Færsluflokkur: Bloggar
20.2.2015 | 12:03
Frelsið keppir við ófrelsið.
Frelsi eins endar þar sem frelsi annars byrjar. Þetta er eitt af grundvallaratriðum frelsisins, sem samt það atriði sem menn vilja helst ekki kannast við.
Fjarskiptabyltingin hefur fætt af sér stóraukið frelsi einstaklinganna, en jafnframt leitt af sér harða samkeppni við það ófrelsi sem hleranir og hvers kyns kúgun í gegnum hina nýju tækni hafa leitt af sér.
Fyrir tæpum 70 árum leiddu heimilissímarnir til öndvegis nýtt frelsi til samtala og samskipta í þéttbýli. Úti í sveitum gátu hins vegar allir í sveitinn hlerað öll símtöl.
Fólk sætti sig við það af því að allir vissu um þetta ófrelsi og höguðu sér samkvæmt því.
Síðar var símunum lokað í sveitum eins og í þéttbýli.
2005 uppgötvaði ég að sími minn og hinna ótrúlegustu annarra Íslendinga var hleraður og hef síðan verið meðvitaður um það.
Það versta við nýja ófrelsið er að það er líka hægt að stela verðmætum, valda fólki miklum vandræðum og komast upp með það.
Lýsing Orwells á ríki og ofurveldi "Stóra bróður" er veruleiki dagsins.
Og það skondna er að margir þeir sem hæst gaspra um frelsið eru líka hörðustu talsmenn aðgerða á hendur hverjum þeim, sem valdinu er í nöp við og sveipa þann vilja sinn inn í frasa eins og "forvirkar aðgerðir".
Og sömuleiðis sækja þeir að ákvæði stjórnarskrárinnar um trúfrelsi.
![]() |
Gátu hlerað síma á Íslandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
19.2.2015 | 23:33
Hálf sviðsmyndin?
Íslendingar tóku á sig að jafna út 200 milljarða króna halla á ríkissjóði við Hrunið. Það kostaði svo harðar aðhaldsaðgerðir að enn í dag sjáum við það blasa við á mörgum sviðum þjóðlífsins, svo sem í heilbrigðiskerfinu og ástandi vegakerfisins.
Ef þetta var ekki og er ekki aðhald, þá hvað?
Íslenskir skuldarar tóku á sig gríðarlegar byrðar og stórfellda kjaraskerðingu vegna falls þeirrar sömu íslensku krónu og færð eru rök að að hafi bjargað okkur.
Ef það var ekki "aðhald", þá hvað? Stutt er síðan farið var í tæplega 100 milljarða skuldaleiðréttingu út af falli krónunnar.
Í þessu tvennu, sem nefnt er hér að ofan, felst helmingurinn af sviðsmyndinni, svo notað sé vinsælt nýyrði.
Hinn helmingurinn af sviðsmyndinni snýst um Icesave þar sem í fyrri samningunum í því máli átti að láta hvern íslenskan skattgreiðanda borga 25 sinnum meira en hvern breskan eða hollenskan.
Það var svo fáránlega ósanngjarnt að ekki var hægt að láta það mál enda svona.
Margir virðast hins vegar vera búnir að gleyma því í hve óskaplega erfiðri stöðu og undir hvílíkri pressu við vorum gagnvart öllum þjóðum í Evrópu nema Færeyingum.
Það eina sem gat bjargað okkur var að vinna okkur tíma og þar vorum við svo heppin að hafa 26. grein stjórnarskrárinnar sem gaf forseta Íslands færi á málskoti og því að taka málið upp að nýju, auk þess sem forsetinn var afar öflugur og nauðsynlegur talsmaður okkar erlendis.
Íslendingar höfnuðu þeirri tegund "aðhalds" sem fólst í einstaklega ósanngjarnri skiptingu á byrðum Icesave, sem átti að þvinga okkur til að gangast undir.
Það sýnist vera sá helmingur "aðhaldsaðgerðanna" sem forsetinn á við.
![]() |
Íslendingar höfnuðu aðhaldi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
19.2.2015 | 17:06
Á leið til Suðurríkja síðustu aldar?
Sú var tíð að blökkumönnum var meinaður aðgangur að ákveðnum stöðum og ákveðnum sætum í strætisvögnum og víðar í Suðurríkjum Bandaríkjanna.
Þegar ég fór í fyrstu ferðir mínar til Bandaríkjanna kom það mér á óvart hve margir landar mínir, sem þar höfðu sest að, mæltu með þeim aðferðum sem notaðar voru gegn blökkumönnum.
"Þú þekkir þetta ekki og veist ekki hvað þú ert að tala um", sögðu þeir við mig. "Þeir lykta illa og öðruvísi en hvítir menn, eru bæði heimskari og latari en hvítir, þjófar og afbrotamenn."
Svipað var sagt um blökkumenn í Suður-Afríku þar sem var í gildi hörð aðskilnaðarstefna.
Nú virðist þeim fara fjölgandi í nágrannalöndum okkar og hugsanlega einnig hér, sem er illa við aðra en "hreina Íslendinga" og vilja þá í burtu úr landinu.
Á breska myndbandinu í tengdri frétt á mbl.is er verið að hrekja mann af erlendu bergi brotnum úr lest. Eru nágrannaþjóðir okkar og jafnvel við sjálf á leið til Suðurríkja síðustu aldar?
![]() |
Hvað gat ég sagt börnunum mínum? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
19.2.2015 | 07:40
Obama mælir lög.
Barack Obama Bandaríkjaforseti mælir lög þegar hann bendir á hvernig ofbeldishneigðir og ofstopafullir glæpamenn þykjast vera að berjast fyrir trú og trúarbrögð þegar þeir fremja morð og glæpi og ógna öllum samfélögum heims, líka þeim trúarsamfélögum, þar sem viðkomandi trú ríkir.
Þannig hafa þjóðir eins og Egyptar, Tyrkir og Jórdaníumenn staðið fyrir hernaðaraðgerðum til þess að ráðast gegn þessum friðarspillum, sem hafa fyrst og fremst drepið, pyntað, limlest og kúgað múslimatrúað fólk.
Í stórum trúarritum múslima og kristinna manna er hægt að finna orð og setningar sem eru börn síns tíma, og með því að beita öfgafullri bókstafstrú er hægt að "snúa Faðirvorinu upp á andskotann" eins og það var stundum orðað hér á landi.
Nú ógnar glæpahyski í nafni múslima friði með hryðjuverkum, en á sínum tíma voru líka farnar krossferðir og stundaðar galdrabrennur í nafni Kristninnar.
![]() |
Samfélög verði að axla ábyrgð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
19.2.2015 | 01:08
Vestrænt kerfi með svipaðri hættu og austrænt?
Flugslysið mikla á Tenerife og flugslys hjá Suður-Kóreumönnum á tímabili leiddu í ljós nauðsyn samvinnu, samráðs og jafnvægis á milli flugmanna í flugstjórnarklefanum þar sem aðstoðarflugmenn þyrðu að benda flugstjóranum á það ef hann væri að gera mistök.
Flugstjórinn sem átti megin þáttinn í Tenerife flugslysinu var einn þekktasti flugstjóri í Evrópu, yfirflugstjóri hjá KLM, og honum var meira segja telft fram í auglýsingu félagsins, nefndur sem dæmi um afburða örugga og færa flugstjóra félagsins og kröfur til þeirra.
Aðstoðarflugstjórinn, sem virtist ljóst að í óefni stefndi, hafði ekki nægt sjálfstraust gagnvart svo virtum flugstjóra til að taka af skarið til að afstýra slysinu, nefndi feiminn og óöruggur með sjálfan sig möguleikann á mistökunum en lyppaðist síðan niður fyrir valdi flugstjórans .
Hjá Suður-Kóreska flugfélaginu var svipað ástand um borð hvað varðaði aldagamla og inngróna geirneglingu virðingarstiga í samfélaginu, þar sem yfirmenn voru nánast eins og guðir í augum undirmanna sinna.
Þegar slys fóru ítrekað að gerast af þessum sökum; að aðstoðarflugmenn þorðu ekki að andmæla eða leiðrétta flugstjórana, sáu flugyfirvöld og flugfélög þar í landi, að í stjórn flugvéla gengur slíkt ekki upp, heldur verður að ríkja sú samvinna og samráð sem eðli stjórnar flókinnar flugvélar krefst.
Vestrænt kerfi, sem býður upp á eins konar stéttaskiptingu sem hlýst af gerviverktöku, getur falið í sér svipaða hættu og hið Suður-Kóreska þjóðfélagskerfi gerði, meðan það var látið afskiptalaust.
![]() |
Tengja gerviverktöku við flugöryggi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.2.2015 | 19:50
Hinir ósnertanlegu: Alcoa og sægreifar.
Tvær fréttir af svipðum toga fljúga nú um ljósvakann. Alcoa kemst upp með að hafa af Íslendingum um það bil 4-6 milljarða í skattgreiðslur á hverju ári með bókhaldsbrellum sem eru "löglegar í einu og öllu" að sögn talsmanna fyrirtækisins.
Reyðarfjarðarálverið er eitt það arðsamasta í heimi, nýtt, hagkvæmt og tæknilega fullkomið og orkuna fær það á gjafverði. Árlegan ágóða má áætla um 20-30 milljarða á ári með tekjuskatt upp á 4-6 milljarða á hverju ári ef allt væri með felldu.
Fyrirtækið ver örlitlu broti af þessu þýfi í stuðning við ýmis málefni eystra og uppsker með því aðdáun og þakklæti innbyggjara. Gamalkunnug aðferð nýlenduherra og sumra einokunarkaupmanna og útgerðarmanna forðum í sjávarplássum á Íslandi.
Á síðustu átta árum er gróðinn líklega samtals um 150-250 milljarðar króna og ætti að vera búið að borga af því 80-150 milljarða í skatt.
Það styttist í það að Alcoa hafi borgað upp kostnaðinn við að reisa álverið á sama tíma og drápsklyfjar afborgana og vaxta af skuldum Landsvirkjunar verða þung byrði á Landsvirkjun næstu áratugi.
Hin fréttin þarf ekki að koma neinum á óvart: Sjávaraútvegsráðherra er gerður afturreka með frumvarp um fiskveiðistjórnun, af því að sægreifar vilja "hafa forræði yfir" sjávaraflanum.
Í fréttum sjónvarps segir talsmaður nýrra samtaka í útveginum að það sé skilyrði að ástandið sé fyrirsjáanlegt svo að fjárfestar og eigendur geti gert áætlanir langt fram í tímann.
Auðvelt er að lesa á milli línanna í þessu svari: "Fyrirsjáanlegt ástand" byggist að sjálfsögðu á því sægreifanir "hafi forræði yfir kvótanum" um alla framtíð sem þýðir á mannamáli að orðin um að auðlindin sé í eign þjóðarinnar séu marklaus og hinir raunverulegu eigendur séu áfram hinn íslenski aðall sem á auðlindina alla og hefur eins og evrópski aðallinn forðum undir sér leiguliða, sem borga fáránlega hátt leiguverð og lepja dauðann úr skel.
Síðan eru kjör "litla mannsins" í sjávarútveginu notuð sem átylla til þess að gefa sægreifaaðlinum tugi milljarða aukalega árlega.
Taka má ofan fyrir sjávarútvegsráðherra Sigurði Inga Jóhannssyni ef rétt er að hann hafi viljað að kvótinn væri á forræði þjóðarinnar sjálfra, það er, þess eina aðila sem þjóðin á sjálf sameiginlega; ríkissjóðs.
En nú hefur Sigurður Ingi Jóhannsson að því er virðist verið svínbeygður í þessu máli og búið að negla það í tveimur fréttum sama daginn: "The untuchables" á Íslandi eru Alcoa og sægreifarnir.
![]() |
Ekkert hægt að gera við Alcoa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)
18.2.2015 | 10:59
Óvegirnir lengjast meira.
Á sama tíma og upplýst er að ferðaþjónustuan, drýgst allra atvinnugreina, skili 357 milljörðum á ári af tekjum í þjóðarbúið, standi undir stærsta hluta gjaldeyrisöflunarinnar og haldi uppi þeim hagvexti sem hér er, blasa við neikvæðar tölur og svelti í fjárveitingum til undirstöðu hennar, þar sem vegakerfið vegur einna þyngst.
Ekki aðeins hafa svonefndir góðvegir ekki lengst minna í 35 ár, heldur lengjast óvegirnir og versna ár frá ári enn meira en sem nemur lengingu góðveganna.
Óvegirnir eru af öllum mögulegum gerðum, hundruð kílómetra af þvottabrettum og níddum vegum í byggð og óbyggð auk allra gönguleiðanna sem eru að sparkast út í drullu og umhverfisskemmdum.
Á sama tíma og Alcoa fær að flytja skattfrjálst úr landi 20-30 milljarða árlega og sægreifum eru afhentir tugir milljarða aukreitis í skattaeftirgjöfum og stórlækkuðu eldsneytisverði eru stjórnvöld og stjórnmálamennirnir almennt á góðri leið með að klúðra því að nokkuð fé verði yfirleitt lagt að gagni í að verja náttúruperlur landsins fyrir skemmdum.
Stefnan bara sægreifar og stóriðja, "eitthvað annað" er einskis virði, lifir góðu lífi.
![]() |
35 ár síðan bundið slitlag lengdist minna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
18.2.2015 | 00:24
Trúfrelsi og skoðanafrelsi, en líka virðing fyrir hvert öðru.
Trúfrelsi og skoðanafrelsi eru stjórnarskrárvarin hér á landi og því ætti það ekki að vera neitt stórmál hvaða trú eða vantrú menn aðhyllast.
Í frumvarpi stjórnlagaráðs stendur að virða skuli rétt hvers manns til fá að lifa með reisn.
Við öðrum orðum, að við eigum að bera virðingu fyrir hvert öðru, rétti okkar til að lifa við mannsæmandi skilyrði og rétti okkar allra til skoðana og tjáningar og þess að leita hamingju og hlutverks í samfélaginu, án þess að ganga á rétt annarra.
Því er hvorki sæmandi að tala niður til vantrúaðra né trúaðra.
![]() |
Prestar fara á límingum yfir Jóni Gnarr |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
17.2.2015 | 23:30
Stórbreytt dekk frá því sem áður var.
Mjög athyglisvert hefur verið að fylgjast með þróun bílhjólbarða í heila öld.
Fyrst voru þetta gúmmíbarðar með engu lofti í. Á milli 1920 og 30 voru dekkin milli þrjár og fjórar tommur í þvermál eða 8-10 sentimetrar en felgurnar afar stórar svo að samanlagt þvermál hjólsins alls var 29-30 tommur, eða í kringum 75 sentimetrar.
Á milli 1930 og 40 minnkuðu felgurnar og barðarnir stækkuðu, þannig að algeng dekkjastærð var 6:00-16, sex tommu dekk á 16 tommu felgum eða 28 tommur í þvermál.
Frá 1940-1955 var algengasta stærðin á bandarískum bílum 6:50-15 en dekkin voru mjórri á evrópskum bílum og einnig á 15-16 tommu felgum.
Volkswagen var með 5:00-16 og síðar 5:60-15.
Um 1950 verður bylting á evrópsku bílunum með tilkomu 13 tommu og 14 tommu felgna og milli 1957 og 1960 einnig á bandarísku bílunum.
Frá árinu 1957 hefst eins konar kapphlaup um það að láta dekkin belgjast út og felgurnar minnka, þannig að algengar stærðir verða 7:00-14 og 7:50-14 vestanhafs en 5:20-13 upp í 6:40-13 í Evrópu. Bílaframleiðendur kepptust við það að gera bílana sem þægilegasta og mýksta í akstri og belgmikil dekk gáfu mjúkar hreyfingar og "smurðu út" lélega vegi.
Jafnframt koma fram smábílar í Evrópu með tólf tommu felgum og Mini er með 5:20-10 árið 1959.
Á stærstu amerísku drekunum má sjá stærðirnar 8:20-15 og þar með er hjólbarðinn orðinn meira en 20 sentimetrar í þvermál og þolir býsn á slæmum og holóttum vegum.
En á síðari hluta 20. aldar og allt til þessa dags hefur þróunin verið til baka, aftur til 1920. Felgurnar hafa farið stækkandi og dekkin orðið æ lægri og jafnframt breiðari.
Hlutföllin á dekkjunum má sjá á tölum eins og 155/65-15, en í því tilfelli er felgan 15 tommur en dekkið 155 sentimetra breitt, hæð þess hins vegar 155mm x 65 eða 10,7 sentimetrar.
En vegna bælingar dekksins og felgubrúnarinnar er hæðin úr malbiki upp í felgubrún aðeins um 6-7 sentimetrar.
Nú er svo komið að sjá má "jeppa" með 22ja tommu felgur en svo lág dekk, að aðeins eru 5 til 6 sentimetrar frá götu upp í felgu og má nærri geta hve slæma vegi svona "jeppar" þola.
Dekkin eru svona lág og breið til þess að auka aksturhæfni og öryggi bílanna og það gengur eftir í nágrannalöndum okkar.
En á okkar vegum gegnir öðru máli, eins slæmir og þeir eru orðnir vegna skort á viðhaldi og lélegs malbiks.
Þess vegna sprengja menn dekkin unnvörpum og hin lágu dekk með hjálp "dekkjabana" á vegunum hafa dregið úr öryggi í stað þess að auka það.
![]() |
Dekk sprungu á 7 bílum í sömu holu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.2.2015 | 18:47
Snýst um fjórðung brautarinnar.
Litla brautin á Reykjavíkurflugvelli er aðeins 869 metra löng og 75% hennar liggur inni í brautakerfi hinna tveggja brautanna.
Þess vegna er það slysalegt ef notkunargildi þessarar brautar verður eyðilagt með einni röð íbúðabygginga við norðausturendann, sem vel væri hægt að færa til inni í Hlíðarendareitnum, sem á hvort eð er að vera með auð svæði, sem væri hægt að hnika til innan reitsins.
Í fréttum í kvöld er því haldið fram að byggingar sem væru fjær brautinni, myndu eftir sem áður koma í veg fyrir notkun brautarinnar, en ekki þarf annað en að slá máli á aðflugslínuna til að sjá, að þetta er ekki rétt.
Eini hluti brautarinnar sem stendur út fyrir brautakerfi hinna brautanna, er suðvesturendinn.
Ef hann verður lagður niður losnar um á að giska 50 hektara til íbúðabygginga eða 0,05 ferkílómetra.
Fráleitt er að halda því fram að allt íbúðaskipulag höfuðborgarsvæðisins standi eða falli með svo litlu svæði.
![]() |
Segir Dag spilla friði í Rögnunefndinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)