Færsluflokkur: Bloggar
10.3.2013 | 22:18
Enn að mestu eins og í þróunarlöndum.
Það hefur verið reiknað út að virðisaukinn af álframleiðslunni á Íslandi sé næstum þrisvar minni en hjá sjávarútvegi og ferðaþjónustu.
Ástæðurnar fyrir þessu eru aðallega þær að mestallur hagnaðurinn af álframleiðsunni rennur beint til útlendinga og hagnaður okkar er, líkt og í þróunarlöndunum, fólginn í að selja vinnuafl og ódýrt rafmagn.
Hráefnið er líka flutt hingað um þveran hnöttinn en hráefni sjávarútvegsins sprettur að mestu úr sjávarauðlindinni í kringum landið, sem við eigum sjálf.
Þegar fyrsta álverið var reist í Straumsvík var ég eindregið fylgjandi því og stækkunum þess af ýmsum ástæðum.
Það var dýrara að halda áfram að virkja í smáum virkjunum fyrir venjulegar innanlandsþarfir, við fengum loks erlendan fjárfestingu inn í landið og of áhættusamt væri að hafa nær öll egg útflutningsins í einni körfu, körfu sjávarútvegsins.
Það "verður að renna fleiri stoðum undir hagkerfið" var sagt og ég og fleiri, við keyptum það.
Því var líka haldið fram að í tengslum við álframleiðsluna myndi spretta upp enn verðmætari framleiðsla, framleiðsla iðnaðarvara af ýmsum toga úr áli, sem væri alengt í ótal iðnaðarvörum svo sem álpappír, þakplötum úr áli o. s. frv.
Þau 43 ár, sem liðið hafa síðan fyrsta álverið hóf starfsemi, hafa hins vegar sýnt, að þetta hefur ekki ræst og það liggur beinast við að álykta að trú okkar á þessar fullyrðingar hafi verið barnalegar.
Ástæðan er sú að svonefnd "hagkvæmni stærðarinnar" er lögmál, sem erfitt er að komast fram hjá. ´
Lítið dæmi sýndi mér þetta í hnotskurn í fyrra. Þá hitti ég mann sem var að láta setja þakplötur úr áli á stórt hús. ´
Ég spurði hann hvort honum þætti það ekki blóðugt að þurfa að kaupa þessar þakplötur um langan veg frá öðrum löndum.
Hann sagði að sér hefði fundist það og spurt þann, sem seldi honum plöturnar, af hverju þær væru ekki framleiddar hér á landi.
Svar álplötusalans var einfalt: "Verksmiðjan, sem við kaupum þetta frá, framleiðir meira magn af þakplötum úr áli á einum degi en notuð éru í heilt ár á Íslandi. Við gætum ekki orðið samkeppnisfærir við að keppa við svo hagkvæma framleiðslu, enda eru hér gjaldeyrishöft og veik króna sem fælir alla fjárfesta frá."
Erlendir fjárfestar þurfa ekki annað en að kynna sér verðbólgutölur hér á landi til að sjá, að raungildi krónunnar fellur stöðugt. Nú síðast eru fjárfestar í hóteli við Hörpuna að fælast frá af þessum sökum.
Forstjóri Landsvirkjunar segir að erlendir fjárfestar segi, að þeir verði að bíða þangað til "sjáist til sólar" varðandi efnahagskreppuna sem ríkir í Evrópu og Ameríku.
Í sjónvarpsviðtali fyrir viku færði Friðrik Sigurðsson að því rök að hvað þessi mál snerti væri Ísland "Kúba norðurins" í samanburði við önnur lönd í okkar heimshluta. Það er talsvert til í því.
![]() |
Áliðnaðurinn enn óþróaður hérlendis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.3.2013 | 20:08
Þetta hefur gerst áður. "Ég drep þig, helvítið þitt!"
'Óhugnanleg er hún, fréttin um tilefnislausa árás manns á annan mann í umferðinni.
En það hefur áður gerst að bíl hefur verið veitt eftirför á öðrum bíl, sem hefur stoppað fyrir framan bílinn, sem eltur var, maður stigið út úr eftirfararbílnum með andlit afmyndað af bræði, vaðið framan að bílnum, sem var fyrir aftan, öskrandi með steyttan hnefa: "Ég drep þig, helvítið þitt!"
Síðan fylgt því eftir með því að slá með krepptum hnefa í gegnum hliðarrúðu bílsins, svo að hún brotnaði og glerbrotin sáldruðust um allan bíl.
Um þetta get ég vitnað, því að ég varð fyrir svona árás fyrir nokkrum árum. Þá áttu fáir, þeirra á meðal ég, von á því að svona gæti gerst hér á landi, en nú sést, að þetta er blákaldur raunveruleiki í þjóðlífi okkar.
Það er óhugnanlegt að upplifa svona og sýnir, að á "Íslandi í dag"enginn er neins staðar óhultur fyrir svona mönnum.
![]() |
Veitt eftirför og sleginn í andlit |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.3.2013 | 11:45
Aðvörunarorð vegna gamla Hilux/4Runner.
Frá árinu 1993 hef ég lengst af ekið einhverri Toyota bifreið af gerðunum Hilux eða 4Runner.
Fyrst var það Toyota Hilux á 38 tommum sem Stöð 2 átti.
Síðan voru það sams konar bílar sem ég notaði við kvikmyndagerð til ársins 2004.
Frá 2006 hef ég átt Toyota Hilux árgerð 1989 á 35 tommum til að draga bátinn Örkina.
Frá 2011 hefur 4Runner´92 á 38 tommu dekkjum verið í minni eigu. Það átti aðeins að vara í nokkra mánuði til að fara á jökla ef bjóða þurfti fleirum með í sæmilegum þægindum.
En þegar ég ætlaði að selja bílinn, var honum stolið af bílasölunni og skemmdur svo mikið að ekkert var hægt að frá fyrir hann.
Hann er nú flugvallarbíll á Sauðárflugvelli á Brúaröræfum.
Það er ekki að ástæðulausu að gamlir Hilux jeppar hafa verið í námunda við mig í 20 ár. Frá komu Hilux til landsins hefur hann verið einhver besti jeppi, sem komið hefur á markað hér á landi hvað snertir þau not Íslendinga á jeppum, sem algengust eru.
Enginn bíll er samt án veikra bletta og ég vil nefna þrjá galla á gömlu Hilux/4Runner bílunum, sem eru í grunninn sami bíllinn.
Hinn fyrstnefndi er að í sumum þessara gömlu bíla vill setjast ryð í grindurnar rétt aftan við afturöxul. Hinir tveir síðari tveir eru lúmskari, varasamari og geta jafnvel valdið stórslysi.
Upphaflega var Toyota Hilux léttur tveggja manna pallbíll, innan við 1400 kíló.
Síðan var farið að stækka bílinn, en tveggja sæta Hiluxinn minn er þó aðeins 1620 kíló og því nothæfur jöklabíll á 35 tommu dekkjum.
En þegar þessi bílar voru orðnir lengri og breyttir fyrir 38 tommu dekk voru þeir að nálgast tvö tonn en stýrisbúnaðurinn eftir sem áður hannaður fyrir miklu léttari bíl.
Þar að auki breytist átakið á stýrisbúnaðinum við að setja breiðari felgur undir bílinn sem færa átaksmiðju framhjólanna út á við.
Út í vinstra framhjól gengur stýrisarmur, sem er meðal Hilux eigenda kallaður hrútshorn.
Ef þessir bílar koma harkalega niður eða þegar framhjólin fá högg á sig á ská, bognar þetta hrútshorn oft og bíllinn stýrir rammskakkt að framan.
Verra er þó, að komið getur fyrir að hrútshornið brotni og þá verður bíllinn gersamlega stjórnlaus.
Ég varð fyrst var við þetta þegar það gerðist eitt sinn á ferð í snjóblindu að bíllinn lenti á hörðum skafrenningsskafli, tókst á loft og kom harkalega niður.
Við þetta skekktist stýrið og stillingin á framhjólunum líka. Þegar ég kom í bæinn var skipt um "hrútshornið".
Annar galli er á vökvastýrisbúnaðinum og hann er sá, að hann er ekki hannaður til að afkasta þeim miklu átökum, sem geta orðið á stórbreyttum og þyngri bílum þegar bílstjórinn verður að rífa mjög hart i stýrið og snúa því hratt.
Þá getur myndast nokkurs konar stífla í vökvaganginum þannig að skyndilega verður stýrið pikkfast, svo að það getur valdið vandræðum, vegna þess að bíllinn verður margfalt þyngri í stýri en ef ekkert vökvakerfi væri.
Þetta stendur að vísu ekki yfir nema örstutta stund en getur samt skapað stórhættu.
Eitt sinn var ég næstum búinn að aka yfir Friðþjóf Helgason kvikmyndatökumann þar sem hann hafði grúft sig niður í vegarbrún í krappri beygju á gamla Kambaveginum til að ná góðu skoti af því þegar ég svipti bílnum í gegnum beygjuna. Stýrið festist augnablik þegar ég ætlaði að rétta bílinn snöggt af og litlu munaði að illa færi og ég æki yfir Friðþjóf.
Í kjölfar þessa lét ég lagfæra þetta með breytingu, sem jók vökvaflæðið, en best er að skipta stýrisvélinni út fyrir stýrisvél úr stærri bíl.
Nefna má enn einn galla, sem er sá, að átak á hjólalegum að aftan verður skakkt svo að þær endast miklu skemur en ella. Á Hilux jeppa, sem ég ók á árunum 1995-2003 ofhitnaði önnur hjólalegan á versta stað, miðri leiðinni milli Hólmavíkur og Ísafjarðar þannig að nokkuð lengi var ekið löturhægt á ofhitnaðri legu.
Skipt var um leguna á Ísafirði, en í næstu ferð gerðist það við Staðarskála í Hrútafirði, að skyndilega losnaði afturhjólið af bílnum, þar sem legan hafði verið og fór reyndar framúr mér á keyrslunni!
Ég var mjög heppinn að þetta stóra 38 tommu hjól skyldi hafa losnað á beinum vegi og ekki farið utan í brettið eða í veg fyrir annan bíl.
Þá kom í ljós að öxullinn þarna megin hafði ofhitnað með legunni í Ísafjarðardjúpinu, en þessir driföxlar eru hertir með forhitun áður en þeir eru settir í bílana og þola ekki að ofhitna að nýju.
Uppgötvaðist þar sem hliðstætt atvik í Húsavikurrallinu 1984 þegar öxull brotnaði á Toyota Corolla keppnisbíl míns og Jóns bróður, og við féllum úr leik.
Fyrr um sumarið hafði þessi öxull ofhitnað vegna gríðarlegrar hemlunar á leið niður Brattabrekku í eina skiptið sem keppt var á þeirri leið.
Í öllum akstri á breyttum bílum verður að haga akstrinum þannig að taka tillit til breytinganna á þeim, einkum þeim sem gerðar voru á sokkabandsárum þessara breytinga.
![]() |
Enn stökkva Íslendingar á bílum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
9.3.2013 | 19:09
Hverjir eiga að vinna fyrir hverja?
Alþingi er verktaki, sem verkbeiðandinn, íslenskir kjósendur, kaus 2009 til þess að vinna ákveðin verk.
Eitt þessara verka var að sjá til þess að landið fengi nýja, heildstæða stjórnarskrá.

Til þess hafði þingið fjögur ár.
Það er því klökkt að það sé tilefni til almennra funda eins og var á Ingólfstorgi í dag, að krefjast þess að þingið standi við samning sinn og skyldur við þá, sem þá á að vinna fyrir.
Þegar frumvarp stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá hafði legið fyrir í 15 mánuði, hinn 20. október síðastliðinn, leitaði verktakinn til verkbeiðandans um það, hvort leggja ætti frumvarp stjórnlagaráðs til grundvallar nýrri stjórnarskrá og fékk afgerandi svar, 67% gegn 33%.
Nú eru liðnir 20 mánuðir eða hátt í tvö ár síðan þetta frumvarp var lagt fram og eftir ítarlegan feril málsins með víðtækasta og opnasta athugasemdaferli allan tímann, sem um getur, tveimur Þjóðfundum, stjórnarskrárnefnd og stjórnlagaráði, auk umfjöllunar á Alþingi liggur frumvarp fyrir sem uppfyllir óskir verkbeiðandans.

Það er fráleitt að segja nú að málið sé fallið á tíma og að slíta verði þinginu næstkomandi föstudag.
Ekkert í stjórnarskránni skyldar þingið til þess að hætta störfum í miðjum mars.
Fyrir kosningarnar 2009 sat þingið mánuði lengur.
Það hefur ekki gerst nema í örfá skipti á síðustu 100 árum að haldnar hafa verið þjóðaratkvæðagreiðslur og hefur hingað til ekki verið borið á móti þýðingu þeirra og gildi, þótt þátttaka hafi oftast verið minni í í þjóðaratkvæðagreiðslunni síðastliðið haust.
Í öll skiptin hefur verktakinn, Alþingi, lokið verkinu í samræmi við vilja verkbeiðandans.
En nú bregður svo við minnihluti þingsins ætlar sér ekki einasta að tefja málið og eyða því á þessu þingi, heldur hafa talsmenn þessara flokka lýst því yfir að þeir muni ekki heldur fara á næsta kjörtímabili að vilja verkbeiðanda síns, þjóðarinnar, sem allt vald á að vera sprottið frá.
Og ekki er heldur gæfulegt þegar þeir 32 þingmenn, sem hafa meirihluta í þinginu, ætla að láta undan fyrir þeim, sem ætla að gefa skít í þau fyrirmæli, sem verkbeiðandi þeirra hefur gefið þeim.
Lúðvík Geirsson, Valgerður Bjarnadóttir og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir voru meðal þeirra sem "stóðu í lappirnar" á fjölmennum fundi um stjórnarskrármálið á Ingólfstorgi í dag þar sem þess var krafist að Alþingi lyki verki sínu í samræmi við vilja verkbeiðanda síns.
Fyrir hálfum mánuði flutti Ólína Þorvarðardóttir skörulega ræðu á sama stað og hún og Skúli Helgason voru ómyrk í máli á þingi í morgun. Fleiri þingmenn eru á sömu skoðun.
Það verður fróðlegt að sjá hverju fram vindur í þessu máli í vikunni, sem er að hefjast.
![]() |
Lúðvík sagði sig frá málinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
9.3.2013 | 13:29
Fínar ábendingar Ágústu. Einni bætt við.
Ágústa Johnson vinnur þarft verk með því að miðla okkur af þekkingu sinni á sérsviði sínu. Í flestum af þeim atriðum sem hún bendir á, gera ég og aðrir mistök í glímunni við aukakílóin.
Þó ætla ég að gera eina athugasemd, eina ábendingu, varðandi það sem hún segir um það að "einhæfar æfingar" geti verið varasamar af því að líkaminn læri brátt á það að gera þær þannig að hann sleppi billega við þær.
Ég tek sem dæmi um undantekningu frá þessu æfingu sem ég hef stundað í mismunandi formi síðan ég byrjaði að fá áhuga á hlaupum fyrir meira en 60 árum, en það er einfaldlega að hlaupa í minnst 20 sekúndur í kapp við klukkuna og reyna í hvert sinn að setja nýtt "met."
Þetta samsvarar keppni í 200, 300 og 400 metra hlaupum.
Eftir að læknar bönnuðu mér að hlaupa vegna þriggja uppskurða á lélegum hnjám en gleyndu að banna mér að "læðast hratt," hafa stigahlaup verið aðferð mín við svona æfingar.
Stigahlaup, upp á við að sjálfsögðu, hlífa hnjánum við höggunum sem þau verða fyrir þegar lent er eftir hvert skref í láréttu hlaupi og upp brattan stiga er þetta einfaldlega hratt klifur.
Enda hafa hnén staðist þessi stigahlaup, en stóðust ekki venjuleg hlaup eftir árið 2006.
Fram yfir sextugt fólust stigahlaupæfingarnar í jafngildi þess að hlaupa frá 1. hæð upp á 14. hæð í blokkinni að Sólheimum 27 undir 60 sekúndum og komast sem næst 50 sekúndum.
Síðustu árin felast þær í að hlaupa frá kjalla Útvarpshússins upp á 5. hæð á minna en 30 sekúndum og gera þetta með hæfilegu millibili þrisvar til fjórum sinnum á hverri 45 mínútna æfingu innan um aðrar æfingar þar sem líkaminn gæti kannski "svindlað" svolítið á.
Með skeiðklukku í hönd er ekki hægt að svindla á svona æfingum, svo framarlega sem maður leggur sig jafn mikið fram og í alvöru frjálsíþróttakeppni og reynir að setja nýtt met í hvert sinn.
Sem auðvitað verður æ erfiðara eftir því sem áttræðisaldurinn sækir að.
Ég held því að galdurinn liggi í því að finna æfingar af þessu tagi sem taka 20-30 sekúndur í rykk eftir atvikum og eru endurteknar hæfilega oft á hverri æfingu. Hvað segir Ágústa um það?
![]() |
Það er út af þessu sem aukakílóin haggast ekki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.3.2013 | 23:27
Hvers vegna er lúffað fyrir svona löguðu ?
Dæmið, sem Skúli Helgason nefnir sem um mál, sem allir styðja og eru einhuga um, en þingmenn tveggja flokka á þingi halda uppi sex klukkustunda málþófi um, er ekki aðeins dæmi um það að menn svífist einskis til að að koma í veg fyrir eðlilega afgreiðslu mála á Alþingi þegar þeim hentar það, heldur vekur ekki síður umhugsun, hvers vegna þetta er látið viðgangast ár eftir ár og áratug eftir áratug.
Hvers vegna ætla menn nú að telja það eðlilegt og óhjákvæmilegt, að þegar nýr þingmeirihluti myndi stjórn eftir kosningar, þá muni hann nota tafir og málþóf til þess að koma í veg fyrir að vilji yfirgnæfandi meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá nái fram að ganga?
Og af því að nú stendur yfir svonefnt "umferðarátak" sem ekki er vanþörf á, set ég hér inn táknræna mynd, tekna í bílastæði af algengri hegðun í umferðinni okkar.

Stóra bílnum er greinilega lagt þannig að hann taki tvö bílastæði svo að enginn annar komist í þau.
En af því að litli bíllinn er sá mjósti á landinu kemst hann samt fyrir í öðru stæðinu innan markalína þess.
Og hvaða viðbrögðum getur maður síðan átt von á í svona tilfelli?
Jú, í öðru svipuðu tilfelli varð eigandi stóra bílsins fokreiður út af því að ég hefði komið í veg fyrir að konan hans kæmist inn í bílinn.
"Ég er með taug og get dregið þig", sagði ég.
"Dregið mig? Hvaða bull er þetta?" sagði hann.
"Jú," svaraði ég, "þú hlýtur að vera með bilaðan bakkgír úr því að þú getur ekki bakkað bakka tvo metra til þess að konan komist inn í bílinn og hún hlýtur að geta gengið þessa tvo metra úr því að hún er komin út að bílnum."
"Þú ert ósvífinn frekjuhundur og með yfirgang", sagði hann. "Ég lagði á undan þér og þú frekjast með þinn bíl alveg upp að mínum og lokar fyrir konunni minni að komast inn í bílinn."
"Allt í lagi," sagði ég. "Úr því að við erum ósammála og þú telur mig hafa brotið umferðarlögin skulum við bara kalla á lögregluna og láta hana og dómstóla skera úr um þetta. En ég bendi þér á að línurnar, sem afmarka bílastæðin, sýna greinilega að þú leggur ólöglega en ég legg löglega."
"Farðu til andskotans!" sagði hann um leið og hann settist upp í bílinn og tók greinilega ekki tilboði mínu.
Svipaðar rökræður eru nú hafðar uppi af hendi þeirra, sem telja, að af því að þeir voru á undan til að sölsa til sín meira en þeir áttu rétt á, þá megi ekki hagga við þeim.
![]() |
Tefja ágreiningslaust mál |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 9.3.2013 kl. 00:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
8.3.2013 | 18:04
Greifarnir geta orðið fleiri en einn að þessu sinni.
Ég hef áður hér á blogginu talað um þann atburð, þegar Trampe greifi sleit Þjóðfundinum 9. ágúst 1851, en Þjóðfundurinn var nafn á stjórnlagaþingi, sem kosið var í sérstökum kosningum, utan alþingiskosninga, og átti að semja stjórnarskrá fyrir Ísland af svipuðum ástæðum og aftur komu upp 160 árum síðar, að Alþingi væri um megn að semja reglur um starfskjör fyrir sjálft sig.
Ég hef, bæði á blogginu og í ræðu á Ingólfstorgi um daginn, talað um Trampe greifa okkar tíma, hverjir ætli að taka að sér svipað hlutverk og Trampe 1851.
1851 voru engin bein fjarskipti milli Íslands og Danmerkur þannig að Trampe, sem fulltrúi hins danska konungsvalds, beitti þessu valdi samkvæmt eigin mati og tók á því ábyrgð gagnvart erlendum valdhöfum Íslands.
Ástæðurnar, sem gefnar voru upp þá, hljóma kunnuglega nú, sem sé að starfið stefndi í óefni, gengi seint og væri fallið á tíma.
Á Ingólfstorgi spurði ég hverjir það yrðu, sem ætluðu sér að verða Trampe greifar okkar tíma og ganga gegn vilja 67% þátttakenda í þjóðaratkvæðagreiðslu, ekki aðeins frá því síðasta haust, heldur áfram eftir kosningar.
Enn eru sviptingar í málinu og því ekki öll kurl komin til grafar í því efni.
En ljóst er, að þeir sem vísvitandi ætla að standa í vegi fyrir framgangi málsins vilja taka að sér hlutverk hins illa þokkaða greifa, sem skráði nafn sitt svo skýrum stöfum í sögubækurnar.
![]() |
Líkti forseta Alþingis við Trampe greifa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.3.2013 | 00:53
Læra þarf af sögunni.
Við Íslendingar höfum lengi trúað því að við og frændþjóðir okkar á Norðurlöndum hefðum verið og værum fyrirmyndir annarra þjóða hvað varðaði fordómaleysi, frelsi, jafnrétti og bræðralag.
En síðan koma upp mál, sem varpa skugga á þessa björtu mynd og sýna, að ekki þarf síður að vera á varðbergi hjá norrænum þjóðum en annars staðar í heiminum.
Dæmi um það er sú svívirðilega meðferð sem Danir beittu börn, sem fæddust á stríðsárunum og áttu þýska feður, oftast þýska hermenn. Þegar maður heyrði af þessu áratugum síðar, illri meðferð, útskúfun, pyntingum, frelsissviptingu og svelti, var það áfall.
Nú áðan var ég að hlusta á upptöku af viðtali úr Samfélaginu í nærmynd á Rás eitt í gærmorgun um heimildarmynd um "ástandið" sem Alma Ómarsdóttir er að gera og það var ákveðið áfall fyrir mig að heyra í viðtali við hana, að ég, - sem hélt að ég hefði vitað nokkurn veginn allt um svokallað "ástand" á stríðsárunum, - annað hvort vissi ekki, hafði ekki viljað vita, eða hafði gleymt því hvernig komið var fram við íslenskar stúlkur og konur sem höfðu samskipti við erlenda hermenn.
Ég hafði til dæmis ekki áttað mig á því, að nánast samstundis þegar aðeins 746 breskir hermenn stigu hér á á land 10. maí 1940 var sett í gang starfsemi, sem í raun var hliðstæða upphafs Gyðingaofsóknanna erlendis sex árum fyrr.
Í þessu ótrúlega ferli var sjálfræðisaldurinn hækkaður upp í 20 ár, sem þýddi í raun, að fullorðið og sjálfráða fólk var svipt sjálfræði sínu, svipt frelsi sínu, sem það hafði haft.
Settur var á stofn sérstakur dómstóll varðandi þær konur, sem ýmist höfðu samskipti við hermenn eða sagnir væru um að gerðu það. Þessu fylgdu handtökur, yfirheyrslur og refsingar með tilheyrandi frelsissviptingum.
Jafnvel var rætt um að merkja þyrfti þær konur, sem ofsóttar voru, með sérstöku merki, og var sú hugmynd hliðstæð því sem gert var við Gyðinga í Þýskalandi.
Ánnað dæmi:
Ekki er langt síðan það vitnaðist, að Íslendingar hefðu ekki viljað taka á móti Gyðingum, sem vildu flytjast og flýja til landsins við upphaf stríðsins. Þó var flest af þessu fólki hámenntað fólk, einmitt það fólk sem skorti hér.
Í staðinn voru 30 norskur skógarhöggsmenn teknir fram fyrir!
Það liðu líka mörg ár eftir að bandaríska varnarliðið kom hingað 1951, þangað til það vitnaðist, að frá byrjun var í gildi leynilegt samkomulag varðandi þá kröfu Íslendinga að enginn blökkumaður mætti vera í liðinu.
Í febrúar 2006 fór ég sérstaklega vegna kvikmyndagerðar minnar til 12 þúsund manna bæjar 300 kílómetra fyrir norðan Moskvu sem heitir Demjansk, en bærinn og svæðið í kring var hernumið af Þjóðverjum í fjóra mánuði veturinn 1942.
100 þúsund manna herlið lokaðist inni en Þjóðverjum tókst að halda uppi loftbrú af vopnum, varningi og vistum til þessa herliðs og flytja 20 þúsund særða í burtu og annað eins inn í staðinn þangað til liðinu tókst að brjótast út úr herkvínni.
Þetta afrek þýska lofthersins réði í raun úrslitum um hið hrikalega tap Þjóðverja í orrustunni um Stalíngrad næsta vetur, því að Göring ofmetnaðist og hélt að þeir gætu endurtekið leikinn frá Demjansk í Stalingrad.
Illræmt er að Hitler gaf út skipun þess efnis að í Rússlandsstyrjöldinni mætti hver Þjóðverji drepa hvaða Rússa sem væri án þess að þurfa að svara fyrir það, af því að Rússar væru "óæði kynþáttur" og væru ekki aðilar að Genfarsáttmálanum. Enda var grimmdin og mannfallið í þessu stríði af áður óþekktri stærð.
Í Demjansk hitti ég konu sem hafði verið ung stúlka þegar þýski herinn var þar. Ég spurði hana hvernig þýsku hermennirnir hefðu verið. Svar hennar var athyglisvert.
"Þetta var ósköp venjulegt herlið, ungir menn sem vissu ekkert hvert þeir væru komir né hvers vegna. Innan um voru, eins og alltaf í herjum, hrottar og illmenni sem við vorum auðvitað smeyk við. Við vorum viðbúin því. En þeir voru ekki verstir, því fer fjarri."
"Hverjir voru verstir?" spurði ég.
"Það voru Finnarnir. Þeir voru hreinir villimenn, óargadýr" svaraði konan. "Við vorum óskaplega hrædd við þá."
Það var áfall fyrir mig að heyra þetta sagt um norræna vinaþjóð okkar. En síðan áttaði ég mig á því af hverju Finnarnir voru svona vondir en ekki ungu, þýsku hermennirnir.
Það var vegna þess að Finnarnir voru að hefna manndrápa Rússneska hersins sem réðist á Finnland veturinn áður. Og hefndarþorsti vegna þess að menn eigi harma að hefna er hroðalegasti eiginleiki mannsins eins og sagan sýnir. Og norrænir menn eru ekkert ónæmir fyrir þessu frekar en annað fólk.
Ungu þýsku hermennirnir höfðu einskis að hefna, sá var munurinn.
Ofangreind dæmi ættu að kenna okkur og norrænum vinaþjóðum okkar að horfa á eigin sögu og í eigin barm í stað þess að trúa því að við séum svo miklu fullkomnari og óskeikulli en aðrar "óæðri" þjóðr.
![]() |
Segja vísindaleg rök ekki eiga lengur við |
Tenging við þessa frétt hefur verið rofin vegna kvartana. |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
7.3.2013 | 22:00
Súkkurnar lengi lifi !
Þegar ég tengi inn á frétt á mbl.is til að skoða fljúgandi Súkkurnar, sem þar eru sýndar get ég borið Súkkujeppum það vitni að þeir eru aldeilis óborganlegir bílar, ódrepandi, einfaldir og ótrúlega léttir, liprir og sparneytnir.

Fyrsta Súkkan mín var Fox, 85 970cc, sem ég notaði í nokkur ár, en varð svo að beygja mig fyrir of miklu ryði í honum. Þessum litla jeppa bregður þó fyrir á Hálsinum þar sem Hálslón er nú í myndunum "Á meðan land byggist" og "In memoriam".
Keypti hann upphaflega fyrir 20 þúsund kall.
Hann lætur ekki mikið yfir sér, sá rauði litli hér á myndinni.


Ég notaði Svartan Samurai í mörg ár út um allt land sem ferðabíl og gististað, einkum á Austurlandi, en á myndinni er hann á Egilsstðöðum.
Sagt er frá honum og lífi mínu í þeim bíl í grein um Kárahnjúkavirkjun í National Geographc 2007.
Þessi Súkka er ógangfær nú en bíður síns tíma.
Nokkrum gömlum Súkkum hefur skolað til mín síðustu tólf ár og af þeim held ég mest upp á Suzuki Fox ´86 fornbíl, minnsta jöklajeppa landsins, með 101 hestafla Swift GTI vél, sem er meira en nóg fyrir 940 kílóa bíl.
Það er sá litli rauði efst á síðunni.
Á 32ja tommu dekkjum án brettaútvíkkana er hann með 94% flot á snjó samkvæmt flotformúlu, sem ég hef sett fram og hefur reynst gefa rétta mynd.
Til samanburðar má nefna að nýr breyttur Toyota Hilux á 38 tommu dekkjum er með ca 75-80% flot.

Á meðfylgjandi mynd sést Súkkutítlan við hliðina á "eðlilegri stærð" af jeppa, sem þó ætti ekkert í þann stutta í snjó eða á jökli, þyrfti að vera á 38 eða 44 tommu dekkjum til þess.
Þessi litla jöklasúkka hefur farið í tvær langar ferðir þvers og kruss um Vatnajökul með Jöklarannsóknafélaginu og hefur á stundum gefið þrefalt og fjórfalt þyngri og stærri bílum langt nef.
Af jeppum síðustu aldar tel ég Fox og Mercedes Benz G best hönnuðu jeppana. Þá tek ég mið af mikilvægasta hluta jeppa, sem er undirvagninn.
Þegar horft er undir Fox og Benz G er líkt og hönnuðirnir hafi dregið línu þvert á milli hjólanna og ákveðið að enginn hluti undirvagnsins skagaði niður fyrir öxlana þegar bíllinn væri hlaðinn, en einnig að allir hlutar driflínunnar og undirvagnsins væru samt í sem minnstri hæð frá jörðu til þess að hjálpa til við að halda þyngdarpunkti bílsins sem neðst.
Þess vegna standast drifkúlurnar að framan og aftan á, sem og svinghjólið. Pústkerfi og bensíngeymri eru nákvæmlega nógu hátt frá jörðu til þess þau skagi samt ekki niður fyrir öxlahæðina þegar bílinn er hlaðinn.
Einn bíll, Range Rover, var svona hannaður 1970, og var afburða vel gerður, mið svipaðri grunnhugsun og Fox og Benz G. En því miður var eins og hönnuðirnir hefðu gleymt einum litlum hlut, þannig að þegar þeir sýndu undirvagninn í fyrsta sinn, hafi komið maður hlaupandi og sagt:
"Afsakið þið, en hér er ég með millibilsstöngina sem hefur gleymst. En hún liggur lægra en framöxullinn." Að öðru leyti er undirvagninn fullkominn.
Suzuki Vitara var á grind þegar hann kom fram en samt léttari en jafnstórir grindarlausir jepplingar. Tær snilld, Súkkan sú.
En því miður hljóðkútuirinn illu heilli aðeins nður fyrir öxulinn. Og á lang flestum jeppum síðari ára er of lágt undir bensíngeymana á jeppum, þegar þeir eru hlaðnir.
Suzuki Fox er með fjaðrirnar undir öxlunum, en þær eru svo næfurþunnar, að þær skaga ekki meira niður en venjuleg demparafesting á bíl, sem er með fjöðrunina ofan á. Ég tel alrangt og óþarfa að setja fjaðrirnar upp á öxlana, - þá verður bíllinn of valtur og missir grip í halla.

Ég á einn af 2-3 blæju Vitarabílum landsins, amerísku gerðina (Geo Tracker).
Hann er styttri gerðin að sjálfsögðu, aðeins 1220 kíló og er á 35 tommu dekkjum, sem gefur honum flot á snjó á við það allra besta sem þekkist í bransanum, 100% flot.

Hann er ekki í umferð núna en sést hér á mynd í Öxnadal árið 2011 á leið til Sauðárflugvallar í samfloti við Jimny Helgu, konu minnar, en þar þjónaði hann það sumar sem flugvallarbíll.
Einnig á ég Vitara´92 styttri gerðina, á 33ja tommu dekkjum sem gefur honum nægt flot (85%) til að vera samferða flestum jöklajeppum.

Eins og áður sagði á Helga minnsta alvöru jeppann sem er á markaðnum, Jimny 2006, arftaka Fox og Samurai.
Ég er stoltur af því að konan mín skuli vera jeppastelpa með góðan smekk.
Á meðfylgjandi mynd sjáumst við á lftadalsleið austan Fagradals og Herðubreiðar í fyrrasumar á leið á Sauðárflugvöll til að skilja þann svarta þar eftir sem flugvallarbíl og samtímis í vikmyndatökuferð fyrir myndina "Akstur í óbyggðum."
![]() |
Að stökkva á Súkku er góð skemmtun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.3.2013 | 17:53
Framsókn afhjúpar sig.
Það hafa verið skiptar skoðanir um það útspil formanna þriggja flokka sem komið hefur fram í stjórnarskrármálinu og um þá samskiptaaðferð sem kom fram á fundi formanna allra flokka á þingi fyrr í vikunni.
Ég spurði í bloggi: Hver er á móti hverju? Og hefði getað spurt áfram: Hvernig? Og nú hefur að hluta til fengist svar.
Eitt gott hefur hafst upp úr því: Framsókn hefur afhjúpað sig sem hægra megin við Sjálfstæðisflokkinn í auðlindaákvæðismálinu og að fara gegn afgerandi úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslunnar síðastliðið haust og virða þau að vettugi. Og Sjálfstæðismenn eru sem fyrr á sama róli varðandi það að eyða þessu máli með öllum tiltækum ráðum.
Ég trúði vart mínum eigin eyrum og augum að sjá og heyra í formanni flokksins í gær. Þá skaut hann tveimur föstum skotum sem tóku að mínu mati undan honum báða fæturna.
1. Hann vill að sú útgáfa auðlindaákvæðis, sem var uppi árið 2000 en rann út í sandinn, verði notuð sem grundvöllur nú. Hann minnist ekki á það að reynt var aftur fyrir kosningar 2007 að blása lífi í þessa ómynd og út kom bastarður sem Magnús Thoroddsen skaut í tætlur í blaðagrein, svo að eftirminnilegt er.
Enda dagaði þessa hörmulegu tillögu uppi.
Nú vill Framsókn færa klukkuna aftur um 6 til 13 ár í umfjöllun um þetta mál. Og samt tóku yfir 80% vel í auðlindaákvæðið í frumvarpi stjórnlagaráðs síðastliðið haust.
2. Formaðurinn lýsti því jafnframt að næsta haust yrði enginn tími til að fjalla um stjórnarskrána og að auðvelt yrði að halda þá uppi málþófi sem eyðilegði málið og mokaði því fram á vorþingið, væntanlega með svipaðri útreið.
Þetta var í fullkomnu samræmi við hina dæmalausu "Rakosi-ræðu" sem hann flutti á þingi í fyrra um eilífa ófremdarástand í stjórnarskrármálinu.
Vonin um ný og betri samræðustjórnmál á milli oddvita flokkanna, sem kveikt var á fundi þeirra fyrr í vikunni, var slökkt í gær tveir þeirra afhjúpuðu sig mun skýrar í stjórnarskrármálinu en nokkur átti von á.
Er nokkuð hægt að tala við þessa menn eins og nú er háttað málum ?
![]() |
Líkti Framsóknarflokknum við flugeld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)