Færsluflokkur: Bloggar

Lán til námsmanna eru fjárfesting ríkisins í mannauði.

Lánveitingar til námsmanna eru fjárfesting ríkisins í mannauði, sem reiknað er með að skili arði til þjóðfélagsins þegar námsmaðurinn hefur lokið námi og leggur sitt af mörkum til að halda hér uppi samkeppnisfæru nútímaþjóðfélagi með vel menntuðu fólki.

Námsmennirnir eru fullorðið fólk sem verður að veðja á í þessu efni, rétt eins og þeir væri að kaupa sér bíl eða íbúð á langtímaláni og ábyrgðarmannafyrirkomulagið, sem verið hefur, elur af sér margs kyns óréttlæti gagnvart fólki, sem þessi lánveiting ætti ekki að snerta fjárhagslega þótt um skyldleikabönd séu að ræða við lántakandann.

Fjárfestar, eins og ríkið er í þessu tilfelli, verða að taka áhættu í hverju einstöku tilfelli, en þegar litið er yfir heildina er samanlagður ávinningur fyrir þjóðfélagið margfalt meiri en nemur töpunum í þeim tilfellum þegar námsmanninum mistekst fyrirætlan sín, verður fyrir áföllum eða stendur ekki undir væntingum.

Þegar glímt er við slík vandamál er óréttlátt að djöflast á öðru fólki en skuldaranum sjálfum.

Ef við tækjum til dæmis heilbrigðiskerfið, væri það réttlátt að foreldrar gengju í ábyrgð fyrir því að börn þeirra kæmust á legg og gætu skilað dýrmætu ævistarfi, og síðan ef eitthvert barnið missti heilsuna eða félli frá með miklum kostnaði fyrir heilbrigðiskerfið og tapi fyrir þjóðfélagið, ættu foreldrarnir þá að borga heilbrigðiskostnaðnn og tap þjóðfélagsins? 

Umræðan um frumvarp Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur um breytingu á lögum um LÍN er nú komin á fullt út um víðan völl undir gamla íslenska laginu að hjóla í manninn en ekki boltann.

Er ekki hægt að lyfta þessu upp á örlítið hærra plan? 


mbl.is Þarf að lagfæra málið í þingnefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Cactusinn er sigurstranglegur.

Hve mikið tjón hefur hlotist af því að hurðir hafa skellst utan í næsta bíl í bílastæðum frá því að bílar fengu svipað lag og þeir hafa nú?

Og er það ekki merkilegt að fyrst nú skuli einhverjum hafa hugkvæmst að setja hlíf utan á hliðar bíla til að verja þá fyrir skemmdum?

Cactus er óvenju vel hannaður bíll, furðu léttur og sparneytinn með minnstu þriggja strokka vélinni sinni, og hlýtur að vera mjög sigurstranglegur í hvers kyns samanburði við þá bíla, sem komu fram komu fram á síðasta ári og keppa um titilinn bíl ársins fyrir 2015.

Stærðin er afar hagkvæm og höfðar til margra og það verður spennandi að sjá viðtökurnar við honum hér á landi.   

 


mbl.is Hverjir verða bílar ársins 2015?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðareign Bandaríkjamanna og hin hræðilega skattheimta.

Myndirnar hér á síðunni að eru af einhverjum mesta skelfi, sem lengi hefur verið nefndur hér á landi, svonefndum náttúrupassa.Náttúrupassi BNA

Þessi á myndinni sá passi sem gestir í þjóðgörðum Bandaríkjanna nota þegar þeir fara inn í garðana þar.Náttúrupassi BNA, bakhlið

Hann er útfærður eins og kreditkort með tilheyrandi segulrönd, líkt og kreditkort og kort sem notuð eru á bensínstöðvum, og passinn vestra gildir í aðeins eitt ár í senn eins og sést efst aftan á honum, og kostaði sá sem myndin er af, nokkur þúsund krónur þegar við hjónin notuðum hann.

Á passanum er tilgreint hvað þurfi hugsanlega að borga aukalega, þótt menn hafi passann.  

Í þjóðgörðunum, sem passinn gildir í, er að finna helstu ósnortnu og verðmætustu náttúruverðmæti Bandaríkjanna, sem eru í þjóðareign í þessu landi brjóstvarnar fyrir frelsi einstaklingsins og eignarétti og ferðafrelsi hans.Náttúrupassi BNA, bakhlið

Myndin á passanum er af Delicate Arch eða Tæpa boga í Archers-þjóðgarðinum í Utah, en hann er jafnframt í skjaldarmerki Utah-ríkis. 

Í áratugi hafa ekki verið neinar deilur um hann vestra.

Allir verða að greiða fyrir aðgang að þjóðgörðunum, jafnt "heimamenn" sem fólk frá öðrum þjóðum eða heimsálfum.

Þeir, sem ég ræddi við um þennan passa, voru stoltir af að geta með þessu litla fjárframlagi lagt sitt af mörkum til þess að verja náttúruverðmætin gegn skemmdum af átroðningi og standa straum af þjónustu við ferðafólk.

Með því sé efld virðingu og stolt þjóðarinnar sem ásamt náttúruverðmætunum gefi gríðarlegar tekjur af ferðamönnum. Til þessa vísar áletrunin "Proud Partner" á passanum.  

Passanum er ekki ætlað að ná yfir öll útgjöld ríkisins vegna þjóðgarðanna, heldur er upphæðin höfð sem sanngjörnust og verð passans því víðast niðurgreitt af almannafé.

Árangurinn blasir alls staðar við: Meira að segja við Old Faithful í Yellowstone, þar sem meira en tvær milljónir manna ganga árlega um hverasvæði, sem er jafn viðkvæmt og viðkvæmustu hverasvæði Íslands, sést ekki neins staðar svo mikið sem karamellubréf, sígarettustubbur né fótspor.

Nú heyrist í fréttum að langflestir mótmæli hugmyndinni um íslenskan náttúrupassa hástöfum vegna þeirrar skerðingar sem hann valdi á rétti almennings til frjálsrar farar um landið. Jafnvel byggjast andmæli á því að bannað verði að sigla fram hjá friðuðum fyrirbærum nema að hafa passann. 

Sýnist því líklegt að þetta skelfilega fyrirbæri verði afgreitt út af borðinu á Alþingi og aldrei nefnt aftur.

Nefnt er gistináttagjald í staðinn, en harðar mótbárur eru líka gegn því. Bæði sé það sé óréttlátur landsbyggðarskattur þar sem fólk utan af landi sem eigi erindi til Reykjavíkur verði skattlagt fyrir að gista í Reykjavík, til dæmis þegar það fer til lækninga eða annarra erinda sem koma náttúruvernd ekkert við og auk þess séu tekjurnar litlar.

Deilt er um hvort komugjald til landsins leyfist á EES svæðinu og einnig er þar uppi andstaða við það taka gjald af fólki, eins og til dæmis landsmönnum sjálfum, sem ætli ekkert að skoða íslenska náttúru þótt það skreppi í verslunarferð eða annað til útlanda. Nema að ætlunin sé að taka gjaldið eftir þjóðernum og mismuna á þann hátt. 

Skattur á flug innanlands þykir slæm hugmynd, til dæmis vegna þess að þeir, sem eiga viðskiptaerindi eða önnur erindi á milli þéttbýlisstaða á Íslandi, eigi að borga fyrir þá sem fara að skoða náttúruverðmæti. 

Hver höndin er uppi á móti annarri á Alþingi og ýmist hlaupið í gamalkunnar skotgrafir eða að þingflokkar klofna í málinu. 

Síðan er haldið fram þeirri röksemd að reynslan sýni að framkvæmdavaldið ráðstafi tekjustofninum í allt annað en lög mæla fyrir um, svo sem dæmið um Framkvæmdasjóð aldraðra og Útvarpsgjaldið vitni ljóst um. Með þeirri röksemd má raunar mæla gegn hvaða gjaldi eða skattheimtu, sem er, sem á að fara í eitthvert tiltekið verkefni. Og hegðun fjárveitingavaldsins er gerð að ígildi náttúrulögmáls. 

Það heyrist að Ísland sé svo dreifbýlt land að annað gildi hér en erlendis, svonefndar "séríslenskar aðstæður." Þó er Wyoming-ríki með sína þjóðgarða næstum tvöfalt dreifbýlla en Ísland.  

Niðurstaðan virðist ætla að verða sú að í nafni frelsis eða sanngirni eða vantrúar á því að ríkisvaldið fari eftir fjárlögum fáum við áfram með dyggri aðstoð milljón útlendinga ár hvert að troða íslensk náttúruverðmæti í svaðið í bókstaflegri merkingju hér eftir sem hingað til.

Og að í nafni einkaeignaréttarins háheilaga verði samt sem áður að borga fyrir að skoða Kerið og jafnvel fleiri náttúruverðmæti.

Sem sagt: Versta mögulega niðurstaða, sem hugsanleg er, miðað við það hvernig þessi mál hafa verið leyst í öðrum löndum.  

Sem


mbl.is Þjóðareign á auðlindum meginstefið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjallarinn undir kjallaranum og týndi flugvöllurinn.

Það er margt og merkilegt sem fáir eða engir vita um, jafnvel þeir sem næst standa. BISA 27. 9. 14

Það var ekki fyrr en 20 árum eftir að ég hafði verið í samráðsnefnd um byggingu Útvarpshússins sem ég uppgötvaði að húsið, sem sýnist vera þrjár hæðir þegar komið er að því úr Efstaleitinu, er í raun sex hæðir! Undir kjallaranum er aukakjallari, sem hýsir hið tröllaukna loftræstikerfi hússins og utan frá, sér enginn aðkomumaður þriðju hæðina, en hún hýsir nær enga starfsemi! BISA, sept´14

Ég var búinn að vera á ferð bæði á landi og í lofti yfir Brúaröræfum árum saman í mörgum tugum ferða þegar ég frétti af því að á Efri-Jökuldal hefðu bændur áratugum saman þekkt örnefnið "Flugvöllur" eða allt frá árinu 1938 þegar Agnar-Koefoed Hansen lenti þar þýskri flugvél og skrifaði Halldóri bónda á Brú bréf, þar sem falast var eftir leyfi landeiganda til að leggja flugvöll á þessum stað, sem er með hnitin 1602-6450.BISA.Agnars braut, varða

Ég fann "Flugvöll" ekki fyrr en eftir talsverða leit og frétti ekki fyrr en nokkrum árum eftir það að smalamenn á Jökuldal hefðu haustið 1940 rifið niður vörður, sem annað hvort Agnar eða þýska vísindakonan Emmy Todtmann hefðu hlaðið á Flugvelli. 

Og það var ekki fyrr en þremur árum eftir að ég fann Flugvöll og hafði verið þar oft og mörgum sinnum við að valta og merkja brautir að ég fann vörðubotnana fyrir aðra fyrirhuguðu flugbrautina og fjórum árum eftir það sem ég fann vörðubotna fyrir hina brautina, sjá mynd.

Og núna um daginn sendi Jónas Ragnarsson mér frétt í Alþýðublaðinu frá júlí 1940 þar sem sagt var frá dularfullum merkingum "svonefndra þýskra vísindamanna" á hálendinu eins og það er orðað í fréttinni, en þess ekki getið hvar þær merkingar væru. En Þór Whitehead fann um síðustu aldamót kort í safni í Þýskalandi kort af Íslandi, þar sem Luftwaffe hafði merkt inn með krossum hugsanleg flugvallastæði á Íslandi. 

Flugvöllurinn umræddi heitir nú Sauðárflugvöllur með alþjóðlega heitinu BISA og er hægt að fletta upp upplýsingum um hann undir heitinu Icelandic Aerodromes. Þar sést að hann er nú næst stærsti flugvöllur landsins og jafn mikið leitað upplýsinga um hann og Keflavíkurflugvöll og Reykjavíkurflugvöll, enda er hann næsti flugvöllur við gosið í Holuhrauni.

Myndina í miðjunni hér að ofan tók Jón Karl Snorrason í heimsókn þangað í haust, en morguninn eftir fannst í flugi frá vellinum, nýtt en mjög smátt eldgos á nýjum stað, sem lognaðist fljótt út af.  

 

 


mbl.is Dularfullt neðanjarðarbyrgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurtekur sagan frá 1977 sig?

1977 var uppi mikil óánægja hjá launþegahreyfingunni vegna þess hve hraksmánarlega lág lægstu launin væru, langt frá því að vera mannsæmandi eins og það var orðað þá. Þetta var á árum verkfalla og víxlverkana launa og verðlags með gengisfellingum og tilheyrandi. 

Dæmi um verðbólguna var, að  1974 sá ég um að ráða skemmtikrafta fyrir 1100 ára afmælishátíðir Íslandsbyggðar í Reykjavík og á Akureyri og borgaði skemmtikröftunum strax sem og allan ferðakostnað. En skriffinnskan tafði fyrir því að ég fengi borgað hjá þessum bæjarfélögum og verðbólgan át svo upp þessar fjárhæðir, að ég tapaði á þessu á báðum stöðum! 

Borgaði sem sagt á endanum með mér enda komst verðbólgan á árunum 1974-75 í 50%, þá mestu síðan 1942. 

Í umræðum á Alþingi gerðist það sama og nú. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn voru í stjórn undir forsæti Geirs Hallgrímssonar og Ólafur Jóhannesson, þáverandi formaður Framsóknarflokksins, tók í umræðum á Alþingi 1977 undir kröfu launþega um 100 þúsund króna lágmarks mánaðarlaun.

Það fór illa í atvinnurekendur og marga Sjálfstæðismenn, sem sögðu að svo mikil launahækkun myndi hlaupa verðbólgunni af stað með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Eftir verkföll í júní 1977 var samið í svonefndum Sólstöðusamningum um myndarlega hækkun lágmarkslauna. Verðbólgan tók mikinn kipp og í ársbyrjun 1978 var svo komið að ríkisstjórnin taldi sig nauðbeygða til að grípa til aðgerða gegn henni.

Við það fór allt á annan endann svo að árið 1978 varð eitthvert hið sviptingasamasta í stjórnmálasögu landsins.

Verkalýðshreyfingin fór í mikinn ham undir kjörorðinu "Samningana í gild!" og um sumarið féll meirihluti Sjálfstæðismanna í Reykjavík, sem setið hafði þar að völdum alla öldina.

Stjórnin féll í kosningunum í mesta kosningaósigri Sjalla og Framsóknar.  

Vinstri stjórn tók við en mistókst að uppfylla loforðin um samningana í gildi og féll sjálf lömuð af sundurlyndi aðeins 13 mánuðum síðar. 

Nú er spurningin hvort svipað muni gerast nú og enn mistakist að ná lægstu smánarlaununum upp í mannsæmandi upphæð.

Aðstæður eru um sumt ólíkar. 1977 voru lán ekki verðtryggð og skuldir heimilanna voru því allt annars eðlis en nú, af því verðbólgann át lánin upp og færðu skuldurum tugi milljarða á kostnað sparifjáreigenda.

Nú þýðir 10% verðbólga margfalt meira áfall fyrir yfirskuldsett heimili landsins en 30-50% verðbólga gerði 1977.

Verðbólgan fram til Þjóðarsáttarinnar 1990 olli því að útilokað var annað en að hafa ströng gjaldeyrishöft. ´Þjóðársáttin lagði grunn að því að smám saman var hægt að koma hér á gjaldreyrisfrelsi sem entist þó aðeins í nokkur ár.

Ef verðbólgan fer aftur af stað nú með tilheyrandi gengisfellingum, er útséð um að hægt sé að losa um gjaldeyrishöftin. 

En sumir segja að það sé allt í lagi, því að hvort eð er verði ekki hægt að losa um höftin og að góð reynsla hafi verið gengisfellingu krónunnar 2008-2009.

Svolítið skrýtið, því að gengisfellingin sú arna olli þeim vanda sem verið var að reyna að leysa að hluta með skuldaniðurfellingunum margumræddu og gengisfelling rýrir launakjör og kaupmátt hratt og örugglega og étur með áframhaldandi gjaldeyrishöftum upp ávinning af skuldaniðurfærslunni.  

 

 

 


mbl.is Grunnlaun dugi fyrir nauðsynjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Arfur frá Afríku.

Hópur mannasálfræðinga og dýrasálfræðinga rannsakaði hegðun kynjanna varðandi makaval og komst hér um árið og komst að svo merkilegri niðurstöðu, að tímaritið Time gerði hana að "forsíðusögu" (Cover Story) blaðsins. 

Þeir töldu að í sögu mannsins væri svo skammur tími síðan aðstæður breyttust frá því í skógum og á sléttum Afríku, að erfðaeiginleikar formæðra og forfeðra okkar réði enn miklu um hegðun manna.

Ástæðan fyrir því að konur löðuðust oft að eldri mönnum og væru sérstaklega veikar fyrir mönnum í einkennisbúningum, svo sem hermönnum, væri sú að frumkonan (apakonan) leitaði að sterkum manni, sem gæti varið hana og börnin og "skaffað" til heimilisins og hefði afl og vald. 

Þá skipti aldurinn ekki máli. 

Byssa og einkennisbúningur hermanna væri tákn um afl og vald. Og frægir, valdamiklir og ríkir menn hefðu mikið aðdráttarafl. 

Karlmaðurinn sæktist hins vegar eftir konu sem væri ung og frísk, gæti alið af sér heilbrigð börn og annast þau vel . Það væri sennilega grunnskýringin á því fyrirbrigði meðal karlmanna, sem kallað væri "grái fiðringurinn".  

Þessi Time-grein birtist rétt eftir að ítalskt herskip hafði stoppað stutt í Reykjavíkurhöfn og upphófst eltingarleikur yngismeyja við ítölsku hermennina, sem stóðu vart út úr hnefa og hlaut eftirá heitið "Hljómskálagarðsfarganið" ef ég man rétt. 

Ég gerði að því grín á skemmtunum að meirihlutinn af sjö börnum okkar hefðu fæðst í september og októberbyrjun á þeim árum, þegar ég var í gervi og búningi jólasveins níu mánuðum fyrr.

Það sannaði að konur væru veikar fyrir einkenninsbúningum !  


mbl.is Af hverju eltast karlar við yngri konur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Sexflokkur" að festast í sessi? Sérstaða Sjallanna horfin?

Í kosningunum 2013 endaði ferill "fjórflokksins" svonefnda, að minnsta kosti í bili. Síðan þá hefur verið að festa sig í sessi nýtt flokkakerfi í skoðanakönnunum sem kalla mætti "sexflokkinn". 

Fjórflokkurinn varð til árið 1942 og lifði í 59 ár. Einstaka sinnum komu upp nýir flokkar sem fengu tímabundið fylgi, en lognuðust síðan útaf. 

Algengustu stærðarhlutföllin í prósentum voru: Sjallar með um 40% og hinir þrír með 15-25%. 

Nú eru stærðarhlutföllin ekki ólík hvað snertir það að Sjallar eru enn stærsti flokkurinn, en hinar tölurnar hafa verið að fletjast út, svo að hlutföllin eru: Sjallar með í kringum 25% og hinir fimm með í kringum 15% hver. 

Munurinn á þessum nýju hlutföllum og hinum gömlu er sá, að á tímabilinu 1942-2013 var ekki hægt að hafa Sjálfstæðisflokkinn utan stjórnar nema að allir hinir flokkarnir stæðu saman að ríkisstjórn. 

Og ekki var hægt að mynda tveggja flokka stjórn án þáttöku Sjálfstæðisflokksins.

Ef sleppt er þjóðstjórnarárunum 1942-44 stóð Sjálfstæðiflokkurinn að ríkisstjórn í allan tímann 1944-2013 nema 42-44, 56-58, 71-73, 78-79, 88-91 og 2009-13.

Hann var í stjórn 54 ár en utan stjórnar í 15 ár. Hér er stjórnarþáttaka nokkurra þingmanna Sjallanna í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens 1980-83 ekki talin sem plús, því að yfirgnæfandi meirihluti þingflokksins var í stjórnarandstöðu. Það jafnar sig út við árin 1944-47 þegar fimm þingmenn flokksins stóðu ekki að Nýsköpunarstjórninni en yfirgnæfandi meirihluti þingflokksins studdi stjórnina. 

Nú hefur þetta allt breyst vegna veiklunar Sjallanna. Nú geta þrír til fjórir af fimm hinna flokkanna myndað ríkisstjórn og þarf ekki að hafa þá alla innanborðs í ríkisstjórn. 

Og ekki verður lengur hægt að mynda tveggja flokka stjórn, en staða Sjallanna í því efni var eitt sterkasta tromp þeirra í næstum sjö áratugi. 


mbl.is 36,4% styðja ríkisstjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki spurning um hvort, heldur hvenær.

Hin nýja tækni við gerð dróna hefur opnað marga heillandi möguleika til að nýta þessi stórkostlegu flygildi við viðfangsefni, sem annars væri illmögulegt eða ómögulegt að leysa. 

Sama átti við um leysigeislana á sínum tíma. 

En hvort tveggja, leysigeisla og dróna, gildir að það er ekki spurningum um hvort, heldur hvenær þessi tækni veldur slysum og áföllum. 

Raunar er sívaxandi notkun dróna til loftárása oft lítilmótlegt athæfi, þar sem menn sitja á skyrtunni við stjórnborð í fjarlægð og stýra drónunum til þess að sprengja fólk í tætlur.

Í slíkum tilfellum gæti átt við nýyrðið mannleysa, sem kom upp í umræðum á fréttastofu RUV um hina nýju gerð flygilda.

 

Nú þegar liggur fyrir að víða um heim hafa menn reynt að nota leysigeisla til þess að blinda flugmenn í aðflugi að flugvöllum og sýnir það alveg sérstakt innræti þeirra sem beitt hafa geislunum.

Sé miðað við þessa reynslu er ekki spurning um hvort heldur hvenær menn með svipaðan einbeittan brotavilja á háu stigi valda manntjóni.

Engar reglur eru enn hér á landi um notkun dróna og meðan svo er, vaxa líkurnar á óhöppum og slysum af þeirra völdum.  


mbl.is Fimm drónar sveimuðu yfir París
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Langbylgjutæki hefði breytt öllu.

Það var giskað á það hér á síðunni þegar byrjað var að reyna að leita að Kerstin Langenberger, að hefði hún verið með lítið langbylgjutæki á sér hefði það geta afstýrt leitinni. 

Nú er komið í ljós, að þetta var rétt, jafnvel þótt sending langbylgjutækisins væri bara aðra leiðina.

Því að hefði hún hlustað á það, hefði hún fengið að vita að leit væri hafin og hefði þá getað nýtt sér neyðarsímann í Hvanngili.

Hún vissi hins vegar ekkert um að leit væri hafin og notaði því ekki símann.  


mbl.is Vissi ekki að leitað var að henni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og þetta er kristin þjóð mestan part.

Kristur gat að vísu verið "aktivisti" eða aðgerðasinni þegar svo bar undir. Hann fór inn þar sem fjárplógsmenn höfðu komið sér fyrir í guðshúsi með viðskipti sín og hratt um borðum þeirra reiður mjög. 

Fór líka í mikla innreið í Jerúsalem ásamt göngu mikilli. 

En kenning hans var samt í grunninn frelsi ("sannleikurinn mun gera yður frjálsa), fögnuður (fagnaðarerindið, fegurð ("gætið að blómum vallarins"), friður ("komið til mín...ég mun gefa yður frið."), fyrirgefning og umburðarlyndi ("dæmið ekki, því að þér munið sjálfir dæmdir verða.")

Þess vegna er grátlegt að það skuli vera meðal kristinna þjóða í Evrópu sem stærstu og mannskæðustu stríð siðustu alda og herferðir með vopnum og drápum skuli hafa átt upptök sín.

Það er að vísu ekki öll sagan, því að bæði Japanir og síðar Kínverjar undir Maó stóðu að drápum tuga milljóna manna á síðustu öld. En kenning Maós var upprunnin í Evrópu. 

Þjóðverjar þurftu að gjalda dýru verði fyrir villimennsku Hitlers og nasistanna og hafa leitast við að læra af því.

En nú virðist síga á ógæfuhlið og það er nöturlegt, ef satt er, að stækkandi hluti, nú orðinn fimmtungur þýsku þjóðarinnar, sem ól af sér Heine, Göthe og Beethoven, skuli nú hallast að harðneskjulegum og miskunnarlausum hugmyndum um blóðuga byltingu, ef marka má skoðanakönnun um það efni.   

 

   


mbl.is Fimmtungur Þjóðverja vill byltingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband