Færsluflokkur: Bloggar
18.9.2009 | 13:43
Hlunnfarnasta tónskáld sögunnar.
Höfundur lagsins "Happy birthday to you" er vafalaust hlunnfarnasta tónskáld heimssögunnar því að líklega er þetta mest sungna lag veraldar og yfirleitt aldrei fært til bókar.
Ég hef oft velt því fyrir mér hvílíkur milljarðamæringur hefði höfundurinn hefði getað orðið ef hann hefði fengið höfundarréttargjöld greidd í hvert sinn.
Sem aftur leiðir hugann að því hvort fólki hefði fundist það réttlátt fyrir lag og texta sem vafalaust hefur tekið lágmarkstíma að semja.
Það minnir mig á það sem ég heyrði Magnús heitinn Ingimarsson eitt sinn segja við konu í kvennakór sem spurði hvort hanan gæti útsett ákveðið lag fyrir sig.
"Jú", svaraði hann. "Og hvað þarf ég að borga mikið fyrir það?" spurði konan. "150 þúsund krónur", svaraði Magús. ´
"Ég trúi þér ekki," svaraði konan, að þú takir svona mikið fyrir að gera þetta", greinilega stórhneyksluð.
"Nei," svaraði Magnús. "Ég sagði aldrei að ég tæki 150 þúsund krónur fyrir að gera þetta, heldur aðeins hvað þetta kostaði."
"Hvað meinarðu?" spurði, konan, ringluð.
Það stóð ekki á svarinu hjá Magnúsi. "Ég tek 20 þúsund fyrir að gera þetta, en 130 þúsund fyrir að geta það."
![]() |
Obama söng afmælissönginn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.9.2009 | 16:58
Skjóta fyrst og spyrja svo.
Enn blasir við okkur dæmi um það að í raun skipti mat á umhverfisáhrifum máli vegna þess að búið er að fara af stað án þess að spyrja allra spurninga um framkvæmdir.
Ég hef bent á gott eða öllu heldur vont dæmi um þetta varðandi tilraunarboranir við suðvesturenda Trölladyngju fyrir sunnan Hafnarfjörð þar sem þegar er búið að valda slíkum umhverfisspjöllum án nokkurs mats á umhverfisáhrifum, að slíkt mat á raunverulegri virkjun verður nánast formsatriði og breytir litlu.
Hugsanlega fer það svo að ekki verði einu sinni af framkvæmdum vegna þess hve lítil orka fannst.
Boranir, línulagnir, vegalagnir, mannvirki, stöðvarhús, álver og allur pakkinn, þar með talinn útblástur eitraðra lofttegunda og gróðurhúsalofttegunda frá virkjununum hefði átt að fara í heildstætt mat á umhverfisáhrifum áður en lagt var af stað en ekki eftir að stefnir í það að bygging risaálvers í Helguvík verði keyrt í gegn og þar með verði ekki aftur snúið eða neinu breytt.
Allt ætlaði vitlaust að verða þegar Þórunn Sveinbjarnardóttir vildi fá eins heildstætt mat á framkvæmdum vegna álvers á Bakka og eðlilegt væri.
Það var vegna þess að menn vildu skjóta fyrst og spyrja svo, hefja framkvæmdir án þess að hafa gert sér grein fyrir áhrifum þeirra og afleiðingum.
![]() |
Verulega neikvæð áhrif vegna lagningar Suðvesturlína |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.9.2009 | 23:12
Ólíkindaskepnur.
Gömlum kúreka eins og mér kemur ekki á óvart uppátæki bresku kúnna sem maður flúði undan út í á. Nautgripir af báðum kynjum eru nefnilega hreint óútreiknanlegir.
Allir vita að þessar hæglátu skepnur geta alveg sleppt sér þegar þær eru settar út í fyrsta sinn á vorin, en reynsla mín af þeim þau sumur sem ég sýslaði með þær í sveitinni var sú, að að meðaltali um það bil einu sinni á sumri slepptu þær sér alveg aukreitis og það var engin leið að finna það út fyrirfram hvenær slíkt gerðist.
Þetta lýsti sér á þann hátt, að án nokkurs aðdraganda eða sýnilegrar ástæðu tóku þær upp á því þegar þær voru reknar ofan úr fjallinu að skvetta skyndilega upp rössunum með halana beint upp í loftið og hlaupa og hendast langa leið niður á jafnsléttu, gersamlega óviðráðanlegar og þjóta þar með rassaköstum um víðan völl, svo dýrmæt mjólkin gusaðist úr júgrum sumra þeirra.
Í bókinni "Manga með svartan vanga" fjallar einn kafli um það þegar bóndinn á Strjúgsstöðum kom með kú til að halda undir ungum bolakálf á bænum.
Ég var einn heima þessa dagstund og þetta gekk brösuglega, því að kýrin var mjög stór en bolakálfurinn hins vegar lítill, alls ekki fullvaxinn, nema þá helst þar á líkamanum sem nota skyldi við þetta tækifæri.
Reyndum við ýmsar aðferðir við að vinna þennan stærðarmun upp, meðal annars með því að leiða bolapísluna upp á barð neðst í túnbrekkunni, sem bærinn stóð í og bakka kúnni inn að barðinu.
Bóndinn var mjög grannur og lítill vexti og réði illa við kúna og ekki gekk mér betur með kálfinn, sem hrataði jafnvel fram af barðinu þegar allt stóð sem hæst og allt fór í vaskinn, - ég meina grasið.
Þegar þetta fáránlega basl stóð sem hæst gerðist það allt í einu upp úr þurru að kýrnar, sem höfðu verið að bíta gras í miklum rólegheitum í brekkunni fyrir ofan okkur, urðu skyndilega eins og ærar, tóku á rás í þéttum hóp og hlupu niður brekkuna og beint á okkur, mig, bóndann og bolakálfinn.
Ég slapp naumlega á harðahlaupum, en bóndinn, sem var mjög grannur og lítill vexti, varð fyrir kúahópnum, sem ruddi honum um koll svo hann kútveltist á milli fóta þeirra eins og kefli.
Í annað skipti gerðist það í fjósinu á bænum, að þegar bóndinn ætlaði að binda nautið í fjósinu og beygði sig niður fyrir framan bolann, virtist nautið skyndilega halda að bóndinn væri kýr og hóf sig upp á hann.
Bóndanum brá óskaplega, enda fátítt að naut séu hommar, og varð skyndilega svo sterkur að hann reis upp undir nautinu og kastaði því afturábak ofan í flórinn.
Það var ógnarlegt að sjá hvað maðurinn gat orðið sterkur þegar hann reisti þetta stóra dýr upp á endann og slöngvaði því svo afturábak ofan í flórinn svo að unaðarsproti þess minnti á stinna garðslöngu, sem úðast úr.
Miðað við stöðu mála hjá nautinu var þetta ákaflega myndrænt, en ég segi bara eins og Kristján heiti ég Ólafsson, - við förum ekki nánar út í það.
Eftir þessi atvik treysti ég aldrei nokkrum nautgrip eitt einasta augnablik, sama hve gæfur hann er.
Vísa að öðru leyti um nánari lýsingar á bókina "Manga með svartan vanga."
![]() |
Stökk út í á til að forðast kýr |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
16.9.2009 | 09:31
Álvera tók ég trú.
Álvera tók ég trú. /
Traust hefur reynst mér sú. /
Fæ ég í fluor að standa /
fyrir náð heilags anda.
Amen.
(K.N., tveimur orðum breytt)
![]() |
Stærsti álframleiðandi Kína spáir í Þeistareyki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.9.2009 | 01:30
Fjórða kynslóð og þriðja gerð Trabants.
Rétt eins og eftirlíking af Bjöllunni, Mini og Fiat 500 komu á markað, hlaut að koma að Trabant.
Sami hönnuður hannaði Mini og Fiat 500 og báðir hafa ná miklu meiri sölu en búist var við.
Fyrsta kynslóð Trabants og önnur kynslóð voru aðeins ólíkar útlitslega, því að undirvagn, vél og drif voru sömu gerðar.
Færri vita, að þriðja kynslóð Trabants, sem aðeins var framleidd í eitt og hálft ár milli 1990 og 91, var með vél úr Volkswagen Póló og í stað þverfjaðranna höstu voru gormar allan hringinn undir bílnum.
Ekkert mengunarský fylgdi því þessum Trabant, sem var fyrsta alvarlega endurbót bílsins.
Ýmsar tröllasögur voru sagðar í gríni um Trabantinn, til dæmis, að hann hrykki í sundur í búta við árekstur. Ég hef séð mynd af árekstrarprófi Trabants og samkvæmt því er þetta rangt, - hann kemur furðu vel út úr því.
![]() |
Grænn Trabant í Frankfurt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.9.2009 | 09:41
Margföld dramatík.
Lát Patrick Swayse felur í sér margfalda dramatík. Hann var keðjureykingamaður og líkurnar á því að slíkir fái krabbamein svo ungir eru miklar og mun meiri en hjá þeim sem ekki reykja.
Lát hans er enn ein áminningin um grimmdarlega skaðsemi versta fíkniefnis veraldar, nikótínið.
Það er hastarlegt að svo frábærlega vel gerður maður falli frá um aldur fram.
Á sínum tíma fór ég í bíó með konu minni og dætrum á myndina Dirty Dancing.
Ég minnist þess æ síðan hvernig ég sökk æ dýpra niður í sætið í vaxandi minnimáttarkennd eftir því sem leið á myndina. Hvílíkur gaur var þessi maður og skelfing var maður nú eitthvað lítilfjörlegur í samanburðinum !
Ekki var hann síður heillandi í myndinni Ghost og æ síðan hef ég haft sérstakt dálæti á glæsileik þessa manns, sem seint verður þó talinn hafa verið snoppufríður.
Ég var í gær að skoða nokkur myndskeið á YouTube af Michael Jordan og dást af yfirburðasnilli og baráttugleði þessa einstæða afreksmanns.
Mæli með þessum myndskeiðum fyrir hvern sem er sem og að fóstra vel minninguna um Patrick Swayse og glæsileik hans.
Hann vekur auk þess til umhugsunar um tóbakið og að því leyti verður lát hans vonandi ekki til einskis.
![]() |
Patrick Swayze látinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.9.2009 | 17:58
Undarlega lífseig hugmynd.
Hugmyndin um hollustueið við stefnu flokks kom fyrst fram í ársbyrjun á fundi, sem haldinn var við Lækjargötu um hugsanlegt sameiginlegt framboð grasrótahreyfinga utan þings.
Íslandshreyfingin og ýmsir fleiri utanþingshópar féllu undir þessa skilgreiningu og því sótti ég þessa fyrstu fundi fyrir hönd hennar á meðan framboðsmál höfðu ekki verið útkljáð og ekki enn komið fram hve mikið rými umhverfismál, höfuðmál Íslandshreyfingarinnar, fengju í hugsanlegu framboði.
Mér fannst þessi hugmynd á þessum fundi um hollustueið ekki góð og mælti gegn henni.
Í fyrsta lagi taldi ég óeðlilegt að hreyfing sem ætlaði að berjast gegn flokksræði vildi einmitt negla þingmenn við þetta flokksræði með eiði.
Í öðru lagi benti ég á að verðandi þingmenn þyrftu að sverja annan eið þegar þeir settust á þing, - eið að stjórnarskránni, en innifalið í því er að hver þingmaður skuli einungis bundinn af samvisku sinni og sannfæringu.
Með því að stilla verðandi þingmönnum í þá stöðu að þurfa að sverja tvo eiða, sem gætu stangast á, væri verið að setja þá í óþolandi aðstöðu.
Í þriðja lagi benti ég á að síðast þegar svona hollustueiður var síðast unninn við forystu flokks, að því er ég best vissi, var það eiður við þýskan stjórnmálaforingja með yfirskegg fyrir sjö áratugum og hefði það ekki gefist vel.
Hugmyndin um hina órjúfandi flokkshollustu og eið þar að lútandi hvarf eftir þennan fund og ég hélt satt að segja að henni myndi ekki skjóta upp aftur.
En það gerðist samt. Nú hefur hún vonandi verið sett endanlega til hliðar. En hún hefur verið undarlega lífseig, það verð ég að segja.
![]() |
Skrifi undir heit en ekki eið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
14.9.2009 | 10:57
Björt framtíð ef...
Ég hef lengi haldið því fram að sé rétt haldið á spilum eigi Íslendingar bjartari framtíð fyrir sér en flestar aðrar þjóðir, - geti til dæmis orðið fyrsta þjóðin sem knýr bíla- og skipaflota sinn með endurnýjanlegum, hreinum orkugjöfum.
Einum þeirra kynntist ég fyrr í sumar, en það er metan.
Hingað til hefur það verið ágiskun að hægt væri að knýja 10% íslenska bílaflotans á metani með góðu móti. Þessi notkun hefur þann stóra kost að hægt er að byrja strax, án þess að búið sé að koma upp neti metanáfyllinga um landið, vegna þess að metanbílarnir geta líka gengið fyrir bensíni.

Það er þegar hægt að flytja inn metanknúða bíla, sem eru með tvískiptum eldsneytisgeymum fyrir metan og bensín, sem taka lítið meira rými en bensíngeymarnir nú.
Á slíkum bíl er í dag hægt að skjótast til Akureyrar í snögga ferð og skipta yfir á bensín þegar bensínið þrýtur í upphafi ferðarinnar til baka.
Um leið og komnar eru upp áfyllingarstöðvar nógu víða getur metan notkunin orðið nær einráð.
Útreikningar sýna að aukakostnaðurinn við að hafa bílinn metanknúinn vinnst upp að meðaltali á tveimur árum og upp frá því getur gróði eigandans farið að hlaupa á milljónum.
Gróðinn fyrir samfélagið með því að spara sér innflutning á eldsneyti hleypur þá fljótlega á milljörðum.
Mér kemur á óvart ef það er rétt að hægt yrði að knýja allan íslenska bílaflotann á metani og þörungum eins og rætt erum nú. Ekki væri það nú amalegt.

En kannski mun þetta reynast nauðsynlegt þegar menn vakna upp við vondan draum við það að risaálverin hafa tekið til sín mestalla eða alla jarðvarmaorku og vatnsorku landsins með fráleitu tjóni á mestu verðmætum þess, einstæðri náttúru.
Ef hér væri einhver framsýni myndu menn þegar taka frá þau orkusvæði, sem við viljum hafa tiltæk fyrir rafbíla okkar.
Það hefur legið fyrir að álverið í Helguvík muni krefjast allrar orku, sem fáanleg er á suðvesturlandi, og það sem verra er, - mest af orku jarðvarmasvæða þess landshluta verður uppurin eftir nokkra áratugi vegna þess að miklu meira er pumpað upp en svæðin standa undir.
Að kalla slíkt "sjálfbæra" orkunýtingu er argasta öfugmæli og okkur til háborinnar skammar að ljúga því að okkur sjálfum og útlendingum að svo sé.
![]() |
Sjálfbært Ísland í bílaeldsneyti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
14.9.2009 | 00:42
Fer aldrei í bað nema einn.
Golfíþróttin er ákaflega vandasöm íþrótt vegna þess hve gengi manna getur verið sveiflukennt. Allir kylfingar þurfa að glíma við þetta og það tekur bæði á taugarnar og getur orðið til þess að menn missi flugið.
Á undanförnum mótum hafa kannski einhverjir farið að efast um það að Tiger Woods væri besti kylfingur heims, því gengi hans hefur ekki verið gott.
En Tiger hefur sýnt og sannað aðdáunarverðan og einstakan baráttuvilja.
Hann hefur sannað það að einungi þrotlaus þjálfun, einbeitni, járnvilji og þolgæði skapa meistara.
Sanna meistara má þekkja á því hvernig þeir taka mótlæti og Tiger er þannig meistari.
Sagt er að smæstu atriði séu undir nákvæmri stjórn hjá honum og sem dæmi nefnt, að hann láti aldrei aðra sjá sig í sturtu.
Ástæðan ku vera sú að hann vilji ekki láta aðra sjá á vöðvabyggingu sinni, hvernig hann byggir líkama sinn upp, - ekki láta aðra sjá hvaða vöðva hann leggur rækt við.
Smámunasemi? Nei,- margt smátt gerir eitt stórt, margt smátt gerir meistarann stóran, jafnt í sigri og ósigri.
P. S. Man eftir skondnu atviki á leið okkar bræðra, mín og Jóns, til Svíþjóðar í sænska rallið 1981, samanber blogg á undan þessu. Á bensínstöð í norsku þorpi skammt frá landamærunum, kom í ljós að ég hafði týnt bensínlokinu af bílnum.
Ég reyndi að gera þetta skiljanlegt fyrir norska sveitamanninum, sem var að afgreiða, en hann skildi mig ekki, þótt ég notaði ýmis orð yfir þennan hlut á nokkrum tungumálum.
Að lokum bað ég hann að koma út með mér og sýndi honum, hvað vantaði á bensínstútinn. "Ja, bensínlok!" svaraði Norðmaðurinn.
![]() |
Tiger tekur forystuna í FedEx úrslitakeppninni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.9.2009 | 00:28
Gott framtak en ónákvæm fyrirsögn.
"Fyrsta fjallarallinu lokið" er fyrirsögn þessarar fréttar. Þegar síðan er skyggnst í fréttina sést að um er að ræða fyrsta fjallarallið, sem haldið er á vegum íslenskra aðila og það finnst mér vera fagnaðarefni.
Þetta er hins vegar ekki fyrsta fjalla- eða jepparallið sem haldið er hér á landi.
Alþjóðlegt jepparall var haldið hér sumarið 1983 og mig minnir að rösklega tuttugu jeppar hafi tekið þátt í því.
Þetta var býsna langt rall og sérleiðirnar líkast til um 700 kílómetra langar og um það bil helmingurinn af þeim voru leiðir sem aldrei hafa verið rallaðar í venjulegu ralli.
Má þar nefna leiðin frá Nýjadal niður með Þjórsá um Eyvindarkofaver, Syðri-Fjallabaksleið, og leið frá línuvegi sunnan Langjökuls niður í Laugardal með þremur hringjum í kringum Hlöðufell.
Allt voru þetta jeppar á stórum túttum, meðaltalið um 35 tommur, margir sérbúnir.
Undantekning voru tveir íslenskir bílar, annars vegar Þorsteinn Ingason á óbreyttum Lada Sport, og hins vegar ég og bróðir minn, Jón, á Subaru 4x4 fólksbíl.
Þetta var ógleymanlegt rall og allt öðruvísi en öll önnur röll sem við tókum þátt, bræður, meðan við kepptum saman.

Ég held að ég hafi sjaldan skemmt mér betur í ralli og ótrúlegar uppákomur í því eru efni heillanga sögu.
Okkur tókst að ná bestum tímanum á öllum leiðunum, nema einni, Sprengisandi, þar við voru með annan besta tímann. Samanlagður sérleiðatími okkar var því sá besti og Þorsteinn Ingason var skammt undan.
Læt hér fylgja með mynd af sams konar Subarubíl, sem nú er orðinn fornbíl, og ég hef notað við kvikmyndagerð á norðurhálendinu og í snatt frá Akureyrarflugvelli.
Þarna stendur hann fyrir framan kirkjuna í Möðrudal á Fjöllum.
![]() |
Fyrsta fjallarallinu lokið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)