Færsluflokkur: Bloggar

Rústa öllu bótalaust og sjá svo til.

Nú hefur það verið gefið út að á næsta ári verði allt kennslu- og einkaflug útlægt gert af Reykjavíkurflugvelli og að ágætt væri að það flyttist til útlanda.

Innan árs á að rífa bótalaust niður 8000 fermetra húsnæði í Fluggörðum og einnig eyðilagðar bótalaust akbrautir um svæðið og rafmagns-, síma- og klóakleiðslur, sem lagðar voru á kostnað eigenda skýlanna á sínum tíma.

85 flugvélum verður hent í burtu svo og kennslustarfi, sem snertir hundruð fólks án þess að þess sjáist nokkurn stað að neitt verði gert til að koma því fyrir annars staðar nema þá að farið sé til útlanda með það allt.

Í besta falli á kannski að sjá til hvort uppfyllt verði innistæðulaust loforð um að finna starfseminni annan stað, sem augljóslega á að svíkja.

Það er engin furða þótt bæði Reykjanesbær og Árborg lýsi yfir áhuga á að fá flugstarfsemi til sín því að báðir aðilar vita að  slík starfsemi sogar til sín aðra starfsemi og byggð, þvert ofan í það sem ráðamenn í Reykjavík virðast halda.

Eins og sést fyrir tilviljun á myndinni, sem mbl.is hefur látið taka fyrir sig af Selfossflugvelli í tilefni fréttarinnar, er ég þegar flúinn með TF-FRÚ þangað eftir háveturinn hér í Reykjavík, en flugvélin hefur reyndar verið fyrir austan fjall nær samfellt síðustu þrjú ár. ´

Þetta sést betur ef tvísmellt er á mynd mbl.is og þá sést líka hve stutt er í næstu byggð við völlinn.

Ætlaði að birta nýjar myndir mínar af vellinum, en einhver tæknihindrun kom upp sem hindrar það. Samt hefur mér tekist að setja hana á facebook-síðuna.  

Það getur að vísu kostað það að þurfa að fara daglega austur til að snúa henni rétt upp í vindinn, svo hún skemmist ekki en þannig er það bara, sennilega gott fordæmi fyrir þá kennara og nemendur sem eiga að aka fram og til baka til flugkennslu framtíðarinnar, ef hún verður ekki farin úr landi.

Flugklúbbur Selfoss á að baki stórvirki við að leggja þennan flugvöll, reisa þar þrjú skýli, og lítið hús, ígildi flugstöðvar og flugturn.

Ég sé hins vegar ekki hvar á að koma fyrir 85 flugvélum þarna, enda sést á myndinni að FRÚin er öðrum megin bundin niður í 33ja ára gamlan fornbíl til að halda henni fastri.

Það er styttra í næstu byggð frá þessum velli en í Reykjavík en samt er flugið velkomið eins og það er annars staðar á landinu, nema í Reykjavík, hvað snertir valdamenn borgarinnar.

Yfir 70% borgarbúa vilja að vísu að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í borginni samkvæmt skoðanakönnunum, en valdamenn hafa þann vilja að engu þótt þeir biðli nú til borgarbúa um að fá að vera þjónar almennings.   

  


mbl.is Kennsluflugið velkomið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kostnaðurinn við skýrsluna gerður að aðalatriði.

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með viðbrögðum stórs hluta íslensku þjóðarinnar við Hruninu og því sem reynt hefur verið að gera síðan til að gera upp við það og orsakir þess.

Í fyrstu virtist mikill og yfirgnæfandi stuðningur við uppgjör og úrbætur og reiðin var mikil.

En smám saman fór dæmið að snúast við. Smám saman hefur fyrsta skýrslan á vegum Alþingis, skýrsla rannsóknarnefndarinnar um aðdraganda Hrunsins horfið af sjónarsviðinum.

Þótt yfirgnæfandi meirihluti atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvarp stjórnlagaráðs vildi láta leggja það til grundvallar hefur "elítan" eins og einn af andstæðingum þess í háskólasamfélaginu kallaði sjálfan sig og skoðanasystkin sín ásamt fyrrverandi stjórnarandstöðu og slöppum stjórnarþingmönnum þess tíma tekist að kalla yfir okkur ástand, sem er alveg hliðstætt því sem ríkti á tímum ótal fyrri stjórnarskrárnefnda í 70 ár, sem ekki tókst að efna loforðið sem gefið var við lýðveldisstofnun um nýja stjórnarskrá.

Síðan kom rannsóknarskýrslan um Íbúðarlánasjóð, og þá tókst að blása það upp sem aðalatriði hvað skýrslan og rannsóknin hefðu kostað og að jafnvel yrði nauðsynlegt að skipa rannsóknarnefnd til að fara ofan í saumana á þeim kostnaði og starfi nefndarinar.

Sami söngur hófst samstundis á útvarpsrásunum í dag varðandi skýrslu rannsóknarnefndarinnar um sparisjóðina.

Þannig tekst að eyða og drepa á dreif flestu því sem læra hefði mátt af Hruninu og í staðinn grátbeðið um sömu valdaöfl og sama ástand og var í aðdraganda Hrunsins.   


mbl.is Ákveðnir aðilar nutu fyrirgreiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nútíma skrifræði: Tækifæri fyrir geðþóttafull möppudýr.

Mál Svifflugsfélags Íslands gegn innanríkisráðuneytinu vekur til umhugsunar um ýmis atriði í stjórnsýslu, til dæmis um það, að þegar opinberar stofnanir eru orðnar mjög stórar, geta einstakir starfsmenn innan þeirra, sem gangast upp í að beita valdi sínu, ná aldeilis ótrúlegum völdum og valdaaðstöðu.

Vilmundur heitinn Gylfsson fann upp hið dásamlega heiti "möppudýr" yfir slíka starfsmenn hins opinbera.

Dæmi um slíkt var möppudýr eitt í þljónustu Tollstjóraembættisins fyrir um 20 árum, sem fékk þá flugu í höfuðið að tónlistarmenn og listamenn væru almennt skattsvikarar.

Hann deildi út úrskurðum á báðar hendur í þessu skyni, svaraði ekki bréfum né símtölum og girti sig af og víggirti með pappírshaugum í skrifstofuvígi sínu.

Áður en hann hætti störfum hafði honum tekist að valda listamönnum miklu tjóni, svo miklu, að þáverandi forsætisráðherra Davíð Oddsson ræddi um þann möguleika að skipa embætti sérstaks umboðsmanns skattgreiðenda.

Eitt dæmi um afrek þessa möppudýrs var það að uppreikna meinta vangoldna skattaskuld skattgreiðanda eins upp í rúmar 22 milljónir króna á þáverandi verðlagi.

Þegar möppudýrið hætti störfum var herbergi hans fullt af óafgreiddum bréfum og sá, sem tók við af honum, komst að þeirri niðurstöðu að meint skattaskuld listamannsins næmi 200 þúsund krónum en ekki 22 milljónum.

Valdasjúkt og geðþóttafullt möppudýr nýtir sér stærð stofnunar sinnar og það, hve yfirmenn hennar hafa litla möguleika á að vera með nefið niðri í hvers manns koppi.

Möppudýrið býr til víggirðingu utan um sig í skrifstofu sinni, sem gerð er úr ótal möppum af reglugerðum og tilskipnum, sem það hefur yndi af að búa til .

Ekki dregur úr möguleikunum á þessu eftir því sem kröfur berast um slíka skriffinnsku. Þegar möppudýrið fær tilmæli utan frá, til dæmis frá erlendum stofnunum, um að gera íslenska reglugerð upp á um það bil 10 blaðsíður, skrifar möppudýrið reglugerð sem er minnst 30 blaðsíður.

Möppudýrið vinnur tvennt með þessu: Annars vegar gengur það í augun á þeim sem lagði verkefnið fyrir hann, sem einstaklega duglegt möppudýr, og hins vegar býr það smám saman til svo stórt bákn af reglugerðum og tilskipunum, að engir aðrir hafi möguleika á að setja sig inn í það allt.

Þar með er möppudýrið orðið friðheilagt, því að hver sá yfirmaður þess, sem reynir að láta einstök mál dýrsins til sín taka, er rekið út til baka með skottið á milli lappanna af vanmetakennd þess sem er rekinn á gat.

