Færsluflokkur: Bloggar
12.7.2009 | 02:11
"Spilaborgin", "Hallærisplanið" og "Flóttamannaleiðin".
Í Reykjavík og nágrenni er að finna nokkur mannvirki sem annað hvort hafa öðlastl táknræn nöfn eða munu gera það.
Ofarlega í hugum þess unga íslenska fólks, sem nú verður að flýja land, verður vafalaust hin hrikastóra bygging sem gnæfir yfir allt og alla við Borgartún í Reykjavík og verður tóm að mestu um sinn.

Á meðfylgjandi mynd sést hvernig hún blasir við séð frá Sæbraut.
Hið myndarlega stórhýsi gegnt Höfða, sem hefur hýst mörg fyrirtæki og stofnanir er eins og smáhýsi undir þessu stóra glerskrímsli sem ég vil gefa nafnið "Spilaborgin", tákn um þá spilaborg ímyndaðra verðmæta að mestu, sem hrundi yfir landið í fyrra.
Sjálfur Höfði er eins og dúfnakofi í samanburðinum.
Spilaborgin átti sér hliðstæðu á stríðsárunum og lengi eftir stríð.
Það var vegur sem Bretar lögðu ofan byggða milli Hafnarfjarðar og Suðurlandsvegar við Rauðavatn og hlaut nafnið "Flóttamannaleið" vegna þess að á þeim tíma voru Bretar á flótta undan öxulveldunum um allan heim, á Balkanskaga, í Norður-Afríku og Malasíu þar sem sjálf Sinagpore féll og 80 þúsund breskir hermenn voru teknir til fanga.
Íslendingar göntuðust með það að leiðin sú arna væri lögð til þess að breska setuliðið ætti flóttaleið frá Reykjavík þegar Þjóðverjarnir kæmu.
Síðar var þessi leið kærkomin "flóttamannaleið" fyrir þá sem vildu forðast lögreglu eða aðra eftirgrennslan.
"Hallærisplanið" þar sem nú er Ingólfstorg hlaut sitt háðska heiti vegna þess að þar þóttu afskiptir karlar í kvennaleit eða konur í karlaleit, fólk í hallæri á þessu sviði, vera í miklum meirihluta.
Í Mývatnssveit kölluðu gárungar ógnvekjandi melöldu sem stefndi inn í Dimmuborgir "Féþúfu" vegna þess að Landgræðslan sóttist eftir fjárstuðningi við að græða hana upp. Það var gert og nú ógnar sandur ekki um sinn Dimmuborgum.
"Spilaborgin" hefur tekið frá mér útsýnið sem ég hafði úr blokkinni minni til Snæfellsjökuls.
Þess vegna er mér það ekki leitt að nefna þessa risabygginu þessu nafni, sem er svo táknrænt fyrir gróðærið sem hrundi eins yfir unga fólkið sem átti að erfa landið en verður nú að gjalda fyrir ruglið sem náði hér yfirhöndinni.
Við getum leikið okkur með öll þessi nöfn í einni setningu sem lýsir ástandinu:
Trúgirni okkar var gerð að Féþúfu sem hrundi eins og Spilaborg svo að margt ungt fólk helst ekki við á því Hallærisplani sem Ísland er orðið heldur verður að flýja Flóttamannaleið til útlanda.
![]() |
Framtíðin utan Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
12.7.2009 | 00:22
Hlýnun loftslags hjálpar til.
Þessa dagana nýtur þjóðin þess að hér blása hlýrri vindar víðast hvar en gerist og gengur á sumrin. Landsmótið á Akureyri, knattspyrnuleikirnir og hvaðeina sem fram fer utan húss verður svo miklu ljúfara og skemmtilegra en í hinum dæmigerða íslenska vindbelgingi með tilheyrandi raka.
Að vísu njóta annesins fyrir norðan þessa ekki vegna áhrifa sjávar. Það er hins vegar áberandi, einkum í flugi yfir landið, að þetta loft er talsvert "erlendis" eins og Bjöggi myndi segja, - þetta er hlýr loftmassi sem umlykur alla norðanverða Evrópu.
Einn helsti ókostur íslensk veðurfars hefur verið hve sumrin hér eru kaldari en í nokkru öðru landi Evrópu, - meira að segja talsvert kaldari en í nyrstu héruðum Noregs, Svíþjóðar og Finnlands. Þetta munar nokkrum stigum og maður finnur það.
Það er hægt að sætta sig við það að það sé kalt á veturna en erfiðara á sumrin.
"Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott" var setning sem skaut eins og bjarvætti upp í koll mér þegar ég stóð frammi fyrir því að gera texta fyrir Ellý og Villa á 20 mínútum. Af því er saga sem er efni í pistil en hitt vildi ég sagt hafa að þetta má segja um allar þær ófarir sem spáð er að dynji yfir margar þjóðir vegna hlýnunar andrúmsloftsins.
Þær geta reynst mannkyninu dýrkeyptar en hins vegar er það smá sárabót ef íslenska sumarið verður hlýrra og skaplegra en áður. Íslenska sumarið er hins vegar ekki langt. Eftir aðeins átta daga verður hámarki sumarhitans náð.
Að meðaltali nær hann hámarki um 20. júlí en síðan fer næturhúmið að sækja að og hitinn að lækka.
![]() |
Vel heppnað Landsmót UMFÍ |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.7.2009 | 17:47
Opna hvað?
Fréttin um gömlu konuna sýnir tvenns konar notkun sagnarinnar að opna og er sögnin notuð á rangan eða órökvísan og ruglandi hátt í bæði skiptin.
Fréttin endar á þessari setningu: "...hundsa rauða ljósið við brúna sem gefur til kynna að hún sé við það að opna." Opna hvað? Jú, brúin er reist upp til að opna siglingaleiðina en aldrei er minnst á hana í fréttinni.
Ef marka má fyrstu setninguna mætti ætla að brúin hafi verið að opna sjálfa sig.
Í fyrstu setningunni stendur að að konan hafi fallið niður af fellibrú, "þegar hún var opnuð fyrir siglandi bát." Bíðum nú við. Var brúin opnuð til þess að báturinn gæti siglt eftir henni?
Auðvitað ekki. Brýr eru ekki opnaðar með því að reisa þær upp á endann. Brúin var ekki opnuð, leiðinni yfir hana var lokað, hún reist upp, svo að siglingarleiðin opnaðist.
Og brúin opnaði sjálf ekki neitt. Hún var reist upp.
Kannski hefur 85 ára gamla konan verið jafn rugluð og sá eða sú sem skrifaði þessa frétt og haldið að verið væri að opna brúna þegar hún var reist upp.
Fjölmiðlafólk þreytist ekki á því að nota sögnina að opna á órökréttan hátt.
Menn opna ekki lengur dyr heldur hurðirnar sjálfar. Hvernig opna menn hurðir? Með því að skera þær upp?
Ég álpaðist til að syngja þessa málleysu í lagi í á jólaplötu 1966 og sit uppi með það.
Skíðasvæðin opna, fjallvegir opna, flugvellir opna, verslanir opna, jafnvel fjöllin opna. Opna hvað?
Síðan er ruglingurinn kominn yfir á fellibrýr og Guð má vita hvað. Eru engin takmörk fyrir því hvað þessi rökleysa og málleysa getur gengið langt um jafn einfalt fyrirbæri og að opna?
![]() |
Öldruð kona féll af brú og lést |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
11.7.2009 | 11:31
Alþingishús og setning og slit þings á Þingvöllum.
Við fjórar innkeyrslur í Yellowstone-þjóðgarðinn í Bandaríkjunum stendur þessi áletrun á steinbogum hliðanna: "For the joy and benefit of the people" sem útleggst: Til ánægju og hagsbóta fyrir fólkið (þjóðina).
Hér á landi myndi orðið "hagsbóta" vera útlagt sem skipun um að virkja gríðarlega jarðvarma- og vatnsorku þjóðgarðsins en í Yellowstone var stofnaður þjóðgarður til að gera þveröfugt: Að varðveita dýrlegt sköpunarverk náttúrunnar sem ósnortnast, þjóðum heims til ánægju um ókomna tíð.
Tvær milljónir manna koma til Yellowstone á hverju ári. Til að þjóna þessu fólki eru til reiðu mörg hótel rétt utan við mörk þjóðgarðsins nálægt hliðunum að honum. Innan þjóðgarðsins er þess gætt að fólk fái þjónustu á örfáum allra fjölförnustu stöðunum.
Þar eru ekki hamborgarasjoppur á hverju horni í Yellowstone eins og Siv Friðleifsdóttir hefur haldið fram. Um garðinn liggur net 1600 kílómetra langra gönguleiða sem eru með ítölu og eftirliti svo að þeir sem þar ganga upplifi kyrrð og dýrð ósnortinnar náttúru.
Gefinn er kostur á mjög takmörkuðu gistirými á 2-3 stöðum en meginreglan er að þjóðgarðsgestir gista utan þjóðgarðsins. Í þjóðgarðinum er ekki alþjóðaflugvöllur eins og haldið hefur verið fram af sumum.
Nú er gullið tækifæri til endurskipulagningar á Þingvöllum. Þar sem Hótel Valhöll stóð er hægt að reisa snotra og fyrirferðarlitla ferðamannamiðstöð sem jafnframt er Alþingishús í lágmarksstærð með sal sem rúmar þingmenn við þingsetningu og þingslit.
Í húsinu verði lítið safn og upplýsingamiðstöð þar sem með bestu tækni er hægt að lofa fólki að kynnast sögu staðarins og sérstöðu.
Fornmenn reistu sér búðir á Þingvöllum og þar stóð lengi hús þar til niðurlægingartímabil staðarins hófst um 1800. Það er í samræmi við sögu staðarins sem þingstaðar að þar standi lítið og fallegt Alþingishús í stíl við það sem stendur við Austurvöll.
Hótel, sem rúmar þá sem vilja gista sem næst þinghelginni mætti síðan reisa utan hennar. Um það er ég sammála Birni Bjarnasyni.
![]() |
Hótelrekstur á ekki að vera í þinghelginni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
10.7.2009 | 21:16
Líkt við "geimóra" í upphafi.
Hvalaskoðun er dæmi um það sem menn hafa kallað "eitthvað annað" í niðurlægingarskyni. Í upphafi voru það hugvitssamir einstaklingar sem hófu þessa starfsemi, sem spratt að sumu leyti upp úr því ástandi sem kvótakerfið skapaði.
Ég minnist enn fréttar sem ég gerði um hvalaskoðunarbát, sem gerður var út frá Hornafirði, og notaði samlíkingu úr Bíblíunni þegar Kristur sagði við fiskimanninn við vatnið: "Héðan á frá munt þú menn veiða."
Einn af frumkvöðlunum sagði mér frá þeim múrum fordóma og vantrúar sem hann hefði rekið sig á þegar hann byrjaði þessa starfsemi. Gert hefði verið gys að henni og vonir hans um að henni yxi fiskur um hrygg kallaðar "geimórar."
![]() |
Hvalaskoðun vex hröðum skrefum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
10.7.2009 | 20:24
Dásamlegt fyrirbæri, Landsmótið.
Starfsemi Ungmennafélaganna hefur verið skilið eftir margar góðar minningar í gegnum tíðina.
Ungmennafélagið í sveitinni minni, Langadalnum, sem bar nafnið Vorboðinn, stóð fyrir íþróttamótum á bökkum Blöndu fyrir neðan Hvamm, þar sem ég var í sveit.
Þar létu systkinin á næsta bæ, Móbergi, Guðlaug Steingrímsdóttir og Valdimar Steingrímsson fyrst að sér kveða í spretthlaupum.
Guðlaug varð Landsmótsdrottning 1962 og Valdimar var lipur spretthlaupari, rann 100 metrana á 11,3 sekúndum ef ég man rétt.
Ég keppti 1964 á héraðsmóti á Laugum í 100 og 400 metra hlaupum og atti hörðu kappi við og kynntist skemmtilegum hlaupurum þar, þeim Sigurði Friðrikssyni og Jóni Benónýssyni.
Eftir 100 metra hlaupið varð maður að skjótast inn í samkomuhúsið og skemmta þar og snarast síðan út aftur til að hlaupa 400 metrana. Svona voru nú hérðsmótin og landsmótin á þessum árum.
Eftir mótið lá leiðin til Akureyrar og ekki er minningin síðri þaðan þar sem ég náði mínum besta tíma í 100 metrunum.
Sigurði Geirdal kynntist ég á héraðsmóti á Blönduósi og fór með Ólafi Unnsteinssyni og ÍR-ingum í minnisstæða keppnisferð til Svíþjóðar. Ólafur setti mark sitt á landsmótin á meðan hann var upp á sitt besta.
Líkast til eru margir keppendur og landsmótsgestir núna á Landsmótunum foreldrabetrungar hvað snertir reglusemi, að minnsta kosti ef miðað er við landsmótið í Hveragerði 1949, þar sem lögregla varð að grípa til þess umdeilda ráðs til að ná tökum á vínberserkjum að troða þeim ofan í poka og reima fyrir!
![]() |
Góð keppni í góðu veðri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.7.2009 | 17:26
"Brímans bál?"
Mér skilst að Helgi Björnsson hafi ætlað að syngja í Hótel Valhöll í kvöld og næstu föstudagskvöld. Kannski átti eitta af lögum hans að vera um "Brímans bál" eða "Ring of Fire " sem Johnny Cash gerði frægt. Nú verður varla úr því nema að Helgi syngi þetta lag utan húss á meðan brennur.
Margir hafa átt góðar stundir í þessu hóteli. Mig rámer enn í það þegar foreldrar mínir fóru fyrst með mig til Þingvalla þegar ég var fjögurra ára.
Þetta eru 3-4 minningarbrot. Hið fyrsta var þegar ekið var niður Almannagjá. Það var ógleymanlegt og ég tel að það eigi að leyfa slíkt undir eftirliti og ákveðnum reglum í hálftíma á degi hverjum.
Annað var þegar ég datt í hrauninu og blóðið fossaði úr höfðinu á mér. Hið þriðja var þegar læknirinn saumaði gatið saman.
Hið þriðja var þegar við vöknuðum í miklum hita í hótelherbergi í Valhöll morguninn eftir. Hvort brímans bál lék lausum hala hjá kornngum foreldrum mínum í þessari ferð veit ég ekki.
En fyrstu minningar mínar frá Hótel Valhöll tengjast miklum hita.
![]() |
Skíðlogar í Valhöll á Þingvöllum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.7.2009 | 21:46
Þjóðsagan um dýru jöklajeppana.
Ég endurbirti hér þennan bloggpistil frá því í sumar vegna beiðni frá SÍS, Sambandi íslenskra Súkkueigenda um að hafa aðgang að honum. Hefst þá pistillinn:
"Jöklaferðir eru bara fyrir ríkt fólk á rándýrum jeppum."
Svona fullyrðing er alger misskilningur, sem byggist á því að fólk sér fyrir sér stóra breytta jeppa sem kosta á bilinu 6-20 milljónir króna.
Síðari upphæðina, 20 milljónir, miða ég við uppgefið verð á Toyota Landcruiser í FÍB-blaðinu, sem konstar rúmar 17 milljónir óbreyttur.
Hér við hliðina er mynd af því þegar minnsti jöklajeppi landsins fær loft á loftpúðafjöðrun sína hjá Frey Jónssyni í vorferð Jöklarannsóknarfélagsins.
Síðan við hjónin urðum að selja Hiluxjeppann, sem ég notaði í fréttaferðum og kvikmyndagerð á árunum 1995-2001 vegna kostnaðar við kvikmyndagerðina, hef ég notast við jeppa sem hafa komist um jökla en þó ekki kostað meira en nokkur hundruð þúsund krónur.
Fyrst var þetta gamall Hi-lux sem keyptur var á 150 þúsund krónur og dugði í tvö ár, fór tvær ferðir á Mýrdalsjökul og eina á strandstað á Meðallandsfjöru.
Þá tók við 36 ára gamall Range Rover með jafngamalli Nissan Laurel dísilvél og á 38 tommu dekkjum.
Hann hefur verið til taks inni í girðingu við Útvarpshúsið í fimm ár og kostaði 220 þúsund krónur.
Á myndinni sést gamla Laurel-dísilvélin sem krafðist tveggja rafgeyma en aðeins einn var í bílnum þegar ég fékk hann.
Auðleyst mál. Fundinn var geymir sem passaði í gagnstætt horn án nokkurra sérstakra festinga og tengt á milli með startköplum sem fást á bensínstöðvum !
KISS ! Keep It Simple, Stupid !

Þennan bíl tel ég vera ódýrasta Range Rover jöklajeppa á landinu.
Undir nafninu RANGE ROVER á vélarhlífinni má sjá vír, sem kemur í gegnum grillið og kippt er í til að opna vélarhlífina.
Aftur KISS !
Ég fór eina ferð á honum vegna kvikmyndagerðar milli Langasjávar og Landmannalauga 2005. Þar lentu jepparnir í ferðinni í miklum hremmingum þegar þeir fóru niður um ís á Tungnaá.
Kostnaður vegna skemmdanna á hinum jeppunum skiptu hundruðum þúsunda króna, en ég slapp með 20 þúsund krónur plús einn spraybrúsa hjá Bílanausti.
Vinstri framhurð var ónýt en aflóga hvít hurð vestan úr Búðardal leysti það eins og sést þegar dyrnar eru opnaðar !
Splæsi bráðum í annan brúsa til að mála hurðarfalsið.
Í vetur fór ég á þessum bíl í vetrarferð norðan Mývatns í fylgd stórs ofurjeppa til að vera ekki einbíla.
Hann bilaði tvisvar en sá gamli aldrei ! Þessi gamli Range Rover er aðeins notaður þegar ekkert annað kemur til greina.
Það liðu þrjú ár á milli þessara tveggja ferða.
Því er nauðsynlegt að slíkur bíll sé fornbíll svo að ekki þurfi að borga ósanngjarnar álögur þann tíma sem hann stendur.
Nú síðast greip ég í hann til að draga stóran tjaldvagn fyrir dóttur mína og fjölskyldu hennar, sem þau höfðu fengið lánaðan til að fara með á mót afkomenda Láru Sigfúsdóttur og Jóhanns Jónssonar.
Síðan kemur kannski langt hlé sem hans verður ekki þörf.
Til að draga Örkina á austurhálendinu fékk ég mér vorið 2006 150 þúsund króna Toyota Hilux pallbíl árgerð 1989 fyrir 150 þúsund krónur.
Með lítilsháttar breytingum varð hann að minnsta Toytoa jöklabíl landsins og hefur dugað stórkostlega vel og er til taks fyrir austan frá því í júní fram í nóvember.
Hann er svo léttur (1620 kíló) að 35 tommu dekk, læsingar og lágt drif nægja. Ég hækkaði ekki einu sinni körfuna á grindinni.
Hann fór eina vetrarferð á snjó þegar Örkin var dregin á sinn stað í apríl 2006.
Ég vildi hafa undir höndum sparneytinn og lítinn jöklajeppa sem notaður væri sem oftast.
Þá varð Suzuki Fox SJ 410, árgerð 1986, fyrir valinu.
Hann hef ég notað í jöklaferðum þegar það hefur verið gerlegt og fór á honum í tvær vorferðir Jöklarannsóknarfélagsins um Vatnajökul, 2005 og 2009.
Hér til hliðar sést hann uppi á Vatnajökli á leið í Kverkfjöll með Herðubreið í baksýn.
Vegna mistaka fór sama myndin inn tvisvar.
Ég fékk mér raunar fyrst Súkkujeppa 1999 sem kostaði 20 þúsund krónur og þegar hann andaðist annan svartan í staðinn sem fékkst á 80 þúsund.
Hann hef ég notað síðustu sjö ár á austurhálendinu og hann komst í National Geographic sem svefnstaður minn á hálendinu þegar fjallað var í því tímariti um Kárahnjúkavirkjun.
Kvikindið hefur reynst afar vel en er ekki á númerum sem stendur.
Súkkan sem ég notaði í Jöklarannsóknarferðunum var upphaflega með 970cc vél, sem var aðeins 45 hestöfl.
Mennirnir sem seldu mér hann, settu í hann Suzuki Swift 1298cc GTI vél, sem er 101 hestafl og settu undir hann loftpúðafjöðrun.
Gerðu hann að algerri rakettu !
Þeir gáfust hins vegar upp á bílnum vegna þess að vélin tók rými, sem annars þurfti í miðstöð og því var bíllinn miðstöðvarlaus.
Vinur minn á Suzukiverkstæðinu leysti málið með örlítilli miðstöð sem blæs bara upp á framgluggana.
En rýmið í bílnum er svo lítið að það skiptir ekki máli.
Loftpúðafjöðrunin er ágæt til að hækka og lækka bílinn en hentar ekki á svona léttum bíl, því að hann hoppar og skoppar á henni eins og smábolti.
Þegar komin voru 32ja tommu dekk undir bílinn nægði það samkvæmt burðar/flot/formúlu minni til að gefa bílnum sama flot og jöklajeppum, sem eru þrisvar sinnum þyngri.
Súkkan er aðeins 950 kíló.
Af því að dekkin eru þó ekki stærri en þetta þurfti ekki brettakanta.
Drif, millikassi og gírkassi fyrir 45 hestafla vélina gerðu bílinn lággíraðan í besta lagi, lægsta deiling með þessum dekkjum í fyrsta gír á lága drifinu samsvarar 1:47 á 38 tommu bílum.
Ferðin 2005 gekk ótrúlega vel en ég var fyrirfram efins um hvort ég ætti að leggja í að fara með þennan litla jeppa ferðina í vor þar sem mig grunaði að mikið krap gæti verið neðst á Tungnaárjökli og orðið erfiðara fyrir hann en stóru jeppana.
Þetta reyndist raunin og ég þurfti að láta draga þann litla í gegnum versta krapkaflann.
En dæmið snerist við þegar ofar kom og komið í lausan snjó.
Tvívegis festist þungur jöklajeppi sem var samferða mér á leið uppeftir og lausnin var að sá litli kippti í þann stóra !
Helsta vandamál þessa jeppa og Range Rover jeppans er hve vatnið hitnar mikið þegar lötrað er í þungu færi á lágum gír með miklu álagi. Þetta getur raunar verið vandamál á nýjum og stórum jeppum.
Einkum er þetta vandamál þegar ekið er upp í móti undan vindi.
Á leiðinni upp á Grímsfjall greip ég til þess ráðs að opna vélarhlífina og láta hana liggja upp að framglugganum en stinga hausnum út og aka þannig!
Þetta gafst vel og morguninn eftir fór ég í það með aðstoð Freys Jónssonar og Jónasar Elíassonar prófessors að leysa dæmið betur.
Það fólst í því að taka hlífina af og setja hana inn í bílinn og festa tryggilega eins og myndirnar sýna.
Jónas sýndi í lokin verkfræðisnilli sína með því að finna út hvernig hlífin ætti að standa upp á rönd inni í bílnum eins og sést á myndinni sem tekin er framan á bílinn.
Hann fann síðan tvær spýtur sem pössuðu nákvæmlega sem stoðir undir hlífina.
Freyr sagði að nú væri Súkkan bæði vatnskæld og loftkæld því að loftið sem léki um bera vélina gæfi öfluga kælingu og útgeislun.
Ég er búinn að finna aðferð til að setja vélarhlíf Range Roversins upp á þakbogana í sams konar tilfelli.
Í ferðum í Kverkfjöll, Gjálp, á Bárðarbungu og að Skaftárkötlum nutu bestu eiginleikar Súkkunnar sín, - mikið afl miðað við þyngd og ekki síður að stundum markaði varla í snjóinn eftir hana þar sem stóru jepparnir sukku í djúp för eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.
Á myndinni hér við hliðina sést rauði jeppinn vera að kippa í þann dökkbláa, en Súkkan stendur hjá og markar varla fyrir förum hennar.
Fyrir neðan eru myndir af samhliða förum eftir þessar tvær stærðir jöklajeppa.
Á þeirri efri eru Súkkuförin vinstra megin en á þeirri neðri ofar á myndinni.
Í lokin varð ég samferða Snæbirni Pálssyni og Jónasi Elíassyni niður af jöklinum og þá lentum við á ný í miklu krapi.
Snæbjörn varð einu sinni að kippa í mig en síðan kom að því að ég varð að kippa í hann eins og sést á neðstu myndinni.
Í þessari ferð þar sem allir hjálpuðust að varð útkoman að lokum því 3:3, hvað snerti það að draga eða vera dreginn !
Guðmundur Eyjólfsson, sem nú ekur ferðir með fólk um jökla á Land Rover, byrjaði feril sinn á Súkkum á 33ja tommu dekkjum, og varð mér einu sinni samferða í Grímsvötn og Kverkfjöll.
Þá sá ég hvað hægt er að gera á ódýran og einfaldan hátt á þessu sviði og gefa þjóðsögunni um dýru og stóru jöklajeppana langt nef.
Bloggar | Breytt 28.10.2009 kl. 22:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
9.7.2009 | 21:20
Hin stórkostlega klassíska saga.
Mér finnst það gleðiefni að orðið Laxdæla skuli birtast sem hluti af nafni nýrrar kvikmyndar, jafnvel þótt myndin kunni að fjalla um allt annað en þessi gersemi Íslendingasagna gerði.
Ég hef lengi haft sérstakt dálæti á Laxdælu sem þeirri Íslendingasagna, sem á jafnan mest erindi við nútímann hverju sinni vegna þess að hún fjallar um mannlegar kenndir og samskipti, ást og hatur, afbrýðisemi, meting og mögnuð örlög.
Laxdæla á erindi við alla á meðan land byggist.
![]() |
Tökur hafnar á Laxdælu Lárusar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.7.2009 | 09:10
Hefði átt að gerast fyrir tveimur árum.
Eitt af stefnumálum Íslandshreyfingarinnar fyrir kosningarnar 2007 var að láta þá þegar útbúa hugsanlega umsókn um aðild að ESB að undangenginni ítarlegri vinnu varðandi samningsmarkmið, svo að engin töf þyrfti að verða, ef ákveðið yrði að sækja um aðild.
Út úr þessu var snúið í fjölmiðlum og því slegið upp að hreyfingin vildi skilyrðislaust inn í ESB.
Nú fást allir flokkar loksins við þetta verkefni, hver á sinn hátt, en tvö ár hafa farið í súginn.
![]() |
Utanríkismálanefnd margklofin um ESB-ályktunina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)