenningu, ekki síst vegna þess sem ég var þá að bralla. Þau vildu fá nánari útlistun á því sem ég og aðrir skemmtikraftar værum að gera.
Þeim þótti val mitt á tónlist fyrir gamanvísur og viðfangsefni í eftirhermum sérkennilegt. Í Ameríku voru þá enn hinir eldri eins og Sammy Davis jr sem fremstir stóðu og notuðu frekar eldri tegundir tónlistar.
Þeim þótti hins vegar skiljanlegt að upp myndu spretta hér sönghópar á borð við Everlybræður, sem þau sögðu hafa gríðarleg og næstum byltingarkennd áhrif í Bandaríkjunum.
Þau reyndust hafa á réttu að standa því að einmitt um þetta leyti var Savanna-tríóið að hasla sér völl og síðar Ríó tríó.
Everlybræður höfðu mikil áhrif á marga af fremstu poppurum Ameríku og Evrópu og þess vegna leyfi ég mér að kalla þá fyrirrennara Savanna- og Ríó tríóanna.
Þetta voru góð áhrif hér á landi og allir fórdómar varðandi það hve hættulegt og lélegt væri að "apa upp eftir útlendingum" reyndust rangir. Savannatríóið sótti í sjóð íslenskra og erlendra þjóðlaga og gerði þessa tegund tónlistar alíslenska.
Sama má segja um arfleifð Ríó tríósins.
Nú er Phil Everly allur og þar með dúettinn Everlybræður. Fráfall Phils snertir íslenska tónlist og íslenska menningu. Bræðurnir unnu brautryðjendastarf í Ameríku sem hvatti kornunga Íslendinga til að gera svipað hér á landi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.1.2014 | 22:35
Gott að ráðherrar kynnist endemis samgöngum.
Vestfirðir eru eini landshlutinn sem er enn eru með svipaðar aðstæður í samgöngum og voru fyrir meira en hálfri öld.
Þetta er eini landshlutinn sem ekki er með flugvöll fyrir alvöru alþjóðlegar samgöngur og eini landshlutinn þar sem ekki má fljúga nema í dagsbirtu, en það þýðir að aðeins 4-5 klukkustundir eru nothæfar á hverjum sólarhring um háveturinn og oft er veðrið verst þá en skárra hinar 18-19 stundirnar.
Í öllum öðrum landshlutum eru flugvellir sem nota má jafnt í myrkri sem birtu.
Milli Ísafjarðar og Patreksfjarðar þarf að aka þrefalt lengri leið á veturna en ef heilsársvegur lægi milli þessara staða um jarðgöng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar.
Það er til marks um hve þessi meira en 400 kílómetra langa vetrarleið er fáránlega löng, að það tekur tíu mínútur að skreppa á flugvél frá Ísafirði til Bíldudals og 25 mínútur að aka þaðan til Patreksfjarðar.
Gott er að ráðherra kynnist þessum endemis samgöngum, þótt því miður sé ekki í augsýn að þessi staða breytist á næstu árum.
Grundvallarmistökin voru að mínu mati gerð fyrir 35-40 árum, þegar ákveðið var að láta veg um Ísaafjarðardjúp og Steingrímsfjarðarheiði fá forgang fram yfir aðra kosti.
![]() |
Ráðherra veðurtepptur á Flateyri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
4.1.2014 | 18:50
Er það frétt að rúta bíði á umferðarljósum?
Atvikið á Keflavíkurflugvelli sem trónir efst á lista yfir mest lesnu frétt dagsins á mbl.is, er jafn hversdagslegt og að rúta komi að umferðarljósum og sé stöðvuð vegna þess að það kviknar gult og síðar rautt ljós á götuvitanum.
Svo algengt er að flugvélar verði að víkja fyrir annarri flugumferð að það er engin frétt í sjálfu sér, allra síst þegar umferðin er mest. Ef öll þau tilfelli væru talin þar sem flugvélar verða að seinka för vegna til að umferðin gangi upp, eru þessi atvik að meðaltali fjölmörg á dag á hverjum flugvelli.
Svo haldið sé áfram með samanburðinn á rútu og stórri flugvél er eini mismunurinn sá, að hægt er að stöðva rútuna alveg á götunni eða veginum, meðan vikið er fyrir annarri umferð, en flugvélin getur ekki stöðvað sig í loftinu heldur verður að fara í hring eða "lengja í" eins og flugumferðarstjórar biðja oft flugmenn um að gera.
