Færsluflokkur: Bloggar
29.8.2014 | 04:24
Vika frá fyrsta bloggpistlinum um nýja sýn á svæðið.
Nú er liðin rétt vika frá því að bryddað var upp á því hér á síðunni að ýmislegt þyrfti að taka til nýrrar skoðunar varðandi umbrotin norðaustur af Bárðarbungu.
Tilvist Holuhrauns var tilefni daglegra skrifa á síðunni um þetta og strax á fyrsta degi þeirra fór ég í sérstakt klukkustundar langt myndatökuflug yfir Holuhraun til þess að eiga góðar myndir af þessari gígaröð og hrauninu sem rann úr þeim.
Alls konar uppákomur og aðrar fréttir tóku alla athygli vísindamanna og fjölmiðla næstu daga en loks fékkst staðfesting vísindamanns þremur dögum síðar á því að Holuhraun gæti allt eins tengst Bárðarbungu eins og Öskju.
Ekki óraði mig fyrir því fyrir viku að Holuhraun myndi grípa svo hressilega við sér svo skömmu síðar og að þá yrði aðeins 35 kílómetra fjarlægð frá svefnstað mínum til nýs gosstaðar.
Síminn glumdi um miðnætti um eldgos, sem sæist á milu.is en vegna þess hve stjörnudýrð og birta himinsins var mikil yfir Sauðárflugvelli þar sem ég var, var erfitt að sjá hvort öflugur bjarmi, sem sást í vestri, væri af völdum goss eða norðurljósa, sem í þeirri svipan hófu sig upp af fádæma afli og fóru eins og breitt leifturband frá vestri til austurs yfir flugvellinum.
Ég sá ekki rauðan lit í bjarmanum í vesturátt, - kannski vegna þess hve norðurljósabjarminn var sterkur, og því gat ég ekki staðfest að þessi ljósasýning væri af völdum gossins og náði þar af leiðandi engum myndum af þessu, enda fóru nú að berast í símtölum upplýsingar um að gosið væri að fjara út.
En þessi næturstund var engu að síður mjög áhrifamikil og eftirminnileg.
![]() |
Norðurljós yfir eldstöðinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 04:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.8.2014 | 20:15
Af hverju að gera þetta svona "erfitt og óþægilegt"?
Í viðtölum við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra hafa tvo orð verið gegnumgangandi um samskipti hennar og Stefáns Eiríkssonar: "...erfitt og óþægilegt...".
Að hennar sögn töluðu þau tvo sífellt um það í samtölum sínum hvað málið væri "erfitt og óþægilegt" fyrir þau bæði og voru innilega sammála um það.
Ástæðan er einföld: Yfirmaður var á fundum með undirmanni sínum, sem stóð fyrir lögreglurannsókn á ráðuneyti yfirmannsins og yfirmaðurinn var þar með að skipta sér af rannsókninni, bara með því einu að vera allan tímann að ræða um hana og einstök atriði hennar. Það var svo "erfitt og óþægilegt".
Einfalt ráð var við þessu frá upphafi: Að ráðherrann losaði sig við það sem var svona "erfitt og óþægilegt" með því að segja sig að minnsta kosti frá þeim hluta starfs síns sem tengdist verkefnum venjulegs dómsmálaráðuneytis.
Þar með hefði "erfitt og óþægilegt" getað breyst í áttina að því að verða "auðvelt og þægilegt".
![]() |
Skoða frekari skiptingu ráðuneyta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.8.2014 | 03:00
Gætiu verið ummerki eftir aukinn jarðhita um nokkra hríð ?
Nú er það langt síðan skjálftahrina Bárðabungu hófst að það má velta upp þeim möguleika að þar hafi nú verið stóraukinn jarðhiti í tvær vikur eða meira og að sigkatlarnir grunnu, sem komnir eru í ljós, séu afleiðingar af henni, sem fyrst eru að koma fram núna.
Vísa að öðru leyti í bloggpistil á undan þessum um sex stykki "ekkigos" eða "varlagos".
![]() |
Fyrstu ummerki um gos á yfirborði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
27.8.2014 | 23:35
Nokkur "ekkigos" eða "varlagos".
1, Eftir litla Leirhnjúksgosið í desember 1975 reið mikil skjálftahrina yfir Gjástykki og Kelduhverfi. Mjög stór skjálfti stórskemmdi hús á Kópaskeri og gríðarmiklar gjár urðu til í sveitinni. Nýtt vatn, "Skjálftavatn" myndaðist. Ekkert eldgos varð, - "ekkigos".
2. Ári síðar, ef ég man rétt, hljóp kvika til suðurs í Bjarnarflag og var um stund talið að þar væri að byrja gos. Allt og sumt var að glóandi hraunmylsna þeyttist upp úr borholuröri þar og dreifðist hraunmylsnan um svæði á stærð við knattspyrnuvöll. Minnsta staðfesta eldgos í heimi. "Varlagos".
3. Í skjálftahrinu við Hamarinn í aðdraganda Gjálpargossins 1996 var talið líklegt að ögn af hraunkviku hefði náð upp á yfirborðið við fjallið. Ekkert var hægt að sanna í því efni. "Ekkigos" eða "varlagos."
4. Í einu af Skaftárhlaupunum, sem komu úr öðrum af tveimur Skaftárkötlunum var talið líklegt að hugsanlega hefði einhver hraunkvika komist upp undir ketilinn. Ekkert var hægt að sannreyna óyggjandi í þeim efnum. Sem sé: "Ekki gos" eða "varla gos."
5. Á laugardaginn var sást eitthvað sem gat líkst óróa og önnur teikn undir Dyngjujökli sem hugsanlega mátti túlka sem upphaf eldgoss. Lýst var yfir neyðarástandi vegna yfirvofandi goss. Ekkert gos fannst þegar betur var skoðað.
6. "Ekki gosin" eða "varla gosin" gætu hafa verið fleiri en þessi fimm, sem ég man eftir í svipinn, og í kvöld bættist hugsanlega enn eitt við og þau þá orðin sex.
Eftir stórskjálftana í Bárðarbungu og stóra skjálfta þar norður af þarf ekki að undra að hveravirkni byrji eða aukist stórlega undir ísnum og að það myndist nýjar gjár í Holuhrauni.
Auðvitað verður eldgos, kannski eftir eina klukkustund, einn dag, einn mánuð, eitt ár eða einn áratug en eigum við ekki samt að anda með nefinu þangað til ?
![]() |
Óljóst hvar vatnið er |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.8.2014 | 12:55
Stórbrotnar vangaveltur.
Í fréttum Rikisútvarpsins í morgun var frétt, sem sýnir hve stórbrotna atburði við erum í raun að horfa á
Íslenskur sérfræðingur í London, Ágúst Guðmundsson, telur atburðina einstæða fyrir vísindasamfélagið og benda til að í stað þess að um sé að ræða einstök kvikuhólf og kvikuinnskot, kraumi í raun undir miklu stærra fyrirbæri, risastór kvikuþró sem sé uppruni þessara umbrota allra.
Það rímar við þá viðurkenndu staðreynd að Bárðarbunga liggi við miðju annars af tveimur stærstu mötttulstrókum heims.
Líta má svo á að þessi sýn Ágústar geti gefið vísbendingu um að miklu stærra kunni að vera í aðsigi en afmarkað eldgos af venjulegri stærð og að hugsanlega stefni í eitt af hinum stóru hamfaragosum á borð við Öskjugosið 1875-86 eða jafnvel Skaftárelda, stórgosin að Fjallabaki fyrr á öldum eða Eldgjárgosið 934.
Einnig varpar Haraldur Sigurðsson jarðfræðingur því fram að kvikuhólfin undir Kröflu, Öskju og fleiri eldstöðvum séu á aðeins 2ja- 3ja kílómetra dýpi en hólfið undir Bárðarbungu, sem nú er svo virkt, sé á sex kílómetra dýpi.
Af því leiði að setja megi spurningarmerki við það að útskýra stóru skjálftana í Bárðarbungu út frá svipuðum forsendum og við fyrrnefndar eldstöðvar og eingöngu út frá áhrifum kvikustreymis í berggangi, einum eða fleirum, heldur þurfi að skoða dýpra með opnum huga.
Vísa að öðru leyti í næstu bloggpistla mína á undan þessum um þetta efni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
27.8.2014 | 08:05
Ógnvaldur allra stórvirkjana nema Blönduvirkjunar?
Ein stærstu rökin fyrir virkjun Blöndu á níunda áratugnum voru þau, að með tilkomu hennar væru egg stórvirkjana á Íslandi ekki lengur öll í sömu körfunni á Þjórsár-Tungnaársvæðinu.
Bárðarbungu eru eignuð upptökin að stórgosum allt suður á Veiðivatnasvæðið og Friðland að Fjallabaki og innifalin í þeim eru gos sem hafa valdið stórfelldum landbreytingum á þeim svæðum og rennsli hins hrikalega stóra Þjórsárhrauns, sem fór í sjó fram í Flóanum og liggur undir jarðveginum í þeirri sveit.
Árangur sem náðist í baráttunni við Heimaeyjargosið 1973 segir lítið um það hve vel mönnum myndi ganga að ráða við margfalt stærri hraunstrauma og stórgos.
Þess vegna má segja að Bárðarbunga sé ógnvaldur allrar stórvirkjanakeðjunnar, sem nú framleiðir um 800 megavött samanlagt en myndi fara vel á annað þúsundið ef virkjað verður áfram við Norðlingaöldu og einnig neðar í ánni.
150 megavött Blöndu mega sín lítils sem mótvægi og enn minna ef Kárahnjúkavirkjun er skilgreind innan hugsanlegs áhrifasvæðis Bárðarbungu.
Fremri-Kárahnjúkur er eldfjall, sem tvær af þremur stíflum Kárahnjúkavirkjunar liggja upp að, og hin þriðja er skammt frá.
Í bloggpistli næst á undan þessum er tengingu misgengissvæða á Kárahnjúkasvæðinu við eldstöðvakerfið norðan Vatnajökuls lýst, en reynist Askja og Kverkfjöll undir áhrifum frá Bárðarbungu má segja að hún geti líka verið ógnvaldur stórvirkjana á norðausturhálendinu, en orka þeirra er nú 690 megavött en uppi eru hugmyndir um að bæta við næstum jafnmiklu við með virkjunum í Jökulsá á Fjöllum og Skjálfandafljóti.
![]() |
Virknin að aukast á skjálftasvæðinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.8.2014 | 20:37
Yfir 3 stig 13,5 km frá Kárahnjúkastíflunum.
Fremri-Kárahnjúkur, sem Kárahnjúkastífla, hins stærsta af þremur stíflum Kárahnjúkavirkjunar, er byggð utan í, er eldfjall og stendur á sprungukerfi, sem teygir sig þangað frá Kverkfjöllum.
Jarðhitasvæði, svonefndar Lindur, var rétt innan við Kárahnjúka, en er nú á botni Hálslóns.
13,5 kílómetra í suðvestur frá stíflunum, eða rétt við Sauðárflugvöll, kom skjálfti yfir 3 stig í gær.
Við, sem höfum verið þar undanfarna daga, vorum þá farin þaðan til Akureyrar og fundum því ekki fyrir skjálftanum.
En flugumferðarstjóri á Akureyri sagði, að flugturninn hefði skekist til í stóra 5,7 stiga skjálftanum rétt fyrir hádegi i dag.
Undir stærstu stíflunni við Kárahnjúka voru þrettán sprungur sem þurfti að líma eða þétta á ákveðinn hátt þegar stíflan var byggð ofan á þær.
Það hefur sést á jarðskjálftagögnum að síðasta sólarhringinn eru farnir að sjást skjálftar á línu milli Herðubreiðartagla og Upptyppinga, sem eru á kunnuglegum slóðum frá undanförnum árum, en sprungusveimur eða misgengi liggur frá Kverfkjöllum og norður í Kárahnjúka.en það er nýtt að skjálftar komi fram á sprungusveimnu, sem liggur milli Kverkfjalla og Kárahnjúka, hvað þá yfir 3 stig.
Svo stór skjálfti kom þar ekki í hrinunni, sem byrjaði við Upptyppinga sumarið 2007, stóð fram á næstu ár og hefur siðan komiö upp í litlum mæli við Herðubreið, Herðubreiðartögl, í Krepputungu og Álftadalsdyngju.
Stærsta stíflan við Kárahnjúka er hönnuð til að standast skjálfta á bilinu 4 til 6 stig, eftir því hvort þeir eru alveg undir henni eða aðeins fjær.
En ekki hef ég séð nein gögn um það hvað gæti gerst, ef einhver af öllum sprungunum, sem liggja undir stífluna, giliðnar eða byrjar að leka.
Stíflurnar hafa lekið mjög lítið og öllu minna en víða gerist, til dæmis við Sigölduvirkjun. Þannig er áin Hrafnkela í Hrafnkelsdal, sem er bergvatnsá, oft aurlituð af vatni sem ábúendur í dalnum segja að komi í hana úr göngunum.
Austar, við svonefndan Þrælaháls, er 5-7 kílómetra breitt misgengi af fjölmörgum gjám neðanjarðar, sem tók meira en hálft ár að bora göngin í gegnum, enda sú stærsta 9 metra breið.
Því er ósvarað hvað myndi gerast ef einhver gliðnun yrði þar.
Lögfræðingur Landsvirkjunar lýsti vel eðli þessara mannvirkja í bréfi sem hann sendi landeigendum á sínum tíma eftir að virkjunin var risin og málaferli hafin, til þess að sýna fram á það að þeir ættu ekki að láta sig dreyma um milljarða framlög vegna vatnsréttinda á svæðinu. Í því stendur orðrétt:
"Virkjunin er erfið og áhættusöm jaðarframkvæmd í landfræðilegu-, tæknilegu-, umhverfislegu- og markaðslegu tilliti..."
![]() |
Jarðskjálfti fannst á Akureyri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.8.2014 | 14:08
Óvænt fámenni á þessum árstíma.
Það var óvænt tilfinning sem við þrjú upplifðum tvo sólarhringa á Sauðárflugvelli og komast að því að við værum alein um hásumar á stórum hluta landsins.
En þannig varð það eftir að við lentum á Sauðárflugvelli og dvöldumst þar í tvær nætur.
Flugvöllurinn er ekki á vatnasvæði Jökulsár á Fjöllum, og til þess að flæða þar yfir, þyrfti hún að renna yfir tvo rana fjalla og hálsa, sem gengur til norðurs úr vestanverðum Brúarjökli og beinir ánum Kverká og Kreppu í Jökulsá á Fjöllum.
Þrjár ár, Sauðá, sem bjó til flugvöllinn, Kringilsá og Jökulsá á Dal sem nú hefur verið drekkt í Hálslóni, eru hins vegar á vatnasvæði á austurhelmingi þessa svæðis.
Ég fékk upphringingu frá einhverjum manni, sem ég þekki ekki neitt, sem skammaðist yfir því að ég hefði brotið gegn ferðabanni, sem þarna væri, því að við Kárahnjúkastiflu væri bannmerki, sem ég hefði ekki virt.
Ég sagði honum að flugleið mín til vallarins hefði í fyrsta lagi ekki legið yfir Kárahnjúka og spurði hann hvernig í ósköpunum ég hefði átt að virða bannmerki í vegakerfinu, sem ég hefði ekki séð, - hvort hann teldi að ég þyrfti að fylgja vegum hvarvetna á flugi mínu í nokkurra feta hæð til þess að gá á öll vegamerkin, reyna að lesa á þau og stöðva til dæmis för og víkja fyrir bílum á einbreiðum brúm.
Þarna uppgötvuðum við það sem sagt, að við mættum ekki aka framhjá bannmerkinu á leið frá bannsvæðinu, heldur yrðum að vera lokuð inni, jafnvel þótt við værum samt ekki á skilgreindu hættusvæði!
Með leyfi yfirmannsins í aðgerðum Almannavarna fengu Lára og Vilhjálmur Þór að aka milli flugvallarins og Egilsstaða í fyrradag, enda sú leið öll tugum kílómetra utan við skilgreint hættusvæði.
Og það var sérkennileg tilfinning að vera þarna þrjú ein á gríðarstóru landsvæði sem annars iðar víða af ferðafólki á þessum árstíma.
Svona getur nú flugið ruglað margt, til dæmis ef það yrði talið nauðsynlegt vegna smithætttu að banna alla flugumferð til og frá landinu.
Íslenskir farfuglar munu nefnilega fara sínu fram á vorin og haustin, jafnvel þótt þeir bæru óafvitandi einhver óvelkomin efni, smáverur eða pestir til landsins.
![]() |
Gera ekki ráð fyrir fleiri ferðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.8.2014 | 06:34
Dauðateygjur, forboði goss eða hluti af löngu ferli?
Ýmsar útskýringar eru á lofti hjá fræðimönnum á því sem er að gerast í skjálftahrinunni sem kennd er við Bárðarbungu.
Ein er sú að stærð skjálftanna þurfi ekki endilega að tákna það að gos sé að dynja yfir, heldur um eðlileg viðbrögð í Bárðarbungu að ræða við gliðnun og kvikuinnskotum á margra tuga kílómetra löngu svæði.
Gæti þess vegna verið hluti af löngu ferli, líkt og átti sér stað við Kröflu í Kröflueldum og að stórir skjálftar gætu í raun verið nokkurs konar hluti af dauðateygjum hrinunnar, sem muni fjara út smátt og smátt á meðan berggangur eða berggangar væru að fyllast af kviku, án þess að hún komi upp á yfirborðið.
2007 hófst skjálftahrina við Upptyppinga fyrir austan Öskju, sem smám saman færðist til á litlu svæði og fjaraði rólega út á mörgum mánuðum.
Í upphafi hrinunnar í Bárðarbungu var stundum minnst á það, að mestar líkur væru á stórum skjálftum sem forboða goss, sem væri að bresta á. Þannig kynni það hugsanlega að verða í þetta sinn.
Eins og oft vill verða, kunna allar þessar útskýringar að vera réttar út af fyrir sig.
Það, ásamt þeirri staðreynd, að fyrr eða síðar muni gjósa þarna, gerir þetta allt svo áhugavert.
Ekki síst vegna þess, að skjálftarnir dreifast út fyrir Bárðarbungu og bergganginn margumrædda.
Þannig má sjá á skjálftakortinu á vedur.is að einn skjálftinn, sem náði 3ja stiga styrk, varð á Brúaröræfum skammt frá Sauðárflugvelli, sem hefur verið aöseturstaður minn í viku.
En völlurinn liggur yfir sprungumisgengi sem teygir sig frá Kverkfjöllum í norðaustur í gegnum Kárahnjúkastíflu og Kárahnjúka, sem eru sofandi eldstöð.
![]() |
Sá stærsti hingað til |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
25.8.2014 | 15:22
Skásti goskosturinn: Viðbót við lítt þekkt undralandslag.
Á flugi yfir svæðinu milli Dyngjujökuls og Öskju síðastliðinn fimmtudag í góðu skyggni vakti athygli magnað fyrirbæri, sem lætur lítið yfir sér fyrir norðan jökulsporðinn, svonefnt Holuhraun.
Í hrauninu er gígaröð, ein af mörgum slíkum á þessu fjölbreytlegasta eldfjallasvæði heims sem vatnasvið Jökulsár á Fjöllum er, til dæmis norðaustur af Bárðarbungu, á Dyngjuhálsi og þar norður af.
Þrátt fyrir hundruð ferða yfir jökulsporð Dyngjujökuls og Jökulsárflæður, hafði þess gígaröð í Holuhrauni ekki vakið þá athygli sem hún átti skilið.
Eins og ég hef greint frá á bloggsíðunni hérna fór ég að leita að því, hvaða álit vísindamenn kynnu að hafa á þeim möguleika, að skjálftarnir og berggangurinn undir Dyngjujökli væri að teygja sig norður fyrir jökulinn og að Holuhraun væri á gosvirknisvæði Bárðarbungu en ekki Öskju, eins og talið hefur verið fram að þessu.
Uppákomur á borð við lokanir stórra svæða, yfirlýsingu um hættuástand og tengdar fréttir tóku hins vegar alla athyglina, enda þótt augljóst væri, að möguleikinn á fallegu hraungosi í gígaröð gæti gerbreytt stöðunni úr því að vera afar slæm í það að enda með því að skapa "ferðamannagos" sem myndi fljótlega hafa svipuð áhrif og Eyjafjallajökulsgosið, að auka á ferðamannastrauminn í stað þess að minnka hann.
Við Einar Rafnsson, sem flugum á sitt hvorri flugvélinni yfir svæðið sama daginn, tókum báðir myndir af því, en allt umrótið undanfarna daga og uppákomurnar hafa valdið því, að það verður fyrst í kvöld í fréttum Sjónvarpsins sem þær komast fyrir almenningssjónir ef Guð lofar.
Ætla að setja ljósmynd eða ljósmyndir nn á fésbókarsíðu mína núna þegar ég er loksin lentur í bili í byggð þar sem er gott 3G samband.
Gígaraðir og móbergshryggi (gígaraðir, myndaðar undir jökli) eins og finna má víða á Íslanddi, eiga sér enga hliðstæðu í heiminum.
Ástæða þess að gígaröðin magnaða í Holuhrauni hefur ekki hlotið sömu frægð og margar aðrar er líklega sú allt umhverfið, Askja, Jökulsárflæðurnar, Dyngjujökull og Kverkfjöll, er svo stórbrotið, og gígarnir lika dálítið fyrir utan alfararleið fyrir fótgangandi, að þessi gígaröð er eitt af best földu leyndarmálum íslenskrar náttúru.
Nú verður spennandi að sjá hvort gýs á sömu sprungunni eða við hliðina. Hvort tveggja yrði stórbrotin viðbót í listaverkagalleríi íslenskrar náttúru.
Auðvitað væri best ef ekkert gos kæmi nú, en á hinn bóginn er fullvís, að það mun gjósa fyrr eða síðar.
![]() |
Gos líklegt milli jökuls og Öskju |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)