Færsluflokkur: Bloggar
29.5.2021 | 06:30
Lygilegt að til greina hefði komið að skjóta Ryanair vélina niður.
Lýsing forseta Hvíta-Rússlands er ævintýraleg á því hvernig hann hefði upplifað atburðarásina í þeirri einstæðu aðgerð, sem hann stóð fyrir til að þvinga þotu Ryanair með beitingu herþotna til að hætta flugi og lenda í Minsk svo að hægt væri að ræna Roman Protasevits úr flugvélinni.
Einræðisherrann kvaðst í þessari atburðarás hafa jafnvel reiknað með því að skjóta þyrfti þotuna niður með manni og mús af því að hún ógnaði kjarnorkuveri á svæðinnu¨!
Enn lygilegri er lýsing forseta Rússlandsm, eins valdamesta manns heims, á því hvaða augum hann líti þetta mál.
![]() |
Pútín hneykslaður yfir viðbrögðunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.5.2021 | 19:32
Samt er hægt að láta það vera svalt að vera stúdentar.
Nú er að hefjast fyrsta helgin eftir tilslakanir í sóttvarnaraðgerðum og þrátt fyrir þær full ástæða til að minna rækilega á það, enn eru í gildi megin aðgerðir svo sem um nánd og grímuskyldu þótt minni sé.
Nú er bara að "taka Þórólf á þetta" svo að jafnvel hin ítrasta stúdentagleði sem ævinlega er vorboðinn ljúfi hér á landi geti náð bæði þeirri hæð og þeirri dýpt sem hún á skilið.
Á facebook síðu með laginu "Svalt að vera stúdentar" er fjöldasöngur úr heimasmiðju, þótt kófið hafi enn hindrað að taka upp nema eina leiðandi rödd til að byrja með.
Þetta lag var frumflutt á útskriftarhátíð M.R. í fyrra; þá með texta séðan af sjónarhóli 60 ára stúdenta, en nú er búið að setja allan textann í nútíð, svo að allir árgangar sjái málsefnið frá svipuðum sjónarhóli þeirra sem líta úr fjarlægð og nálægð yfir æviferil "eilífðarstúdentsins." Hér birtist textinn í fyrsta sinn sér á blaði, sæmilega njörvaður saman í rími í gömlum stíl, bæði innrím og endarím.
SVALT AÐ VERA STÚDENTAR. (Með sínu lagi)
Nú gleðibraginn okkar syngur sérhver júbilant;
er til í slaginn eins og menntaskólafólk er vant.
Það gildir alltaf þó að sumt sé efni saknaðar,
að það er svalt að verða menntaskólastúdentar.
Á skólaárum margt er brallað; það er brjálað fjör;
svo létt á bárum þá við erum, lífsins nautn er ör.
Það gildir alltaf, þó að sumt sé efni saknaðar,
að það er svalt að verða menntaskólastúdentar.
Svo skiljast leiðir og við förum svona sitt á hvað,
en gamli seiðurinn, hann blundar samt við hjartastað.
Það gildir alltaf, þó að sumt sé efni saknaðar,
að það er svalt að verða aldarfjórðungsstúdentar.
Og hvort sem hárunum þeim fækkar eða verða grá,
þegar árin fara´að líða hraðar okkur hjá,
þá gildir alltaf þó að sumt sé efni saknaðar,
að það er svalt að verða 40 ára stúdentar.
Nú glösum klingjum við; um seiglu okkar segir allt,
að glöð við syngjum alltaf Gaudeamus hátt og snjallt.
Það gildir alltaf, þó að sumt sé efni saknaðar
að það er svalt að verða 50 ára stúdentar.
Það gildir alltaf, þó að sumt sé efni saknaðar,
að það er svalt að verða 60 ára´og 70 ára´og
eilíflega stúdentar!
![]() |
Fögnuðurinn leiddi til tuga smita |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.5.2021 | 14:00
Ótrúleg tilviljun fyrir 80 árum innsiglaði dauða 2200 manna.
Fyrir fjórum dögu var fjallað hér á síðunni um stærstu flotaorrustu Heimsstyrjaldarinnar síðari vestur af Íslandi milli flaggskipa sjóherja Breta og Þjóðverja, Hood og Bismarck.
24. maí 1941 sökkti ein fallbyssukúla risaorrustuskipinu Hood í þessari stórorrustu og 1416 af 1419 um borð fórust.
En viðureigninni var ekki lokið, þótt Bismarck kæmist undan til suðaustur í átt til Brest í Frakklani, og Prinz Eugen til austurs í átt til Noregs.
Lindemann skipherra á Bismarck hafði gert þau afdrifaríku mistök í eldsneytisáfyllingu við Bergen á leiðnni til árása á skipalestir á Norður-Atlantshafi suður um Grænlandssund, að klára ekki áfyllinguna.
Olía lak frá Bismarck á flóttanum og ekki var hægt að keyra það á fullri ferð.
Engu að síður virtist skipið sloppið þegar Bretar misstu það úr greipum sér með að gera ráð fyrir því að það væri á leið til Noregs.
Þá gerði Lutjens flotaforingi þau mistök að senda kóðað skeyti til Þýskalands, en það gaf Bretum færi á að miða Bismarck út og beita alls sautján skipa flota til þess að elta Bismarck uppi.
Þar með var þó enn ekki úti öll von fyrir Bismarck að komast inn í flugdrægnisvið þýskra flugvél þegar nær drægi Frakklandi.
En þá gerðist einhver ótrúlegasta tilviljun stríðsins.
Þótt aðeins eitt af mörgum tundurskeytum frá breskum Swordfish opnum tvíþekjum hitti Bismarck almennilega, var það á allra versta staðnum á skipinu, á stýrinu aftast á því.
Þar með varð Bismarck að "sitting duck", kyrrstæðu skotmarki fyrir Breta og það sökk með þeim afleiðingum að 2200 sjóliðar fórust.
28. maí 1941 skrifar ritari Hitlers í dagbók að Foringinn sé svo gersamlega niðurbrotinn vegna þessa ósigurs, að orð fái vart lýst því.
Orrusturnar á Grænlandssundi og Biscayaflóa fyrir 80 árum voru í raun sama orrustan, og mistök stjórnenda Bismarcks voru hliðstæð mistökum skipstjóra sænska skipsins Malmberget 1913, ofmat á stöðunni.
![]() |
108 ára gömul gáta leyst |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.5.2021 | 23:43
Er aflétting byssuleyfa virkilega lausnin?
Fréttirnar frá Bandaríkjunum varðandi byssur, fjöldamorð og byssueign um þessar mundir, eru þannig, að fyrirsögn viðtengdrar fréttar á vel við hvað snertir viðhorf Bandaríkjamanna á vel við: "Hvað í fjáranum er að okkur"
Á sama tíma og margir ráðamenn hvetja til aðgerða til þess að takmarka byssueign, ekki aðeins fjölda vopnanna, heldur líka hríðskotabyssur í einkaeigu, eru Texasbúar á leiðinni til þess að afnema byssuleyfi með öllu að því er virðist.
Sláandi eru tölurnar um byssueignina og hlutfall morða með þeim þegar þær eru bornar saman í Bandaríkjunum, Kanada og fleiri "landnemalöndum" (frontier), svo margföld er tíðni byssummorðanna í BNA.
Byssuaðdáendur hafa nefnilega haft það sem eina af höfuðröksemdum fyrir hinni gegndarlausu og sérstaklega stjórnarskrárvörðu byssueign að í svona frontier-landi yrði helst sem allra flestir að vera vígbúnir til hins ítrasta til að tryggja frelsi sitt og öryggi.
![]() |
Hvað í fjáranum er að okkur? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.5.2021 | 18:44
Slæmar eru veirurnar; voldugt þeirra hlass...
Framsýnustu og fróðustu sérfræðingar heim á sviði sýkinga og smitsjúkdóma hafa lengi spáð fyrir um það aem hlyti að gerast, að hið forna stríð mannkynsins við sífellt verri og öflugra sýkla myndi verða ríkjandi einkenni 21. aldarinnar.
Næsta víst er líka að á sínum tíma skipti litlu hvort spánska veikin og alnæmi komu upp í Bandaríkjunum eða ekki, þær breiddust út um allan heim.
Og litlu þyrfti að breyta i söngtexta Jónasar Árnasonar til þess að lýsa hinu mikla stríði svona:
Slæmar eru veirurnar, voldugt þeirra hlass,
og vafaamt að skjóta þeim rebba fyrir rass.
![]() |
Skiptir ekki höfuðmáli hvernig veiran varð til |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.5.2021 | 13:03
"Nafnlausa leið", "Nafnlausa-Langamýri" og "Nafnlausakot"?
Fjölmörg dæmi eru um það hér á landi að eins konar tvínefni og jafnvel þrínefni séu á stöðum og svæðum.
Til eru tvær Fjallabaksleiðir og þrjú bæjarnefni í Langadal kennd við gil, Fremstagil, Miðgil og Ystagil.
Í Norðurárdal í Skagafirði eru bærinn Fremrikot og í Blöndudal bæirnir Ytri-Langamýri og Syðri-Langamýri.
Oftast er talað um gos í Geldingadölum um þessar mundir og þar eru líka Meradalir.
Það er því alveg í samræmi við íslenska venju að þessi örnefni séu jafn mörg og dalirnir eru margir og engin ástæða til uppgjafar fyrir ókunnuga af því tagi að um nafnlausa staði eða svæði þurfi að vera að ræða.
Eða hvernig myndi mönnum sýnast það ef staðirnir sem nefndir eru hér að ofan væru afgreiddir fyir vanþekkingar sakir með því að þeir væru nafnlausir.
Eyðibýlið Miðgil yrði nefndur Nafnlausagil, Syðri-Fjallabaksleið héti Nafnlausa leið, bærinn Fremrikot Nafnlausa kot og Syðri-Langamýri Nafnlausa Langamýri eða jafnvel Nafnlausa mýri?
![]() |
Nafnlausidalur er merkingarleysa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Síðan 1940 hafa verið ákveðnar sveiflur í kjörum og fjölda landsmanna sem voru þess eðlis, að afleiðingarnar komu ekki að fullu fram fyrr en talsvert síðar.
Á stríðsárunum og fram undir 1950 fjölgaði þjóðinni gríðarlega, og ef rétt hefði verið á málum haldið, hefði verið hægt að undirbúa landmenn undir að bregðast við fyrirsjáanlegum vandamálum.
Á árunum 1947 til 1957 urðu ráðamenn sífellt meira hissa á þeirri miklu þenslu sem varð í skólakerfinu á grunnskólastiginu og skólarnir jafnvel þrísetnir og yfirfullir.
Síðan kom áratugur með mikilli undrun ráðamanna yfir fádæma fjölgun nemenda á framhaldsskólastigi og síðar háskólastigi.
Allt var það í raun löngu fyrirsjáanlegt, en ævinlega hlutust af mikil vandræði hjá steinhissa stjórnmálamönnum.
Þetta fyrirbæri hefur enst alveg fram á okkar tíma þegar holskefla af öldruðu fólki úr hinum stóru árgöngum fyrir 70 ár eru á fullri ferð við að breyta aldurssamsetningu landsmanna í það að fjórðungur þjóðarinnar verði viðfangsefni máttvana velferðarkerfis.
Það hefur tíðkast alveg fram á síðustu ár að ráðamenn vitni í krónutölur til sanninda um það að framlög til velferðarmálanna; sen heilbrigðiskerfið er hluti af þeim; hafi vaxið ár frá ári, þótt augljóst sé og hafi lengi verið, að þegar svona mikill hluti þjóðarinnar fer vaxandi, er fráleitt að miða við heildarkrónutölur, heldur að miða við raungildi og það framlag sem hvert hinna öldruðu krefst til að lifa yfir hungurmörkum.
![]() |
Ísland eitt efnaðasta land heimsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.5.2021 | 17:54
Hægt að setja hjólamarkið enn hærra.
Reynslan af rafvæðingu í borgarfarartækjum siðan 2015 hefur rutt svo mörgum fordómum og mótbárum að það ætti að vera hægt að setja markið jafnvel enn hærra en gert er með nýjustu áætlunum.
Af því að hjólaleiðirnar voru svo langar í upphafi urðu vegalengdin og ferðatíminn helsta ástæða upphafsmótbárunnar. Meðal vegalengdin reyndist vera 8-10 kílómetrar og tímatapið allt of mikið.
En þessi fyrsta og mesta mótbára féll á því, að hún sjálf reyndist vera stærsti kostur nýs rafknúins ferðamáta vegna þess að því lengri sem vegalengdin var, því meiri varð orkusparnaðurinn.
10 aurar á hverja 100 kílómetra voru 170 sinnum minni kostnaður en bensínkostnaður á sparneytnum bíl!
Rafreiðhjólið er með handgjöf sem eykur meðalhraðann án þess að farið sé yfir leyfileg hraðamörk.
Ferðatíminn hvora leið var að vísu 10-15 mínútum lengri að meðaltali á bíl þessa 8-10 kílómetra, en engin tími fór í það að leita að stæði.
Rekstrarkostnaðurinn var margfalt minni en á bíl. Hjólið kostaði um 450 þúsund krónur nýtt með auka rafhlöðu að viðbættum stígvélum með ökklavörn. Reksturs- og fjármagnskostnaður aðeins brot af kostnaði við rekstur bíls.
Dagar með vind yfir 20m/sek í hviðum eru miklu færri en búast hefði mátt við.
Ekki vika sem féll niður vegna veðuraðstæðna.
Til að brúa bilið sem lengst upp í bensínbíl og ná langleiðina í rafvæðingunni var bætt við rafknúnu léttbifhjóli, sem kostaði 300 þúsund krónur nýtt, með möguleika á 56 km/klst hámarkshraða, 130 km drægni og 65 lítra farangursrými.
Orkukostnaðurinn aðeins 30 aurar á hverja 100 kílómetra, 60 sinnum minni en á sparneytnum bensínbíl.
Slíkt hjól hefur að vísu ekki möguleika á hraðferð um landið á meðan það vantar skiptikassakerfi fyrir útskiptanlegu rafhlöðurnar, svo að í hópi þriggja hjóla er með 500 þúsund króna 125 cc vespulaga bensínhjóli hægt að fara allt að 800 kílómetra á dag í ferðum um landið fyrir aðeins einn þriðja af orkukostnaði sparneytins fólksbíls og broti af reksturskostnaði.
Smágati í samfellu hjólanna til að rafvæða samgöngurnar og víkja eldsneytisknúnum akstri á braut var lokað 2017 með ódýrasta og minnsta rafbíl landsins.
Hjólin tvö með vespulaginu eru jafnfljót í borgarumferðinni og bílar, það stærra alltaf fljótara, og bæði fljótari þegar umferðarteppurnar eru sem stærstar og verstar.
![]() |
Stefna á að 10% allra ferða verði á hjóli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.5.2021 | 00:22
Vonandi svipað og þegar önnur Boeing 727 þota bættist í flotann.
Boeing 727 þotur voru fyrstu þoturnar í notkun hjá Íslendingum. Þær reyndust einstaklega vel þótt ferill þeirra erlendis væri stráður mannskæðum slysum fyrstu tvö árin.
Brugðist var rösklega og markvisst við þessum slysum, sem byggðust að hluta til á svipuðu atriði varðandi Boeing 737 MAX hálfri öld síðar, það er, að flugmennirnir þurftu mikla og markvissa þjálfun í aðflugi og lendingu, vegna þess hve öflugur og nýstárlegur hægflugsbúinn vængurinn var.
Nú er svo að sjá að fáar flugvélar geti verið jafn þrautreyndar og vel endurbættar og Boeing 737 MAX og er ástæða til að óska Icelandair velfarnaðar með þær á þessum tímamótum.
Síðuhafi flaug fyrir tilviljun með MAX í síðasta flugi hennar fyrir kyrrsetningu og dáðist að þvi hve vel Boeing hefði tekist með úthugsaðri hönnun á innréttingu að láta vélina sýnast breiðari en hún raunverulega er. Einni einkar hljóðlát og þægileg.
Sumar af helstu tímamótaflugvélum fortíðarinnar þurftu á gagngerum endurbótum að halda eftir óhöpp í upphafi ferils síns, svo sem fyrsta farþegaþótan, De Havilland Comet, sem eftir tímamótarannsókn og eftirfylgni varð öruggur farkostur í meira lagi.
Stærðir, fyrirferð, þyngd og eyðsla flugvélahreyfla, ráða mestu um samsetningu flugflota heimsins hverju sinni. Á tímum 727 voru takmarkanir á flugi á tveggja hreyfla þotum yfir úthöf, sem ekki giltu um þriggja hreyfla vélar, auk þess sem þriggja hreyfla vélar hafa þann einfalda kost fram yfir tveggja hreyfla, að bili einn hreyfill í flugtaki, heldur vélin eftir 67 prósentum af vélaraflinu, en aðeins 50 prósentum ef annar af tveimur dettur út.
Nú er það þumalputtaregla að lágmarksvélarafl til að flugvél geti haldið hæð með hreyfil óvirkan er í kringum 45 prósent af samtals afli, þannig að svigrúmið er miklu meira á þriggja hreyfla vél en tveggja hreyfla vél.
Á tímum 727 var geta vélarinnar á stuttum brautum stór kostur og einnig hagkvæmni í eldsneytiseyðslu.
Það var vel til fundið um daginn að lenda MAX á Reykjavíkurflugvelli og setja hana í eitt stykki innanlandsflug, en þar að auki er lang stærsti kostur hennar minnsta mögulega eldsneytiseyðsla í þessum stærðarflokki.
![]() |
Nýjar MAX-vélar miklar gleðifréttir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.5.2021 | 15:12
Frankenstein einkenni í samfélagsmiðlum.
Í upphafi þessarar aldar bundu margir vonir við að gagnger bylting í upplýsingagjöf og tilsvarandi framför í lýðræði myndu fylgja upplýsingaöldinni, sem gengin væri í garð í krafti nýrra möguleika á dreifingu og þátttöku almennings um allan heim.
Þróunin, sem hefur orðið síðustu ári minnir hins vegar óþyrmilega á söguna á sköpun hins fullkomna manns í sögunni um Frankenstein.
Bara í dag má sjá tvær áberandi fréttir um nýjustu dæmin, þar sem algerlega uppskálduð hryllingssaga af dauða af blóðtappa vegna bólusetningar veður líkt og risasnjóflóð af völdum eins snjóbolta yfir samfélagsmiðlana, sem eru orðnir ríki í ríkinu.
Hin fréttin er af því hvernig reynt sé erlendis að fá "áhrifavalda" og þekkt fólk gegn borgun til að taka þátt í að ófrægja sérstaklega eitt bóluefnið.
Kraftur slíkra herferða byggist á veldisvexti í formi "læka" og deilinga.
![]() |
Þetta er fyrir neðan allar hellur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)