Nákvæmlega engin hætta var á ferðum á Keflavíkurflugvelli í gær. Málið var einfalt: Það tók aðeins lengri tíma en áætlað var fyrir flugvélina, sem var á jörðu niðri, að komast út af brautinni, og vélin sem var í aðflugi "lengdi því í" og seinkaði lendingu sinni því að fara hring og lenda að því búnu.
![]() |
Flugvél var fyrir á flugbrautinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
4.1.2014 | 12:18
"Rugludalsbunguveita".
Eitt hið eftirminnilegasta úr bókinni "1984" eftir George Orwell var lýsing hans á möguleikum valdhafa til þess að nota villandi hugtök og umpóla merkingu orða til að rugla fólk og ná fram markmiðum sínum.
Allt of mikið er um þetta í virkjanamálum á Íslandi. Það sést best á því að skoða breytinguna, sem hefur orðið frá fyrstu virkjununum og virkjanahugmyndinum. Elliðaárvirkjun, Urriðafossvirkjun, Ljósafossvirkjun, Írafossvirkjun, Skeiðsfossvirkjun, Hrauneyjafossvirkjun, Mjólkárvirkjun og Blönduvirkjun eru gott dæmi um rökrétt nöfn.
Fallorka þessara fossa og þessara vatnfalla var virkjuð. Menn voru heiðarlegir og rökfastir eftir því sem því varð við komið.
Á sama hátt væru rétt nöfn á Norðlingaölduveitu og Kvíslaveitu Þjórsárvirkjun og Kvíslavirkjun. Fallorka Þjórsár er virkjuð með því að taka hana úr náttúrulegum farvegi sínum og færa hana yfir í annað vatnasvið þar sem fallorka hennar nýtist í hverflum virkjananna í því vatnasviði.
Fallorka kvíslanna, sem falla úr austri í efsta hluta Þjórsár, er virkjuð með því að taka þær úr náttúrulegum farvegum sínum og færa þær yfir í annað vatnasvið.
Ég heyri á nær öllum, meðal annars fjölmiðlafólki, sem hefur samband við mig, að það er búið að rugla það með villandi nafngiftum á fyrirbærum.
Skal engan undra, því ef sama aðferð hefði verið notuð við að gefa Blönduvirkjun nafn og við nafngift Norðlingaölduveitu, hefði hún hlotið nafnið Rugludalsbunguveita !
Það var nefnlega reist stífla, sem nær yfir í svonefnda Rugludalsbungu og er notuð til að veita ánni úr náttúrulegum farvegi sínum sem var í Blöndugljúfri.
Annað dæmi um villandi hugtakasmíð eru nöfnin á flokkun virkjanahugmynda í rammaáætlun í verndarflokk, biðflokk og nýtingarflokk.
Með þessum heitum er gefið í skyn að virkjun sé eina mögulega formið á nýtingu. Gildi Gullfoss ósnortins er hins vegar besta dæmið um það, hve þessi uppsetning er villandi.
Hið rétta væri að talað væri um verndarnýtingu og orkunýtingu. Gullfoss er klassadæmi um verndarnýtingu sem skilar mun meiri ávinningi en orkunýting hefði gert.
Mér dettur ekki í hug að nota orðið nýtingarflokk og með því að nota orðið virkjun frekar en nýtingu er ég meira að segja ekki fullkomlega rökvís þótt ég telji mig neyðast til að einfalda málið og lagfæra með því í stað þess að játast algerlega undir hina villandi uppsetningu.
Bendi á bloggpistlana hér á undan um málið og facebook-síðu mína og einnig á fróðleik um þessa virkjun Þjórsár á náttúrukortinu á vef Framtíðarlandsins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.1.2014 | 00:37
"Áunnin fáfræði, rugl og sinnuleysi".
Ég var rétt áðan að blogga um fyrirbærið "áunna fáfræði og sinnuleysi" sem felst í því að stuðla sem best að því að almenningur viti sem allra minnst um "óæskileg" atriði þekkingar um virkjanamál, svo sem hvar, hvernig og með hvaða áhrifum virkjun sé framkvæmd. Visa til þessa pistils um málið.
Varla er ég búinn að þessu þegar Ingveldur Sæmundsdóttir aðstoðarmaður umhverfisráðherra sendir frá sér leiðréttingu á þeim misskilningi að með Norðlingaöldu sé verið að færa eitthvað úr verndarflokki í virkjanaflokk. Þvert á móti sé með snilldarbragði ráðherrans friðun og verndun í gildi og Norðlingaölduveita sé áfram í verndarflokki !
Þar með er því slegið föstu að virkjanir séu sama og verndun. Til hvers var þá þessi flokkun í verndar- og virkjanaflokka hjá rammaáætlun?
Þetta er þvílík snilld að ótrúlegt er að hún skuli ekki hafa verið höfð í frammi fyrir löngu um allan heim þar sem ár hafa verið teknar úr farvegi sínum og sett í göng eða skurði, en árfarvegurinn látinn standa eftir þurr án fossa og flúða.
Þetta hefði hlíft fólki við deilum um málin. Málið dautt; virkjun=verndun.
Samkvæmt þessu er verið að vernda og bjarga Þjórsá, væntanlega frá sjálfri sér, með því að veita henni inn í jarðgöng og leiða út á annað vatnasvið og þurrka upp farveg hennar og alla fossa í honum þar sem hún rann áður.
Þannig lendi hún í þessum nýja farvegi í göngum Norðlingaölduveitu í verndarflokki ! Það hlýtur að vera þannig fyrst Norðlingaölduveita er áfram sögð vera í verndarflokki.
Þegar svona er komið er næsta skref hjá fólki að hrista hausinn fullkomlega ringlað og reyna að leiða málið hjá sér.
Þar með svínvirkar aðferðin og hefur fengið aðeins lengra heiti hjá mér en fyrr í kvöld: "Áunnin fáfræði, rugl og sinnuleysi."
![]() |
Norðlingaölduveita innan friðlandsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.1.2014 | 20:34
Enginn minnist á fossana þrjá, þar af tvo stórfossa.
Flestir þekkja fyrirbærið "áunna sykursýki", sjúkdóm sem hegðun sjúklinganna á þátt í að skapa.
Markviss aðför virkjana- og stóriðjufíkla að náttúruverðmætum landsins hefur alla tíð byggst á því að skapa hjá þjóðinni fyrirbæri sem má kalla "áunna fáfræði og sinnuleysi."
Til dæmis eru á virkjununum gefin nöfn sem leyna raunverulegu eðli þeirra. Nöfn eins og Hrafnabjargavirkjun, Helmingsvirkjun, Kárahnjúkavirkjun, Hraunavirkjun, Búlandsvirkjun og Norðlingaölduveita segja ekkert um þá mörgu tugi fossa sem þessar virkjanir eyðileggja, þeirra á meðal 8 stórfossa. Síðan má bæta við 9 stórfossinum, Urriðafossi.
Hér eru nokkur nöfn þessara fossanafna: Aldeyjarfoss, Dettifoss, Selfoss, Töfrafoss, Kirkjufoss, Faxi, fimm fossar og kvíslanet Skaftár og Gljúfurleitarfoss, Dynkur og Hvanngiljafoss vegna Norðlingaölduveitu. Á fossana í Skaftá og kvíslanet hennar er ekki einu sinn minnst í mati á umhverfisáhrifum þeirrar gölnu virkjunar.
Gljúfurleitarfoss og Dynkur eru á meðal þeirra 10 stórfossa sem enn eru að mestu í friði fyrir stóriðjustefnunni, og verði þeir teknir af með tilkomu Norðlingaölduveitu, verða aðeins 8 eftir af þeim 13 stórfossum Íslands, sem upphaflega voru ósnortnir.
Í Norðlingaölduveitumálinu er auk þess stundaður villandi málflutningur á tvennan hátt.
Gefið er í skyn að það að setja Norðlingaölduveitu í verndarflokk hafi verið pólitísk ákvörðun fyrri ríkisstjórnar, en það er ekki rétt. Það var rammaáætlunarnefndin sjálf sem vildi örugga friðun Þjórsárvera og fossanna.
Líka er því haldið fram að hægt verði að fara sömu leið og farin var fyrir 63 árum varðandi Niagarafossana og gera "sátt" um að fossarnir í Efri-Þjórsá fái að renna í nokkrar klukkustundir á dag í lok sumars fyrir ferðafólk.
Hið rétta er að sambærileg "sátt" yrði talin galin í Ameríku. Þar eru Niagarafossarnir látnir renna allt árið og aldrei á minna afli en helmingi af samanlögðu afli þeirra ósnortinna. "Sátt" sem byggðist á því að láta fossana aðeins renna milli klukkan 2 og 6 í nokkrar vikur síðsumars yrði talin bera merki um firrtar öfgar.
Þetta lágmarksrennsli Niagarafossanna er 1400 rúmmetrar á sekúndu, sem er 10 sinnum meira rennsli en nú er í Efri-Þjórsá.
Á sama tíma og hrópað er á að dreifa vaxandi ferðamannafjölda um landið á að fórna ígildi tveggja og hálfs Gullfoss fyrir álver í Helguvík, sem ríkisstjórnin hefur ítrekað einróma að skuli rísa, hvað sem tautar og raular.
![]() |
Mörk friðlandsins í kringum lónið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
3.1.2014 | 15:46
Langbylgjan og fúkyrðaflaumurinn.
Með reglulegu millibili, jafnvel daglega, eys hópur manna fúkyrðaflaumi yfir Ríkisútvarpið, menn sem vilja það feigt og líkja stöðu þess á Íslandi hiklaust við ástand útvarpsmála í Austur-Evrópulöndunum á dögum kommúnismans !
Nú ber vel í veiði eftir síendurtekna skerðingu á rekstrarfé RUV, að nota afleiðingar þess sem röksemd fyrir því að leggja RUV niður en selja þó Rás 2 einkaaðilum, af því að það er út af fyrir sig sá hluti starfseminnar sem ber sig best !
Er það nýstárleg hugmynd um hagræðingu að leggja þann hluta starfseminnar niður sem best ber sig.
Alveg er þagað um það að hið fáránlega dýra og óhentuga útvarpshús er sá hluti starfseminnar sem er langtum dýrari en þyrfti að vera en engin leið að minnka það og því bitnar niðurskurður fyrst og fremst á dagskrárgerð þegar hann er kominn á það stig sem hann er núna.
Í bloggpistli einum í gær var látið að því liggja að ekki einu sinni langbylgjusendingar RUV næðust um allt land af því að ekki væri alls staðar hægt að hlusta á Rás 1 allan sólarhringinn á langbylgjunni.
Hér er hálfsannleikur eða hvít lygi notuð til að ófrægja RUV og gefa í skyn máttlausa og ónýta langbylgjusendingu. Hið rétta er að útsendingar langbylgjunnar nást allan daginn um allt land. Þeir sem öðru halda fram eru með sleggjudóma, eða hafa þeir sjálfir prófað að ná útsendingunum alls staðar? Gaman væri að það væri upplýst.
Það hef ég gert og oft um allt land árlega. Sem dæmi má nefna að bara á síðasta ári notaði ég lítil og ódýr langbyljgutæki til að hlusta á RUV alls staðar á landinu, meira að segja á Hornströndum, hálendinu allt frá vestri til norðausturhálendisins, víða um Vatnajökul, Mýrdalsjökul og hálendi á sunnan- og suðaustanverðu landinu.
Það má deila um hvernig efni Rásar 1 og Rásar 2 er skipt í langbylgjuútsendingunni, en fyrir þá sem eru á ferð á svona stórum afskekktum svæðum er mest um vert að ná fréttum, veðurfregnum, veðurspám, og efni sem fjallar um dægurmál og það sem er að gerast nýjast eða daglega í menningarlífinu svo að hægt sé að fylgjast með í þjóðlífinu.
Ekki má gleyma því að það eru ekki bara gamlingjar sem eiga heima á svæðunum þar sem langbylgjan næst ein og vill fylgjast með því nýjasta í tónlist og dægurmenningu.
Frábæra þætta á Rás 1 sem eru ótímabundnir, má nálgast síðar á netinu í Sarpinum á ruv.is
Sömu mennirnir og heimta frekari niðurskurð eða það að RUV verði selt og lagt niður heimta nú að báðar útvarpsrásirnar verði sendar út á langbylgjunni enda þótt vitað sé að það kosti mikla fjármuni.
Það má vel rökræða um hagræðingu í rekstri RUV og um skiptingu efnis rásanna tveggja til sendingar á langbylgju.
Sem dæmi um tillögu um sparnað má nefna að í eina skiptið sem Ríkisendurskoðun gerði viðamikla úttekt á rekstri RUV árið 1996 komst hún að þeirri niðurstöðu að reka þyrfti einn mann af um 400 sem þá unnu hjá RUV.
Þetta var ég og var talið nauðsynlegt að leggja þegar í stað það starf niður sem ég gegndi.
Ég biðst velvirðingar á því að verið þarna í vinnu tíu árum lengur í stað þess að hætta þegar í stað. Það er að sjálfsögðu hneyksli.
En sem betur fór hætti ég loks árið 2007 og hafa allir getað andað léttara síðan.
![]() |
Bifreið RÚV lenti utan vegar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)