Fyrst eftir stríð voru til ráðherrar með sérstakan titil," flugmálaráðherra." Síðustu ár hefur verið mikil tilhneiging til að "spara og hagræða" með því að stækka ráðuneyti sem allra mest og fækka ráðherrum.

Þetta getur verið ágætt út af fyrir sig, en á móti kemur að hver ráðherra veit æ minna um málefni ráðuneytanna, þegar þau verða æ umfangsmeiri og flóknari.

Þess vegna kemur úrskurður umboðsmanns Alþingis, sem opinberar vanþekkingu ráðuneytis á flugi, mér ekki á óvart.

Ef á fleti fyrir er möppudýr líkt því, sem ég var að lýsa sem dæmi, er sívaxandi hætta á slíku.  


mbl.is Segja ráðuneytið skorta þekkingu á flugi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hómópatía gerði víst gagn og nálarstungur gera það !

Fréttin um að hómópatía og "lyfjalausar lækninar" geri ekki gagn felur í sér ansi mikla alfhæfingu og getur skapað misskilning. Mér rennur blóðið til skyldunnar gagnvart bæði hómópatíu og þeirri "lyfjalausu lækningu" sem felst í nálastungum.

Runólfur Bjarnason í Hólmi, langafi minn, var hómópati eða smáskammtalæknir, hafði til þess tilskilin leyfi og bjargaði áreiðanlega lífi og heilsu fjölda fólks í Vestur-Skaftafellssýslu meðan hans naut við.

Um 1890 var sýslan vegalaus með óbrúuð stórfljót, ekkert rafmagn og engin samgöngutæki nema hestinn. Fólkið bjó í torfbæjum og lífsbaráttan var afar hörð í landi, sem ekki gat brauðfætt vaxandi þjóð.

Þegar á bjátaði var ekki hægt að hringja á hjúkrunarfræðing eða lækni eða þyrlu Landhelgisgæslunnar eða fara á heilsugæslustöð. Köllun Runólfs Bjarnasonar átti hug hans allan, allur tími hans fór í lækningar og lækningaferðalög og Rannveig Bjarnadóttir, langamma mín varð að sjá um búskapinn að mestu.

Börnin voru átta og sulturinn svo mikill að þau Runólfur og Rannveig neyddust til að skipta á Ólöfu, ömmu minni, þá sjo ára, og kú. Langafi fór með ömmu austur í Öræfi og kýr var leidd til baka.

Líknandi starf hómópatans varð að hafa forgang og lækningar hans voru ekki lyfjalausar, heldur bjó hann sjálfur til ýmis lyf og fékk eitt þeirra meira að segja alþjóðlega viðurkenningu. 

Enginn skyldi því tala niður til lækninga hómópatanna þótt nú sé öldin önnur.

Kátlegt er þegar sagt er um hinar "lyfjalausu" lækningar sem felast í nálastungum, að það séu "óhefðbundnar lækningar" og því að litlu hafandi, en að vestrænar lækningaaðferðir, sem eru kannski sumar ekki nema nokkurra ára eða áratuga gamlar séu nefndar "hefðbundnar lækningar."

Ég get vitnað um það af reynslu sjálfs mín, að nálastungulækningar geta gert gagn í tilfellum þar sem ekkert annað dugði.  

Fyrir um áratug fóru frammámenn í íslenskum lækningum í heimsókn til Kína og þegar heim kom far sagt frá því að hugsanlega væri hægt að nýta kínverska þekkingu.

Mætti hugsa sér að einhverjir íslenskir læknar færu á stutt námskeið þangað.

Nálastungulæknirinn, sem bjargað hefur mér þurfti hins vegar fram undir þetta að sæta því að litið væri niður á margra ára háskólanám hans í Bandríkjunum á sviði nálastungulækninga sem óhefðbundnar skottulækningar sem "gerðu ekki gagn".

Það sýnir mikið yfirlæti og dramb þegar sagt er að lækningaaðferðir, sem eiga þúsunda ára reynslu að baki séu "óhefðbundnar lækningar" og hindurvitni á sama tíma og nokkurra ára eða áratuga gamlar lækningaaðferðir á Vesturlöndum séu "hefðbundnar lækningar" og það eina sem geri gagn.      


mbl.is Hómópatía geri ekki gagn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyrgðarleysi og firring stjórnmálamanna.

