Færsluflokkur: Bloggar
18.3.2013 | 18:48
Myndin, sem blasir við öllum af Alþingi.
Margir eru hissa á því að traust almeninnings á Alþingi Íslendinga skuli rétt slefa yfir tveggja stafa prósenttölu og jafnvel stefna niður eins stafs pilsner- eða bjórtölur.
En þegar kveikt er á sjónvarpinu og fylgst með þingstörfum blasir við mynd, sem er sú eina sem sjónvarpsáhorfendur fá að sjá; nær tómur þingsalur með einn karl af öðrum í ræðustóli að halda uppi svonefndu málþófi klukkustundum og jafnvel dögum saman, sem viðgengst viku eftir viku og mánuð eftir mánuð á hverju þinginu af öðru ef svo ber undir.
Og versnar jafnvel eftir því sem nær dregur þinglokum og þörfin á að afgreiða mál vex.
Sífellt er talað um tímaskort og að hitt og þetta málið sé að falla á tíma en samt er jafnvel daglega eytt dýrmætum tíma í að ræða og rífast um fundarstjórn.
Kannski horfðu fleiri á útsendingu frá atkvæðagreiðslu um vantraust á ríkisstjórnina en venjulega og þá var boðið upp á drjúglanga umræða um vantraustið þar sem fjölmargir þurftu að láta í sér heyra og langflestir fluttu svipaðar ræður og fjöldi annarra og næsta fyrirsjáanlegt var hvað hver myndi segja.
Síðan hringdu loks bjöllur til merkis um að atkvæðagreiðslan væri að hefjast og mátti þá búast við að enn fleiri horfðu á útsendinguna.
En viti menn: Hófust þá ekki aftur ræðuhöld um vantraustið, en í þetta sinn dulbúin sem umræða um atkvæðagreiðsluna!
Margir hinir sömu og áður höfðu talað um vantraustið, komu nú aftur í pontu og fluttu aftur sömu töluna eða mjög svipaða og áður og engan veginn var að heyra að umræðuefnið né ræðurnar hefðu breyst hætishót.
Þegar síðan atkvæðagreiðslan hófst komu margir þessara ræðumanna í þriðja sinn í pontu til að flytja ræðu sína í þriðja sinn undir yfirskriftinni "þingmaður gerir grein fyrir atkvæði sínu."
Er furða þótt fólk, sem horfir upp þetta og svipað, sem sést í útsendingum frá "hinu háa Alþingi", fái lítið álit á þinginu og Alþingismönnum?
![]() |
Karlarnir halda uppi málþófi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.3.2013 | 15:45
Staðan hefur skýrst Sjallamegin.
Af tæknilegum ástæðum gat ég ekki tengt bloggpistil minn um stjórnarskrármálið við þessa frétt á mbl.is
Hann er hér næstur á undan og nú ætti tengingin að vera komin.
![]() |
Tundurskeyti Margrétar breytti stöðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.3.2013 | 15:24
Hanna Birna: "Gæluverkefni", sem má bíða í fjögur ár.
Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins var samþykkt viljayfirlýsing þess efnis að vinna að endurbótum á íslensku stjórnarskránni. Þetta var eðlileg samþykkt í ljósi þess að fyrir fjórum árum, í upphafi þess kjörtímabils, sem nú er að enda, var samþykkt einróma á Alþingi, 63-0 að hefja þetta verk þá.
Í sjónvarpsviðtali sagði Bjarni Benediktsson að ef það kæmi upp eftir kosningar að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort halda skuli viðræðum við ESB áfram, myndu Sjálfstæðismenn ekki setja sig upp á móti því né úrslitum slíkrar atkvæðagreiðslu.
En í viðtali við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í Silfri Egils í gær upplýsti hún, að helstu verkefni þeirrar ríkisstjórnar, sem Sjálfstæðisflokkurinn yrði yrðu skattalækkanir og skuldavandaaðgerðir sem yrðu framkvæmdar í áföngum, þ. e. skattar og skuldir yrðu "trappaðar niður" út kjörtímabilið.
Önnur verkefni yrðu að bíða á meðan, enda væru þau "gæluverkefni" svo sem stórnarskrármálið og þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort halda eigi viðræðum við ESB áfram.
Skýrara getur þetta ekki verið; þýðir ekki aðeins það að ýta framkvæmd samþykktar landsfundar Sjallanna varðandi stjórnarskrármálið á undan sér næstu fjögur árin, heldur í raun að koma í veg fyrir að þetta "gæluverkefni" verði á dagskrá.
Trampe greifi kom hreint fram 9. ágúst 1851 og drap gerð nýrrar stjórnarskrár með einum geringi hreint og beint. Forysta Sjálfstæðisflokksins ætlar í raun að gera það sama en láta það vera minna áberandi með því að draga það nógu mikið á langinn að útkoman verði hin sama og hjá hinum danska greifa.
Það er ágætt að Hanna Birna skyldi upplýsa betur um þetta mál í gær, þótt mér sýnist að fáir hafi tekið eftir því.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.3.2013 | 10:33
Svipað ástand og hjá okkur 2008.
Bankakerfið á Kýpur er að stærð sem nemur áttfaldri landsframleiðslu. Kannast einhverjir Íslendingar við þetta? Jú, þetta hljómar kunnuglega, en við heyrðum þessa tölu fyrst þremur vikum fyrir Hrun, og þá hafði íslenska bankakerfið í raun verið hrunið í tvö ár, en ástandinu leynt fyrir þjóðinni.
Hefði komið til greina 2008 að leggja drjúgan skatt á innistæður umfram tvær milljónir í íslenskum bönkum, en það hefði jafngilt að verðgildi tæpum fjórum milljónum nú ?
Nei, örugglega ekki. Vegna þess að þær stóru inneignir áttu helstu burðarásar þáverandi stjórnarflokka en heimili venjulegs fólks ekki.
![]() |
Umdeild skattlagning á sparnað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
17.3.2013 | 10:18
Forgangaröðun Bjarna: Að snerta ekki núverandi stjórnarskrá.
Á síðustu metrum kjörtímabilsins kemur forgangsröðun Bjarna Benediktssonar berlega í ljós.
Fyrir fjórum árum hófu hann og hans menn leikinn strax þegar stjórnarskrármálið komst á dagskrá að frumkvæði Framsóknarmanna með því að beita málþófi til að hindra að þáverandi þingmeirihluti gæti komið því til leiðar að skynsamlegasta fyrirkomulag málsins á þeim tímapunkti gæti náð fram að ganga.
Og nú höfum við endurtekninguna á hreinu: Það er forgangsmál hjá honum að hreyfa ekki við stjórnarskránni, ekki einu sinni að "kroppa í hana."
Ágætt að fá staðfestingu á því sem þó hefur legið fyrir í þau heilu fjögur ár sem Bjarni og hans menn hafa beitt öllum mögulegum brögðum til að stöðva málið: Óbreytt stjórnarskrá er forgangsmál hjá þeim.
![]() |
Lágmarksreisn fyrir þingið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.3.2013 | 22:03
Eini hluti bílsins, sem er í snertingu við móður jörð.
Ég á gamla bíla sem eru flestir lúnir og erfitt að halda þeim við. Margir eru í geymslu án númera, að því er virðist verðlausir. En eitt er þeim öllum sameiginlegt: Dekkin undir þeim eru góð og hafa forgang.
Ástæðan er einföld, og byggð á reynslu úr rallakstrinum. Dekkin eru númer eitt, þegar geta bílsins er annars vegar.
Margir gerðu þau mistök að byrja að bæta kraft og getu bílsins ofan frá og niður í gegnum driflínuna, en áttuðu sig á því vegna bilana, t. d. þegar vélaraflið braut gírkassann og síðar drifið, að það þurfti að gera þetta öfugt, byrja á dekkjunum og bæta síðan hlutina upp driflínuna og enda á vélinni.
Dekkin eru eini hluti bílsins sem snertir móður jörð og því skiptir engu hve miklum kostum bíllinn er búinn að öðru leyti; - ef dekkin eru léleg er allt í steik og bíllinn stundum beinlínis hættulegur. Svo einfalt er það.
![]() |
Dekk eru ekki bara dekk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.3.2013 | 16:50
Sérstaða meðal flugvalla. Skortir raunhæf gögn.
Hvergi í Evrópu er hlutfall íbúa landsins eins hátt á höfuðborgarsvæði viðkomandi ríkis og á Íslandi. Og hvergi gegnir flugvöllur við höfuðborg jafn miklu lykilhlutverki og hér.
Reykjavíkurflugvöllur er önnur endastöð allra áætlunarflugleiða á Íslandi. Af því leiðir að höfuðnauðsyn er að þessi mikilvæga og ómissandi endastöð þjóni hlutverki sínu sem best.
Notagildi hans hefur áhrif á not af öllum öðrum flugvöllum en ekki öfugt. Ég tek ákveðnum tölum um mismuninn á flugvelli og Hólmsheiði með miklum fyrirvara.
Í hálfrar aldar flugi mínu og annarra þeirra, sem lengst hafa flogið að og frá Reykjavíkurflugvelli, og út frá honum í allar áttir felst reynsla sem ekki er hægt að mæla á einstökum mælingarstöðvum á jörðu niðri.
Dæmi: Í algengasta aðfluginu, úr vestri inn á austur-vestur-brautina, mótast aðflugsskilyrði mjög af iðukasti og ókyrrð í lofti sem kemur frá Reykjanesfjallgarðinum og stendur vindurinn þá eftir atvikum yfir Vífilsfell, Bláfjöll eða Lönguhlíð.
Þetta iðukast getur valdið mikilli ókyrrð í aðfluginu, sem engin mælistöð á jörðu og heldur ekki þeir, sem horfa yfir svæðið af jörðu niðri getur greint eða séð.
Eina leiðin til að skoða þetta er að gera svona aðflug að báðum flugvöllum.
Hólmsheiðarflugvöllur yrði helmingi nær Vífilsfelli og Bláfjöllum heldur en núverandi flugvöllur og ókyrrðin og iðukastið að sama skapi miklu meira.
Flugstjórar í flugvélum í aðfluginu, yrðu að fást við að halda stjórn á flugvélunum á margra kílómetra aðflugskafla yfir þéttri byggð í Vogahverfinu og Ártúnshöfða. En á aðflugsleiðinni á núverandi flugvöll er flogið í mun minni ókyrrð yfir sjó. Og nógu erfitt samt.
Ég hef séð nefndda töluna 13 hnúta mismun á hviðum niðri við jörð, Hólmsheiði í óhag.
Þetta er ekkert smáræði og getur skipt sköpum þegar flugvélar eru komnar á lágan hraða í lágri hæð yfir þéttum íbúðahverfum í hinum algengu hvassviðrum á suðaustan á svæðinu vestan Hólmsheiðar.
Og það, sem verra er: Það þarf ekkert sérlega mikinn vind til að skapa erfið skilyrði.
Þar að auki er Hólmsheiði mun nær Esjunni, að ekki sé talað um Úlfarsfell, en núverandi flugvöllur og hæðin yfir sjó skapar verri skilyrði þar að auki.
Jóhannes heitinn Snorrason drap hugmynd um flugvallarstæði í Kapelluhrauni í einu flugi með þá, sem gældu við þetta flugvallarstæði.
Hann bauð þeim í flugtúr í suðaustanátt. Gerði fyrst aðflug að Reykjavíkurflugvelli og síðan sams konar aðflug að brautarstæði í Kapelluhrauni.
Skemmst er frá því að segja að farþegarnir þóttust heppnir að sleppa lifandi úr síðara fluginu, þegar þeir komu út úr flugvélinni fölir og bláir eftir þessa æluflugferð. Kannski er eina leiðin til að kanna gagnsemi flugvallar á Hólmsheiði að gera eitthvað svipað.
![]() |
Stríðsyfirlýsing við landsbyggðina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
15.3.2013 | 22:48
"Já", og málið dautt.
Í einni af tíufréttum Sjónvarpsins í gærkvöldi var sagt eitt orð, sem var allt í senn, það sem þessi frétt og fleiri fréttir undanfarna daga höfðu snúist um, og það sem aðilar fréttanna af dauða Lagarfljóts höfðu byggt allan sinn málarekstur á.
Orðið sagði forstjóri Landsvirkjunar: "Já." Það var svar við spurningu fréttamannsins um það hvort Landsvirkjun myndi bæta þeim landeigendum Lagarfljóts skaðann, sem þeir yrðu fyrir vegna áhrifa Kárahnjúkavirkjunar.
Jáið táknaði peninga, það sem málið hefur snúist um frá upphafi, eins fljóttekna peninga og unnt er að fá á hverjum tíma.
Það voru peningar í spilinu í upphafi þegar ákveðið var að beita aðeins varúðarreglu gagnvart virkjanahagsmunum en ekki varðandi náttúruna.
Miðað var við rennsli áranna 1965-1990 þegar stærð miðlunarlóns og virkjunar var ákveðin svo að öruggt væri að nóg vatn væri þótt það kæmu köld ár, vond vatnsár. Ég og fleiri bentum á að vísindamenn spáðu hlýnandi loftslagi og þess vegna væri hægt að komast af með minni vatnshæð í Kelduárlóni, svo að hinu fagra Folavatni yrði þyrmt .
Á það var ekki hlustað enda töldu helstu forkólfar virkjunar að kenningin um að útblástur gróðurhúsalofttegunda yllu hlýnun og væri tómt bull "öfgamanna" í umhverfismálum.
Peningar réðu þá og ráða hér enn ferðinni, skammtímagróðinn af því að bruðla sem mest með orkulindir jarðar og taka ekkert tillit til áhrifanna á lofthjúpinn.
Það hentaði líka að nota köldustu ár síðustu aldar sem forsendu fyrir áætlunum um rennsli og aurburð í stað þess að skoða hvað gæti gerst þegar loftslag hefði hlýnað.
Með því að nota köldu árin komu út lágmarkstölur varðandi hvort tveggja sem hægt var að byggja á þá niðurstöðu að áhrifin yrðu ekki þau, sem nú liggja fyrir.
Engu að síður taldi Skipulagsstofnun að áhrifin yrðu verulega mikil.
En þegar Siv sneri því niður í að áhrifin yrðu ekki mikil var það barið ofan í lýðinn fyrir austan að skilyrði Sivjar, eitt af hinum "20 ströngu skilyrðum" myndu breyta öllu.
Voru sum þeirra, svo sem dreifing rykbindiefna úr flugvélum og ákvæði um berggang sem sagður var í 3ja metra fjarlægð frá mannvirkjum en var í raun í 3ja kílómetra fjarlægð!
Ástandið fyrir austan var þannig á þessum tíma það kostaði að vera úthrópaður og nánast útskúfað úr samfélaginu að hafa nokkrar efasemdir.
Öllum mátti vera ljóst að "skilyrði" umhverfisráðherra voru máttlaus og að hlýnunin, sem var komin af stað, myndi valda mikilli rennslisaukningu og aukningu aurburðar.
Þess vegna virkaði upphlaup landeigendanna nú þannig, að ýmsir hafa áreiðanlega hugsað: Þeim var nær.
En jáið, peningarnir sem veifað var í gærkvöldi er þungamiðja málsins sem alla tíð hefur verið rekið þannig að lykilaðilar þess geti grætt á því.
Þegar ákveðið var að fara í virkjunina, hefðu þeir, sem það ákváðu, átt að ganga hreint til verks og upplýsa um það að afleiðingar hennar myndu þýða viðbótarkostnað, meðal annars vegna dauða lífríkis Lagarfljóts og landbrots við bakka þess.
En allt var gert, sem hægt var, til þess að leyna því hver kostnaðurinn gæti orðið og tekin vísvitandi hrikaleg áhætta varðandi borun ganga í gegnum mikið misgengi, sem forðast var að kanna á þeim forsendum að "við ætlum í gegn þarna hvort eð er." Sem hefði getað mistekist algerlega.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.3.2013 | 09:39
"...sem getur farið úrskeiðis..."
"Það er mannlegt að skjátlast" segir gamalt latneskt máltæki og um mannanna verk gildir það, að seint verða þau talin alfullkomin eins og orðtakið "lengi má gott bæta" ber vitni um.
Einfalt dæmi um ófullkomleika mannanna verka er sú staðreynd hve margir hæstaréttardómar eru kveðnir upp þar sem dómararnir eru ósammála og meirihluti þeirra ræður.
Þrátt fyrir fullkomnunaráráttu getur jafnvel sú árátta leitt menn í gildru, sem leiðir til ófara.
Þannig get ég nefnt nokkur dæmi um það úr flugi, að mistök hafi orðið afdrifarík, vegna þess að viðkomandi flugmenn gátu ekki ímyndað sér það að þeir gætu gert jafn einföld mistök og að ruglast á hægri og vinstri, tekið við fyrirmælum um flugstefnu og lokast inni í meinloku 100 gráðu skekkju, eða loka sjálfir fyrir eldsneytisflæði til hreyflanna án þess að átta sig á því, einmitt vegna þess að þannig mistök geti viðkomandi ekki gert.
Af því má draga þá ályktun að hættulegustu mistökin séu þau einföldustu, sem jafnvel börn láta ekki henda sig.
Flugstjóri breiðþotu var eitt sinn í Ameríku kominn í aðflug að hraðbraut í stað flugbrautar.
Sumir gallar eru þess eðlis að vitneskjan um orsakir þeirra voru ekki fyrir hendi þegar hluturinn var hannaður. Eitt magnaðasta dæmið um það eru þegar fullkomnustu og frábærustu farþegaflugvélar þess tíma, De Havilland Comet þotur Breta, fórust ein af annarri.
Með því að grandskoða flak einnar þeirra, sem fórst við eyjuna Elbu, kom endanlega í ljós að svonefnd málmþreyta í áli var orsökin, en fyrirbærið varð fyrst almennt þekkt í þessum slysum.
Þegar búið var að gera ráðstafanir sem komu í veg fyrir málmþreyfta ylli slysum, reyndust Comet-þoturnar með öruggustu farþegaþotum heims.
En nokkurra ára töf hafði rænt Breta forustunni í smíði farþegaþotna.
Erfitt er að sjá það fyrirfram hvaða nýjar gerðir flugvéla reynast öruggastar. Margir voru uggandi þegar fyrsta breiðþotan, hin risavaxna Boeing 747, kom á markaðinn, því að hún var meira en tvöfalt þyngri en stærstu farþegaþotur höfðu verið fram að því.
En þessar vélar áttu fyrir höndum einhvern farsælasta feril flugsögunnar og eru enn í fararbroddi.
Sumar flugvélar eru haldnar svo miklum "barnasjúkdómum" að óvíst er um framtíð þeirra. En eftir að gallarnir hafa verið fundnir og ráðin bót á þeim hafa vélarnar átt farsælan feril fyrir höndum.
Er vonandi að Dreamliner vélar Boeing séu í hóp þeirra.
Vickers Viscount skrúfuþoturnar voru tímamótaflugvélar jupp úr 1950, þegar Bretar höfðu forystuna á smíði þotna og skrúfuþotna.
Varasömustu gallar þeirra komu ekki strax í ljós og liðu meira en tíu ár þangað til þeir voru greindir og gerðar ráðstafanir til að finna bót á þeim.
Annars vegar var um að ræða ísingu á stélflötum við viss skilyrði, sem gerði vélina stjórnlausa, þegar hraði hennar minnkaði í aðflugi, en hins vegar hætta á að hreyflarnir hrykkju í nauðbeitingu þannig að þeir hættu skyndilega að knýja flugvélina áfram og unni á móti.
Þá höfðu þessir gallar kostað tugi mannslífa, meðal annars tólf manns, sem fórust með skrúfuþotunni Hrímfaxa við Osló 14. apríl 1963, eða fyrir réttri hálfri öld.
Menn neyðast til að sætta sig við ófullkomleika sinn allt frá vöggu til grafar og þekkt er lítil skrýtla um hina fullkomnu flugvél sem er á flugi þegar kallað er til farþegananna í kallkerfi vélarinnar:
"Stjórn þessarar flugvélar er algerlega sjálfvirk og sú fullkomnasta og öruggasta sem þekkist. Í þessari flugvél er ekkert sem getur farið úrskeiðis...getur farið úrskeiðis...getur farið úrskeiðis...getur farið úrskeiðis....."
![]() |
Dreamliner eru algjörlega öruggar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.3.2013 | 04:00
Nágrannar standa saman.
Aðeins 285 kílómetrar eru frá Hornströndum til Blossevillestrandarinnar á Grænlandi, 200 kílómetrum styttra en frá Íslandi til Færeyja.
Grænlendingar og Færeyingar eru næstu nágrannar okkar og okkur ber að rækta sem best samband okkar við þessar þjóðir og mun betur en við höfum gert til þessa.
Í Hruninu kom í ljós hverjir bestir vinir okkar voru. Það voru Færeyingar og því skulum við aldrei gleyma.
Það er dýrmætt að finna samstöðu og samhug þegar hún birtist hjá þessum þremur þjóðum við ysta haf.
![]() |
Snortinn yfir velvild Íslendinga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)