Færsluflokkur: Bloggar

Misskilningur og fordómar varðandi hjólaferðir að vetrarlagi.

Þegar mér barst í hendur fyrir tilviljun rafreiðhjól fyrir tæpum þremur árum var það splunkunýtt rafreiðhjól sem ég tók upp í sölu á illseljanlegum bíl, og tók ég hjólið á þeim forsendum að geta selt það, af því að það var einstaklega vel úr garði gert.Léttir á Selfossi 17.3.2017

Þar að auki stóð í þeirri trú að búseta austast í Grafarvogshverfi gerði hjólið ónothæft, það væri allt of oft of kalt og vont veður og of oft ófært. 

Ég vildi ekki selja hjólið nema prófa það, en það dróst, ég setti það ekki rétt í rafsamband, og í ofanálag virtist ljóst, að það hafði staðið of lengi óhreyft áður en ég fékk það. 

Síðan auglýsti einhver allmörg ný rafreiðhjól á hálfvirði, hugsanlega vegna kyrrstöðu þeirra, og þar með var hjólið mitt orðið verðlaust! Náttfari á Hvolsvelli

Á þeim tíma sem ég var að koma hjólinu í nothæft horf með viðgerð á rafhlöðunni, kom hins vegar í ljós að langflestar mótbárurnar gegn notkun þess höfðu byggst á misskilningi eða fordómum. 

Hjólið sparar til dæmis því meiri orkukostnað sem leiðirnar eru lengri, það er hægt að setja undir það vetrardekk og þar með er hálku- og snævarhindrun úr sögunni. 

Svipaðir fordómar hurfu þegar ég bætti léttu Honda PCX 125 cc vespuhjóli við, og í tvö ár hefur reynslan verið sú að hjólin hafa verið nothæf í hverri einustu viku árið um kring í allt að 7 stiga frosti og jafnvel farnar ferðir austur fyrir fjall í frosti og vetrarfærð.Lettir við Jökulsárlón

Fór til dæmis á Hondunni austur á Sólheima á litlu jólin þar í fyrra og rakleiðis frá Sólheimum vestur í Háskólabíó til að koma þar fram á jólatónleikum Baggalúts.

Það rifjaðist upp fyrir mér, að á aldrinum 9-19 ára hafði ég verið á ferð á reiðhjóli allan veturinn og í flestum veðrum, og voru þó engir sérstakir hjólastígar þá. 

Í ferðum á hjólum, einkum á reiðhjólum, er náttúruupplifuninin öll önnur en á bíl. 

Það var til dæmis ógleymanlegt að fara frá Akureyri á hjólinu Náttfara upp Þelamörk og Öxnadal í hitteðfyrra og heyra jafnvel tíst í nýfæddum ungum í hreiðrunum við veginn. Náttfari við Engimýri   

 


mbl.is Hjólar hringinn í vetrarfæri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamalkunnug aðferð; að vera sem fljótastur með eyðilegginguna.

Vegna lítillar almennrar fræðslu um umhverfis- og náttúruverndarmál áttar fólk sig ekki á hinum mikla mun sem er á orkunýtingu og verndarnýtingu svæða. 

Hann er sá, að sé verndarnýting valin, eins og til dæmis sú á sínum tíma, að virkja ekki Gullfoss, skerðir það í engu möguleikanaa til að virkja síðar, ef mönnum snýst hugur. 

En ef virkjað er, er oftast um svo mikla röskun á landi að ræða, að það reynist annað hvort ómögulegt eða afar kostnaðarsamt að rífa virkjanamannvirkin og koma landinu í sama horf og það var. 

Gott dæmi eru tveir norrænir fossar, sem fyrir öld voru frægustu fossar Noregs og Íslands. 

Áður en Rjukan var virkjaður, var hann frægasti foss Noregs, og farið með tignustu erlendu gestina þangað, til dæmis sjálfan Frakklandskeisara. 

Í dag koma þangað örfáir, því að aðeins er um að ræða að skoða þurrt gljúfrið og svonefndan Maríustíg. 

Þegar kóngar Íslands fóru að koma hingað í heimsókn var farið með þá að Gullfossi. Ef hann hefði verið virkjaður um 1920 hefði farið fyrir Gullfossi eins og Rjukan, þangað kæmi nær enginn. 

Þetta vita virkjanadýrkendur og reyna því að hraða framkvæmdum sínum sem mest til þess að eyðilegga náttúruverðmætin á þann hátt að ekki verði aftur snúið. 

Þess vegna var Álftanesvegur um Gálgahraun keyrður áfram af fádæma offorsi og stærsta jarðýta landsins látin eyðileggja sem allra mest strax fyrsta daginn. 

Sigurður Gísli Pálmason hefur áður komið til hjálpar á ögurstundum í þágu íslenskrar náttúruverndarbaráttu. 

Hann fjármagnaði að hálfu gerð áttblöðungs, sem ég gaf út 24. september 2006 og varð kveikjan að hugmynd Andra Snæs Magnasonar að Jökulsárgöngu meira en 10 þúsund manna niður Laugaveg tveimur dögum siðar. 

Hann fjármagnaði síðan gerð hinnar áhrifamiklu myndar Andra Snæs, Draumalandið. 

"Að mati oddvitans er verndarsvæði sem útilokar virkjun ekki í spilunum." Þarna snýr oddvitinn málinu alveg á haus.

Þetta er öfugt.

Virkjanamannvirki af þeirri stærð sem eiga um eilífð að rústa ósnortnum víðernum á hálendinu suður af Drangajökli og eyðileggja fossa með nöfnum sem lýsa afli þeirra og fossahljóðum útilokar virkjun. 

Verndarsvæði er tekur hins vegar ekki ráðin af komandi kynslóðum. 

Oddvitinn vill greinilega keyra málið áfram, því að það kynni að fara svo, að stofnun Drangajökulsþjóðgarðs yrði svo miklu meiri akkur fyrir atvinnulíf og mannlíf í kringum hann, að engum myndi detta í hug að virkja, ekki frekar en að virkja Gullfoss í Hvitá. 


mbl.is Vill kostamat á virkjun og verndun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framför, en ekki má vanrækja "heimahleðslu."

Hraðhleðslustöðvar eru nauðsynlegar ef rafbílar eru notaðir utan þéttbýlis, og stöðvarnar, sem verið er að setja upp, eru mikið framfaraspor. DSC00152

Þó virðast Vestfirðir verða alveg útundan á næstu misserum, því að frá Staðarskála til Ísafjarðar eru 334 kílómetrar og frá Búðardal til Ísafjarðar um 300 kilómetrar. 

En þrátt fyrir hraðhleðslustöðvarnar eru þær ekki nothæfar eingöngu, því að í þeim fást aðeins 80 prósent fullrar orku rafhlapnanna.

Með vissu millibili verður að hlaða hvern rafbíl rólega upp í topp á venjulegan hátt með "heimarafmagni", t. d. á tveggja vikna fresti, annars missa rafhlöðurnar hæfni sína til að geyma orku. 

Á rafbílnum, sem ég er kominn á, tekur níu klukkustundir að hlaða rafhlöðina frá lægstu leyfilegu stöðu upp í topp, og möguleikar til að hlaða bíla við fjölbýlishús eru mjög takmarkaðir.  

 


mbl.is Hraðhleðslustöðvum fjölgar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hvað er að?"

"Hvað er að?" heitir eitt laga Jónasar og Jóns Múla Árnasonar, sem flutt er í söngleiknum Ellý í Borgarleikhúsinu og er gott dæmi um galdur leikhússins, þegar máttur hins beina sambands leikara og áhorfenda er best nýttur. 

Þessi orð koma í hugann þegar lesin er tengd frétt á mbl.is þar sem umsjónarmenn fjölmiðlanna, sem halda úti bloggi, lýsa einkennum þeirra sem þeir kalla "netdólga."

Þau eru býsna kunnugleg mér og fleirum síðuhöfum. 

Eftir tíu ára reynslu af því að halda úti bloggsíðu þar sem skrifaðir hafa verið meira en tíu þúsund pistlar og sennilega tvöfalt fleiri athugasemdir, er reynslan sú, að lygilega sjaldan hefur þurft að fjarlægja athugasemdir eða gestina, sem gert hafa athugasemdir. 

Hægt hefur verið að telja þessa aðgangshörðu gesti á fingrum annarrar handar. 

En þeir hafa að sama skapi verið afar illskeyttir á stundum og áhugavert fyrir sálfræðinga að kynna sér atferlið. 

Það er nokkurn veginn svona: 

Viðkomandi skrifar undir dulnefni og vegur úr launsátri, þ. e. skrifar ekkert, segi og skrifa ekkert annað en níð um bloggsíðuna, allt sem í hana er skrifað og síðuhafa. 

Hann vílar ekki fyrir sér að fullyrða og það aftur og aftur, að allt sem síðuhafi skrifar sé lygi og rangfærslur. 

Jafnvel vakað heila nótt við að setja inn sömu athugasemdirnar aftur og aftur. 

Já, þetta er makalaust, ef athugasemd er þurrkuð út skrifar "fúll á móti" hana aftur og síðan aftur og aftur þangað til að maður áttar sig á, að maður ætli ekki að eyða síðustu árum ævinnar í að þurrka út athugasemdir, sem ævinlega er troðið inn á ný. 

Engin leið er að útiloka leyniskyttuna, því að hann skiptir þá bara um dulnefni og IP-tölu og skýtur úr öðru launsátri. 

Eitt ráðið sem síðugestir af þessu tagi grípa jafnvel til, er að troða sér inn á nafni náins ættingja! 

Ef maður reynir að losna við óværuna, er taflinu snúið við: Síðuhafinn er fordæmdur fyrir ofbeldi og grófa ritskoðun. 

Síðuhafinn uppgötvar að hann er ekki lengur síðuhafi, heldur hefur óværan tekið öll völd og að annað hvort verði að lúta valdi hennar eða játa sig sigraðan og loka síðunni.

Sennilega yrði óvildarmaðurinn þá í einhverjum tímabundnum vandræðum, því að ekki er að sjá að hann láti svona á öðrum síðum. Nema að hann noti þá annað dulnefni.  

Fúll á móti virðist ganga með þá köllun að andskotast stanslaust árum saman út í eina persónu, síðuhafann, sem honum er svo mikið í nöp við, að eitt einasta jákvætt orð sést ekki hrjóta úr penna hans í síbyljueinelti hans. 

Ef reynt er að andmæla vegna þess að það að svara ekki er túlkað sem uppgjöf, og einhverjir sem ekki þekkja til, gætu tekið óvildarmanninn trúanlegan, keyrir leyniskyttan stóryrðin upp en segir afnframr að það sé síðuhafinn, sem sé með stóryrði vegna þess að hann "veit upp á sig sökina - rökþrota" svo að notað sé nýjasta orðalagið. 

Í því tilfelli var átti sök síðuhafans að vera sú, að hann væri mesti umhverfissóði jarðar og því hrikalegasti hræsnari jarðar. 

Í tengdri frétt á mbl.is kemur fram fróðlegt fyrirbæri, að óvildargesturinn safni jafnvel IP-tölum og búi til allt að tíu persónur, sem geti þá líka látið til sín taka, auk aðal hælbítsins. 

Tæknilega er því hugsanlegt að hann geti skipt sér í fleiri en einn gest með dulnefni, sem samsinni aðal óvildargestinum. Ekki þarf marga slíka til þess að hægt sé að loka hringnum með því að segja: Þeir virðast vera í meirihluta hér á síðunni, sem samsinna mér um lygar og rökþrot þín, og það sýnir best hvílíkar staðleysur þú viðhefur, þú aumi síðuhafi.  

Minnir mig á brandara sem Laddi fór með í Sumargleðinni fyrir 42 árum, þar sem hann sagði frá eltingarleik, þar sem hann var að reyna að komast undir ógnandi manni með hníf. 

Að lokum ætlaði hann að stökkva yfir lágan vegg, en datt, og lá varnarlaus á jörðinni.

"En þar sem maðurinn með hnífiinn stóð yfir mér datt mér snjallræði í hug til undankomu:  

Ég dreifði mér!"  

En vitið þið hvað hann gerði þá? 

Hann umkringdi mig!" 

Þetta fyrirbrigði, miðaldra maður, fullur af óvild, oftast mjög persónulegri, væri vafalaust athyglisvert rannsóknarefni fyrir sálfræðinga til að svara spurningunni: "Hvað er að?" 

En því miður er það ekki heldur hægt þegar leyniskytta, sem vegur úr launsátrum á í hlut. 

Og leyniskyttan hefur fyrir löngu komist að því hvað sé að, og lætur það ótæpilega í ljós að sá sem þessu valdi sé síðuhafinn, sem "viti upp á sig sökina / skömmina", og síðan heldur hælbíturinn áfram að ausa síðuhafann flestum þeim ónefnum, sem hægt er að finna.  

 

 

 


mbl.is Fréttir um konur og innflytjendur vekja hörð viðbrögð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hreppstjórinn, sem fann úrið sitt 35 árum eftir hvarf þess.

Veskisfundur í Sviss í tengdri frétt á mbl.is leiðir hugann að svipuðum atburðum hér á landi.

Snemma á síðustu öld varð Jónatan Líndal, hreppstjóri og bóndi á Holtastöðum í Langadal, þess var, að einhvers staðar á leið hans í smalamennsku um fjallendið ofan við bæinn, hafði forláta vasaúr hans dottið og horfið án þess að hann yrði þess var. 

Liðu nú 35 ár, en þá bar svo við fyrir einskæra tilviljun að gengið var fram á úrið í fjallshlíiðinni ofan við bæinn þar sem það lá enn þar sem það hafði dottið niður 35 árum fyrr. 

Úrið var inni í hulstri, sem var orðið ryðgað að utan, en þegar það var opnað, var úrið stáheilt og gekk "eins og klukka" á ný, um leið og það var trekkt upp. 

Á áttunda áratugnum var ég í ferð á Snæfellsnesi, lenti á Gufuskálum og ók þaðan austur eftir nesinu og hljóp eftir nokkrum túnum í leit að heppilegum lendingarstöðum. 

Þegar ég kom til baka brá svo við að lykillinn að FRÚnni var horfinn. 

Á buxnavasa mínum kom i ljós lítið gat og þar hafði lykillinn greinilega runnið í gegn einhvers staðar á túnagöngum mínum um daginn.

Svo vel vildi til að á Gufuskálum vann þá Baldur Erlendsson, gamall skólafélagi minn, snillingur á sviði rafeindatækja, og breytti hann svissinum þannig að ég kæmi vélinni í gang. 

Þegar ég fór í loftið datt mér í hug að fljúga eftir túnunum, sem ég hafði hlaupið um í þeirri veikku von að sjá glytta á lykilinn.  Þetta var að sjálfsögðu fráleitt, en þá mundi ég eftir þvi að ég hafði farið út úr bílnum til að pissa á veginum, þar sem hann lá á þeim tíma upp í Ólafsvikurenni. 

Og viti menn, það var skúraveður og sólargeisli sem braust í gegnum ský, lýsti upp votan staðinn þar sem ég hafði farið út úr bílnum, og þarna sá ég eitt örstutt augnablik glytta á lykilinn í vegbrúninni. 

Þetta var beinn vegarkafli og enginn bíll á ferð, en hægt að tylla sér niður og færa vélina út í útskot. 

Nú komu þarna bílar að og ég var spurður hvað ég væri að gera, hvort það hefði orðið vélarbilun. 

"Nei", var svarið, "ég datt lykill úr buxnavasa mínum hér einhvers staðar á nesinu í dag og mér sýndist ég sjá hann áðan úr lofti." 

Fólkið hristi höfuðið vantrúað, en ég gekk í áttina að staðnum, þar sem mér hafði sýnst ég sjá glampa frá lyklinum, og það passaði, þarna lá hann. 

"Jú, hér liggur hann" sagði ég sigri hrósandi, tók lykilinn upp, veifaði honum og fór síðan mína leið í loftið niður brekkuna á nokkrum metrum. 

En fólkið gapti af undrun og lái ég því það ekki. 


mbl.is Fann veskið sitt áratug síðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt glæsilegasta og magnaðasta spendýr jarðar.

Hvítabjörninn er eitt aðdáunarverðasta spendýr jarðarinnar fyrir sakir atgervis á láði og legi og hæfileikann til að lifa við erfiðustu skilyrði sem hægt er að hugsa sér. 

Fróðlegt er að sjá á netinu mimunandi viðbrögð við myndum af dauðastríð hvítabjarnar á Baffinslandi. 

Myndin er táknræn fyrir þær sakir, að hvítabjörnum fer fækkandi vegna loftslagsbreytinga og honum ógna líka þrávirk eiturefni, sem fylgja manninum og eyðast margfalt hægar í köldum skilyrðum en sunnar á hnettinum.DSC00178

Sem fyrr eru viðbrögð sumra þau að fordæma myndbirtinguna á þeim forsendum að "hræsnarar" hafi tekið hana vegna þess að þeir hafi brennt jarðefnaeldsneyti til þess að ferðast á þessum slóðum. 

Þetta eru aum rök, því að varðandi samgöngur er það útblástur mörg hundruð milljóna bíla að mestu í akstri hversdagsins, sem munar langmest um en ekki akstur, flug eða siglingar í afmörkuðum ferðum, þar sem ekki hefur enn verið fundin aðferð til að taka upp notkun rafafls eða annarra ráða til að losna við notkun jarðefnaeldsneytis. DSC00092

Sjálfur kannast ég vel við ásakanir mér á hendur fyrir að vera hræsnari í samgöngumáta mínum. 

Fyrir fólk með lélegan lífeyri eða fastatekjur er erfitt fjárhagslega að kaupa rafbíl en hælbítarnir taka ekkert slíkt til greina. Hræsnari skal ég vera.  

En á síðustu tveimur árum hef ég komist yfir rafreiðhjól og 450 þúsund króna Honda PCX 125 cc vespuhjól, sem nær þjóðvegahraða en eyðir aðeins broti af því bensíni sem sparneytnustu bílar eyða. Náttfari við Engimýri

Honduna nota ég þegar rafreiðhjólið er ekki nógu langdrægt eða hraðskreitt innanborgar og hef á fyrsta árinu í því farið 6000 kílómetra um allt land við kvikmyndagerðarverkefni mín og annað. 

Þessi tvö hjól gerðu kleyft að minnka kolefnisspor mitt við eigin persónulegu not um 70 prósent. 

Og fyrir nokkrum dögum tók ég á leigu minnsta rafbíl á Íslandi, ítalskan Tazzari sem ég set inn mynd af hér á síðunni. 

Þar með hefur fótspor mitt minnkað um 85 prósent, en út af stendur ca ein ferð á ári þar sem nota þarf jöklabíl, helst minnsta jöklabíl á Íslandi.  

Þá er upphafinn söngurinn um stórfellda mengun í flugi mínu í smáflugvélum, sem er reyndar ómögulegt að fara á rafknúinni flugvél. DSC00164

Ef við RAX ættum að lyppast niður fyrir þessu "hræsnara"tali hefðum við að átt að sleppa því að fara yfir Öræfajökul á dögunum og taka myndir sem gagnast hafa vísindamönnum, og raunar að leggja ævistarf okkar til hliðar. 

Þetta flug hefur síðustu tvö miðmiðunarár mín numið samtals um 15 klukkustundum á ári, sem samsvarar um 2000 kílómetrum á ári, en meðalakstur einkabíla á Íslandi er um 15000 kílómetrar á ári. 

Þá grípa hælbítarnir til hinnar gríðarlegu mengunar, sem sé af farþegaflugi í heiminum, en gæta ekki að þvi að þar er aðeins um að ræða eitthvað á bilinu 10-15% af útblæstri samgöngutækja á landi, - það er engin tæknileg leið fær til að rafvæða þetta flug og að sjálfsögðu engin leið til að leggja allt flug niður. 

En það sést strax á viðbrögðum við hvítabjarnarmyndinni að þrautaráðið er "að taka Trump á" málið með því að fullyrða að vísindalegar mælingar á loftslagi, ís og jöklum á jörðinni séu falsaðar. Og Trump hefur lýst yfir vilja sínum til þess að reka alla þessa vísindamenn og ráða "alvöru" vísindamenn í staðinn, sem komist að "réttum" niðurstöðum um að loftslag fari jafnvel kólnandi. 

 


mbl.is Hræðilegt dauðastríð ísbjarnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hólsselskíll, Hvalfjörður, Miklabraut, flughált malbik ofl. ofl.

Svo lengi  sem ég man hefur viðkvæðið sem ævinlega er haft varðandi slys vegna lélegra aðstæðna í vegakerfinu, að í umferðarlögunum standi að ökumenn eigi ávallt að haga akstinum eftir aðstæðum. 

Ef öryggisatriðum í vegakerfinu hefur verið ábótavant er lang oftast skautað framhjá því þegar dæmt er um slys og óhöpp. 

Slysið í Biskupstungum minnir mig á slys sem olli mér nákomnum í fjölskyldunni meiðslum, sem kvöldu hann og hrjáðu í áratug. 

Hann var á vélhjóli á Reykjanesbraut í þéttri umferð og sá því ekki fyrr en of seint, að hann var kominn út á alveg nýlagt malbik, sem var blautt og fljúgandi hált, næstum eins og ísilagt. 

Hjólið skrikaði og féll og í byltunni mölbraut annar pedalinn á hjólinu ökkla svo gersamlega, að margar aðgerðir tók næstu árin að koma því í lag. 

Ég minnist þess ekki að nokkurn tíma hafi verið sett upp skilti til að vara vegfarendur við eins gerbreyttum aðstæðum eins og verða þegar glænýtt malbik verður blautt. 

Slysið minnir mig líka á það hvernig Hvalfjarðarvegurinn var vegriðalaus lengi vel vegna þess að því var borið við að það yrði svo ægilega dýrt að setja þar vegrið, - þau yrðu að vera minnst tíu kílómetra löng. 

Á þessum tíma voru engir drónar, svo að ég stökk upp í litla 3ja manna flugvél sem ég átti þá og flaug eftir öllum veginum og sýndi fram á, að það þurfti ekki nema samtals 1,3 kílómetra vegrið til að koma í veg fyrir bílar gætu steypst í sjóinn ef þeir lentu útaf. 

Nú var ekki lengur hægt að þræta í þessu máli. 

En áður en til framkvæmda kom fórust hjón, sem voru í bíl, sem steyptist fram af hömrum í sjó niður á einum þeirra stuttu kafla sem ég hafði bent á og sýnt á loftmynd. 

Ég tók líka myndir af aðkeyrslunni að brúnni á Hólsselskíl þar sem alvarlegt rútuslys, banaslys ef ég man rétt, varð skömmu fyrir síðustu aldamót og fjöldi fólks slasaðist. 

Á myndunum sást, að þegar komið var í átt að brúnni voru brúarstólparnir, sem hölluðust út,  með svo gamalli hvítri málningu, að hún hafði máðst af og huglst moldu einmitt á þeim stað sem verst var, neðst við veginn. 

Tilsýndar virtust brúarstöplarnir lóðréttir og brúin vera heilum metra breiðari en hún var. 

Bílstjórinn var sakfelldur grimmilega fyrir að vera einn valdur að þessu slysi og sjonhverfingarnar vegna fyrrnefndar vanrækslu í engu teknar til greina. 

Á Dynjandisheiði síðastliðið sumar voru svo djúpar holur við endann á nokkrum stuttum brúm, að ef fólksbílar lentu á allt að 15 sentimetra hárri brúnum á brúarendanum, gat það valdið slysum og tjóni. 

Hvergi var að sjá neinar merkingar sem vöruðu við þessu. 

Það nýjasta er kantur á bryggju á Árskógssandi og veggir og girðingar við Miklubrautina. 

Það er ekki fyrr en fréttakona á RÚV stikar á einfaldan hátt vegalengdina frá Miklubrautinni að steinagarðinum norðan megin, sem það sést ljóslega hvernig í pottinn er búið svo að ekki verður um deilt. 

 


mbl.is „Hverju er verið að bíða eftir?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samt á að vaða yfir allt þetta svæði með risaháspennulínu.

Hreint vatn, eitt af því sjálfsagðasta, sem Íslendingar þekkja, er að verða æ dýrmætari auðlind á jörðinni, og skortur á því og barátta um það er vaxandi vandamál. 

En það er ekkert sjálfgefið að vaxandi mannfjöldi á höfuðborgarsvæðinu geti treyst því að hafa aðgang að hreinu vatni. 

Því er ógnað með því að síauka umsvif og byggingar á vatnsverndarsvæðunum, eru austan og suðaustan við byggðina á höfuðborgarsvæðinun. 

Þetta kemur fram í ýmsu, sem aðhafst er til að minnka hættuna á því að þessu ómetanlega vatnsverndarsvæði sé spillt. 

Þó er þar stór undantekning á. 

Í krafti þeirrar áltrúar, sem Íslendinga tóku á Alþingi á sjöunda áratugnum, þykir ráðamönnum þjóðarinnar sjálfsagt mál að vaðið verði með risamannvirki þvert í gegnum allt þetta vatnsverndarsvæði eins og það leggur sig, með lagningu risaháspennulínu sem kostar umsvif stórvirkra véla og gerð vega, auk þess sem viðhald þessarar línu verður ekki umflúið. 

Þar að auki verður þessi lína lögð þannig að sem mest sjónmengun verði af henni á svæði, sem býður upp á mörg dýrmæt náttúruverðmæti. 

En stóriðjudýrkendurnir og áltrúarmennirnir taka ekki annað í mál. 

Allar hugmyndir náttúruverndarfólks um að línan verði lögð í jörð vestan við þetta ómetanlega vatnsverndarsvæði eru slegnar út af borðinu. 

Og gamli söngurinn kyrjaður um að þetta fólk sé "lattelepjandi kaffihúsaafætur í 101 Reykjavík, öfga-umhverfisfasistar, sem sé á móti rafmagni, á móti lífskjarasókn, á móti atvinnuuppbyggingu." 

Þetta er sagt þótt við Íslendingar framleiðum þegar fimm sinnum meira rafmagn en við þurfum fyrir eigin heimili og fyrirtæki og að lífskjarasókn okkar síðustu sjö árin hafi byggst á því sem stóriðjudýrkendur töldu ómöguleg og kölluðu með fyrirlitningartóni "eitthvað annað".   


mbl.is Vatnsrík jörð til sölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aldrei réttlætanlegt. Kistan á Nesveginum.

Fáir hafa lýst reiðinni og fylgifiskum hennar betur en Jón Vídalín biskup á sínum tíma. 

Þegar fylgifiskar hennar fara út yfir mörk hins réttlætanlega eiga að vera til úrræði í siðuðu samfélagi til þess að koma í veg fyrir að það valdi skaða hjá saklausu fólki.

Það er til marks um að reiðin sem braust út í Búsáhaldabyltingunni og eimdi eftir áfram var komin út fyrir lögleg, skynsamleg og siðleg takmörk þegar mótmælendurnir sjálfir neyddust til þess að verja íslensku lögregluna fyrir hamslausum árásum þeirra tiltölulega fáu, sem settu blett á þessa merkilegu "byltingu" með því að stefna lífi og limum lögreglu í hættu og brenna meira að segja gjafajólatré Norðmanna, tákn hátíðar friðar og kærleika. 

Að sönnu bitnaði Hrunið, sem var af mannavöldum, á þúsundum saklausra borgara á öllum aldri og að því leyti var reiði margra skiljanleg og finna einhvern til að skeyta skapi sínu á. 

Hana var hægt að láta í ljós með hefðbundnum mótmælaaðgerðum, sem geta verið býsna áhrifamiklar, eins og kom í ljós á aprílfundinum stóra á Austurvelli í fyrra. 

Og í slíkum aðgerðum hef ég tekið þátt ásamt tugþúsundum annarra. 

Í einstaka tilfellum var mótmælt við vinnustaði þeirra sem reiðin beindist gegn, og var það skiljanlegt. 

En það var ekki, er ekki og verður aldrei réttlætanlegt að ráðast að heimilum þeirra, sem reitt fólk telur sig eiga sökótt við, því að venjulega er það aðeins gegn gerðum eins af fjölskyldunni, sem reiðin beinist gegn, en ekki að gerðum barna eða annarra saklausra í fjölskyldunni, sem eiga einskis að gjalda.  

Frá upphafi þessara mörgu heimilismótmælaaðgerða hér um árið hef ég undrast að svona fyrirbæri skuli vera til hér á landi og lét það strax í ljós hér á bloggsíðunni. 

En það vekur líka undrun að eftir að rykið á að vera löngu sest, skuli enn finnast menn þeirra á maðal, sem ollu saklausu fólki angist og miklum ótta, ekki sjá neitt athugavert við aðför og umsátri um heimili fólks, jafnvel svo mörgum dögum skipti.

Nokkrir hafa þó beðist afsökunar og séð aðgerðirnar í nýju ljósi og mega eiga heiður fyrir það. 

Ég skal nefna dæmi úr eigin reynslubanka sem útskýrir að hluta hvað ég á við um afleiðingar mikils ótta og skelfingar. 

Þegar ég var á fjórða ári kom ég eitt sinn með föður mínum inn á verkstræði vestast við Nesveginn. 

Ég var það ungur, að ég man ekkert eftir atvikinu, sem þarna gerðist, en man þó eftir því þegar við gengum þarna inn. 

Svipað á við um árekstur bíls sem ég var í með foreldrum mínum ári fyrr; ´- ég man eftir ferðinni rétt áður en áreksturinn varð og einnig eftir broti úr ferðinni heim, en ekkert eftir árekstrinum sjálfur. 

En faðir minn sagði mér löngu síðar frá því að á verkstæðinu hefði ég farið af forvitni barnsins að kíkja ofan í opna kistu sem stóð á gólfi verkstæðisins. 

Sjálfur stóð hann álengdar á tali við mann. 

Skipti þá engum togum, að smiður sem þarna var, tók mig upp, tróð mér með valdi ofan í kistuna og skellti henni í lás, og átti þetta líklega að vera sakleysislegur smá hrekkur.  

Faðir minn sagðist aldrei hafa orðið vitni að öðrum eins skelfingar- og hræðsluópum barns og heyrðust upp úr lokaðri kistunni og þau héldu áfram eftir að hann hafði komið hlaupandi og bjargað mér upp úr kistunni.

Nú liðu rúmlega tvö ár, og þá fór ég að fá hroðalegar martraðir í svefni. Þær voru allar eins: Ég lá í rúminu og varð þá var við að dimmt loftið og veggirnir voru að hrynja rólega niður og í átt að mér úr öllum áttum. 

Ég vaknaði við það trylltur af hræðslu að ég var að kafna og var frávita af ótta. 

Eftir að þetta hafði endurtekið sig einu sinni var ég orðinn dauðhræddur við það að sofna og lá oft andvaka óttasleginn. 

Þegar þetta hafði gerst nokkrum sinnum, vaknaði pabbi loksins við þetta og það var ógléymanleg stund þegar hann tók mig í fang sér og sefaði mig og huggaði nógu lengi til þess að ég gæti andað rólega og sofnað þegar hann strauk blíðlega votar kinnar mínar. 

Eftir að faðir minn hafði sýnt mér þessa umhyggju á úrslitastundu fékk ég aldrei svona slæmar martraðir aftur. 

En líklega voru martraðirnar eins konar úrvinnsla undirmeðvitundarinnar til að hreinsa atburðinn burtu, meðferð af svipuðum toga og áfallahjálp er á okkar tímum. 


mbl.is Fékk martraðir vegna „reiðu karlanna“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tregðan í kulda ísmassans.

Tregða í massa íss sést vel þegar flogið er yfir Ísland á vorin og haustin. Í flugi yfir sunnanvert hálendið um daginn voru ýmis vötn á hálendinu enn auð, þótt búið væri að vera frost í nokkrar vikur. Súkka Fox á Bárðarbungu 

Á vorin leysir ísa yfirleitt ekki af stórum vötnum og miðlunarlónum eins og Þórisvatni og Hálslóni fyrr en um tveimur vikum eftir að hitinn kemst upp fyrir frostmark. 

Þegar eldgos var hafið í Gjálp tók það sjóðheita kvikuna sólarhring að bræða nokkur hundruð metra þykkan jökulskjöldinn yfir sér áður en gosmökkurinn braust upp og stóð mörg þúsund metra upp í loftið. 

Það þurfti marga mánuði til að jarðhitinn í brún Bárðarbungu bræddi lóðrétt gat á ísinn, á annað hundra metra djúpt

Sigketillinn á Öræfajökli á vafalaust eftir að dýpka áfram, og ef hitinn undir eykst, kann hugsanlega með tímanum að myndast þar svpað lón og sjá má í Kverkfjöllum. 

Það verður jafn athyglisverð breyting á útliti jökulsins og götin tvo á Bárðrbungu eru orðin, en þegar þau sáust fyrst um mánaðamótin ágúst-september var það ótrúleg breyting í huga þess sem hefur margsinnis ekið þangað áhyggjulaus á jöklajepp en myndin er einmitt tekin í einni af slíkum ferðum.  

,  


mbl.is Dýpkaði um rúma 20 metra á 9 dögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband