Færsluflokkur: Bloggar
14.12.2014 | 15:17
"Ferðaþjónustuaðilar"í klúðri.
Það er ekkert athugavert við það þótt þaulvanir menn á öflugustu jöklabílum landsins fari í leiðangur sem fyrirsjáanlega muni lenda í óveðri, ef fyrirfram er búið svo um hnúta að bíða veðrið af sér.
Dæmi um þetta var leiðangur á Hvannadalshnjúk vorið 1991 þar sem leiðangurinn hélt kyrru fyrir í óveðrinu þann tíma sem búið var að spá fyrir að það myndi standa.
Síðan var haldið áfram og birgðir af eldsneyti og vistum voru fyrirfram hafðar það miklar að hægt var að ljúka leiðangrinum án utanaðkomandi útkalls eða aðstoðar.
Menn einfaldlega höfðust við í bílunum og það væsti ekki um þá.
Það var búið að spá óveðrinu, sem nú gengur yfir landið og allt hefur gengið eftir varðandi það, rétt eins og gerðist í leiðangrinum 1991.
Svo virðist sem að ef farið hefði verið í Landmannalaugaleiðangurinn núna eftir sömu formúlu og notuð var 1991, hefði annað hvort verið gert ráð fyrir því að stytta leiðangurinn ef færið var svo þungt að sjá mátti fyrir eldsneytisskort og hafa í bakhöndinni þann möguleika að halda kyrru fyrir og bíða veðrið af sér, - eða að hafa svo mikið af eldsneyti og birgðum, að hægt yrði að komast báðar leiðir og gera ráð fyrir lengri tíma í leiðangurinn en upphaflega var áætlað.
En auðvitað geta ævinlega komið upp ófyrirséðar bilanir, óhöpp, áföll eða mistök, sem leysa þarf úr, og björgunarsveitarmenn eru afar skilningsríkir, enda flestir jöklafarar, sem kannski hafa sjálfir þurft á aðstoð að halda.
![]() |
Komust við illan leik inn í Laugar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.12.2014 | 10:21
Næsta helgi virðist ætla byrja vel.
Ef ótíðin, sem nú hefur ríkt um nokkkurt skeið, heldur áfram yfir hátíðirnar, mun það setja nokkurt strik í reikninginn hjá mörgum, sem eiga mikið undir því að sem flestir dagar séu í það minnsta ekki óveðursdagar.
Þar er einkum um að ræða vinsælar verslunargötur eins og Laugaveginn í Reykjavík og Hafnarstræti á Akureyri.
Óveður riðla líka dagskrám samkomustaða og setja rót á samkomur.
Mestu mun líklega skipta að skaplegt veður ríki í það minnsta eina helgi eða helgardag fyrir jól.
Það var skaplegt veður í gær og hiti um frostmark en dagurinn í dag er afleitur.
Miklu skiptir hvernig veðrið verður um næstu helgi, og þá gæti hjálpað til að þrír góðir verslunardagar, laugardagur, sunnudagur og þriðjudagur, sem er Þorláksmessa, raðast á fimm daga, og þar að auki má bæta föstudagskvöldinu við.
Samkvæmt spá Veðurstofunnar á að verða minnkandi norðanátt með nokkurra stiga frosti næstkomandi föstudag, sem ætti að gefa nokkuð góðar vonir fyrir laugardaginn.
Á morgun og hinn daginn ætti að sjást betur á vedur.is hvort þetta stillta veður helst eitthvað lengur. Þessi síðasta helgi fyrir jól er venjulega gríðarleg verslunarhelgi og þess vegna er enn von fyrir þá, sem mest eru háðir veðrinu, að úr rætist.
Um hátíðirnar verða miklu fleiri erlendir ferðamenn á ferli hér á landi en var á árum áður.
Þeir eru komnir hingað til að upplifa eitthvað, sem aðeins gefst einu sinni á ævinni og fyrir þá er það bara bónus að það sé vetrarríki í fjölbreyttri mynd, vonandi stillur með snjó sem flesta daga, en líka segja margir þeirra að það sé einstök upplifun að kynnast íslenska skafrenningnum.
![]() |
|
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.12.2014 | 22:23
"Séríslenskar aðstæður".
Margt á landi okkar er sérstakt og um sumt af því gildir það, sem svo oft er sagt, að þar séu að verki "séríslenskar aðstæður."
Andstaða við notkun bílbelta á sínum tíma var til dæmis byggð á því að hér væru "séríslenskar aðstæður" sem gerðu það nauðsynlegt að spenna ekki bílbelti.
Ýmis hegðan okkar er næsta séríslensk. Þessa dagana koma kannski þrjár tegundir af veðri á hverjum sólarhring, hringekjan norðanátt og frost-suðaustanátt og snjókoma-slydda-rigning-suðvestanátt og éljaganggur-norðanátt og frost.
Snjór sest á framrúður, verður blautur, frýs aftur og rúðuþurrkurnar eru eins og límdar við framrúðuna. Kostar heilmikið vesen og jafnvel skemmdir á þurrkunum að losa þær upp úr klakanum.
Í Svíþjóð og Noregi er þetta ekki svona. Þegar menn ganga frá bílunum á kvöldin eru þurrkurnar réttar upp í loftið eins og sést á mynd á facebook síðu minni.
Morguninn eftir þarf ekki að berja klaka og djöflast á þurrkunum frosnum föstum við bílrúðuna, sama hvað veður hefur verið um nóttina. Aðeins þarf að skafa af rúðunni og leggja þurrkurnar niður.
Þetta sér maður hvergi hér á landi og eru þó miklu magnaðri og meiri umlhleypingar hér en í Svíþjóð og Noregi.
Hér eru þurrkurnar látnar frjósa fastar við rúðuna þegar bíllinn stendur nógu lengi til þess að þær festist.
Þegar ég ræði þetta koma menn með alls konar viðbárur. "Það er meiri hætta á að þurrkunum verði stolið ef þær eru látnar standa uppréttar" er algengast viðbáran.
Samkvæmt því er fólgin þjófavörn í því að þurrkurnar séu frosnar við rúðurnar.
En hvað um mikinn meirihluta ársins þegar ekki er frost og ekki þau skilyrði að þurrkurnar frjósi fastar í rökkri eða myrkri?
Þá er jafn fljótlegt að stela þurrkum liggjandi eða standandi? Af hverju er ekki stundaður stórfelldur þurrkuþjófnaður þegar slíkar aðstæður eru?
Reynslan í Svíþjóð og í Noregi er sú að þurrkum er ekkert frekar stolið þótt þær séu uppréttar en þegar þær eru liggjandi.
Það hljóta því að vera "séríslenskar aðstæður" sem valda því að þjófar fara því aðeins á kreik til að stela þurrkum þegar eru uppréttar í rysjóttum vetrarveðrum.
Í raun er allt tal um séríslenskar aðstæður þvi frekar í vil að láta þurrkurnar standa uppréttar á Íslandi í rysjóttri tíð vetrarins heldur en í Sviþjóð og Noregi, einfaldlega vegna þess að hinar einu "séríslensku aðstæður" eru þær hve miklu meiri umhleypingarnir eru hér á landi en í hinum löndunum.
En okkur reynist auðvelt að nota séríslenska rökfimi til þess að snúa röksemdafærsluni á haus. Það eru sko "séríslenskar aðstæður".
![]() |
Spá 60 m/s í hviðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
13.12.2014 | 16:49
Breyttar aðstæður ráða miklu.
Það er rétt hjá Árna Þór Guðjónssyni í hljómsveitinni Made in sveitin að margt fer í hringi í þjóðfélaginu hvað snertir tónlist og vinsældir.
Nýjar kynslóðir koma með nýja tísku og nýjan smekk.
Bogomil Font, Sixties og margt fleira var dæmi um þetta á sínum tíma, að ekki sé nú talað um Ragga Bjarna.
Hugsanlega er hægt að fá upp einhverja stemningu á sveitaballi sem haldið er með gamla laginu, en samt sem áður eru aðstæður það breyttar frá því sem var þegar sveitaböllin, héraðsmótin og Sumargleðin réðu ríkjum í félagsheimilum landsins á sumrin, að það mætti teljast kraftaverk ef eitthvað slíkt gæti komið aftur.
Myndbandaleigurnar, miklu betri samgöngur, utanlandsferðir og tilkoma bjórsins voru miklar breytingar sem gerðu það að verkum að undirstöðunum var kippt undan sveitasamkomum af þeirri stærð og tíðni sem tíðkuðust frá 1950 til 1990.
![]() |
Sveitaböllin að snúa aftur? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.12.2014 | 09:07
"Jólastemning", mótuð á norðlægum slóðum.
Hvernig gengur Suður-Evrópuþjóðum og Suðurríkjamönnum í Bandaríkjunum að fanga þá miklu Norðurríkjastemningu sem birtist ótal jólalögum og sálmum?
Bara býsna vel, ótrúlegt en satt.
Mest selda plata síns tíma var með laginu "White Christmas" sem Bing Crosby söng. Ég kemst varla í hina endanlegu jólastemningu nema að heyra Dolly Parton syngja og blanda saman lögunum "Winter Wonderland" og "Sleig Bells".
"Snjókorn falla," "Jólasnjór" og ótal aðrir söngvar reyna að fanga jólastemninguna í Norðurríkjunum.
Þetta er Pollyanna í sínu æðsta veldi, að snúa hundleiðinlegum kulda, myrkri og hríð upp í dýrð og dásemd. Heilagur Kláus er orðinn að sleðastjóra og gjafadreifara þar sem klingjandi sleðabjöllurnar hringja inn jólastemninguna í marauðum Suðurríkjunum og Miðjarðarhafslöndum Evrópu.
Á Íslandi klæða hinir þjóðlegu og fornu jólasveinar okkar sig í búning Santa Claus og gefa gott í skóinn, þessir fyrrum óknyttadrengir og synir Grýlu og Leppalúða.
Og það er vel að lífga upp á skammdegið og víkja burt vetrardrunganum í stórhríðum með jákvæðri stemningu, tónlist, jólaljósum og öllu galleríinu.
Á jólatónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í dag verður frumflutt hér á landi lagið og textinn "Jólastemning", íslensk staðfærsla á ljóðinu "Christmas Time" sem hefur verið vinsælt jólalag í Bandaríkjunum í hálfa öld án þess að það hafi skolast hingað til lands, svo ég viti til.
Stúlknakór Reykjavíkur og Hulda Garðarsdóttir syngja lagið, en höfundar þess eru Lee Mendelson og Vince Guaraldi.
Í bandaríska textanum eru snjókornin, arineldurinn og allt það dásamað í lýsingu á hinni sönnu jólastemningu. Svona hljóðar það á íslensku. Lýst sameiginlegum atriðum stemningarinnar, hinu séríslenska, en bandaríska arineldinum sleppt :
JÓLASTEMNING. (Christms Time is here)
Jólastemning er
yfir öllu hér;
gleðitíð sem börnin blíð
nú biðja´að veitist sér.
Snjókorn blærinn ber.
Boðskap flytja mér
dýrðarsöngvar dægrin löng
sem dilla mér og þér.
Söngur, ljóð og ljóð,
ljúft við tónaflóð
mitt í dróma myrkurs ljómar
minninganna flóð.
Jólastemning ber
birtu; ósk mín er
að alla tíð, já ár og síð
allt árið ríki´hún hér, -
að einlæg gleði´og ástargeð
æ gefist mér og þér.
![]() |
Hvaða jólasveinn ert þú? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.12.2014 | 21:58
Bergbrotið (fracking) seinkar tvísýnni sókn í olíu.
Bergbrotið í Ameríku (fracking) hefur heldur betur sett strik í reikninginn í efnahagsmálum heimsins. Bandaríkin hafa í bili náð því að framleiða meira eldsneyti en þeir flytja inn og þetta hefur valdið verðfalli á olíu.
Verðfallið hefur mjög fjölbreytileg áhrif. Það er jafn skelfilegt fyrir Rússland og það sem gerðist á níunda áratugnum þegar Sádarnir og Kanarnir veittu Sovétríkjunum náðarhöggið.
En það veldur því líka að mikið bakslag hefur komið í gullgrafaraæðið, sem reynt hefur verið að blása upp hér á landi og á Grænlandi.
Kostnaðurinn við að ná upp olíu á nýjustu svæðunum er svo mikill að hann er orðinn meiri en nemur tekjunum, - það er tap á dæminu.
Allur hávaðinn útaf Drekasvæði nu hafði að vísu holan hljóm, svo erfitt og tvísýnt sem það er að ætla sér að ná upp olíu af 1100 metra svæði lengst norður í rassgati.
En samt hafa dollaramerkin skinið úr þeim sem hafa séð í hillingum stórfelldan gróða hér á landi í mesta lagi nokkrar áratugi með svipuðum endalokum og urðu á fleiru hér eins og rústir hvalveiðistöðva um allt land bera vitni um.
Bergbrotið vestra gefur jafn óendurnýjanlega og óhreina orku og hefðbundin olíu- og gasvinnsla, lengir aðeins í því ástandi og gerir það verra sem nú hefur sem mest áhrif á lofthjúpinn með gríðarlegum afleiðingum.
Það er aðeins verið að lengja í snörunni hvað varðar óhjákvæmlegri hnignun helstu auðlinda mannkynsins á þessari öld.
![]() |
Hætta við olíuleit á Drekasvæði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
12.12.2014 | 15:25
Dauðadómar eru manndráp og forneskja.
Dauðadómar eru manndráp. Skiptir þá engu hvort drepið sé samkvæmt lögum eða ekki.
Tugir dómsmorða eru framin í heiminum á hverju ári. Þeim mun ekki linna fyrr en dauðadómar eru aflagðir og þess vegna á ekki dæma menn til dauða.
Dauðarefsing sem framkvæmd er, er óafturkræf, en lífstíðar fangelsi ekki.
Ef hinn sakfelldi er hættulegur umhverfi sínu á að dæma hann í ævilangt fangelis eða vistun þar sem komið er í veg fyrir að hann geti orðið skaðlegur.
Fælingarmáttur dauðadóma hefur ekki virkað hjá þeim þjóðum sem mest aðhyllast þá, svo sem Kínverja og Bandaríkjamenn.
Dauðadómar eru aftan úr grárri forneskju þegar í gildi var lögmálið "auga fyrir auga og tönn fyrir tönn" og eru enn fráleitari en það að höggva hendur af þjófum.
![]() |
Játaði á sig 42 morð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.12.2014 | 07:50
Göngum hægt um gleðinnar dyr. Skoðum staðreyndir.
Í Barcelona á Spáni hefur myndast öflug hreyfing borgarbúa, sem andæfa því að mannlíf í stórum hluta borgarinnar hefur verið deytt að stórum hluta vegna skefjalauss gullgrafaraæði í ferðamennsku.
Svipað er að gerast gömlu miðborginni okkar í Reykjavík. Nú þegar hefur borgarbragurinn gerbreyst þannig að vissa daga yfir sumartímann er maður hættur að hitta Íslendinga í gamla miðbænum, - þetta er erlend borg.
En margir útlendinganna eru komnir hingað til að kynnast íslensku þjóðlífi.
Fleira fylgir hinni skefjalausu hótelvæðingu. Sum hótelanna þurfa lóðir, þar sem nú eru bílastæði. Þeim fækkar þegar hótelið er risið, en þriðjungur hótelgestanna er á bílaleigubílum!
Hvar eiga þeir að fá stæði? Ef útlendingarnir væru á reiðhjólum kæmu nýju hjólastígarnir sér vel. En ferðamannirnir eru ekki á reiðhjólum.
Við sum hótelin hafa breytingar á götum og gangstéttum komið í veg fyrir að rútur komist að þeim og frá með töskurnar sínar. Þeir sem eru í rútunum eru ekki á reiðhjólum.
Enn skortir mikið upp á að bílastæðahús borgarinnar séu fullnýtt. Fólk kvartar yfir því að stæðin í þeim séu dýr.
Í Santa Barbara í Kaliforníu fóru menn þá leið til að endurlífga miðborgina að reisa 15 bílastæðahús og ókeypis er í þau öll í 90 mínútur fyrir hvern bíl.
Miðborgin lifnaði við og er á ný iðandi af lífi. Þetta var kynnt fyrir mér þegar ég var þar á ferð fyrir nokkrum árum.
![]() |
Margir vilja í hótelrekstur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.12.2014 | 23:03
Hvert var stórslysinu forðað og hvar er það nú?
Það er hægt að forðast stórslys. Það er líka hægt að koma í veg fyrir stórslys. Það er hægt að forða fólki í burtu. En ef stórslysi var forðað eins og sagt er í tengdri frétt á mbl.is, hvert var því þá forðað?
Yfir Fjarðarheiði? Út á sjó?
Að forða slysi er bæði málvilla og rökvilla. Samt lifir þessi vitleysa góðu lífi.
![]() |
Skjót viðbrögð komu í veg fyrir stórslys |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.12.2014 | 12:59
Allar klær úti eins og fyrr.
Enn er í minnum dagskipunin sem gefin var út í bönkunum í bankabólunni um árið, að neyta allra bragða til þess að fá viðskiptavini til að bíta á krókinn í lántökum.
Umrætt var þegar bankafulltrúi greindi frá því hvernig honum var refsað fyrir það að gefa viðskiptavini þær upplýsingar sem raunverulega hentuðu honum í stað gylliboðanna.
Sömuleiðis þegar starfsfólk fékk umbun fyrir það að véla sem flesta.
Eða eru menn kannski búnir að gleyma þessu?
Spurningin vaknar þegar svo virðist sem allt sé að fara í sama farið og fyrir Hrun í bönkunum eins og virðist líka víða annars staðar í þjóðlífinu.
Allar klær eru á ný úti til þess að græða sem mest undir kjörorðinu: Löglegt en siðlaust.
Í hugann koma orð bankamanns austur við Kárahnjúka árið 2005: "Því verr sem þessi virkjun gengur, því meira græðir bankinn." Þessi orð voru sögð í sambandi við það að á þeim tímapunkti stóð afar tæpt að gangaborunin tækist. Framkvæmdin hékk á bláþræði.
Gleymskan á aðdraganda Hrunsins og það atferli og hugsunarhátt sem skóp það, er raunar líkast til áunnin gleymska, því að erfitt er að útskýra þetta öðruvísi.
Rétt eins og "áunnin fáfræði" ræður ríkjum í sambandi við óþægilegar staðreyndir í orku-, umhverfis- og náttúruverndarmálum er trúin á illa fenginn gróða eða skammtímagróða á kostnað framtíðarinnar og komandi kynslóða búin að ná fótfestu á ný.
![]() |
Heimilin verða af hundruðum milljóna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)