Ábyrgðarleysi íslenskra stjórnmálamanna er greypt í framkomu þeirra árum og áratugum saman.

Nýjasta dæmið er hvernig þeir haga sér gagnvart starfsemi flugskóla og einkaflugs á Reykjavíkurflugvelli.

Á næsta ári á að reka fólk út úr Fluggörðum á Reykjavíkurflugvelli með 85 flugvélar og starfsemi á annað hundrað manna hið minnsta og gera byggingarnar upptækar án nokkurra bóta og án þess að hafa haft neitt samráð við viðkomandi, þrátt fyrir allan fagurgalann um "samræðustjórnmál" og "þátttöku almennnings í stjórnvaldsákvörðunum.  

Á sínum tíma reistu þeir, sem þarna starfa, byggingarnar á þessum reit (sem er minni en bílastæðin ein við Háskólann) fyrir eigið fé, lögðu akbrautir og yfirborð, skólplagnir og raflagnir á eigin kostnað með fullu samþykki þáverandi yfirvalda.

Þessu á öllu að eyða og reka fólkið burt bótalaust.

Að vísu er vitnað í undirritað samkomulag borgar og ríkis um að starfseminni verði fundinn annar staður, en ekkert er farið að gera í því og verður að sjálfsögðu ekki mögulegt, enda engir peningar til og eru ekki í sjónmáli.

Enginn annar staður hefur fundist með þeirri nauðsynlegu aðstöðu sem bóklegt og verklegt flugnám þarf, enda virðist stjórnmálamönnum ekki varða neitt um það og tala jafnvel um að allt nám í flugi verði flutt til útlanda.

Ætli næsta skref í þéttingu byggðar verði ekki að flytja starfsemi ökuskóla,  Sjómannaskólans og Vélskólans til útlanda, rífa niður húsin sem þetta hefur verið í, og reisa íbúðabyggðir í staðinn ?


mbl.is Enginn vill einka- og kennsluflugið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stökurnar stökkva fram.

Ummæli og stökur stökkva fram hjá ýmsum á þessum vordegi þegar fréttir af árangri 70 milljarða króna framlags vegna skuldavandamála heimilanna og af leyninefnd sem forsætisráðherra hefur skipað án vitneskju þingsins.

Framsóknarþingmenn hafa bent á það að stóri pakkinn opni ýmsa möguleika, til dæmis á því að konur geti nú látið lita á sér hárið, ýmist sjálfar eða á hárgreiðslustofum.

Sigurður Bogi Sævarsson segir í fésbókarathugasemd að eftirfarandi rím hafi dottið af vörum:

 

Konan litar lokkinn,

lipran, fagran, hrokkinn.

Stígur hún á stokkinn

og styður Framsóknarflokkinn.

 

Þegar ég sá þetta hraut eitthvað í þessa veru af vörum:

 

Gjafaféð notast af miklum móði,

í margs konar líkn rennur þessi gróði.

Þær setjast í leiðslu

í sælli hárgreiðslu

fyrir 70 milljarða´úr ríkissjóði.

 

Björn Valur Gíslason spyr hneykslaður í frétt á DV yfir skipun leynilegs starfshóps án vitundar Alþingis, hvort mönnum sé orðið andskotans sama. Í athugasemd við fréttina segist viðkomandi vera hissa.  

Þá koma upp í hugann þrjú rímorð í limru eftir Gísla Rúnar Jónsson af allt öðru tilefni fyrir mörgum árum og þar með sprettur fram þessi limra:

 

Nefndirnar fá mikinn frama

í feluleik, sem býr til drama, -   

á Alþingi dissa

en enginn er hissa

því öllum er andskotans sama.

 

 


mbl.is Fyrir fólk sem litar sjálft á sér hárið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fráleit, dýrkeypt og skaðleg tíska.

Allar gagnrýnisraddir karlmanna vegna kvenfatatískunnar verða hjáróma þegar kostnaður vegna hennar er borinn saman við bílatískuna, sem ég vil kalla nafninu "karlmannatíska í stáli". Land_Rover_Freelander_front_20080521[1]

Bílatískan er oft sérlega heimskuleg, dýrkeypt og jafnvel skaðleg.

Eitt dæmi þess er sú árátta að gera æ erfiðara fyrir bílstjórana að sjá út úr bílunum, svo að jafnvel sést nánast ekkert aftur úr bílnum.

Þetta er orðið svo mikil plága, að það er jafnvel farið að verða erfitt að sjá fram úr minnstu bílunum eins og þeim sem meðfylgjandi mynd er af. Kia_Picanto_(front_quarter)[1]

Engin skynsamleg skýring finnst á þessari tísku, enda er hún aðeins sveifla í eina átt eftir að tískan hafði árum saman verið sú að stækka gluggana, lækka vélarhlífarnar og bæta útsýnið.

Ég á einn bíl frá þessum tíma, árgerð 1988,  sem sýnir þetta vel, sjá mynd hér fyrir neðan og mynd af bíl sömu gerðar, árgerð 2000.  Daihatsu Cuore 00

Fyrsta grófa dæmið, sem ég sá um þetta var upphaflega gerðin af Land Rover Freelander.

Sá bíll var með alveg sértaklega hárri og kantaðri vélarhlíf, sem virtist eiga að gefa til kynna hvað þetta væri töff og karlmannlegt torfærutröll með svona hernaðarlegt útlit vegna þess hve aflmikil og stór vélin þyrfti mikið rými.

En þegar vélarhúsið var opnað, kom í ljós svo mikið óþarfa autt rými fyrir ofan vélina, að auðvelt hefði verið að koma þar fyrir varahjólbarða, jafnvel tveimur hjólbörðum.

Síðan hefur þetta bara versnað og nú er höfuðið bitið af skömminni með því að fara að pranga inn á bínotendur sérstökum myndavélum, svo að eitthvað sjáist fram fyrir bílinn. Daihatsu Cuore ´88


mbl.is Horft á veginn í gegnum vélarhlífina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sóknarfæri og orðspor.

Hlutur Íslendinga í því að nýta vistvæna orku í þróunarlöndunum felur bæði í sér sóknarfæri fyrir okkur og færir okkur gott orðspor. Í fátækum og vanþróuðum löndum fela tiltölulega litlir hlutir í sér byltingu í kjörum fólksins, sem þarna býr, og einnig er þetta þáttur í að sporna gegn of hröðum og miklum breytingum á lofthjúpi jarðar.

Þrjú atriði verður samt að hafa í huga:

1. Segja verður sannleikann um það ef þessar jarðvarmavirkjanir fela í sér rányrkju eins og víðast er hér á landi og helst að forðast svo ágenga nýtingu.

Það á að vera hægt með góðri yfirsýn og gætni í nýtingunni að gera hana sjálfbæra ef á heildina er litið, en því miður skortir mikið á að þetta sé gert hér á landi. Þegar ég spurði um þetta atriði á ráðstefnu Isor í haust var mér svarað út í hött.

2.  Í öðru lagi ættum við að hafa í huga að í löndum eins og Kenía og Eþíópíu verða yfirleitt margfalt minni óafturkræf neikvæð umhverfisspjöll af virkjunum en á hinum eldvirka hluta Íslands, sem er eitt af helstu náttúruundrum veraldar.

3.  Í þriðja lagi er það ósiðlegt af okkur að selja okkar orku á svo lágu gjafverði til erlendra fyrirtækja, að við séum að keppa við örfátækar þjóðir og taka í raun frá þeim þá nýju lífsbjörg sem falist getur í nýtingu nýrrar lífsbjargar í löndum þeirra.


mbl.is Virkja í Kenía fyrir 12 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vafasamt að nota orðið gettó.

Það er vafasamt að nota orðið "gettó" um Oddeyrina á Akureyri eða þau hverfi í bæjarsamfélögum Íslands sem þykja hafa neikvæða ímynd á sér.

Til þess er munurinn á þessum hverfum og raunverulegum gettóum í erlendum borgum einfaldlega allt of mikill hvað varðar raunverulega örbirgð og neyð, sem ríkir í alvöru gettóum erlendis.

Og varla getur Oddeyrin náð þeim stimpli sem braggahverfin í Reykjavík, eins og Kamp Knox, Múlakampur, Laugarneskampur og Höfðaborgin fengu á sig á sínum tíma.

Ég á að minnsta kosti erfitt með að ímynda mér það.


mbl.is Eyrin er gettó Akureyrar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumt finnst og sumt finnst ekki.

Sumarið 1916 týndi Jónatan Líndal á Holtastöðum í Langadal, hreppsstjóri Engihlíðarhrepps, forláta vasaúri í hulstri uppi í fjallinu fyrir ofan bæinn.

Liðu nú 35 ár en þá gekk hann fyrir hreina tilviljun fram á úrið þar sem það lá í laut, að mig minnir.

Hann opnaði hulstrið og trekkti úrið upp og viti menn: Það gekk eins og ekkert hefði í skorist. Varð úr þessu blaðafrétt.  

1964 var ég á leið frá Akureyri til Reykjavíkur við fjórða mann á NSU-Prinz 4 í sérlega góðu sumarveðri, sól og hita. Þá var malarvegur alla leiðina.

Þegar komið var í Hrútafjörð fór að draga af krafti vélarinnar og var bíllinn stöðvaður við Þóroddsstaði til að gæta að ástæðunni.

Kom í ljós að svo mikið ryk hafði sogast inn í lofthreinsarann að hann hann var stíflaður, fylltur af þéttum köggli sem var blanda af mold, möl og oliu.

Þessir bílar voru með vélina að aftan og loftflæðið afar óheppilegt við svona aðstæður.

Olíuhreinsarinn var þannig, að loftið lék um liggjandi olíu svo að rykið festist í henni, en það var svo mikið að hreinsarinn fylltist og stíflaðist.

Ég mokaði út úr hreinsaranum, hellti olíu í staðinn í hann, en var þá orðinn svo skítugur á höndunum, að ég þvoði þær með bensínblönduðum tvisti á túninu við veginn og reyndi að nudda höndunum við hátt grasið sem þarna var.

Þegar ég kom inn í bílinn varð ég þess var að giftingarhringurinn minn hafði óvart runnið af fingri mínu, og gat ég ekki með nokkru móti fundið hann í þessu háa grasi. 

Ég átti ekki aftur leið þarna um fyrr en sumarið eftir, en þóttist muna nákvæmlega hvar hringurinn lægi og leitaði að honum, en árangurslaust.

Ég gerði það einu sinni enn á ferð þarna um, en sá að þetta var of vonlítið til að það gæti gengið upp. 

Enn í dag er það svo, að þegar ég á leið þarna framhjá verður mér hugsað til hringsins góða.

Nokkrum árum síðar týndi ég lykli af TF-FRÚ á bílferðalagi sjónvarpsmanna um norðanvert Snæfellsnes og áttaði mig á því eftir bílberðina að hann hefði dottið í gegnum gat á buxnavasa. 

Vini mínum á Gufuskálum tókst að tengja framhjá og við hófum flugferðina suður.

Þá mundi eftir því hvar ég hefði fyrst farið út úr bílnum í bílferðinni fyrr um daginn, en það var á veginum frá Hellissandi sem þá lá á ská upp í Ólfafsvikurenni, og datt þá í hug að sjá hvort það gæti glampað á hann í björtu sólskininu.

Það gekk upp, - þegar ég flaug yfir veginn sá ég glampa á hann og ég lenti flugvélinni rétt hjá og hljóp að staðnum. Þá komu þar aðvífandi ökumenn og spurðu með andköfum hvort ég hefði nauðlent.

"Nei" svaraði ég, "en ég týndi lykli á ferð hér um norðanvert nesið fyrr í dag og datt í hug að leita að honum úr lofti! Og sjáið þið bara, hér liggur hann!" sagði ég um leið og ég gekk að lyklinum og tók hann upp.

Ég gleymi seint undrunarsvipnum á fólkinu sem átti greinilega erfitt með að trúa þessu, þótt það væri dagsatt.  

En svona er þetta: Sumt finnst og sumt finnst ekki.


mbl.is Hringurinn fannst 6 árum seinna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband