Færsluflokkur: Bloggar

Furðuleg "smáatriði" sem vefjast fyrir framleiðendum - 1.

Ég hef stundum verið að velta vöngum yfir því hve það vefst mjög fyrir framleiðendum á einföldum vörum að komast hjá tiltölulega litlum atriðum, sem eru óþörf í sjálfu sér, en lífa þó góðu lífi áratugum saman. 

Nokkur lítil dæmi:

Eitt af stærstu risafyrirtækjum heims með tugþúsundir starfsmanna og þúsunda milljarða króna árlega veltu lætur hanna ferðaútvarpstæki þannig, að on-off hnappurinn falli vel inn í útlit tækisins með því að vera neðst í öðru horni þess.

Lítur vel út í laglega hönnuðu tæki, en er á þannig stað á tækinu, að ekki þarf nema smá snertingu til þess að kveikja óvart á því.

Ef hávaðatakkinn er hátt stilltur og tækið kannski niðri í plastpoka eða skjóðu, tekur tækið kannski allt í einu upp á því að útvarpa miklum hávaða yfir alla nærstadda allan þann tíma, sem tekur eigandann, að leggja allt frá sér, kafa niður í skjóðuna, finna tækið og slökkva á því.

Ef hávaðatakkinn er stilltur á þögn, fer tækið allt í einu í gang án þess að eigandinn verði þess var.

Segjum að hann sé að fara í langa göngu eða ferðalag, uppgötvar hann ekki fyrr en hann þarf á tækinu að halda, að það er orðið rafmagnslaust.  

Svona ferðaútvarpstæki getur verið mikið öryggisatriði ef eigandi þess er á ferð um afskekkt svæði.

Þess bagalegra er ef það er orðið rafmagnslaust og gleymst hefur að taka með sér auka rafhlöður.

Að sjálfsögðuð ætti það að vera skilyrði í hönnun svona tækja, að ræsitakkinn sé þannig innfelldur innarlega í tækinu, að það fari helst ekki í gang nema þegar ætlunin er að kveikja á því.

Og það hlýtur að vera hægt að hanna þetta þannig, að það líti vel út í stað þess að vera að elta einhverjar útlitstiktúrur hönnuða sem hugsa aðeins um útlit tækisins en ekki um notkun þess.  


Hefur farið nærri spánni.

Fljótleg eftir upphaf blóðbaðsins á Gaza spáði ég því að í þetta sinn yrði ekki hætt fyrr en hátt í tvö þúsund Palestínumenn hefðu verið drepnir, eða að minnsta kosti mun fleiri en síðast, þegar þetta dundi yfir.

Ástæðan er einföld. Með hverri svona hrinu vex hatrið á milli stríðsaðila. Fyrir Ísraelsmenn virðist vera lágmark að drepa nokkra tugi Palestínumanna fyrir hvern drepinn Ísraelsmann.

Allir íbúar Gaza virðast vera skilgreindir sem óvinahermenn, börn, gamalmenni, fjölskyldur. Hundruð drepinna barna er skerandi staðreynd. En kannski eru þau skotmark af því að þar muni annars vaxa upp hatursfullir Hamasmenn sem þekkja ekkert nema blóð og limlestingar. 

Allir staðir á Gaza virðast líka skilgreindir sem hernaðarmannvirki, barnaleikvellir, sjúkrahús, húsakynni Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegra hjálparaðila.

Röksemdin er væntanlega sú að hver eldflaug, sem Hamas liðar skjóti upp geti drepið hvern sem er Ísraelsmegin og lent á hverju sem er.

En munurinn á eyðileggingarmættinum er óendanlega mikill, því að aðeins hefur einn fallið þeim megin fyrir eldflaugunum en nær allir fallnir Ísraelsmenn hafa verið hermenn úr hópi þeirra sem sendir voru inn á Gaza.

Það þarf töluvert til þess að Bandaríkjamenn fordæmi aðfarir Ísraelsmanna en nú virðist þeim nóg boðið.

En þetta eru bara orð en ekki gerðir. Magnleysi umheimsins virðist algert. Staðan er nefnilega flókin eins og og sést á þögn og aðgerðarleysi valdamanna í Arabaríkjunum umhverfis.

Þeir líta á Hamas sem hluta af ofsatrúarmönnunum, sem hafa farið geyst í Líbíu, Sýrlandi og Írak.

En hið grátlega er að vaxandi harka eykur mátt þessara samtaka vegna hatursins og heiftarinnar sem vaxa með hverri hrinu.

Í næstu hrinu virðist vera hægt að spá því að ekki verði hætt fyrr en 3000 liggja í valnum.  


mbl.is Eyðileggingin kemur í ljós
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erfitt í íslenskri umferð.

Sparakstur og hagkvæmur akstur, sem einnig gerir umferðina greiðari og öruggari er afar erfiður í framkvæmd hér á landi, því að þannig aka Íslendingar yfirleitt ekki.

Mér finnst það skemmtilegt verkefni að reyna svona akstur, einkum vegna þess hve það getur verið fyndið á fylgjast með hinu almenna aksturslagi, sem er þessu alveg andsnúið.

Síðustu mánuði er ég einn af þeim tugum þúsunda bilstjóra sem koma margsinnis í viku akandi úr austurátt eftir Miklubrautinni í áttina að umferðarljósunum við Grensásveg.

Þegar um er að ræða tugþúsundir ferða flestra, sem eiga erindi þessa leið, mætti ætla að þeir huguðu að því hvernig hægt er að spara bensín, tíma og hemla með því að "lesa" umferðarljósin áður en komið er að þeim.

Tvær brýr liggja yfir Miklubrautina á þessum kafla og ef grænt ljós kviknar við Grensásveg áður en maður er kominn að þeim, lendir maður á rauðu ljósi áður en komið er að gatnamótunum.

Ef maður er kominn vestur fyrir austari brúna kemst maður yfir á grænu með því að halda góðum hraða.

En svo er að sjá sem að enginn pæli í þessu og allra síst í þeim möguleika, að sé maður hvort eð er orðinn of seinn til að ná að gatnamótunum, áður en rauða ljósið kviknar, er hægt að spara sé eldsneyti, tíma og hemla með því að hægja á sér það tímanlega og leyfa bílnum að rúlla í hlutlausum án þess að hemla þannig að grænt ljós kvikni í þeim svifum sem maður kemur að gatnamótunum svo að bíllinn renni ljúflega yfir án þess að hemlum hafi verið beitt.

Ef einhver umferð er, er þetta yfirleitt vonlaust, því að þeir sem eru á eftir manni, eru svo stressaðir og spenntir, að þeir troða sér fram fyrir mann, stundum fleiri ein einn, bara til þess eins að þurfa að reka hemlana niður og stoppa við ljósin, einmitt rétt áður en þau verða græn, og þurfa síðan að rykkja sér aftur af stað upp brekkuna.

Þannig tapast bæði tími, eldsneyti og möguleiki á að spara hemlana.

Eitt sinn var ég á leið suður í Hafnarfjörð og lét bílinn rúlla þannig að umferðarljósunum í Garðabænum að hann fór alltaf áreynslulaust yfir á nýkviknuðu grænu ljósi.

Maður á stórum og dýrum jeppa þoldi þetta ekki, heldur rykkti sér fram úr mér á hinni akreininni í hvert sinn sem hann sá ljós framundan bara til þess eins að þurfa að reka hemlana niður þegar hann kom að ljósunum, nokkrum bíllengdum á undan mér.

Og einmitt þegar hann stóð þar grafkyrr rúllaði ég fram úr honum í þann mund sem græna ljósið kviknaði.

Svona gekk þetta á öllum umferðarljósunum sem framundan voru alla leið suður í Fjörð og alltaf varð gaurinn á stóra jeppanum æstari og æstari yfir því að ég skyldi alltaf fara fram úr honum á hverjum ljósum!   


mbl.is Sparakstur reynir á heilabúið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nei, nei, nei. Það getur ekki verið að "eitthvað annað" sé svona merkilegt.

Daglegir vitnisburðir úrlendinga um kynni sín af einstæðri náttúru Íslands varpa ljósi á þá þröngsýni, sem við Íslendingar höfum verið haldnir gagnvart henni um aldir.

Í okkar augum hafa hraun verið ljót, eldfjöllin hræðileg, víðátturnar með söndum, auðnum, vinjum og hrollköldum jöklum fráhrindandi, en þykkir skógar, "bleikir akrar og slegin tún" hámark fegurðarinnar.  

Enginn einn atburður hefur breytt eins mikið viðhorfi útlendinga til Íslands og gosið í Eyjafjallajökli 2010. Síðan kom Grímsvatnagosið árið eftir og hnykkti á því.

Vorið 2010 voru viðbrögðin hér heima við gosinu í Eyjafjallajökli samkvæmt rúmlega 1100 ára gamalli hefð, almennir kveinstafir og sjálfsvorkunn.

Ferðaþjónustan, hluti af því sem hafði verið í háðungarskyni kallað "eitthvað annað", "fjallagrasatínsla", "leið inn í torfkofana" o. s. frv., væri á leið í hundana á meðan stóriðja og virkjanir væru það eina sem gætu "bjargað þjóðinni."  

Að vísu bitnaði gosið mjög óþyrmilega á næstu nágrönnum þess og var full ástæða til þess að sýna þeim samúð. Það erfiða ástand stóð þó tiltölulega stutt yfir og innan árs hafði það allt unnist upp og vel það með alveg nýjum möguleikum í upplifunarferðamennsku. 

En mér sýndist frá upphafi vera ástæða til að hafa uppi kröftugt andóf gegn barlómnum hér á síðunni og fullyrða að aldrei fyrr í sögu landsins hefði landið og náttúra þess fengið jafn gríðarlega kynningu, sem myndi reynast lyftistöng fyrir okkur.

Samstarf mitt við erlent fjölmiðlafólk, ljósmyndara, kvikmyndargerðarmenn vegna þessara eldgosa sannfærði mig um það, hvaða möguleikar voru að opnast.  

En í þessu efni var talað fyrir jafn daufum eyrum hér á síðunni og í heilan áratug á undan frá því að allt var lagt í sölurnar fyrir stefnuna "áfram árangur - ekkert stopp", en þar var átt við áfram árangur við að framfylgja stóriðjustefnunni til hins ítrasta.

Nú, fjórum árum síðar, hefur ferðaþjónustan næstum því tvöfaldast, þetta sem átti að vera svo vonlaust af því að það væri "eitthvað annað."

Raunar eru um 99% starfa í þjóðfélaginu við eitthvað annað en störf í álverunum, en það er eins og engin leið sé að koma þeirri staðreynd á framfæri né heldur þvi að vegna nálægðar okkar við íslenska náttúru sjáum við alls ekki einstætt gildi hennar á heimsvísu, af því að okkur finnst hún svo hversdagsleg.  


mbl.is Einstök náttúra Snæfellsness
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frétt á Íslandi: Engin bjórdós á svæðinu.

Það þykir stórfrétt á Íslandi, að á útisamkomu hafi ekki fundist ein einasta bjórdós á mótssvæðinu eftir að mótinu lauk. 

Hvað hefur eiginlega komið fyrir landann? Sem hendir frá sér sígarettustubbum, karamellubréfum og hverju því smárusli sem vera skal, ef það hentar honum þá stundina? 

Erlendis, meira að segja í Ameríku, þar sem sakamálakvikmyndir gefa þá mynd, að þar sé enn meiri ómenning og sóðaskapur en hér tíðkast, er það reynsla mín af því að koma á stórar hátíðir, þar sem milljónir manna hafa verið á ferð, að ekki sést svo mikið sem karamellulbréf, sígarettustubbur eða bjórdós eftir jafnvel vikulanga hátíð. 

Í Bandaríkjunum, sem margir Íslendingar dýrka sem land hins óhefta og eftirsóknarverða frelsis, mætti ætla að alger lausung og frelsisdýrð ríkti í þessum efnum, en það er nú eitthvað annað.  

Ég spurði einu sinni mótshaldara milljón gesta móts í Bandaríkjunum, hverju þetta sætti, og hann glápti á mig undunaraugum.  

"Hvaðan kemur þú?" spurði hann. 

"Frá Íslandi," svaraði ég.

"Og hvers vegna spyrð þú svona spurningar?"

Nú fann ég að ég var kominn út í horn en reyndi að afsaka mig með því að á Ísland hefði verið numið í öndverðu af mönnum, sem undu ekki ófrelsinu í Noregi og því teldu margir það hluti af sjálsögðu frelsi í mínu landi að henda rusli þar sem þeir væru staddir, ef það hentaði þeim.

"En einhver verður þá að taka ruslið upp, samt sem áður" svaraði Bandaríkjamaðurinn.

"Já, en það er ekki okkar vandamál, heldur mótshaldaranna og opinberra aðlila," útskýrði ég.

"En þegar þú ályktar svona," svaraði Kaninn, "gleymirðu því að þeir sem á endanum hreinsa ruslið upp, eru líka fólk og þeir eiga rétt á því að njóta frelsis án þess að vera skikkaðir til þess að hreinsa upp eftir aðra. Og það er klár sósíalismi að velta afleiðingunum af tillitslausum gerðum einstaklinga yfir á aðra og taka það með sköttum af þeim, sem ekki báru ábyrgð á þessum siðlausu gerðum.  

Er ekki kennt í skólunum ykkar að frelsi eins endar þar sem frelsi annars byrjar?"

"Það hef ég aldrei heyrt fyrr" svaraði ég. "Þú ætlar þó ekki að segja mér að slíkt sé kennt hér í skólunum hjá ykkur"?

"Jú," svaraði hann. "Að minnsta kosti hér í Wiscounsin-ríki. Þann dag sem fólk myndi byrja að henda rusli frá sér hér, myndi þessi vinsæla milljón manna hátíð verða lögð niður."  


mbl.is „Ekki ein bjórdós á svæðinu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misskilningur hjá jöklinum?

Þrátt fyrir flóð upplýsinga frá kuldatrúarmönnum um að loftslag hafi ekki hlýnað neitt í 14 ár, sé ekki að hlýna og allra síst af mannavöldum styttast jöklar landsins jafnt og þétt, enda kunna þeir ekki að lesa skrifin um kuldann.

Nú er kvartað yfir því að engar aðvörunarmerkingar séu við sporð Sólheimajökuls, sem hefur hörfað og lækkað stórlega, og þess vegna eru jökulstykki farin að falla í lónið.

En ef loftslag er frekar að kólna en hlýna eins og fullyrt er í ítarlegum skrifum um það, er engin ástæða til þess vera að gera ráð fyrir neinum breytingum á jöklinum, sem stafað gætu af hlýnun, heldur treysta því að jökullinn og jöklarnir hætti að haga sér svona heimskulega.

Verst er að ekki skuli vera hægt að kenna jöklunum að lesa svo að þeir taki mark á þeim, sem best vita um loftslagsmálin. 


mbl.is Óvissustig við Sólheimajökul
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Villuljós hernaðarsigurvissunnar.

Á aldarafmæli yfirlýsingar um stríð milli Bretlands og Þýskalands er hollt að skoða nokkur dæmi um það, þegar menn sáu dýrlega hernaðarsigra í hillingum og ljóma.

Þannig gengur þátttökuþjóðirnar í Heimsstyrjöldinni fyrri út í það stríð, hver um sig viss um dýrlegan sigur á nokkrum mánuðum. Í staðinn fóru í hönd fjögur ár þar sem ungir menn í blóma lífsins voru murkaðir niður milljónum samans í einhverju tilgangslausasta stríði allra tíma.  

Sumarið 1940 eyddi Adolf Hitler tveimur vikum í að njóta "dýrlegasta hernaðarsigurs allra tíma" yfir erkifjendunum Frökkum. Áhrifamiklir Bandaríkjamenn töldu óhjákvæmlegt fyrir Breta að leita eftir friðarsamningum við Öxulveldin í ljósi vonlausrar stöðu Breta.

En Churchill stappaði í þá stálinu og þrjóskaðist við.

Þegar Hitler réðst inn í Sovétríkin 22. júní 1941 var svipað uppi á teningnum og í upphafi stríðsins 1914. Herförinni yrði lokið fyrir jól og á næstu mánuðum óðu Þjóðverjar yfir Rauða herinn, framkvæmdu mestu umkringingu hernaðarsögunnar í Úkraínu og Hitler lýsti því yfir að búið væri að eyða óvininum í mestu innrás allra tíma, þar sem stefnt væri að því að ná bæði Leningrad og Moskvu fyrir veturinn.  

11. desember 1941 sagði Hitler Bandaríkjunum stríð á hendur, enda var þýski herinn þá við borgarhlið Moskvu, stór hluti opinberra stofnana flúinn úr borginni og helstu iðnaðarhéruð og landbúnaðarhéruð landsins í þýskum höndum. Bandaríkjamenn strax komnir á undanhald undan Japönum og ekki fyrirsjáanlegt að þeir gætu beitt sér að neinu ráði gegn Þjóðverjum fyrr en í fyrsta lagi eftir tvö ár.

En þá yrði staða þeirra vonlaus.

Aðeins nokkrum dögum síðar hafði staðan gerbreyst þegar Rauði herinn hóf gagnsókn og hrakti þann þýska til baka frá Moskvu, svo að borginni var aldrei ógnað aftur.

Í nóvemberbyrjun 1942 lýsti Hitler því sigurreifur yfir að orrustunni um Stalingrad væri lokið því að borgin væri öll á valdi Þjóðverja að undanteknum örfáum smáblettum.

Daginn eftir réðust Bandamenn inn í Norður-Afríku og hröktu Þjóðverja og Ítali út úr álfunni fyrir vorið og tveimur mánuðum síðar gafst 6. her von Paulusar upp í Stalingrad.

Í Víetnamstríðinu beitti annað risaveldanna yfirburðum í striðstóluma og getu til loftárása gegn skæruliðum. Ekki hvarflaði annað að bandarískum ráðamönnum en að meira sprengjuregn en í Seinni heimssyrjöldinni myndi buga andstæðingana.

En niðurstaða stríðsins varð fyrsti hernaðarósigur Bandaríkjamanna.  

Sovétmenn voru sigurvissir þegar þeir sendu her inn í Afganistan 1979 með yfirburði vopna. En niðurstaðan varð alger ósigur og niðurlæging Rauða hersins. 

Argentínskir ráðamenn töldu að vegna gríðarlegrar fjarlægðar Falklandseyja frá Bretlandi og nálægðar eyjanna við Argentínu myndi verða auðvelt að halda yfirráðum yfir eyjunum eftir að þær höfðu verið unnar af Bretum. 

Annað kom í ljós og ári síðar höfðu argentínsku valdhafarnir hrökklast frá völdum.   

Ótal dæmi í hernaðarsögunni sýna að það, sem átti að verða auðveldur sigur með tiltölulega litlu mannfalli varð að stórfelldum harmleik og hörmungum milljóna og tugmilljóna fólks, sem fórnað var á altari ofríkis og valdabrölts.  


mbl.is Missti fimm bræður í stríðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Júlísveinn" Sumargleðinnar fær uppreisn æru. "

Ein af óteljandi hugmyndum, sem kviknuðu í Sumargleðinni sálugu var að jólasveinn í fullum skrúða kæmi fram á skemmtuninni, færi út í sal og gæfi krökkunum nammi. 

Var ákveðið að sveinki væri kallaður "júlísveinn" en að hann hefði sérstakt nafn á hverjum stað.

Þetta var fyrsta sumarið sem Magnús Ólafsson var með Sumargleðinni og var hann skikkaður í hlutverkið.

Ragnar Bjarnason hafði séð Magnús fara á kostum í titilhlutverkinu í leikritinu Þorláki þreytta og því varð að ráði að ráða hann í Sumargleðina. 

En hvað átti Magnús að gera? "Komdu bara fram sem Þorlákur þreytti" sagði Ragnar.

"En hvað á ég að segja og gera?" spurði Magnús. 

"Vertu bara þreyttur" svaraði Ragnar.

Þetta mistókst alveg fyrstu helgina og þá datt mér í hug að Magnús léki jólasvein.

"Og hvað á ég að segja og gera?" spurði Magnús.

"Farðu út í salinn og segðu bara eitthvað og gefði krökkunum eitthvert nammi" var svarið.

Magnús gerði þetta á næstu skemmtun á Sauðárkróki og kvaðst aðspurður vera tvíburi Ketkróks og heita Sauðárkrókur.

Þetta féll í góðan jarðveg, en á næstu skemmtunum mislukkaðist atriðið herfilega.

Fólk keypti það greinilega ekki að jólasveinn væri á ferli í júlí, jafnvel þótt hann kvæðist vera júlísveinn.

Nú er svo að heyra að jólasveinar hafi slegið í gegn á Mýraboltanum.

34 árum eftir að júlísveinn Sumargleðinnar bergði bikar algerrar niðurlægingar hefur hann nú fengið uppreisn æru og var tími til kominn.

Loksins kemur í ljós að þetta var góð hugmynd.  

 

 


mbl.is Jólasveinar kepptu í mýrarbolta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undraefnin koltrefjar og plast.

Það gefur auga leið, að fyrst æ stærri hluti nýjustu og stærstu farþegaþotna eru úr koltrefjaefnum og þau efni ryðji sér líka til rúms í bílum, séu möguleikar á að nota þau á fleiri sviðum. 

Efnin rygða ekki né tærast og ekki er sama hætta á að þau láti á sjá vegna titrings eða hreyfingar eins og getur átt sér stað um málma á borð við ál. 

Þarnar er greinilega framleiðsla, sem þarf að gefa auknar gætur og skoða niður í kjölinn eðli hennar, kosti og galla.  


mbl.is Smíða burðarþolsmiklar en léttar brýr úr plasti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Öllum skal tryggður réttur til að lifa með reisn".

"Öllum skal tryggður til að lifa með reisn. Margbreytileiki mannlífsins skal virtur í hvívetna." 

Þannig hljóðar 8. grein frumvarps stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár Íslands.

Þetta eru fá orð og skýr í greininni um mannlega reisn, sem kemur á eftir fyrstu tveimur greinum kaflans um mannréttindi og náttúru, en þær kveða á um jafnræði og rétt til lífs.

Merkilegt má telja hve seint gengur að innleiða jafn sjálfsögð atriði nútíma mannréttinda og felast í þessum kafla. 

Þrátt fyrir eindreginn stuðning kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá í október 2011 eru lappirnar dregnar í þessu margfalda hagsmunamáli fyrir þjóðfélag sem vill kenna sig við frelsi, lýðræði og mannréttindi.  

Tregðan leiðir til þess að einstaklingar og hópar komast upp með að niðurlægja þá, sem þeim er af einhverjum ástæðum í nöp við, bara fyrir það eitt að vera á einhvern hátt ekki alveg eins og aðrir, hluti af "margbreytileika mannlífsins"

Dæmin sem nefnd eru í tengdri frétt varðandi niðurlægjandi steggjun eða gæsun í Gleðigöngunni myndu vera skýlaust brot á stjórnarskrárvörnum réttindum ef nýja stjórnarskráin hefði tekið gildi. 

Þannig er um ótal fleiri réttinda- og réttlætismál í frumvarpinu, mál, sem einhvern veginn gengur svo illa að veita brautargengi.  

 


mbl.is Ekki steggja í gleðigöngunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband