Færsluflokkur: Bloggar
16.7.2009 | 00:14
Skyldi hún hafa...?
varðar bringu-og - kviðsund.
Skyldi´hún hafa synt - skriðsund
eða skrítið og dularfullt - riðsund?
![]() |
Getnaður í sundlauginni? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.7.2009 | 21:32
Í gamalkunnar skotgrafir?
Búsáhaldabyltingin ól af sér ýmislegt. Stjórnin, Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn urðu undan að láta og farið var í kosningar sem færði meiri nýliðun inn á þing en dæmi eru um í marga áratugi.
Á meðal nýliða eru fjórir þingmenn Borgaraflokksins og skipt var um forystu í öllum flokkunum, sem báru ábyrgð á stjórn landsins í aðdraganda bankahrunsins.
Vitað var að klofningur var meira eða minna hjá stuðningsmönnum allra flokka í ESB-málinu og að nýliðunin á þingi gæti gefið færi á að slíkt kæmi fram í atkvæðagreiðslu um það stóra mál, enda vitað að flokkslínur réðu ekki öllu í persónulegum skoðunum einstakra þingmanna á því.
Fyrir nokkru sagði Ögmundur Jónasson að hann myndi fylgjast vel með því hvernig stjórnarandstaðan færi fram í hinum stóru málum og hafa það til hliðsjónar þegar hann greiddi að lokum atkvæði.
Ögmund grunaði það sem nú virðist vera að gerast að flokkar hlaupa í skotgrafir í málum eins og því sem á að greiða um atkvæði á morgun og þá skiptir það máli í hugum margra þingmanna hvernig stjórn eða stjórnarandstöðu reiðir af.
Mér sýnist margt benda til þess að nýliðunin á þingi muni ekki koma í veg fyrir að þetta gerist.
Stjórnarþingmenn annars vegar og stjórnarandstöðuþingmenn hins vegar gruna hvorir aðra um að ætla að þjappa sér saman, og þar með tekur hræðslan við það og afleiðingar þess hugsanlega yfirhöndina hjá báðum fylkingum.
Yfirlýsingarnar um að hver þingmaður greiði atkvæði eftir því einu hvernig málið liggur fyrir í sjálfu sér, eiga á hættu að gufa upp í atkvæðagreiðslunni á morgun, því miður.
Hætta er á því að möguleikinn á því að ríkisstjórnin lendi í hremmingum verði ofarlega í hugum margra.
Gamalkunnugt ástand bankar að dyrum þrátt fyrir allar væntingarnar um að hinn forni skotgrafahernaður tíðkaðist ekki lengur.
![]() |
Niðurstaða um ESB á hádegi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.7.2009 | 13:57
Gömul afturganga á ferð.
Árum saman var sendi íslenska sjónvarpið ekki út í júlí og framundir 1988 ekki á fimmtudögum. Fyrir afslöppun í þjóðfélaginu var þetta ekki svo galið og kærkomið fyrir flesta starfsmenn Sjónvarpsins.
En fréttalega séð var þetta út í hött. Fréttir og fréttatengt efni gerast þegar þeim sýnist.
Hér eru nokkrir atburðir sem hafa gerst í júlí: Bandaríkjaher kemur til Íslands 1951, Bjarni Benediktsson, kona og dóttursonur farast í eldsvoða 1970, Fisher-Spasskí í Reykjavík 1972, opnaður hringvegur 1974, Flugleiðir stofnaðar 1973, menn á tunglinu 1969.
Heimsmeistaramót í knattspyrnu hafa farið fram í júlí og nefna má ótal fleiri dæmi um stórviðburði í júlí og á fimmtudögum.
Meðan Sjónvarpið var í fríi í júlí og á fimmtudögum var reynt að bæta úr þessu eftir föngum en það kostaði alltaf vandræði og mikla fyrirhöfn, annað hvort út á við eða inn á við.
Maður hélt að síðasti móhíkaninn hefði verið fjarlægður þegar Mogginn ákvað að láta undan kröfum tímans og byrja að gefa út blað á mánudögum, en ég get ekki séð betur en að nýr móhíkani hafi verið vakinn upp með því að láta Kastljósið fara í frí í júlímánuði þegar óvenjumikið er að gerast í fréttum.
Að sjálfsögðu verður að draga saman kostnað við Kastljósið ekki síður en aðra dagskrá í Sjónvarpinu þegar harðnar á dalnum fjárhagslega, en uppákoman á Skjá einum, þegar afbragðs efni var "stolið" af Kastljósinu segir að mínu viti það að niðurskurður í Kastljósinu verður að vera flatari en svo að það hverfi af vettvangi á hliðstæðan hátt og Sjónvarpið gerði í heild forðum daga í júlí og á fimmtudögum í skjóli einokunar.
Þótt fólk sé ræst út einhverja daga nú í júlí fyrir Kastljósið, var það svo sem líka gert í gamla daga í júlí og á fimmtudögum.
Það sýnir sig að það breytir litlu að segja sem svo að ræst verði út ef mikið er um að vera. Það breytir því ekki að þegar auglýst er að einhver sé í sumarfríi munu aðrir taka að sér hlutverkið í nútímaþjóðfélagi þegar ástandið æpir á það.
![]() |
Davíð Oddsson setti Skjáinn á hliðina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
15.7.2009 | 10:12
Málefnin fremur en mennina.
Það er landlægt á Íslandi að fyrst er spurt hver maðurinn sé og síðan kemur það á eftir, hvað hann hafi gert eða sé að gera. Þetta er reyndar þekkt úr mannkynssögunni samanber spurninguna fornu: "Getur nokkuð gott komið frá Nazaret?"
Það er af nógu að taka við að rökræða kosti og galla Icesave-samningsins eins og sést á innleggi Elviru Mendez þótt ekki sé byrjað á gamla íslenska þrefinu um einstaka menn og getu þeirra.
Það er að vísu nauðsynlegt, einkum á landi fámennis og tengsla, að bæta og vanda val á þeim sem falin eru störf eða verkefni, en í umræðunni um Icesave hefði sú umræða átt að fara fram þegar samninganefndin var skipuð.
Eins og stundum áður hefur umræðan færst inn á þref um eitt enskt orð, sem hefur orðið að orðið að nokkurs konar bjúgfleyg (boomerang) hjá Þór Saari ef marka má orð Eiðs Guðnasonar, sem er löggiltur dómtúlkur í ensku og með mikla reynslu af alþjóðlegum viðskiptum og samskiptum.
Þar með er umræðan komin á það plan að spyrja hvort Þór sé ekki marktækur í umræðunni úr því að hann telur sig búa yfir fullkominni kunnáttu á ensku og klikkar síðan á sjálfvöldu orði.
Ég legg til að við komum okkur út úr þessu fari og reynum, úr því sem komið er, að nota dýmætan tíma okkar til þess að kryfja samkomulagið sjálft, áhrif þess og eðli, kosti og galla, til mergjar.
![]() |
Svavar fullkomlega vanhæfur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.7.2009 | 19:29
Ekki í fyrsta sinn.
Þegar kreppti að 1930 var gripið til gjaldeyrishafta, tollmúra og innflutningsgjalda. Þegar ástandið 1929 er borið saman við árin sem á eftir fylgdu, má sjá, að það sem átti að verða tímabundið ástand varaði í minnst 40 ár, eða allt þar til íslendingar gengu í EFTA.
Því miður er það oft svo í efnum sem þessum að það sem á að verða bráðabirgðaúrræði verður miklu langlífara ástand en nokkurn óraði fyrir. Þótt nú sé dimmt framundn verður ástandið núna ekki vonandi ekki eins langlíft og það sem tók völdin upp úr 1930.
![]() |
Gjaldeyrishöft hugsanlega nokkur ár í viðbót |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.7.2009 | 19:10
"Urðu fyrir bílveltu." Lenti veltan á þeim?
Ég gefst upp. Það virðist vonlaust verk að fá því framgengt að því sé lýst á stysta, einfaldasta og rökréttasta hátt þegar bílar velta.
Það er ekki tekið gilt að segja "bíll valt."
Aldrei framar mun nokkur bíll velta á Íslandi eða neinn lenda í bílveltu ef svo heldur fram sem horfir í málnotkun.
Málsóðar í fjölmiðlum ætla að hafa það af að gera bílveltuna að sérstökum hlut sem "verður" út um allt.
Með síbilju sinni "bílvelta varð" kemst ekkert annað að. Engir bílar velta lengur.
Nýjasta skrefið var stigið í fréttinni sem þessi pistill er tengdur við.
Sagt var: "Þrír erlendir ferðamenn urðu fyrir bílveltu" fyrir vestan.
Hingað til hefur það verið hluti af þeirri hættu sem stafar af farartækjum að menn geti orðið fyrir þeim, lent fyrir bíl eða lent undir bíl.
En nú verða menn líka að hafa augun hjá sér gagnvart alveg nýrri hættu: Grandalaus getur maður orðið fyrir bílveltu. Nú eru það ekki aðeins bílar sem koma aðvífandi á fullri ferð, sem maður getur orðið fyrir, heldur geta bílveltur komið á mikilli ferð og maður orðið fyrir þeim, hugsanlega orðið undir bílveltum.
Í bílaralli geta menn lent í því að velta bílum sínum. Mig óraði aldrei fyrir því að ég gæti sloppið svo vel í gamla daga að velta aldrei bíl, heldur verða bara fyrir bílveltum.
Raunar er hægt að líta á þetta frá öfugri hlið. Kannski er skárra að maður velti bílnum og hafi þá eitthvað með það að gera heldur en að verða fyrir bílveltum sem komandi æðandi að manni.
![]() |
Bílveltur á Snæfellsnesi og Dynjandisheiði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.7.2009 | 00:34
"Lambalæri", nautn sumarblíðunnar.
Ég heyrði um daginn hjá Lönu Kolbrúnu Eddudóttur að texti Hank Williams, Jambalaya, fjallar um uppáhaldskjötrétt og nokkurs konar tákn borgarinnar New Orleans í Bandaríkjunum.
Sömuleiðis að Fats Domino, sem kom þessu lag hátt á vinsældalista á upphafstíma rokksins, héldi svo mikið upp á þennan rétt, að hann léti útbúa hann fyrir sig hvar sem hann færi um heiminn.
Þetta hafði ég ekki vitað fyrr og fór að hugsa um hvaða hliðstæðu væri að finna á Íslandi. Og viti menn: Það er jafn langt orð og með þrjá sömu sérhljóðana af fjórum, sem sé lambalæri.
Og varla hægt að hugsa sér kjötrétt sem er eins rammíslenskur og eins ofarlega í huga og á grilltímum sumarblíðunnar.
Fram spratt textinn "Lambalæri" og í framhaldi af því skellti ég mér með Lúdó-sextett og Stefáni í stúdíó og kláraði í dag að hljóðrita "Lambalæri" við lag Hanks Williams.
Lagið er helgað þeirri fjölbreyttu stuðstemningu sem grill og lambakjöt færa íslensku þjóðinni.
Í útgáfu okkar er þetta dúett tveggja manna sem rekast inn á stað þar sem verið er að grilla lambalæri og eins og heyrist á textanum er fjörugt og föngulegt fólk á staðnum.
Mér fannst alveg tilefni til þess arna, samtals hundrað ára starfsafmæli mín og sextettsins, báðir aðilar búnir að vera að í bransanum í 50 ár.
Þar að auki lágu leiðir mín og Lúdó-sextetts oft saman á upphafsárum rokksins.
''Ég söng lagið "Ég hef aldrei nóg" inn á disk í gamla daga með Lúdó og söng fleiri lög með þeim á tónleikum, auk þess sem ég gerði nokkra texta fyrir Lúdó svo sem "Því ekki?", "Halló, Akureyri!", "Ég er glataður án þín," "Rokk um alla blokk" og "Hafnarljós.".
Við stefnum á að gera eitthvað saman í haust því að ég á ýmsa texta við lög, sem Lúdó hefur spilað í gegnum tíðina og það er virkilega gaman af því að taka upp gamlan þráð með þessum síungu rokkurum
Á tónlistarspilaranum hér vinstra megin á síðunni á að vera hægt að smella inn á lagið "Lambalæri", en mér tekst það reyndar ekki nú og það verður að bíða morguns að sjá, hvað veldur því.
Hins vegar er textinn hér fyrir neðan.
Í athugun er síðan að skutla laginu inn á tonlist.is
LAMBALÆRI. (Jambalaya)
Vertu hress vegna þess, vinur kæri, /
að komast bærilega í tæri við tækifæri. /
Taktu séns, trylltan skrens, gaurinn glæri. /
Njóttu nú þín við þetta grín. Þó nú væri ! /
Meðan að blóðheit bjóðast góð lambalæri. /
Nú skal gramsa og kjamsa og gæða /
sér á góðgæti´á glóð og það snæða, /
leika milla og grilla og glefsa´í
gómsæta lostætið, sem ilmar, nautn nefs í, /
kneifa í stólum Kóka-kóla og Pepsí.
Lambalæri´eru ljúf eins og lömbin. /
Þegar lömbin koma´á diskinn, þá kýlist vömbin. /
Mat og víf, nautnalíf, mjög ég mæri. /
Þessvegna óð er okkar þjóð í lambalæri. /
Lambalæri nú lyst okkar vekur /
meðan lendar sínar sprellandi gellan skekur. /
Tökum séns, trylltan skrens, gaurinn glæri ! /
Njóttu nú þín við þetta grín. Þó nú væri ! /
Ég og þú étum nú. Enginn efar /
að ef að glás er af krás maður slefar. /
Nautnaseggirnir, sleggjurnar hneggja. /
Vöðvaða steggina hér leggirnir eggja. /
Úti við veggi drekkum dreggjarnar geggjað! /
Lambalæri´eru ljúf. Í mér hrærir /
þessi lífsnautn, sem oss ærir og endurnærir. /
Eftir sult farðu´á fullt, gaurinn glæri, /
annars flengi ég þig í keng og hengi´í snæri !
Lambalæri´eru ljúf eins og lífið, /
lostætt nammi þegar hrífur oss dívu-vífið. /
Mat og víf, nautnalíf mjög ég mæri. /
Þess vegna óð er okkar þjóð í lambalæri ! /
Þess vegna óð er okkar þjóð í lambalæri !
![]() |
Óvenju mikil umferð á mánudegi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
13.7.2009 | 20:47
Hvað skuldum við mikið?
Mjög áhugaverðar umræður voru á Skjá einum í kvöld, en sjónvarpsstöðin nýtti sér sumarleyfaástandið á hinum sjónvarpsstöðvunum mjög vel.
Að einu var þó aldrei spurt, svo að ég heyrði í þættinum: Hverjar eru heildarskuldir Íslendinga? Þetta er lykilspurning varðandi það hvort það sé mögulegt fyrir okkur að standa við skuldbindingar okkar.
Það var spurt að þessu strax um miðjan síðasta vetur. Ég fæ ekki séð að svarið sé enn fengið.
![]() |
Davíð í Málefninu í kvöld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
13.7.2009 | 00:17
Getur líka verið blíða við Folavatn.
Ég sé á vedur.is að hitinn á svæðinu í kringum Snæfell hefur verið 13-16 stig mestalla síðustu viku og 15-18 stig við Kárahnjúka.

Eftir að hafa farið þrjár ferðir að Folavatni austan Snæfells og fleiri yfir það get ég ímyndað mér hve þar hefur verið gott veður í hlýindunum og frábært að vera þar og njóta gróinna nesja og tanga og hólmanna þriggja, sem eru í vatninu.
Raunar getur hitinn farið upp í 20 stig á hálendinu þegar vel háttar til. Ég var að leggja inn grein í Morgunblaðið vegna þess óþarfa umhverfisslys sem þarna verður ef allir halda áfram að að vera sofandi yfir því.

Ég hef áður sýnt myndir af þessu fallegasta og einstæðasta vatni á hálendinu austan við Snæfell með það mikla fjall gnæfandi yfir í vestri en Eyjabakkajökul í suðri.
Þegar ég flaug yfir það fyrir nokkrum dögum var vatnið svo tært, að hægt var að sjá til botns í því úr flugvélinni eins og myndirnar sýna.
Ég tók líka sérstaklega eftir þessu þegar ég reri um vatnið fyrir tíu dögum.

Myndirnar hér við hliðina eru teknar af einum hólmanna þriggja, sem eru nú í vatninu, þeim sem er í miðjunni.
Á myndunum sést vel hve vatnið er tært og að það sést til botns, jafnvel þótt það sé bára á því.
Mikill munur er á vötnunum tveimur sem þarna eru núna, Kelduárlóni, sem fer sístækkandi og ætlunin er að gleypi Folavatn í sumar, og hinu tæra ósnortna vatni.






![]() |
Stefnir í heitasta dag sumars |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
12.7.2009 | 17:39
Hver vill vera í hlutverki Óla skans? Enginn.
Vafasamt er hvort nokkurn tíma verður upplýst um tíðni heimilisofbeldis kvenna gagnvart körlum.
Þetta verður áfram óupplýst stærð og óráðin gáta.
Það er feimnismál fyrir karla að vera undir járnhæl kvenna sinna, samanber vísurnar gömlu um Óla skans sem var "ógnar vesalingur" og var alger andstæða við Völu, konu sína.
Um það skass var sungið: "Vala hans, Vala hans, veit nú hvað hún syngur."
Sem sagt ekki aðeins líkamlegir yfirburðir heldur fyrst og fremst andlegir yfirburðir.
Vala niðurlægði Óla á allan hátt og lét hann heyra það að að hann væri nautheimskur:
"Þú ert naut, þú ert naut, /
þannig hóf hún tölu. /
Óli gaut, Óli gaut /
augunum til völu.
Óli, Óli, Óli skans. /
Voðalegur vargur er hún Vala, kona hans.
Hvaða karlmaður vill viðurkenna að vera í hlutverki Óla skans? Auðvitað enginn. Hann verður hafður að háði og spotti eins og vesalingurinn Óli.
Ég minnist myndskreyttrar útgáfu af textum þar sem var mynd af þeim hjónakornunum.
Mér er enn minnistæð teiknimyndin af þeim hjónum, - ofsahræðslan við Völu sem skein út úr vesalingnum Óla þar sem hann horfði í angist upp til hinnar stórvöxnu konu sinnar.
Það verður varla nema um eitt tilfelli að ræða ef menn leita að játningu karls um það að kona hans beiti hann heimilisofbeldi.
Það verður skýrsla Óla skans og ekkert hægt að gera með hana því að þau hjón eru bæði löngu dauð.
Í Gísla sögu Súrssonar örlar fyrir játningu á því að á bænum þar sem kerlingin, kona Refs bónda, leyndi Gísla undir sér í rúmi sínu, svo að leitarmenn fyndu hann ekki og dræpu hann, hafi hún verið orðlagt skass og vargur sem lét alla í kringum sig finna til tevatnsins ef því var að skipta, - í þetta skipti þá sem komnir voru undir alvæpni að leita að Gísla.
"Veitti hún þeim ágauð (gauð, no. dregið af sögninni að geyja, gelta) svo mikla að þá mátti minni til reka" segir í sögunni.
En í allri hinni óborganlegu lýsingu af einstæðri frekju, vargskap og ágengni kerlingar eru mál þeirra hjóna gerð upp í dásamlega stuttorðri lýsingu sem maður veit ekki enn í dag hvort var háð eða sannleikur: "Með þeim Ref var jafnræði."!
Sem sagt: Aldagamalt feimnismál.
![]() |
Heimilisofbeldi gegn körlum óþekkt stærð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)