Bíll sem býr til orku og eyðir mengun?

Þegar maður sér auglýsingar um alls konar fríðindi, aukahluti og "ókeypis" þetta og ókeypis hitt þegar bílar eru keyptir, vaknar spurningin: Af hverju er verð bílsins bara ekki lækkað sem þessu nemur?

Það er svo skemmtilegt hvað mönnum dettur í hug varðandi það að fá "ókeypis" þetta og ókeypis hitt varðandi bíla.

Þannig hef ég á ferli mínum sem fréttamaður falið ótal fýluferðir varðandi það að menn hafa talið sig hafa fundið upp alls konar búnað og aðferðir til þess að fá bíla til að spara orku og minnka útblástur.

Fyrir ca 35 árum lét ég ginnast til að flytja eina slíka frétt, sem var um íslenskan bíl, sem gengi fyrir lofti.

Hann var aldrei framleiddur. Síðan hefur fjöldi manna haft samband við mig með nokkuð reglulegu millibili út af alls konar búnaði sem "skapi byltingu" í bílaheiminum.

Ég ákvað eftir loftbílsævintýrið að sannprófa allt sjálfur áður en ég ryki af stað með frétt af svipuðum toga. Þeir eru ófáir dagarnir sem hafa farið í það í gegnum tíðina.

Ein fréttin átti að vera um notkun hamps eða hampsolíu sem átti að eyða útblæstir og draga stórlega úr eyðslu og eyða mengun. Framhaldið átti að verða stórfelld ræktun hamps á Íslandi. Ég eyddi tveimur dögum í þetta, meðal annars við nákvæmar mælingar, sem ég krafðist, þótt uppfinningamennirnir teldu sig hafa næg gögn í höndunum.

Niðurstaðan var sú að þetta var tómur misskilningur. Bíllinn með búnaðinum sýndi engar breytingar. Fyrirhöfn mín til ónýtis, nema hvað ég gat forðað mér frá að flytja bullfrétt og það var þess virði.

Oftast hafa menn komið til mín með aukabúnað á vélarnar til þess að ná fram 20-40% sparnaði á eyðslu og mengun.

Ein hugmyndin fyrir nokkrum árum var ný gerð af blöndungi sem átti að gagnast þriðja heiminum þar sem eru tugir milljóna bíla með blöndungum. Íslendingar áttu að geta orðið vellríkir í tengslum við  þessa uppfinningu þar sem nýir íslenskir blöndungar yrðu settir milljónum saman í bíla með blöndungum.

Ekkert hefur frést af þessu síðan og aldrei flutti ég um það frétt.

Nú hefur verið suðað í mér vegna nýrrar aðferðar við að nota vatn sem eldsneyti og er fullyrt að mælingar hafi staðfest að öll mengun frá bílvélinni hverfi.

Ég get ekki sannreynt það og ætla ekki að fara eyða tíma í það, tel mig raunar vera búinn með "kvóta" minn í að hlaupa á eftir svona stórfréttum án minnsta árangurs. Nú verða aðrir og yngri menn að taka við, sem hafa tímann og ævina framundan.

Fá takmörk virðast vera fyrir því hvað hægt er að nota til að knýja bílana. Bæði loft og vatn hafa verið nefnd og hvort tveggja er ókeypis á Íslandi.

Ef ég legg saman allan hinn stórfellda sparnað sem allar þessar uppfinningar hefðu átt að hafa í för með sér, er útkoman bíll, sem notar orkugjafa, sem er ókeýpis, býr til orku og sogar í sig loftmengun og eyðir henni.  

 


mbl.is Fá frítt bensín í tvö ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Seljum fossa og fjöll! Föl er náttúran öll!..."

Það þarf að virkja upp undir 700 megavött til þess að anna orkuþörf fyrir lágmarksstærð álvers í Helguvík, sem talsmenn Norðuráls segja að verði að verða með 360 þúsund tonna framleiðslu á ári.

Öll restin af Þjórsá dugar ekki nema fyrir um helmingnum af því. Til þess að brúa bilið verður að njörva landið allt frá Reykjanestá, austur í Skaftafellssýslur og upp undir mitt hálendið með virkjanamannvirkjum og háspennulínum.

"Einróma stuðningur" ríkisstjórnarinnar við álver í Helguvík þýðir einfaldlega það sem Flosi Ólafsson orti á sínum tíma:

 

Seljum fossa og fjöll !

Föl er náttúran öll !

Og landið mitt taki tröll !

 

Þess vegna hefur þegar verið gefin út sú dagskipun að eftir þörfum verði þau svæði, sem áttu að fara í verndar-nýtingarflokk í niðurstöðum faghópa rammaáætlunar, færð í orku- nýtingarflokk.

Álver er nú í lágmarki vegna gríðarlegra birgða í Kína og víðar þannig að nú verður aftur að gefa út ákall ríkisstjórnar Davíðs og Halldórs frá 1995: "Lowest energie prices!", "lægsta orkuverð í heimi!" "Sveigjanlegt mat á umhverfisáhrifum!"  Allt verður leyft!

Jarðvarmavirkjanirnar, sem þarf fyrir álverið, verða rányrkja, þar sem orkan verður að meðatali uppurin eftir 50 ár!  Áfram verður samt logið upp í opið geðið á öllum um að orkan sé "endurnýjanleg og hrein" og að með þessu virkjanaæði séu Íslendingar í fararbroddi meðal þjóða heims í sjálfbærri þróun.

Snorri Hjartarson brýndi sig og landa sína fyrir 60 árum í ljóðinu "Land, þjóð og tunga" til að "verja heiður og líf landsins gegn trylltri öld." Hann hefði varla órað fyrir því hve margfalt meiri ástæða væri fyrir slíku nú en þá.  


mbl.is Einróma stuðningur við álver í Helguvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Datt aldrei flöt þök í hug.

Bakkabræður eru taldir fá uppreisn æru með stofnun nýs kaffihúss á Dalvík, sem ber nafn þeirra. Er mál til komið því að ástæðulaust er að safna allri grunnhyggni okkar Íslendinga á þá eina.

Bakkabræður byrjuðu reyndar að fá uppreisn æru á áttunda áratugnum þegar Vilhjálmur Hjálmarsson skrifaði kostulega blaðagrein um það uppátæki Íslendinga að setja flöt þök á hús sín í blóra við það lögmál, að vatn þyrfti halla til þess að renna.

Afleiðingin væri milljarða tjón vegna vatnsskemmda, jafnvel á spánnýjum húsum.

Sagði Vilhjálmur meðal annars að enda þótt Bakkabræður hefðu stundað mögnuð heimskupör hefði þeim aldrei dottið í hug að setja flöt þök á húsin á Bakka.

Á þessum árum var það mjög útbreidd skoðun hér á landi að bílbelti væru til ills eins, því að mestu skipti þegar bílar yltu, að menn köstuðust út úr þeim eða köstuðu sér helst sjálfir út úr þeim.

Var meira að segja sett undantekningarákvæði í fyrstu lögin um bílbelti sem tryggðu rétt manna til þess að geta bílbeltalausir, svo að þeir köstuðust sem fyrst út eða gætu kastað sér sem fyrst út, ef eitthvað brygði út af.  

Gilti þá einu þótt rannsóknir hjá þúsund sinnum mannfleiri þjóðum en Íslendingum hefðu leitt hið gagnstæða í ljós, að öllu skipti að vera bundinn vel inni í bílnum. Reynslan hér á landi hefur stutt þetta, því að flestir þeir, sem látast þegar bílar velta, kastast út úr bílunum.  

Eitt af heimskupörum Bakkabræðra var það að þegar einum þeirra var velt niður hlíð liggjandi inni í sívölum hrísgöndli, væri öruggara að höfuð hans stæði út úr göndlinum til þess að hann gæti betur fylgst með því hvernig ferðalagið gengi.

Reyndist hann höfuðlaus þegar komið var niður á jafnsléttu.

Ekki er að efa að Bakkabræður hefðu tekið heilshugar undir það sjónarmið að best væri að kastast út úr bílum þegar þeir yltu og losna þannig við að þurfa að deila kjörum með hinum veltandi bíl.

Því fyrr sem viðkomandi væri kominn út úr bílnum, því betra fyrir hann og þeim mun betur gæti hann fylgst með veltu bílsins, án þess að taka þátt í henni. Að þessu leyti var þessi trú hliðstæð trú Bakkabræðra á gildi þess að hafa sem best sjónarhorn til þess að fylgjast með veltunni.

Þegar nú reynslan hér sem alls staðar hefur leitt í ljós hve heimskulegt þetta er má segja að það sé viss uppreisn fyrir Bakkabræður að stór hluti íslensku þjóðarinnar skyldi áratugum saman hafa trúað á gildi þess að losa sig frá bílum eða losna frá þeim, ef þeir tækju upp á því að velta.

Bakkabræður voru þá eftir allt saman ekki eitthvert einsdæmi hvað grunnhyggni varðaði.  

 

 

 


mbl.is Bakkabræður fá uppreisn æru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlýnar í stað þess að kólna.

Í fleiri en einni úttekt vísindamanna á loftslagi veraldar hef ég séð þær spár undanfarna áratugi að framundan væri róleg kólnun á næstu árþúsundum. Slíkt hefði verið slæmt fyrir norrænar þjóðir.

Þess vegna hefur mér sýnst það í lagi ef mannkynið gæti staðið þannig að málum að loftslag kólnaði ekki.

Hins vegar spá vísindamenn nú hlýnun sem er bæði langt umfram það sem nauðsynlegt kynni að vera og miklu hraðari.

Eins og venjulega reka þeir upp ramakvein sem hafa hagsmuni af því að ekkert sé gert til að sporna gegn þeirri alltof miklu áhættu sem tekin er með því að láta reka áfram á reiðanum.

Vonandi fá þeir ekki að ráða ferðinni þegar svo mikið er í húfi.   


mbl.is Hlýnun gæti endað með „hörmungum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábærir Erlingssynir.

Ég hef lengi dáðst að tveimur íslenskum listamönnum. Það er stutt síðan ég naut til fulls og dáðist að texta Friðriks við óperuna Ragnheiði og nú kemur Benedikt og brillerar í kvikmyndinni Hross í oss.

Benedikt hefur gert ótrúlega hluti hér heima og nú hleypir hann heimdraganum með glæsibrag og fer á kostum svo að notað sé orðalag, sem notað er um skeiðhesta.

Til hamingju!  


mbl.is Benedikt besti nýi leikstjórinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefði átt að taka þrjú núll af krónunni 1981.

Fljótlega eftir að ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens tók við völdum í febrúarbyrjun 1980 kom upp hugmynd um að taka núll aftan af krónunni, eitt, tvö eða þrjú, eftir því hvað hentugast þætti.

Strax var augljóst að ekki dygði að taka bara eitt núll, svo mjög hafði krónan rýrnað. Ég man þá tíð í mínu ungdæmi þegar verðið á lítra af mjólk fór upp í eina krónu.

Valið stóð á milli þess að minnka krónuna hundraðfalt eða þúsundfalt.

Ef hún var minnkuð hundraðfalt urðu krónur að aurum, en ef hún var minnkuð þúsundfalt urðu milljónir að þúsundum og milljarðar að milljónum.

Hið fyrra varð ofan á og ég tel að það hafi verið mistök eins og sést á setningunni hér á undan því að eitt atriði í breytingunni var heppilegt hvað varðaði það að auðvelta fólki að skynja breytinguna, en tvö atriði heppileg með því að breyta þúsundfalt.

Breytingin á neðsta skalanum hafði sáralitla þýðingu fyrir verðskyn fólks en hundraðföld breyting í stað þúsundfaldrar breytingar skemmdi stórlega fyrir verðskyninu.

Enda liðu ekki nema tvö ár þangað til yfir dundi langmesta verðbólga í sögu þjóðarinnar.

Meginorsök hennar tengdist að vísu ekki myntbreytingunnni heldur því að Íslendingum var um megn að hafa stjórn á efnahagsmálum sínum og hér ríkti stanslaust stríðsástand á því sviði í formi kapphlaups verðlags og kaupgjalds, sem eyðilagði möguleika til að skipuleggja rekstur, gerði krónuna að athlægi og verðlausu rusli á alþjóðlegum markaði og síðast en ekki síst hafði í för með sér grímulaust og siðlaust rán frá sparifjáreigendum upp á hundruð milljarða á núgildandi verðlagi.

Þegar verið er að tala um fjármuni á okkar tímum dofnar fólk við að heyra hinar svimandi háu tölur og það er slæmt.

  


mbl.is Þúsundkallinn frá 1984 væri 9.300 kr. á núvirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhafnarmeðlimir eru skipverjar.

Áhafnarmeðlimir er orð með sex atkvæðum. Skipverjar er þriggja atkvæða orð. Það tekur tvisvar sinnum lengri tíma að segja "áhafnarmeðlimir" heldur en "skipverjar."

Samt bisa sumir við að nota þetta leiðinlega og langa orð eins og sjá má í tengdri frétt á mbl.is.

Í sömu frétt stendur: "Sumarið hefur gengið mjög vel heilt yfir."  Orðunum "heilt yfir" er hér algerlega ofaukið og er óþarft tískuorðtak sem hver étur upp eftir öðrum. Og "sumarið hefur gengið mjög vel" er rökleysa, því að sumur geta ekki gengið.

Betra hefði verið að segja "sumarið hefur verið gott" eða "sumarið hefur verið gott hjá okkur"

Síðar stendur í fréttinni: "Það hafa verið fleiri komur skipa..." sem er dæmi um þá sýki að hrúga upp nafnorðum í stað þess að segja: "Fleiri skip hafa komið..."  sem þar að auki segir hið sama í færri orðum.

 

 


mbl.is 150 þúsund manns komu sjóleiðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafið þið séð svartan kött með...?

Stundum eru það smáir hlutir sem verða að aðalfréttaefni daganna. Þannig var það um læðuna Nuk, sem slapp úr einkaþotu á Reykjavíkurflugvelli í vikunni.

Þetta snerti hvern einasta Íslending og allir spurðu alla: "Hefurðu séð svartan kött með hvítum blett sem mjálmar með dönskum hreim?"


mbl.is Kátur kattareigandi þakkar Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Land og þjóð sem æpir á aðstoð.

Í tveimur ferðum um Eþíópíu þvera og endilanga 2003 og 2006  sá ég hve stóru hlutverki þekking okkar Íslendinga gæti gagnast þessari örfátæku þjóð sem býr í landi með miklar orkulindir.

Frá norðri til suðurs liggur stórt misgengi eftir landinu með mikla jarðvarmaorku á sama tíma sem úr milljónum strákofa í þorpum landsins streymir reykur af brennslu kurls, sem hoggið er úr kjarr- og skóglendi í landi, þar sem ríkir mikil gróður- og jarðvegseyðing.

Það er því sérstakt fagnaðarefni að íslensk þekking verði að útflutningsvöru til þessarar nauðstöddu þjóðar, þar sem þjóðartekjur á mann eru 300 sinnum minni en á Íslandi.


mbl.is 500 milljarða fjárfesting í Eþíópíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórfelldar rangfærslur hafa ráðið för.

Á fundi með vegamálastjóra um daginn var skellt framan í mann, að með andófi gegn nýjum Álftanesvegi væri verið að leggjast gegn því að losa vegakerfið við stórhættulegan veg með fjölda alvarlegra slysa.

Á undanförnum árum hafa þeir sem vilja nýjan veg málað núverandi veg svo dökkum litum í þessu efni að halda hefði mátt að þetta væri hættulegasti vegur landsins, enda ætla menn að leggja hann á sama tíma og engin hliðstæð framkvæmd verður í Reykjavík um ófyrirsjáanlega framtíð.

Þegar Ólafur Guðmundsson bað Vegagerðina um að gefa upp þá tíu vegarkafla sem hefðu hæstu slysatíðnina á höfuðborgarsvæðinu var því neitað.

Ólafur fór þá sjálfur í gögn Vegagerðarinnar og niðurstaða hans er svo sláandi, að hún ein nægir til þess að staldrað verði við og þetta mál allt tekið upp frá rótum:

21 vegarkafli á höfuðborgarsvæðinu er með meiri slysatíðni en Álftanesvegur. Hann er númer 22 af 44 hvað það snertir. Hvers eiga þessir hættulegri vegarkaflar að gjalda?

301 vegarkafli á landinu í heild er með meiri slysatíðni en Álftanesvegur. Hann er númer 302 af 1427 vegum í því efni.  Hvers eiga þessir rúmlega þrjú hundruð vegakaflar að gjalda?

Flestir vegarkaflarnir á höfuðborgarsvæðinu, sem eru með hærri tíðni en Álftanesvegur, eru í Reykjavík, 14 talsins, 4 í Garðabæ, aðrir en Álftanesvegur, 3 í Hafnarfirði og 1 í Kópavogi.

Í ofanálag leiðir rannsókn Ólafs Guðmundssonar í ljós að nýi vegurinn, eins og hann er lagður upp, verður með hærri slysatíðni en núverandi Álftanesvegur og örugglega með hærri slysatíðni en endurbættur vegur í núverandi stæði.  

Síbyljan um hinn stórhættulega Álftanesveg virkaði svo vel, að ég og allir gleyptu hana hráa og unnum í því að finna endurbætur á veginum sem gerðu hann hættuminni.

Nú kemur í ljós að bæði andófsfólk og sjálfir verktakarnir hafa verið hafðir að leiksoppum stórfelldra blekkinga í þessu máli.  

Fyrir mig er það áfall að jafn margt ágætisfólk og finna má innan Vegagerðarinnar og annarra sem tengjast þessum áformum skuli hafa leiðst til að taka þátt í þessum blekkingaleik.  

P.S. Varðandi orðaleik Vegagerðarinnar um Garðahraun/Gálgahraun vísa ég til svars míns við athugasemd um það efni hér á eftir. Gálgahraun/Garðahraun er einfaldlega ein landslagsheild með syðri hraunjaðarinn meðfram Álftanesvegi og hinn nyrðri í fjörunni í Skerjafirði.  

 


mbl.is Of mikið um rangfærslur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband