53 ár frá Öskjugosinu. Órói frá 2007.

Á áttunda áratug nítjándu aldarinnar var mikil eldvirkni í gangi í Öskju og svæðinu þar norður af.

Öskjugosið 1875 var eitt af stórgosum síðustu alda.

Síðan var rólegt á svæðinu þar til skyndilega gaus í Öskju árið 1961. Það var ekki stórt gos en þó rann nokkuð hraun úr gígum í svonefndu Öskjuopi, austast í öskjunni (caldera) í Öskju.

Vegna skorts á gögnum frá jarðskjálftamælum er erfitt að bera saman aðdraganda gosanna 1875 og 1961 við þá skjálfta sem hafa verið á svæðinu síðan 2007.

Þeir voru upphaflega við fjallið Upptyppinga fyrir austan Öskju, færðu sig síðan norður í Álftadalsbungu, en fóru síðan um set vestur yfir Krepputungu og settust að í Herðabreiðartöglum fyrir sunnan Herðubreið og kom jafnvel líka í talsverðum mæli í Herðubreið og í kringum hana.

Enginn veit hvort hið rólega tímabil eftir 1961 er á enda og hvort það stefnir í eldsumbrot á þessu svæði eftir rúmlega hálfrar aldar hlé. Ég hef sett tvær ljósmyndir frá þessu svæði inn á facebook síðu mína.

Það er, eins og víðar á hinum eldvirkja hluta Íslands, einkum hinum virkasta hluta hans og þeim hlutum hans þar sem reglulega gýs með svipuðu millibili, ekki spurning um hvort heldur hvenær gýs.

Lagning Sauðárflugvallar og viðhald hans er hugsað sem öryggisatriði ef af eldsumbrotum verður.

Hann getur gagnast flugvélum allt upp í Herkúles og Boeing C-17 Globemaster og er hæfilega langt en jafnframt hæfilega stutt frá því svæði, þar sem mestar líkur eru á næsta gosi.

Frá honum eru um 30 kílómetrar í loftlínu til núverandi skjálftasvæðis, en Álftadalsdyngja er í 15 kílómetra fjarlægð. Á loftmynd af vellinu á facebook-síðunni sjást Kverkfjöll efst til hægri í 35 kílómetra fjarlægð frá vellinum, en enginn skyldi afskrifa umbrot þar.


mbl.is Skjálftar við Herðubreiðartögl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Árið 2010 átti sér kvikuinnskot í Öskju á 20 km dýpi. Eftir það hefur eldstöðin verið að hita upp sýnist mér. Veit ekki hvernig staða mála er í dag en fyrir mér er líklega stutt í eldgos. Veit nú samt ekki hvenær slíkt gæti átt sér stað.

Jón Frímann Jónsson, 3.5.2014 kl. 17:12

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Spurning er hvort þessir skjálftar tengist nokkuð óróanum árin 2007-2008 við Upptyppinga og Álftanesdyngju. Þeir voru taldir tengjast kvikuhreyfingum djúpt í jörðu og voru hugmyndir uppi um að þeir gætu hugsanlega leitt til rólegs dyngjugoss á svæðinu en tengdust ekki beint virkni í Öskju.

En hvað varðar skjálftana í dag þá kemur fram í fréttum að skjálftarnir tengist hefðbundinni gliðnunarvirkni landsins en ekki endilega kvikustreymi og þurfi því ekki að leiða til neins. Hver veit þó nema þetta tengist einverju sem er á ferðinni undir megineldstöðinni Öskju. Huggulegt túristagos á þessum slóðum væri svo sem ekki slæmt.

Emil Hannes Valgeirsson, 3.5.2014 kl. 18:51

4 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Góða kvöldið, þetta er allt að springa upp vegna þrýstings undir landinu og stutt í hamfaragos eins og ég hef séð fyrir. Staðurinn sem ég sé gjósa er Bárðarbungu eldstöðin og síðan kvikuskot í suð-vestur hamfara gos í á annað ár, hraun mun renna suður í sjó fram á einum stað og annar flaumur lang leiðina til hafs. Mikil móða mun koma upp í þessu gosi og hörmungar í nokkur ár bæði hér og í Evropu svipað og í Móðuharðindunum.

Sigurður Haraldsson, 3.5.2014 kl. 19:52

5 Smámynd: Trausti Jónsson

Hér gleymist fjöldi gosa sem urðu í Öskju á áratugnum 1921 til 1930. Svo mörg að ég rugla þeim sífellt saman - aðrir lesendur geta sjálfsagt talið þau upp okkur hinum til upprifjunar. Gos þessi voru ekki stór og hafa ábyggilega ekki staðið lengi hvert um sig - og enginn sá þau nema úr löngum fjarska.

Trausti Jónsson, 4.5.2014 kl. 00:49

6 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Hérna er hægt að skoða eldgosasögu Öskju. Þessi texti er á ensku.

Jón Frímann Jónsson, 4.5.2014 kl. 01:58

7 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Síðan sem Jón Frímann vísar til telur mikinn fjölda gosa á fyrri hluta 20. aldar, eins og Trausti bendir einnig á.

Gosinu 1875 fylgdi mikið öskufall í byggð. Nú veit ég ekki hvernig öskufall í Kárahnjúkalón gæti truflað raforkuframleiðslu þar (sjálfsagt ekki gott að fá vikur í hverflana), en annars er helsta "hættan" af gosi á þessum slóðum að hraunstreymi stífli Jökulsá á Fjöllum tímabundið, sem gæti endað í hamfarahlaupi. Slíkt hlaup myndi þó varla valda miklu tjóni.

Brynjólfur Þorvarðsson, 4.5.2014 kl. 05:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband