Færsluflokkur: Bloggar
14.3.2013 | 20:22
Besta fyrirkomulag flugvallarins útilokað.
Einskis jafnræðis hefur verið gætt við það að ákveða hvernig best væri að nýta það svæði, þar sem Reykjavíkurflugvöllur er núna.
Á sínum tíma var haldin samkeppni um það hvernig hægt væri að skipulegga svæðið þar sem Reykjavíkurflugvöllur er núna , ef hann yrði lagður niður.
Hins vegar var engin samkeppni haldin um það sérstaklega, hvernig hægt væri að haga skipulagi svæðisins sem best með því að hafa þar flugvöll áfram.
Einn möguleikinn var sá að leggja norður-suður-flugbrautina niður og gera i staðinn mun styttri braut sem hafði þann kost að liggja mitt á milli stefnu n-s-brautarinnar og sv-na-brautarinnar og sameina þar með kosti tveggja brauta.
Með þessu hefði losnað jafn mikið svæði handa íbúðabyggð og með því sem gerst hefur nú, en í staðinn fenginn besta fyrirkomulag flugvallarins með því að lengja austur-vesturbraut vallarins og gera hana að aðalbraut hans, enda stefnir hún best gagnvart algengustu hvassviðrunum og með lengingu hennar hefði hún aukið notagildi vallarins verulega til dæmis sem varavöllur fyrir millilandaflug.
Ókostur n-s-brautarinnar er sá að hún liggur ekki nógu þvert á stefnu austur-vestur-brautarinnar og hefur litla brautin bjargað í nokkra daga á ári þegar án hennar getur orðið ófært á veturna, þegar hvöss suðvestanátt ríkir.
Ný braut hefði lagfært þetta en auk þess hefði brottflug og aðflug yfir Kársnesið lagst af.
En hvað um það, eins og svo oft fara menn nú ódýrustu leiðina til skamms tíma litið en hyggja ekki að langtímahagsmunum.
![]() |
Ný 800 íbúða byggð í Skerjafirði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 15.3.2013 kl. 03:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
14.3.2013 | 11:41
Minnisvarði í Gjástykki ? Hlægilegir "geimórar!"
Ef einhver hefði spáð því 1953 að hugmyndir yrðu uppi um það á Íslandi eftir 60 ár að reisa minnisvarða um veru fyrstu tunglfaranna í Öskju árið 1967, hefði sá sem þessu spáði verið talinn fullkomlega genginn af göflunum, svo fjarlægt og fjarstæðukennt þótti þetta þá.
1953 þótti það fráleitt að aðeins fjórum árum síðar yrði fyrsta gervitunglið sent á loft til að fara umhverfis jörðina. Nokkrir sérvitringar með ástríðufullan áhuga pg þekkingu á geimnum héldu því að vísu fram að maðurinn myndi í framtíðinni fara í geimferðir, en yfirleitt ypptu flestir öxlum og fundu upp nýyrðið "geimórar" um fráleitar hugmyndir.
Nýyrðið var síðar notað um þá fáránlegu hugmynd að það yrði atvinnugrein á Íslandi að sigla með tugþúsundur erlendra ferðamanna til að skoða hvali. Nú, eða að selja aðgang að norðurljósunum.
Ef ég spái því nú að eftir 60 ár verði reistur minnisvarði í Gjástykki um veru fyrstu marsfaranna þar égar þeir voru að æfa sig fyrir geimferðir sínar verð ég talinn fullkomlega genginn af göflunum. Auðvitað verður aldrei farið til mars og því síður verðu reistur minnisvarði í Gjástykki um eitt eða neitt.
![]() |
Vísbendingar um vatn á Mars |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
14.3.2013 | 09:44
Hvaða fannkyngi og hvaða höfuðborg?
Frá blokkinni sem ég bý í, er furðu gott útsýni í allar áttir yfir Reykjavík. Sjá má að gránað hefur í rót þannig að grá snjóföl er yfir. Þetta blogg mitt er hins vegar tengt við frétt á mbl.is um að "snjó kyngi niður" í höfuðborginni.
Orðalagið að "snjó kyngi niður" og nafnorðið "fannkyngi" er notað um mjög mikla snjókomu. Það er bjart yfir að líta og ekki að sjá að nein úrkoma verði hér næstu klukkustundir að minnsta kosti.
Ef fólk vestan, norðan og austan af landi les þessa frétt myndi það skella upp úr ef þessi frétt um á við gránuðu grasrótina í Reykjavík og að þetta sé kallað að snjó kyngi niður eða að það sé að verða fannkyngi hér. En hvergi er nafn Reykjavíkur nefnt í fréttinni, svo að séð verði, svo að þessi frétt er kannski um mikla snjókomu í Osló eða Stokkhólmi.
Þessi snjóföl, sem ég giska á að sé um einn sentimetri á þykkt hið mesta, féll um tvöleytið í nótt.
Þess vegna vaknar tvær spurningar: Hvaða fannkyngi er þetta og í hvaða höfuðborg?
![]() |
Snjó kyngir niður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
13.3.2013 | 20:26
Hægt að fá Lagarfljót aftur eins og það var.
Kunnuglegt stef hljómar nú árum og áratugum saman varðandi virkjanir. "Ítarlegar rannsóknir", "ströng skilyrði", "endurnýjanleg og hrein orka" eru nefnd aftur og aftur. Við Þjórsá, Mývatn, Eldvörp, Krýsuvík o. s. frv.
En ævinlega eru virkjanirnar látnar njóta vafans en ekki náttúran.
Þegar Skipulagsstofnun hafnaði Kárahnjúkavirkjun á grundvelli stórfelldra, neikvæðra og óafturkræfra umhverfisáhrifa sagði forsætisráðherrann að "kontóristar úti í bæ" ættu ekki að ráða svona málum.
Og umhverfisráðherrann hlýddi og sneri úrskurðinum við og réttlætti það með því að sett hefðu verið "20 ströng skilyrði", og Skipulagsstofnun hlýddi með því að láta hina hræðilegu Villinganesvirkjun fljúga í gegn.
Í sjónvarpsviðtali í kvöld nefndi Siv Friðleifsdóttir ekki tölu skilyrðanna, enda ekki nema von, því að eitt þeirra var bull sem byggðist á prentvillu þess efnis að forðast yrði eins og kostur væri að framkvæmdirnar hefðu áhrif á svonefndan Tröllkonustíg, berggang, sem liggur á ská niður Valþjófsstaðafjall, sem væri í aðeins 3ja metra fjarlægð frá komandi mannvirkjum.
Hið rétta var og er að berggangurinn er í 3000 metra fjarlægð og "hið stranga skilyrði" því út í hött.
Eitt skilyrðið var að til að hamla leirfoki úr meira en 30 ferkílómetrum af lónsstæði Hálslón, sem eru þaktir nýjum fíngerðum leir þegar það er þurrt fyrri part sumars, yrði meðal annars dreift rykbindiefnum yfir svæðið úr flugvélum!
Miklir og óviðráðanlegir leirstormar koma úr lónsstæðinu á hverju sumri og enginn mannlegur máttur, ekki einu sinni lofther Bandaríkjamanna getur komið í veg fyrir þá.
Þetta var vitað fyrirfram eins og dauði lífríkisins í Hálslóni sem gögn lágu fyrir um að yrðu óhjákvæmilegar.
Í einni af heimildamynd Landsvirkjunar um virkjunina haft viðtal við bónda um breytinguna á fljótinu sem hann taldi verða til bóta, sérstaklega liturinn, sem minnti á fallega sólbrúna konu á sólarströnd !
Við engan annan var talað um þetta og því mátti ætla að menn eystra væru einróma ánægðir með breytinguna á fljótinu.
Því miður fylgdi spyrjandinn ekki eftir spurningunni með því að spyrja, hvort ekki mætti líka líkja litnum við þann lit sem bóndinn sæi áður en hann sturtaði niður eftir sig á klósettinu.
Í Klettafjöllum er fræg náttúruperla, Lovísuvatnið, mært í ferðamannabæklingum sem einsdæmi. Ég varð fyrir vonbrigðum þegar ég kom þangað, því að liturinn var svipaður og á Lagarfljótinu fyrir Kárahnjúkavirkjun og Lovísuvatnið ekkert sérstakt í augum Íslendings.
Dauði lífríkis í Lagarfljóti, breytt útlit þess og landbrot eru þó smámunir miðað við hervirkin, sem unnin voru á hálendi Austurlands.
Og einn stór fræðilegur munur er á umhverfisspjöllunum á hálendinu og spjöllunum í og við Lagarfljót, að hin síðarnefndu spjöllin eru afturkræf.
Einfaldlega með því að opna botnrás Kárahnjúkastíflu, sem er reyndar 80 metrum fyrir ofan botn þess, og láta Jökulsá á Dal renna aftur um farveg sinn í stað þess að renna austur í Jökulsá í Fljótsdal og Lagarfljóts.
Enn betra væri, ef síðustu forvöðin til þess að tæma Hálslón alveg væru notuð til að sprengja upp járnhliðin sem loka hjáleiðunum á botninum, sem notuð voru við gerð virkjunarinnar.
Ég segi síðustu forvöð, því að botninn fyllist mjög hratt af aur eins og sést á því að botnrásin skuli vera 80 metra fyrir ofan botninn svo að hún sé nothæf, þótt í þeirri hæð sé náttúrulega hlægilegt að tala um botnrás.
Ef eitthvað væri meint með því sem nú er sagt, að virkjunin hefði aldrei verið leyfð á sínum tíma ef menn hefðu vitað um deyðingu Lagarfljóts myndu menn auðvitað gera það sem þarf, til þess að fá Lagarfljót til baka í eðlilegt horf.
En auðvitað verður það ekki gert. Á sínum tíma voru þeir nánast ofsóttir sem "óvinir Austurlands" sem vildu benda á óþægilegar staðreyndir þessarar virkjunar. "Óvinur Austurlands númer eitt" var hrópað að mér þegar ég var þar á ferli.
Og að sjálfsögðu eru þeir áfram "óvinir Austurlands" sem dirfðust og dirfast enn að andæfa verstu mögulegu umhverfisspjöllum, sem möguleg eru á Íslandi.
![]() |
Ekki ætlunin að afvegaleiða fólk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
13.3.2013 | 10:44
Að fara vel með það sem okkur er fengið til vörslu.
Í íslensku er talað um það að vera "vel eða illa gefinn", að vera "gáfaður" eða "ógáfaður." Orðalagið lýsir raunsæi en er ekki tilefni til þess að fólki sé hampað eða það niðurlægt með því að nota þessi orð eins og virðist lenska. Enginn ræður því sjálfur hvað hann fær að gjöf við fæðingu til að spila úr á meðan hann lifir. Kristur orðaði þetta í setningunni: "Yfir litlu varstu trúr, - yfir mikið mun ég setja þig"
Við fáum að gjöf og til varðveislu hið jarðneska líf okkar, kosti okkar og galla. Við fáum líka að gjöf að geta átt þátt í því að gefa afkomendum okkar lífið, og fáum að gjöf möguleikana á hegðun okkar gagnvart kynslóðunum á undan okkur og þó sérstaklega þeim sem koma á eftir okkur.
Ef sú menning myndast í þjóðfélagi okkar að allir geti treyst því að eftir dauða þeirra sé talað um þá af sanngirni og þeirri virðingu, sem allt það á skilið sem lífsanda dregur, þá auðgar það líf hinna lifandi á hverjum tíma að geta átt von á slíkri hegðun eftirlifendanna gagnvart minningu hinna látnu.
Á sama hátt eru okkur falin verðmæti, sem við eigum ekki ein, heldur deilum þeim með afkömendum okkar og höfum í raun fengið að láni frá þeim,- erum vörslumenn þessara verðmæta.
Ef það er eitthvert embætti, sem þörf væri á að stofna á Íslandi, er það embætti umboðsmanns komandi kynslóða, kynslóðanna sem eru samanlagt svo margfalt fleiri en við, sem nú lifum, að hagsmunir þeirra hljóta að eiga að vega miklu þyngra en okkar.
En því miður skortir þessar milljónir ófæddra Íslendinga talsmenn meðal okkar og sanngirni okkar í þeirra garð. Ef sá skortur er sár og hegðun okkar bitnar illa á afkomendum okkar, er meiri hætta á því að þær sýni okkur ekki sanngirni og virðingu á móti.
Margir segja að þeim sé slétt sama. En þótt við viljum sýnast tilfiningaskert í þessu efni held ég að það er hvorki gott fyrir okkur né æskilegt í núinu að stuðla að misrétti og misklíð kynslóðanna til lengri tíma litið.
![]() |
Ég fer vel með lífið sem ég á |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.3.2013 | 00:36
Fjölbreytni tilræðanna einstök ?
Fróðlegt er að kynna sér öll þau ótrúlega mörgu of fjölbreyttu tilræði við Hitler sem menn bollalögðu.
Hann var hvergi óhultur, ekki einu sinni í Berghof, efrirlætisdvalarstað sínum Ölpunum.
Fljótlega kom hann sér upp einhverjum fjölmennasta lífverði allra tíma, alls þúsund mönnum.
Fyrir einskæra heppni slapp hann frá tilræðinu í bjórkjallaranum í Munchen 1938 og aftur þegar sprengja, sem átti að granda flugvél hans, klikkaði.
Enn var hann hreint ótrúlega heppinn að lifa af sprenginguna í Úlfshreiðrinu í Rastenbor í Austur-Prússlandi í ágúst 1944.
En hefði það einhverju breytt þótt hann hefði verið drepinn þar eða í bjórkjallaranum?
Líklega var Heinrich Himmler enn meira illmenni en Hitler og ekki var Göring neinn kórdrengur.
Báðir þessir menn brugðust Hitler í lokin, þegar þeir voru svo barnalegir að halda, að hægt væri að semja sérfrið við Vesturveldin. Það sýnir firringu þeirra og einnig það að stríðið hefði varla orðið styttra þótt þeir hefðu verið við stjórnvölinn síðustu mánuði stríðsins.
Eitt atriði er hins vegar erfitt að meta, en það er hvort hollusta hermanna við Göring eða Himmler hefði verið eins mikil og við Hitler. Allir hermenn urðu að sverja afar áhrifamikinn hollustueið við foryngjann, sem var gert við svo tilkomumikla athöfn, að það sat í þeim.
Þetta nýtti Hitler sér út í æsar allt til enda.
Ef hann hefði verið drepinn í bjórkjallaranum 1938 er spurning, hvort stríðið hefði farið öðruvísi.
Á árunum fram til 1941 tók Hitler hvað eftir annað svo mikla áhættu með ákvörðunum sínum, að herforingjar hans voru afar tregir til að fallast á þær og brugguðu meira að segja launráð og samsæri sem öll runnu út í sandinn vegna hins gríðarlega sefjunarmáttar, sem Hitler bjó yfir.
Þegar sigur hafði unnist á Frakklandi á nokkrum vikum í krafti fífldjarfrar og tvísýnnar sóknaráætlunar og Hitler notaði nokkrar vikur til að baða sig í sigurljómanum, hafði einn af herforingum hans á orði að hann væri einhver mesti hernaðarsnillingur sögunnar.
Eftir það voru allar varnir horfnar af þeirra hálfu gagnvart uppátækjum Foringjans, svo gersamlega, að engu virtist skipta þótt flestar stærstu ákvarðanir hans frá og með innrásinni í Sovétríkin væru kolrangar.
Við vitum ekki enn hvort fjölbreytni og fjöldi hugmynda um tilræði við Hitler vor þau mestu í sögunni. Enn hefur hulunni til dæmis ekki verið svipt af öllum tilræðunum, sem menn létu sér detta í hug varðandi það að drepa Kastró.
![]() |
Maðurinn sem reyndi að myrða Hitler er látinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
12.3.2013 | 00:19
"Nýja stjórnarskrá!"
Stundum þarf að hafa hraðar hendur til að gera hlutina, áður en það er orðið of seint.
Það á við það viðfangsefni Alþingis sem verktaka að klára stjórnarskrármálið, sem verkbeiðandinn, 2/3 hlutar í þjóðaratkvæðagreiðslu, fól henni að klára. Og valdið á að vera hjá þjóðinni, eða er það ekki?
Þá þarf líka hvatningu til verktakans og í gær var byrjað á að taka upp rapplagið "Nýja stjórnarskrá!" sem flutt verður af áhugafólki af ýmsum toga.
Enginn undirleikur verður með hljóðfærum heldur notuð venjuleg búsáhöld, bakraddir og nýstárleg búkhljóð, svo sem taktur, sem myndaður er af vörum og munnholi höfundar og hefur líklega ekki heyrst áður á upptöku. Læt hér fylgja með þennan rapptexta:
NÝJA STJÓRNARSKRÁ!
Jón Sigurðsson og Fjölnismenn, þeir fóru af stað
svo í frelsismálum okkar yrði brotið blað.
Stjórnlagaþing að semja stjórnarskrá
var stofnað með pompi og pragt, ó, já !
Þingið hlaut nafnið Þjóðfundur
en þegar sem hæst sá stóð fundur
sleit Trampe greifi´honum með gerræði
en gervalllur Þjóðfundurinn hrópaði:
Vér mótmælum allir ! Vér mótmælum allir !
Við viljum stjórnarskrá! Við viljum stjórnarskrá !
Hundrað og sextíu árum síðar varð hrun
með sjóðandi reiði, sem fór hér á brun.
Þá varð bylting, sem kennd var við búsáhöld
og var beint gegn spillingu, sem haft hafði völd.
Eitt af því helsta sem var uppi þá
var alveg ný, heildstæð og góð stjórnarskrá
og líkt og á Þjóðfundinum átján fimmtíu´og eitt
ómaði herópið, einfalt og beitt:
Við viljum stjórnarskrá! Nýja stjórnarskrá!
Við viljum stjórnarskrá! Nýja stjórnarskrá !
Í þjóðaratkvæðagreiðslu síðan gerðist það
að góður meirihluti ákvað að
Alþingi lyki við það einfalda verk
að afgreiða stjórnlögin, vönduð og merk.
Og af því að vilji er allt, sem þarf
á ekki að líðast að tefja það starf
en gera´þetta´án tafar, án gremju´eða háðs
á grundvelli frumvarps stjórnlagaráðs.
Við viljum stjórnarskrá! Nýja stjórnarskrá!
Við viljum stjórnarskrá ! Nýja stjórnarskrá !
Á þjóðfundinum forðum var viljinn mjög skýr,
sá vilji, sem í frjálshuga þjóðum býr.
Í atkvæðum þjóðar í október hér
var afgerandi vilji sem að hlíta ber!
Við spyrjum þjóna almennings, Alþingismenn:
Er andi Trampe greifa á sveimi enn ?
og þess vegna við berjum aftur búsáhöld
til að benda á að þjóðarinnar skulu öll völd.
Við viljum stjórnarskrá ! Nýja stjórnarskrá !
Við viljum stjórnarskrá ! Nýja stjórnarskrá !
![]() |
Tillaga um vantraust felld á þingi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (39)
11.3.2013 | 21:34
Hvað næst? Að banna feitar stórsteikur og stór páskaegg?
Ég tek undir það að stór hluti af vandamáli ofneyslu og offitu stafar af stórum skömmtum af mat og drykk, sem bornir eru fyrir fólk og hvetur það til að klára, þótt það hafi ekki þörf fyrir það.
En vafasamt er að rétt sé að banna þetta, heldur að krefjast þess af veitinguastöðunum að fólk geti fengið keypta minni skammta fyrir eitthvað lægra verð.
Tæplega hálfs lítra flaska af sykruðum gosdrykk inniheldur um 220 hitaeiningar, en 200 gramma páskaegg inniheldur 600 hitaeiningar og 80 grömm af hreinni fitu.
![]() |
Stöðvaði gildistöku laga um gosdrykki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
11.3.2013 | 20:47
Gömul afskiptasaga og ný.
Það er meira en aldar gamalt fyrirbæri í fjölmiðlun á Íslandi að utanaðkomandi öfl, bæði stjórnmálaleg of fjárhagsleg, hafi reynt að hafa áhrif á vinnubrögð í blaðamennsku.
Stundum hefur þetta verið grátbroslegt svo alvarlegt sem það þó er. Það var til dæmis broslegt þegar ég var eini íþróttafréttamaður Sjónvarpsins með Bjarna Fel sem ígripamann varðandi ensku knattspyrnuna og síðar ómetanlegan vin og samstarfsmann til að hlaupa í skarðið þegar ég var "sjanghæjaður" í almennar fréttir og dagskrárgerð, að á fyrsta ári mínu var allt með friði og spekt með þetta.
Þetta varð broslegt vegna þess, að þegar stjórnarskipti urðu 1971 breyttist þetta skyndilega.
Þá áttaði maður sig á því hverjar ástæður gætu verið fyrir því að meirihluti útvarpsráðs hafði látið sér íþróttafréttirnar litlu skipta fram að því.
Ég var að vísu óflokksbundinn og gaf aldrei upp neinar stjórnmálaskoðanir heldur tók stjórnmálamennina miskunnarlaust fyrir í gamanmálum mínum, einkum helstu ráðamennina.
En vitað var að foreldrar mínir störfuðu af krafti í Sjálfstæðisflokknum, konan mín var félagi í flokknum og að ég hafði skemmt á öllu landsfundum flokksins í meira en áratug og í mörg ár á héraðsmótum hans.
Og Bjarni Fel var jú eðal KR-ingur og suma munaði lítið um að spyrða hann við Vesturbæjaríhaldið.
Það virtist fyrir suma liggja nokkuð beint við að ekki þyrfti að hafa áhyggjur af okkur, svo "innmúraðir" og "innvígðir" sem við virtumst vera.
En þegar nýr meirihluti varð til í útvarpsráði komst hreyfing á hlutina.
Þeir, sem áður höfðu gagnrýnt gamla meirihlutann harðlega fyrir pólitísk afskipti, og stundum haft mikið til síns máls, hófu nú af miklum dugnaði að láta að sér kveða í afskiptum af íþróttunum.
Og fyrr en varði var það komið á dagskrá að svonefndar "keppnisíþróttir" væru ekki æskilegar sem sjónvarpsefni og að breyta skyldi umfjölluninni gagngert í þágu svonefndar "almenningsíþrótta."
Rétt eins og að vinsælasta íþróttagrein heimsins, knattspyrna, væri ekki almeningsíþrótta.
Og allt í einu var það nú orðið mikilvægt að fjölga mönnum í íþróttaumfjölluninni og fyrr en varði var komin þarna inn doktor Ingimar Jónsson, sem fyrir einskæða tilviljun hafði verið við nám í Austur-Þýskalandi.
Frá 1971 til 1983 voru mestan part vinstri stjórnir þótt árin 1974 - 1978 væru undantekning. Og Ingimar var ekki einn um það að koma þarna inn í íþróttirnar á þessu tímabili, því að Steingrímur J. Sigfússon kom þarna inn á vinstra tímabili og var fyrir einskæra tilviljun sá mikli vinstrimaður sem hann hefur verið síðan!
Þetta voru sem betur fer báðir miklir heiðursmenn, Steingrímur J. Sigfússon og doktor Ingimar Jónsson og kynni mín af þeim og Bjarna Fel voru einkar ánægjuleg.
Ég fékk hvatningu úr óvæntri átt 1971 þess efnis að láta ekki valta yfir ensku knattspyrnuna og keppnisíþróttirnar og hefur alltaf þótt vænt um það innlegg.
Það var Magnús Kjartansson, ráðherra og fyrrum ritstjóri Þjóðviljans, sem hvatti mig til þess að láta ekki undan þrýstingi heldur fara eftir bestu vitund og sannfæringu. Og hann hvíslaði að mér: "Ég er nefnilega forfallinn aðdáandi ensku knattspyrnunnar og má ekki til þess hugsa að missa af henni."
Þetta er bara eitt lítið dæmi og hægt að nefna þau mörg, bæði hjá vinstri og hægri mönnum í gegnum tíðina, og svo jafnræðis sé gætt mætti nefna "fréttastjóramálið" 2005 sem dæmi um aðgerðir á hinum vængnum.
Rökstuðningurinn fyrir því hvernig nýir og nýir meirihlutar voru að skipta sér af málum var hinn sami á báða bóga:
Menn sögðu: "Við neyðumst til að koma "okkar fólki" til þess að "hinir" misnoti sér ekki aðstöðu sína til að koma sínu fólki að!
Við verðum að hafa inni fólk á okkar vegum til að tryggja óhlutdrægni. Ef við gerum það ekki er hætta á að fólk frá "hinum" beiti hlutdrægni og misnoti aðstöðu sína"!
Og af því að vinstri stjórnir voru færri og ríktu skemur samtals en hinar, einkum Viðreisnarstjórnin, virtist þeim liggja meira á að koma sínu fólki og viðhorfum að, af því að "hinir" væru búnir að misnota aðstöðu sína svo lengi og að það þyrfti að jafna leikinn !
![]() |
Segir frá afskiptum Jóns Ásgeirs af fréttaflutningi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.3.2013 | 15:02
Nægur tími.
Vorið 2009 sat Alþingi að störfum þangað til viku fyrir kosningarnar 25. apríl og þing var ekki rofið fyrr en á kjördegi. Bæði þá og nú þurfti að afgreiða stórmál og jafnvel enn frekar nú en þá.
Stjórnarskrármálið hófst fyrir rúmum fjórum árum fyrir kosningarnar þá og þá strax hófu Sjálfstæðismenn málþóf sem tafði það og kom í veg fyrir að hægt fara þá leið sem skilaði því best áfram.
Í fjögur ár hefur sömu aðferð og öðrum svipuðum verið beitt linnulítið til þess að tefja fyrir málinu þangað til þannig væri komið að það væri fallið á tíma, eins og nú er haldið fram.
Þó hefur líklega ekkert mál fengið jafn merkilega, ítarlega og vandaða meðferð og nýja stjórnarskráin og það er ekkert að vanbúnaði hjá þinginu að afgreiða málið fyrir kosningar, éf raunverulegur vilji er fyrir því að virða úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar um stjórnarskrána.
![]() |
Valgerður: Mér er ómögulegt að þegja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)