Færsluflokkur: Bloggar

Takmarkalaust frelsi er ekki til.

"Frelsi eins endar þar sem frelsi annars byrjar." Þetta er eitt af því frumkvöðlar vestrænnar hugsunar um frelsi tóku fram sem forsendu fyrir mesta mögulega samanlagða frelsi allra og vöruðu með því við því að óheft frelsi fárra gerði fjölda annarra ófrjálsa. 

Núverandi trúfrelsisgrein íslensku stjórnarskrárinnar setur þennan varnagla og í tillögu stjórnlagaráðs segir að trúfrelsi skuli "háð þeim takmörkunum, sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi." 

Sú fullyrðing er því röng sem sífellt er tönnlast á að múslimar á Íslandi eigi rétt á samkvæmt íslenskum lögum að láta öfgafyllstu túlkun á Sharía-lögum gilda hjá sér, svo sem handarhögg fyrir þjófnaði og líflát fyrir að vera ekki múslimatrúar. 

Ef múslimar gætu sett á Sharía-lög innan sinna raða og framfylgt þeim gætu kristnir öfgamenn myndað söfnuð, þar sem þrælahald væri stundað, konur sviptar málfrelsi á opinberum vettvangi, hins vegin fólki refsað fyrir kynhvöt sína og heimilt væri að nota vopnavald til að kristna fólk, samanber boðorðið um að menn skuli ekki girnast þræl eða ambátt náunga síns, ummæli í Nýja testamentinu um að konur skuli þegja á fundum og skipun Krists um að fara og gera allar þjóðir kristnar, en það skóp fordæmi Ólafs "helga" Noregskonungs og krossfaranna, sem birtist í styttu af konungnum á hesti með Biblíuna í annarri hendi og sverð í hinni.

Á Ítalíu er bannað að stofna fasistaflokk og í Þýskalandi bannað af stofna nasistaflokk. Svo róttækt bann og frelsisskerðing þykir nauðsynleg aðgerð í ljósi þeirrar villimennsku og hörmunga sem fasistar og nasitar leiddu yfir heiminn. 

 

Það er afar einfölduð mynd að stilla átökunum við íslamska hryðjuverkamenn í Írak og Líbíu upp sem átökum eingöngu milli múslima annars vegar og vestrænna þjóða hins vegar.

Hryðjuverkamennirnir myrða og limlesta fyrst og fremst aðra múslima og Jórdanir og Egypta hafa beitt hervaldi gegn þeim af fyllstu hörku og íslamistarnir verið fordæmdir af fleiri þjóðum, þar sem múslimatrú eru höfuðtrúarbrögðin.   

 


mbl.is Heitir „varanlegum sigri“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Áunnin fáfræði" er oft knúin áfram af stundarhagsmunum.

Allt fram til ársins 2006 trúði ég því þessari fullyrðingu öflugasta fjölmiðlamanns allra tíma: "Sannleikurinn mun gera yður frjálsa." Ég trúði því að með því að birta óhlutdrægar upplýsingar og gera mismunandi skoðunum jafnhátt undir höfði myndi fást fram skynsamlegasta niðurstaðan í umhverfis- og náttúruverndarmálum á Íslandi. 

Þetta reyndist tálsýn. Strax árið 1999 fór í gang herferð gegn starfi mínu og var þess krafist að ég yrði rekinn frá RUV fyrir að "misnota aðstöðu mína" með "einhliða áróðri" og "einokun á umfjöllun".

Rökin fyrir þessari kröfu voru þau að ég hefði sýnt myndir af virkjunarsvæðum, en það hefði enginn gert fyrr og því hlytu slíkar myndbirtingar út af fyrir sig að vera hlutdrægar.

Vanræksla mín og annarra fram að því í að sýna virkjunarsvæðin var talin vera rök fyrir því að ekki ætti að fjalla um virkjunarsvæði og áhrif virkjana, af því að fyrirfram væri vitað að svæðin væru einskis virði, hefðu ekki kunnug fólki fram að því og að það eitt sannaði að þau væru ekki krónu virði!

Svona viðbrögð voru mér svo sem ekki ókunnug, því að svipuðu hafði verið haldið fram þegar ég sýndi ástand gróðurs og jarðvegs á Íslandi á níunda áratugnum í þáttum og fréttum.

Það var argasta hlutdrægni að sýna ástand landsins.  

Á vegum útvarpsráðs 1999, var umfjöllun mín um virkjanamál rannsökuð rækilega, einkum sú ásökun að ég hefði verið hlutdrægur í birtingu mismunandi sjónarmiða og einokað umfjöllunina, og kom í ljós að hún átti ekki við rök að styðjast. Þessi sýknun gerði mögulegt að halda áfram upplýsingamiðlun um málin fram til 2006, en þá var óhjákvæmilegt að gefast upp fyrir því sem kalla má "áunna fáfræði", sem knúin var áfram af fjársterkustu valdaöflum þjóðfélagsins. 

"Áunnin fáfræði" sést vel í núverandi umfjöllun um Hagavatnsvirkjun. Verið hefur í gangi síbylja um ágæti virkjunarinnar og fullyrt að allir aðilar, heimamenn, Orkustofnun og stjórnvöld séu einróma sammála um kosti hennar og að nákvæmar og ítarlegar rannsóknir liggi fyrir að henni fylgi einungis kostir og alls engir gallar. Fullyrt að Landgræðslan og Skógræktin beiti auk þess þrýstingi á að keyra málið í gegn. 

Ég skrifaði grein um málið nýlega í Morgunblaðið þar sem þetta var hrakið, meðal annars sú síendurtekna fullyrðing að Landgræðslan sé meðmælt virkjuninni og "þrýsti á" um hana.

En þetta er eins og að stökkva vatni á gæs. Áfram birtast pistlar þar sem síbyljan um allsherjar ágæti virkjunarinnar er endurtekin. Ég hef skorað á þá, sem halda í síbyljuna, að hrekja þau rök sem birtist í greininni, en því er ekki ansað. 

Þegar ég ræði við fólk um málið, virðist enginn hafa lesið þessa grein mína og enginn kannast við neitt annað en dýrð og dásemd þessarar virkjunar.

Augljósir stundarhagsmunir eru í húfi varðandi vikjunina, þar sem hagsmunir seinni kynslóða eru fótum troðnir. Þess vegna verður "áunnin fáfræði" um hana keyrð áfram hér eftir sem hingað til með góðum árangri fyrir þá sem þessari aðferð beita.  

 


mbl.is Afneitunarsinni á olíuspena
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útspil Davíðs kann að verða tvíbent.

Þótt Reykjavíkurbréf sé ekki ritað undir nafni er líklegast að Davíð Oddson sé höfundur síðasta Reykjavíkurbréfs, ef miðað er við efni þess, sem er lán Seðlabankans til Kaupþings rétt fyrir Hrunið í október 2008. 

Í bréfinu er leitast við að fría Davíð af allri ábyrgð á þessu láni og koma ábyrgðinni alfarið yfir á ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. 

Einnig er sagt að krafan um afsögn Davíðs hafi verið fáheyrt rugl. 

Tvennt kanna að trufla þessa röksemdafærslu Davíðs og beina umræðunni í aðra átt en hann vonast til. 

Í fyrsta lagi ber bæði Má Guðmundssyni núverandi Seðlabankastjóra og Jóni Sigurðssyni, fyrrverandi Seðlabankastjóra, saman um það, að lögum samkvæmt beri stjórn Seðlabankans ævinlega endanlega ábyrgð á lánveitingum bankans. 

Í öðru lagi var það krafan alla tíð í Búsáhaldabyltingunni frá október 2008 til janúar 2009 að bæði ríkisstjórnin og Seðlabankastjórnin færu frá. 

Og bæði ríkisstjórnin, með ráðherrum Sjalla og Samfó, og Seðlabankastjórinn fóru frá. 

Skrifin í Reykjavíkurbréfinu og aðrar umræður um málið hljóta að gefa þeirri kröfu aukið vægi að birta símtalið fræga milli Geirs Haarde og Davíðs Oddssonar. 

Og þá verður fróðlegt að fylgjast með framvindu málsins. 


mbl.is Hyggst gera skýrslu um Kaupþingslán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefur skolfið við Herðubreið undanfarin ár.

Jarðskjálftar hafa verið viðloðandi á svæðinu norðaustan Vatnajökuls í sjö og hálft ár eða allt frá sumrinu 2007. 

Þeir komu í hrinum og voru fyrst við fjallið Upptyppinga en færðust rólega til norðurs og voru veturinn og vorið eftir mest norðaustur af fjallinu í kringum brúna á Kreppu. 

Komu á tímabili í Álftadalsdyngju fyrir austan brúna en fóru síðan næstu ár að færa sig í vestur í móbergshrygginn Herðubreiðartögl og Herðubreið. 

Þar hafa þeir verið síðan en reyndar komið í hrinum og stundum legið að mestu niðri. 

Þannig virðist það vera núna. Dregið hefur úr skjálftunum, sem greint er frá í tengdri mbl.is. 


mbl.is Smáskjálftar í nágrenni Herðubreiðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Gamla Gufan".

Við Gufuskálar á Snæfellsnesi stendur 412 metra hátt mastur sem eitt sinn var hæsta mannvirki í Evrópu. Þaðan er útvarpað dagskrá RUV í blöndu frá Rás 1 og Rás 2 á langbylgju og sérstaklega séð um það að blanda þannig útsendingunni, að fréttir, veðurfregnir og annað það, sem snert getur öryggi fólks, sé í langbylgjuútsendingunni. 

Hægt er að kaupa sér lítil handhæg útvarpstæki sem ná útsendingunni á langbylgjunni hvar sem er um allt land á tíðnunum 189 frá Gufuskálum og 207 frá Eiðum. 

Frá engu öðru fjarskiptatæki nást sendingar um allt land því að til eru skuggar þar sem gervihnattasamband er ekki fyriri hendi og ennþá stærri og fleiri svæði þar sem ekkert farsímasamband er.

Útsendingin á langbylgju kemst næst því að samsvara "Gömlu Gufunni" þegar aðeins var sent út á einni bylgjulengd á Íslandi, ef Kanasjónvarpið er frátalið, sem aðeins náðist á suðvesturhorninu.

Litla langbylgjuútvarpstækið á því að vera efst í forgangsröðinni varðandi nauðsynlegan fjarskiptabúnað í ferðalögum, jafnvel þótt fjarskiptin séu aðeins aðra leiðina.  


mbl.is Konan er ófundin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nærbuxnalaus þingmaður á Alþingi.

Fátt er nýtt undir sólinni, að minnsta kosti það að þingmenn greiði atkvæði nærbuxnalausir á þingi. Það gerði Albert Guðmundsson á útmánuðum 1980. 

Málavextir voru þeir að Albert var fastamaður í Stjörnuliði mínu og lék með því einn af tugum leikja þess kvöld eitt í Laugardalshöllinni. Þegar leiknum var lokið voru tveir leikmenn, ég og hann, mikið að flýta okkur. 

Ég var að flýta mér til að koma ekki of seint til að skemmta suður í Keflavík og hann til að taka þátt í áríðandi atkvæðagreiðslu á kvöldfundi á Alþingi. 

Þegar við vorum að klæða okkur í fötin kom í ljós að nærbuxur Alberts voru týndar. Honum lá mikið á og allir í klefanum fóru í dauðaleit að buxunum og hamaðist ég einna mest, en þessu lauk þannig vegna tímahraks að við Albert urðum báðir að hverfa af vettvangi og hann nærbuxnalaus til atkvæðagreiðslunnar á þinginu.

Ég fór suður með sjó og kom síðan seint heim, dauðþreyttur eftir at kvöldsins. Helga var komin upp í rúm. 

Þegar ég er að afklæðast skellir hún upp úr og spyr hvers konar nærbuxur þetta séu hjá mér, - þær líkist frekar tjaldi en buxum.

"Ætli teygjan hafi bara ekki slitnað" segi ég.

"Kanntu annan?" spyr hún. Það komast tveir í þessar buxur."

Þá rann upp fyrir mér ljós. Ég hafði í flýtinum í búningsklefanum farið óvart í buxur Alberts, en hann var á að giska tvöfalt víðari um sig en ég. 

Ég hafði samband við Albert daginn eftir og varð það niðurstaða málsins að vegna þess að hann var þá í forsetaframboði væri rétt að bíða með afhendingu buxnanna þar til það kæmi í ljós hvort yrði kjörinn forseti. 

Yrði hann kjörinn yrði sérstök athöfn þar sem ég myndi stilla mér aftast upp í röð sendiherra erlendra ríkja, þegar þeir afhentu forsetanum skilríki sín, og myndi ég þá afhenda honum nærbuxur hans. 

 


mbl.is Nærbuxur þrengdu að þingmanni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á að flá kindina í stað þess að rýja hana?

Í gamla daga var sagt að það væri hyggilegra að rýja kindina heldur en að ganga það hart að henni að flá hana. 

Þetta kemur upp í hugann varðandi það hvernig virðist eiga að ganga að Grikkjum með hnúum og hnefum til að kreista út úr þeim fjármuni, sem þeir eiga ekki lengur og heimta af þeim skuldagreiðslur sem þeir eiga heldur ekki neina möguleika lengur á að greiða.

Þegar þjóðarframleiðslan hefur minnkað um marga tugi prósenta og atvinnuleysi er 25% og allt upp í 50% hjá unga fólkinu, blasir við að allt tal um að svo lemstrað þjóðfélag geti borgað svimandi háar skuldir sínar er augljós fíflagangur og tómt mál að tala um það, hvernig þessar skuldir urðu til, - þeirri fortíð verður ekki breytt heldur einungis um það að ræða að afskrifa þær eins mikið og þarf.

Því að eini möguleikinn í svona gjörtapaðri stöðu er að leita að lausn, sem getur aukið þjóðarframleiðslu og þjóðartekjur Grikkja á nýjan leik svo að þeir eigi möguleika á að komast á fæturna í stað þess að stefna inn í enn meira svartnætti en nú blasir við.   


mbl.is Þurfa að uppfylla ströng skilyrði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Án "fjórða valdsins" hrynur þrískipting lýðræðislega valdsins.

Margir hafa horn í síðu fjölmiðlanna og telja þá vera of fyrirferðarmikla og valdamikla. 

Þeir telja að þrír hlutar valdsins, löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald sé fyllilega nægilegt í skipan nútíma lýðræðisþjóðfélags.

Þessir armar valdsins séu fullfærir um að ná í og hafa hjá sér þær upplýsingar sem þarf til að framkvæma ríkisvaldið.

Reynslan sýni að fjölmiðlum sé oft misbeitt gróflega og því hið besta mál að draga úr þeim tennurnar. 

Nú er það svo að fjölmiðlamenn geta alveg eins gert mistök og aðrir, þannig að sú röksemd, að þeim séu stundum mislagður hendur, á alveg eins við hjá þeim sem vinna við framkvæmdavald, löggjafarvald og dómsvald.

Og þegar litið er yfir tilnefningar til blaðamannaverðlaunanna fyrir árið 2014 sést vel hve miklu hlutverki fjölmiðlar gengdu á ýmsum sviðum til þess að koma mikilsverðum málum í umræðu það ár hjá þremur greinum valdsins, málum sem sum hver hefðu annars ekki verið til umræðu eða umfjöllunar, hvað þá komið fyrir dómstóla. 

Sum þessara mála kunna að vera óþægileg fyrir valdaöfl sem þess vegna vilja þagga þau niður og velja stundum fjölmiðlafólki hin verstu nöfn.

En lýðræðið og þrískipting valds þess er gagnslaust nema til sé svið, sem fæst við það að koma nauðsynlegum og réttum upplýsingum og staðreyndum á framfæri svo að fólkið geti notað sitt lýðræðislega vald.

Annars er allt tal um lýðræði orðin tóm.      

 


mbl.is Mbl.is tilnefnt fyrir umfjöllun ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tímanna tákn, niðurlæging Náttúrminjasafnsins?

Ferðamenn, sem koma til Íslands, eru að fara yfir milljón á ári og ferðaþjónustan er orðin stærsti atvinnuvegur landsins, mælt í peningum, yfir 350 milljarðar á ári.

Meira en 80% ferðamanna segjast vera komnir vegna einstæðrar náttúru landsins.

Hinn eldvirki hluti Íslands er talið eitt af sjö merkustu náttúrufyrirbærum Evrópu og í hópi 40 merkustu náttúrufyrirbæra heims.

Á sama tíma fær eitt af þremur höfuðsöfnum landsins, Náttúruminjasafnið 5% - 10% af fjárveitingum hinna tveggja safnanna, skrifstofu þess er hent úr húsnæði sínu út á guð og gaddinn í boði forsætisráðherra og Háskóla Íslands, og ástand og verustaður fyrir muni safnsins er þjóðarskömm. 

Tímanna tákn? 

 


mbl.is HÍ fær gömlu Loftskeytastöðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða "hópar eru á móti jarðstrengjum"?

Í skoðanakönnun meðal erlendra ferðamanna kemur fram, að enda þótt háspennuloftlínur hafi ekki mestu neikvæðu óafturkræfu umhverfisspjöllin í för með sér, finnst ferðamönnunum þær trufla mest upplifunina af íslenskri náttúru. 

Á fundi í morgun sagði maður frá Dalvík að ákveðnir hópar væru á móti raflínum, bæði loftlínum og jarðstrengjum og þess vegna væri allt strand í þeim málum. 

Í fréttum Bylgjunnar í hádeginu vildi hann hins vegar ekkert tiltæka um hverjir þessir "hópar" væru. 

Fróðlegt væri að heyra hvaða hópar þetta eru. Hverjir eru til dæmis á móti jarðstrengjum?


mbl.is Veikir samningsstöðu Landsvirkjunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband