Færsluflokkur: Bloggar
5.5.2014 | 13:05
Minnisblöð ekki alltaf minnisblöð, lekamálið ekki lekamál ?
Nú er svo að sjá af útskýringum innanríkisráðuneytisns að allt hið svokallaða lekamál hafi byggst á þeim misskilningi fjölmiðla, lögreglu og dómstóla, sem fjallað hafa um hann, að það, sem lekið var úr ráðuneytinu og fjölmiðlar, lögreglan og hæstiréttur litu á sem minnisblað, hafi alls ekki verið minnisblað, heldur svo sem ekki neitt, bara "upplýsingar um stöðu mála", sem séu allt annað og minna mál, nánast ekkert mál.
Fer maður nú að efast um að það sem lekið var hafi yfirleitt flokkast undir opinber gögn og að þar með hafi engu verið lekið og alls ekki hægt að kalla lekamálið því nafni.
Ef þetta getur orðið til þess að lekamálið hafi þar með gufað upp og orðið að engu, heitir það líklega á nútíma máli að málið sé dautt og að það sé misskilingur að það hafi nokkurn tíma verið neitt mál.
Einnig kemur fram í útskýringum ráðuneytisins að "upplýsingarnar um stöðu málsins" hafi "ekki verið meiðandi" fyrir þann sem málið varðaði.
Af því má ráða að í lagi sé að persónulegar upplýsingar innan úr ráðuneytinu fari á flakk út úr ráðuneytinu ef ráðuneytið meti það svo að þær séu "ekki meiðandi."
Raunar snerist umræðan um "lekann" því að viðkomandi einstaklingur hafi verið grunaður um mansal, en það telst víst ekki meiðandi.
Nú þarf að bæta við orðasafn Jónasar Kristjánssonar um nýjan skiling á íslenskum orðum, svo sem að þegar menn segja ósatt, segi þeir ekki ósatt heldur "hugsi upphátt", þegar þingmenn séu staðnir að ósannindum séu þeir ekki ósannindamenn heldur "óhefðbundnir þingmenn", "virkjun í friðlandi" þýði ekki virkjun í friðlandi heldur "stækkun friðlands", að rísaháspennulína sé ekki svona hrikaega stór af því að hún sé gerð fyrir stóriðju heldur til að "auka afhendingaröryggi til almennings" og loforð um þjóðaratkvæðagrelðslu sé "ekki loforð um þjóðaratkvæðagreiðslu".
Nú bætist við að minnisblað sé ekki minnisblað ef það inniheldur "upplýsingar um stöðu máls" og að leki út úr ráðuneyti á "upplýsingum um stöðu máls" hafi því ekki stöðu lekamáls.
Enda ekki hægt að tala um "meiðandi" leka heldur í besta falli smáleka, eða kannski bara leka í dropatali, sem er auðvitað enginn andskotans leki.
Gaman að þessu?
![]() |
Hefði ekki átt að geyma á opnu drifi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
5.5.2014 | 01:37
Clinton hefði frekar átt að reyna fyrst við Laxdælu.
Það er ekki hægt að ætlast til þess að útlendingum sé strax att á sjálfa Njálu sem lesefni í Íslendingasögunum, jafnvel þótt þeir séu metnaðargjarnir og klárir afkastamenn.
Það er rétt hjá Bill Clinton að Njála er löng og flókin saga, þótt hún sé frægust og hugsanlega best Íslendingasagna.
Laxdæla saga hefur alltaf verið eftirlæti mitt vegna þess að viðfangsefni hennar og þá einkum höfuðpersónan, Guðrún Ósvífursdóttir og ástamál hennar og örlög eru algerlega klassísk og tímalaus.
Ég legg til að Clinton verði bent á að reyna sig við hana.
![]() |
Clinton réði ekki við Njálu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
4.5.2014 | 20:00
Háspennulínurnar verstar, segja útlendir ferðamenn..
Neikvæð umhverfisleg árhrif Háspennulína eru misjafnlega mikil. Þar sem þær eru lagðar um manngert umhverfi í byggðum eru þau hvergi nærri eins mikil og ef þær eru lagðar um viðkvæmt víðerni, svo sem nýrunnin apalhraun með tignarleg fjöll og víðerni í baksýn.
Sums staðar í byggð eru áhrifin að miklu leyti afturkræf. Það er hægt að fjarlægja möstrin og jafnvel línuvegina líka.
Verst eru neikvæð árhrif þegar þau eru óafturkræf eins og þegar lína er lögð um úfið nýrunnið hraun.
Í því tilfelli gera línur í jörðu jafnvel valdið meiri óafturkræfum áhrifum en en ef hún er lögð ofanjarðar, því að rista þarf hraunið alveg upp til að koma línunni niður.
Í ítarlegri og viðamikilli viðhorfskönnun erlends ferðafólks sumarið 2011 á Fjallabakssvæðinu norður af Suðurjöklum, sem Anna Dóra Sæþórsdóttir kynnti á góðum fundi, sem Landvernd og Eldvötn héldu í Tunguseli í Skaftártungu síðastliðið miðvikudagskvöld, kom í ljós, að útlendum ferðamönnum fannst umhverfisáhrif af háspennulínum vera verst, jafnvel þótt þau teldust það ekki í mati á umhverfisáhrifum.
Ástæðan var sú, að sumt af því sem gert er í mannvirkjagerð er kannski ekki svo mjög áberandi fyrir ókunnga, svo sem miðlunarlón, sem geta litið út eins og náttúrugerð vötn.
Hins vegar töldu útlendingarnir háspennulínurnar svo slæmar, af því að enginn vafi léki á að þær væru 100% af mannavöldum og aðskotahlutir í landslaginu.
Fyrir fólk, sem komið væri um langan veg frá fjarlægum löndum til að upplifa ósnortin víðerni væru háspennulínurnar alger eyðilegging, jafnvel þótt reynt væri á ferðalöum að forðast að sjá þær eða láta sem þær væru ekki til.
Fólk væri ekki komið til Íslands til að skoða mannvirki, virkjanir og stórfelld spjöll á landi, því að af slíku væri nóg í heimalöndum þeirra og þau komin hingað til að kynnast einhverju öðru og ólíku.
![]() |
Blöndulína 3 í bið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
4.5.2014 | 14:08
Svör sem kalla á fleiri spurningar.
Ýmislegt hefur komið fram vegna rúmlega vikugamals umræðuefnis hér á bloggsíðunni um það að Tollurinn opni sendibréf að vild sinni.
Ég kallaði í bloggpistlinni eftir svörum við ýmsum atriðum og er það vel, að þeim hefur sumum verið svarað. Komið hefur fram að um 6000 sendingar séu gegnulýstar eða þuklaðar í hverjum mánuði og að á síðustu fjórum mánuðum hafi fundist fíkniefni í 30 bréfum.
Einnig sagði fulltrúi Tollstjóra í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins að "ótvíræð heimild" sé til að opna hvaða bréf sem er og að smyglarar sendi oft bréf á "þekkt nöfn" manna, sem síðan opnuðu bréfin.
En svörin, sem gefin eru, kalla á fleiri spurningar heldur en svarað er.
1. Fundust fíkniefnin einungis í bréfum, sem voru opnuð? Fundust engin fíkniefni við gegnumlýsingu eða notkun fíkniefnahunds?
2. Í tollalögum er aðeins talað um póstböggla og vörusendingar, - ekki bréf. Í útvarpsviðtali við fulltrúa frá persónuvend í síðustu viku kom fram að heimild til að opna bréf til fanga sé túlkuð þröngt af því opnun einkabréfs sé brot á stjórnarskrárákvæði um friðhelgi einkalífs. Vitnaði fulltúinn í dóm, sem hefði fallið í slíku máli með þröngri túlkun, yfirvöldum í óhag. Þetta rímar ekki við fullyrðinguna um "ótvíræða heimild".
3. Þótt einkabréf til mín, sem opnað var án aðvörunar og ekki að mér viðstöddum, á þeim forsendum að það sé ekki framkvæmanlegt, hefði sýnt mér í fyrsta sinn, að slíkt tíðkaðist, var aðalatriði bloggskrifa minna ekki þetta eina bréf heldur stórfelldar opnanir bréfa hjá sumu fólki.
Aðalatriði boggskrifanna var að bréf sumra eru opnuð reglulega og stundum árum og áratugum saman og virðist engu skipta þótt aldrei finnist neitt misjafnt í bréfunum, samt er haldið áfram að opna bréfin. Í þeim tilfellum, sem nefnd voru á bloggsíðu minni, höfðu viðtakendur aldrei komist í kast við lögin. Áttræð kona, sem hefur staðið í samfelldum bréfaskiptum við pennavinkonu sína erlendis í 60 sætir þessari meðferð. Er hún komin í hóp fanga í fangelsum sem eins konar ævifangi?
4. Haft var eftir fullrúa Tollstjóra í útvarpsfréttinni áðan að bréf, sem innihéldu fíkniefni væru send á "þekkt nöfn" og að það fólk tæki síðan bréfin upp. Þið fyrirgefið en þetta skil ég ekki. Skiljið þið það, sem lesið þetta? Eru þetta nöfn sem eru sérstaklega "þekkt" hjá Tollinum eða er þetta almennt það fólk í þjóðfélaginu sem er með "þekkt nöfn". Það er málvenja að slíkt fólk er þekkt meðal almennings og kallað "þekkt nöfn".
Eru "þekkt nöfn" nú orðin ígildi fanga í fangelsum landsins? Tekur fólkið með þessum "þekktu nöfnum" virkilega á móti fíkniefnunum og leynir því? Hvers vegna? Af því að það að gera uppskátt um fíkniefnasendinguna felli kusk á hvítflibbann? Og er þetta fólk með "þekktum nöfnum" sem tekur bréfin upp í samsæri með fíkniefnainnflytjendum? Lætur fíkniefnakrimmana vita að sending hafi borist?
Þið, sem lesið þetta, getið þið aðstoðað mig við að skilja við hvað er átt?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
4.5.2014 | 03:10
Clarkson er eldsnöggur, kannski stundum um of.
Nú hefur hann Jeremy Clarkson víst fengið lokaaðvörun hjá BBC vegna vanhugsaðra ummæla.
Það vill svo til að ég ræddi stuttlega við Clarkson fyrir rúmum 20 árum við Litlu kaffistofuna og kynntist því þar, hve snjall og eldfljótur hann er í tilsvörum. Það er ómetanlegur kostur fyrir mann eins og hann að vera leiftursnöggur upp á lagið og orðheppinn, en hraðinn getur líka valdið því að úr verði vanhugsuð orð.
Clarkson var að taka myndir fyrir Top Gear þegar ég lenti fisinu Skaftinu rétt við kaffistofuna og dró þetta 120 kílóa flygildi auðveldlega inn á planið að bensíndælu til að fylla á það.
Clarkson fannst þetta skondið, fór að spjalla við mig og vildi vita á mér deili, hvað ég hefði sýslað um dagana. Síðan var tekið upp örstutt atriði sem rataði í þátt um Ísland, sem vakti athygli víða á landi og þjóð og hefur síðan skolað inn á Youtube.
En ekkert af undirbúningsspjallinu að þessu atriði var tekið upp á myndband, en mér var það eftirminnilegt hvað hann var hnyttinn og snöggur upp á lagið í tilsvörum.
Hann undirbjó sig vel og vildi vita sem öll deili á mér og hvað ég gerði. Ég sagði að erfitt væri að velja.
"Segðu mér það allt og svo veljum við úr því og tökum smá atriði upp," svaraði hann.
Ég sagði honum að ég hefði gert allan andskotann um dagana, verið námsmaður, unnið í sveit og í verkamannavinnu og garðyrkjuvinnu sem unglingur, leikið í leikhúsunum, verið skemmtikraftur, orðið atvinnuflugmaður og flugkennari, samið tónlist, texta og skrifað bækur, keppt í ralli, orðið fréttamaður og dagskrárgerðarmaður og sitthvað fleira.
"Sem fréttamaður gætirðu kannski sagt mér frá því hvernig þjóðinni vegnar um þessar mundir?" spurði Clarkson.
"Henni vegnar ágætlega,", svaraði ég, "en að vísu er örlítil kreppa svo að þrátt fyrir atvinnuleysi sé yfirleitt lítið hér, hefur það vaxið aðeins."
"Það er engin furða," sagði Clarkson, "þú tekur svo mörg störf frá öðrum að það kemst enginn að fyrir þér."
Ég hlýt að taka svari Clarksons og biðja honum vægðar, þótt eitthvað hafi dottið óhugsað úr munni hans vegna þess hve snöggur hann er upp á lagið. Sæti síst á mér að kasta úr glerhúsi í því efni.
![]() |
Clarkson fær lokaviðvörun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.5.2014 | 21:29
Skemmtilegt og jákvætt, en segir ekki mikið.
Það er ekki nýtt að miklir afreksmenn taki upp á því að berjast við nokkra mótherja sama kvöldið eins og Gunnar Nelson gerði á sviði Eldborgar.
Tilgangurinn getur verið misjafn, allt frá því að gera þetta æfingaskyni eða góðgerðarskyni upp í það að lappa upp á lemstrað sjálfstraust.
Og það er heldur ekki nýtt að allir mótherjarnir hafi orðið að lúta í gras eða öllu heldur í striga.
George Foreman er talinn einn af mögnuðustu þungavigtarhnefaleikurum allra tíma og eftir að hann valtaði kornungur yfir Joe Frazier 1973 og í framhaldinu yfir Ken Norton, sem hafði unni Ali og tapað naumlega í framhaldsbardaga, voru menn svo vissir um að hann myndi afgreiða Ali léttilega að meira að segja aöstoðarmenn Alis í horninu voru búnir að búa sig undir það að flytja yrði Ali í burtu í sjúkrabíl frá bardaganum í Kinshasa í Zaír í október 1974.
En Foreman tapaði óvænt og þurfti á einhverju róttæku að halda til að lappa upp á gereytt sjálfstraust.
Hann og þjálfari hans ákváðu að gera eitthvað óvenjulegt og brugðu á það ráð að fá fimm meðalgóða atvinnuhnefaleikara til að berjast við Foreman sama kvöldið.
Foreman vann þá að vísu alla í tveimur til þremur lotum, en tiltækið þótti ekki sanna neitt um ágæti hans, heldur þvert á móti sýna ýmsa veikleika hjá honum.
Ali lét einu sinni hafa sig út í það að berjast sýningarbardaga við japanskan bardagaíþróttamann og hafði ekkert upp úr því nema að vera borgað sæmilega fyrir og fengið umdeilan úrskurð um jafntefli, en sitja uppi með laskað álit og meiðsli, sem hann hefði annars ekki fengið.
Þess vegna segir það litla sögu af raunverulegum styrkleika Gunnars Nelsons þótt hann hafi haft betur gegn ellefu Íslendingum, sem ekki kunna til verka í íþrótt Gunnars.
En Gunnar er svo snjall og yfirvegaður afreksmaður að hann mun ekki láta þetta gefa sér neinar tálvonir um gott gengi í komandi bardaga, heldur ganga til þess leiks af sömu ísköldu ró og jafnaðargeði í bland við hámarks einbeitingu, sem hefur skilað honum svo langt hingað til.
![]() |
Gunnar vann alla bardagana |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.5.2014 | 14:44
53 ár frá Öskjugosinu. Órói frá 2007.
Á áttunda áratug nítjándu aldarinnar var mikil eldvirkni í gangi í Öskju og svæðinu þar norður af.
Öskjugosið 1875 var eitt af stórgosum síðustu alda.
Síðan var rólegt á svæðinu þar til skyndilega gaus í Öskju árið 1961. Það var ekki stórt gos en þó rann nokkuð hraun úr gígum í svonefndu Öskjuopi, austast í öskjunni (caldera) í Öskju.
Vegna skorts á gögnum frá jarðskjálftamælum er erfitt að bera saman aðdraganda gosanna 1875 og 1961 við þá skjálfta sem hafa verið á svæðinu síðan 2007.
Þeir voru upphaflega við fjallið Upptyppinga fyrir austan Öskju, færðu sig síðan norður í Álftadalsbungu, en fóru síðan um set vestur yfir Krepputungu og settust að í Herðabreiðartöglum fyrir sunnan Herðubreið og kom jafnvel líka í talsverðum mæli í Herðubreið og í kringum hana.
Enginn veit hvort hið rólega tímabil eftir 1961 er á enda og hvort það stefnir í eldsumbrot á þessu svæði eftir rúmlega hálfrar aldar hlé. Ég hef sett tvær ljósmyndir frá þessu svæði inn á facebook síðu mína.
Það er, eins og víðar á hinum eldvirkja hluta Íslands, einkum hinum virkasta hluta hans og þeim hlutum hans þar sem reglulega gýs með svipuðu millibili, ekki spurning um hvort heldur hvenær gýs.
Lagning Sauðárflugvallar og viðhald hans er hugsað sem öryggisatriði ef af eldsumbrotum verður.
Hann getur gagnast flugvélum allt upp í Herkúles og Boeing C-17 Globemaster og er hæfilega langt en jafnframt hæfilega stutt frá því svæði, þar sem mestar líkur eru á næsta gosi.
Frá honum eru um 30 kílómetrar í loftlínu til núverandi skjálftasvæðis, en Álftadalsdyngja er í 15 kílómetra fjarlægð. Á loftmynd af vellinu á facebook-síðunni sjást Kverkfjöll efst til hægri í 35 kílómetra fjarlægð frá vellinum, en enginn skyldi afskrifa umbrot þar.
![]() |
Skjálftar við Herðubreiðartögl |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
3.5.2014 | 09:38
Samt er að kólna ?
Það er laugardagsmorgun og kannski ekki allir komnir á stjá. Til að bæta úr því að enn hafa ekki sést andmæli gegn "áróðri" um hlýnun loftslags á jörðinni á þessari öld er kannski ástæða til að bæta úr því og halda uppi góðri andspyrnu kuldatrúarmanna vegna hitamælinga, sem greint er frá á mbl.is.
Þótt mælingar sýni að fyrstu fjórir mánuðir ársins hafi aðeins þrisvar sinnum verið hlýrri frá upphafi samfelldra mælinga í Reykjavík 1871 geta kuldatrúarmenn bent á óvenju mikil snjóalög á austanverðu landinu um þessar mundir, en á norðausturhálendinu hafa þau ekki verið meiri síðustu 20 ár og er það fagnaðarefni.
2011 héldu sumir þeirra því fram að það ár hefði verið kalt, ef þess hefði verið gætt að sleppa janúar úr útreikningnum.
Í samræmi við það má kannski búast við því að nú verði farið fram á að sleppa fyrstu fjórum mánuðum þessa árs og jafnvel fleiri áfram, ef þurfa þykir svo að koma megi árinu 2014 í hóp kaldra ára.
P. S. Fyrstu árin upp úr aldamótum, þegar methlýindi voru í Noregi, voru samt mestu snjóalög í manna minnum á Harðangursheiði, sem liggur upp í 1000 metra hæð. Ástæðan var að miklu met úrkoma fylgdi hlýindunum og hún féll sem snjór. Þrátt fyrir hin miklu snjóalög minnkuðu jöklarnir samt, því að hlýindi og rigningar sumarsins gerðu meira en að vinna upp aukinn snjó yfir veturinn. Svipað er líklega að gerast á norðausturhálendinu síðustu vor, og í fyrra hvarf snjórinn alveg fyrr en venjulega af Sauðárflugvelli og hann varð fær tveimur vikum fyrr.
![]() |
Fyrstu mánuðirnir óvenju hlýir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (115)
2.5.2014 | 17:26
Fréttastofa RÚV gengur erinda Stalíns, Norður-Kóreu og Kúbu ?!
Í Staksteinum Morgunblaðsins í dag er sagt að fréttastofa RUV hafi í anda Jósefs Stalíns, Prövdu og "DDRRÚV" reynt "að bregðast ekki veikum vonum" ráðamanna í Norður-Kóreu og Kúbu með því að spila Nallann fyrir hádegisfréttir 1. maí.
Nafn Jósefs Stalíns er dregið inn í umræðuna af því að Karlakór verkamanna hafi sungið lagið 1933 á stjórnarárum hans og sú upptaka hafi verið spiluð í gær.
Nú vill svo til að ég hef unnið á þessari fréttastofu og veit að hún hefur hvorki fyrr né síðar haft nein afskipti af laginu, sem hefð er fyrir að leikið sé fyrir fréttir á rás eitt, heldur hefur það verið og er enn starfsmaður á dagskrárdeild ríkisútvarpsins sem velur þetta lag hverju sinni, og val þess, sem velur lagið, er alfarið á ábyrgð dagskrárstjóra hljóðvarpsins.
Ég minnist þess ekki að í allri sögu Ríkisútvarpsins hafi það verið gert að stórmáli hvaða lag hefur verið spilað á þessum stað í dagskránni, þannig að ádeilan á val lags og flytenda í gær á sér ekkert fordæmi.
Ég hygg líka að það eigi sér ekkert fordæmi á Vesturlöndum að fréttastofa ríkisfjölmiðils sé ásökuð í fullri alvöru um að reyna allt sem hún geti, til að þjóna skoðunum Stalíns og ráðamanna DDR, og "veikum vonum" ráðamanna Norður-Kóreu og Kúbu.
En höfundi Staksteina virðist ekki varða neitt um þetta, heldur býr hann til djúphugsað samsæri vegna þess að þetta lag, sem hefur öðrum lögum verið táknrænt fyrir 1. maí um allan heim, skuli hafa verið spilað á undan fréttunum.
Það sýni að þrátt fyrir mannaskipti á fréttastofunni séu nú ekki aðeins vondir kratar og kommar, sem þar ráði öllu, heldur séu hreinir Stalínistar og aðdáendur Kastrós og Kim Jong-un við stjórnvölinn !
Það á að sanna þetta að upptakan, sem spiluð var, skuli vera frá árinu 1933.
Nú hefur þetta lag raunar verið spilað áður 1. maí á undan fréttum með ýmsum flytjendum, sennilega til að viðhafa tilbreytingu. Til dæmis hefur Lúðrasveit verkalýðsins oft heyrst spila þetta og hefði maður haldið að það væri ekki óviðeigandi að lúðrasveitin, sem farið hefur áratugum saman á undan kröfugöngunni 1. maí, flytji lagið.
Í gær var það Karlakór verkamanna sem söng, en sem kunnugt er, eru verkamenn enn hluti launþeganna sem standa fyrir kröfugöngunni.
En nei, það er hið versta mál að mati Staksteinahöfunar og samsæri fólgið í því að verkamenn syngi lagið, heldur telur Staksteinahöfundur þetta sönnun þess að Stalínistar hafi nú tekið völdin á fréttastofu ríkisútvarpins, en þeir séu reyndar búnir að yfirfæra aðdáun fréttastofunnar á einum af þremur mestu fjöldamorðingjum seinni alda yfir á einræðisherra Norður-Kóreu og Kúbu !
Maður spyr sig hvort þessi Staksteinaskrif eigi að vera fjárstæðubrandari svo að allir geti hlegið. Og einhver kann að efast um að ég vitni rétt í skrifin.
En þá er rétt að benda fólki á að lesa þessi skrif og hafa í huga, að miðað við hátt á fjórða hundrað pistla og skrifa um fréttastofu hins illa, sem búið er að skrifa síðustu ár, er því miður líklegra að þetta eigi að vera í fúlustu alvöru þess sem lætur andann fljúga hærra í takmarkalitlu hugarflugi en flestum öðrum er mögulegt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
2.5.2014 | 09:53
Burt með varúðarregluna og Ríósáttmálann við Mývatn !
Íslendingar undirrituðu Ríósáttmálann fyrir 22 árum. Tvö meginatriði hans eru um sjálfbæra þróun og svonefnda varúðarreglu, að þegar um vafa sé að ræða vegna framkvæmda mannsins, njóti náttúran vafans.
Leitun er að þjóð í okkar heimshluta þar sem báðar reglurnar hafa verið þverbrotnar jafn ítrekað.
Í þinglok í fyrra voru að vísu samþykkt náttúruverndarlög sem innihalda varúðarregluna. Núverandi valdamenn hafa hins vegar lýst yfir eindregnum vilja til að nema hana í burtu, og þess vegna hefur hún ekki enn tekið gildi og mun væntanlega ekki gera það ef krafan um að hafa hana að engu nær fram að ganga. Sem fyrr verður allur vafi túlkaður virkjunum í hag.
Við Mývatn hófst hæg atburðarás eftir 1970, og fyrir sérkennilega "tilviljun" var það eftir að kísilgúrnám hófst í vatninu fyrir Kísiliðjuna, sem sögð var forsenda fyrir því að byggðin í Mývatnssveit færi ekki í eyði. Árni Einarsson líffræðingur, sem best þekkir Mývatn eftir áratuga rannsóknir, hefur fært líkur að því að námið hafi átt þátt í útrýmingu kúluskíts og hruni silungastofnsins.
Varúðarreglan hefði að minnsta kosti átt að fá menn til að staldra við. Í staðinn hefur þess nú verið beðið í áratugi að sjá til hvort tilgáta Árna sé rétt. Verksmiðjan hefur verið látin njóta vafans.
Fyrir meira en áratug hætti Kísiliðjan störfum, ekki vegna baráttu "öfga-umhverfis-og náttúruverndar- hryðjuverkafólks" gegn henni, heldur vegna þess að enginn markaður fékkst fyrir afurðina.
Það vantaði sem sé þingeyskan Kristján Loftsson til að halda verksmiðjunni gangandi áfram, burtséð frá markaði fyrir vöruna.
Aftur og aftur hafði það verið fyrsta frétt í fjölmiðlum að hugsanleg niðurlagning Kiisiliðjunnar myndi leggja Mývatnssveit í rúst.
Þegar í ljós kom, að svo var ekki, þótti það engin frétt.
Ef Mývatn er að deyja, er ljóst, að þá er greið gatan til að reisa 90 megavatta gufuorkuvirkjun örfáa kílómetra frá eystri bakka þess, og aðeins 2,8 kílómetra frá skólunum í Reykjahlíðarþorpi.
Notuð verður ein drýgsta röksemd virkjanafíklanna, sem sé "hvort eð er" röksemdin: "Mývatn er hvort eð er að drepast og mun hvort eð er fyllast á næstu öldum og eins gott að það gerist sem fyrst svo að hægt sé "að nýta orkulindina á skynsamlegan hátt" og "lifa af landinu".
Virkjunin verður sex sinnum nær byggð en Hellisheiðarvirkjun en á tveimur borgarafundum við Mývatn var fullyrt að engar áhyggjur þyrfti að hafa af loftmengun vegna brennisteinsvetnis né heldur af affallsvatni.
Þau vandamál væru öll þegar leyst þótt stór tjörn af affallsvatni suðaustur af Námaskarði stækki ár frá ári, 10 kílómetra frá Kröfluvirkjun. Stóraukin umferð fólks við Mývatn ætti að vera áhyggjuefni, en auðvitað má náttúran heldur ekki njóta vafans í þeim efnum.
Nákvæmlega sama var sagt fyrir áratug varðandi Hellisheiðarvirkjun og sagt er nú um Bjarnarflagsvirkjun.
Þegar manngerðir jarðskjálftar urðu skammt vestur af Hellisheiðarvirkjun, öllum að óvörum vegna tilrauna með niðurdælingu affallsvatns og stórfelldri loftmengun vegna brennisteinsvetnis varð ekki lengur afneitað var farið fram á 10 ára frest til að rannsaka, hvort hægt væri að leysa vandann.
Var það talið nægja sem lausn.
Heilbrigðiseftirlit gekk þá í lið með "öfga-umhverfis- og náttúruverndar hryðjuverkafólki" og vildi ekki veita svo langan frest. Þá var beðið um 5 ára frest, en fengist hefur 2ja ára frestur.
Um leið og hann fékkst var því síðan slegið upp í fjölmiðlum að búið væri að leysa vandann, sem rímar alveg við svörin sem veitt voru á íbúafundunum í Reykjahlíð.
Hellisheiðarvirkjun er mærð af Íslendingum, allt frá forseta vorum niður í okkur almenna borgara þessa lands, og við auglýsum kappsamlega um allan heim, að hagkvæm nýting jarðvarmans hér á landi sé dæmi um "hreina og endurnýjanlega orku".
Raunar er orkan þegar farin að dofna, enda ekki gert ráð fyrir meira en 50 ára endingu í forsendum virkjunarinnar. Og 85% af orkunni fer til spillis út í loftið.
Hreina orkan" birtist í 30 kílómetra fjarlægð í skemmdum rafeindatækjum og svörtum góðmálmum á höfuðborgarsvæðinu, auk þess sem loftgæði í Reykjavík standast ekki lágmarkskröfur Kaliforníu í meira en 40 daga á ári. Fólk talar um að flýja úr austasta skólanum á höfuðborgarsvæðinu.
Þrýst er á um virkjanir um allan Reykjanesskaga, nú síðast líka á þeim svæðum sem fóru í verndarflokk, meira að segja í Grændal, alveg ofan í Hvergerðingum.
Svo heppilega vill til fyrir virkjanamenn að hreppamörk liggja þannig að Hvergerðingar hafa ekkert um þá virkjun að segja og geta því ekki lagst á sveif með "öfga hryðjuverkamönnum."
Einhverjum kann að finnast að talað sé full skýrt í ofangreinum pistli. En þá er að minnast þess, að vegna þess að 10 daga hlé varð á skrifum mínum um Bjarnarflagsvirkjun í undanfara seinni íbúðafundarins um hana sóttu virkjanamenn allt í einu hart að mér hér á síðunni og sökuðu mig um að hafa með andvaraleysi valdið því hvernig komið væri.
Hafði ég þó fyrstur manna einu og hálfu ári fyrr, vakið athygli á fyrirhugaðri Bjarnarflagsvirkjun í blaðagrein.
![]() |
Einkenni Mývatns að hverfa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)