22.2.2008 | 10:38
VONIN DVÍNAR.
"Er þetta nokkurt vit?" spurði maður mig í gær um leitina að flugvélinni sem fór í sjóinn suðaustur af landinu. Svarið er: Vonin dvínar en flugvél af sömu gerð og þessi, sem fór í sjóinn suðvestur af Reykjanesi fyrir rúmlega aldarfjórðungi, flaut svo lengi, að henni var náð upp í bát og farið með hana í land.
Sú flugvél varð eldsneytislaus og það hjálpaði til því að tómir geymarnir virkuðu eins og flotholt. Þessar vélar eru lágþekjur og skrokkurinn stendur því lengi upp úr sjónum, gagnstætt því sem er hjá háþekjum. Hins vegar hefur vélin sem nú fór í sjóinn verið með mikið eldsneyti og því flotið verr en Piper-vélin hér um árið.
Ég hef flogið á eins hreyfils vél yfir til Grænlands og gerð er krafa um að HF-sendir sé um borð og uppblásanlegur gúmbátur. Við lendingu á sjó reynir flugmaðurinn að lenda þvert eftir öldunni til að stingast síður inn í hana. Ef flugmaðurinn er auk þess vel klæddur og í léttum flotbúningi á hann nokkra möguleika.
Þótt flugvélin sé sokkin er því enn von um að finna gúmbátinn á reki þótt flugmaðurinn sé ekki á lífi. Svona leit er ekki hætt fyrr en öll von er úti um að finna það sem leitað er að, svo einfalt er það.
![]() |
Leit haldið áfram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.2.2008 | 12:51
NÖLDRAÐ YFIR GÓÐUM HLUT.
Ég var einn af fjölmörgum hljómleikagestum í troðfullu húsi á tónleikunum "Bræður og systur" í gærkvöldi og afar ánægður með þetta framtak Bubba og annarra sem að þeim stóðu. Mér fannst ég fara út skárri maður en ég kom inn. Ég tek ekki undir nöldrið í garð Bubba og Geirs H. Haarde, sem maður heyrir hjá sumum, heldur fannst mér það gríðarlega mikils virði að forsætisráðherrann skyldi á jafn skemmtilegan og uppörvandi hátt leggja sitt þunga lóð á vogarskálina sem Bubbi stillti upp af alkunnum dugnaði og ósérhlífni.
Nöldrararnir telja að vel stæðir menn megi ekki leggja sitt lið gegn misrétti. Ef tekið væri mark á þessu nöldri hefðu hvorki Roosevelt né Kennedy ekki mátt bjóða sig fram til forseta og Héðinn Valdimarsson alls ekki mátt vera einn helsti baráttumaður fyrir fátæka verkamenn, allt vegna þess að þeir voru efnaðir menn.
Ef kafað er nánar ofan í málflutning nöldraranna ættu nánast engir Íslendingar að mega leggja lið sitt hjálp við fátækasta fólki heims, vegna þess að meðal Íslendingurinn er óendanlega miklu ríkari en t. d. meðaljóninn í Eþíópíu.
Nöldrararnir krefjast þess að þeir sem vilji leggja umhverfismálum lið á ráðstefnu hinum megin á hnettinum megi alls ekki ferðast þangað í þotum heldur skilst manni að þeir eigi að ganga þangað, hjóla eða synda til þess að vera málstað sínum samkvæmir.
Ef farið væri eftir nöldrinu væri hinum, sem eru "samkvæmir sjálfum sér" eins og það er orðað, veitt frítt spil til að nota auðæfi sín til að berjast gegn öllu því sem haggar við stöðu þeirra.
Allir sem komu fram í gærkvöld og ekki síst Bubbi og Geir, eiga þakkir skildar fyrir sterka, ánægjulega og uppörvandi tímamótasamkomu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
21.2.2008 | 00:21
SKÝJABORGIR HRAFNS.
Hrafn Gunnlaugsson dreymir um byggð í Vatnsmýrinni sem líkasta skýjakljúfahverfi í Dubai. Eins og fleiri stendur hann í þeirri trú að Reykjavík sé miklu dreifbýlli en sambærilegar borgir. Því fer viðs fjarri eins og ég hef áður rakið með tilvitnun í vandaða skýrslu um 16 norrænar borgir þar sem sést að Reykjavík er nákvæmlega jafn dreifbýl og borgir af svipaðri stærð á Norðurlöndum.
Flestar þessar borgir og fleiri álíka borgir skoðaði ég í hitteðfyrra af forvitni um þetta mál.
Í Dubai skín sólin nær lóðrétt niður en í Reykjavík er hún svo lágt á lofti að mestallt árið yrðu göturnar í skýjakljúfabyggð Hrafns í köldum skugga.
Nú þegar hefur risið háhýsabyggð á rústum timburhúsanna fyrir neðan Lindargötu en ekki verður séð að barnafólkið, sem heldur þessu þjóðfélagi gangandi öðrum fremur, hafi flust þangað, enda íbúðaverðið hátt og barnafólkið vill frekar búa í nágrannabæjunum og úthverfunum en í steinsteypuveröld Hrafns og skoðanasystkina hans.
Ef Hrafn tryði því fyrir sjálfan sig sem hann heldur fram að sé best fyrir alla ætti hann heima í einhverjum af háu blokkunum sem risu við Skúlagötu. Í staðinn valdi Hrafn sér stað fyrir lágreist hús í Laugarnesi þar sem eins langt er til næstu húsa og mögulegt er í Reykjavík.
Allt framansagt breytir ekki því að hagkvæmara er að byggð sé þétt en dreifð og að keppa beri að því eftir föngum. Sjálfur átti ég heima á tólftu hæð í smáíbúðablokk fyrstu búskaparárin og bý nú í blokk. En rétt eins og að fólkið í Austur-Þýskalandi "kaus með fótunum" eins og það var kallað með því að flýja landið, þar sem menn töldu sér trú um að endanleg kerfislausn væri fundin á öllum þjóðfélagsmálum, eru takmörk fyrir því hvað hægt er að ráðskast með fólk og raða því eins og tindátum inn í háhýsablokkir.
Frjálshyggjumaðurinn góði og vinur minn, Hrafn Gunnlaugsson, ætti að skilja það og það má hann eiga að hafa oft hrist rækilega upp í samfélaginu með ferskri og óbundinni hugsun og gert með því gott gagn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.2.2008 | 23:59
EKKERT EINSDÆMI, ÞVÍ MIÐUR.
Það er því miður ekki einsdæmi sem hermt er um hraksmánarlega lágar launagreiðslur í útlöndum. Eitt af því sem bar á góma á stórgóðum tónleikum á vegum Bubba Morthens í kvöld gegn fordómum, var hvernig hér á landi hefur of oft verið komið fram við erlent verkafólk í hraklegum launum og óforsvararandi aðbúð.
Þar hafa ríkir Íslendingar á mælikvarða hins erlenda verkafólks nýtt sér aðstöðumun sinn á þann hátt að slíkt ætti ekki að líðast. Er vonandi að slíkt verði á undanhaldi þótt nú hægi á þenslunni.
![]() |
Greiddi starfstúlku 183 krónur í tímakaup |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.2.2008 | 12:54
MARGT ER LÍKT MEÐ SKYLDUM.
Í ferð um Norður-Noreg fyrir áratug vakti það athygli að á einum stað þar sem komið var í land á ferju, blasti við risavaxin stytta og undir henni stóð þessi áletrun: "Stærsti jólasveinn í heimi." Þetta var svolítið skondið svona um hásumar og ég hugsaði með mér að engum nema Norðmönnum og Íslendingum gæti látið sér detta svona lagað í hug. Svipað kemur upp í hugann við fréttina frá Klakksvík um stærsta frímerki heims, sem þar hefur verið sett upp.
Mér er það ógleymanlegt þegar ég, aðeins 14 ára gamall, kom í júlí 1955 ásamt hópi ungmenna frá Íslandi siglandi á Dronning Alexandrine til Klakksvíkur frá Íslandi í logni og heiðríkju. Klakksvík hafði það sama ár komist í fréttirnar á Norðurlöndum vegna pólitísks deilumáls sem ég man nú ekki nógu vel hvað var til þess að fara út í það. Hitt man ég að þetta mál setti eyjasamfélagið á annan endann um hríð og olli miklum deilum.
Klakksvík var fyrsta erlenda byggðarlagið sem við unglingarnir komum til og fannst okkur það furðu líkt álíka stórum byggðarlögum á Íslandi s. s. Neskaupstað. 1955 fóru áttu íslenskir unglingar yfirleitt ekki kost á því að fara til útlanda og því varð siglingin til Danmerkur okkur minnisstæð. Í hönd fór sigling um sundin milli eyjanna með viðkomu í Þórshöfn og Trangisvogi á Suðurey. Eftir slík kynni af Færeyjum við bestu hugsanlegar aðstæður eiga þær sérstakan sess í huganum og því finnst mér það ekki algerlega út í hött að tímaritið National Geographic skuli hafa kynnt þær sem fremstar allra eyja fyrir ferðamenn.
Það er umhugsunarefni fyrir Íslendinga að okkar land lenti í 9. sæti en það er efni í annan bloggpistil.
![]() |
Risafrímerki afhjúpað í Klakksvík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.2.2008 | 23:10
SAMGÖNGUR FRÁ 1950.
Á laugardag og sunnudag verða haldin málþing um olíuhreinsistöðvar á Bíldudal og Ísafirði. Ef samgöngur við þennan landshluta væru eins og í öðrum landshlutum væri ekkert mál að fara á báða staðina eins og ég er að íhuga. En í staðinn er þetta stórmál og minnir mann á árin í kringum 1950 í öðrum landshlutum, þegar ekki var hægt að fljúga að næturlagi og fjallvegir ófærir víðast á landsbyggðinni. Vestfirðir eru á þessu stigi enn, einir allra landshluta. Ég get ekki flogið á FRÚ-nni á milli staða á Vestfjörðum nema í björtu. Og ef ég ek frá Reykjavík til Bíldudals er lengra fyrir mig á þessum árstíma að aka þaðan til Ísafjarðar heldur en frá Reykjavík til Ísafjarðar vegna þess að Hrafnseyrar- Dynjandis-Þorskafjarðar- og Tröllatunguheiðar eru ófærar og verður að aka frá Bíldudal til baka til Búðardals, þaðan um Laxárdalsheiði yfir í Hrútafjörð og síðan þaðan alla hina löngu vetrarleið vestur á Ísafjörð. Flugleiðin frá Reykjavík til Ísafjarðar er rúmir 220 km en landleiðin að vetrarlagi næstum þrisvar sinnum lengri. Flugleiðin liggur um Breiðafjörð en landleiðin er teygð langt austur í næsta landshluta. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það hafi verið verstu mistökin í samgöngum á Vestfjörðum þegar ákveðið var að aðalleiðin vestur lægi um Ísafjarðardjúp og Steingrímsfjarðarheiði. Ef áhersla hefði verið lögð tengingu um Breiðafjörð væri nú komin heilsársleið sem tengdi saman Vesturland og sunnanverða og norðanverða Vestfirði í stað þess hörmungarástands sem ég lýsti hér að framan. Í stað leiðar yfir Steingrímsfjarðarheiði væri nú farið milli Hólmavíkur og Ísafjarðar um Arnkötludal. Og næturlokunin á fluginu á norðanverðum fjörðunum væri engin hindrun fyrir flugi ef heilsársleið lægi frá Barðaströnd til Ísafjarðar því hægt er að fljúga að næturlagi til Patreksfjarðar. Enn styttra, eða aðeins rúmlega klukkstundar akstur, væri frá nýjum flugvelli við Brjánslæk sem myndi gerbylta samgöngum vestur því að Vestfirðir eru eini landshlutinn sem aðeins er hægt að fljúga til örfáar klukkustundir á veturna vegna myrkurs. Þessar samgönguhömlur standa að mínum dómi mest í vegi fyrir framförum á Vestfjörðum og eru langstærsti þátturinn í byggðavandamálunum þar. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
19.2.2008 | 00:43
DÓMARINN ER HLUTI AF LEIKVANGNUM.
Dómarinn er hluti af leikvanginum í knattleik og við það situr oftast. Mistök hafa komið fyrir áður í spurningakeppni og sjálfur minnist ég mistaka Baldurs Hermannssonar og mín þegar í keppni Þingeyinga við Eyfirðinga var spurt: "Á hvað horfir Hamlet Danaprins þegar hann segir: Að vera eða vera ekki?" Svarið: "Hauskúpu" var dæmt sem rétt svar en hið rétta er að Hamlet horfir á hauskúpu á allt öðrum stað í leikritinu og alls ekki þarna. Þetta svar réði úrslitum og raunar komumst við Baldur að þeirri niðurstöðu að hægt væri bæði að dæma svarið rétt og rangt vegna þess að hér væri um að ræða það sem kalla mætti "viðurkenndan misskilning." Annað dæmi um viðurkenndan misskilning er spurningin um það hver sé frægasta setningin úr myndinni Casablanca. Ef svarað er: "Play it again, Sam," er það viðurkenndur misskilningur því að hið rétta er að þessi setning er aldrei sögð í myndinni þótt langflestir haldi það. Sjálfur á ég við viðurkenndan misskilning að glíma því að mjög margir, jafnvel gamlir bekkjarbræður mínir, eru harðir á því að fyrsti bíllinn minn, sem ég eignaðist meðan ég var í skóla, hafi verið þriggja hjóla. Hið rétta er að hann var með fjögur hjól og þau öll úti í hornunum. Misskilningurinn byggist á því að í einum af skemmtiþáttum Sjónvarpsins sat ég í þriggja hjóla Messerschmitt sem ýtt var inn í stúdíó og það var í eina skiptið á ævinnni sem ég sat í slíkum bíl. En þetta sýnir hve Sjónvarpið getur verið sterkur miðill, þetta eina skipti varð eins og fjöðrin sem varð að mörgum hænum. Gildir einu þótt ég eigi núna nákvæmlega eins bíl og minn fyrsta bíl til að sanna að hann hafi verið með fjögur hjól. Þriggja hjóla bíllinn er viðurkenndur misskilningur. Spurningar sem byggjast á viðurkenndum misskilningi ber auðvitað að forðast en mistök geta alltaf gerst og munu halda áfram að gerast. Þess má geta að úrslitin sem réðust á hauskúpunni sem Hamlet hélt á urðu til þess að keppnin varð mun skemmtilegri en ella. Þingeyingar komust áfram og á síðar í keppninni, á Húsavík, fór Flosi Ólafsson með þessa frægu vísu sína eftir að hafa ekið fram hjá Ystafelli: Hér er alveg unaðslegt á ýmsar lundir. Sveinar elta hringahrundir. Hér var það sem SÍS kom undir. |
![]() |
Mistök í Gettu betur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
17.2.2008 | 20:31
ÍSLAND Í SVÍÞJÓÐ: "ONE NIGHT STAND."
Var að koma til landsins frá Stokkhólmi eftir ferð um Noreg og Svíþjóð. Komst að því þar í samtölum við fólk, sem fer á milli Svíþjóðar og Íslands, að því finnst nöturlegt að vera oft á tíðum samferða hópum sænskra karlmanna, sem eru á leið til Reykjavíkur í helgarferð til að upplifa hina umdeildu og umræddu "one night stand" auglýsingu sem virðist hið eina sem hægt sé að festa hönd á í Svíþjóð varðandi það hvað sé að sækja hingað fyrir Svía. Þetta fólk segist ekki sjá neinar alvöru auglýsingaherferðir um hina einstöku náttúru Íslands sem æ fleiri málsmetandi aðilar erlendis eru að uppgötva sem mestu auðlind og verðmæti landsins, ekki bara fyrir Íslendinga, heldur allan heiminn. Fleiri ferðamenn eru lokkaðir um langan veg til Lapplands yfir veturinn en koma til Íslands allt árið til að upplifa fernt, sem þar er selt: Þögn, kulda, myrkur og ósnortna náttúru. Hinir íslensku viðmælendur mínir í Svíþjóð segjast ekki sjá neitt að gerast hjá okkur í þá veru að láta vita af því hvað hingað er að sækja annað en óstjórnlega villt næturlíf í Reykjavík, sérhannað fyrir sænska karlmenn. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
16.2.2008 | 14:27
HRADLESTIN MA EKKI STODVAST.
Asinn vegna alvers i Helguvik er ekki nytt fyrirbrigdi, heldur gamalt og margnotad trix. Pressan beinist ad koma af stad sem mestum framkvaemdum sem fyrst til ad geta sidan sagt ad of seint se ad snua aftur, hvad sem kemur upp. Ekki ma heyra nefnt ad minnka hradann a storidjuhradlestinni. A sinum tima kalladi David Oddsson Skipulagsstofnun "kontorista ut i bae" sem ekkert mark skyldi taka a.
Umhverfisradherra og umhverfisraduneyti eiga helst ad vera afgreidslustofnun sem afgreidir mal med sem mestu hradi og tefur ekki fyrir neinu. Hradlestin ma ekki stodvast, - skitt med allt annad.
![]() |
Helguvík bíði enn um sinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
16.2.2008 | 14:16
SA GULI UT AF BORDINU?
Atti athyglisvert vidtal vid Gudmund Arna Stefansson sendiherra her i Stokkholmi en hann verdur a hatid Islendinga her i kvold. Hann varar okkur landa sina vid heyfingum erlendis, t.d. her i landi, sem beinast gegn kaupum a torski. Astaedan er su ad fiskurinn er i utrymingarhaettu i Nordursjo og farin er af stad hreyfing um ad haetta alveg ad kaupa thorsk
Gudmunudur Arni varar vid andvararleysi okkar jafnvel thott ekki fari eins illa og utlit getur verid fyrir, ekki bara her i Svitjod, heldur lika i odrum londum sem liggja nalägt Nordursjo.
Naest verd eg med tolvuna mina med i svona ferd. Eg engist yfir thvi ad verda ad nota svona stafsetningu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)