Færsluflokkur: Bloggar
24.2.2013 | 15:51
Brot á ákvæði stjórnarskrár um sannfæringu þingmanna.
Ákvæði stjórnarskrárinnar um að þingmenn skuli eingöngu fara eftir eigin sannfæringu og samvisku og engu öðru, hvorki fyrirmælum flokks, kjósenda eða þrýstihópa, er eitthvert mikilvægasta ákvæði hennar.
Sjálfstæðisflokkurinn er ekki eini flokkurinn þar sem sú hugmynd kemur upp að skuldbinda þingmenn sína til að fara eftir fyrirmælum, annað hvort varðandi stefnu flokksins og hollustu við forystu hans, eða ákveðin "gildi" sem eigi að standa ofar sannfæringu og samvisku þingmanna.
Svipuð hugmynd kom upp í undirbúningi fyrir stofnun Borgarahreyfingarinnar á sínum tíma og þessi hugmynd skýtur alltaf við og við upp kollinum.
Komið hafa upp hugmyndir um að frambjóðendur sverji hollustueið við flokkinn, sem þeir bjóði sig fram fyrir.
Þetta er fráleitt, því að þegar þingmenn setjast á þing, sverja þeir eið að stjórnarskránni, og geta þá ekki staðið við hinn fyrri eið um skilyrðislausa hollustu við flokk sinn, stefnu hans og starf.
Það hefur áður verið prófað að þingmenn, embættismenn og hermenn sverji hollustueið við ákveðna stjórnmálastefnu og flokksforystuna. Sú regla var tekin upp í Þýskalandi árið 1935 og hollustueiðurinn við Foringjann lagði grunninn að því Adolf Hitler náði því kverkataki á her og þjóð sem kostaði meira en 50 milljónir manna lífið.
Sem betur fór var tillaga felld brott á landsfundi Sjálfstæðisflokksins um að ákveðin gildi einna trúarbragða umfram önnur við lagasetningu væru látin binda hendur þingmanna flokksins.
Enda hefði þá líka þurft að leggja fram tillögu um að flokkurinn beitti sér fyrir stjórnarskrárbreytingu til þess að þetta gengi upp.
![]() |
Tillaga um kristin gildi felld út |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
24.2.2013 | 14:23
"Ef freistingarnar guða´á gluggann þinn..."
Þegar landið fylltist af erlendum hermönnum í stríðinu, alls meira en 50 þúsund þegar flest var, komu ýmsir fordómar hinnar einangruðu þjóðar upp á yfirborðið, eins greint er frá í frétt á mbl.is.
Sumir þessara fordóma lifðu góðu lífi í áratugi eftir stríð, svo sem það að í varnarliðiinu á Keflavíkurflugvelli skyldu aðeins vera hvítir menn.
En svipað virðist enn vera sprelllifandi ef marka má þá stefnu, sem komið hefur fram á landsfundi Sjálfstæðisflokksins að við lagasetningu á Íslandi skuli gildi eins af trúarbrögðum heims vera öðrum æðri.
Ég hafði hingað til haldið að slíkt þætti ekki nútímalegt. Þær múslimsku þjóðir, sem hafa hliðstæð ákvæði í stjórnarskrám sínum hafa verið gagnrýndar og litnar hornauga fyrir það.
Gott er að náðst hefur á síðustu stundu að rita niður sögur akureyskra kvenna af samskiptum við hermenn nyrðra á stríðsárunum og minnir ein þeirra á frægasta "gægju"atviki íslenskrar sögu enn sem komið er.
Á dögunum var spiluð upptaka á Rás 1, sem fundist hefur af stórum hluta skemmtunar Bláu stjörnunnar um 1950.
Er fengur að því að svona upptaka skuli hafa verið geymd og enn betra að láta flytja hana í útvarpi.
Þar voru meðal annars fluttar gamanvísur, en slíkar vísur missa gersamlega marks, ef áheyrendur vita ekki hvað verið er að fjalla um.
Og það gerðist líka því miður við flutning þessrar dagskrár, því að aðeins var látið nægja að telja upp nokkur nöfn þeirra sem sungið var um, án þess að fara nánar út í tilefnið. Til dæmis var nefnt nafn séra Péturs Magnússonar í Vallanesi án þess að útskýra, af hverju nafn hans hefði komið fyrir í vísunum.
Ég er orðinn nógu gamall til að muna eftir því að daginnn eftir að foreldrar mínir höfðu verið á slíkri skemmtun ræddu þeir um hana við vinafólk sitt og söngur Soffíu Karlsdóttur, "Er ég í vöggu var..." var á allra vörum.
Þótti revíuhöfundunum, en einn þeirra var Bjarni Guðmundsson blaðafulltrúi, hafa tekist alveg sérstaklega vel við að láta syngja um frægustu "gægjur" Íslandssögunnar og fara jafn fínt í það, eins og raun bar vitni, einkum með því að nota sögnina "að guða", sem augljóslega bar í sér tilvísun í umtalaðasta atvik ársins.
Áður hafði Mánudagsblaðið slegið fréttinni um meintar "gægjur" upp og í Öldinni okkar er þessu óborganlega atviki að sjálfsögðu gerð skil.
Í stuttu máli fólst fréttin í því að séra Pétur var handtekinn af lögreglu og farið með hann á lögreglustöðina, þar sem hann var sakaður um að hafa verið að gægjast á glugga hjá konu einni í húsi nálægt Óðinstorgi.
Kærasti konunnar, sem var lögreglumaður, hafði staðið fyrir þessari handtöku.
Svo fór að presti var sleppt, en fréttin varð sú umtalaðasta á landinu lengi á eftir.
Í vísunum, sem Soffía Karlsdóttir söng og túlkaði líf og aðstæður ungrar og glæsilegrar konu, var "húkkið" fólgið í lokalínum hvers erindis, sem var svona:
"En sértu ennþá ung og dreymin
er enginn vandi´að fleka heiminn.
Ef freistingarnar guða á gluggann þinn
þá gættu þess að hleypa þeim inn.
-
![]() |
Offiserinn lá á gægjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.2.2013 | 08:07
Samræming að hálfu, - skaðlegt að hálfu.
Að samræma aldurstakmörk varðandi sjálfræði fólks sýnist vera eðlilegt.
Hitt er staðreynd, byggð á víðtækum alþjóðlgum rannsóknum, að því betra aðgengi sem er að fíkniefnum (áfengi er algengasta fíkniefnið og veldur í heildina mestum skaða), því meiri er neysla þeirra og þar með tjónið af völdum þeirra.
![]() |
18 ára megi kaupa áfengi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
23.2.2013 | 19:23
Ómetanlegar heimildir.
Gamlar fjölskyldumyndir og myndir úr daglegu lífi þykja kannski ekki merkilegar fyrst eftir að þær eru teknar. En það getur breyst með tímanum.
Gott dæmi er ljósmynd af núverandi forseta Íslands, þar sem hann stendur sem lítill snáði við hlið þáverandi forsetabíls af Packard gerð þegar Sveinn Björnsson var í opinberri heimsókn vestra.
Fyrir 53 árum tók móðurbróðir minn, Gunnlaugur Þorfinnsson, nokkrar kvikmyndir af fjölskylduboðum og fleiri atburðum í hversdagslífinu.
Þegar Sigrún Gísladóttir, kona hans, varð áttræð í maí, fékk hún þessar myndir og fleiri að gjöf frá börnum sínum. Þau höfðu grafið þær upp og yfirfæra þær í stafrænt form.
Þessar myndir geyma ómetanlegar heimildir.
Sem dæmi má nefna um 5 sekúndna myndskeið af föður mínum, þegar hann gengur niður útidyratröppurnar heima hjá sér.
Þessar fáu sekúndur segja meira um manninn en þótt gerð hefði verið um hann tveggja klukkustunda heimildarmynd, því að þessi tröppugangur hans, þegar galsinn grípur hann, er engu lagi likur.
Hann kemur með hatt á höfði út í dyrnar, sér skemmtilegt fólk fyrir neðan tröppurnar, og ákveður að spinna upp 5 sekúndna langt grínleikrit á leiðinni niður tröppurnar og nota hattinn sem samleikara.
Eitt erfiðasta verk þeirra sem framleiða myndefni er að ákveða hvað eigi að geyma og hverju er að henda.
Þetta er eiginlega óframkvæmanlegt, því að í núin er ómögulegt að sjá hvað verði merkilegast eftir t. d. hálfa öld.
Þegar ég kom úr Flateyrarleiðangri mínum 1995 safnaði ég saman 50 spólum, sem teknar voru þar vestra. Þær eru geymdar, hver einasta, í vinnuherbergi mínu í Útvarpshúsinu.
Enginn veit hvort eftir einhverja áratugi mun sjást þar snáði eða telpa, sem á eftir að verða forseti Íslands.
![]() |
Fann fjársjóð á gamalli filmu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.2.2013 | 17:08
Kusu ófriðinn sjálfir strax í upphafi.
Frá þeirri stundu, sem gerð nýrrar stjórnarskrár kom inn á borð hjá Alþingi kusu þingmenn Sjálfstæðisflokkinn ófrið þótt friður væri í boði. Til þess að koma í veg fyrir að þingviljinni kæmi fram gagnvart hugmynd Framsóknarmanna um breytingar á stjórnarskránni til þess að auðvelda og flýta fyrir gerð nýrrar stjórnarskrár, tóku þeir upp málþóf og tókst þannig að drepa málið.
Allt frá þessu upphafi afskipta þeirra af stjórnarskrármálinu hafa þeir markvisst unnið að því að tefja fyrir því og drepa því á dreif allt til þessa dags.
Það kemur því úr hörðustu átt þegar þeir ásaka aðra um að kjósa ófrið.
1851 steig Trampe greifi inn á fund þáverandi þjóðkjörins stjórnlagaþings, sem bar nafnið Þjóðfundur, og sleit honum fyrirvaralaust í umboði valdaaflanna, af því að sýnt þótti að stjórnarskráin, sem verið var að semja, væri Dönum ekki að skapi.
Ástæðan, sem gefin var, hljómar kunnuglega í eyrum okkar nú: Frumvarpið væri ruglingslegt og skapaði hættu á óvisssu í stjórnmálum, - það þyrfti að lagfæra það og stórnlagaþingið væri fallið á tíma.
Aðferðin, sem Trampe greifar okkar tíma hafa notað undir sömu formerkjum til að eyða málinu, hefur verið fólgin í því að koma því í svipað far tímahraks og var notað sem ástæða fyrir því að eyða sama máli 1851.
Þjóðin hafði kostið stjórnlagaþingið, Þjóðfundinn, 1851 og stóð að baki Jóni Sigurðssyni og öðrum þingfulltrúum sem hrópuðu: "Vér mótmælum allir".
Yfirgnæfandi meirihluti samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu í október í fyrrahaust að frumvarp stjórnlagaráðs skyldi verða grundvöllur nýrrar stjórnarskrár.
En Trampe greifar okkar tíma munar ekki um að feta í fótspor fulltrúa valdsherranna 1851 og eyðileggja 162ja ára gamlan draum Jóns Sigurðssonar og loforð allra landsfeðranna 1944 um að samin væri ný, heildstæð stjórnarskrá fyrir Ísland.
![]() |
Kýs ófriðinn þó friður sé í boði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
22.2.2013 | 19:57
Kranablaðamennska; - enginn spyr um stærð línanna.
Í allan dag hefur endurómað í öllum fjölmiðlum sú frétt, að það þurfði að fara út í 70 milljarða króna fjárfestingu í háspennulínum til að "tryggja orkuöryggi" og "öryggi á afhendingu orkunnar til landsmanna" og að ef eitthvað verði lagt í jörðu, muni þessi kostnaður margfaldast og orkuverðið hækka.
Kranablaðamennskan hefur verið alls ráðandi, því að ekki einn einasti fréttamaður hefur spurt þeirrar grundvallarsspurningar, af hverju það þarf stærstu gerðir af risalínum til þess að þetta öryggi sé tryggt, - til dæmis af hverju það þurfi háspennulínu sem anni flutningi á allt að þúsund megavatta orku til þess að tryggja flutning á þeim 16 megavöttum, sem Akureyringar og Miðnorðurland nota.
Í fullyrðingum forsprakka Landsnets eru bilanir á dreifilínum í vondum veðrum notaðar sem átyllur fyrir lagningu risalínanna og gefið í skyn, að ef fólk samþykki ekki risalínurnar muni raflínurnar halda áfram að bila í vondum veðrum. Sem sagt: Annað hvort skuluð þið fá að sitja í rafmagnsleysi eða samþykkja risaháspennulínurnar fyrir stóriðju.
Enginn spyr hve stór hluti bilananna var í byggðalínunni sjálfri og hve stór hluti var í línum, sem dreifast út frá henni.
Meðan allsherjar kranablaðamennska af þessu tagi ríkir komast Landsnetsmenn upp með þá blöndu af hótunum og stórmennskubrjálæði, sem þeir hafa getað haldið uppi og ætla sér að halda uppi áfram.
![]() |
Orkuöryggi fullnægir ekki stöðlum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.2.2013 | 15:00
Sálfræðilegt mestan part.
Þegar menn fóru að leggjast í löng ferðalög um auðnir norðurhjarans og suðurhjarans rákust menn fljótlega á ákveðnar sálfræðilegar hindranir, sem sköpuðust vegna einangrunarinnar og þess tilbreytingarleysis, sem hún veldur.
Þetta lýsti sér oft í vaxandi óþoli leiðangursmanna gagnvart hver öðrum þannig að smámunir urðu að stórmálum, sem stundum leiddu til átaka.
Flestir leiðangursmenn okkar tíma þekkja þetta og reyna að gera ráðstafanir til þess að draga úr þessu.
Það er nefnilega þannig, að alveg er sama hversu miklir skapprýðismenn menn eru í venjulegu daglegu lífi, að við óvenjulegar aðstæður í löngu ferðalagi í litlum hópi, allt niður í 2 til 3 mann getur framkallast versnandi sálarástand og ergelsi yfir smæstu hlutum.
Hluti af því að draga úr þessu getur verið að reyna á reglubundinn hátt að veita mönnum tilfinnningalega útrás í stað þess að leyfa óþolsástandi að byggjast upp, uns þögnin er skyndilega rofin í bræðiskasti.
1999 var farin fyrsta og eina jeppaferðin fram og til baka þvert yfir Grænlandsjökul.
Arngrímur Hermannsson leiðangursstjóri var greinilega vel meðvitaður um það, hve miklu skipti að halda uppi góðum anda í svo löngu ferðalagi um endalausar auðnir.
Að minnsta kosti sá hann um það á bakaleiðinni, þar sem ég slóst í för með hópnum, og stóð tæpa viku, að láta menn viðra skoðanir sínar reglulega, jafnvel í talstöðvunum á ferð, og liggja ekki á því að koma þeim á framfæri um allt það, sem gæti valdið núningi.
Fyrir bragðið var ferðin öll ógleymanleg og síðasti kaflinn ofan af jöklinum að vestanverðu, sem var fáránlega erfiður og kostaði vöku og erfiði leiðangursmanna í tvo sólarhringa, hverfur ekki úr minni.
Á miðri leið ókum við fram á hjón, sem dvöldust í tjaldi við yfirgefna ratsjárstöð á hájöklinum og höfðu þann starfa að leiðbeina Hercules skíðaflugvélum bandaríska hersins þegar þær flugu upp á jökulinn til þess að æfa lendingar á snjó.
Þegar konan kom til tjalddyranna og sá jeppana, fór hún alveg yfirum. Hún hló eins og fábjáni og hagaði sér eins og hún væri að missa glóruna þegar hún hrópaði upp:
"Nei, nei! Þetta er ekki satt! Þetta er ekki að gerast! Boeing 747 á skíðum, já! Skemmtiferðaskip, já ! En bílar, nei, nei, nei! Þetta er bilun! Þetta er blekking! Þetta eru sjónhverfingar!
Svo að ég skil vel að Vilborg Anna Gissuardóttir hafi farið í gegnum tilfinningarússíbana í lok sinnar miklu göngu á suðurpólinn.
![]() |
Tilfinningarússíbani undir lokin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.2.2013 | 12:49
Ávöxtur þátttöku í alþjóðlegu samstarfi.
Þegar við Íslendingar gerðumst aðilar að Chicago-sáttmálanum 1944 var lagður grundvöllur að þátttöku okkar á ýmsum sviðum í alþjóðlegu samstarfi á landi, hafi og í lofti.
Uppbygging mikils flugrekstrar eftir stríðið og stjórn okkar á flugumferðarstjórn yfir Norður-Atlantshafi eru ávöxtur af þessu samstarfi, sem að sjálfsögðu kostar afsal á ríkisvaldi allra samstarfsaðilanna til hinna alþjóðlegu samtaka og reglna, sem um málefnin gilda.
Kostir svona samstarfs eru augljósir og birtast meðal annars í tengdri frétt við pistilinn um aukin umsvif í flugvirkjun og kennslu hér á landi, sem væru óhugsandi nema vegna þess að við erum aðilar að Alþjóða flugmálastofnuninni og Flugöryggisstofnun Evrópu.
Gallarnir eru fólgnir í óhóflegu skrifræði, sem bitnar oft á einstökum greinum eða sviðum málefnanna. Þannig hef ég gagnrýnt atriði sem hafa bitnað á litlum flugvélum, en sú gagnrýni hefur líka verið öflug í öðrum Evrópulöndum.
En ef við værum ekki í þessu alþjóðlega samstarfi væri hægt að afskrifa allan flugrekstur hér á landi og ekki aðeins það, heldur myndi það hafa svo stórfelld áhrif á ferðaþjónustuna í heild að um er að ræða marga tugi milljarða króna á hverju ári.
Lífskjör hér á landi byggjast þar að auki á því að hafa aðgang að nægilegum flugflota til þess að flytja fisk okkar sem fljótast á erlenda markaði í samfelldu daglegu flugi. Annars myndi verðið sem við fáum fyrir fiskinn stórlækka.
Forsendan fyrir þessu er að allt, sem tengist fluginu hér á landi, sé í samræmi við alþjóðlegar reglur, ekki bara flugvélarnar sjálfar og flugreksturinn, heldur líka öll aðstaða, flugvellir og flugleiðsögukerfi.
Sem dæmi má nefna, að ef flugvöllur minn á Brúaröræfum, Sauðárflugvöllur, hefði ekki farið í gegnum umfangsmikið ferli til að uppfylla allar kröfur, sem gerðar eru til flugvalla af hans tagi, þá væri hann ekki nothæfur fyrir neinar flugvélar nema þær örfáu sem eru tryggðar sérstaklega fyrir lendingar utan skráðra og viðurkenndra flugvalla.
Þar með gæti hann ekki nýst til afnota fyrir allar flugvélar sem eru notaðar í innanlandsflugi á Íslandi eins og er tilgangurinn á bak við tilvist hans.
Það má yfirfæra þetta yfir á mörg önnur svið þjóðlífsins og það var ekki að ástæðulausu að vísustu forystumenn þjóðanna stóðu fyrir stofnun Sameinuðu þjóðanna í stríðslok.
![]() |
Nýtt alþjóðlegt nám í flugvirkjun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.2.2013 | 23:53
Tregðan við að hlífa landinu.
Í tímaritinu Time var hér um árið margra blaðsíðna úttekt vísindamanna á jarðvegseyðingu á jörðinni.
Niðurstaðan var sú að eyðimerkur jarðarinnar séu í sífelldum vexti og svo er enn. Í greinarlok var settur upp listi yfir bestu "vini" eyðimerkurinnar. Í efstu tveimur sætunum voru:
1. Geitin.
2. Sauðkindin.
Heimsveldi hafa hrunið eða orðið fyrir skakkaföllum vegna illrar meðferðar á landi. Þar má nefna Mesopótamíu (Írak), Fönikíu (Túnis og Líbíu) og svæðið í kringum Kaspíahaf á síðstu öld.
Ein af ástæðum falls Nikita Krústjoffs voru stórfelldar framkvæmdir sem hann stóð fyrir og misheppnuðust hrapallega á þeim slóðum.
Rannsóknir vísindamanna hér á landi hafa sýnt að strax á fyrstu öldum Íslandsbyggðar tókst landsmönnum að höggva mestan hluta skóg- og kjarrlendis á landinu.
Skógur, kjarr og lyng höfðu bundið jarðveginn saman með rótum sínum og þegar öskufall eða sandstormar urðu vegna eldgosa, þoldi hann álagið, bæði með því að drepa vindinn niður og með því að halda gróðurþekjunni saman.
Þetta hafði skóg- og kjarrlendið gert árþúsundum saman, þótt iðulega kæmu stórgos eins og ævinlega hefur verið um þúsundir ára, og þess vegna var Ísland "viði vaxið milli fjalls og fjöru" þegar landið var numið.
Undir jarðvegsþekjunni var laus eldfjallaaska, og ef vindurinn náði að komast að jaðri þekjunnar, reif hann öskuna undan honum og svipti þekjunni af.
Þetta blasir sérstaklega vel við norðan við Skarð í Landssveit og má sjá á eldvirka svæðinu um allt land.
Fyrir norðan Skarð og á Kili liggja þær litlu jarðvegsræmur, sem enn halda velli, beint eftir ríkandi vindátt þegar þurr og hvass norðan- eða norðaustanvindurinn vinnur sitt mikla eyðingarverk.
Í meira en aldar langri sögu Landgræðslu Íslands, sem í upphafi hét Sandgræðsla Íslands, hefur safnast fyrir reynsla byggð á verkefnum Landgræðslunnar og rannsóknum vísindamanna á orsökum og eðli jarðvegseyðingar á Íslandi, sem er sú langmesta sem þekkist í Evrópu og Norður-Ameríku.
Samt er haldið áfram sauðfjárbeit á afréttum sem Landgræðslan telur ekki beitarhæfa og ekkert virðist eiga að vera í náttúruverndarlögum sem getur komið á það böndum.
Landgræðslan hefur engin úrræði til þess að grípa til gegn hernaðinum gegn landinu. Sama er hve illa menn fara með gróður, - engin úrræði eru að lögum til að stöðva slíkt. Landgræðslustjóri sagði í viðtali í heimildarmynd Herdísar Þorvaldsdóttur, að hann hefði orðið í starfi sínu að brynja sig með æðruleysishugsun á háu stigi til þess að geta lifað með þessu.
Í staðinn fyrir að viðurkenna staðreyndir, má sjá og heyra sífelldan söng um það að þeir, sem mesta þekkingu og reynslu hér á landi þessum efnum séu "öfgamenn" eða vitleysingar og allt tal um skaðsemi beitar á landi, sem ekki þolir beit, sé tómt bull.
Alhæft er um það að verið sé að berjast fyrir því að sauðkindin sé gerð útlæg á landinu. Það er rangt.
Margir afréttir, einkum víða á norðvestanverðu landinu, þola vel hóflega beit.
Ólafur Arnalds er eini Íslendingurinn sem hefur fengið umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs. Þau fékk hann fyrir stórkostlega vandaðar og yfirgripsmiklar rannsóknir á gróðurlendi á Íslandi.
En þessi verðlaun og vinnan, sem skóp þau, afgreiða menn, sem ekkert hafa kynnt sér það mál, sem tóma steypu.
Tregðan við að hlífa landinu lifir góðu lífi og hernaðurinn gegn því heldur áfram.
![]() |
Mesta mælda sandrok jarðar? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
21.2.2013 | 19:22
Aftur til fortíðar, og er það vel.
Fyrstu aldir Íslandsbyggðar var siglt frá fleiri en einni höfn beint til og frá útlöndum. Eyrar (Eyrabakki) og Gáseyri við Eyjafjörð voru þekktastar og héldu velli langt fram eftir öldum.
Stundum er orðalagið "aftur til fortíðar" notað í frekar neikvæðu skyni en í þetta sinn er hægt að segja að þessi tímamót séu afar merkileg og mikilvæg fyrir okkur Íslendinga og sérstakt fagnaðarefni.
Beinir og hraðir flutningar milli Íslands og annarra landa eru grundvöllur undir velmegun hér á landi.
Þannig eru beinir flutningar á fiski forsenda þess að hægt sé að selja íslenskar fiskafurðir á hæsta mögulega verði.
![]() |
Samskip boða nýja siglingaleið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)