Færsluflokkur: Bloggar

Gamlar minningar ljóma.

Hjólreiðakeppnin frá Reykjavík til Akureyrar vekur upp gamlar og góðar minningar í huga mér frá þeim árum þegar ég var gagntekinn af hjólreiðum.

Ég fékk mér snemma hjól með tveimur gírum og vegna þess að mamma mín var hrædd um að ég bryti gafalinn þegar ég var að hjóla sem óður væri á holótum malarvegunum fékk ég mér sérstakan gaffal með höggdeyfum.

Fyrsta langa hjólreiðin var þannig að við fórum þrjú í heimsókn til ömmusystur minnar að Sandhóli í Ölfusi og var hjólið haft aftan á palli vörubílsins sem við notuðum. Þá var ég tæplega fimmtán ára.

Ég hjólaði síðan af stað að austan og þau fóru af stað rúmri klukkustund síðar og hugðust taka mig upp í á leiðinni, áttu ekki von á að ég yrði kominn langt því að þá var vegurinn grófur malarvegur. Einkum voru Kambarnir hlykkjóttir, brattir og grófir.

Skemmst er frá því að segja að þau náðu mér aldrei og urðu mjög hrædd um að eitthvað alvarlegt hefði komið fyrir mig úr því að ég var gersamlega horfinn.

Þeim létti ósegjanlega þegar þau hittu mig á tröppunum heima, en mér hafði tekist að hjóla þessa 50 kílómetra á tveimur klukkustundum, eða á 25 kílómetra meðalhraða á klst.

Síðar um sumarið heimsótti ég Birni Bjarnason vin minn sem var í sveit að Glitstöðum í Norðurárdal og einsetti mér að hjóla 20 kílómetra á klukkustund að meðaltali. Þá var þetta tæplega 160 kílómetra leið eftir misgóðum malarvegi og Hvalfjörðurinn býsna erfiður.

Mér tókst að hjóla þetta á 7,5 klukkustundum en þá var ég búinn með allan matinn sem ég hafði fyllt töskurnar á bögglaberanum með. Erfiðast var að hjóla síðustu 20 kílómetrana upp Norðurárdalinn.

Mamma hafði tekið af mér loforð um að ég hjólaði aðeins aðra leiðina og það loforð átti ég erfitt með að efna, því að í bakaleiðinni var komin strekkings norðanvindur sem hefði getað hjálpað mér til að ná mun betri tíma niður í móti í meðvindi en á leiðinni upp eftir.

Ég sat svekktur í rútunni og varð að láta ímyndunina eina nægja.

Ég óska sigurvegurunum í hjólreiðakeppninni til hamingju og lifi mig gersamlega inn í það sem þeir voru að gera.


mbl.is Hafsteinn og Pétur langfyrstir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Farþeginn lét tækin í té.

Það er ekki einsdæmi að farþegi hafi átt þátt í því að standa að viðgerð flugvélar. Snemma á sjöunda áratugnum átti ég að fara með tíu manna farþegavél Flugsýnar til Vestmannaeyja.

Vélin var myrkvuð þegar við farþegarnir fórum inn í vélina og settumst í sætin. Síðan leið og beið og ekkert gerðist nema að flugstjórarnir voru eitthvað að bjástra frammi í vélinni.

Loks kom annar þeirra í dyrnar og sagði yfir farþegahópinn: "Er nokkur hérna með vasaljós?"

Ég játti því og lánaði honum vasaljós sem ég hafði í hrakfarapoka svonefndum sem ég tók snemma að hafa með mér á ferðum mínum, þótt ég væri þá ekki byrjaður að fljúga sjálfur, - notaði það ef ég lenti í vandræðum af ýmsu tagi.

Áfram bjástruðu flugmennirnir dágóða stund en síðan kom annar þeirra aftur í gættina og spurði: "Er nokkur hérna með skrúfjárn?"

Ég játti því og lét hann nú hafa allan pokann.

Þeir gerður sér greinilega gott úr því, því nokkru síðar kom hann aftur með pokann, þakkaði fyrir lánið og síðan var sett í gang.

Tvívegis hefur það komið fyrir að ég hafi þurft að fara að hluta til útbyrðis úr flugvél til að gera við hana á flugi en það er efni í annan pistil.


mbl.is Farþegi gerði við flugvélina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Michael Jackson og Keiko.

Þessi tvö nöfn eru samofin á ýmsan eftirtektarverðan hátt. Það kemur upp í hugann þegar lagið úr myndinni "Frelsum Villa" er leikið á minningartónleikum um Jackson.

Þótt það sé kannski ólíku saman að jafna, manni og hval, eru aðstæðurnar og örlögin sláandi lík.

Snilligáfa og einstakir hæfileikar Jacksons rændu hann möguleikanum á að ná venjulegum þroska, sem eðlilegt umhverfi æsku og unglingsára gefa venjulegu fólki. Það reyndist ómögulegt að breyta þessu það sem eftir var af skammri ævi hans, - og hann dó fyrir aldur fram.

Keiko hlaut frægð fyrir hæfileika sem hann sýndi í lauginni sem hann hefði verið settur í ungur að árum. Fyrir bragðið lék hann aðalhlutverkið í myndinni sem Jackson gerði svo eftirminnilega með hinu ótrúlega áhrifamikla en einfalda lagi, sem hann söng.

Í ljós kom að rétt eins og Jackson gat aldrei orðið samur og eðlilegur eða líkur öðru fólki eftir að æsku hans var umturnað, mistókst sú tilraun illa að reyna að snúa hjóli tímans við og flytja Keikó um síðir til Íslands og láta hann aðlaga sig eðlilegu lífi hvala.

Hann hraktist til Noregs og þegar ég heimsótti hann þar sem hann dormaði að Hálsum (Halsa) var ljóst að hann var að veslast upp. Skömmu seinna drapst hann um aldur fram.


mbl.is Mikið um dýrðir á minningarathöfninni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misreikningurinn og nýja stíflan.

Það var skemmtileg tilviljun að sama daginn og ég er að reyna að koma því að hjá þjóðinni að forsendur fyrir vatnsbúskap Kárahnjúkavirkjunar hafa breyst skuli koma umfjöllun um það í tíufréttum Sjónvarpsins að eyða þurfi 300 milljónum króma í að reisa 20 metra háa nýja stíflu fyrir norðan Kárahnjúkastíflu.

Það var aldrei gert ráð fyrir þessari stíflu en vegna miklu meira vatnsflæðis í Hálslón vegna hlýnandi loftslags rennur svo mikið vatn á yfirfalli Kárahnjúkastíflu á tímabilinu ágúst-október, að yfirfallsfossinn grefur gljúfrið í sundur fyrir neðan stóru stífluna.

Þess vegna þarf að búa til 20 metra djúpan hyl þar til að taka á móti fossinum og drepa afl hans.

Í þessu tilfelli hafa verkfræðingar Kárahnjúkavirkjunar brugðist við breyttum forsendum og gert ráðstafanir vegna þess.

Hins vegar virðist ætla að verða þrautin þyngri að fá ráðamenn LV til að viðurkenna og bregðast við breyttum forsendum varðandi vatnshæð Kelduárlóns, samanber næsta bloggpistil á undan þessum.


Útúrsnúningur sérfræðings Landsvirkjunar.

Með þessu bloggi fylgja nýjar myndir frá siglingu minni á gúmmítuðru fyrir nokkrum dögum út í þrjá hóma Folavatns.

P1010199

Efsta myndin sýnir Folavatn og Kelduárlón í baksýn. 

Þetta fallega vatn með Snæfell á eina hönd og Eyjabakkajökul á aðra  er í mati á umhverfisáhrifum talið hafa mikið verndargildi og er einstætt hvað það snertir, jafnvel á heimsvísu, hve mikill gróður er þar svo nálægt jökli og í svona mikilli hæð, 664 metrum yfir sjávarmáli.

 

Í sjónvarpsfrétt um Folavatn í kvöld sagði sérfræðingur Landsvirkjunar að Kelduárlón væri svo ómissandi sem miðlunarlón vegna þess að 25% af vatni Kárahnjúkavirkjunar kæmi frá Hraunaveitu, en lónið er hluti þeirrar veitu.

P1010369

 

Sérfræðingurinn fær þessa tölu út með því að telja Jökulsá í Fljótsdal til Hraunaveitu. Það hefur hentað Landsvirkjun að kalla virkjun Jökulsár Hraunaveitu síðustu ár til þess að fá almenning til að gleyma því að Jökulsá í Fljótsdal er virkjuð og tekið vatn af stórkostlegum fossum hennar.

 Upphaflega átti Kárahnjúkavirkjun að felast í því að sökkva annars vegar Hjalladal og mynda Hálslón með 1500 gígalítra miðlun og Eyjabökkum með miðlunarlóni upp á 500 gígalítra. Þetta hefði samtals gefið 2000 gígalítra. 

P1010377

 

 Síðan fundu menn út að vegna þess að Jökulsárnar tvær voru tengdar með jarðgöngum var hægt að stækka Hálslón upp í 2100 gígalítra og auka með því miðlunargetuna svo að Hálslón gæti annað því eitt og sér ef með þyrfti.

Það er í meginatriðum gert þannig, að Hálslón með sína 2100 gígalítra er notað frá október til maí til að miðla vatni fyrir virkjunina, en þegar Jökulsá í Fljótsdal kemur inn í vorleysingum og fer yfir 115 rúmmetra rennsli útvegar hún ein Kárahnjúkavirkjun afl, en ekkert rennsli kemur þá frá Hálslóni, sem er látið fyllast.

P1010384

 

Kelduárlón er í Hraunaveitu, sem er virkjun Kelduár og Grjótár fyrir austan Eyjabakka pg Jökulsá í Fljótsdal og miðlunargeta þess á að vera aðeins 60 gígalítrar eða um 3,5% af miðlunargetu Hálslóns.

 

Það er því útúrsnúningur og rangfærsla að nefna töluna 25% í þessu sambandi hvað snertir Kelduárlón og notin af því. Eða hvernig getur lón, sem hefur aðeins 3,5% af miðlunargetunni dugað fyrir 25% af vatnsmagni Kárahnjúkavirkjunar?

P1010372

 

P1010404

 

Það er rétt hjá sérfræðingi Landsvirkjunar að flóð sem geta komið síðari hluta sumars og á haustin verða stundum stærri en göngin geta afkastað og þá getur hækkað í lóninu, þótt göngin séu opin.

 

Vegna hlýnunar veðurfars geta svona flóð komið síðar á haustin en áður og gefa þá viðbótarvatn í gegnum göngin sem aftur minnkar þörfina á miðlun.

 

P1010404

 En þetta er bara einfalt reikningsdæmi. Finna þarf stærsta mögulega flóð og reikna út hve mörgum metrum Kelduárlón þarf að vera neðar til þess að borð sé fyrir báru með þessa hækkun. Það geta varla verið nema örfáir metrar.

Hæðirnar sem um ræðir eru þessar: Hæð á yfirfalli Kelduárstíflu er 669 m.y.s.

Folavatn er 663 m. y. s. Munurinn er 6 metrar. 

Kannski þyrfti að færa yfirborðið niður í 661 metra til að geta mætt hugsanlegum haustflóðum.

Kelduárstífla er 27 metra há og ég er því að tala um ca. 8 metra af þessum 27 metrum.   

 

P1010405

Landsvirkjun hefur í raun viðurkennt að ekki var þörf á Hraunaveitu með því að sleppa austasta hluta hennar, svonefndri Sauðárveitu.

Ástæðan er miklu meira rennsli í ánum en reiknað var með vegna þess að áætlanirnar gerðu ráð fyrir kuldaskeiði en nú er og verður hlýnandi veðurfar.

Þetta kemur fram á þrennan hátt:

1. Gríðarlegt vatnsmagn fer fram af yfirfalli Káralhnjúkastíflu miklu lengri tíma en gert var ráð fyrir. Þetta skiptir þó ekki máli varðandi miðlunargetuna heldur eftirtallin tvö atriði:

2. Haustin eru hlýrri en áður, veturinn kemur síðar og Hálslón er lengur fullt en ella.

3. Vorin eru hlýrri en áður og það byrjar að renna fyrr og meira í lónið en reiknað var með.

Ég er aðeins að fara fram á að miðlun Kelduárlóns verði minnkuð úr því að nema sem svarar 3,5% af miðlunargetu Hálslóns ofan í það að hún verði ca 1%. Mismunurinn nemur 2,5% af miðlunargetu Hálslóns, en fyrrgrreind hlýnun veðurfars veldur því að miðlun úr Kelduárlóni er í raun óþörf.

Eða hvernig gátu menn rekið virkjunina á fullri orku í allan vetur og vor þegar Kelduárlón var ekki til?

Kelduárstífla er komin og komi hér kuldaskeið, sem engum vísindamanni dettur í hug, væri hægt að grípa til hennar og sökkva þá Folavatni af nauðsyn. Eins og nú er þjónar eyðilegging Folavatns engum tilgangi, skapar ekki einasta kílóvatt eða eitt einasta starf.

Ég geri þá sjálfsögðu kröfu til stjórnar Landsvirkjunar að hún taki þetta mál fyrir í ljósi breytts veðurfars og aðstæðna áður en Folavatni verður sökkt.

Það á að vera hægt. Yfirstjórnandi framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun hefur tjáð mér að í stað þess að stoppa hækkun lónsins í 664 metrum vegna framkvæmda og frágangs, muni verða stoppað í ca 662,5.

 

P. S. Getur einhver fróður maður giskað á hvaða fugl getur átt stóra hreiðrið sem sést á þriðju mynd, talið að ofan?  Biðst afsökunar á því að sama myndin rataði tvisvar inn á bloggsíðuna. 


Jói vængmaður? Vonandi ekki.

Heyrði álengdar í fréttum Bylgjunnar að talað var um að ákveðinn íþróttamaður væri "vængmaður". Hélt fyrst að um iðkanda flugs á flugvæng væri að ræða en vegna þess að minnst var á knattspyrnufélög áttaði ég mig á því að fréttamaðurinn átti við útherja.

Það ágæta orð hefur verið notað í heila öld án misskilnings, enda stutt og skýrt. En nú virðast þessi gömlu góðu og markvissu íslensku heiti, sem notuð hafa verið kynslóð fram af kynslóð í heila öld ekki vera nógu fín fyrir suma heldur verði að nota orð sem gefi ákveðið til kynna að menn séu vel að sér í ensku.

Nefni hér fleiri dæmi um málleystur og rökleysur sem vaða uppi:

"Box". Orðið teigur virðist ekki nógu fínt. 

"Djúpur" leikmaður. Verð að játa að þessi notkun orðsins djúpur er mér lítt skiljanleg. Eru aðrir leikmenn þá "grunnir"?  

"Góðir boltar" og "slæmir boltar". Skil ekki hvernig þeir sem lýsa leikjum hafi getað skoðað boltana sem notaðir eru svo vel að þeir geti dæmt um gæði þeirra. Skil betur ef þeir segja mér hvort sendingarnar hafi verið góðar eða slæmar.  

Að leika "hátt" á leikvellinum, að eitthvað fari fram "hátt" á leikvellinum. Vissi ekki betur en leikvellir væru láréttir og engir hluti þeirra væru hærri né lægri en aðrir. Skil betur að eitthvað sé framarlega eða aftarlega á vellinum.  

Einu sinni söng ég lagið Jói útherji. Verslun Magga Pé í Ármúla heitir þessu nafni. Ég nefni einnig í textanum að Jói hafi leikið stöðu innherja.

Ég mótmæli því að þurfa að syngja lagið aftur og breyta nafninu í Jóa vængmann. Ég vona líka að Magnús Pétursson þurfi ekki að breyta nafninu á sinni góðu verslun.  

 


Stærsta og lúmskasta ógnin.

Núverandi birgðir kjarnorkuvopna er meiri og lúmskari ógn við lífið á jörðinni en aðrar ógnir. Hún er það vegna þess að umráð yfir kjarnorkuvopnum gefur þeim sam hafa yfirráð yfir þeim falska öryggiskennd og svokölluð fæling, sem talin er að vopnin tryggi, byggir á þeirri forsendu, að tryggt sé að kjarnorkuveldin grípi til þessara vopna ef þeim sýnist það nauðsynlegt.

Það jafngildir upphafi keðjuverkunar beitingar vopnanna sem enginn getur séð fyrir hvar endar.

Í Kalda stríðinu var þessi gagnkvæma fæling kölluð Mutual Assured Destruction, skammstaða MAD, sem þýðir brjálun.

Tilvist þessara vopna er mesta og hættulegasta brjálun okkar tíma, hættulegri en brjálun sjálfs Adolfs Hitlers, sem réði sem betur fór ekki yfir slíkum vopnum. Sá brjálæðingur hikaði þó við að nota efnavopn.

Á Íslensku gæti skammstöfunin falist í GAGA, skammstöfun á orðunum  gagnkvæm afdráttarlaus gereyðing alls. 

Gorbachev er að mínu mati vanmetinn vegna þess að honum skjátlaðist hrapallega varðandi það að hægt væri að lappa upp á sovétkommúnismann. Að því leyt var hann tapari, "lúser" eins og margir orða það. 

En árangur hans varðandi afvopnun og hlutur hans í því að sovétkerfið féll án þess að það kostaði stórstyrjöld mun tryggja honum betri eftirmæli síðar.

Barátta hans fyrir útrýmingu gereyðingarvopna er lofsverð.

Sumir svonefndir taparar lifa það ekki að verða metir að verðleikum. Einn þeirra var Ludvig Erhard, sem var kanslari Þýskalands í þrjú ár og hrökklaðist frá völdum.

Það stakk í stúf við 14 ára glæsiferil fyrirrennara hans, Konrads Adenauers, sem var einn þeirra þriggja þjóðarleiðtoga sem lagði grunn að núverandi Evrópusambandi og friði í stríðshrjáðri Evrópu.

Nú telja margir að sá efnahagsgrundvöllur, sem Erhard stóð að í Vestur-Þýskalandi eftir stríð og fékk nafnið Vestur-Þýska efnahagsundrið hafi verið mikilvægari en sjálf Marshall-aðstoðin.

Dæmi um þetta eru mörg. Frægasta tapararinn var líklegast sjálfur Kristur. Fyrstu aldirnar eftir krossfestingardauða hans töldu Rómverjar og umheimurinn að hann hefði verið tapari eins og þer gerast mestir.   


mbl.is Gorbachev talar enn fyrir eyðingu kjarnorkuvopna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sagði þetta en gerði ekkert meira.

Við fáum sífellt að vita meira um ítrekaðar aðvaranir og andstöðu Davíðs Oddssonar við það sem gerðist hina örlagaríku mánuði frá febrúar til október í fyrra.

Hann segist hafa gert bankastjórum Landsbankans grein fyrir þessu fyrir rúmu ári, - sagt að þeir hefðu ekkert leyfi til að setja íslensku þjóðina á hausinn.

'Þetta virðist hann hafa sagt í einkasamtali við þá og er á honum að skilja að upp frá því hefði bankastjórunum mátt vera ljóst þeir yrðu að breyta um kúrs, enda það vitað frá fyrri árum að ef Davíð segði eitthvað gilti það sem lög.

Viðbrögð bankastjóranna voru hins vegar að bæta í og setja af stað stigvaxandi vöxt sjóðanna, allt hvað þeir gátu.

Þeir meira að segja auglýstu og fullyrtu fyrir Bretum og Hollendingum að innistæður í Icesave væru ekki bara baktryggðar af íslenska ríkinu heldur líka hinu breska og hollenska.

Þetta gerðu þeir blákalt án þess að blakað væri við þeim. Og þvert ofan í allar "aðvaranirnar" og hótanirnar mærði Davíð styrk bankanna og athafnir þeirra opinberlega fyrir hönd Seðlabankans í maí, nokkrum mánuðum eftir samtalið sem hann kveðst hafa átt við þá Landsbankamenn.

Bankastjórar Landsbankans virðast hafa tekið meintum orðum Davíðs sem innantómu gelti í hundi.

Davíð lét það nægja að hafa uppi andóf í einkasamtali en aðhafðist ekki neitt annað svo vitað sé.

Davíð segist hafa séð bankahrunið fyrir og að það hefði ekki orðið hefði hann fengið að ráða. En hefði ekki verið betra að við fengjum að vita þetta á þeim tíma sem það hefði getað breytt einhverju?

Davíð sem lærður lögfræðingur ætti að vita að sá sem hefur vitneskju um vítaverða háttsemi án þess að gera neitt í því nefnist á máli lögfræðinnar vitorðsmaður og að því leyti samábyrgur um það sem gert er. Sá verknaður að þegja um þetta opinberlega og segja þveröfugt í áheyrn allra heitir einnig á máli lögfræðinnar yfirhylming.

Margir vitrir menn hafa komist á blöð sögunnar. Davíð hlýtur að teljast einhver vitrasti maður eftirá sem um getur.  


mbl.is Ekki setja þjóðina á hausinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Suðurnesja-"REI-klúður" í uppsiglingu?

Auðlindir á landi og í sjó eru fjöregg íslensku þjóðarinnar, sem hún má aldrei af hendi láta.

Í stjórnarskránni er lagt blátt bann við því að afsala landi til útlendinga og hið sama á að gilda um eignarhald á auðlindum hennar.

Þegar nafnið Geysir Green Energy er nefnt vekur það upp minningar frá REI-málinu 2007, vondar minningar.

Það er vond lykt af þessu máli á marga lund. Lágmarkskrafa hlýtur að vera að rasa ekki um ráð fram og viðhafa gagnsæi, vandaða umræðu og virkt lýðræði.

Flestar fréttir af HS Orku líta illa út um þessar mundir og benda til skammtímagræðgi og ábyrgðarleysis í meðferð hinnar dýrmætu orkuauðlindar, bæði hvarð snertir ofnýtingu og áhættusækni sem getur ógnað því að þessi dýrmæti verði í tryggu eignarhaldi Íslendinga.

Þetta er frumburðarrétturinn sem ekki má af hendi láta.


mbl.is Leggjast gegn viðskipum með orkuveitur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varðar hag þjóðarinnar allrar.

Fram að þessu hafa almenningssamgöngur verið alfarið á hendi sveitarfélaga. Í því felst of þröng sýn á málið. Það varðar alla þjóðina ef almenningssamgöngur eru svo dýrar eða lélegar að fólk fari á milli staða á miklu dýrari hátt þegar á heildina er litið.

Þetta varðar heildarhagsmuni, ekki bara þrönga hagsmuni einstakra byggðarlaga.


mbl.is Óskar eftir aukafundi í Umhverfis- og samgönguráði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband