Færsluflokkur: Bloggar
29.12.2012 | 20:55
Tímabærar nýjungar.
Fyrst þetta: Hamingjuóskir til þeirra sem fengu verðskuldaðar viðurkenningar í kvöld í kjörinu um Íþróttamann ársins 2012.
En ekki síður hamingjuóskir með þær tvær nýjungar sem kynntar voru í kvöld, val á liði ársins og þjálfara ársins.
Mikið hefði nú verið gaman ef slíkt hefði verið tekið upp fyrr, en þess meiri ástæða er til að fagna þessari tímabæru nýbreytni.
![]() |
Aron íþróttamaður ársins 2012 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.12.2012 | 20:01
Það hlaut að koma að því.
Í þeim stórleikjum Vals og Fram í kvennaboltanum undanfarin ár hafa Valskonur haft betur.
Ég er enginn sérfræðingur á þessu sviði en mér sýndist herslumunurinn liggja í aðeins meiri breidd og reynslu hjá Valsliðinu og þær þess vegna verðugir sigurvegarar í annars afar jöfnum leikjum sem voru báðum liðum til sóma.
Reynslan fer eðlilega mikið eftir aldri liðskvenna og af þeim sökum var hægt að leyfa sér að vera bjartsýnn á það að aukinn aldur og reynsla Framliðsins hlyti að skila sér.
Nú hefur ísinn verið brotinn og óskin hefur ræst.
Það gleður gamlan Framara eins og mig og ég óska "stelpunum mínum" og félaginu okkar til hamingju.
Meira af þessu! Áfram Fram!
![]() |
Fram yfir erfiðan hjalla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.12.2012 | 15:29
Minnir á fannfergið árin 1993 - 96.
Fannfergið og snjóalögin á norðanverðu landinu minna óþyrmilega á svipuð veðurskilyrði hamfaraárið 1995. Þar er ekki aðeins um snjóflóðin og rafmagnsleysið að ræða, heldur fannfergi, sem ógnar byggingum eins og sést á tengdri frétt á mbl.is
Ég minnist til dæmis fréttaferðar sem ég fór til þess að huga að störfum björgunarsveitarmanna á bæ einum í Dölunum, þar sem þurfti að koma bónda til hjálpar á svipaðan hátt og í Önundarfirðinum núna.
Árið 1995 var að vísu ekki eina árið með miklu fannfergi og snjóflóðum.
Tveimur árum fyrr féll meira að segja snjóflóð við Blönduós rétt norðan við byggðina og myndi einhver láta segja sér slíkt tvisvar nú.
Og snjóflóð á Seljalandsdal kostaði mannslíf 1994.
En um það snjóflóð og snjóflóðið á Blönduósi giltu ummæli norsks snjóflóðasérfræðings að þar sem landi hallaði og snjór gæti fallið gætu fallið snjóflóð.
Þvi miður var ekki nógu mikið mark tekið á ummælum hans og svissnesks snjóflóðasérfræðings í snjóflóðamiðstöðinni í Davos í Sviss sem fenginn var hingað til lands í kjölfar snjóflóðsins á Seljalandsdal.
Árið eftir snjóflóðin á Súðavík og Flateyri féllu líka spýjur inn í efstu hús í Bolungarvík og varð það til þess að ég ók frá Stokkhólmi til Davos til að kynnast snjóflóðavörnum í því landi, sem hefur langa reynslu af því að fást við slík mál.
Hér heima var að mestu byggt á erlendri reynslu þegar hafist var handa við snjóflóðavarnir en því miður ekki að öllu leyti, og þar með farið á mis við mun ódýrari lausnir á einstökum stöðum hér á landi en á sambærilegum stöðum í Sviss.
![]() |
Þak að hrynja á fjósi með 70 gripum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.12.2012 | 19:54
Óveðrið verður hluti af ógleymanlegri upplifun.
Enn eimir eftir að þeirri hugsun okkar að ekki sé hægt að fjölga ferðamönnum til landsins yfir vetrartímans vegna þess hve hér koma oft slæm veður.
Er engu líkara en að margir haldi að útlendingar geti ekki hugsað sér annað en stillu og blíðviðri og að annars konar skilyrði, svo sem myrkur, kuldi, vindur og snjókoma, sem nú er spáð muni fæla útlendinga frá og þeir telja sig illa svikna.
Þetta rímar ekki við það þegar hér var hópur útlendinga yfir hátíðirnar fyrir 20 árum og áttu margir þeirra ekki orð til að lýsa yfir ánægju sinni með þá upplifun í þetta eina skipti á ævi þeirra að kynnast íslensku "skítaveðri" með hvassviðri, snjókomu og skafrenningi, en skafrenningurinn var það sem heillaði þetta fólk mest.
Blaðamaður frá Sunday Times átti vart nógu sterk orð til að lýsa hrifningu sinni yfir því að upplifa bara þeitta eina fyrirbæri, skafrenninginn.
Þvert ofan í það sem nú gæti verið hald manna, að veðrið sem spáð er næstu daga verði rothögg fyrir erlenda ferðamenn, held ég að einmitt þetta fjölbreytta veður, fyrst stórhríð og síðan stilltara veður, muni verða erlenda ferðafólkinu ógleymanleg lífsreynsla sem það muni segja frá eftir ferðina og lokka þannig fleiri til landsins í svipaðar ferðir.
Eins og ég hef sagt áður hér á blogginu selja Lapplendingar myrkur, kulda, þögn og ósnortna náttúru fleira ferðafólki yfir veturinn en kemur allt árið til Íslands.
En við höldum mörg hver enn að þetta ásamt skafrenningnum og stórhríð í bland sé eitthvað sem fæli svo mikið frá að ferðaþjónusta á þessum árstíma sé dauðadæmd.
![]() |
Sjö þúsund ferðamenn til landsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.12.2012 | 14:23
Það var hlegið að Japönum, - en ekki lengi.
Japan var gjörsigrað land 1945 og stærstu borgir landsins í enn meiri rústum en borgir Þýskalands.
Báðar þjóðirnar voru á botni niðurlægingarinnar. Framundan var talin vera yfirburðaöld Bandaríkjanna á öllum sviðum.
Um 1950 stóð bandaríski bílaframleiðandinn Preston Tucker frammi fyrir dómstóli. Hann hafði dirfst að setja af stað framleiðslu á stórkostlegum bíl, hlöðnum tækninýjungum, en tafist og auk þess fengið á sig málaferli og þingrannsókn, sem runnin voru undan rifjum stóru bílaframleiðendanna og þingmanna ríkja, þar sem bandarísk bílaframleiðsla var hvað öflugust.
Tucker tókst að verjast en það var búið að stöðva hann. ´
Í lok réttarhaldanna sagði Tucker að nú væri illa komið fyrir landi frelsis og réttlætis og ef svo færi fram sem horfði myndu bílaframleiðendur Japana og Þjóðverja standa uppi með pálmann í höndunum í framtíðinni.
Í dómssalnum glumdi við almennur hlátur, svo fráleit þótti þessi fullyrðing, enda hinar sigruðu þjóðir enn í eymd og volæði.
Áratug síðar hafði "þýska efnahagsundrið" fætt af sér Volkswagen sem varð vinsælasti bíll allra tíma og 30 árum síðar voru Japanir á hraðferð að bruna fram úr Bandaríkjamönnum í bílaframleiðslu og í áttina að því að eiga mest seldu bílgerðirnar í Bandaríkjunum sjálfum.
Enginn skyldi vanmeta Kínverja.
Fyrir 25 árum þótti það fjarstæða að Suður-Kórea gæti orðið eitt af helstu bílaframleiðslulöndum heims á grundvelli gríðarlegs útflutnings.
Kína er þegar komið í allra fremstu röð í bílaframleiðslu á grundvelli fjölmenns heimamarkaðar, en bíðum bara og sjáum hvað gerist þegar guli risinn færir út kvíarnar á heimsmarkaðnum þar sem þeir eiga enn eftir að hasla sér völl.
Kínverjar og Taivanar hafa þegar brotist til forystu á vélhjólamarkaðnum og gætu alveg eins gert svipað á bílamarkaðnum.
![]() |
Qoros GQ3 gegn Focus og Golf |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.12.2012 | 08:27
Kemur að skuldadögunum.
Tilhneigingin til að eyða meira en aflað er á kostnað framtíðarinnar og komandi kynslóða er stærsta vandamál mannkynsins.
Efnahagskreppan í Evrópu er rökrétt afleiðing af þessu sem og "fjárlagaþverhnípið" sem Bandaríkjamenn eru komnir fram á.
Kínverjar horfa fram á óhjákvæmilegan enda firrts hagvaxtar sem getur ekki haldið áfram endalaust.
Skuldir okkar Íslendinga eru hræðilega háar og enn og aftur sýna tölur tilhneigingu til að eyða meira en aflað er.
Verst af öllu er þó það, að sókn í auðlindir jarðar og sóun þeirra getur ekki endað nema á einn veg og á kostnað komandi kynslóða.
Og það hrun verður slíkt að hrunið vegna skuldadaganna verður hjóm eitt miðað við það.
![]() |
Bandaríkjamenn svartsýnir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.12.2012 | 22:43
Er Ágústa ekki jafngóð eða betri, Gulli?
Denise Austin er sögð kenna magnaða æfingalotu til þess að brenna af sér fimm kíló og snilldin er sýnd á netinu.
Án þess að ég hafi verið beinlínis að glápa á líkamsræktartímana, sem voru hér á morgnana á Stöð 2 um árið, finnst mér það nokkuð kunnuglegt sem ég sé með því að slá niður hér og þar í þessu myndbandi,og æfingarnar hjá Austin býsna líkar þeim sem voru sýndar á Stöð tvö.
Og þá vaknar spurningin hvort Ágústa Johnson hafi bara ekki verið jafngóð eða betri en Austin.
Og er hún það þá ekki enn, Gulli ?
Þannig að það sé hið minnsta mál að henda af sér eins og tíu kílóum í samræmi við óskir þar að lútandi?
![]() |
Losaðu þig við 5 kíló með réttum æfingum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.12.2012 | 10:19
Að fá að lifa í friði og frelsi. Að fá að lifa með reisn.
Það þykir að sjálfsögðu fréttnæmt þegar þeir sem brjóta samskiptareglur með næturhávaða, sem rænir nágranna friði, ráðast síðan á þá fyrir að hafa leitað á náðir lögreglu til þess að fá að vera í friði.
Öllum þykir sjálfsagt að hávaða- og gauragangsfíkn sumra keyri ekki um þverbak á kostnað réttar fólks til að hafa frelsi til að hvílast í næturfriði.
Öðru máli virðist nú ætla að gilda í hugum furðu margra um hina einföldu setningu í nýrri stjórnarskrá: "Öllum skal tryggður réttur til að fá að lifa með reisn."
Þeim, sem eru því andvígir, ættu, þó ekki væri nema á jólunum, að setja sig í spor fátæklinganna sem eru meðal þeirra sem þurfa á svona réttarákvæði að halda.
Eftir að hafa haft 17 mánuði til að kynna sér nýju stjórnarskrána auk fjögurra mánaða þar á undan til að fylgjast með samingu hennar, rísa nú upp menn og hártoga, snúa út úr og hæða þetta einfalda ákvæði.
Svo er að sjá að nú standi yfir lúsarleit að tilefnum á ýmsum stöðum í stjórnarskránni nýju til þess að nota þessa útúrsnúningaaðferð til þess að bregða fæti fyrir setningu hennar og étur þar hver upp eftir öðrum.
Skoðum aðeins herferðina gegn fyrrnefndu ákvæði sem dæmi.
Sagt er sem svo að í þessu ákvæði felist að ríkisvaldinu sé skylt að skipta sér af því og láta hvern borgara haga sér þannig að hann falli undir einhvers konar staðal um það hvað sé reisn.
Þetta er aðeins útúrsnúningur og gegn orðanna hljóðan í ákvæðinu þess efnis að allir eigi rétt á að fá að lifa með reisn.
Það þýðir að ekki megi meina fólki að lifa í frelsi og friði sem einstaklingar með þeirri reisn sem í því felist.
Það hefur svipaða þýðingu og sú ætlan stofnenda Bandaríkjanna að hver þegn þeirra fengi að njóta sín á eigin forsendum sem frjálsborinn einstaklingur.
Nú má heyra furðu marga, sem hafa dáðst að þessu, snúa ákvæðinu í nýju stjórnarskránni á hvolf og hamast gegn því.
Undanfarin ár hefur talsvert verið rætt um það að hamla gegn einelti með setningu laga og reglna þar um.
Einelti felst einmitt í því að ákveðinn hópur eða einstaklingur tekur sig til og leggur sig fram um að niðurlægja með háði eða aðsúgi einstakling, sem geðþótti ofsækjendanna telur að eigi skilið að sæta slíkri aðför í lengri eða skemmri tíma, jafnvel árum saman og ævilangt.
Sá sem sætir eineltinu er sviptur frelsi sínu til að hafa skoðanir og persónueinkenni, oft líkamleg, í friði fyrir öðrum, sviptur reisn sinni og sanngjarnri stöðu innan samfélagsins.
Sagan geymir ljót dæmi um það hvernig þessu var og er beitt á milljónir manna í alræðisþjóðfélögum.
Undarlegt er að sjá hvernig margir þeirra, sem hamast nú gegn þessu ákvæði, hafa í orði kveðnu sagst fylgjandi frelsi einstaklingsins til orða og athafna en leggjast nú gegn einföldu ákvæði sem verndar persónufrelsi.
Enn furðulegra að margir þessara hártogara skuli lika telja sig aðhyllast mannúðarkenningar Krists, sem einmitt lagðist gegn þeirri útskúfun sem margir verða að sæta vegna einkenna sinna og stöðu.
En greinilega þykir mikið við liggja að koma sem flestum höggum á þær umbætur sem ný stjórnarskrá felur í sér.
![]() |
Kvörtuðu og urðu fyrir árás |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 28.12.2012 kl. 19:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
27.12.2012 | 02:39
Minni hús og meiri gleði?
Sú var tíð að íþróttahús á Íslandi máttu ekki vera stærri en svo að hægt væri að iðka þar glímu eða í mesta lagi körfubolta.
Kannski var það ein ástæða þess að körfubolti ruddi sér snemma til rúms úti á landi og að bæjarfélög eins og Stykkishólmur og Sauðárkrókur eignuðust snemma góða körfuboltahefð. Svipað virðist nú vera að gerast í Afríku.
Körfubolti og glíma, það hentaði vel fyrir íslensku íþróttahúsin, enda var þáverandi íþróttafulltrúi ríkisins, Þorsteinn Einarsson, glímumaður góður.
Ég var þá ungur og fannst Þorsteinn oft vera dálítið gamaldags og forneskjulegur í tali og hugsunum þótt því væri ekki að neita að hann talaði afar fallegt mál og flutti það vel.
En einu sinni kom hann mér á óvart. Það var þegar hér reið yfir svo mikil trimm-alda að meira að segja útvarpsráð vildi láta víkja burtu svonefndum "keppnisíþróttum" af því að þær væru svo siðlausar.
Áttu íþróttaþættir helst að sýna fólk í skokki og svonefndum "almenningsíþróttum", rétt eins og knattspyrna, vinsælasta íþróttagrein heims, væri ekki almenningsíþrótt.
Á fundi einum fjölmennum þar sem umræðan stóð um þetta fór svo, að Þorsteini fannst nóg komið, því að hann kvaddi sér hljóðs og sagði hátt og skorinort nokkurn veginn þetta:
"Gott fólk. Nú skulum við staldra við og líta til fornmanna og íþrótta þeirra, því að eftir því, sem þeir gerðu, eigum við að fara, læra af þeim og hafa til fyrirmyndar."
Ég fölnaði og hélt að nú myndi steinrunnin forneskja hellast yfir okkur. En Þorsteinn kom mér á óvart þegar hann hélt áfram:
"Lesið þið fornsögurnar og íhugið hvað íþróttir fornmanna áttu sameiginlegt, samanber ljóðið: Tafl em ek ör at efla / íþróttir kann ek níu.. og svo framvegis? Ég skal segja ykkur hvað allar þessar níu íþróttir áttu sameiginlegt: Það var leikurinn, það var leikurinn, ánægjan við að takast á og etja kappi. Ég þekki engin dæmi þess úr fornsögum að greint hafi verið frá skokki manna eins og Gunnars á Hlíðarenda, Grettis eða Gísla Súrssonar um holt og móa. Nei, þar, sem þeir voru við íþróttir og létu að sér kveða, stóðu yfir leikar. "
Það sló þögn á samkomuna og féll tal manna niður.
Á tíma Þorsteins voru fjárráð knöpp og þjóðin á byrjunarstigi varðandi húsakost fyrír íþróttir. Brýnna var að minni hús risu á sem flestum stöðum en fá stór hús á fáum stöðum að mati Þorsteins.
Sonur hans var arkitekt að nafni Jes og var eðlilegt að hann legði sig eftir að teikna húsin sem voru föður hans svo mikilvæg í hugsjónabaráttu hans fyrir eflingu íþrótta sem víðast um allt land.
Sumum fannst grunsamlegt hvað Jes teiknaði mörg íþróttahús og var gantast með það að faðir hans ætti þátt í því með því að gera skilyrði um hvort tveggja, hvort hús yrði reist og hver teiknaði það, með því að svara málaleitunum um íþróttahús svona: "Það er annaðhvort yes (Jes) or no."
En mér þótti alltaf vænt um þennan vörpulega og glæsilega mann, sem hafði hugsanlega verið afreksmaður á tímum Gunnars á Hlíðarenda, og ég skildi hann vel. Og atvikið þegar hann tók af skarið á fundinum stóra var efirminnilegt.
Þá minnti hann ekki aðeins á Gunnar á Hlíðarenda heldur líka á Snorra goða og Einar Þveræing.
![]() |
Afríka framtíð körfuboltans |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.12.2012 | 20:29
Kókflöskusteppdans á bílþaki.
Rúsínudans í flösku er dæmi um skemmtileg eðlisfræðileg fyrirbæri. Hann minnir mig á það að eitt sinn fyrir um áratug setti ég tóma kókflösku upp á bílþak á meðan ég væri að taka út aðra lausa hluti úr bílnum.
Brá þá svo við, að flaskan fór að dansa steppdans á þakinu, og af því að næsti hlutur sem ég tók út úr bílnum var myndatökuvél, setti ég hana í gang og lét hana ganga samfellt í næstum mínútu á meðan kókflaskan dansaði á þakinu en færði sig smám saman út á jaðar þess þar sem hún endaði með því að detta af þakinu.
Hvers vegna flaskan gerði þetta svo að þeir, sem horfðu á sjónvarpsfréttir daginn eftir, gátu orðið vitni að því ásamt mér, er mér ekki alveg ljóst.
Svo virðist að þunnt bílþakið hafi ásamt örlítilli golu komið flöskunni til að "steppa" í takt við sveiflutíðni hins þunna þaks.
![]() |
Rúsínudans í flösku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)