Færsluflokkur: Bloggar

"...það er nefnilega vitlaust gefið..."

Ofangreind ljóðlína Steins Steinarrs eiga vel við um efnahagslíf Íslendinga nær samfellt í 85 ár, eða síðan íslenska krónan var leyst frá tengslum við dönsku krónuna.

Hægt er að nefna örfá ár á þessu tímabili sem undantekningu frá þessu, svo sem fyrstu ár Viðreisnarstjórnarinnar og það tímabil sem fylgdi í kjölfar Þjóðarsáttarinnar á tíunda áratugnum og fram á tvö fyrstu tvö ár þessarar aldar.

Með verðbólgu og rangri gengisskráningu hafa stjarnfræðilegar upphæðir verið færðar ranglega á milli þjóðfélagshópa og hámarki náði þetta í "gróðærinu" og óhjákvæmilegu hruni, sem fylgdi í kjölfarið.

Þensluhvetjandi stefna frá árinu 2002 spólaði styrk krónunnar upp úr öllu valdi og olli því að lán og gjaldeyrir voru á útsölu.

Afeiðingin varð fjórföldun skulda heimila og fyrirtækja á þeim tíma sem góðæri af eðlilegum völdum hefði átt að hafa þau þveröfugu áhrif að auknar tekjur yrðu notaðar til að borga niður skuldir og losna við klafa vaxtanna.

Í sjógangi er kemur öldudalurinn óhjákvæmilega á eftir öldunni. Ekkert getur komið í veg fyrir það nema að leita orsakarinnar, sem er vindurinn sem knýr öldurnar, sá fellibylur rangrar hagstjórnar sem við berjumst nú við.

Það er búið að vera vitlaust gefið síðan 2002 og af því súpum við seyðið.  


mbl.is Erlendar skuldir 30% of háar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Man eftir hinu beina sambandi.

Obama Bandaríkjaforseti er æðsti embættismaður og valdamaður þjóðarinnar og kosinn milliliðalaust af þjóðinni í embætti. Það er greinilegt að hann er meðvitaður um þetta.

Obama gæti eytt tíma sínum eingöngu í bráðnauðsynleg störf í Hvíta húsinu, enginn efar það, enda þjóðin, sem hann þjónar, þúsund sinnum stærri en við, Íslendingar.

En æðsta skylda hans er þó að hans mati sú, að halda sem beinustu og milliliðalausustu sambandi við þjóð sína.

Það gerir hann svikalaust og hefur enginn fyrirrennara hans komið fram í fimm sjónarpsviðtölum yfir sömu helgina.

Hann man greinilega eftir því þessa daga hjá hverjum hann er í vinnu.


mbl.is Obama á útopnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ngo Dinh Diem - Hamid Karzai.

Það er óhjákvæmilegt að bera ástandið í Afganistan saman við ástandið í Vietnam á sjöunda áratugnum.

Til að gæta hagsmuna sinna studdu Bandaríkjamenn Ngo Dinh Diem sem æðsta valdamann til að byrja með en fljótlega kom í ljós vaxandi spilling stjórnar hans.

Undirliggjandi ástæða var áreiðanlega sú að tvær samtvinnaðar ástæður valda því að valdsherrar, sem verða að treysta á stuðning utan lands frá, missa völd.

Annars vegar slævir hinn erlendi stuðningur þá og gerir þá æ háðari hinu erlenda valdi og samtímis missa þeir traust samlanda sinna vegna spillingarinnar og nýrrar kúgunar sem þessu er samfara.

Ngo Dinh Diem var úr röðum kaþólikka og varð því aldrei neitt sameiningartákn. 

1963 urðu Bandaríkjamenn að losa sig við Ngo Dinh Diem með því að styðja uppreisn hershöfðingja sem létu lífláta hann.

Núverandi forseti Afganistan, Hamid Karzai, er um margt í svipaðri stöðu og Ngo Dinh Diem var í Vietnam fyrir hálfri öld. Spillingin í kringum hann verður æ sýnilegri og eru vísbendingar um stórfellt kosningasvindl aðeins eitt dæmið um það. 

Engu stórveldi hefur tekist að ráða við mál í Afganistan.

Ferill Bandaríkjamanna þar er full af hræsni. Þeir studdu talibana gegn Rússum og þá byrjaði ópíumrækt þeirra sem er eitt stærsta vandamál landsmanna. 

Þegar Rússar voru farnir risu talibanar að sjálfsögðu gegn Bandaríkjamönnum. 

Rétt eins og í Vietnam eru landslag og aðstæður ákaflega óhagstæðar erlendum herjum og því bendir margt til þess að hernaður Bandaríkjamanna þar verði álíka vonlaus og hann var í Vietnam.  


mbl.is Enginn hernaður á Friðardaginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skaðleg afneitun.

Frá því að Adolf Hitler ritaði bók sína "Mein Kamph" og þar til slökkt var á síðustu ofnunum í Auswitch liðu ríflega tuttugu ár. Allan þann tíma lá ljós fyrir sú fyrirætlun hans og hugsjón að hreinsa Evrópu af Gyðingum.

Í öllum löndum þar sem hann komst til valda var þetta opinbert og augljóst og það er aldeilis ótrúleg bífræfni hjá forseta Írans að mótmæla því sem allar þessar þjóðir upplifðu og reyndu af hendi þessa brjálæðings.

Þessi afneitun er skaðleg því hún kemur fyrst og fremst Írönum og skoðanabræðrum forsetans í koll og hleypir illu blóði í þær deilur sem nú eru hvað hættulegastar fyrir heimsfriðinn.

Hún er svona álíka trúverðug og að Bandaríkjamenn afneituðu því nú að hafa varpað kjarnorkusprengjum á Hiroshima og Nagasaki eða að Bretar afneituðu því að hafa gert loftárásina á Dresden.


mbl.is Evrópusambandið fordæmir ummæli Ahmadinejads
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Speglar ástandið.

Ef rétt er að verið sé að kyrkja starfsemi St. Jósepsspítala hægt og hljótt þá speglar það ástandið í íslensku þjóðfélagi sem stefnir í meiri samdrátt opinberrar starfsemi en dæmi eru um.  

Orðið speglar er vel við hæfi, því að sú starfsemi spítalans sem annast speglanir er snar þáttur í starfsemi hans og sjálfur hef ég kynnst því hve gott starf er unnið þar. 

Það þarf því að svara spurningunum um það hvert sú starfsemi fari og hvort hún verði nægilega öflug.

Speglanirnar eru oft fyrirbyggjandi aðgerðir sem geta komið í veg fyrir óþörf veikindi og dauðsföll. Veikindi og ótímabær dauðsföll eru gríðarlega kostnaðarsöm og sársaukafull fyrir þjóðfélagið og sem ánægður viðskiptavinur þessarar góðu þjónustu er mér hvorki persónulega né fyrir hönd annarra sama um það hvað verður um hana.

Svo að slegið sé á léttari strengi hef ég spurst fyrir um það hjá öðrum heilbrigðisstofnunum hvort þar séu viðrekstrarherbergi eins og er í St. Jósepsspítala og fengið dauf svör. Eftir veru mína í slíku herbergi að lokinni ristilspeglun þarna suður frá skildi ég þar eftir þessa þakkarvísu til læknisins:

 

Ristilspeglun indæl er   / 

með útkomunni glæstri.  /

Ánægður ég þakka þér  /

með þarmalúðrablæstri.   

 

Fyrir ristilspeglunina er maður láttinn laxera heima hjá sér og ég var ekki nógu ánægður með leiðbeiningablaðið, sem fengin er sjúklingum í hendur þar sem aðeins er tilgreint að maður eigi að taka inn meðalið og ganga síðan um þar til það fer að virka.

Ég vildi fá nákvæmari upplýsingar um þessa laxeringargöngu og setja hana í vísuformi sem viðbót inn á eiðbeiningablaðið:

 

Laxeringin gengur glatt   /

ef gætir þú að orðum mínum.  /

Þú átt að ganga, -  ekki of hratt  /

og alls ekki í hægðum þínum.  


mbl.is St. Jósefsspítala lokað hægt og hljótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðvitað mest lesið.

Enn einu sinni virðist það lögmál ráða að það sem fólk hyllist helst til að lesa sé um sex eða ofbeldi.

Að minnsta kosti er fréttin um nakta manninn í Hagkaupum mest lesin þá stundina sem ég set þennan pistil á blað.

( Blaðamaðurinn sem skrifaði fréttina kann greinilega ekki að beygja orðið Hagkaup, sem í þessu tilfellli beygist svona:  Hagkaup  - um Hagkaup - frá Hagkaupum - til Hagkaupa. )

 

Fljótt var vörðurinn vakinn /

og vandræði á að bresta. /

Það nægði að vera nakinn /

svo næðist athyglin mesta. /


mbl.is Nakinn og til vandræða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skugga-Sveinn fær ekki að vera í friði.

Marardalur er einn af frábærum náttúrufyrirbærum sem finna má í nágrenni Reykjavíkur. Þetta er grasi gróinn dalur, umluktur bröttum brekkum á alla vegu undir vesturhlíð Hengilsins.

Á einum stað er hægt er ganga upp með litlum læk um hamrahlið inn í dalinn úr suðurátt og opnast hann þá göngufólki á afar áhrifaríkan hátt.

Gönguferð frá Nesjavallavegi suður með dalnum og síðan upp með læknum fyrrnefnda getur verið aldeilis frábær náttúrunautnar- og sagnaferð, því að ímyndunaraflið fær vængi við inngang í svona magnaðan sagnasýningarsal, eins og sérvalinn fyrir töku á vestra.

Sagt er að Matthías Jochumsson hafi haft Marardal í huga sem aðsetur Skugga-Sveins þegar hann skrifaði leikritið Útilegumennina, sem er brautryðjendaverk á Íslandi og fyrirrennari íslenskra leikrta og kvikmynda.

Ég var að vona að Marardalur lægi ekki svo beint við fyrir hugsununarlausasta vélhjóladellufólkið að það færi líka þangað inn til að spæna upp jörðina.

En það er misjafn sauður í mörgu fé, einnig meðal þess fjölmenna hóps, sem hefur yndi af vélhjólum af öllum stærðum og gerðum.

Það særir stolt mitt sem Snigill númer 200 að innan raða vélhjólafólks sé að finna menn sem ég hef sjálfur séð að hafa farið hamförum á ótal gönguleiðum í nágrenni Reykjavíkur, þeirra á meðal leiðinni suður með Henglinum að vestanverðu.

Sumum er ekkert heilagt.

Halldór Blöndal spólar hugsanlegu virkjanlegu afli í Gjástykki úr 30 megavöttum upp í 50 í Morgunblaðsgrein í dag og sér ekkert annað merkilegt eða áhugavert við það svæði.

Umhverfisspillar á hjólum sjá Marardal og gervallt landið aðeins sem æfingasvæði fyrir sig.

Hvorki heimsundrið Gjástykki né Skugga-Sveinn fá að vera í friði.  


mbl.is Ekið utan vega í Marardal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig væri þá að láta það hafa forgang?

Einn bjartasti þáttur framtíðar Íslands er möguleikinn á að knýja bíla- og skipaflotann með vistvænni orku. Um þetta er svo sem mikið talað en lítið gert. Í raun mætir þetta afgangi og Íslendingar eru enn á eftir nær öllum nágrannaþjóðunum um að minnka útblástur bílaflotans.

Réttast væri að tryggja strax hvar eigi að taka þessa orku í stað þess að ráðstafa henni stjórnlaust til erlendra risafyrirtækja sem í raun taka heilu landshlutana í pant svo að aðrir og betri kostir komast ekki að.


mbl.is Ólafur Ragnar í viðtali
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Makalaus uppgangur í Kína.

Uppgangurinn í bílaframleiðslu Kínverja hefur verið ævintýralegur síðustu árin og á það sér naumast fordæmi.

Sem dæmi má nefna að á síðustu árum hefur framleiðslan þar aukist um eina milljón bíla á ári, en það eru fleiri bílar en Ítalir framleiða og hátt í það eins margir og Bretar framleiða.

Á árunum 2002-2007, fimm ára tímabili, jókst framleiðslan úr rúmri einni milljón bíla upp í rúmar fimm milljónir, fimmfaldaðist á fimm árum.

Þeir framleiða allar mögulegar stærðir og gerðir bíla, til dæmis fleiri Buick bíla en Bandaríkjamenn sjálfir.

Bandaríkjamenn og margar aðrar þjóðir skulda Kínverjum ævintýralegar fjárhæðir sem engum hefði komið í hug fyrir 10-20 árum að gæti gerst.

Að því leyti til eru Kínverjar í svipaðri stöðu og Bandaríkjamenn voru gagnvart bandamönnum sínum í lok heimsstyrjaldarinnar síðari. Þetta er orðin hættuleg staða fyrir báða aðila.

Fyrir margt löngu var sagt að Kína væri sofandi risi og eins gott að hann vaknaði ekki.

Svo liðu áratugirnir og þetta gerðist ekki, en risinn er svo sannarlega vaknaður.


mbl.is Verði stærstu bílasmiðjur veraldarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bernskufantasía sonar karls og kerlingar í koti.

Ein af fyrstu minningum mínum felst í því að mér þótt skrýtið að einn dag á hverju ári blöktu fánar við hún á Íslandi án þess að það værí stórhátíð og þegar ég spurði af hverju var svarið: "Það er verið að flagga fyrir kónginum."

Síðan færðist þessi siður yfir á forsetann og finnst mér út í hött að viðhalda þessum sið sem upphaflega var af hollustu við einvaldskonung, þótt Kristján 9, afi Margrétar, væri svosem ekki einvaldskonungur.

Hvað um það, - í þann tíð voru vinsælustu tímarit á Íslandi "Hjemmet" og "Familie Journalen" og þar var mikið fjallað um danska kóngafólkið.

Kom fljótlega í ljós að sonardóttir konungs væri jafnaldra mín og líklegur erfingi krúnunnar.

Amma mín Sigurlaug las oft fyrir ævintýri, og voru sum þeirra um son karls og kerlingar í koti, sem datt í lukkupotinn og giftist prinsessunni og eignaðist með því kóngsríkið.

Í barnafantasíum mínum urði til ný ævintýri um son karls og kerlingar í íslenska kotinu sem gengi að eiga ríkiserfingjann, sem hét því ágæta nafni Margrét Þórhildur.

Síðan varð Ísland lýðveldi og þessi einhver elsta barnafantasía mín gufaði auðvitað upp.

Og þó ekki alveg, því í hvert skipti síðan, sem flaggað er fyrir íslenska þjóðhöfðingjanum kemur hún upp í hugann sem skemmtileg og skrýtin æskuminning.

Og meira en hálfri öld síðar kom í ljós að það hafði þó verið ágætt að hafa verið þegn Danakonungs fyrstu æviárin, því að Ragnar, elsti sonur minn, fékk afslátt af skólagjöldum í dönskum háskóla vegna þess.


mbl.is „Margrét er geðþekk“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband