Færsluflokkur: Bloggar

Kína og Evrópa á undan Ameríku.

Athugum stuttlega hvað það þýðir að geta farið í einum áfanga í lest 2300 kílómetra leið á átta stundum eins og raunin er varðandi nýjustu langhraðalest Kínverja.

Það þýðir að stigið er upp í lestina í miðborg annarrar endastöðvarinnar og sest niður til þess að nota ferðina eftir smekk og þörfum, - vinna þess vegna á tölvu, skrifa eða lesa. Ganga síðan út úr lestinni í miðborg hinnar endastöðvarinnar. Málið dautt.

Skoðum síðan til samanburðar hvernig flugferð á sömu leið liti út.

Fyrst þarf að fara í lest, rútu eða bíl frá miðborginni út á flugvöll og skrá sig þar inn 1 1/2 til tveimur klukkustundum fyrir brottför. Fljúga síðan í þrjár stundir, bíða eftir farangri, og taka síðan bíl, rútu eða lest inn í miðborgina.

Þetta tekur samtals meira en fimm stundir og ávinningurinn, miðað við lestarferðina, er aðeins þrjár stundir en umstangið margfalt meira.

Setjum síðan sem svo að ætlunin sé að fara aðeins 2/3 hluta leiðarinnar, eða um 1600 kílómetra, svipað og að fljúga héðan til borgar á miðjum Bretlandseyjum eða að fara frá París til Varsjár eða Rómar . Þá styttist lestarferðin niður í rúmra fimm stundir en flugferðalagið niður í fjórar stundir svo að ávinningurinn við að fljúga er orðin aðeins ein klukkustund en umstangið það sama.

Að lokum skulum við skoða lestarferð á milli miðborga 1/3 leiðarinnar, eða um 800 kílómetrar.

Þá styttist lestarferðin niður í tæpar þrjár stundir en flugferðalagið niður í rúmar þrjár stundir og er flugferðalagið þar með orðið lengra en lestarferðin og með miklu meira umstangi.

Við þetta bætist miklu minni orkueyðsla lestarinnar heldur en farartækjanna í flugferðalaginu.

Því veldur einfalt lögmál: Það kostar orku að lyfta flugvélinni upp í meira en tíu kílómetra hæð og yfirvinna loftmótstöðu vængjanna og skrokksins en lestin sleppur við hvort tveggja.

Þetta er sama lögmálið og gildir í samanburði þyrlu og flugvélar. Það kostar miklu meiri orku að lyfta farartæki beint upp heldur en að láta það fyrst bruna lárétt eftir flugbraut til þess að ná flugtakshraða.

Þar að auki er flughraði þyrlna aðeins 30% af flughraða þotna og færsla orkunnar og lyftkraftsins í gegnum flókinn stýribúnað og spaða miklu flóknari og dýrari en þegar um er að ræða fastan væng.

Evrópa og Kína eru á undan Bandaríkjunum í þessu efni og á komandi öld þverrandi orkugjafa á það eftir að koma Ameríkumönnum í koll.

Við Íslendingar eigum hins vegar ekkert val varðandi ferðir til annarra landa, - erum jafn háðir fluginu í því efni og við vorum háðir siglingum fyrr á öldum.


mbl.is Lengsta lestarleið heims
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábær bíll, en "jepp"-lingur hæpið heiti.

Gleðileg jól!

Það er hátíðlegt blíðuveður á suðvestanverðu landinu á þessum fagra jóladegi, þótt jólalegra hefði kannski verið að jörö væri hvít.

En búist er við hríðarveðri víðast á landinu seinna í vikunni og þá getur verið gott að vera á fjórdrifnum bíl.

Í tengdri frétt mbl.is er greint frá vali Total 4x4 Magizine á besta fjórdrifna bílnum.  

 Honda CR-V á vafalítið skilið að vera valinn besti fjórdrifi billinn, enda afar haganlega hannaður. hljóðlátur, þægilegur og traustur bíll.

Hann er einn af sífjölgandi gerða af bílum, sem kallaðir eru "jepp"lingar en er þó hæpið að orðhlutinn "jepp" í orðinu jepplingur eigi við hvað varðar marga þessara bíla, svo lágt er orðið undir þessa bíla á síðustu árum.

Með tímanum hefur það ráðið miklu um hönnun þeirra, að örfá prósent eigendanna beita þeim nokkurn tíma á torfærum eða ófullkomnum vegum eða slóðum og útlitið að miklu leyti stöðu- eða tískutákn auk þess að fjórdrifið kemur sér vel í hálku.

Athyglisvert er hve margir af þessum nýju bílum eru boðnir með framdrifi eingöngu, þannig að salan á framdrifnum bílum af sumum gerðunum, eins og Skoda Yeti og Nissan Juke, er mun meiri en á fjórdrifnum bílum af sömu gerð.

Þótt á pappírnum sé hægt að segja að 17 til 18 sentimetrar séu undir lægsta punkt á næsta flötum undirvagni, síga þessir bílar niður þegar þeir eru hlaðnir, og þá verður veghæðin allt niður í 12-13 sentimetrar og torfærueiginleikarnir orðnir jafnvel minni en á óhlöðnum venjulegum fólksbílum.

IMG_5907Myndin, sem hér sést, er tekin í kvikmyndtökuferðalagi vegna myndarinnar "Akstur í óbyggðum" inn í Innstadal í sunnanverðum Hengli. Þar sést þegar grannt er skoðað, að nýjasti fjórdrifsbílinn er með minni veghæð en hinir bílarnir og gildir svipað um marga af nýjustu "jepp"lingunum.

Þetta sést betur með því að stækka myndina með því að smella í tvígang.

Þetta þarf fólk að taka með í reikninginn þegar það velur sér bíla en jafnframt má benda á, að sumir fjölfarnir vegaslóðar á Íslandi, eins og til dæmis Landmannaleið, eru færar öllum bílum, ef ekið er á þeim með lagni.


mbl.is Honda CR-V besti fjórdrifni bíllinn 2012
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yndi jólanna í friðarins landi þegar byssurnar tala því miður annars staðar.

Gott er að eiga heima á Íslandi og njóta yndis jólanna í faðmi ættingja og vina.

Gott að vera fjarri þeim vettvangi þar sem dapurlegar fréttir eru fluttar um að byssurnar haldi áfram að tala vestan hafs og að milljón byssur, einkum öflugar hríðskiotabyssur, hafi selst í jólakauptíðinni í Floridafylki einu, þar sem búa 19 milljón manns.

Samsvarar því að 15000 byssur hefðu selst hér á landi fyrir jólin og eintakafjöldinn svipaður og hjá efstu metsölubókum hér á landi.

Og hart er víðar í heimi. Hluti herskyldu Harrys Bretaprins er samkvæmt fréttum að taka þátt í því með hersveit sinni að drepa Afgana þegar landar hans halda hátíð ljóss og friðar.


mbl.is Skaut fjóra slökkviliðsmenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleðilega hátíð !

Nú er jólahátíðin að skella á og hjá okkur hjónunum byrjar hún strax núna um þrjúleytið, vegna þess að reynslan hefur kennt þessari stórfjölskyldu upp á fjórða tug meðlima að til þess að hafa stjórn á málum, þarf að vera ein "skiptistöð" jólapakkanna, þ. e. hjá okkur Helgu.

Því fer fólkið að tínast hér inn von bráðar og nýta sér "skiptistöðina" og þar með er hittingur jólanna byrjaður.

Hann heldur svo áfram seint í kvöld þegar aftur er komið hingað til að hittast og knúsa hvert annað.

Héðan sendum við heitar jólakveðjur til allra ættingja vina og velunnara. Gleðilega hátíð!


mbl.is Jólin í gegnum linsu Óla K.
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jólin eiga ítök í öllum.

Jólahátíðin er svo sterkur þáttur í lífi Íslendinga, einkum þeirra sem fæddir eru hér og uppaldir, að enginn kemst hjá því að verða fyrir áhrifum af þeim.

Komið hefur í ljós að Matthías Máni Erlingsson gat nokkurn veginn gert það sem hann vildi í undanfara stroks síns, strokinu sjálfu og tímanum eftir það.

Ekki er að sjá, miðað við þann búnað sem hann kom sér léttilega upp eins og ekkert væri auðveldara, annað en að hann hefði þess vegna getað verið á ferli að eigin geðþótta lengi enn.

Er það sannarlega umhugsunarefni fyrir yfirvöld þessara mála og minnir á sögunar, sem ég greindi frá hér um daginn sem dæmi um það hvernig útsmognir og bíræfnir fangar geta rassskellt eftirlitsaðilana og afhjúpað máttleysi þeirra.

En jólin og tilhugsunin ein um þau og nánustu ættingja frekar en viðbúnaður lögreglu og eftirleit virðast hafa ráðið úrslitum um það að hann gaf sig fram og ákvað að láta staðar numið í þetta sinn.  

Það var athyglisvert að húfan hans fannst ekki steinsnarf frá fangelsinu fyrr en á öðrum degi eftir flóttann og að játað var fyrst nokkrum dögum eftir strokið að eini staðurinn, sem öruggt væri að strokfanginn væri ekki á, væri Litla-Hraun.

Þó ekki fyrr en eftir dauðaleit með sporhundi!


mbl.is Aðstandendur Matthíasar fegnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Á hverju svæði jólasveinn".

Jólasveinarnir láta sér fátt um finnast þótt ekki sé mokað, eins og sést í tengdri frétt á mbl.is og hafa eins og alltaf komið reglulega til byggða, "á hverjum degi jólasveinn" eins og segir lagi með því nafni, sem til sungið með mér af hinni 3ja ára Lilju Sóley Hauksdóttur og Stórsveit Reykjavíkur.  

Nú er sá síðasti, Kertasníkir, að koma, og kannski viðeigandi að birta hér á bloggsíðunni, í heilu lagi nýja og viðbætta útfærslu á textanum "Á hverjum degi jólasveinn" sem hefur birst smám saman myndskreyttur undir heitinu "Á hverjum degi jólasveinn" á vefnum framtidarlandid.is. en þar kemur fram að jólasveinarnir fylgjast að sjálfsögu vel með þessa dagana þegar rifist hefur verið um rammaáætlun á Alþingi og hafa dreift sér um virkjanasvæðin á leið sinni til byggða eins og sést á neðanskráðum texta. Og þekkja jafnvel svæðin betur en flestir í mannheimum. Stekkjastaur valdi sér línustæði Skrokköldu- og Hágönguvirkjana.  

Á HVERJUM DEGI OG HVERJU SVÆÐI JÓLASVEINN.

Þrettán dögum fyrir jól

þá fer Stekkjastaur á ról

og staulast ofan´af fjallinu

strax með fyrsta fallinu.

Þeir koma´af fjöllum einn og einn

á hverjum degi jólasveinn.

                                      Starir hann á stauraval

                                      á stórri línu´er reisa skal.

                                      Og reyndar nóg að sýna´honum

                                      af risavöxnum línunum.

                                      Á svæðið mætir, einn og einn,

                                      alla daga jólasveinn.

Næstur á eftir Stekkjastaur

steðjar karlinn Giljagaur.

Upp við hesthús hest sér fær,

á honum þeysir og skellihlær.

Þeir koma´af fjöllum, einn og einn,

alla daga jólasveinn.

                                      Við Trölladyngju´hann töltir og

                                      tiplar svo við gilið Sog.

                                      Með læk, sem veitir ljúfan yl

                                      hann labbar um hið fagra gil.

                                      Á svæðið mætir, einn og einn, -

                                     alla daga jólasveinn.

Í fyrradag kom Stekkjastaur

og stefndi´á bæinn Giljagaur.

Strax á eftir Stúfur fer,

svo stuttur í annan endann er.

Þeir koma´af fjöllum, einn og einn,

á hverjum degi jólasveinn.

                                      Í Eldvörp Stúfur ólmur fer.

                                      Það á að reisa virkjun hér.

                                      Af orku´hún tekur allan kúf, -

                                      mun augljóslega stinga´í stúf.

                                      Á svæðið mætir, einn og einn, -

                                      á hverjum degi jólasveinn.

Þvörusleikir, sláninn sá,

í sleifarnar vill ólmur ná.

Með eina þeirra, einn og sér

upp að Kárahnjúkum fer.

Þeir koma´af fjöllum, einn og einn

á hverjum degi jólasveinn.

                                    Um Hálslón sláninn slær sér far, -

                                    með sleif hann rær á báti þar.

                                    Hossast hann í rugginu,

                                    hrærandi í grugginu.

                                    Á svæðið mætir, einn og einn, -

                                    alla daga jólasveinn.

Pottaskefill skjótur er

að skafa´úr pottum, sem hann sér.

Flækist hann í Flóanum

og fer þar víða´í móanum.

Þeir koma´af fjöllum, einn og einn, -

á hverjum degi jólasveinn.

                                 Íhugull hann athugar

                                 allt, sem muni breytast þar

                                 ef þar hverfa unaðshnoss,

                                 Urriðafoss og Búðafoss.

                                 Á svæðið mætir, einn og einn, -

                                 alla daga jólasveinn.

Pottaskefill skjótur var

að skafa´úr pottum alls staðar

ef hann stalst í eldhúsið

með Askasleiki sér við hlið.

Þeir koma´af fjöllum, einn og einn, -

á hverjum degi jólasveinn.

                               Við Leirhnjúk Sleikir leikur sér

                               og ljúft um Gjástykki hann fer.

                               Inn í gíga, gjár og hraun

                               geysist hann á sleða´á laun.

                               Þeir koma´af fjöllum, einn og einn, -

                               á hverjum degi jólasveinn.

Skakkur Hurðaskellir er.

Hann skellti hurð á tána´á sér.

Af glym og drunum háum þrífst.

Þeir koma´af fjöllum, einn og einn, -

á hverjum deg jólasveinn.

                               Norðlingaölduveitu´ei vill.

                               Veit að hún er fossum ill.

                               Dynk vill friða fyrir rest,

                               þann fossa mestan hrossabrest.

                               Á svæðið mætir, einn og einn, -

                               alla daga jólasveinn.

Skyrgámur er skondinn kall, -

af skyri´og jógúrt borðar fjall.

Skyrið mjög svo mikið fann

í mjólkurbúi´á Selfossi´hann.

Þeir koma´af fjöllum, einn og einn

á hverjum degi jólasveinn.

                              Við Skaftá hann sér brá á braut.

                              Við Búland leit hann fossaskraut

                              við sætan seiðinn fossanna,

                              sem menn vilja uppþurrka.

                              Á svæðið mætir, einn og einn, -

                              alla daga jólasveinn.

Bjúgnakrækir kemur njæst,

í kjötgeymslu sig hefur læst.

Í Mývatnssveit hann mættur er,

því margs að spyrja er nú hér.

Þeir koma´af fjöllum, einn og einn,

á hverjum degi jólasveinn.

                             Um Bjarnarflag nú stendur styr.

                             Um stóra virkjun margs hann spyr:

                             Er þar alltof miklu hætt?

                             Að afleiðingum lítið gætt?

                             Á svæðið mætir, einn og einn,

                             alla daga jólasveinn.

Mjög gat Bjúgnakrækir kæst.

Í kjötgeymslu sig hafði læst

og lokast inni, það galna grey,

svo Gluggagægir fann hann ei.

Þeir koma´af fjöllum einn og einn

á hverjum degi jólasveinn.

                             Frá Bitru Gægir brölti´um nótt

                             beint til Hveragerðis skjótt.

                             Á Hótel Örk þá gat hann gægst

                             á glugga er allt stóð sem hæst.

                             Á svæðið mætir, einn og einn, -

                             alla daga jólasveinn.

Gáttaþefur hnerrar hátt

og hristir nefið stórt og blátt.

Er á Hellisheiði´hann var

heldur slæmt var loftið þar.

Þeir koma´af fjöllum, einn og einn,

á hverjum degi jólasveinn.

                             Með viðkvæmt nefið hátt´hann hrein, -

                             það hafði skynjað brennistein.

                             Er napurt loft um nasir drakk

                             nefið bólgnaði og sprakk!

                             Á svæðið mætir, einn og einn, -

                             alla daga jólasveinn.

Ketkrókur, hann kemur svo

með kjúklingaleggi tuttugu og tvo.

Til Krýsuvíkkur krækti´í far.

Á hverjum vill þá sjóða þar.

Þeir koma´af fjöllum, einn og einn, -

á hverjum degi jólasveinn.

                                Byggja´á glás af borholum

                                og býsn af gufuleiðslunum,

                                möstrum, línum, mannvirkjum

                                svo mætt sé álversþörfunum.

                                Á svæðið mætir, einn og einn, -

                                alla daga jólasveinn.  

Kertaljósin loga skær

er loks til byggða brotist fær

Kertasníkir, karlinn sá,

sem kemur sjálfum jólum á.

Þeir koma´af fjöllum, einn og einn, -

á hverjum degi jólasveinn.

                                      Hann að sníkja´er alltaf að, -

                                      ef raflínur brotna´í spað

                                      í grimmdarhríð og gaddhreti

                                      hann gefur kertin Landsneti.

                                      Í myrkri reddar öllu einn

                                      upplýsandi jólasveinn.

Þeir koma´af fjöllum, einn og einn, -

á hverjum degi jólasveinn.

Á svæðið mætir, einn og einn, -

alla daga jólasveinn.


mbl.is Mokstursmenn ljúka störfum fyrir kl. 16
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reykhólaframleiðslan hefur spjarað sig.

Það voru ekki allir vissir um réttmæti þess að hefja þörungavinnslu á Reykhólum á sínum tíma og á tíma blés ekki byrlega í rekstrinum.

En þangauðæfi Breiðafjarðar eru mikil að vöxtum og þrátt fyrir andstreymi í ýmsum framleiðsluiðnaði á landinu hafa Reykhólar spjarað sig og þar hafa verið fundnar nýjar leiðir til þess að efla og víkka út framleiðsluna.

Þetta er gott að sjá á erfiðleikatímum og sýnir að blanda af hugmyndaauðgi, þekkingu og útsjónarsemi getur skilað miklu í þjóðarbúskapnum.


mbl.is Framleitt til manneldis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þurfti ekki rannsókn til.

Guðmundur jaki sagði það einu sinni við mig að sig undraði oft að það þyrfti hámenntað fólk til að stunda rannsóknir sem gæfu niðurstöður sem allir vissu fyrirfram.

Sú niðurstaða að 80% landsmanna ætli ekki að kaupa bíl á næstu sex mánuðum er engin frétt. Meðalaldur bíla á Íslandi er yfir tíu ár og jafnvel þótt jafn mikið væri keypt af nýjum bílum og að meðaltali síðustu tíu árin myndu 95% landsmanna svara þannig að þeir ætluðu ekki að kaupa nýjan bíl næstu sex mánuðina.

Þá er eftir að skoða, hverjir ætla að yngja upp eða skipta um bíl, en það gerist auðvitað oftar heldur en að fólk kaupi nýjan bíl, og raunar er talan 20% sem gætu hugsanlega skipt um bíl á næstu sex mánuðum hreint ekki svo lág.


mbl.is Fæstir kaupa bíl í næstu framtíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veðuröfgar magnast.

Fyrsti áratugur 21. aldarinnar sá hlýjasti síðan reglubundnar mælingar hófust fyrir meira en einni og hálfri öld. Hvernig má það þá vera að það stefni í nýtt kuldamet hér á landi?

Raunar er ekki gefið að spáin rætist. Ekki er víst að í henni sé það tekið með í reikninginn að hafís er með allra minnsta móti norður af landinu, en sjávarhitinn getur haft áhrif á hita loftsins í neðstu loftlögum þegar það fer yfir sjó.

En það er ekki nýtt að veðuröfgar, allt frá metkulda til methlýinda, séu á ferðinni á sama tíma.

1918 var hér mesti frostavetur aldarinnar og þá var kuldametið sett á Grímsstöðum á Fjöllum.

En í kjölfarið fór mesta hlýindaskeið í margar aldir, þótt nú virðist stefna í enn hlýrra skeið.

Hvert einasta ár síðan um aldamót hefur verið hlýrra en í meðalári og kuldakast núna mun engu breyta um það að árið 2012 verði með hlýjustu árum.

Þó kom feikna stórhríð í byrjun september.

Á hlýindaskeiðinu á 3-6 áratugnum komu mörg öfgafull veður, Halaveðrið 1925, mannskaðaveðrið 16. september 1936 þegar Pourquis pas? fórst, ofviðrið sem sökkti öllum sjóflugvélaflota hernámsliðsins á Skerjafirði í miðju stríðinu, og stundum metsnjókoma, til dæmis í febrúar 1952 og snjóafárið mikla á útmánuðum á Austurlandi þegar "snjóbíll Gvendar var til taks" eins og segir í textanum.

Meðan enn er hið mikla íshvel Grænlandsjökuls við bæjardyr okkar og enn ís á norðurskauti, auk myrkvaðrar víðáttu að vetrarlagi nyrst í Kanada og Síberíu, geta myndast stórir "kuldapollar", sem ekki aðeins sækja suður á bóginn við vissar aðstæður, heldur búa til meiri óveður en áður hafa þekkst þegar kalda loftið lendir í árekstri við hlýja loftið, sem kemur úr suðri, og lægsti meðalloftþrýsingur á jörðinni fyrir suðvestan Íslands tekst á við næsthæsta þrýstinginn yfir Grænlandi.


mbl.is Verður 45 stiga frost?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breiddin og fjölbreytnin ráða miklu.

Síðasta áratuginn hafa ráðamenn Ford lagt áherslu á að Focus og Mondeo hefðu sportlega aksturseiginleika, væru framleiddir það víða að kalla mætti þá "heimsbíla" og nú síðast að bjóða upp á magnað úrval af útfærslum og vélum.

Það hefði þótt saga til næsta bæjar allt fram að þessu að meðalstórir bílar væru boðnir með þriggja strokka smávélum sem væru innan við 1000 cc að rúmtaki.

En svona eru minnstu Ecoboost vélarnar og framleiða þó 122 hestöfl.

Nú hefur Benz gefist upp á "skynsamlega" A-bílnum og kynnt gjörbreyttan A-bíl, sem leggur mest upp úr sportlegum aksturseiginleikum sem geti keppt við Audi 3, BMW 1 og Ford Focus.

Svo mikil áhersla er lögð á útlit nýju A-línunnar að erfitt að komast inn í aftursætið vegna þess að gluggalínan er bogadregin niður á við, eingöngu útlitsins vegna en ekki vegna þess að það gefi neitt í minnkun loftviðnáms.

Spennandi barátta er framundan í þessum stærðarflokki.


mbl.is Vinsælasti bíll ársins 2012
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband