Færsluflokkur: Bloggar
17.12.2017 | 01:48
Tvö atriði, sem hverfa oftast í skuggann, súrnun sjávar og orkuskipti.
Í hinni umfangsmiklu umræðu um loftslagsmál yfirskyggja deilur um það hvort loftslag fari hlýnandi og þó sérstaklega hvort hlýnun þess sé af mannavöldum nánast allt annað.
Þetta hentar þeim einkar vel sem vilja úthrópa Parísarsamkomulagið sem rugl 40 þúsund fífla.
En þessir ófrægingarmenn loftslagsvísindanna eiga ekkert svar við mælingum á súrnun sjávar og því síður á þeirri staðreynd að olían, sem olíuöldin verður síðar kennd við, er takmörkuð auðlind og að orkuskipti eru óhjákvæmileg.
Bæði þessi atriði, súrnun sjávar, sem stafar af mesta koltvíildi í andrúmsloftinu í 800 þúsund ár og orkuskiptin, sem þegar eru að banka á dyrnar, eru eins og sér full ástæða til þess að grípa til ráða gegn útblæstri svonefndra gróðurhúsalofttegunda.
Fyrir okkkur Íslendinga eru þessi tvö atriði sérlega mikilvæg og því full ástæða til að halda við höldum þeim hátt á lofti.
Ef það er ekki gert, er það í þágu ófrægingaraflanna.
![]() |
Súrnun sjávar ógnar Íslandsmiðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.12.2017 | 17:02
Enginn ofurhugi = ekkert áhorf, engir peningar.
Orsakasamhengið varðandi dauða ofurhuga, sem lætur lífið vegna hættuspils, er ljóst:
1. Ofurhugi.
2. Áhorf
3. Peningar.
Án ofurhuga, sem tapar að lokum glæfraspili, verða hvorki áhorf né peningar.
Án áhorfs verða engir peningar.
Án peninga hverfur eftirsókn eftir peningum, en ekki er víst að áhættu- og frægðarfíkn ofurhugsans hverfi við það.
![]() |
Bera áhorfendur ábyrgð á dauða ofurhuga? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.12.2017 | 09:26
Ein mesta bylting flugsögunnar.
Um öld eftir fyrsta vélknúna flugið gengur yfir einhver mesta bylting flugsögunnar, fjarstýrt flug eða öðru nafni drónaflug.
Nýyrðið drónar hefur orðið ofan á, en það var viss sjarmi yfir tillögunni um orðið mannleysa, einkum hvað varðar not dróna við manndrápsárásir í hernaði.
Byltingarinnar gætir á ótal sviðum, og má nefna kvikmyndagerð sem dæmi, eins og sjá má í ótal kvikmyndum af öllu tagi.
Áður en fjarstýrt flug kom til sögunnar voru það aðallega þyngdin og fyrirferðin á þeim, sem voru um borð í loftförum, sem voru til trafaala við loftmyndatöku.
Mikið óskaplega hefði nú verið gott oft á tíðum að ráða yfir dróna hér um árið frekar en að reyna að láta heila flugvél leika litla þyrlu.
Því að þyrlur voru í langflestum tilfellum allt of dýr kostur.
Fjarstýrt flug er á bernskuskeiði og möguleikarnir eru ekki aðeins heillandi, margir hverjir, endur líka ógnvænlegir hvað snertir hernaðarnot og beislun gervigreindar, sem er í hraðri framþróun, samanber nýja ofurskáktölvan, sem hvorki fyrri ofurtölvur né stórmeistarar eiga minnstu möguleika gegn.
Sú tölva fékk aðeins skákreglurnar sjálfar til að vinna úr, og hafði einungis fjórar klukkustundir til að kenna sjálfri sér að tefla.
Hún fékk ekki að vita fyrirfram um hinar ýmsu skákbyrjanir og fléttur, og í ljós kom, að hún hafði þvílíka yfirburði í greind á skáksviðinu, að hún þurfti ekkert á viðurkenndum byrjunum og afbrigðum að halda, heldur bjó sjálf til alveg nýjar leiðir til þess að valta yfir andstæðingana, með allt að því fífldjörfum sóknar- og fórnarstíl, þar sem drottningu, hrókum, biskupum, riddurum og peðum er fórnað miskunnarlaust til þess að búa til betri stöður síðar í skákinni.
Þessi stíll vekur upp minningar um suma leiki Bobby Fishers þegar hann var upp á sitt besta.
Í kvikmyndagerðinni er mikils virði að eiga möguleika á fleiri sjónarhornum en ella, en stundum getur ofnotkun drónanna líka orðið vafasöm ef hún ber ofurliði eða rýfur um of nauðsynlegt sjónarhorn áhorfendan við að upplifa myndskeiðin eins og áhorfendur í eðlilegri stöðu.
![]() |
Nýjar reglur um drónaflug |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.12.2017 | 20:26
Grátbroslegt séríslenskt fyrirbrigði?
Þeir eru orðnir nokkrir, erlendu ferðamennirnir, sem hafa undrast það í samtölum við mig að á leiðinni milli Leifsstöðvar og Reykjavíkur hefur Reykjanesbrautin verið tvöföld á þeim kafla sem er á miðri leiðinni, en hins vegar einföld þegar dregið hefur nær mesta þéttbýlinu við Hafnarfjörð þar sem gatnamót eru fleiri og umferðin meiri.
Ég hef reynt að leita skýringar, svo sem eins og að veður- og færðaraskilyrði hafi valdið því á kaflanum við Kúagerði hafi tíðni alvarlegra slysa verið svo mikil að ekki hafi verið hjá því komist að byrja þar á tvöföldun brautarinnar.
Þegar einnig hefur verið undrast að hinn mjög svo fjölfarni kafli milli Hveragerðis og Selfoss sé enn einfaldur, verður erfiðara um svor, nena að muldra um "séríslenskar aðstæður."
Sé svo, er ekkert fjarlægt að slíkt fyrirbrigði sé grátbroslegt.
![]() |
Mislæg gatnamót tekin í notkun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.12.2017 | 04:27
Loksins útreikningar á því hvað "eitthvað annað" gefur af sér.
Iðnbyltingin svonefnda hófst á 18. öld. Grunnhugsun hennar var að nota nýja orkutækni til framleiðslu á vörum, sem hægt var að vigta og telja í tonnum og skapa með því neyslusamfélag þar sem neyslan var mæld í þyngdar- og fjöldaeiningum.
Verksmiðjur voru krafan, og stóriðja, þungaiðnaður, táknaði máttinn og dýrðina.
Stóriðjan kom ekki til Íslands fyrr en hálfri öld á eftir flestum öðrum vestrænum löndum og afleiðinganna hefur líka séð stað hálfri öld lengur.
Ný könnun á Austurlandi sýnir að ofuráherslan á risaverksmiðju með karllægum störfum hefur bitnað á konum í fjórðungnum og þær vilja að gerðar séu ráðstafanir til að hamla gegn því.
Því að síðustu áratugi hefur komið í ljós að það er fjöldi kvenna á barneignaaldri, sem ræður úrslitum um íbúafjölda en ekki fjöldi karla, sem vinna í verksmiðjum.
Vafasamt er að nokkru verði breytt fyrir austan. Fólk vildi þetta þegar stóra ákvörðunin var tekin og andmælendur voru úthrópaðir, kallaðir óvinir Austurlands og hugmyndir þeirra afgreiddar sem bábiljan "eitthvað annað" og "fjallagrasatínsla."
Í útvarpsumræðum frá Alþingi í gærkvöldi var tvívegis minnst á rannsóknir á árangri fjárfestinga í því sem var úthrópað sem "eitthvað annað."
Þar kom fram að fjárfestingar vegna þjóðgarðsins yst á Snæfellsnesi skiluðu sér þannig, að fyrir hverja eina krónu komu 50 til baka.
Vitað er að Vatnajökulsþjóðgarður hefur þegar skapað bein föst störf í tugatali, þar sem meirihlutinn er konur á barneignaaldri.
En meirihluti ráðamanna í Árneshreppi vill frekar láta reisa virkjun, sem skapar ekkert beint starf í hreppnum og telur að hugmyndir á borð við Drangajökulsþjóðgarð séu of seint fram komnar, en þetta viðhorf byggist á því skammtímasjónarmiði að nýta umsvif við virkjanaframkvæmdir, sem standa í örfá ár og hafa svipuð áhrif og virkjun Blöndu hinum megin við Húnaflóann, mestu fólksfækkun í sögu héraðsins eftir að virkjanaframkvæmdum lauk.
Ferðaþjónustan er dæmi um "eitthvað annað" og hefur þvert ofan í úrtöluraddir skapað mestu lífskjarasókn og tekjur síðustu sjö ár en dæmi eru um áður.
Fyrirsögnin á tengdri frétt á mbl.is er "Hver króna skilar sér áttfalt til baka." Er þar átt við hugverkadrifið samfélag þar sem hlutföllin vegna fjárfestinga í háskólanámi voru 1:8.
![]() |
Hver króna skilar sér áttfalt til baka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.12.2017 | 00:00
Minnti á gamla takta forðum daga.
Líklega hefur ræða Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur í umræðunum á Alþingi í kvöld verið einhver besta frammistaða hennar á því sviði á ferli hennar.
Hún hefur þetta eins og stundum er sagt.
Ekki aðeins efnistökin, heldur ekki síður flutningurinn kveikti að minnsta kosti leiftur minninga frá þeim tímum þegar faðir hennar heitinn átti eftirminnilega spretti í framsögn og flutningi svo að enn yljar um hjartarætur að minnast þess.
![]() |
Stjórnarmyndunarviðræðurnar Hungurleikar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.12.2017 | 16:51
Forvitnilegt að kynnast því að vera hinum megin borðsins.
Alþingismenn höfðu margir hátt um það hve rangur úrskurður kjararáðs um laun Alþingismanna og annarra æðstu embættismanna ríkisins hefði verið.
Þetta reyndist þó aðeins vera í orði, því að ekkert var aðhafst gegn þessum úrskurði annað en það að forseti Íslands ákvað að mæta kjarabótunum miklu með því að gefa þær til líknarmála.
Kjararáð henti með þessu sprengju inn í komandi kjarasamninga, sem á eftir að súpa seyðið af á næstu misserum.
Reikna má með því að í Skerðingaspilinu, sem Öryrkjabandalagið ætlar að gefa Alþingismönnum, gefist þiggjendum færi á að prófa það hver eru áhrif laga- og reglugerðarsetningar frá hendi löggjafar- og fjárveitingavaldsins gagnvart lífeyri öryrkja og fleiri lífeyrisþega, fólks, sem margt þarf að framfleyta sér af allt að 8-10 sinnum minna fé en Alþingismenn.
![]() |
Afhenda þingmönnum Skerðingarspilið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.12.2017 | 07:33
"Gömlu dagana gefðu mér!"
Eftir allt talið um að læra af aðdraganda Hrunsins, svo sem að útrýma hinni eitruðu blöndu viðskiptabanka, fjárfestingabanka og stjórnmála, þar sem ofurbónusar ráða ríkjum auk annarra einkenna, virðist allt stefna í sama farið á ný.
Það eru að sjálfsögðu stjórnmál að komast til valdaaðstöðu og í samband við fjármálaöflin í gegnum verkalýðshreyfinguna þar sem leiðin frá beinu lýðræði kosninga til stjórna í einstökum félögum til setu við kjötkatla ofan í heita potti lífeyrissjóðanna eeð hákörlunum er orðin hættulega löng.
Fjármálakerfi heimsins með auðræði sínu er helsta ógn okkar tíma og gefur ekki aðeins æ færri æ stærri tækifæri til að sölsa undir auðæfi jarðinnar, heldur er lika tilefni fyrir skrumara og öfgaöfl á borð við Donald Trump til að komast til valda og áhrifa.
Linkind gagnvart þessum öflum ætlar að verða svipuð núna og fyrir Hrun, þó að öllum megi vera ljóst að þau syngja hástöfum söng snn: "Gömlu dagana gefðu mér!"
![]() |
Sigmundur segir bónusana bara sýnishorn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.12.2017 | 20:31
Vörnin vegna varnarveggjarins brast.
Greinilegt var þegar Ólafur Guðmundsson taldi í upphafi veggjamálsins við Miklubraut, að þeir væru ekki boðlegir, heldur jafnvel slysagildrur, að meðal aðstandenda veggjanna var farið í öfluga vörn.
En hún brast endanlega þegar fréttakona RUV stikaði níu metra fyrir framan myndavélina á þann einfalda og skýra hátt, að á nokkrum sekúndum brustu allar málsvarnir.
Nú hefur álit Ólafs Guðmundssonar hlotið staðfestingu og það er vel.
Bara að úrbæturnar komi ekki of seint.
![]() |
Gera alvarlegar athugasemdir við varnarveggi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.12.2017 | 00:34
Frábært framtak og ekki seinna vænna. "Gætum fossa og flúða...!"
Umræðan um "Hjarta landsins", stóran þjóðgarð á miðhálendi Íslands, hefur að sönnu verið afar mikilvæg.
En þegar litið er á landakort sést, að Ísland er í raun tvær eyjar sem tengjast með aðeins sjö kílómetra breiðu hafti á milli Gilsfjarðar og Bitrufjarðar.
Minni eyjan er Vestfjarðakjálkinn, sem er með einum jökli í hjarta þessa landshluta og býr yfir fágætum ósnortnum víðernum.
Þegar farin var ferð á litlu vespuvélhjóli á fjórum dögum í trúbador kynningar- og hljómleikaferð til að kynna safnplötuna Hjarta landsins í sumar, var ferðin ekki hringferð, heldur frekar "áttuferð" þar sem stafurinn átta var búinn til úr tveimur hringjum, sem farnir voru í 2000 kílómetra rykk, fyrst stóri hringurinn og síðar Vesfjarðahringurinn.
Það var til að minna á að það er til annað hálendi en miðhálendið, hálendi Vestfjarða.
Það er dásamlegt framtak hjá Tómasi Guðbjartssyni og Ólafi Má Björnssyni að gefa út Fossadagatalið 2018 og Fossabæklinginn.
Flest erindin í laginu "Hjarta landsins" eiga við Vestfjarðahálendið, allt frá upphafserindinu:
"Gætum garðsins,
yndisarðsins
og unaðar mannsins!
Gætum fossa og flúða
með fegursta regnbogaúða,
sem bylgjast um bergrisa prúða
og breiður af rósanna skrúða!"....
Einn af fossunum, sem á að drepa með Hvalárvirkjun, er rétt ofan við bæjarhúsin í Ófeigsfirði og sést frá veginum þangað, sjá mynd sem ég hyggst setja hér inn.
Og tvö af helstu örnefnunum í þessu fossafjallendi minna á þá nautn sjónar og heyrnar, sem það býður upp á með því sem Þorsteinn Erlingsson kallaði "fossaróminn" þegar hann var fjarri fósturjarðar strondum, staddur á Sjálland, og orti:
"Þá væri Sjáland sælla hér, -
sumarið þitt og blómin, -
ef þú gætir gefið mér
gamla fossaróminn."
Jóna Hallgrímsson orti líka einu sinni um áhrif nærliggjandi jökuls á sig, þar sem hann naut náttúrunnar, kyrðar og friðar á víðernum Arnarvatnsheiðar, þar jökullinn líkt og stendur vörð um víðernin:
"Á enginum stað ég uni
eins vel og þessum, mér.
Ískaldur Eiríksjökull
veit allt sem talað er hér."
![]() |
Fossadagatalið rýkur út |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)