Læra þarf af sögunni.

Við Íslendingar höfum lengi trúað því að við og frændþjóðir okkar á Norðurlöndum hefðum verið og værum fyrirmyndir annarra þjóða hvað varðaði fordómaleysi, frelsi, jafnrétti og bræðralag.

En síðan koma upp mál, sem varpa skugga á þessa björtu mynd og sýna, að ekki þarf síður að vera á varðbergi hjá norrænum þjóðum en annars staðar í heiminum.

Dæmi um það er sú svívirðilega meðferð sem Danir beittu börn, sem fæddust á stríðsárunum og áttu þýska feður, oftast þýska hermenn. Þegar maður heyrði af þessu áratugum síðar, illri meðferð, útskúfun, pyntingum, frelsissviptingu og svelti, var það áfall.

Nú áðan var ég að hlusta á upptöku af viðtali úr Samfélaginu í nærmynd á Rás eitt í gærmorgun um heimildarmynd um "ástandið" sem Alma Ómarsdóttir er að gera og það var ákveðið áfall fyrir mig að heyra í viðtali við hana, að ég,  - sem hélt að ég hefði vitað nokkurn veginn allt um svokallað "ástand" á stríðsárunum, - annað hvort vissi ekki, hafði ekki viljað vita, eða hafði gleymt því hvernig komið var fram við íslenskar stúlkur og konur sem höfðu samskipti við erlenda hermenn.

Ég hafði til dæmis ekki áttað mig á því, að nánast samstundis þegar aðeins 746 breskir hermenn stigu hér á á land 10. maí 1940 var sett í gang starfsemi, sem í raun var hliðstæða upphafs Gyðingaofsóknanna erlendis sex árum fyrr.

Í þessu ótrúlega ferli var sjálfræðisaldurinn hækkaður upp í 20 ár, sem þýddi í raun, að fullorðið og sjálfráða fólk var svipt sjálfræði sínu, svipt frelsi sínu, sem það hafði haft.

Settur var á stofn sérstakur dómstóll varðandi þær konur, sem ýmist höfðu samskipti við hermenn eða sagnir væru um að gerðu það. Þessu fylgdu handtökur, yfirheyrslur og refsingar með tilheyrandi frelsissviptingum.

Jafnvel var rætt um að merkja þyrfti þær konur, sem ofsóttar voru, með sérstöku merki, og var sú hugmynd hliðstæð því sem gert var við Gyðinga í Þýskalandi. 

Ánnað dæmi: 

Ekki er langt síðan það vitnaðist, að Íslendingar hefðu ekki viljað taka á móti Gyðingum, sem vildu flytjast og flýja til landsins við upphaf stríðsins. Þó var flest af þessu fólki hámenntað fólk, einmitt það fólk sem skorti hér.

Í staðinn voru 30 norskur skógarhöggsmenn teknir fram fyrir!

Það liðu líka mörg ár eftir að bandaríska varnarliðið kom hingað 1951, þangað til það vitnaðist, að frá byrjun var í gildi leynilegt samkomulag varðandi þá kröfu Íslendinga að enginn blökkumaður mætti vera í liðinu.

Í febrúar 2006 fór ég sérstaklega vegna kvikmyndagerðar minnar til 12 þúsund manna bæjar 300 kílómetra fyrir norðan Moskvu sem heitir Demjansk, en bærinn og svæðið í kring var hernumið af Þjóðverjum í fjóra mánuði veturinn 1942. 

100 þúsund manna herlið lokaðist inni en Þjóðverjum tókst að halda uppi loftbrú af vopnum, varningi og vistum til þessa herliðs og flytja 20 þúsund særða í burtu og annað eins inn í staðinn þangað til liðinu tókst að brjótast út úr herkvínni. 

Þetta afrek þýska lofthersins réði í raun úrslitum um hið hrikalega tap Þjóðverja í orrustunni um Stalíngrad næsta vetur, því að Göring ofmetnaðist og hélt að þeir gætu endurtekið leikinn frá Demjansk í Stalingrad.

Illræmt er að Hitler gaf út skipun þess efnis að í Rússlandsstyrjöldinni mætti hver Þjóðverji drepa hvaða Rússa sem væri án þess að þurfa að svara fyrir það, af því að Rússar væru "óæði kynþáttur" og væru ekki aðilar að Genfarsáttmálanum. Enda var grimmdin og mannfallið í þessu stríði af áður óþekktri stærð.

Í Demjansk hitti ég konu sem hafði verið ung stúlka þegar þýski herinn var þar. Ég spurði hana hvernig þýsku hermennirnir hefðu verið. Svar hennar var athyglisvert.

"Þetta var ósköp venjulegt herlið, ungir menn sem vissu ekkert hvert þeir væru komir né hvers vegna. Innan um voru, eins og alltaf í herjum,  hrottar og illmenni sem við vorum auðvitað smeyk við. Við vorum viðbúin því. En þeir voru ekki verstir, því fer fjarri."

"Hverjir voru verstir?" spurði ég.

"Það voru Finnarnir. Þeir voru hreinir villimenn, óargadýr" svaraði konan. "Við vorum óskaplega hrædd við þá."

Það var áfall fyrir mig að heyra þetta sagt um norræna vinaþjóð okkar. En síðan áttaði ég mig á því af hverju Finnarnir voru svona vondir en ekki ungu, þýsku hermennirnir.

Það var vegna þess að Finnarnir voru að hefna manndrápa Rússneska hersins sem réðist á Finnland veturinn áður. Og hefndarþorsti vegna þess að menn eigi harma að hefna er hroðalegasti eiginleiki mannsins eins og sagan sýnir. Og norrænir menn eru ekkert ónæmir fyrir þessu frekar en annað fólk.

Ungu þýsku hermennirnir höfðu einskis að hefna, sá var munurinn.

Ofangreind dæmi ættu að kenna okkur og norrænum vinaþjóðum okkar að horfa á eigin sögu og í eigin barm í stað þess að trúa því að við séum svo miklu fullkomnari og óskeikulli en aðrar "óæðri" þjóðr. 

 


mbl.is Segja vísindaleg rök ekki eiga lengur við
Tenging við þessa frétt hefur verið rofin vegna kvartana.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

19.2.2013:

"Björn Sv. Björnsson var einn þeirra Íslendinga sem gengu í lið með nasistum í stríðinu."

"Yfirmaður í SS skrif­aði með­mæla­bréf um Björn og lýsti honum sem manni með "óaðfinn­an­legan per­sónu­leika og traustar hug­sjónir" og hann hafi "reynst vel í bar­daga sem her­maður við inn­rás­ina í Sovétríkin".

Þetta var saga sem ekki mátti segja. Sonur for­seta Íslands var nas­isti og meðlimur SS.

Hann hét Björn Sv. Björnsson og var sonur Sveins Björnssonar, fyrsta for­seta íslenska lýðveldisins."

Björn Sv. Björnsson, hinn "óaðfinnanlegi" íslenski nasisti

Þorsteinn Briem, 8.3.2013 kl. 05:53

2 Smámynd: Sigurður Antonsson

Ívilnanir til PCC Bakka-Silicon hf. er nýjasta útspilið í baráttu um þingsætin. Ekkert er til sparað og allt tal um skynsamlega nýtingu orkunnar er fokið út í veður og vind. Fréttablaðið greinir frá því 7. mars, að ráðherra atvinnumála hafi lagt fram frumvarp um hátt í 4 milljarða skattaafslátt. Til iðnaðars sem er niðurgreiddur af kínverska ríkinu.

VG liðar virðist vera sjálfum sér verstir í iðnaðar og orkumálum þegar þeir ætla að fá erlend stóriðjufyrirtæki til landsins með undirboðum. Eins og þýsku hermennirnir, vita ekki hvers vegna þeir voru sendir eða til hvers.

Sigurður Antonsson, 8.3.2013 kl. 08:13

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hér er miðlað ýmsum fróðleik hjá þér, Ómar, og skyldi ekki vanmeta, en tengist hann Mbl.is-fréttinni?

Jón Valur Jensson, 8.3.2013 kl. 08:31

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Jón Valur Jensson mun leika fyrir dansi ásamt Forgarði helvítis næstkomandi sunnudag.

Hommar, lesbíur (les: píur) og önnur gæðablóð sérstaklega boðin velkomin.

Þorsteinn Briem, 8.3.2013 kl. 09:11

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég þakka Steina fyrir að vísa á vefsíðu mína (þar sem ég fjalla um Mbl.is-fréttina), ekki fyrir neitt annað.

Jón Valur Jensson, 8.3.2013 kl. 09:34

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þú getur ekki teflt við páfann á næstunni og verður því að halda í þér, Jón Valur Jensson.

Þorsteinn Briem, 8.3.2013 kl. 09:59

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Tengist, ekki tengist, takk fyrir mjög fróðlega lesningu nafni.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 8.3.2013 kl. 13:43

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég skrifaði þennan pistil í nótt og viðurkenni að ég man ekki lengur hvers vegna þessi tenging var.

Hvað Björn snertir hefur mér alltaf fundist að fólk eigi ekki að vera lítillækkað fyrir það sem afkomendur þess gera.

Sveinn Björnsson hefði að sjálfsögðu átt að standa jafnréttur eftir þótt upplýst væri um það sem sonur hans væri að gera eða hefði gert og að öllu eðlilegu hefði það átt að vera eðlilegt og forseta landsins að meinalausu að upplýst væri um þetta mál.

En í okkar litla samfélagi er greinilegt að menn töldu sig tilneydda til þess að hylma yfir þetta.

Ómar Ragnarsson, 8.3.2013 kl. 21:00

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Þegar Þjóðverjar gáfust upp árið 1945 var Björn [Sv. Björnsson] tekinn til fanga og var í varðhaldi í Danmörku til 1946.

Þá var hann leystur úr haldi án þess að vera leiddur fyrir rétt, sennilega vegna þrýstings frá Íslandi (þótt ráðamenn neituðu að svo hefði verið) en mál hans var óþægilegt fyrir bæði Íslendinga og Dani, þar sem faðir hans var þá orðinn forseti Íslands."

Þorsteinn Briem, 8.3.2013 kl. 22:43

10 identicon

Hann slapp þó við að fá kúlu í hausinn, skömmin af honum!
Sveinn faðir hans var annars merkilegur maður um margt, og átti hlut í lýgilega erfiðum samningum Íslendinga við Breta milli stríðsbyrjunar og hernáms. Þór Whithead skrifaði frábæra bók um það tímabil, - milli vonar og ótta gæti nafnið verið.
Svona voru örlög sumra, - Björn fór í SS og varð seinna áróðursmaskína fyrir nasista, Leif Muller fékk röndótt vinnuföt í líkbrennslunni í Sachsenhausen, á meðan Steini Jóns saxaði niður þýskar herflugvélar í háloftunum.
Allir uppaldir á sama blettinum svo að segja.

Jón Logi (IP-tala skráð) 9.3.2013 kl. 13:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband